Enn er hoggið í sama knérunn

Aldrei hefur þjóðin verið spurð að því hvort hún vilji að framsal valdheimilda verði rýmkað í stjórnarskránni. Þó ætla þingmenn að standa saman sem einn um slíka breytingu. Hvers vegna?

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta mál kemur upp. Eftir hrun var farið í ítarlega vinnu um breytingu stjórnarskrár, þar sem tilgangurinn var fyrst og fremst að afnema þennan varnagla úr henni, enda þáverandi stjórnarflokkar búnir að afreka að kljúfa þjóðina í tvennt með umsókn að ESB. Frumskilyrði slíkrar umsóknar var auðvitað að þurrka úr stjórnarskránni þau ákvæði sem hömluðu aðild að erlendu ríkjasambandi.

Þá hefur stundum heyrst að vegna þess að EES samningurinn er sífellt farinn að brjóta meira á þessu ákvæði stjórnarskrár, þurfi að afnema það. Svona rétt eins og ef breyta ætti lögum til samræmis við þarfir afbrotamanna. Þvílíkt bull!

Nú er staðan hins vegar sú að af einhverjum óskiljanlegum ástæðum vilja stjórnvöld endilega afhenda öll yfirráð yfir stjórn raforkumála til ESB og svo slíkt megi gerast verður auðvitað að laga stjórnarskránna aðeins til. Auðlindin verður ekki framseld með núgildandi stjórnarskrá og henni skal því breytt!

Auðvitað er það svo að stjórnarskrá er ekkert heilagt plagg og henni þarf að viðhalda. Breyta og bæta það sem þarf, miðað við þróun og þarfir. Slíkt hefur verið gert gegnum tíðina. Þegar núgildandi stjórnarskrá var samin voru hugtök eins og mannréttindi túlkuð á annan hátt en í dag og því lítið eða ekkert um það nefnt í frumútgáfunni. Í dag fjallar stór hluti stjórnarskrár um mannréttindi. Fleira mætti telja sem talist getur breyting til batnaðar á stjórnarskránni, frá því hún fyrst var skrifuð.

Framsali valdheimilda úr landi má þó ekki breyta í stjórnarskrá. Stjórnmálamönnum er fráleitt treystandi fyrir slíku. Það verður alltaf að vera í valdi þjóðarinnar sjálfrar að ákveða hvort eða hversu mikið af valdheimildum verði afhent erlendum aðilum, hvort sem þar er um að ræða erlend ríki, ríkjasambönd eða jafnvel erlendum auðkýfingum!!

Störf íslenskrar stjórnmálastéttar sanna svo ekki verður um villst, að hún hefur ekki vit til að fara með slíkt vald!!

Það versta er þó, að nauðsynlegum breytingum á stjórnarskrá, til að færa hana nær nútíma, gætu verið hafnað af þjóðinni. Ekki er ákvæði um að kosið sé um hverja efnislega breytingu stjórnarskrár fyrir sig, einungis kosið um breytinguna í heild sér. Því gætu nauðsynlegar breytingar hennar fallið af þeirri einu ástæðu að verið er að læða með afnámi til varnar afsali á valdheimildum til erlendra aðila. Taka varnagla þjóðarinnar og færa hann til misvitra og mis heiðarlegra stjórnmálamanna!


mbl.is Stjórnarskrárvinnan gengur vel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Samkvæmt gildandi stjórnarskrá skal sérhver nýr þingmaður vinna drengskaparheit að stjórnarskránni, þegar er kosning hans hefur verið tekin gild.

Þar af leiðandi er þeim óheimilt að gera nokkuð sem grefur undan vernd fullveldisins samkvæmt gildandi stjórnarskrá. Ef þeir myndu samþykkja slík lög færu þau gegn drengskaparheiti þeirra og þar með stjórnarskránni og væru því að vettugi virðandi.

Aftur á móti er þeim velkomið að betrumbæta stjórnarskránna, enda væri það í fullu samræmi við drengskaparheitið.

Höfundar stjórnarskrárinnar voru snillingar að þessu leyti.

Guðmundur Ásgeirsson, 24.9.2018 kl. 15:26

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þetta er allt saman satt og rétt hjá þér Guðmundur, en samt ,,,,,

Það liggur fyrir að nokkur hluti þeirra þúsunda laga og reglugerða sem hér hafa verið sett, vegna tilskipanna frá ESB, bera í bága við stjórnarskrá. Þetta viðurkenna þingmenn og þess vegna vilja þeir breyta þessu ákvæði, enda vel meðvitaðir um að hafa brotið æðstu lög landsins. Hitt væri þó eðlilegra og réttara, að standa fast fyrir og samþykkja ekki tilskipanir ESB, sem stangast á við okkar stjórnarskrá. Um það var EES samningurinn gerður!

Og nú liggur mikið við, þarf að samþykkja tilskipun um 3. orkupakka ESB. Ráðamenn hafa áttað sig á að þar verði svo stórt brot á stjórnarskrá að ekki muni verða látið viðgangast.

Gunnar Heiðarsson, 24.9.2018 kl. 16:07

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ég er nú ekki sammála því að "þúsundir" tilskipana frá ESB brjóti gegn stjórnarskrá þó vissulega geti verið hægt að finna einhver dæmi um slíkt þar innan um.

Þetta hefur aðallega komið til í seinni tíð varðandi til dæmis samevrópska bankaeftirlitið, persónuverndarráðið og svo núna síðast þennan orkupakka sem margir hafa áhyggjur af.

Verði sá pakki innleiddur hér en svo kemur í ljós að eitthvað í honum brjóti gegn stjórnarskrá kæmi sjálfsagt til kasta dómstóla að leysa úr því, á grundvelli stjórnarskrárinnar.

Guðmundur Ásgeirsson, 24.9.2018 kl. 16:32

4 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Þakka þér góðan pistil, Gunnar.

 Ekki get ég tekið undir sjónarmið Guðmundar, er hann lýsir því yfir að í lagi sé "kíkja í pakkann", því ekki verður annað af orðum hans lesið. Reynist innihaldið vafasamt, skuli leysa úr því fyrir dómstólum. "Að kíkja í pakkann" varðandi 3. orkupakka Evrópusambandsóbermisins er stjórnarskrárbrot. Það hafa færustu sérfræðingar okkar fullyrt. Að sjálfhverf stjórnmálaelíta dagsins í dag skuli ætla að voga sér að virða þetta að vettugi, er ótrúlegt. Össurarheilkennið er greinilega víðfeðmaðra en áður var talið.

 Einhversstaðar hlýtur að vera búið að lofa gulli og grænum skógum þeim til handa, sem hyggjast ætla að ganga svo gróflega gegn sinni eigin þjóð og drengskapareið sínum sem þingmenna. Dusilmenni verða þau öll, láti þau  sjálfsákvörðunarrétt okkar fyrir svona lítið. 

 Það er verðmiði á öllum manneskjum, en Íslenskir þingmenn virðast síðustu dægrin hafa lægsta verðið á hvaða útsölu hugsjóna sem finnst.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 25.9.2018 kl. 00:33

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Halldór

Sagt er að margur verði af aurum api og oft veltir maður fyrir sér hvort þetta eigi kannski frekar við um þá einstaklinga sem sækjast eftir völdum.

Ljóst er að þingmenn okkar líta gildandi stjórnarskrá léttvæga og ekki annað séð en að auðvelt sé að kaupa flesta þeirra til að horfa til hennar með blinda auganu.

Gunnar Heiðarsson, 25.9.2018 kl. 07:35

6 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Skilji  ég rétt þá færir þessi orku pakki okkur ekki neitt nema vafamál og stjórnarskrár brot, þannig að hann færir okkur ekkert annað en vandræði en Evrópusambandinu allt, tilhvers ætti þá að samþykja hann ?  Það hefur aldrei komið fram hver ávinningur okkar yrði, eins og það skipti engu máli. 

Hrólfur Þ Hraundal, 25.9.2018 kl. 09:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband