Enn er hoggið í sama knérunn
24.9.2018 | 08:09
Aldrei hefur þjóðin verið spurð að því hvort hún vilji að framsal valdheimilda verði rýmkað í stjórnarskránni. Þó ætla þingmenn að standa saman sem einn um slíka breytingu. Hvers vegna?
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta mál kemur upp. Eftir hrun var farið í ítarlega vinnu um breytingu stjórnarskrár, þar sem tilgangurinn var fyrst og fremst að afnema þennan varnagla úr henni, enda þáverandi stjórnarflokkar búnir að afreka að kljúfa þjóðina í tvennt með umsókn að ESB. Frumskilyrði slíkrar umsóknar var auðvitað að þurrka úr stjórnarskránni þau ákvæði sem hömluðu aðild að erlendu ríkjasambandi.
Þá hefur stundum heyrst að vegna þess að EES samningurinn er sífellt farinn að brjóta meira á þessu ákvæði stjórnarskrár, þurfi að afnema það. Svona rétt eins og ef breyta ætti lögum til samræmis við þarfir afbrotamanna. Þvílíkt bull!
Nú er staðan hins vegar sú að af einhverjum óskiljanlegum ástæðum vilja stjórnvöld endilega afhenda öll yfirráð yfir stjórn raforkumála til ESB og svo slíkt megi gerast verður auðvitað að laga stjórnarskránna aðeins til. Auðlindin verður ekki framseld með núgildandi stjórnarskrá og henni skal því breytt!
Auðvitað er það svo að stjórnarskrá er ekkert heilagt plagg og henni þarf að viðhalda. Breyta og bæta það sem þarf, miðað við þróun og þarfir. Slíkt hefur verið gert gegnum tíðina. Þegar núgildandi stjórnarskrá var samin voru hugtök eins og mannréttindi túlkuð á annan hátt en í dag og því lítið eða ekkert um það nefnt í frumútgáfunni. Í dag fjallar stór hluti stjórnarskrár um mannréttindi. Fleira mætti telja sem talist getur breyting til batnaðar á stjórnarskránni, frá því hún fyrst var skrifuð.
Framsali valdheimilda úr landi má þó ekki breyta í stjórnarskrá. Stjórnmálamönnum er fráleitt treystandi fyrir slíku. Það verður alltaf að vera í valdi þjóðarinnar sjálfrar að ákveða hvort eða hversu mikið af valdheimildum verði afhent erlendum aðilum, hvort sem þar er um að ræða erlend ríki, ríkjasambönd eða jafnvel erlendum auðkýfingum!!
Störf íslenskrar stjórnmálastéttar sanna svo ekki verður um villst, að hún hefur ekki vit til að fara með slíkt vald!!
Það versta er þó, að nauðsynlegum breytingum á stjórnarskrá, til að færa hana nær nútíma, gætu verið hafnað af þjóðinni. Ekki er ákvæði um að kosið sé um hverja efnislega breytingu stjórnarskrár fyrir sig, einungis kosið um breytinguna í heild sér. Því gætu nauðsynlegar breytingar hennar fallið af þeirri einu ástæðu að verið er að læða með afnámi til varnar afsali á valdheimildum til erlendra aðila. Taka varnagla þjóðarinnar og færa hann til misvitra og mis heiðarlegra stjórnmálamanna!
![]() |
Stjórnarskrárvinnan gengur vel |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Einræðistilburðir ráðherra
16.9.2018 | 21:18
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er vissulega minnst á nýja heilbrigðisstefnu. Þar er talað um samráð heilbrigðisstétta, eflingu nýsköpunar, minni þátttöku sjúklinga og fleira í þeim dúr. Kaflinn er nokkuð langur, þó efnislega sé hann rýr. Hvergi er minnst á að kommúnistavæða eigi kerfið, enda ljóst að þingmenn Sjálfstæðisflokks hefðu aldrei samþykkt aðild að ríkisstjórn með slíka stefnu. Ekki verður sama sagt um Framsókn, þar var markmiðið eitt og einungis eitt, að komast í ríkisstjórn. Hefðu jafnvel gengið til slíks samstarfs þó ætlunin væri að leggja niður heilbrigðiskerfi landsins!
Eitthvað virðist orðið "samráð" vefjast fyrir heilbrigðisráðherra. Í hennar augum eru hennar orð samráð og allir verði að hlýða. Svo sem ekki neitt nýtt, sást vel þegar sama persóna var umhverfisráðherra um árið, enda þurfti atbeina dómstóla til að kveða hana niður.
Sú ætlun ráðherra að öll læknisþjónusta sé á höndum ríkisins og að mestu leyti framkvæmd við Landspítalann, er ekki einungis hugmynd, heldur er hún farin að framkvæma hana. Það þrátt fyrir að það brjóti í bága við lög. Væntanlega mun aftur þurfi dómstóla til að fá hana til að skilja hlutina.
Að ætla að færa alla heilbrigðisþjónustu undir Landsspítalann er auðvitað galið. Jafnvel þegar búið verður að klastra upp kofunum við Hringbraut, ef það þá einhvertíma tekst, mun sú stofnun vera fjarri því að geta tekið við allri heilbrigðisþjónustu landsins. Þeir kofar hafa einfaldlega ekki nægt rými til þess, þar sem svokallaður nýr spítali er allt of lítill og engin leið til að stækka hann!
Það kerfi sem við höfum í dag hefur leitt til þess að íslenskt heilbrigðiskerfi er talið eitt hið besta í heimi. Hvers vegna þá að breyta því? Eðlilegra er að efla það kerfi sem fyrir er og bæta þannig aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustu. Það kerfi sem við búum við er byggt á sama kerfi og nágrannalöndin hafa, stæðsta einingin er á vegum ríkisins en ýmsar aðrar í einkarekstri. Jöfnun til landsmanna er síðan fengin með stýringu á fé úr ríkissjóð. Þannig fæst fjölbreyttara og skilvirkara heilbrigðiskerfi, öllum til framdráttar.
Það skal því engan undra þó einstaka þingmenn Sjálfstæðisflokk velji að tjá skoðanir sínar um málið í fjölmiðlum. Annan kost hafa þeir ekki, enda eins og áður sagði tilburðir ráðherra til einræðis öllum kunnir.
Hins vegar er stór undarlegt að Rósa Björk Brynjólfsdóttir skuli velja að kalla þessi skrif þingmannanna árás á ráðherra. Orðfæri hennar og framkoma í Silfrinu bendir til að hennar tilgangur sé einn og einungis einn, að sprengja stjórnarsamstarfið.
Vonandi gengur það upp hjá henni svo komist verði hjá enn frekari skaða af hálfu VG!!
![]() |
Ræði álitamálin ekki í fjölmiðlum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eru þingmenn og ráðherrar almennt með skerta greind?
14.9.2018 | 21:29
Það er hreint með ólíkindum hvernig þingmenn og ráðherrar stjórnarflokkanna geta hagað sér. Þeir láta sem þeir einir viti og allir aðrir séu ekki marktækir. Jafnvel þegar málflutningur þeirra er svo yfirmáta heimskulegur að hvert mannsbar með lágmarks skynsemi sér ruglið. Því er von að maður velti fyrir sér hvort virkilega einungis fólk sem hefur litla eða enga skynsemi og mjög takmarkaða greind, veljist á þing.
Nú hefur um nokkurra mánaða skeið verið rædd tilskipun frá ESB um orkumál, oftast nefnd 3. orkumálapakki sambandsins. Umræðan hefur eingöngu snúist um hvort og þá hversu mikinn skaða fyrir okkur sem þjóð, þessi tilskipun mun leiða af sér. Enginn hefur nefnt hvort eitthvað gott er í þessari tilskipun fyrir Ísland og íslenska þjóð, enda ekki hægt að finna neitt af því tagi í henni. Einungis er því deilt um hversu slæm hún er, mikið eða mjög mikið.
Þetta hefði að öllu venjulegu átt að duga til að þingmenn, allir sem einn, segðu einfaldlega að þessi tilskipun kæmi okkur ekkert við og hún því ekki samþykkt. Punktur.
Það atriði sem mest hefur verið rætt um er hvort og þá hvenær tilskipunin tekur gildi hér á landi. Auðvitað tekur hún gildi um leið og Alþingi hefur samþykkt hana. Allt tal um sæstreng kemur því í sjálfu sér lítið við, þó hugsanlega áhrifin verði ekki mjög mikil fyrr en slíkur strengur hefur verið lagður. Þá munu áhrif tilskipunarinnar birtast landsmönnum af fullum þunga og vandséð hvernig hægt verður að halda landinu í byggð. Minni áhrif, sem þó gætu orðið veruleg, munu koma fram fljótlega eftir samþykkt tilskipunarinnar. Má kannski helst þar nefna að nánast öruggt er að skipun um að Landsvirkjun verði skipt upp í mörg fyrirtæki, til að mynda hér "samkeppnismarkað", mun koma fljótt.
Með tilskipuninni er valdið yfir því hvort sæstrengur verði lagður yfir hafið ekki lengur í höndum íslenskra stjórnvalda, nema kannski að nafni til. ACER mun setja reglur um hvað þurfi að uppfylla til að fá leyfi fyrir slíkum streng og komi einhver fram sem getur uppfyllt þær kröfur, verða íslensk stjórnvöld að samþykkja strenginn. Að öðrum kosti mun málið fara fyrir eftirlitsstofnun ESA og þaðan fyrir EFTA dómstólinn, sem getur ekki annað en dæmt samkvæmt þeim reglum sem ESB/ACER hafa sett.
Eitthvað eru ráðherrar farnir að óttast þar sem þeim dettur nú sú barnalega lausn í hug að byrja á að setja lög um að ákvörðun um lagningu á slíkum streng verði í höndum Alþingis. Þvílíkur barnaskapur!! Þekkja ráðherrar virkilega ekki EES samninginn, hafa þeir ekki séð hvernig framkvæmd hans er háttað?!!
Um leið og Alþingi samþykkir tilskipanir frá ESB hefur það samþykkt að þau lög eða reglur sem þeirri tilskipun fylgja, verði þau íslenskum lögum um sama efni yfirsterkari. Því er algerlega tilgangslaust að samþykkja nú einhver lög um að vald yfir því hvort strengur verði lagður, muni vera hjá Alþingi. Jafn skjótt að sjálf tilskipunin hefur verið samþykkt mun hún yfirtaka þau lög. Það er í besta falli barnalegt að trúa öðru.
Þegar svo frámunalega vitlaus tilskipun, fyrir okkur Íslendinga, kemur frá ESB á auðvitað að hafni henni strax. Auðvitað eru til stjórnmálaflokkar, sem óska þess heitast að við göngum í ESB, sem sjá ekkert athugavert við þetta, en jafnvel aldraðir stjórnmálamenn innan þeirra geta ekki sætt sig við þessa tilskipun.
Tveir af þrem stjórnarflokkanna eru með nýsamþykktar ákvarðanir um að framselja ekki frekara vald yfir orkulindum til ESB og þriðji stjórnarflokkurinn hefur hingað til talað um að yfirráð ESB yfir Íslandi séu nú þegar meiri en gott þykir. Þetta ætti að róa fólk, þar sem þessir flokkar eru jú með meirihluta á Alþingi, auk þess sem a.m.k. tveir stjórnarandstöðuflokkar eru á sama máli. Því er í raun svipað fylgi fyrir samþykkt tilskipunarinnar á Alþingi og á meðal þjóðarinnar, eða innan við 20%. Lýðræðið virðist því virka þarna fullkomlega og ætti þjóðin því ekki að óttast.
Það sem hins vegar veldur hugarangri er hvernig ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna tala og haga sér. Sér í lagi ráðherrar og þingmenn þeirra tveggja flokka sem nýlega samþykktu í sínum æðstu stofnunum, að ekki skuli samþykkja þessa tilskipun. Það er alls ekki óþekkt að þingmenn hafi þurft að beygja sig undir vald flokksforustunnar, jafnvel þó þeir fari gegn eigin samvisku og samþykktum flokks síns. Svo virðist vera að einhvern slíkan leik eigi að spila á Alþingi, á komandi vetri.
Þegar gerður er samningur er ætið farið bil beggja. Þegar annar aðilinn er orðinn dómerandi yfir hinum, er ekki lengur um samning að ræða, heldur kúgun. Þegar EES samningurinn var gerður, var farið að mörkum þessa og fljótlega var ljóst að við máttum okkar lítils gegn hinum samningsaðilanum. Þessi tilskipun er í raun prófsteinn á hvort lengur er hægt að tala um EES samning eða hvort við verðum að fara að tala um EES kúgun. Tilskipun sem gerir okkur einungis illt, bara spurning um hversu illt, getur aldrei orðið hluti samnings, hún er hrein og klár kúgun!
Framtíð EES samningsins mun því verða ljós á þessu þingi, lifi ríkisstjórnin það lengi. Verði tilskipunin samþykkt er ljóst að krafan um uppsögn EES samningsins verður algjör, enda framtíð lands og þjóðar að veði!!
![]() |
Þriðji orkupakkinn í febrúar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Einhver skelfilegasta falsfrétt sögunnar
10.9.2018 | 23:01
Það er með ólíkindum að einum manni hafi tekist að fífla alla heimsbyggðina. Donald Trump er sem smákrakki við hlið þessa manns og sjálfur Kristur einungis hálfdrættingur hans. Þessi maður heitir Al Gore, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna.
Al Gore ferðaðist þvers og kruss um heimsbyggðina, á sinni einkaþotu og kom fram hvar sem nægilega hátt gjald var greitt, til að boða falsfréttir sínar. Ekki leið á löngu þar til misvitrir sérfræðingar voru tilkippilegir til að taka undir málstað hans og setja einhverskonar stimpil á hann. Ein helstu rök Gore og reyndar þau einu sem hann hafði fram að færa, voru að fylgni væri milli hækkandi hitastigs og losunar ýmissa efna sem fengu viðurnefnið gróðurhúsalofttegundir. Loftegundir sem í raun eru skilyrði lífs á jörðinni.
Reyndar er það rétt hjá Gore, það er vissulega fylgni þarna á milli. Það sem honum yfirsást var að fyrst hlýnaði loftslag og við það jukust þessar loftegundir nokkru síðar, sem í raun er eðlilegt þar sem freðmýrar, einhver stæðsti geymslubanki þessara lofttegunda, þiðna upp við aukna hlýnun jarðar. Þannig slapp út gígatíst magn þessara loftegunda.
Af þessu brölti sínu varð Al Gore vel auðugur maður. Og hvað notaði hann sinn auð í? Lagði hann sitt af mörkum til minnkunar svokallaðra gróðurhúsalofttegund? Fór auður hanns til að þróa eitthvað sem gæti komið í staðinn fyrir þá orku sem nú er mest notuð? Nei, hann nýtti mest af sínu fé til kaupa á hlutafé í olíufélögum og olíhreinsistöðvum. Hann flýgur enn um heiminn á sinni einkaþotu og heldur enn fyrirlestra um falsfréttina, þar sem nóg er borgað.
Auðvitað er þetta nokkur einföldun á málinu, þó Al Gore hafi verið iðinn þá á hann ekki allan heiðurinn af falsfréttinni. Fyrsta fræi hennar var sáð í byrjun áttundu aldar, þegar Margaret Thatcher stóð í illvígum deilum við kolanámumenn. Þá fékk hún nokkra "vísindamenn" til að koma fram með þá falfrétt að kol væru stór hættuleg umhverfinu. Þetta gerði hún til að réttlæta sigur sinn í þeirri deilu, sigur sem byggði á að leggja niður flestar kolanámur í Bretlandi. Síðan þá hafa margir stjórnmálamenn notað þessa aðferð, til ýmissa verka. Enginn náði þó eins miklum árangri og Al Gore.
Í dag er staðan orðin sú að enginn hefur kjark til að mótmæla, enda búið að fjármagna heilu vísindasamfélögin til að réttlæta falsfréttina. Þó ber nokkurn skugga á að engar spár þessa svokallaða vísindasamfélags hafa staðist, enda rökvillan algjör. Stjórnmálamenn, sem flestir hugsa fyrst og fremst um eigin hag, þora ekki að mótmæla og má segja að það gildi um allan heim. Þó vissulega einhverjir þeirra séu með efasemdir, þá er kjarkurinn ekki nægur til að spyrja spurninga. Það er bara hlýtt í blindni.
En snúum okkur aðeins að kjarnanum, hlýnun jarðar. Það efast enginn um að loftslag á jörðinni hefur hlýnað nokkuð frá byrjun tuttugustu aldar, eða frá lokum litlu ísaldar. Hvert æskilegt hitastig jarðar er hefur engum tekist að upplýsa. Víst er þó að mannkynið myndi sennilega ekki vilja fá hér sama meðalhita og á síðustu öldum fyrir iðnbyltinguna. Sagan segir okkur að hitastig jarðar hefur sjaldan verið langi eins, heldur skiptast á köld og heit tímabil, allt frá mjög heitum tímabilum til alvöru ísalda. Þessar upplýsingar hafa vísindamenn fengið úr borkjörnum, m.a. á Grænlandsjökli. Þeir borkjarnar ná tugi þusund ára aftur í tímann og sýna t.d. að fyrir um 3 til 4000 árum var mjög hlýtt á jörðinni og stóð það hlýskeið yfir í nokkrar aldir. Annað hlýskeið var fyrir og um landnám hér á landi. Bæði þessi hlýskeið voru mun hlýrri en nú, jafnvel þó engir dísilbílar væru á ferðinni. Allt tal um að Grænlandsjökull muni hverfa er því hreinar falsfréttir. Það eitt að borkjarnar úr jöklinum tugi þúsund ára aftur í tímann segja svo ekki verður um villst að jökullinn lifði af þessi síðustu hlýskeið, sem við eigum enn mjög langt í land með að ná.
Eldri loftlagsfræðingar, þeir sem vinna fyrir vísindin en ekki peninga, hafa um nokkuð langt skeið haldið því fram að hitastig jarðar skýrist fyrst og fremst af tvennu. Sólinni og sporbaug Jarðar um hana. Sólgos senda hingað orku. Á ellefu ára fresti minnka sólgos og aukast síðan aftur. Þessi sveifla stækkar og minnkar af einhverjum ástæðum og vitað er að á litlu ísöld fóru sólblettir úr engi yfir í mjög litla. Um síðust aldamót var þessi sveifla hins vegar frá því að vera töluvert af sólblettum yfir í mikla. Sporbaugur jarðar er sporöskjulagaður, sem færist til á nokkrum öldum. Þessir vísindamenn telja að þegar saman kemur óvenju mikil fjarlægð frá sólu og lítil sem engin sólgos, þá kólni hratt á jörðinni og þegar fjarlægðin er lítil samhliða miklum sólgosum, hlýni. Þessi ferli geta staðið yfir í hundruð eða þúsund ár. Í versta falli kemur ísöld og í besta falli gott hlýskeið. Fram til þessa hafa þeir haldið því fram að við værum á leið í hlýskeið, sem myndi hækka hita jarðar enn frekar, en nú sjá þeir blikur á lofti og eru farnir að tala um að kólna muni á jörðinni næstu ár og áratugi. Hvort um tímabundna kólnun er að ræða eða hvort við stefnum í alvöru ísöld, er ekki enn hægt að sjá. Eitt eru þessir vísindamenn sammála um og það er að svokallaðar gróðurhúsalofttegundir eru ekki til og að mengun mannskepnunnar kemur ekki hitastig jarðar við, enda hlutur hennar svo ofboðslega lítill í heildar samhenginu. Til þess þarf eðlisfræðin að finna sér leið gegn sjálfri sér, þar sem vitað er að hlýnun jarðar leiðir til aukinna lofttegunda sem almennt ganga undir nafninu gróðurhúsaloftegundir. Því er útilokað að þær lofttegundir leiði til hlýnunar, þar sem jörðin væri þá fyrir löngu bráðnuð niður!!
Það er erfitt að hugsa sér fáránlegri aðgerðir en íslensk stjórnvöld boða nú. Að ætla að kasta fleiri milljörðum króna í súginn til þess eins að þóknast einhverjum falsspámönnum, er eins vitlaust og hugsast getur. Og hvert fara þessir peningar, hver mun græða?! Almenningur borgar, svo mikið er víst og þetta mun leiða til verri lífskjara.
Mengun, sóun og jafnvel í sumum tilfellum þurrkun mýra, getur haft slæm áhrif. Ekki þó á hitastig jarðar, heldur almennt. Því er sjálfsagt að vinna gegn slíku, en einungis á réttum forsendum. Loftmengun hefur slæm áhrif á fólk og á að minnka þess vegna. Þó er loftmengun einungis ein gerð mengunar og í heildinni ákaflega lítill hluti hennar. Stæðsta mengunarógn sem að mannskepnunni stafar nú, er af allt öðrum toga og ekkert minnst á hana í aðgerðum stjórnvalda, en það er plastmengun. Sóun er á allan hátt óafsakanleg, hverju nafni sem hún nefnist. Ekkert í þessum tillögum tekur á sóun. Þurrkun mýra getur haft slæm áhrif á fuglalíf og þess vegna á að stuðla að því að einungis land sem ætlað er til nota sé þurrkað upp. Endurheimt votlendis hefur engin áhrif á hitastig jarðar, en ef svo væri ætti frekar að stuðla að því að þurrka sem mest! Að breyta landi sem engin raunveruleg vísindi sanna að sleppi út co2, yfir í land sem sannarlega mun framleiða mikið magn af metan gasi, er auðvitað algjörlega galið! Fleira mætti telja upp sem mannskepnan þarf að laga hjá sér, en kannski er stæðsta váin sú gengdarlausa fjölgun hennar. Með sama áframhaldi skiptir ekki máli hvernig loftslag verður á jörðinni, né neitt annað. Fjölgun mannskepnunnar mun leiða af sér hrun hennar.
Þegar peningar fá að tala óáreittir, er ljóst að illa er komið. Peningar stjórna stórum hluta vísindasamfélagsins, peningar stjórna fréttamiðlun heimsins, peningar stjórna stjórnmálastéttinni. Peningarnir eru sóttir til almennings og lenda í örfáum vösum þeirra sem mesta auðinn hafa og stjórna heiminum.
Og nú hefur íslenska ríkisstjórnin stigið enn eitt skrefið í fórn þegna landsins á altari Mammons!!
https://www.youtube.com/watch?v=oYhCQv5tNsQ
![]() |
6,8 milljarðar til loftslagsmála |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Skítt með lögin
6.9.2018 | 09:17
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, hefur gjarnan átt erfitt með að gera skil á milli pólitíkusar og laga. Hennar sýn á pólitík er, að hennar mati, æðri lögum.
Í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var Svandís umhverfisráðherra. Í því embætti tók hún pólitíska ákvörðun er stangaðist á við lög. Henni var bent á þetta á sínum tíma, en þverskallaðist við og stóð föst fyrir. Hennar sýn var æðri lögum. Að lokum fór þetta mál fyrir dómstóla, sem að sjálfsögðu dæmdu eftir lögum. Ráðherrann var dæmd sek af glöpum í starfi. Í eðlilegu pólitísku umhverfi hefði þetta átt að leiða til þess að pólitískum ferli Svandísar væri lokið og að hún yrði útilokuð frá ráðherraembætti um lífstíð.
Það kom því verulega á óvart, þegar Katrín Jakobsdóttir opinberaði ráðherralista sinn, er núverandi ríkisstjórn var mynduð, að sjá að þar færi Svandís Svarsdóttir með eitt af "stóru" ráðuneytum ríkisstjórnarinnar.
Enn á ný ætlar þessi siðleysið að ráða för Svandísar, hennar pólitíska sýn á nú að ráða för. Skítt með lögin!
![]() |
Segist ekki brjóta lög með synjun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
ESB sinnar í EES nefnd
31.8.2018 | 17:12
Ég hélt satt að segja að þetta hefði átt að vera óhlutdræg úttekt, að skoða ætti hvernig samningurinn hefur virkað hingað til og leggja mat á framtíðina. Meðal annars að kanna hvort fótur er fyrir því að EES samningurinn er farinn að brjóta í bága við stjórnarskrá. Það er sennilega misskilningur hjá mér. Ráðherra ætlar greinilega að fá "rétta" niðurstöðu.
Allir vita að utanríkisráðherra slefar fyrir Brussel og hefur ekki farið leynt með. Það er þó full langt gengið hjá honum að stofna þriggja manna nefnd til að skoða aðild okkar að EES, þar sem tveir nefndarmanna eru aðildarsinnar, annar þeirra fyrrum þingmaður Samfylkingar og setja síðan Björn Bjarnason sem formann yfir nefndina. Einungis örfáir dagar eru síðan Björn skrifaði harðorða ádeilu á Bjarna Jónsson, rafmagnsverkfræðing, fyrir að vogaði sér að gagnrýna Rögnu Árnadóttur um hennar sýn á þriðja orkumálapakka ESB. Ragna, sem á sínum tíma var ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, komst að þeirri niðurstöðu að þessi pakki væri bara alveg ágætur fyrir þjóðina!
Niðurstaða þessarar nefndar hefur verið dæmd ógild, áður en fyrsti fundur er haldinn, enda sjaldan verið talið gilt að hinn seki rannsaki eigin glæp!!
![]() |
Björn Bjarnason leiðir starfshóp um EES |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Græðgisfálkarnir
31.8.2018 | 09:11
Það er aldeilis stór undarlegt að grasrót stæðsta stjórnmálaflokks landsins skuli, á miðju kjörtímabili, þurfa að segja ráðherrum sínum fyrir verkum og minna þá á samþykktir flokksins. Slíkt verk ætti auðvitað að vera í höndum formanns flokksins, en þegar hann er genginn til liðs við þá sem markvisst vinna að því að svíkja stefnuna, er grasrótin ein eftir. Víst er að núverandi forusta Sjálfstæðisflokks þarf að endurskoða framferði sitt, vilji þeir vera áfram innan þessa flokks.
Annars er umræðan um þriðja orkumálapakka ESB og innleiðing hans hér á landi, ákaflega undarleg. Rætt er um hversu slæm þau áhrif verða, mikil eða lítil. Einstaka hjáróma rödd vill þó meina að áhrifin verði jafnvel engin.
Ekki hefur nokkur maður komið fram með rök fyrir því að áhrif pakkans gætu að einhverju leyti verið góð fyrir þjóðina, nýst henni á einhvern hátt.
En auðvitað er á flestum málum tvær hliðar. Það vefst fáum hugur um að áhrif pakkans á þjóðina eru heilt yfir slæm, enda yfir 90% þjóðarinnar á móti samþykkt hans, jafnvel margir hörðustu ESB andstæðingar geta illa samþykkt þennan orkupakka. Þó er til lítill hópur manna, svokallaðir græðgisfálkar, sem sjá sér hag í samþykkt pakkans. Þeir bíða þess með stjörnur í augum að fá keyptan hlut í fjöreggi þjóðarinnar, Landsvirkjun.
Eitt atriði af fjölmörgum sem orkupakkinn mun gefa af sér er að hér verður stofnað sérstök stofnun, til að setja reglur og fylgjast með að þær séu hafðar í heiðri. Sú stofnun mun ekki vera undir Alþingi eða ríkisstjórn sett, heldur hlíta fyrirmælum frá ACER, yfirstofnun orkumála ESB.
Þessi nýja stofnun mun m.a. fylgja eftir að "frjáls markaður" með orku verði í heiðri hafður hér á landi. Því mun fljótt koma krafa um að Landsvirkjun, sem er ráðandi á íslenskum orkumarkaði, verði skipt upp í smærri einingar og að ríkið láti af hendi alla eign á þeim fyrirtækjum. Orkuveita Reykjavíkur mun fljótlega fara sömu leið.
Þessu bíða fálkarnir eftir og því miður virðist þeir ná vel til æðstu stjórnenda landsins. Þar liggur skýringin á því hvers vegna forusta þeirra tveggja stjórnmálaflokka sem sitja í ríkisstjórn og eru með í farteski sínu samþykktir sinna æðstu stofnana um að samþykkja ekki orkupakkann, er svo áfram um að reyna að gera lítið úr slæmum áhrifum orkupakkans á þjóðina. Þeir þurfa að þóknast sínum.
Þegar verið er að ræða orkumál heillar þjóðar á sú umræða ekki að snúast um hvort áhrifin eru bara slæm eða mjög slæm. Sú umræða á að snúast um hversu góð áhrifin geti orðið og ekkert annað. Finnist engin góð áhrif, er óþarfi að ræða málið frekar!!
![]() |
Flokkurinn hafni orkupakkanum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hver græðir svo á þessu helví... rugli?
30.8.2018 | 11:10
Verslun með kolefniskvóta er eitthvað mesta rugl sem nokkrum manni hefur dottið til hugar. Þetta er eins og að sópa ruslinu undir teppið hjá sér.
Fyrir það fyrsta þá er stór merkilegt að örfáum einstaklingum hafi tekist að fífla alla heimsbyggðina. Þetta er gert í nafni vísinda, sem jafnvel vísindi miðalda myndu skammast sín fyrir. Að einhver faktor í andrúmslofti jarðar, agnarsmátt brot af enn minna broti, skuli geta leitt til veðurfarsbreytinga, er auðvitað algerlega út úr kú. Sá orkugjafi sem sér um að halda jörðinni byggilegri, sjálf sólin, er auðvitað þar í aðalhlutverki og ansi lítið sem mannkynið getur þar við gert.
Fyrir það fyrsta þá sýna borkjarnar m.a. úr Grænlandsjökli, sem ná tugi þúsund ára aftur í tímann, að oft hefur verið mun hlýrra á jörðu en nú. Þetta segir manni fyrst og fremst að Grænlandsjökull bráðnar ekki, jafnvel þó hitastig jarðar sé mun hærra en nú og standi yfir í nokkrar aldir. Þó fullyrða menn að jökullinn muni hverfa á innanvið einni öld, ef hitasig jarðar hækkar örlítið meira!
Í öðru lagi, ef menn leggja trúnað á þetta rugl, þá væri fróðlegt að fá að vita hvernig verslun með kolefniskvóta á að minnka losun þessa efnis. Flugvélar munu fljúga um loftin blá áfram og skip sigla um höfin. Það eina sem skeður er að viðskiptavinir flug- og skipafélaga þurfa að borga meira fyrir þjónustuna og einhverjir útvaldir fá þann pening.
Mest er þó fásinnan í þessu öllu þegar eyja norður í miðju Atlantshafi er farin að framleiða sitt rafmagn að mestu með olíu- og kolakyntum orkuverum, auk kjarnorku. Þó finnast slík orkuver hvergi á eyjunni og þarf að fara yfir 1000 km út fyrir landsteina hennar til að finna slík ver!! Þeir íbúar eyjunnar sem vilja nota vistvæna orku þurfa nú að greiða auka peninga til að svo megi vera. Og einhver út í hinum stóra heimi græðir síðan á þeim viðskiptum!
Kannski á eftir að hlýna enn frekar á jörðinni, kannski fer að kólna aftur, það mun tíminn leiða í ljós. Þar verður sólin í aðalhlutverki, ekki mannskepnan.
https://www.youtube.com/watch?v=oYhCQv5tNsQ
![]() |
Verð losunarheimilda í sögulegu hámarki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Síðustu sauðfjárbændurnir
27.8.2018 | 10:43
Vandi bænda er stór, mjög stór. Nú um stundir er það einkum sauðfjárbúskapur sem stendur illa, en aðrar búgreinar berjast einnig í bökkum og þarf lítið til að þar fari að halla verulega undan fæti.
Sífelld krafa um að matvörur fáist fyrir sem minnstan aurinn, meðan kostnaður við framleiðsluna hækkar stöðugt, er auðvitað megin orsök þessa vanda. Þetta á ekki bara við hér á landi, heldur um allan heim.
Siðuð samfélög hafa farið þá leið að nota hluta þess fjár sem ætlað er til samneyslunnar, til að greiða niður framleiðslukostnað matvæla, svo verð til neytenda geti verið lægra. Það má segja að þetta skilji á milli þeirra samfélaga sem betur ganga og hinna þar sem almenn fátækt ríkir. Auðvitað má vel hugsa sér að allar þjóðir hætti slíkum niðurgreiðslum og launafólk sæki sér einfaldlega meiri tekjur til sinna vinnuveitenda, svo hægt sé að kaupa matvæli. Hætt er við að það gangi þó illa og siðuðu samfélögin kæmust fljótt niður í þá almennu fátækt sem ríkir í þeim löndum sem ekki hafa valið að styrkja matvælaframleiðslu sína. Hitt er ljóst að ekkert eitt ríki hinna siðuðu landa getur hætt niðurgreiðslum matvælaframleiðslunnar, meðan hin ekki gera slíkt hið sama.
Hér á Íslandi hafa niðurgreiðslur ríkissjóðs til matvælaframleiðslu lækkað mikið hin síðari ár, svo mikið að þær eru nú einungis lítið brot af því sem áður var. Ljóst er að of langt hefur verið gengið í þá átt, sér í lagi þegar horft er til þess að þær þjóðir sem næstar okkur liggja hafa heldur aukið við slíkar greiðslur, bæði beint og óbeint. Þetta er í raun stæðsti vandi matvælaframleiðslu hér á landi og mun að óbreyttu leiða til enn frekari samdráttar, jafnvel hruns íslenskrar marvælaframleiðslu. Þó við séum eyja í miðju Atlantshafi, erum við ekki eyland í matvælaframleiðslu og verðum að haga seglum í samræmi við önnur lönd.
Það liggur fyrir að matvælaframleiðsla heimsins á öll í vök að verjast. Breyting á veðurfari auk þess sem sífellt stærri landsvæði eru tekin undir framleiðslu á öðrum vörum en matvælum, gerir matvælaframleiðlsu erfitt fyrir, á meðan mannfólki jarðar fjölgar mjög hratt. Því er ljóst að matarverð heimsins á eftir að hækka mikið á næstu árum. Líklegt er að hin siðuðu ríki muni mæta því með enn frekari greiðslum til matvælaframleiðslunnar.
En aftur að þeim vanda sem snýr að sauðfjárbændum, hér á landi. Auk þess sem að ofan er nefnt, eru margir fleiri þættir í þeim sérstaka vanda sem vert er að nefna, en jafnvel þó þeir allir yrðu lagaðir, er vart hægt að sjá að menn gætu efnast á því að búa með sauðfé. Mætti þó hugsa sér að það dygði til að koma í veg fyrir hruns sauðfjárbúskaparins.
Fyrir það fyrsta þá er forusta sauðfjárbænda arfa léleg og stendur engan veginn í lappirnar. Uppgjafatónninn er alger gagnvart greininni, að hálfu forustunnar. Verið getur að ástæðu þess megi finna í þeirri stór undarlegu staðreynd að bændur þurfi ekki að framleiða nema 70% af sínum kvóta til að fá 100% greiðslu fyrir hann úr ríkissjóð. Fá þannig 30% greiðslur fyrir ekki neitt! Auðvitað eru það þeir bændur sem mestan tímann hafa, þeir rótgrónu, sem veljast til forustu sauðfjárbænda. Bændurnir sem hafa getu til að kaupa sér aukinn kvóta og auka þannig tekjur, án þess að auka við sig vinnu. Hinir, sem eru að koma undir sig fæti, hafa lítinn tíma til að sækja fundi og standa í miklu félagsstarfi. Þeir hafa nóg með sitt bú, enda flestir sem verða að leita sér aukavinnu til að hafa í sig og á. Og rótgrónu bændurnir hugsa fyrst og fremst um eigin hag, spá lítið sem ekkert í endurnýjun greinarinnar. Uppgjafahugsun þeirra er orðin slík að þeir virðast telja sig síðustu sauðfjárbændur landsins!
Auðvitað á nýtingarhlutfall kvótans að vera 100%, að menn fái einungis greiðslu fyrir það sem þeir framleiða. Þannig á að taka strax umframkvóta af öllum bændum sem ekki nýta hann og færa ungliðunum sem margir hverjir eru að baslast við að framleiða umfram kvóta, framleiða fyrir lágt verð, til þess eins að reyna að skrimta!
Þá er gjörsamlega út í hött að sláturleyfishafar skuli hafa slíkt vald að geta lækkað afurðaverð til bænda, með einu pennastriki. Fyrst um 10% og ári síðar um 30%. Engar forsendu til slíkrar lækkunar eru fyrir hendi, aðrar en léleg stjórnun afurðastöðvanna og viljaleysi til að koma afurðunum í gott verð. Ekki verður séð að verð þessara afurða hafi lækkað til neytenda, þannig að einhver er að taka til sín aukið fjármagn úr greininni. Annað hvort afurðastöðvarnar eða smásöluverslunin. Hvor heldur er, þá er ljóst að afurðastöðvarnar eru ekki að standa sig.
Fram til þessa hafa afurðastöðvarnar aldrei þurft að hugsa um að auka verðmætin sem þær eru með. Lengi framanaf gátu þær sótt í ríkissjóð, ef illa gekk, en þegar því lauk var snúð sér í hina áttina og verð til bænda lækkað. Auðvitað á það að vera svo að bændum sé tryggt lámarksverð fyrir sína framleiðslu. Að ábyrgðin á því að koma kjötinu í verð sé sett á afurðastöðvarnar. Einungis þannig verða þær nauðbeygðar til að leita aukinna markaða fyrir kjötið, bæði hér heima sem og erlendis. Þar er vissulega markaður fyrir lambakjötið okkar og á góðum verðum. En þann markað þarf að vinna.
Ef rétt væri staðið að markaðsvæðingu á íslensku dilkakjöti erlendis, sem lúxusvöru, gæti stæðsti vandi íslenskra sauðfjárbænda færst yfir í að geta ekki framleitt nóg af lömbum. Þannig má snúa dæminu við, en það gerist ekki af sjálfu sér og tekur einhvern tíma, en fyrst og fremst vilja afurðastöðvanna.
Það er alveg ljóst að umræðan hér á landi hefur verið á villigötum, undanfarna tvo til þrjá áratugi. Krafan um enn minni greiðslur úr ríkissjóði, samhliða enn lægra verði matvæla gengur ekki upp til lengdar. Þar hafa poppúlistar einstakra stjórnmálaflokka, sem virðast fyrst og fremst vinna að hag smásöluverslana, látið hæst og notað sem viðmið verð á matvælum erlendis. Og vissulega má finna ódýrari matvæli erlendis, gengdarlaus notkun fúkalyfja og hormóna lækkar framleiðslukostnað svo ekki sé minnst á verksmiðjubúin, þar sem velferð dýra eru fjarri því höfð að leiðarljósi. Samt er matvælaframleiðsla þar mikið niðurgreidd, jafnvel meira en hér á landi, ef miðað er við íbúafjölda. Þá er álagning verslunar mun lægri þar en hér.
Það þarf þó enginn að ætla að við gætum fengið matvæli keypt erlendis frá á því verði sem er í búðum þar, verði íslenskum landbúnaði hætt. Við yrðum að borga fullann framleiðslukostnað fyrir vöruna, nú eða leggja til okkar skerf úr ríkissjóði til niðurgreiðslna. Sá hlutur yrðu alveg örugglega meiri en við leggjum nú þegar til matvælaframleiðslu í dag.
Hver þjóð hlýtur að hafa sem markmið að vera sjálfbær í matvælaframleiðslu, annað er vart í boði. Um þetta þarf umræðan fyrst og fremst að snúast og þar sem langan tíma tekur að minnka eða auka framleiðsluna, þarf að vera umframframleiðsla til að tryggt sé að innlendur markaður sé mettur. Sátt þjóðarinnar þarf að vera um slíkt, eins og sátt allra siðaðra þjóða!
![]() |
Landbúnaður stendur á tímamótum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Lög
19.7.2018 | 19:39
Ríkissáttasemjari getur komið fram með sáttatillögu, stjórnvöld geta sett lög, hvort heldur er á samþykkt yfirvinnubann eða verkfall. En það er engin leið að setja lög á uppsagnir.
Sáttatillaga felur í sér að samningsaðilar setja deilu sína í farveg sem þeir ekki munu geta haft nein áhrif á og verða að sætta sig við niðurstöðuna. Þetta ferli getur tekið nokkurn tíma og á meðan ríkir óvissa. Þeir sem þegar hafa sagt upp störfum munu því bíða með endurráðningu þar til niðurstaða næst og meta að henni lokinni hvort sú niðurstaða er ásættanleg, áður en til endurráðningar er gengið. Viðbúið er að fleiri muni segja upp störfum, meðan það ferli gengur yfir og víst að ef ekki næst ásættanleg niðurstað, munu enn fleiri hætta störfum.
Lög stjórnvalda á verkföll eru í raun af sama meiði. Deilan er þá með valdi tekin af samningsaðilum og sett í hendur matsmanna. Niðurstaðan gæti orðið enn verri og enn fleiri hætt störfum.
Það sem ég get ekki með nokkru móti skilið er hvers vegna ekki er hægt að ná þarna samning. Samninganefnd ríkisins hefur haldið því fram að hún hafi boðið ljósmæðrum ígildi 18% launahækkunar. En þó ekki nema um 4% í beinni hækkun, hitt á að koma fram með alls kyns hliðaraðgerðum. Eðli slíkra hliðaraðgerða er að sumar fá ekkert og aðrar mikið og heildar niðurstaðan nær sjaldnast því sem upp var lagt með. Þetta þekkir launafólk þessa lands, enda þessi aðferð ekki ný af nálinni.
Ef samninganefnd ríkisins telur sig hafa heimild til að semja við ljósmæður um ígildi tæplega tuttugu prósent launahækkunar, af hverju í andskotanum er þeim ekki boðin slík hækkun beint á grunnlaun?! Hvers vegna þarf að fela stærsta hluta hækkunarinnar í einhverjum hliðaraðgerðum? Er það vegna þess að samninganefndin veit að endanleg niðurstaða gefur mun minna en reiknidæmin þeirra sýna?
Ástandið er orðið alvarlegt, graf alvarlegt. Ætla stjórnvöld þessa lands virkilega að bíða þar til eitthvað skelfilegt skeður? Þarf virkilega einhver hörmung að koma til, svo ráðamenn vakni?
![]() |
Beinlínis rangt að ekkert nýtt kæmi fram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þegar auðmenn taka upp budduna
18.7.2018 | 22:34
Enn er verið að tefja að alvöru vegtenging fáist fyrir sunnanverða Vestfirði. Fyrir kosningar í vor lá ljóst fyrir að vegur um Teigskó yrði fyrir valinu, einungis eftir að fá samþykkt opinberra yfirvalda. Eftir kosningar kom annað hljóð í skrokkinn. Þá var allt í einu nauðsynlegt að skoða fleiri leiðir. Bræður tveir, sem taldir eru til auðmanna þessa lands, tóku upp á því að opna buddur sínar fyrir nýju sveitarstjórnina.
En eins og allir vita, opna auðmenn ekki buddur sínar án þess að fá eitthvað í staðinn. Og það varð raunin. Ráðinn var norsk verkfræðistofa til að koma með nýja og "ferska" sýn. Auðvitað var sú sýn eins og til var ætlast, vegur skyldi lagður annarstaðar en um Teigskóg. Þeir norsku lögðu til að brúað skildi milli Reykjaness og Skálaness, 800 metra langa brú. Það tók norsku verkfræðistofuna ekki nema nokkra daga að komast að þessari niðurstöðu. Enda var henni ekki ætlað að finna ódýrustu eða bestu leiðina, heldur einhverja aðra en um Teigskóg. Hreppsnefndinni hafði þarna tekist að koma málinu í algert uppnám, fyrir tilstilli tveggja bræðra, sem sáu sér einhvern hag í að tefja málið.
Forsendur norsku verkfræðistofunnar eru í algjörum molum. Fyrir það fyrsta gerir hún ráð fyrir að vegurinn að Reykhólum verði nýttur áfram, einungis gert ráð fyrir nýrri tengingu í báða enda hans. Þeir sem þennan veg hafa ekið vita mætavel að það er alger firra, byggja þarf þann veg upp frá grunni, eigi hann að taka við allri þeirri umferð sem til sunnanverðra Vestjarða fer og síðan þeirri umferð sem bætist við eftir að Dýrafjarðargöng hafa verið kláruð og vetrarvegur yfir Dynjandis- og Botnsheið verður lagður. Vegstæðið liggur þarna um skógi vaxið svæði og hætt við að umhverfisspjöll verði mikil við lagningu nýs vegar þarna, auk þess aukakostnaðar sem af hlýst.
Þá liggja ekki fyrir neinar alvöru rannsóknir á hvernig botnlög eru í utanverðum Þorskafirði og því ekki hver kostnaður er við brúarstólpa þar, eða hvort yfir höfuð er hægt að brúa þarna. Kostnaðaráætlun þeirra norsku er því óskhyggja ein. Sem rök fyrir máli sínu nefnir þessi norska verkfræðistofa brúargerð í Noregi. Hvergi veit ég til að brúað hafi verið þar, ef hægt hefur verið að leggja veg um láglendi án slíks ofurmannvirkis og alls ekki ef vegalengdir aukast við brúargerð. Enda Norðmenn sparir á aurinn og fara vel með hann.
Teigskógur er eins mikið rangnefni og hugsast getur, á því kjarri sem vex neðarlega í suðurhlíðum Hallsteinsnesfjalls og nægir að ganga þar uppréttur til að sjá til allra átta. Mun fallegri og stærri skóga má finna þarna nærri og má t.d. nefna skóginn fyrir ofan Bjarkarlund og auðvitað skóginn neðan Barmahlíðar, þar sem núverandi vegur til Reykhóla liggur. Fleiri slíka skóga má nefna á sunnanverðum Vestfjörðum og austur um Barðaströnd.
Verndargildi Teigsskógar er ekkert, enda búið að planta í hann erlendum trjám, eins og t.d. Alaskaösp.
Margir hafa fundið hjá sér hvöt til að skrifa um þetta blessaða kjarr, því til varnar. Efast ég um að margir þeirra hafi farið á staðinn til að líta "djásnið" augum, enda ekki auðvelt að komast þangað. Læst hlið og ekki nema fyrir útvalda að komast þangað. Þarf að fara á svig við lög ef ætlunin er fyrir hinn almenna Íslendinga að komast á svæðið.
Eftir að upplýst var að tveir bræður væru að fjármagna ósættið um löngu þarfa veglagningu um sunnanverða Vestfirði, með því að bera fé á sveitarstjórn Reykhólahrepps, dettur manni óneitanlega í hug að kannski hafi hafi sú hvöt, til skrifta, eitthvað að gera með buddur bræðranna og jafnvel kærumál hinna ýmsu svokallaðra hagsmunaaðila séu af sömu rót sprottnar. Reyndar eru flest þau hagsmunafélög á suð-vestur horni landsins.
Það er alveg dæmalaust að sveitarstjórn Reykhólahrepps hafi látið tvo bræður hafa sig að fíflum og það fyrir örfár krónur. Þarna tókst henni að flækja málið enn frekar og búa til enn meira ósætti, bæði innan eigin sveitarfélags en ekki síður þeirra sem búa vestan þess. Það er í alvöru spurning hvort sveitarstjórn hafi með þessu framferði, að láta auðmenn kaupa sig, ekki gerst brotleg við stjórnsýslulög. Og hverjar eru hvatir þessara bræðra, eða hagsmunir, að þeir telji nauðsynlegt að bera fé á sveitarstjórn?!
Til að það valdi ekki misskilningi, þá býr höfundur ekki í Reykhólahreppi eða vestan hans, en ofbýður hvernig komið er fram við það fólk sem þar býr!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Undarlegar áherslur dómstóla
22.6.2018 | 07:27
Það má vissulega gleðjast yfir því að Atli Helgason skuli ekki öðlast málflutningsréttindi að nýju. Hins vegar verður maður hugsi yfir ástæðu dómstólsins, hvaða áherslur hann leggur til grundvallar dómnum.
Dómstóllinn horfði ekki til þess er Atli var dæmdur fyrir að verða manni að bana. Heldur voru fjármálamisferli talin vega þyngra. Áður höfðu dómstólar komist að þeirri niðurstöðu að kynferðisbrot gegn börnum væru ekki nægjanlega alvarleg til að svipta mann málflutningsréttindum.
Niðurstaðan er því sú að lögmenn sem drepa fólk og lögmenn sem brjóta kynferðislega gegn börnum, geta fengið sín málflutningsréttindi að nýju, eftir að hafa setið af sér hluta dómsins. En ef lögmaður fer á hausinn eða gerist á annan hátt brotlegur um fjármálamisferli, mun hann ekki fá slík réttindi aftur, jafnvel þó hann hafi ekki setið í fangelsi vegna slíkra brota.
Þarna er eitthvað sem ekki stemmir, eitthvað stórkostlegt að. Auðvitað eiga lögmenn sem gerast á einhvern hátt brotlegir við lög að missa sín réttindi um aldur og ævi. Manndráp og kynferðisleg brot eiga þar auðvitað að vega þyngst!!
![]() |
Atli áfram sviptur málflutningsréttindum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)