Græðgisfálkarnir

hqdefault

 

Það er aldeilis stór undarlegt að grasrót stæðsta stjórnmálaflokks landsins skuli, á miðju kjörtímabili, þurfa að segja ráðherrum sínum fyrir verkum og minna þá á samþykktir flokksins. Slíkt verk ætti auðvitað að vera í höndum formanns flokksins, en þegar hann er genginn til liðs við þá sem markvisst vinna að því að svíkja stefnuna, er grasrótin ein eftir. Víst er að núverandi forusta Sjálfstæðisflokks þarf að endurskoða framferði sitt, vilji þeir vera áfram innan þessa flokks.

Annars er umræðan um þriðja orkumálapakka ESB og innleiðing hans hér á landi, ákaflega undarleg. Rætt er um hversu slæm þau áhrif verða, mikil eða lítil. Einstaka hjáróma rödd vill þó meina að áhrifin verði jafnvel engin.

Ekki hefur nokkur maður komið fram með rök fyrir því að áhrif pakkans gætu að einhverju leyti verið góð fyrir þjóðina, nýst henni á einhvern hátt.

En auðvitað er á flestum málum tvær hliðar. Það vefst fáum hugur um að áhrif pakkans á þjóðina eru heilt yfir slæm, enda yfir 90% þjóðarinnar á móti samþykkt hans, jafnvel margir hörðustu ESB andstæðingar geta illa samþykkt þennan orkupakka. Þó er til lítill hópur manna, svokallaðir græðgisfálkar, sem sjá sér hag í samþykkt pakkans. Þeir bíða þess með stjörnur í augum að fá keyptan hlut í fjöreggi þjóðarinnar, Landsvirkjun.

Eitt atriði af fjölmörgum sem orkupakkinn mun gefa af sér er að hér verður stofnað sérstök stofnun, til að setja reglur og fylgjast með að þær séu hafðar í heiðri. Sú stofnun mun ekki vera undir Alþingi eða ríkisstjórn sett, heldur hlíta fyrirmælum frá ACER, yfirstofnun orkumála ESB.

Þessi nýja stofnun mun m.a. fylgja eftir að "frjáls markaður" með orku verði í heiðri hafður hér á landi. Því mun fljótt koma krafa um að Landsvirkjun, sem er ráðandi á íslenskum orkumarkaði, verði skipt upp í smærri einingar og að ríkið láti af hendi alla eign á þeim fyrirtækjum. Orkuveita Reykjavíkur mun fljótlega fara sömu leið.

Þessu bíða fálkarnir eftir og því miður virðist þeir ná vel til æðstu stjórnenda landsins. Þar liggur skýringin á því hvers vegna forusta þeirra tveggja stjórnmálaflokka sem sitja í ríkisstjórn og eru með í farteski sínu samþykktir sinna æðstu stofnana um að samþykkja ekki orkupakkann, er svo áfram um að reyna að gera lítið úr slæmum áhrifum orkupakkans á þjóðina. Þeir þurfa að þóknast sínum.

Þegar verið er að ræða orkumál heillar þjóðar á sú umræða ekki að snúast um hvort áhrifin eru bara slæm eða mjög slæm. Sú umræða á að snúast um hversu góð áhrifin geti orðið og ekkert annað. Finnist engin góð áhrif, er óþarfi að ræða málið frekar!!

 


mbl.is Flokkurinn hafni orkupakkanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband