Færsluflokkur: Bloggar

Aðlögun Kristrún, ekki aðildarviðræður heldur aðlögunarviðræður

Illu heilli samþykkti Alþingi, með minnsta mögulega meirihluta, EES samninginn. Þar með var frelsi þjóðarinnar skert. En skoðum aðeins söguna.

Það var árið 1985 sem fyrst var rætt um frekari samvinnu EFTA ríkjanna við Efnahagsbandalag Evrópu, (EB). Fjórum árum síðar hófust viðræður og aðeins tveim árum síðar, 1991 lágu samningsdrög fyrir. Eitt EFTA ríkjanna gaf þjóð sinn vald til að ákveða hvort samningurinn skildi samþykktur, Sviss og var hann kolfelldur af kjósendum. Hin þrjú ríkin, Ísland, Noregur og Lictenstein fóru þá leið að halda þjóðinni frá ákvörðuninni, létu þjóðþingin samþykkja samninginn. EES samningurinn var samþykktur af Alþingi 12. janúar 1993 og tók síðan formlega gildi þann 1. janúar 1994.

Meðan á viðræðum stóð var enn í gildi meðal ríkja Evrópu, Rómarsáttmálinn, þ.e. sáttmáli um samstarf á efnahagslegum grunni, Kallaðist Evrópu bandalagið, (EB), eða European Economc Community (EEC), var bandalag þjóða innan Evrópu um samvinnu á efnahagssviði. 

Þann 1. nóvember 1993, tæpum 10 mánuðum eftir að Alþingi samþykkti EES samninginn, sem umtalsverð breyting verður á samstarfi EB þjóða. Þá tekur gildi Maasticht samkomulagið og eðlið breyttist frá því að vera um efnahagsmál yfir í frekari samvinnu á stjórnmálasviðinu. Upphafið að því að sameina Evrópu undir einn hatt, til samræmis við Bandaríkin. Enn frekar var síðan gengið við gildistöku Lissabonsáttmálann, þann 1. desember 2009. Þar með lauk í raun þeirri vegferð sem hófst 1957, að klára það sem Hitler mistókst. 

Alþingi samþykkti því samning milli Íslands og EB, ekki ESB. Strax þegar eðlisbreytingin verður á samstarfi Evrópuríkja, átti Alþingi að kalla eftir endurskoðun samningsins til að tryggja stjórnmálalegt vald okkar. Því miður hafði enginn kjark til þess. 

Það er engum blöðum um það að fletta að ESB samningurinn hefur gert landi okkar gott í sumum málum og hefði sjálfsagt verið ágætur ef ekki hefði orðið þessi eðlisbreyting á mótherja okkar þar. En hið slæma sem hann hefur leitt yfir þjóðina verður ekki horft framhjá. 

Fjórfrelsið, sem er megin hugtak EES samningsins, fjallar um frelsi til flutnings fólks, vöru, fjármagns og þjónustu innan ESB og EES ríkja. Þetta frelsi hefur leitt yfir okkur margar hörmungar, en sjaldan sem nú síðustu árin. Ekkert er minnst á samvinnu á pólitíska sviðinu, sem þó virðist vera orðið helsta verkefni íslenskra stjórnvalda. Síðustu ár hafa utanríkisráðherrar okkar varið löngum stundum í Brussel og komið rígspenntir heim, rétt eins og þeir hafi hreinlega bjargað heiminum. 

Frelsi til flutnings fólks. Margir líta þennan þátt sem einna stærsta kost EES samningsins. En hverju hefur hann leitt af sér? Jú, vissulega er þægilegt að geta ferðast til annarra landa án þess að sýna vegabréf. Frelsið hefur þó leitt til þess að sífellt fleiri lönd krefjast vegabréfs við komu og allir þurfa að gera grein fyrir sér áður en haldið er í flug. En þetta gerir líka fólki sem ekki býr innan EES/ESB auðveldara fyrir. Eftir að það kemst inn fyrir ytri landamærin, er í raun engin fyrrstaða, fyrr en nú í flugi hingað. En þetta frelsi hefur einnig leitt til að atvinnusvæðið verður stærra. Við getum farið í vinnu erlendis og erlendir ríkisborgarar geta fengið vinnu hér. Var reyndar aldrei nein fyrirstaða fyrir Íslendinga að fá vinnu innan Evrópu, né annarsstaðar ef því var að skipta. Fólksflutningar Íslendinga á árunum kringum 1970 sýna það, vandræðalaust að fá vinnu hvar sem okkur datt til hugar. Hin hliðin er skuggalegri, innflutningur á ódýru vinnuafli hingað til lands. Sumir atvinnurekendur flytja hingað fólk gegnum starfsmannaleigur, fólk sem þarf að búa við mun verri kjör en aðrir. Þetta er ljótur leikur, í nafni EES samningsins. 

Frelsi til flutnings á vörum. Um þetta væri hægt að skrifa langan pistil en læt duga að nefna örfá atriði. Fyrir það fyrsta er ekkert frelsi á flutningi á vörum milli EES og ESB. Allt er skammtað, jafnvel verslun með fisk er takmörkuð. Þar gildir fyrst og fremst eitt; ef ég klóra þér á bakinu verður þú líka að klóra mér. Enn höfum við þó frelsi til að versla við þjóðir utan ESB, þó með höftum. Varnarveggur ESB nær ekki bara til tollvarna, heldur eru ýmsar reglur settar til varnar innflutningi inn á ESB svæðið. Þekktast er sennilega CE merkingin, reglugerð sem tryggir að engar vörur má flytja inn á svæðið nema hafa fengið þá vottun. Jafnvel vörur sem eru mun betri og tryggari fá ekki slíka vottun nema gegnum kommissara ESB. Það getur reynst þrautin þyngri. Um þetta er ekki fjallað í EES samningnum, kemur síðar, er hluti þess sem kalla mætti pólitískt samstarf, enda einungis til þess gert að verja evrópskan iðnað. Undir þetta höfum við gengist. 

Frelsi á flutningi fjármagns. Eitt af aðalsmerkjum ESB er frjálst flæði fjármagns og átti evran að sjá til þess. EB, sem EES samningurinn var gerður við, hafði ekki þetta frelsi, enda hvert ríki með sinn eigin gjaldmiðil og eigi efnahagskerfi, sem oftar en ekki voru mjög ólík. Fyrir okkur hér á klakanum leiddi þetta frelsi til þess að landið var nánast sett á hausinn, er fjárglæframenn náðu tangarhaldi á bankakerfinu okkar. Ef ekki hefði komið til að við vorum enn utan ESB og gátum sett hérna bráðábyrgðarlög, væri Ísland orðin hjáleiga Bretlands og Hollands. Svo einfalt er það. Þetta frelsi getur aldrei gengið upp í svo fámennu landi sem Ísland er. Mun alltaf skaða okkur meira en hjálpa. Sumir vilja tengja þetta atriði við upptöku evru og telja að þannig sé hægt að lækka hér vexti. Upptaka evru verður aðeins hægt með inngöngu í ESB og allt tal um ágæti þess er hrein tálsýn. Hagkerfið mun alltaf ráða afkomu okkar, hver sem gjaldmiðillinn er. 

Að lokum er það frelsi á þjónustu. Lengi framanaf var þetta atriði EES samningsins lítt notað, eða þar til gerð var athugasemd um það. Síðan hefur sigið verulega á ógæfuhlið landsins okkar. Sem dæmi þarf að bjóða allar stærri framkvæmdir út á Evrópska efnahagssvæðinu, þ.e. innan allra EES/ESB ríkja, með ölllum þeim tilkostnaði sem því fylgir. Mörg verkefni, jafnvel verkefni sem ætluð eru til að styrkja innlendan hag, fara því úr landi. Verkefni sem verður að vinna hér, eru gjarnan unnin af erlendum verktökum, með erlent vinnuafl á erlendum lálaunum. Vissulega má segja að verkefnið sjálft verði með þessu hagkvæmara, en þjóðinni blæðir. 

Fjórfrelsið er innan EES samningsins. Því til viðbótar koma síðan hinar og þessar pólitísku reglur sem gera öllu atvinnulífi erfiðara fyrir, jafnvel svo að fyrirtæki hætta. Samkeppnisstaðan veikist. Og ekki má gleyma orkupökkunum. Eitthvað sem svo auðvelt var fyrir okkur að hafna strax í upphafi en hafa nú flækt okkur í net orkustefnu ESB, undir stjórn ACER. Á þessum grunni hefur nú verið settur upp svokallaður orkumarkaður hér á landi, þar sem innanvið 400.000 manns búa, í hlutfallslega stóru landi. Markaður þar sem menn geta hagnast af því einu að kaupa og selja orku. Þurfa ekki einu sinni skrifstofu, nóg að vera með snjallsíma. Þetta er algjörlega galið! 

Við Íslendingar búum að einum mestu verðmætum sem ein þjóð getur hugsað sér. Hreint loft, hreint vatn, ómenguð matvæli, bæði af landi og úr sjó og nánast endalausa hræódýra orku.  Og við erum búin að fara í gegnum þau orkuskipti sem aðrar þjóðir eru að berjast við í dag. Ef ekki væri fyrir EES samninginn, eða öllu heldur ranga framkvæmd hans, værum við ríkasta þjóð í heimi. Hefðum yfirburði á flestum sviðum er snýr að rekstri einnar þjóðar. 

Þessu var fórnað með EES samningnum og vilja sumir stíga síðasta skrefið í forina og aðlagast að ESB. Það er ekki um neinn samning að ræða varðandi inngöngu í ESB, einungis aðlögun, hversu lengi hún á að standa. Engar varanlegar undanþágur.  


mbl.is Fjárheimild veitt í þjóðaratkvæðagreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjaldan veldur einn er tveir deila

Viðhengd frétt sannar að samstarfsvilji til að ná sátt um þingslit er ekki til staðar. Þar bera bæði stjórn og stjórnarandstaða sök. 

Það var hins vegar nokkuð kuldalegt að hlusta á eintal svokallaðs álitsgjafa ruv um málið í gær. Þar fór hann enn og aftur út á þá braut að kynda undir virkjun þess ákvæðis er hann kallaði "kjarnorkugrein" þingskapa. Að forseti Alþingis, eða ákveðinn fjöldi þingmanna, gætu komið fram með tillögu um að mál væri útrætt og skyldi fara í atkvæðagreiðslu. Þessi "álitsgjafi" ruv hefur nú nokkrum sinnum bent á þessa leið, leið sem aftengir málfrelsið.

Þetta er óhugnanleg umræða. Að virkilega sé verið að ræða í alvöru að beita ákvæði sem einungis tvisvar áður hefur verið notuð. Í bæði skiptin meðan lýðræðið var ungt og enn í mótun. Afleiðingin varð að síðan hafa einungis vitfirringar nefnt þetta ákvæði, í alvöru. 

Þetta rökstuddi hann með því að segja að þingmeirihluti ætti ekki að sætta sig við vald minnihlutans. Að þjóðarvilji ætti að ráða. 

Þingmeirihluti er ekki kosinn af þjóðinni, nema að því uppfylltu að einn flokkur fái hreinan meirihluta. Þingmeirihluti er myndaður af flokkum eftir kosningar og þarf alls ekki að spegla meirihlutavilja kjósenda, einungis að formenn flokka nái saman um að mynda hann. Þurfa þeir þá oftar en ekki að gefa eftir af sínum kosningamálum og ræður þar ætið aflið. Þeir sem frekari eru ná fleiri málum inn en hinir veikari. Það er síðan þingmanna þessara flokka að ákveða hvort þeir samþykkja gjörning formannsins. Kjósendur ráða þar engu, enda búnir að afhenda sitt atkvæði, í góðri trú.

Bara sem dæmi þá var lítið rætt um áframhaldandi aðlögunarviðræður við esb, fyrir kosningar. Þó er þetta orðið aðalmál núverandi ríkisstjórnar, þrátt fyrir að einn stjórnarflokka hafi verið einlægur andstæðingur þeirrar vegferðar, allt frá stofnun til þess dags er hann komst að kjötkötlunum. Þjóðin fékk því ekki að sýna vilja sinn um það mál, þegar hún var að ráðstafa atkvæði sínu. 

Verkefni Alþingis er að setja lög, verkefni stjórnsýslunnar er að fara að þeim lögum. Sæki ráðherra eftir lagasetningu, þarf Alþingi að koma sér saman um hana. Eðli málsins samkvæmt er vald minnihluta lítið. Getur í raun einungis tafið mál, annað hvort þar til á þeim er gerð breyting sem þeir sætta sig við, nú eða þar til málið er tekið af málaskrá, frestað eða hætt. Þetta höfum við margoft séð í gegnum tíðina. Mál sem meirihluti vildi ná í gegn tekið og breytt eða frestað. 

Því er það ekki vald meirihlutans sem ræður, heldur samstaða þingsins. Þingmenn þurfa að komast að sátt. Allt annað er ofbeldi og einræðis tilburðir. Mun kljúfa þjóðina.

Því er háalvarlegt þegar rikisútvarpið sækir til sín álitsgjafa sem trekk í trekk nefnir ákvæði í þingsköpum sem ekki hefur verið beitt í meira en hálfa öld. Ákvæði sem afnemur málfrelsi innan Alþingis. Og ef rétt er hjá honum að forseti þingsins geti einn lagt fram þá tillögu, eða ákveðinn lítill hluti þingmanna, er málið enn alvarlegra. Þá hefur hann ekki getað skilgreint orðið malþóf, hvenær það hefst svo hægt sé að beita ákvæðinu. Er kannski hægt að beita þessu ákvæði strax á fyrsta degi umræðu?

Alla vega var stutt komið á umræðuna þegar hann nefndi þetta ákvæði fyrst. Í kjölfarið þótti forseta Alþingis ástæða til að koma fram í fjölmiðla og sagði að ekki væri enn hægt að tala um málþóf, einungis umræðu um málið. Snupraði þar álitsgjafa ruv. 

Og talandi um málþóf, þá hefur þingsköpum verið breytt nokkrum sinnum, til að hefta þingmenn í ræðustól. Ekki mörg ár síðan þingmenn gátu flutt ræður svo lengi sem þeir treystu sér til að standa í ræðustól. Sennilega á Hjörleifur Guttormsson þar metið, er hann hélt 11 klukkutíma ræðu í einni lotu. Ágætis ræðu. 

Málið er þó einungis eitt, þingmenn þurfa að komast að niðurstöðu. Þar er ekki við þá að sakast sem sagðir eru stunda málþóf, heldur einþykkni stjórnarliðsins, sem ekki vill neytt gefa eftir. Atvinnuvegaráðherra hefur margoft sagt það, bæði á þingi og í fjölmiðlum.

 

Bara svo það sé á hreinu þá tek ég ekki sérstaka afstöðu til þess fiskveiðifrumvarps sem mest er deilt um. Hef þar engra hagsmuna að gæta, þó ég skilji þá einföldu staðreynd að auknar skattaálögur, hverju nafni sem þær nefnast, draga ætíð úr hagvexti.

Mér er hins vegar umhugað um virðingu Alþingis, sem verulega hefur átt undir högg að sækja. Virðing Alþingis verður ekki unnin með einþykkni ráðherra og reyndar ekki heldur málþófstilburðum. Virðingin eykst með því einu að þingmenn hafi vit og kjark til að ná saman um mál. Þar skortir verulega á og ruv kyndir þar undir!

 


mbl.is Hver sáttahöndin upp á móti annarri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvískinningur Orkuveitu Reykjarvíkur

Það er erfitt að átta sig á stjórnun og siðferði OR. Fyrirtækið ætlar að loka fyrir umferð um Heiðmörkin, í nafni vatnsverndar. Á sama tíma vinnur fyrirtækið hörðum höndum að því að fá leyfi til að byggja og reka vindorkuver ofan vatnsverndarsvæðisins, inn á Hellisheiðinni. 

Reyndar, í ljósi þess að Landsvirkjun plataði þjóðina, sagðist ætla að byggja og reka vindorkuver ofan Búrfells, við innganginn að hálendinu, en var einungis að hjálpa erlendu fyrirtæki til þess verks, veltir maður óneitanlega fyrir sér fyrir hvaða erlenda aðila OR vinnur. Landsvirkjun mun ekki byggja né reka vindorkuverið við innganginn að hálendinu, um það mun þýskt fyrirtæki sjá. Hvaða erlenda fyrirtæki ætlar þá að byggja og reka vindorkuverið sem OR þykist ætla að reisa?

En hvað um það, mengunin er málið. Eins og fyrr segir á að loka fyrir umferð í Heiðmörk, í nafni vatnsverndar. Innar á heiðinni á að byggja vindorkuver og vindorkuver menga mikið. Vatn hefur þann eiginleika að renna niður í móti og því útilokað fyrir það að komast aðra leið til sjávar nema til norðurs og vestur. Gegnum vatnsverndarsvæðið að stórum hluta. 

Vindorkuver menga mikið. Hundruð lítra af olíu eru á gírkassa hverrar vindtúrbínu. Um þá olíu þarf að skipta reglulega og ekki óalgengt að við þá vinnu verði mistök sem valdi því að olía sleppi í jarðveginn. Þá er nokkuð algengt að þéttingar í þessum gírkössum gefi sig, með tilheyrandi mengun. 

Annað og verra er þó örplastmengun frá vindorkuverum. Framleiðendur og talsmenn vindorku gera gjarnan lítið úr þessari mengun, vitna í ótrúverðugar mælingar.

Ekki þarf annað en að skoða örlítið um hvað þetta mál fjallar. Spaðar vindtúrbínu eru gerðir úr trefjaplasti. Húðin er úr fíber. Þessi fíber eyðist upp og þegar komið er inn að trefjum verður túrbínan aflminni og spaðar hættulegir. Þá er skipt um spaðana.

Fíberinn eyðist semsagt af spöðunum. Hvert heldur fólk að hann fari og í hvaða mynd? Jú auðvitað út í náttúruna sem örplasti. Engin sjáanleg mengun er af þessu þrepi. Það er ekki fyrr en trefjarnar fara að flagna af sem mengun verður sjáanleg, en þá hefur mikið magn af örplasti fokið út í náttúruna. Um þetta þarf í raun ekki að deila, þó menn greini kannski á um magnið, enda erfitt að mæla örplastmengun svo vel sé. Jafnvel lægstu tölur framleiðenda er nóg til að gera skaða í náttúrunni, mikinn skaða. 

Örplast er talin ein hættulegasta mengun nútímans. Er ekki sjáanleg, lyktarlaus og yfirleitt útilokað að verða var við hana. Að auki erfitt að mæla hana. Örplast getur ferðast langa leið áður en hún fellur til jarðar. Eftir að örplast fellur til jarðar fer sumt af því í jarðveginn og þaðan í gróður og síðan upp fæðukeðjuna. Annað mun með tímanum sökkva dýpra og ná grunnvatni. Þaðan fer það til sjávar, með viðkomu í vatnsbólum okkar. Þá fer hluti örplastsins beint til sjávar, nær ekki að setjast á jörð. Þegar það kemur til sjávar fer það sömu leið upp fæðukeðjuna og endar á matborði okkar. Með þeim mat drekkum við svo örplastmengaða vatnið úr vatnsbólunum.

Auðvitað væri sjálfsagt hægt að smíða spaða á vindtúrbínu úr varanlegra efni en plasti. Kostnaðurinn væri þá óheyrilegur. Jafnvel þó ódýrustu og verstu hráefni séu notuð í spaðana, er kostnaður við byggingu og rekstur vindorkuvers meiri en innkoma, jafnvel þar sem orkuverð er mun hærra en hér á landi. Eru rekin á styrkjum og niðurgreiðslum. 

Af þessari ástæðu einni saman, örplastmengun, ætti að banna með öllu vindorkuver af þeirri tækni sem nú er beitt. Minnsta örplastmengun er viðbót við þann skaða sem þjóðir standa frammi fyrir af þeirri mengun nú þegar. Ljóst er að verið er að fela þennan vanda með keyptum niðurstöðum og á mannkynið sennilega ekki margar aldir eftir á jarðkringlunni haldi fram sem horfir.

Náttúrunni verður ekki bjargað með því að fórna henni


Hrossakaup

Jæja, nú virðist þingheimur vera að hefja sín árlegu hrossakaup. Hver fær hvað og hver ekki. Í þessum kaupum fer enginn sáttur frá borði, en þó enginn með neinum skaða. Vinnuveitendur þeirra, við þjóðin, komum til með að bera hann, sem áður.

Tvö mál eru stjórnarliðum hugleikin, að hækka veiðigjöld og binda okkur enn fastar við ESB með samþykkt bókunar 35 við EES samninginn. Fyrra málinu hefur einkum verið mótmælt af sjöllum, meðan Miðflokkur hefur tekið að sér að standa vörð sjálfstæðisins. Til fróðleiks var einn stjórnarflokkanna mjög einarður gegn þessum málum fyrir kosningar, þó það sé gleymt nú.

Efnislega ætla ég ekki að fara í gegnum þessi tvö mál, allir sem vilja ættu að þekkja þau nokkuð vel, eftir langar umræður á þingi. Þó verður að segja að auknar álögur hafa aldrei aukið hagvöxt, þvert á móti. 

En þessi tvö mál eru í eðli sínu mjög ólík. Auknar álögur á ákveðna atvinnugrein er eitthvað sem hægt er að draga til baka, ef vilji þings er til þess. Hinu verður ekki svo auðveldlega aftur snúið, frekara aflát fullveldisins. Það mun standa um ókomna tíð.

Því er mikilvægt að í þessum hrossakaupum þingheims, verði ekki gefið eftir af sjálfstæðinu, að frekar verði látið undan í skattaálögum. Það má leiðrétta síðar. 


mbl.is Samningaþóf á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valkyrjurnar kikna í hnjánum fyrir framan Trump

Það leynir sér ekki aðdáun valkyrjanna á Trump. Önnur sagt hann vera heillandi og fágætt bros fer um varir hinnar. Vantar bara þá þriðju til að syngja eina vögguvísu fyrir hann.

Það er annars hið besta mál að ráðafólk okkar skuli taka forseta Bandaríkjanna í sátt, enda öflugasta ríki okkur til varna ef á þarf að halda. Hernaðarmáttur esb ríkja segir þar lítið. Þó Trump sé eins og hann er, gamall egóisti sem komst til valda með auð sínum, mun hans tími verða stuttur í veraldarsögunni. Aðrir munu taka við og mikilvægt fyrir okkur, sem örþjóð, að spilla ekki sambandinu í vesturátt.

Það er líka gleðilegt að ríki esb skuli nú loks ætla að leggja fram sitt framlag til NATO, en það var krafa Trump á hans fyrra kjörtímabili og aftur þegar hann komst til valda í vetur. Einföld krafa um að staðið yrði við þann samning. Loks nú ætla Evrópuríki að uppfylla hann. Þar með er búið að eyða þeirri vá sem virtist ætla að raungerast, að slit yrðu á milli gömlu og nýju þjóða hins vestræna heims. 

Það er hætt við að kalt vatn renni milli herðablaða Pútíns. Það sem hann sá sem auðvelda bráð er nú ekki eins auðveld. Ekkert er lengur sem heftrar því að stærsta og öflugasta herveldið komi vinaþjóðum sínum til hjálpar, verði á þær ráðist. 5. greinin er orðin virk aftur. 

Við íslendingar höfum verið þeirrar gæfu njótandi að vera herlaus þjóð. Við höfum því verið undanskilin þeirri kvöð að þurfa að greiða fullt gjald til hermála. Það virðist standa. Vonandi ber okkur gæfa til að vera herlaus um alla framtíð. En til að svo megi verða, verðum við að halda góðu sambandi við vinaþjóðir okkar, jafnvel þó trúðar nái völdum um skamma stund. 

Þá verða íslenskir ráðamenn að fara að átta sig á því að okkar hlutverk í heimsmálum er ekkert. Við eigum ekki að skipta okkur af vopnaskaki stórþjóðanna. Þar getum við ekkert lagt til annað en andlegan stuðning, sem dugir skammt gegn blýi. Það er kominn tími fyrir íslenska ráðamenn að fara að vinna þá vinnu sem þeir voru kosnir til, að stjórna Íslandi. 


mbl.is Kristrún: „Sterkasta varnarbandalag í heiminum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvalreki

Fyrir ekki svo mörgum árum síðan hefði þessi hvalreki verið talin mikil verðmæti. Fólk hefði keppst við að bjarga sem mestum verðmætum í land.

Í dag eru verðmætin metin á annan veg. Nú felst björgunin í því að koma þessum skepnum aftur frá landi, til þess eins að þær syndi aftur í strand. 

Og kannski er rétt að benda á að hvalreki er eign landeigenda, með þeim undantekningum er kirkjur eða biskupar hafa rænt til sín þeim eigum landeigenda. Alla vega hefur enginn annar en eigandi hvalrekans heimild til að ákveða hvernig með hann skuli farið.


mbl.is „Ótrúlegar“ björgunaraðgerðir í Ólafsfirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Popúlismi Kristrúnar

Hún er farin að taka á sig undarlega mynd þessi svokallaða jafnaðarstefna. 

Engin áhöld eru um að orkuverð til húshitunar er mun hærra á köldum svæðum en heitum, að raforkuverð er komið í þær hæðir að illmögulegt er að hita heimili með þeim orkugjafa. Verð á heitu vatni hefur einnig hækkað, þó ekki til jafns við raforkuna. Þennan aðstöðumun þarf auðvitað að jafna. Að valin skuli sú leið að hækka verð á hitaveitu er kannski ekki rétta leiðin. Reyndar eins vitlaus og hugsast getur. Nær að setja þak á raforkuverð til heimila og minni fyrirtækja. Einnig mætti hætta með þann orkumarkað sem orkustefna ESB hefur leitt af sér hér á landi. Fámenn þjóð í stóru landi með lokað raforkukerfi, ber ekki markaðsvæðingu. Ber ekki að einhver geti haft hagnað af því einu að kaupa og selja raforkuna. 

Það er sífellt að koma í ljós betur og betur hvert þessi frostríkisstjórn er að leiða þjóðina. Í nafni jöfnunar eru skattar hækkaðir, oftast án rökstuðnings. Hækkun skatta hefur alla tíð leitt af sér minni framleiðni. Þetta ætti fyrrum bankastarfsmaðurinn Kristrún að vita. 

Enn frekari tenging við ESB er baráttumál ríkistjórnarinnar, þó formaður jafnaðarmanna hafi afneitað þeirri för fyrir kosningar og einn af stjórnarflokkunum hafi barist gegn þeirri vegferð, allt þar til sá flokkur komst til valda. 

Á sjálfan þjóðhátíðardaginn flutti Kristrún þjóðinni þær fréttir að hún hugnaðist tvennar kosningar um aðild okkar að ESB. Fyrst kosið um hvort halda ætti áfram samningaviðræðum við sambandið um inngöngu og síðan þegar samningur lægi fyrir, kosið um hann. Kristrún er enginn hálfviti, þó greinilegt sé að hún telji kjósendur vara það.

Það hafa aldrei verið neinar samningarviðræður við ESB um inngöngu Íslands í sambandið. Hins vegar hófust aðlögunarviðræður um það málefni sumarið 2009, án þess að þjóðin fengi þar neina aðkomu. Þær viðræður strönduðu þegar kom að því að aðlaga sjávarútveg og landbúnað við regluverk ESB. Það hefur margoft komið fram af hálfu fulltrúa ESB og stendur ritað í Lissabonsáttmálanum, að þjóð sem óskar inngöngu í sambandið verður að aðlaga sig að fullu að regluverki sambandsins. Engar varanlegar undanþágur eru til umræðu en hægt að fá einhverja frestun á einstökum veigaminni þáttum. 

Því þarf ekki tvennar kosningar, einungis einar, um hvort við viljum halda áfram aðlögun að ESB sem að lokum mun leiða til aðildar að sambandinu. Að halda fram að um einhverjar samningarviðræður sé að ræða er fráleitt og það veit Kristrún. Einungis viðræður um hversu hratt eða hægt við ætlum að aðlaga regluverk okkar að regluverki ESB.

Ef eitthvað gæti kallast popúlismi þá eru það orð Kristrúnar að kveldi þjóðhátíðardagsins, fer fram með fullyrðingu sem hún veit að er röng, til að auka eigin vinsældir. Það sama má segja um orð hennar í viðtengdri frétt. Þar er hún á fundi á köldu svæði, þar sem fólk vill réttlæti. Það fólk vill heyra orð eins og jöfnun húshitunar, er hins vegar ekkert að spá í hvernig sú jöfnun mun fara fram. Kristrún myndi aldrei segja á fundi í Reykjavík að hún ætlaði að hækka húshitunarkostnað borgarbúa til að jafna við háan hitunarkostnað víða á landsbyggðinni. Það væri ekki vænt til fylgis. Hins vegar gleymir Kristrún þeirri staðreynd að fréttir berast fljótt. 

Að jafna hlut landsmanna er hið besta mál, sér í lagi þegar um grunnþjónustu er að ræða, en sá jöfnuður verður að vera til hagsældar, ekki bölvunar. 

Stundum er líkast því að maður sé staddur í Ameríkuhreppi, þar sem yfirlýsingar og gífuryrði fljúga úr munnum ráðamanna, sem aldrei fyrr. Þann tíma sem ríkisstjórn Kristrúnar hefur starfað hafa orð og æði formanna stjórnarflokanna, einkum þó Samfylkingar og Viðreisnar, verið ærið nærri því sem er að gerast þar westra.


mbl.is Auðlindagjald á hitaveitu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjófnaður varðar við lög

Að sækja fé í vasa annarra kallast þjófnaður. Lífeyrissjóðir launafólks er í eigu þess, ekki ríkisins. Um það þarf vart að deila. 

Kjör aldraðra og öryrkja eru skammarleg hér á landi. Einn flokkur umfram aðra hefur haldið uppi málflutningi þessara hópa. Sá flokkur kennir sig við fólkið í landinu og situr nú í ríkisstjórn. Aldrei nefndu frambjóðendur þess flokks að meiningin væri að fara ránshendi á hendur annars þessara hópa, til að bæta hag hins. 

Lífeyrisréttindi launafólks eru heilög og má ekki skerða. Þau veita fólki rétt í samræmi við vinnu og launakjör á starfsævi hvers sjóðsfélaga. Þegar þetta kerfi var stofnað, var skýrt haldið fram að sjóðsgreiðslur ættu ekki að skerða aðrar greiðslur frá ríkinu. Þessir sjóðir áttu að vera viðbót. Því miður hefur ekki verið staðið við það að hálfu ríkisins.

Nú ber hins vegar annað við. Ríkið telur sig geta gengið í þessa sjóði til að fjármagna hálft kosningaloforð eins stjórnarflokkanna. Ætlar að ræna launafólkið lögmæddri eign þess. Þetta er algerlega ný aðferðafræði og mun auðvitað, ef af verður, verða lagt fyrir dómstóla.

Þjófnaður varðar við lög.


mbl.is Örorkulífeyrir bitni ekki á ellilífeyrinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bókun 35, hvers vegna nú?

Enn er bókun 35 komin til Alþingis og enn er okkur sagt að mikið liggi við, jafnvel sjálfur EES samningurinn. 

Það eru nú liðin 33 ár frá samþykkt Alþingis á EES samningnum, með minnsta mögulega meirihluta þingmanna og án aðkomu þjóðarinnar. Vitandi vits var bókun 35 haldið utan samningsins, enda ljóst að sú bókun væri hreint brot á stjórnarskrá okkar. Um það voru allir löglærðir menn sammála, þó deilt hafi verið um hversu mikið samningurinn að öðru leyti gengi gegn stjórnarskránni. 

EB nú ESB, samþykkti þessa afgreiðslu og lengi framanaf var ekki gerð athugasemd við hana. Jafnvel í tíð Jóhönnustjórnar, þegar Össur dvaldi löngum stundum í höfuðstöðvum sambandsins, við þá iðju að koma landinu undir yfirráð ESB, heyrðist ekki orð um þessa bókun, a.m.k. ekki opinberlega. 

Það er því undarleg árátta krata og sjálfstæðiskrata, áherslan á þetta mál. Jafnvel haldið fram að 33 ára hamall samningur sé í uppnámi. Gott og vel, er ekki bara kominn tími til að taka upp þann gamla samning, gera á honum þær bætur sem þarf?  Frá samþykkt hans hefur margt breyst. Kannski stærst breytingin eðli og tilgangur mótherja okkar að þeim samningi. 

Eins og áður segir var samningurinn gerður við Efnahagsbandalag Evrópu, EB. Skömmu eftir undirritun samningsins var gerð mjög dramatísk breyting á samstarfi þeirra þjóða er tilheyrðu EB. Gerðu nýtt samkomulag þeirra á milli um enn frekari samruna og samstarf á pólitíska sviðinu. Þá varð til Evrópusambandið, ESB. Síðan hefur það eflst mjög á pólitíska sviðinu og við orðið að taka við hinum ýmsu tilskipunum á því sviði. Þó var þessi samningur einungis um viðskipti þegar Alþingi samþykkti hann. Því er full ástæða að taka hann upp, átti auðvitað að gera það við eðlisbreytinguna sem aðildarríki EB/ESB samþykktu á sinum tíma. 

Í vitengdri frétt heldur þingmaður Samfylkingar því fram að einhugur innan ríkisstjórnar sé um samþykkt bókunar 35. Þetta er mjög merkilegt, ef satt er. Flokkur fólksins hefur gegnum tíðina verið mjög andvígur bókunnar 35. Einn ráðherra flokksins einn ötulasti talsmaður gegn þeirri bókun og bent á það augljósa að engin breyting hafi verið gerð á stjórnarskrá sem heimilar samþykkt þessarar bókunar. Hún er jafn mikið brot á stjórnarskrá nú og vorið 1992. Hvernig ætlar Ff að útskýra fyrir sínum kjósendum þessa umpólun, þessi sviknu kosningaloforð?

En hvers vegna núna? Það er stóra spurningin. Hvað veldur því að EES samningurinn er í hættu nú, 33 árum eftir samþykkt hans. EB samþykkti á sínum tíma samninginn, eftir afgreiðslu Alþingis, án bókunar 35. Hvað hefur breyst?

Er þetta kannski frekar eitthvað innanlandsmál? Eitthvað sem kratar og sjálfstæðiskratar sjá sér hag í? 

Þegar síðustu sneiðar salamipylsunar er skornar eru puttarnir í hættu. Að ekki einungis að síðasta sneiðin verði skorin, heldur einnig framanaf fingrum sér.


mbl.is Einhugur innan ríkisstjórnarinnar um bókun 35
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vindorka og vegakerfið

Loks er Vegagerðin að átta sig á komandi vanda, vanda sem er af þeirri stærðargráðu að segja má að sé óleysanlegur. Flutningar um vegakerfið vegna bygginga vindorkuvera.

Framhjá þessum vanda er vandlega skautað í öllum skipulagsáætlunum vegna vindorkuvera, þeir sem þau hyggjast byggja telja hann utan þeirra skyldu. Þó hefur gjarnan verið bent á þennan vanda í athugunarsemdum við þær skipulagsáætlanir sem fram hafa verið lagðar, þó Vegagerðin sjálf hafi lítt haft sig frammi í þeim athugasemdum. 

Þessi vandi er stór, mjög stór. Vegakerfið okkar ber ekki þá umferð sem um það fer í dag, hvort heldur þar er talað um sjálfan hringveginn eða aðra minna berandi vegi. 

En hvað er verið að horfa á varðandi byggingu vindorkuvera? Ef við skoðum fyrst lengdina þá er ljóst að spaðar vindtúrbínu eru nærri fjórum sinnum lengri en leyfð heildarlengd ökutækis, þrír fyrir hverja vindtúrbínu sinnum fjölda þeirra í hverju vindorkuveri. Ef horft er til breiddar er ljóst að stór hluti vindtúrbínuhluta fellur utan leifðrar heildar breiddar. Þessi tvö atriði hafa þó ekki bein áhrif á vegakerfið sem slíkt en mun hafa mjög mikil áhrif á aðra umferð um það. Sjaldnast hægt að vísa umferð aðra leið meðan á svona stórflutningum stendur.

Þyngd er hins vegar nokkuð annað mál sem hefur bein áhrif á vegakerfið sjálft. Þar er um stærðir að ræða sem ekki er með nokkru móti hægt að leggja á vegakerfið, ekki bara vegna skaða sem slíkur flutningur getur valdið á því, heldur einfaldlega af öryggisástæðum. Óafturkræf stórslys geta orðið og jafnvel mannlíf í húfi. Sumir stakir hlutir vindtúrbínu, sem koma þarf frá skipi á byggingarstað geta vegið allt að 100 tonnum, margföld sú þyngd sem er að leggja vegakerfið okkar í rúst í dag. Mjög þungir kranar þurfa að komast á staðinn, til að reisa megi hverja vindtúrbínu. Þeir falla ekki af himnum ofan. Fjöldi þessara ofurþungu flutninga ræðst af fjölda vindtúrbína í hverju vindorkuveri, en verður alltaf töluverður.

Þar fyrir utan mun síðan fjöldi ökutækja með "löglegan" farm verða gríðarlegur. Öll sú umferð þarf að fara um okkar lélega vegakerfi. Þar má nefna sem dæmi flutning á steypu i sökkla vindtúrbína. Ekki er fjarri að 170 lestaða steypubíla þurfi fyrir hverja vindtúrbínu, 1700 ef um 10 vindtúrbínu vindorkuver er að ræða 3400 lestaða steypubila ef vindorkuverið telur 20 vindtúrbínur. Auðvitað má setja upp steypustöð á byggingarsvæðinu en þá þarf sambærilega flutninga á hráefni til hennar. Reyndar hvergi minnst á þann möguleika í skipulagsáætlunum.

Það er því ljóst að álag á vegakerfið eykst mjög mikið, mun meira en það getur borið. Einnig er ljóst að stakir flutningar eru af þeirri þyngd að hættulegt er að leggja þá á vegina. Því þarf að endurbyggja vegina frá höfn að byggingarsvæði, frá grunni. Eins og áður segir telja þeir sem vilja byggja hér vindorkuver þetta vera utan þeirra skyldu. Líta svo á að þetta sé vandi landsmanna, skattgreiðenda.

Nú er þýskt fyrirtæki, undir skjóli Landsvirkjunar, byrjað að byggja fyrsta risa vindorkuverið á Íslandi. Það er staðsett við innganginn inn á hálendið okkar. Vegagerðin er nú að vakna upp af þeirri martröð að þurfa að tryggja flutninga frá uppskipunarhöfn á byggingastað, flutninga af stærðargráðu sem áður er óþekkt. Líklegt er að flestum hlutum vindorkuversins verði skipað a land í Þorlakshöfn. Landleiðin þaðan upp á hálendið er ekki tilbúin fyrir þessa flutninga og segja má að fyrsti kaflinn sé kannski verstur, þ.e. frá Þorlakshöfn upp á hringveg austan Selfoss. Sá vegur er um erfitt mýrarsvæði með þegar ónýtum vegum. Mjög kostnaðarsamt eða jafnvel útilokað að leggja þar veg sem mun bera þennan ógurlega þunga. 

Kannski hefði átt að skoða þessa þætti betur og fyrr. Kannski hefði Vegagerðin átt að vera vakandi og fylgjast með, benda á ómöguleikann.

 

Náttúrunni verður ekki bjargað með því að fórna henni.


mbl.is Stórfelld áhrif uppbyggingar vindorku á vegakerfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband