Færsluflokkur: Samgöngur

Vanhæfni í rekstri olíufélaga?

Grátklökkur forstjóri eins af olíufélögum þessa lands mætti í viðtal á sjónvarpsrás rúv í gærkvöldi. Taldi hann illa vegið að olíufélögunum hér, sér í lagi af hálfu framkvæmdastjóra FÍB.

Forstjórinn sagði að hér á landi væri einungis notað hreint eldsneyti og að skattar væru háir. Því væri alls ekki hægt að bera saman eldsneytisverð hér á landi við verð á eldsneyti erlendis. Við þessa er ýmislegt að athuga. 

Erlendis er eingöngu hreinsað eldsneyti selt af dælum, enda fáir bílar, ef einhverjir, búnir getu til að aka á óhreinsuðu eldsneyti. Því er sá samanburður vel hæfur. Um skatta er það að segja að t.d. í Danmörku, en verð eldsneytis þar var grunnur að fréttatilkynningu FÍB, eru skattar sambærilegir við það sem hér er. Því er sá samanburður einnig vel hæfur.

Þó keyrði um þverbak þegar forstjórinn var þráspurður um fákeppni olíufélaganna. Það taldi hann fráleitt, enda fjögur olíufélög í landinu og fimmti eldneytissalinn að auki. Samt sagði hann að öll þessi olíufélög sem sæju um innflutninginn, versluðu við sama birgja erlendis. Hver er þá samkeppnin?

Þá er spurning hvað breyttist við covidið. Var olían eitthvað minna hreinsuð fyrir það? Skattar hafa vissulega hækkað, rétt eins og í Danaveldi og samkeppnisstaðan hér er söm. Þó er álagningin nú margfalt meiri en hún var fyrir covid.

Eftir stendur að hagnaður olíufélagana hér hafa dregist saman um helming, að sögn forstjórans. Ef svo er, þegar séð er svo ekki verður um villst að álagning þeirra hefur aukist til muna, er ekki nema eitt í stöðunni.

Íslensku olíufélögin eru rekin af vanhæfu fólki!


Borgarlína, ætt út í dauðann

Það kemur svo sem ekki á óvart þó kostnaður við svokallaðan samgöngusáttála á höfuðborgarsvæðinu hækki. Þegar ætt er af stað í verkefni sem enginn veit í raun hvert er eða hvað mun kosta, eru áætlanir lítið annað en hugarburður. Oft settar fram eins lágar og mögulegt er, svo koma megi verkefninu í gang. Það er jú erfiðara að hætta við hafið verk en að byrja á nýju. Á þetta var bent af fjölmörgum aðilum, áður en ákvörðun um verkefnið var tekin, en ráðamenn þjóðarinnar hlustuðu ekki.

Samgöngusáttmálinn er að sjálfsögðu um það að koma á gamaldags borgarlínu um höfuðborgarsvæðið. Verkefni sem er algerlega ofvaxið sveitarfélögum á svæðinu og því nauðsynlegt að fá ríkissjóð að málinu. Til þess var sett einskonar framkvæmdabann á allar framkvæmdir varðandi þann hluta gatnakerfisins sem ríkið ber ábyrgð á. Þannig var hægt að nauðga ríkinu til að taka þátt í verkefninu, með loforði um að liðka skildi fyrir þeim framkvæmdum er taldar voru nauðsynlegar á stofnvegum svæðisins.

Kostnaður við áætlaðar framkvæmdir á stofnvegakerfinu á svæðinu er nokkuð ljós, þ.e. sá þáttur er snýr að ríkissjóð. Það sama verður þó ekki sagt um kostnað við borgarlínu. Því kemur á óvart að einn liður þeirra verkefna, sem nokkuð ljóst lá fyrir hvað kostaði, skuli hækka um allt að 15 milljarða króna, bara rétt sí svona. Ástæðan er þó skýr, það á að fórna mislægum gatnamótum fyrir stokk.

Bergþór Ólafsson kom í pontu Alþingis og taldi kostnað vegna sáttmálans vera kominn 50 milljarða yfir áætlun. Fljótlega kom Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna í fjölmiðla og sagði kostnaðinn "einungis" vera kominn 17 milljarða yfir áætlun. Þar munaði mestu um að í stað mislægra gatnamóta skyldi setja Sæbraut í stokk og að það hefði alltaf legið fyrir. Ég spyr nú eins og fávit, ef það lá alltaf fyrir, hvers vegna var stokkurinn þá ekki inni í upphaflegu áætlunum? Ef ein stök framkvæmd hoppar upp um 15 milljarða króna (15.000.000.000), hvað mun þá öll borgarlínan kosta? Er verið að búa til fordæmi? Heyrst hefur að sumum langi í neðanjarðarlestir. Lá það kannski fyrir frá upphafi líka?

Hvort kostnaður hefur hækkað um 50 milljarða eða 17 milljarða breytir ekki svo miklu. Hvoru tveggja hækkun um peninga sem ekki eru til. Hins vegar má fyllilega gera athugasemd þegar 0 hoppar upp í 17.000.000.000. Þar stendur hnífurinn í kúnni, eða öllu heldur vösum landsmanna, því þetta fé kemur jú úr þeim, með einum eða öðrum hætti.

Hvað sem öllu líður, þá er ljóst að ekki verður lengra haldið á þessari braut. Stofnun félagsins Betri samgangna voru mistök, vald þessa félags er allt of mikið og ljóst að framkvæmdastjóri þess hefur ekki hundsvit á peningum eða hvernig skuli með þá farið. Ég sagði áður að erfitt væri að hætta við hafið verk. Það er þó ekki útilokað og stundum nauðsynlegt. Þegar komið er út í kelduna og fyrir séð að hún er dýpri og verri en ætlað var, er snúið til baka, ekki ætt út í dauðann!


mbl.is Margra anga kolkrabbi sem þarf að beisla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

EGO borgarstjórnar reynist landanum dýrkeypt

Íslenskir fjölmiðlar eru pólitískir í sínum störfum, um það verður ekki deilt. Sumir stjórnmálamen og stjórnmálaflokkar eiga hægara með að koma sínum málum á framfæri en aðrir, það á einnig við um ýmsa hópa í samfélaginu. Fréttamenn eru fljótir til að flytja hvaða vitleysu sem er, ef það kemur úr hálsi "réttra" manna og þegar sum málefni eru til umfjöllunar eru tilkallaðir "sérfræðingar" sem styrkja fréttir fjölmiðla. Aðrir stjórnmálamenn komast ekki að, jafnvel þó þeir komi fram með málefni sem rík þörf er fyrir þjóðina að fá fréttir af.

Síðastliðinn þriðjudag (31/1) steig þingmaður í pontu Alþingis og lagði spurningar fyrir innviðaráðherra. Þær spurningar sneru að borgarlínu og samgöngusáttmála Alþingis við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, um þá staðreynd að nú þegar hefðu áætlanir um þau verkefni hækkað um 50 milljarða króna og að einn einstakur liður þeirra hækkað úr 2,74 milljörðum upp í 17,72 milljarða, eða um 15 milljarða, Það gerir að sá einstaki liður áætlunarinnar hækkar um 650%. Enginn fjölmiðill, ekki einn einasti, hefur flutt fréttir af þessari umræðu á Alþingi, enda viðkomandi þingmaður ekki í náð fréttamiðla.

Um fyrirspurnina og fátækleg svör ráðherra má lesa í tenglum hér að neðan, en kannski það sem mest kom á óvart var að það virðist sem búið sé að færa fjárveitingarvaldið frá Alþingi yfir til Betri samgangna og einhvers stýrihóps sem í sitja ráðherrar og forsvarsmenn sveitarfélagana á svæðinu. Að sá hópur geti sóað fjármunum ríkissjóðs að eigin vild, án afskipta Alþingis. Sumir segja stjórnarskránna ónýta, en þar kemur þó skýrt fram að fjárveitingarvaldið liggur hjá Alþingi og engu fé megi eyða úr sjóðum ríkisins nema með samþykki þess.

Einhverjum kann að finnast þetta lítil frétt, sérstaklega vegna þess hver stingur á kýlinu. En þetta er engin smáfrétt. Fyrir utan þann augljósa sannleik að Vegagerðin er stórkostlega fjársvelt, getur ekki haldið við vegakerfinu um landið, svo börn sem keyrð eru til skóla vítt um landið mæta þangað ælandi eftir torfærur ferðarinnar, nefni sem dæmi Vatnsnesveg, þá er 50 milljarða hækkun borgarlínuverkefnis ekki nein smá upphæð. Munum að í fyrstu var talað um að kostnaður yrði um 70 milljarðar.

Það er ekki eins og ríkissjóður sé að springa undan peningum og ekki eru sveitarfélögin betur sett, sér í lagi sjálf höfuðborgin. Því verður að sækja þessa peninga með einhverjum hætti til landsmanna. Ef við gefum okkur að þessari upphæð yrði bara skipt jafnt á hvert mannsbarn í landinu, mun þessi kostnaðarauki þýða kostnað fyrir hverja fjögurra manna fjölskyldu upp á rúmlega hálfa milljón króna. Upphæðin yrði töluvert hærri ef einungis íbúar höfuðborgasvæðisins tækju hana á sig en það verður auðvitað ekki. Þetta eru ekki neinir smáaurar!

Þessi frétt á fullt erindi í fjölmiðla og þeir verða að hætta sínu dekri við pólitíkina. Fjölmiðlar eiga að flytja fréttir. Þar er auðvitað ruv sekast, þar sem sá fréttamiðill er í eigu landsmanna og rekinn fyrir fé sem hvert mannsbarn þarf að greiða, hvort sem vilji er til eða ekki. Aðrir fjölmiðlar eru reknir á öðrum grunni og kannski viðkvæmari fyrir þeirri hönd sem fæðir þá.

Hér má svo sjá umræðuna:

Fyrirspurn 

Svar ráðherra 

Svar við svari ráðherra


Kostnaðaráætlun

Það er nokkuð kómískt að lesa í upphafi hvers árs hversu langt yfir kostnaðaráætlun snjómokstur fer. Þetta á bæði við um ríki og sveitarfélög. Þessar fréttir hafa verið nær árvissar nú um langt skeið, sama hversu snjóþungt er.

Flestir reyna að gera sér í hugarlund hvernig bókhaldið mun ganga upp, fyrir hvert ár. Heimili, fyrirtæki sveitarfélög og ríkissjóður, þurfa að hafa einhverja hugmynd um rekstur komandi árs og gera því kostnaðaráætlun. Reyndar er kannski ekki slík áætlun sett á blað varðandi heimilisrekstur, er meira í höfði fólks, svona almennt. Fyrirtæki, sveitarfélög og ríki verða hins vega að hafa formið nokkuð fastara.

Í heimilisrekstri er nokkuð ljóst hver innkoman er og einnig föst gjöld. Matarkostnaður, húsaleiga eða afborganir húsnæðislána, rekstur bifreiðar og svo framvegis, er nokkuð fastur rekstrarliður heimila, þó sífellt hækkandi. Annar kostnaður eins og bilanir heimilistækja, veikindi og fleira, er aftur kostnaður sem erfiðara er að ráða í. Þann kostnað er jafnvel útilokað að áætla og flestir sem láta þar skeyta að sköpum, taki á þeim vanda eftir þörfum.

Varðandi fyrirtæki þá verður málið örlítið erfiðara. Þar geta tekjur orðið mismunandi og gjöld sveiflast, þó ekki alltaf í takt. Eftir sem áður þurfa fyrirtæki að koma saman einhverri vitrænni kostnaðaráætlun og notast þá gjarnan við söguna, þ.e. rekstur fyrri ára. Auk þess að spá í komandi ár. Sumum tekst nokkuð vel við þessa áætlanagerð og skila sínu búi nærri því sem ætlað var, en öðrum gengur verr.

Þegar kemur að sveitarfélögum og ríkissjóð virðist annað vera upp á teningnum. Þar standast áætlanir sjaldnast. Tekjur gjarnan ofætlaðar og gjöld vanætluð. Þetta á jafnt við um svokallaðan fastan kostnað sem og ófyrirséðan. Eitt er þó sammerkt með bæði ríki og sveitarfélugum, þau vanáætla snjómokstur á hverju ári, væntanlega til að láta sínar áætlanir líta betur út. Jafnvel á snjóléttustu árunum fer kostnaður við snjómokstur fram úr áætlun.

Reyndar er það svo að áætlun um snjómokstur getur aldrei orðið réttur. Það eru 99.99% líkur á að hann verði rangur. Veðurguðunum er slétt sama hvað stjórnmálamenn hugsa. Ef vel er áætlað og mokstur minni, verður afgangur og ef lágt er áætlað og mokstur meiri vantar uppá. Í báðum tilfellum er áætlunin röng. Þó er eðlilegra og móralskt betra að fá afgang en skort. Að áætlunin sé rífleg. Þegar hins vegar vanáætlað er ár eftir ár, sama hvernig snjóalög eru, er beinlínis verið að segja fólki ósatt um rekstur sveitarfélaga og ríkis. Þá er allt eins gott að sleppa þessum lið úr áætlunum þeirra og gefa einfaldlega upp kostnaðinn fyrir hvert ár, eftirá. Snjónum þarf alltaf að  ryðja burt af götunum, sama hvernig sjóðir sveitarfélaga og ríkis standa.

Um áætlanir í framkvæmdum, sér í lagi á vegum ríkis og sveita, ætla ég ekki að skrifa. Það er sérstakur kapítuli og mun svæsnari.


mbl.is Kostnaður við snjómokstur í Kópavogi langt yfir áætlun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Mokið, mokið, mokið, mokið, mokið meiri snjó"

Mikið er rifist um snjóruðning í höfuðborginni okkar. Ekki laust við að ætla að þar sé stjórnað af fólki sem er svo mikið alheimsfólk að það gleymir þeirri staðreynd að stundum snjóar á Íslandi.

Sjálfur bý ég á Skaganum og þar var ágætlega staðið að snjóruðningi. Reyndar ekki komið í götuna hjá mér, en við sem við hana búum erum svo sem ekki óvön því. Hugsanlega má líka telja að snjómokstur hjá okkur hafi verið svona góður vegna þess hversu lítið snjóaði.

Og það var einmitt málið, snjókoman var ekkert svo mikil. Hvorki hér á Skaganum né í höfuðborginni. Heldur meira snjóaði í nágrannabæjum borgarinnar, Mosfellssveit og uppbyggðum Kópavogs, en þar gekk einnig ágætlega að halda opnu. Öfugt við borgina. Nokkurn byl og blindu gerði hins vegar um tíma.

Það væri fróðlegt ef gerði alvöru snjókomu í borginni, svona svipað og austan Hellisheiðar. Þar hefur sannarlega snjóað. Hvað ef svona snjókoma færi yfir höfuðborgina okkar? Hverjum væri þá um að kenna?

Enn og aftur reynir borgarstjórnarmeirihlutinn að koma af sér sök. Ástæða þess að borgin var kolófær, þegar tiltölulega lítinn snjó gerði, er öllum öðrum um að kenna. Formaður einhverrar nefndar er látinn standa í stafni borgarstjórnar og halda uppi ruglinu. Fyrst var ástæðan að aðkeyptir viðbragðsaðilar hefðu ekki mætt þegar kallið kom, svo var haldið að fólki þeirri rökleysu að ekki væru til næg tæki og tól til að sinna verkinu. Því var einnig haldið fram að tafist hafi að endurskipuleggja snjómokstur borgarinnar. Og í dag fræddi þessi formaður okkur um að ástæða þeirrar tafa væri sleifarlag minnihlutans í borginni, að hann hefði ekki getað skipað fulltrúa í nefndina. Þetta er orðinn slíkur farsi að engu tali tekur. Trúir einhver þessu andsk... bulli?

Það er annars ágætt að meirihlutinn vilji nú starfa með minnihlutanum, það hefur ekki borið á slíkum vilja fyrr. Eða er aðild minnihlutans kannski bara æskileg þegar á bjátar í stjórnun? Ef svo er, ætti meirihlutinn fyrir löngu að vera búinn að færa minnihlutanum lykilinn að borginni, svo mikið er víst. Þá yrði borginni kannski stjórnað almennilega, án þess að eilíft væri verið að endurskipueggja einföldustu hluti.

Annars er sennilega fyndnasta tillagan komin frá fulltrúa VG, er hún lagði til að borgin keypti skóflur fyrir borgarbúa. Þegar svo skömmu síðar byggingavöruverslanir auglýstu að snjóskóflur væru að verða uppseldar, hélt ég í alvöru að hún hefði fengið meirihlutann til samstarfs.

Hvað sem öllu líður, þá var snjókoman fyrir jól ekkert svo ofboðsleg, miðað við hvað getur orðið. Íbúar á norðanverðu landinu gerðu góðlátlegt grín af borgarbúum, enda þekkja þeir snjóinn nokkuð vel. Það er ekki stórmál eða vísindi að ryðja snjó af götum og sú uppákoma sem varð í borginni því engan vegin afsakanleg. Þar gildir sú megin regla að fá sem flest tæki strax. Fleiri tæki afkast meiru en færri, það þarf hvorki nefnd né vísindamenn til að átta sig á því. Og fleiri tæki í styttri tíma, kosta varla mikið meira en færri tæki svo dögum skiptir.

Að halda götum borgarinnar opnum er ekki bara réttlætismál íbúa, það er ekki síður öryggismál, að viðbragðsaðilar komist um borgina.

Að hægt sé að halda uppi öryggi borgarbúa.


mbl.is Ábyrgðarhlutur að borgin geri ekki ráðstafanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nagladekk- eða ekki / öryggisbelti- eða ekki

Nú síðustu daga hefur verið nokkur hálka á vegum. Þá er gott að vera kominn með nagladekkin undir bílinn.

Mikill áróður er gegn notkun nagladekkja hér á landi. Þar fara hæst sumir stjórnmálamenn, sem telja sig höndla sannleikann í hverju máli. Þó er staðreynd sem ekki verður hrakin að engin dekk ráða betur við þær aðstæður er verið hafa snemma morguns og seint að kvöldi, síðustu daga. Vissulega eru til dekk sem ráða ágætlega við þetta, harðkornadekk, loftbóludekk og sumar tegundir vetrardekkja eru orðin mjög góð í hálku, en engin þeirra betri en nagladekkin. Þá er einnig vitað að aldur dekkja skiptir máli, að ný sumardekk geti jafnvel verið betri í hálku en gömul ónegld vetrardekk. Auðvitað er það svo að engin dekk, negld eða ónegld, gefa fullkomna viðspyrnu í hálku. Ætið þarf að aka við þær aðstæður af varúð. En enginn getur haldið því fram að ónegld dekk séu betri en negld dekk, í ísingu og hálku.

Notkun nagladekkja er öryggismál. Þeir sem halda því fram að nagladekk séu óþörf, að slík tækni hafi átt sér stað í framleiðslu dekkja, að naglar séu óþarfir, geta allt eins sagt að framleiðsla bíla hafi tekið slíkum stakkaskiptum að öryggisbelti séu óþörf. Og vissulega hefur orðið mikil breyting í bílaframleiðslu síðust áratugi, þar sem megin áhersla er lögð á öryggi farþega, að ekki sé talað um að allir bílar eru komnir með loftpúða til að verja farþega. Engum, ekki einu sinni allra fávísustu stjórnmálamönnunum, dettur þó til hugar að nefna að öryggisbelti séu óþörf. Enda öryggi í umferðinni aldrei of mikið. Því er nánast ótrúlegt að fólk sem vill láta taka mark á sér, skuli tala gegn einu mesta umferðaröryggi sem hægt er að hugsa sér, þegar að hálku kemur. Einungis keðjur geta talist betri en nagladekk.

Þarna skipta aurar auðvitað mestu máli fyrir stjórnmálamenn. Notkun öryggisbelta eykur ekki neinn kostnað fyrir ríki og sveitarfélög, meðan hægt er að halda því fram að naglar auki slit á götum. Þar er þó kannski stærri sökudólgur saltaustur á göturnar. Á móti kemur kostnaður vegna slysa sem orsakast vegna notkunarleysis á nagladekkjum. Beinn kostnaður af þeim tjónum leggst á tryggingafélögin, ríki og borg og fyrirtækin og lendir að endingu alltaf á almenningi. Óbeini kostnaðurinn, örkumlun eða dauði, lendir hins vegar á nánustu fjölskylduaðilum. Þann kostanað er ekki hægt að reikna til aura.

Niðurstaðan verður alltaf að kostnaður við nagladekkjanotkun er lægri, þegar upp er staðið.

Verum ekki fífl, nýtum alla möguleika í umferðaröryggi.

Ökum á nagladekkjum.


mbl.is Hálka víða um land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tap á tap ofan

Fargjaldatekjur og rekstrargjöld haldast í hendur en þó er sögulegt tap á rekstrinum. Hvað veldur?

Rekstur Strætó hefur verið rekinn með tapi frá því ég man eftir, mismiklu en nú hefur verið sett nýtt met. -600 milljónir í kassanum. Þetta þýðir að á hvern íbúa höfuðborgarsvæðisins, sem nýtir sér þjónustu Strætó, vantar 62.500 krónur í kassann!

Svo ætla eigendur Strætó að koma á einhverri borgarlínu, telja að það muni fjölga farþegum úr um 4% í 12%. Þetta er galið. Meðan ekki er hægt að reka núverandi þjónustu fyrir ofan núllið er tómt mál að tala um að kasta tugum eða hundruðum milljarða króna í það eitt að efla vandann!

 


mbl.is Strætó tapaði 600 milljónum á hálfu ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sáttin er grunn

Jæja, þá er farið að glitta í einhvern málefnasamning hinnar nýju borgarstjórnar. Reyndar erfitt að átta sig á því sem tilvonandi borgarstjórar tjá sig um, svo ólíkur sem málflutningur þeirra er. Varla traustvekjandi, svona á fyrsta degi hjónabandsins.

En hvað um það, förum aðeins yfir það sem Einar segir. Munum að hann talaði um miklar breytingar í kosningabaráttunni. Líklega hefur það gefið ófá atkvæði til Framsóknar.

Einar boðar 18 breytingar. Þó nefnir hann einungis þrjár þeirra, væntanlega þær mikilvægustu. Fyrst nefnir hann metnaðarfyllri áætlanir í byggingu íbúðahúsnæðis. Það hefur svo sem ekki skort metnaðinn í áætlanir á þessu sviði, hjá fyrrverandi meirihluta. Glærusýningar og annað útgefið efni um málið hefur flætt frá þeim yfir landsmenn síðustu tólf ár. Hins vegar hefur orðið minna úr framkvæmdum. Þarna er því ekki um neina breytingu að ræða, áætlanir eru svo sem góðar en það eru framkvæmdir sem telja.

Sundabraut er næst hjá hinum nýja verðandi borgarstjóra. Þar er svipað upp á borðum, borgarstjórn hefur í sjálfu sér aldrei hafnað Sundabraut, þó einstaka fulltrúar hafi ákveðnar skoðanir gegn henni. Reyndar skipulagði borgin íbúðabyggð á því svæði sem hagkvæmast hefði verið að leggja þessa braut, þannig að verkefnið mun kosta meira en ella. Reyndar er nýlegt samkomulag milli borgarinnar og stjórnvalda um þetta málefni í gildi og ekki séð annað en að verið sé að fylgja því. Það er því vart hægt að tala um að þarna sé um einhvern viðsnúning eða taktískar breytingar að ræða.

Og svo er það þriðja málið sem Einar nefnir, Vatnsmýri og flugvöllur. Þar er sama upp á teningnum og í Sundabrautarmálinu, nýlegt samkomulag um að flugvöllurinn verði enn um sinn og að ekki megi skerða öryggi hans með byggingum við hann. Því er ekki heldur nein breyting þarna.

Reyndar má lesa aðra frétt, þar sem talað er við Dag um málið. Hann snýr dæminu svolítið á annan veg. Fyrst skal byggt og síðan unnið með Isavia varðandi mótvægisaðgerðir vegna minna öryggis flugvallarins. Þarna greinir nokkuð á milli þeirra, tilvonandi borgarstjóranna. Misræmið í túlkun þeirra í þessu máli ber ekki merki um sátt milli þeirra.

Í öllu falli er ljóst að þær breytingar sem Framsókn lofaði höfuðborgarbúum og reyndar landsmönnum öllum, finnast varla.


mbl.is Byggja í Vatnsmýri ef það ógnar ekki flugöryggi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svik og galdrar

Maður veltir því virkilega fyrir sér til hvers fólk mætir á kjörstað. Vilji kjósenda er ekki virtur.

Í síðustu tvennum sveitarstjórnarkosningum hefur meirihluti borgarstjórnar verið felldur af kjósendum, þó hefur Samfylking farið einna verst út úr þessum kosningum. Málflutningur þessa flokks virðist ekki eiga upp á pallborð kjósenda. Þrátt fyrir að fylgi Samfylkingar hafi fallið um þriðjung á þessum tíma, lafir flokkurinn í meirihluta, með hjálp annarra flokka. Eftir kosningarnar 2018 kom Viðreisn Samfylkingu til hjálpar og nú bætti sá flokkur enn betur og gekk í raun inn í hinn deyjandi flokk, með samkomulagi um að halda samstarfi áfram, hvað sem kjósendur segðu. Og í einfeldni sinni gekk Framsókn að þessum afarkjörum Viðreisnar. Þar með hefur Framsókn tryggt að dýrð þeirra mun ekki standa fram yfir næstu kosningar. Svikin við kjósendur eru algjör!

Framsókn vann vissulega stórsigur í Reykjavík. Kosningaloforðin voru í sjálfu sér loðin, meira horft til ímyndar en málefna, en þó stóð eitt kosningaloforð uppi sem einkennisorð Framsóknar; breytingar voru boðaðar. Kosningabandalag við Dag og hans fylgifólk mun tryggja að þetta eina kosningaloforð Framsóknar mun ekki standa, það verður einnig svikið. Svik við kjósendur er algjört!

Galdramenn eru þeir sem af snilligáfu sinni geta platað fólk til að sjá eitthvað annað en raunveruleikann. Platað fólk til að upplifa eitthvað allt annað en það í raun upplifir. Plata fólk til að trúa því ótrúanlega. Dagur er sannarlega einn slyngasti galdramaður Íslands.

Skoðum nú aðeins málefni og gerðir Samfylkingar, síðustu þrenn kjörtímabil. Vorið 2014 fékk flokkurinn 31% fylgi kjósenda, tími leikarans var liðinn og við tók tími galdramannsins. Fyrir þær kosningar var í sjálfu sér ekki mikið rætt um svokallaða borgarlínu og allt ruglið tengt henni. Flestir kjósendur töldu á þeim tímapunkti að hugmyndin væri svo afspyrnu fáránleg að hún yrði aldrei annað en hugmynd einhverra vitskertra. Strax að loknum kosningum var þó farið á fulla ferð í vinnu til að koma þessari hugmynd á koppinn. Byrjað var á að þrengja götur og gera einkabílnum erfiðara fyrir, unnið að framgangi málsins á bak við tjöldin, meðal annars innan landsstjórnar og löggjafans.  Svona gekk fram undir kosningarnar 2018. Í þeim kosningum felldu kjósendur þennan meirihluta, enda farnir að átta sig á að jafnvel þó hugmyndin um borgarlínu væri svo fráleitar sem mest mátti vera, auk þess sem kostnaður af henni væri eitthvað sem enginn vissi í raun, ætluðu vinstri menn, undir stjórn Dags, að koma henni í framkvæmd. Ætluðu sér að færa höfuðborg landsmanna aftur um heila öld í samgöngumálum. En þá kom Viðreisn til sögunnar og vilji kjósenda var hafður að engu.

Eftir að Dagur hafði verið reistur upp úr öskustónni, með hjálp Viðreisnar hófst enn eitt kjörtímabil skelfingar. Nú var fullum krafti hleypt í þessa afturhaldshugmynd vinstrimanna. Jafnvel tókst galdramanninum Degi að fífla stjórnvöld til liðs við sig, auðvitað með hálfkveðnum vísum. Þegar seinnihluti vísanna var kveðinn áttuðu stjórnvöld sig á að þau höfðu verið höfð af fíflum, en höfðu ekki kjark til að viðurkenna það. Því hafði Dagur tangarhald á þeim og tókst ekki bara að láta ríkissjóð opna opinn víxil fyrir þessum gerðum, heldur beinlínis kosta kosningabaráttu flokksins fyrir nýafstaðnar kosningar. Eftir sem áður höfnuðu kjósendur þessum meirihluta, enn og aftur. Fylgi Samfylkingar hafði nú minnkað um rúm 30%, í tvennum kosningum. Þá kemur Viðreisn til sögunnar. Af einhverjum ótrúlegum ástæðum komst fulltrúi flokksins að þeirri niðurstöðu að sinn flokkur, sem hafði tapað helmingi sinna borgarfulltrúa, bæri að vera í borgarstjórn og ekki aðeins það, heldur átti hennar flokkur að bjarga Degi enn og aftur.

Framsókn, sem hafði unnið stórsigur, hafði nú einungis tvo kosti eftir, að ganga til viðræðna við galdramanninn og hans slekti, eða stíga til baka. Flokkurinn valdi verri kostinn. Þegar þessir afarkostir Viðreisnar voru staðreynd átti Framsókn ekki að sætta sig við þá stöðu og draga sig til baka. Með þessari ákvörðun sinni skrifaði flokkurinn upp á hrun sitt í næstu kosningum. Kjósendur Framsóknar kusu þann flokk út á loforð um breytingar, ekki loforð um sama ástand áfram.

Hér hef ég einkum bent á borgarlínu sem óstjórn vinstri meirihlutans, enda það mál lang stærst í göldrum Dags. Það má líka benda á margt annað, eins og bragga og strá, pálmatré, Hlemm, hin ýmsu torg þar sem gras er rifið upp með rótum og hellur lagðar, óþrifnaður á gatnakerfi og landi borgarinnar, Sorpu og margt margt fleira í dúr óstjórnar. En borgarlínu fylgir sú skelfing að borgin er færð öld aftur í tíma. Ekki einungis er slíkur rekstur gamaldags og úreltur og kostnaður mikill, heldur á að neyða fólk til að nota hana með skipulagi byggðar. Farið er aftur til tíma sovéts í þeim málum og háhýsi byggð svo þétt að ekki nær sól til jarðar. Fá eða engin bílastæði eru ætluð íbúum eða gestum þeirra. Byggt er á dýrustu lóðum borgarinnar og rifin þar hús sem eru í ágætis standi og sum jafnvel mjög góðu standi. Þetta gerir kostnað bið byggingu íbúðahúsnæðis enn dýrara en ella og er þó nóg samt!

Bílaflotinn er að færast frá eldsneytisbílum yfir í rafbíla. Hér á landi er þessi breyting svo hröð að bílaframleiðendur hafa ekki undan. Bið eftir nýjum rafbílum er mikil. Því er ljóst að þessi þróun mun verða mun hraðari hér en víðast annarsstaðar. Einungis framboðið sem mun tefja. Þetta breytir þó ekki hugsanagangi vinstrimanna í höfuðborginni. Einkabíll er einkabíll og einkabíll er slæmur, að þeirra mati. Mengun skiptir þar engu máli. Þá skiptir engu máli hjá þessu fólki að Reykjavík er höfuðstaður Íslands. Þangað þurfa íbúar landsins að sækja ýmsa þjónustu, sem ekki er lengur til staða á landsbyggðinni. Það fólk þarf að komast um borgina. Hef reyndar oft velt fyrir mér hvers vegna allir kjósendur landsins hafi með það að gera hver stjórnar höfuðborginni okkar.

Það sem átti að vera stuttur pistill um svik við kjósendur er orðinn lengri en góðu hófi gegnir. Hitt er deginum ljósara að björgun Framsóknar á hinum fallna meirihluta eru stór svik við kjósendur. Framsókn á ekki roð í galdramanninn.


mbl.is Meirihlutasamningur BSPC í höfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pawel brugðið

Pawel Bartoszek, borgarfulltrúa Viðreisnar er brugðið. Innviðaráðherra vill að borgin standi við gerðan samning. Það er nýlunda fyrir borgarfulltrúann, enda ráðherrar þessarar ríkisstjórnar og þeirrar síðustu, ekki verið að fetta fingur út í að borgin túlki samninga við ríkið eftir sínu höfði.

Megin málið er þó að borgarfulltrúinn bendir á samning frá 2013, máli sínu til stuðnings og gerir lítið úr samningi sem gerður var 2019. Það er þó kannski rétt fyrir borgarfulltrúann að átta sig á þeirri staðreynd að þegar tvennir samningar standast á, þá er það ætíð hinn nýrri sem tekur yfir þann eldri. Annað getur einfaldlega ekki gengið upp. Í samningnum frá 2013 var norður-suður brautin tryggð til ársins 2022, en í samningnum frá 2019 er hún tryggð þar til annar flugvöllur hefur verið byggður. Að öryggi vallarins verði ekki skert frekar en orðið er. Ekki mjög flókið.

Það er hins vegar rétt hjá borgarfulltrúanum, að hvorugur samningurinn fjallar um uppbyggingu borgarinnar á svæðinu, hvorki innan né utan flugvallar, enda varla þörf á að tíunda það. Það er fjallað um að öryggi flugvallarins skuli óskert og innviðauppbyggingu vegna starfsemi vallarins. Það ætti að duga. Ef rekstraraðili flugvallarins telur rekstraröryggi skert með uppbyggingu við flugbrautina, þá verður sú uppbygging auðvitað að bíða þar til rekstur vallarins hættir.

 


mbl.is Harður tónn ráðherra ekki í takt við sátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband