Hvers vegna eru þingmenn svo áfram um að brjóta stjórnarskránna?
8.6.2018 | 14:15
Nú um nokkurt skeið hefur verið nokkur umræða um EES samninginn, hvernig hann hefur þróast og skarast sífellt meira viðstjórnarskránna okkar. Reyndar hefur þessi umræða komið upp áður og á árum umsóknarferlisins, frá vori 2009 til áramóta 2012/13 töluðu sumir þingmenn um nauðsyn breytingar á stjórnarskrá og rökstuddu þann málflutning með EES samningnum. Sem betur fer fór það ekki lengra.
Ástæða umræðunnar nú eru tilskipanir sem liggja fyrir Alþingi, annars vegar um persónuverndarlöggjöf og hins vegar um þriðja hluta orkumálapakka ESB. Báðar þessar tilskipanir munu færa bæði löggjafavald og dómsvald frá Íslandi yfir til stofnana ESB. Það er skýlaust brot á annarri grein stjórnarskrár okkar.
Það fer enginn lengur í felur með að EES samningurinn er farinn að brjóta á stjórnarskránni, þó einstaka menn séu tilbúnir að leggja mannorð sitt í rúst með því að gera lítið úr þeirri staðreynd. Við höfum séð hvernig dómstóll EFTA hefur snúið hér dómum Hæstaréttar trekk í trekk, þvert á stjórnarskránna.
Og nú liggur fyrir utanríkisráðuneytinu bréf frá Eftirlitsstofnun EFTA, handlangara ESB, um bókun 35. Þessi bókun fjallar í stuttu máli um að Hæstiréttur beri að fara eftir erlendum lögum, stangist þau á við þau íslensku! Þarna ætlar ESB, gegnum eftirlitsstofnunina að skikka íslenska dómstóla til að láta íslensk lög, sett af Alþingi Íslendinga, víkja fyrir erlendum lögum!!
Það sem mér gengur hins vegar illa að skilja er hvers vegna sumir þingmenn okkar, kosnir af þjóðinni til að vinna að hag hennar, eru tilbúnir að samþykkja tilskipanir erlendis frá, ef minnsti vafi er á að þær brjóti í bága við stjórnarskránna sem þeir leggjadrengskaparheit sitt við. Hefði haldið að þeir létu stjórnarskránna njóta vafans. Nú hefur aðjúnkt við háskólann ályktað að tilskipunin um persónuverndarlöggjöf ESB sé í bága við stjórnarskrá. Engu að síður rísa sumir þingmenn upp og afla sér umfjöllunar "sérfræðinga" um hið gagnstæða og jafnvel erlendir ritlingar ESB fengnir til að skrifa greinar í Fréttablaðið.
Það koma æ oftar upp í huga manns nokkrar spurningar:
1. Hver getur kært brot á stjórnarskránni?
2. Hvert skal kæra?
3. Hverja skal kæra?
1. Kannski er það svo að hverjum er heimilt að kæra slíkt brot. Vandinn er að það kostar mikla peninga að leita til dómsstóla og ekki á færi einstaklinga að fara í slíka vegferð.
2. Á að kæra til lægsta dómstig eða beint til hins hæsta? Er kannski einhver annar dómstóll sem fjallar um slík brot?
3. Þegar Alþingi samþykkir tilskipanir erlendis frá, er stangast á við stjórnarskrá, ber þá að kæra það sem stofnun, eða skal kæra þá þingmenn sem tilskipunina samþykktu? Í mínum huga bæri að kæra viðkomandi þingmenn, enda varla eðlilegt að þeir þingmenn sem kjósa gegn tilskipuninni séu ákærðir.
Þingmenn ættu að hugsa sinn gang. Þeir leggja drengskarheit sitt við vörð um stjórnarskránna, þegar þeir hefja störf á Alþingi. Þar breytir engu hverjar pólitískar hugsjónir þessa fólks er, stjórnarskráin er æðsta löggjöf landsins, alltaf! Ef vafi leikur um lögmætið á stjórnarskráin alltaf að njóta vafans!
Annað er ekki í boði!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Grænni borg
20.5.2018 | 14:10
Dagur B Eggertsson boðar grænni borg. Nokkuð undarlegur boðskapur af þeim sem leitar uppi hvern grænan blett í borginni, til að færa vinum sínum byggingarrétt á. Kallar þessa vinavæðingu sína þéttingu byggðar.
Einn er þó sá blettur innan borgarmarkanna sem virðist friðhelgur, en það er umhverfi lóðarinnar á horni Óðinsgötu og Spítalastígs. Þar væri auðveldlega hægt að koma fyrir þokkalegu hóteli eða jafnvel einhverri dýrindis íbúðablokk fyrir þá best settu og það án þess að þurfa að fella eitt einasta hús. En það er víst búið að tryggja að þarna verði ekki byggt, einn íbúinn á svæðinu búinn að festa sér lóðaréttinn umhverfis hús sitt, til að tryggja sér "speis" og gott bílastæði!
En aftur að grænu borginni hans Dags. Auðvitað má gera borgina fallega græna með því að mála alla steinkumbaldanna sem verið er að troða niður á milli og yfir eldri fallegri hús miðborgarinnar, græna. Það yrði ekki amalegt að aka niður Geirsgötuna með fjallhá hús, fagurgræn að lit, á báða bóga og síðan til baka eftir Tryggvagötunni með jafnvel enn hærri fagurgræna steypukassa á alla vegu. Miðborgin fengi sannarlega sérstak ásýnd og víst að ferðamenn myndu flykkjast í hópum til landsins, til að berja þetta undur augum!!
![]() |
Vill breytt stjórnkerfi og aðalskipulag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það kemur að skuldadögum
19.5.2018 | 22:01
Það þarf ekki stórspeking til að átta sig á að launahækkun bæjarstjórans í Kópavogi er utan allrar skynsemi og ber ekki með sér mikinn skilning á ástandinu í landinu. Það er þó algert skilningsleysi og stjórnmálaleg blinda, þegar forsætisráðherra hneykslast á ofurlaunahækkun bæjarstjórans.
Bæjarstjórinn fékk launahækkun upp á 32,7%, skömmu eftir að ráðherraembættin og þingmenn fengu nærri 40% hækkun. Það þótti ekkert of hátt,að mati þingmanna og ráðherra og jafnvel þó einhverjir þingmenn hafi haft á því orð að þetta væri kannski í ríflegri kantinum, hefur ekki einn einasti þingmaður afþakkað þá kauphækkun!
Þarna liggur vandinn. Áður þurftu sveitarstjórnarmenn ekkert að ákveða um sín laun, þeir fengu sjálfkrafa svipaðar prósentuhækkanir og þingliðið, enda sömu menn sem sáu um ákvörðunina. Eftir að sveitarstjórnarmönnum var úthýst frá kjararáði þurftu þeir sjálfir að ákveða sínar launahækkanir. Og í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að þeir hefðu áfram til viðmiðunnar þann hóp sem áður leiddi þeirra hækkanir.
En vandinn er auðvitað mun stærri. Á þann vanda var bent, strax eftir þá ókristilegu hækkun sem þingmönnum og ráðherrum var færð. Síðan eru liðin nokkur misseri og sífellt verið að hamra á þessum vanda. Undir kraumar og ekkert gert af ráðamönnum til að tappa af þeirri reiði sem sífellt bólgnar, eins og eldfjall sem að lokum springur með óskaplegum afleiðingum.
Hér á landi virðir launafólk kjarasamninga, ólíkt því sem víðast erlendis þekkist. Því hefur vígvöllurinn ekki enn verið formlega opnaður, beðið eftir að kjarasamningar losni. Á meðan eykst gremjan. Erlendis hefði aðgerð líkt og úrskurður kjararáðs um kjör þingmann og ráðherra, þótt slíkt frávik frá raunveruleikanum að til verkfalla hefði verið boðað nær samstundis!
Það er auðvitað frábært að forsætisráðherra sjái að 32% launahækkun gengur alls ekki. Þá hlýtur manneskjan að átta sig á að 40% launahækkun er enn verri.
Eða eru hvatir ráðherrans kannski af öðrum toga? Getur verið að henni sárni að bæjarstjóri sé á hærri launum en ráherra? Eða fer kannski fyrir brjóstið á henni að 32% launahækkun bæjarstjórans voru fleiri krónur en 40% launahækkun ráðherrans? Það væri aldeilis frábært, þá væru þeir forkólfar verkalíðhreyfingarinnar, sem hafa kjark, fengið öflugan samherja.
Það er nefnilega svo 30% launahækkun bæjarstjórans og 40% hækkun ráðherrans, samsvara heildarlaunum nokkurra verkamanna. Það kemur að skuldadögum, eftir næstu áramót. Hafi stjórnvöld ekki áttað sig á grunnvandanum á þeirri stundu og bætt úr samkvæmt því, munu verða hér á landi þvílíkar hamfarir að öflugustu eldfjöll okkar munu blikna í samanburðinum!!
![]() |
Segir laun Ármanns óhófleg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vextir?
27.4.2018 | 21:48
Hægt er að líta sem svo að þessir 4 milljarðar, sem ríkisstjórnin samþykkti sem "aukafjárveitingu" til vegamála, sé einungis lítill hluti af þeim vöxtum sem ríkissjóður skuldar til málaflokksins.
Bílaeign landsmanna skilar ríkissjóði hátt í 100 milljarða tekjum á ári hverju. Stór hluti þess fjár er skattekja sem beinlínis er eyrnamerkt vegakerfi landsins. Aldrei hefur þó það fé allt skilað sér til málaflokksins, hefur verið nýtt til annarra þátta í rekstri ríkissjóðs. Yfir allan þjófabálk tók þó í kjölfar hrunsins, þegar fjármagn til viðhalds og endurbóta vegakerfisins var skert svo hressilega að vegakerfið beið stór skaða af. Enn hefur ekki náðst að koma fjárframlögum til vegamála á sama grunn og fyrir hrun, jafnvel þó ríkissjóður standi nú enn betur en nokkurn tíma áður. Enda er sá hluti vegakerfisins sem enn tórir, að hruni kominn. Ekki finnst sá vegspotti í vegakerfi landsins sem hægt er að segja að sé í lagi!! Um 70% vegakerfisins nær einungis einni til tveim stjörnum af fimm, samkvæmt úttekt EuroRAP og enginn vegspotti nær fimm stjörnum!!
4 milljarðar nú til viðbótar við þá 8 milljarða sem eru á fjárlögum, til viðhalds og endurbóta vegakerfisins, er lítið brot af þeim 100 milljörðum sem ríkissjóður aflar af bíleigendum. Það er því stór skattur sem þeir þurfa að greiða til reksturs ríkisbáknsins, umfram aðra skattgreiðendur, eða hátt í 90 milljarðar króna. Það gerir að meðaltali aukaskatt upp á vel yfir 400.000 kr. á hvern bíl í landinu, ár hvert, auk alls kostnaðar við viðhald og endurbætur vegakerfisins.
Það má nefna fleira, sem rökstyður þá kenningu að þessir 4 milljarðar séu einungis vextir af láni ríkisins frá bíleigendum. Hvalfjarðargöng voru byggð fyrir réttum tuttugu árum síðan. Allan kostnað af þeirri framkvæmd hafa þeir greitt sem um göngin hafa ekið og vel það. Auk auðvitað að greiða ríkinu fullan skatt af þeim sama akstri.
Við tilkomu Hvalfjarðargangna var öll uppbygging og endurbætur vegarins fyrir fjörðinn stöðvuð og viðhald þess vegar skert fram úr hófi. Við þetta sparaði ríkissjóður slíka upphæð, sem ökumenn um göngin greiddu, að næsta víst má telja að 4 milljarðarnir séu rétt vextir þeirrar upphæðar!
Það er ljóst að ríkissjóður hefur tekið einhliða lán hjá bíleigendum þessa lands, án þess þeir hafi getað rönd við reyst og er enn að stunda þessa iðju. Á þessu ári mun fara til málaflokksins 12 milljarðar, eins og áður sagði. Þetta er einungis brot þess fjár sem eyrnamerkt er til viðhalds og endurbóta vegakerfisins, af þeim sköttum sem bíleigendum er gert að greiða.
Eðli málsins samkvæmt, bitna skattar á bíleigendur fyrst og fremst á landsbyggðafólki. Það býr ekki við sama lúxus og höfuðborgarbúar, að hafa kost á að sleppa einfaldlega bílaeign. Þar koma til fjarlægðir við öll aðföng, sækja sér vinnu og ekki síst við að sækja sér þjónustu. Mörg er sú þjónusta sem landsbyggðafólk þarf að sækja, er einungis veitt á höfuðborgarsvæðinu. Þá valda óhóflegir skattar á rekstur bílaflotans því að öll vara verður dýrari á landsbyggðinni og samkeppni fyrirtækja verður erfiðari við fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu.
Þetta er því landsbyggðaskattur.
Að ráðherra skuli hæla sér að því að honum hafi tekist að kría út 4 milljarða úr ríkissjóð, af þeim hundruðum milljarða sem ríkissjóður hefur stolið frá málaflokknum gegnum tíðina, tugum milljarða á þessu ári, er lítilmannlegt!!
![]() |
Fjórir milljarðar í brýnar vegaframkvæmdir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Annað hvort, eða
25.4.2018 | 23:54
Annað hvort samþykkir Alþingi tilskipun ESB um þriðja orkupakka sambandsins, eða ekki. Engar undanþágur eru í tilskipuninni, þannig að ef Alþingi samþykkir hana er verið að færa völd yfir orku okkar úr landi. Svo einfalt er það!!
Það kemur hins vegar ekki á óvart þó ESB aðildarsinnar finni sig knúna til að tala um einhverja ímyndaða fyrirvara, fyrirvara sem þó eru hvergi nefndir í tilskipuninni. Fyrir þeim er sjálfstæði okkar lítils virði og stjórnarskráin einungis til óþurftar.
Það er í hæsta máta undarlegt að ráðherra skuli leita álits "sérfræðings" sem er illa haldinn af ESB veikinni og ekki annað að sjá en að ráðherra sjálfur sé eitthvað smitaður.
En til hvers var ráðherra að leita eftir slíku áliti? Dugir henni ekki leiðbeiningar landsfundar eigin stjórnmálaflokks? Er hún kannski svo illa smituð, að hún telji nauðsyn að finna, með öllum tiltækum ráðum, leið framhjá samþykkt landsfundar? Á maður virkilega að trúa því að ráðherrar og kannski þingmenn Sjálfstæðisflokks ætli að stika út í það forarsvað?!!
Og sannarlega mun það verða stjórnarskrárbrot, samþykki Alþingi tilskipunina. Í Noregi er þegar hafin vinna við málsókn vegna stjórnarskrárbrots Stórþingsins, vegna sömu tilskipunar.
Málflutningur ESB sinnans og álitsgjafa ráðherra, fjallar í stuttu máli um að samþykkt tilskipunarinnar hafi engin áhrif hér á landi og færð fátækleg og jafnvel lygarök fyrir því máli. Þá mætti spyrja þennan ágæta mann þeirrar spurningar; til hvers að samþykkja eitthvað sem kemur okkur ekkert við og skiptir engu máli?!!
Staðreyndin er einföld. Ef við viljum halda yfirráðum yfir auðlindum okkar, má aldrei rétta litla fingur út fyrir landsteinana. Nú eru það orkuauðlindir, á morgun kannski fiskveiðiauðlindirnar!
![]() |
Gæti falið í sér stjórnarskrárbrot |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Spámaðurinn mikli
12.4.2018 | 12:56
Hinn mikli spámaður Eiríkur Bergmann Einarsson, evrópufræðingur, stjórnmálafræðingur og fyrrverandi frambjóðandi Samfylkingar, hefur nú fellt sinn dóm. Öllum til huggunar er einstaklega sjaldgæft að spádómar þessa mikla spámanns rætist.
Skoðanakannanir eru ekki kosningaúrslit og því fráleitt að velta sér upp úr hugmyndum um meirihlutasamstarf samkvæmt þeim. Það eru getgátur einar sem engu máli skipta. Eftir að talið hefur verið upp úr kjörkössum kemur tími svokallaðra stjórnmálafræðinga, að segja sitt álit. Þar til eiga þeir að hafa vit á að þegja, nema auðvitað þeir séu að hygla einhverjum ákveðnum stjórnmálaflokk.
Svo oft höfum við gengið að kjörborðinu síðastliðinn áratug, með tilheyrandi flóði skoðanakanna, að allir landsmenn ættu að vita að slíkar kannanir eru ekki marktækar. Jafnvel kannanir sem gerðar hafa verið örskömmu fyrir kosningadag, hafa verið svo fjarri raunveruleikanum að furðu sætir.
Hitt er annað mál að útgáfa skoðanakanna er vissulega skoðanamyndandi, þó sérstaklega þegar "vitringar" eru látnir blása í kjölfarið. Þessu hefur verið mjög haldið á lofti á fréttstofu ruv, jafnvel svo vel að verki staðið þar að túlkun skoðanakanna hefur á stundum verið teygð vel til, svo réttur álitsgjafi geti gefið rétt álit.
Og nú ætlar útvarp K100, í eigu moggans, að feta sömu leið og nýta sömu "sérfræðingana". Það er mogganum til minnkunar.
![]() |
Viðreisn í oddastöðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Auðvitað ekki
9.4.2018 | 17:54
Það bæri nýrra við ef VG tækju upp á því að vera á móti skattlagningu. Þessi flokkur, með þáverandi formann í stól fjármálaráðherra, setti einstakt met í fjölgun og hækkun skatta á einungis einu kjörtímabili. Katrín gæti því með engu móti staðið gegn frekari álagningu á landsmenn.
Það er gilt sjónarmið að þeir sem njóta greiði. Þetta á ekki síður við um bíleigendur sem aðra.
Og vissulega er það svo, bíleigendur greiða fyrir það sem þeir njóta, af hendi ríkisvaldsins, reyndar fjórfalt. Í dag eru álögur á þá sem þurfa að nota eigin bíl mjög miklar, meir en fjórum sinni hærri en það fjármagn sem skaffað er til vegamála. Stór hluti þessarar álagningar er eyrnamerkt viðhaldi og endurnýjun vegakerfisins. Því miður skilar það sér ekki þangað, heldur hverfur í ríkishítina.
Það er því með algerum ósköpum að nú séu ráðamenn að tala um að leggja enn meiri álögur á bíleigendur. Þó Katrín hafi ekki útilokað frekari skattlagningu á bíleigendur er ekki sama sagt um núverandi samgönguráðherra. Fyrir kosningar og reyndar eftir þær líka, eftir að hann fékk lykilinn að ráðuneytinu, hafnaði sá maður með öllu öllum hugmyndum um vegaskatt. Ekki að sjá að honum sé annt um mannorð sitt. Eftir að hafa skaddað það verulega fyrir tæpum tveim árum síðan, hefur hann nú endanlega gengið af því dauðu!! Undarlegast af öllu er þó að rótin að þessari hugmynd um vegaskatt kemur úr Sjálfstæðisflokki, þeim flokk sem hvað duglegastur er að tala um lækkun skatta, a.m.k. fyrir hverjar kosningar.
Menn geta deilt um með hvaða hætti ríkisvaldið skattleggur bíleigendur, svo þeir greiði fyrir viðhald og endurnýjun vegakerfisins. Hvort greiddir eru vegatollar eða hvort eldsneyti sé skattlagt. Það ætti þó ekki að þurfa að deila um að ekki verði gert hvoru tveggja!!
Það er ærinn sá skattur sem landsbyggðafólk þarf að greiða, þó ekki bætist á stór aukinn aksturskostnað, með tilheyrandi auknum kostnaði við öll aðföng. Og ekki má gleyma þeirri augljósu staðreynd að slíkur skattur mun auka verðbólguna með tilheyrandi hækkun vaxtakostnaðar. Ekki mun það hjálpa unga fólkinu að eignast húsnæði!
![]() |
Við höfum aldrei útilokað gjaldtöku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þeirra ær og kýr
9.4.2018 | 07:43
Það er borgarstjórnarmeirihlutans ær og kýr að láta aðra þrífa eftir sig skítinn, að kenna öðrum um það sem miður fer. Sóðaskapur þessa borgarstjórnarmeirihluta er þvílíkur að engu tali tekur.
Ekki er hugsað um að þrífa götur svo sómi sé af og þegar í óefni er komið er bíleigendum kennt um. Auðvitað verður til einhver sóðaskapur vegna bílnotkunar, svona eins og af flestum mannanna verkum. Það er hins vegar hvernig sveitarstjórn stendur að þrifum þess sóðaskaps sem skilur á milli sóðanna og hinna sem snyrtilegri eru.
Þegar skólpkerfi borgarinnar bilar er ekki einungis reynt að þegja slíka bilun í hel, meðan skólpið fyllir fjörur borgarinnar, heldur er reynt að koma sökinni yfir á aðra, að venju. Ekki er sóðaskapurinn þar þrifinn upp, frekar en götur sópaðar. Þegar svo borgarbúi kvartar ætlast stjórn borgarinnar til að íbúar þrífi upp skítinn! Aldeilis hreint ótrúlegt!!
Þar sem megnið af því rusli sem er í fjörum borgarlandsins er notaður klósettpappír, mætti Eiríkur Hjálmarsson gjarnan svar því hvort hann ætlist til að klósettpappírinn sé settur í ruslatunnurnar, eftir notkun!
Svo ætla borgarbúar að kjósa þessa endemis sóða yfir sig í fjögur ár til viðbótar!!
![]() |
Vesturbæingum boðið í skólphreinsun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Jakkalakkar
1.4.2018 | 22:10
Jakkalakkar með leðurgljáandi stresstöskur eru nú vaknaðir til lífsins, enda stórir hlutir að gerast.
Það er auðvitað með ólíkindum að hér á landi skuli vera slitið milli framleiðslu og sölu orkunnar, að búinn sé til milliliður sem gerir ekkert annað en að hækka verð orkunnar til landsmanna. Enn ótrúlegra er að hver sem er geti gengið á þennan markað, stofnað fyrirtæki til sölu orku og grætt á því peninga. En þetta var okkur fært með einni tilskipun frá ESB, sem kjarklausir aumingjar Alþingis samþykktu. Og allt er þetta gert í nafni frelsis, frelsis til að græða!
Þessi tilskipun getur átt rétt á sér á stórum raforkumarkaði, þar sem samkeppni ríkir, en hér á landi, dreifbýlu landi 340.000 íbúa, er þetta næsta hjákátlegt.
En nú eru bjartir tímar framundan, hjá jakkalökkunum. Á næstu dögum mun Alþingi, enn jafn illa mannað og áður, ef ekki verr, samþykkja enn eina tilskipunina frá Brussel, tilskipun sem mun opna jakalökkunum nýja leið til að græða. Tilskipun sem mun stækka raforkumarkaðinn hér á landi úr 340.000 notendum upp í 500.000.000 notendur. Þá er gott að eiga sölufyrirtæki með rafmagn frá Íslandi!
Það dettur engum heilvita manni að stofna sölufyrirtæki um rafmagn á Íslandi, þessum litla markaði sem nánast útilokað er að komast inná og algerlega útilokað að geti boðið orkuna á lægra verði. Þessir menn eru ekki að stofna einhver góðgerðasamtök, einungis að hugsa að eigin hag, eins og viðskiptamenn ætið gera. Þeir veðja á aumingjaskap og kjarkleysi íslenskra stjórnmálamanna, enda sterkar líkur á vinningi þar.
Á nýliðnum landsfundum tveggja stjórnarflokka var samþykkt að Ísland gæfi ekki eftir yfirráð yfir orkuauðlindum okkar til ESB. Í því felst að samþykkja ekki þriðja hluta orkumálabálks ESB. Það var ekki liðin nóttin frá landsfundi Sjálfstæðisflokks, þegar menn í æðri stöðum innan flokksins fóru að túlka þessa samþykkt á allt annan hátt en hún raunverulega var og síðan hafa menn innan dyra Valhallar leitað logandi ljósi að undankomuleið frá þessari samþykkt.
Formaður flokksins lét hafa eftir sér, við fréttastofu ruv, að tilskipunin hefði engin áhrif hér á landi, ekki fyrr en að og ef við legðum sæstreng til meginlandsins. Þvílík fyrra!!
Staðreyndin er einföld. Ef alþingi samþykkir tilskipun um þriðja orkumálabálk ESB, tekur hún strax gildi. Þar eru engar undanþágur. Þessari tilskipun fylgir að ný stofnun ESB, ACER, með staðsetningu í Slóveníu, mun yfirtaka alla stjórnun raforkumála í löndum ESB. Einnig mun ACER taka yfir alla stjórnun orkumála í löndum EES ef öll lönd þess samþykkja tilskipunina. Þessi yfirtaka verður strax og tilskipunin hefur verið samþykkt. Noregur er þegar búinn að samþykkja hana og víst að Lictenstein mun einnig gera slíkt hið sama. Við stöndum því ein eftir.
ACER mun því, strax að lokinni samþykkt tilskipunarinnar, taka yfir orkumál okkar Íslendinga og eftir það mun Alþingi ekkert hafa að segja, né við landsmenn. Ofarlega á forgangslista ACER er lagning sæstrengs milli Íslands og Bretlands. Gera má ráð fyrir að innan árs frá samþykkt tilskipunarinnar muni framkvæmdir við strenginn vera hafnar. Ef upp kemur deila um kostnaðarskiptingu lagningar þessa strengs, mun ACER úrskurða um hversu mörg hundruð milljörðum okkur ber að greiða. Alþingi og við landsmenn munum ekkert geta við því gert!
Þetta þýðir að orkuverð hér á landi mun hækka svo að tala má um hamfarir. Fyrirtæki sem byggja á notkun raforku munu leggjast af, með tilheyrandi atvinnuleysi. Önnur gætu hugsanlega skipt yfir í olíu.
Sú orka sem ætlað er að flytja gegnum strenginn er næsta lítil á evrópskan mælikvarða, þó stór sé á íslenskan, enda þar verið að tala um orku sem svarar meira en þeirri orku sem Kárahnjúkavirkjun framleiðir. Og víst er að vilji ACER er til að flytja enn meiri orku úr landi, að leggja annan streng, þann þriðja og jafnvel fjórða! Til að fæða þá alla þarf auðvitað að virkja og þá munu umhverfissjónarmið lítils metin. Enda mun það verða á valdi ACER að ákveða hvar virkjað er, ekki Alþingis. Jafnvel helgi Gullfoss gæti orðið rofin!!
Það er því von að jakkalakkarnir rumski, enda óendanlega miklir fjármunir í boði, bara ef maður er nógu fljótur að grípa þá. Leðurglansandi stresstöskurnar munu bólgna, aftur og aftur, endalaust!!
![]() |
Hrista upp í samkeppni á orkumarkaði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Holur hljómur og ekkert um ACER
18.3.2018 | 09:31
Það er frekar holur hljómur í þessari ályktun Sjálfstæðisflokksins. Auðvitað er tímabært að skoða reynslu okkar af þessum samning og einnig er sjálfsagt og eðlilegt að spyrna gegn þeirri sjálfvirkni sem verið hefur á innleiðingum reglana frá ESB. En þegar í sömu ályktun er skýrt tekið af skarið með að Ísland skuli áfram vera aðili að EES, verða þessar ályktanir frekar þunnar.
Liðin eru 25 ár frá því 33 þingmenn á Alþingi okkar samþykktu þennan samning, í trássi við þjóðina, 29 þingmenn greiddu gegn samningnum eða sátu hjá. Því er vissulega kominn tími til að skoða hvaða skaða þessir 33 þingmenn hafa gert þjóðinni.
Að spyrna við fótum um upptöku reglna frá ESB, sem eru í trássi við stjórnarskrá okkar, þ.e. færa valdheimildir frá Alþingi til ESB eða stofnana þess, ætti ekki að þurfa að nefna. Þar á stjórnarskráin að tryggja okkur.
Það hefði verið skemmtilegra ef í þessari ályktun hefði verið tekið af skarið með vilja Sjálfstæðisflokks varðandi þriðja hluta orkumálasamþykktar ESB og afurð hennar, ACER. Kannski var það gert, með þögninni!
Einnig hefði verið gaman ef ályktunin um skoðun samningsins yrði í báðar áttir, bæði til fortíðar og framtíðar. Ef í ályktuninni væri nefnt að skoða skuli hver áhrif þeirra breytinga sem orðið hafa á ESB, hefðu á samninginn og hvaða skaða EES samningurinn mun valda okkar þjóð.
Þar er auðvitað fyrsta að nefna Lissabon sáttmálann, sem er jú upphaf að stofnun "Ein Staat", er leiðarvísir að stofnun þess og loks stjórnarskrá. Brexit mun einnig breyta sambandinu mikið, sennilega til hins verra. Og ekki má gleyma þeirri staðreynd að ESB hefur ekki burði til að takast á áföllum eins og fjármálakreppu. Nú, áratug eftir að fjármálakerfi heimsins hrundi eru flest ríki heims komin á réttan kjöl, utan nokkur ríkja ESB. Þar er enn allt í kalda koli!
Lissabon sáttmálinn gefur ESB aukið vald til að söðla undir sig enn fleiri stoðum aðildarríkja sinna, nú unnið að fimmta frelsinu, orkufrelsinu. Þar mun öll stjórnun orkuframleiðslu verða færð einni stofnun, suður í Slóveníu og mun sú stofnun vera alsráðandi um orkuframleiðslu, orkuflutninga og verðlagningu orkunnar. Þetta fimmta frelsi á að ná til aðildarríkja EES, Íslands og Noregs. Mun að óbreyttu verða samþykkt af Alþingi nú á vordögum!! Og eins og með samþykkt EES samningsins, á að gera þetta í kyrrþey, án aðkomu þjóðarinnar og líklega með jafn tæpum meirihluta þingmanna! Norðmenn eru nokkuð þroskaðri en við Íslendingar. Þar í landi hafa bæði stjórnmálamenn og fréttamiðlar verið duglegir að upplýsa þjóðina um hvað málið snýst og engu haldið földu, sem íslenskum stjórnmálamönnum er svo tamt. Íslenskir fréttamiðlar eru auðvitað svo vanþroska að þaðan er ekki neins að vænta.
Enn sér auðvitað ekki fyrir endann á Brexit. Þó er öllum ljóst að hagsmunir Bretlands og ESB, sér í lagi Þýskalands, eru þvílíkir að ekki verður gengið frá því borði nema í sátt. Ekki er ótrúlegt að ætla að Bretland fái þar a.m.k. jafn góðan samning og nýgerður samningur Kanada við ESB hljóðar uppá, mun betri en t.d. EES samningurinn og án þeirra kvaða sem lagðar eru á EES löndin.
Það er nokkuð undarlegt að stjórnmálaflokkur sem er með afdráttarlausa stefnu um að Ísland skuli ekki verða aðili að ESB, skuli á sama tíma vera með afdráttarlausa stefnu um að Ísland skuli vera áfram innan EES. Þessi pólitík gengur einfaldlega ekki upp, jafnvel þó ályktað sé um skoðun og athugasemdir.
Allir þeir sem komnir eru yfir "miðjan" aldur, þ.e. voru komnir til vits þegar EES samningurinn var gerður, vita að þessi samningur var bráðabirgðasamningur, gerður til að brúa bilið að inngöngu í það sem á þeim tíma kallaðist Evrópu bandalagið, kallast í dag Evrópu sambandið. Þetta var vitað, enda samningurinn með þeim hætti. Þá veit þetta sama fólk, það sem komið er til VITS OG ÁRA, að Alþingi hjó þjóðin niður í tvo hópa, þegar 33 þingmenn þess samþykktu þennan samning, án aðkomu sjálfra kjósenda. Þetta sár hefur ekki gróið og var reyndar ýft upp í kjölfar hrunsins. Þá náðist, með svikum VG við þjóðina og tilstilli nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokks, meirihluti til umsóknar að ESB. Þetta gerðist þrátt fyrir að skýr meirihluti kjósenda væri andvígur þeirri för. Það undarlegast við þetta var að sjálft fjármálahrunið hér á landi mátti rekja fyrst og fremst til EES samningsins, bráðabirgðasamninginn um aðild að EB!!
Landsfundi Sjálfstæðisflokksins er ekki lokið. Kannski munu nægjanlega margir þingfulltrúar hafa kjark til að minna menn á grunnstefnu flokksins, hafa kjark til að koma fram með afgerandi ályktanir til festu sjálfstæðis Íslands!!
![]() |
Mat verði lagt á reynsluna af EES |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hvers vegna?
17.3.2018 | 17:19
Hvers vegna þarf að hlíta þessum dómi EFTA dómstólsins? Hann var dæmdur út frá röngum forsendum!
EFTA dómstóllinn dæmdi í þessu máli út frá verslunar- og þjónustukafla EES samningsins, ekki landbúnaðarkaflanum. Samkvæmt landbúnaðarkaflanum hefði dómstóllinn ekki getað komist að sömu niðurstöðu, enda sérstaða Íslands í landbúnaðarmálum kristal skýr í þeim kafla.
Atvinnuvegaráðuneytið þarf því engan aðlögunartíma, þarf einungis að tilkynna til Brussel að Ísland hyggist ekki ætla að taka þennan dóm til greina, á þeirri forsendu að dómurinn hafi verið kveðinn upp á röngum forsendum. Láta síðan á það reyna hvort einhver eftirmál verða.
![]() |
Þörf á nokkurra ára aðlögunartíma |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Enn eitt floppið, á kostnað okkar kjósenda
16.3.2018 | 09:37
Það hækkar hratt verðmiðinn á blessaðri borgarlínunni og þó eru framkvæmdir ekki enn hafnar. Þetta er kunnuglegt stef, þó reyndar megi segja að nú hefjist umframkeyrslan heldur fyrr en í fyrri verkefnum.
Þegar bankarnir hrundu stóð grunnur að stóreflis tónlistarhúsi við Reykjavíkurhöfn, öllum til ama og engum til gagns. Þrátt fyrir að þjóðin stæði á barmi gjaldþrots, var ákveðið að reisa á þeim grunni það hús sem síðan fékk nafnið Harpa. Áætlanir voru gerðar um kostnað þeirrar byggingar og verkið hafið. Auðvitað stóðust þær áætlanir ekki og kostnaðurinn varð mun meiri. Útilokað er að sú starfsemi sem fram fer innan veggja þessa húss muni nokkurn tímann borga það. Kjósendur fengu reikninginn.
Sandeyjarhöfn er annað dæmi, þar sem áætlanir voru reiknaðar langt undir raunkostnaði. Enn sér ekki fyrir endann á þeim kostnaði sem kjósendur fengu í hausinn vegna þess verkefnis og mun sennilega aldrei sjást.
Vaðlaheiðagöng eru enn eitt dæmið um flopp stjórnmálamanna. Þar var gamalkunnugt stef slegið og óraunhæfar áætlanir gerðar, virtust helst miða að því marki að hægt væri að halda fram að umferð gegnum göngin myndu á einhverjum tímapunkti, í fjarlægri framtíð, borga framkvæmdina. Til að ná því marki varð að miða við að framkvæmdin kostaði ekki meira en 7 milljarða, að umferð ykist verulega, að öll sú umferð færi gegnum göngin og að gjaldið í gegnum þau væri hærra en svo að fólk myndi sætta sig við það. Í dag, nokkru áður en framkvæmdum er lokið, er ljóst kostnaður við framkvæmdina verður 14 milljarðar plús! En það er allt í lagi, kjósendur munu borga.
Um blessað þjóðarsjúkrahúsið þarf vart að fjölyrða. Þar eru ekki einungis fjármáleg misferli í gangi, heldur er allri heilbrigðri skynsemi kastað á glæ. Reikningur til kjósenda til þess verkefnis mun aldrei lokast, ekki meðan menn neita að horfast í augu við staðreyndir. Þar, eins og í öðrum gæluverkefnum stjórnmálamana, var farin sú leið að hagræða forsendum svo niðurstaða fengist rétt. Niðurstaðan er þegar brostin, þó enn séu mörg ár þar til verkefnin líkur, ef því einhvertímann líkur, enda forendurnar allar rangar.
Svona mætti lengi telja og segja sögur af meðferð stjórnmálamanna á almannafé, fé sem betur væri varið til annarra þátta, ef það þá yfirleitt er til.
Ekki man ég hverjar fyrstu áætlanir um kostnað við borgarlínu voru, en í apríl á síðasta ári, fyrir tæpu ári síðan, var talað um heildarkostnað upp á um 50 milljarða króna og að verkið yrði unnið í áföngum. Þegar líða fór að hausti, var heildarkostnaðurinn kominn upp í 70 milljarða, þó var þá búið að skera verkefnið verulega niður og menn hættir að tala um léttlestar.
Nýjustu tölur um heildarkostnað eru ekki lengur nefndar, einungis að fyrsti áfangi eigi að kosta 44 milljarða króna. Ekki þora menn heldur að nefna hversu margir áfangarnir verða. Fyrsti áfangi er því að nálgast þá upphæð sem sögð var heildar kostnaður, fyrir 11 mánuðum síðan! Þetta er sennilega met í íslenskum kostnaðarútreikningum!! Og enn eru engar framkvæmdir hafnar!
Það er ljóst að nánast allur kostnaður við borgarlínuna mun verða greiddur úr ríkissjóð. Reykjavíkurborg rambar á barmi gjaldþrots og þaðan engra peninga að vænta. Jafnvel þó ný og betri stjórn verði valin yfir borgina, mun það taka fjölda ára að greiða úr þeirri fjárhagslegu óstjórn sem ríkt hefur undir stjórn vinstra afturhaldsins. Önnur sveitarfélög eru vart aflögufær og jafnvel þó eitthvert þeirra gæti lagt einhverja aura til verkefnisins, er fráleitt að ætla að vilji sé til þess, umfram stærsta sveitarfélagið. Því mun það falla í hlut kjósenda alls landsins að greiða fyrir borgarlínu. Verkefnis sem einungis örfá prósent þeirra íbúa sem á svæði línunnar býr, mun nýta sér, ef miðað er við björtustu spár!
Það er ekkert sem réttlætir að sótt sé fé í ríkissjóð í verkefni eins og borgarlínu. Ef sveitarfélögin sem að þessu verkefni standa gætu sjálf fjármagnað það, væri lítið hægt að agnúast yfir því. Það væri þá kjósenda til sveitarstjórnar í viðkomandi sveitarfélögum að sýna sinn vilja í kosningum. En að ætla að kasta kostnaði yfir á ríkissjóð er galið, kostnaði sem enginn veit hver verður að lokum, en gera má ráð fyrir að muni hlaupa á hundruðum milljarða króna. Alþingi hefur enga heimild frá kjósendum til að sóa fé landsmanna til þessa verkefnis.
Meðan vegakerfi landsins er að hrynja, meðan fólk á landsbyggðinni þarf að fara erfiða fjallvegi til að sækja sér alla þjónustu, meðan malarvegir eru enn til í landinu, meðan einbreiða brýr þekkjast í vegakerfinu og meðan banaslysum í umferðinni fjölgar af framangreindum orsökum, meðan grunnþjónustan er í lamasessi bæði hjá ríki og borg og meðan við getum ekki sýnt öldruðum þá vegsemd að lifa sómasamlegu lífi, er borgarlína með öllu óréttlætanleg!!
![]() |
44 milljarðar í borgarlínu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)