Færsluflokkur: Samgöngur
Bleikur Land Crusier
10.11.2023 | 16:06
Það er sjaldgæft að stjórnmálamenn festist svo í gömlum kreddum að ekkert annað komist að í höfði þeirra. Allt er réttlætanlegt til að ná þeim kreddum fram.
Meirihluti borgarstjórnar berst enn eins og rjúpa við staurinn í þeirri kreddu að koma á gamaldags almenningssamgöngum í borginni, samgöngukerfi sem helst má sjá leifar af í austur Evrópu, frá tímum kommúnista. Og ekki bara að leitað sé hófanna þar eystra um aðferðafræðina, þá er sömu taktík beitt til að opinbera ruglið. Haldnir eru fundir þar sem einræða er haldin um verkefnið og hver sem þorir að gagnrýna það sagður annað hvort heimskur eða gamalmenni, nema hvort tveggja sé.
Öllum brögðum er beitt til að viðhalda fáviskunni. Þar sem umferð er þokkalega greiðfær er þrengt að, þar sem umferð er tafsöm má ekkert gera til úrbóta. Peningavitið virðist algjörlega horfið þessu fólki, gerir ekki greinarmun á hvort verkefnið standist einhverjar áætlanir eða ekki. Skiptir þar engu hvort rætt er um tugi eða hundruð milljarða í krónum talið, eða hvort rætt er um hækkanir í prósentum upp á allt að 100%.
Þeir stjórnmálamenn sem svo djúpt sökkva í eigin heimsku eru jafnvel sjaldséðari en að mæta bleikum Land Crusier út á þjóðvegi. Þó eru slíkir stjórnmálamenn ráðandi yfir höfuðborg Íslands!
![]() |
Þung umferð í borginni kemur ekki á óvart |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 16:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Kringlótta Kjalarnesið
12.5.2023 | 07:52
Ætla að hafa jákvæðnina í fyrirrúmi og ræða fyrsta kosti þessarar veglagningar. Í upphafi var kynnt að þarna skyldi lagður svokallaður 2+1 vegur, það er tvær akreinar í aðra áttina og ein í hina. Niðurstaðan varð hins vegar 1+1+2+2+1+1, þ.e. þjóðvegurinn sjálfur verður með tvær akreinar í hvora átt og beggja vegna hans hliðarvegir með einni akrein í hvora átt. Nokkuð vel í lagt en alveg hreint með ágætum, enda fráleitt að endurbyggja þennan veg, þar sem umferð eykst með hverju ári, sem 2+1 veg.
Þá kemur neikvæðnin, eða göllum þessarar framkvæmdar. Þar er fyrst að nefna öll hringtorgin. Fátt er eins mengandi og hringtorg, sér í lagi af umferð stórra bifreiða. Að hægja bíl frá 90 km hraða niður í nánast ekki neitt og vinna síðan bílinn aftur upp í hámarkshraða, til þess eins að hægja hann niður aftur, mun valda slíkri mengun að fátt í nútímanum mun toppa það. Á þessum vegkafla sem verið er að klára núna er eitt hringtorg, en tvö á þeim kafla sem unnið verður að síðar. Samtals munu því hringtorgin á Kjalarnesinu verða þrjú og spurning hvort það fjórða bætist síðan við þegar Sundabraut tengist veginum. Hvergi í veröldinni, ekki einu sinni Frakklandi, vöggu hringtorganna, er hringtorg sett á þjóðveg. Hringtorg eru umferðamannvirki sem hægt er að nota innanbæjar, til að liðka um umferð og gjarnan einnig sett við aðkomu að þéttbýliskjörnum, til að hægja á umferð. Að setja hringtorg á þjóðveg þar sem umferð getur verið hindranalaus, er fráleitt.
Það sem gerir þó þessi hringtorg enn fráleitari er að á þeim kafla sem nú er að klárast eru tvö aksturs undirgöng og alls verða þau fjögur. Hliðarvegir verða með þjóðveginum allt frá Kollafirði að vegamótum til Hvalfjarðar.
Ekki einu sinni hefði það verið skynsamlegra, heldur einnig mun ódýrara, að nýta þessi undirgöng sem mislæg gatnamót. Einungis þurft að bæta við að og fráreinum við þau, tengja þau við sjálfan þjóðveginn. Þá hefði verið hindrunarlaus og mun minna mengandi umferð eftir sjálfum þjóðveginum.
Hvers vegna þessi leið er valin, að setja niður algerlega óþörf og mengandi hringtorg á veg sem svo auðvelt var að hanna án hringtorga, er mér hulið. Komu skipulagsyfirvöld sveitafélagsins eitthvað þar að máli? Í það minnsta er næsti kafli vegarins, frá Hvalfjarðargöngum til Borgarness hannaður án slíkra mengunarvalda. Þar er annað sveitarfélag og önnur skipulagsnefnd. Í þeirri hönnun, sem sjá má á vef Vegagerðarinnar, eru einungis tvö hringtorg og þau á hliðarvegum. Ein mislæg gatnamót eru ætluð þar en vonandi verða umferðaþyngstu gatnamótin einnig verða gerð mislæg í stað té gatnamóta. En þetta er saga framtíðar, sem þó segir okkur að það virðist skipta máli hvaða sveitarfélag þarf að fara um. Í nútíma erum við enn stödd á hálfu og fljótlega kringlóttu Kjalarnesinu.
![]() |
Opna veginn um Kjalarnes í júní |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 07:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Krabbamein ríkissjóðs
11.5.2023 | 07:37
Í samgöngusáttmálanum var gert ráð fyrir mislægum gatnamótum við Sæbraut. Síðar kom krafa um að Sæbraut yrði sett í stokk. Verðmiðinn fimmfaldaðist á þessum gatnamótum einum. Hafi sú krafa verið samþykkt fór það samþykki hljótt fram.
En að sjálfri fréttinni um brúnna. Hún er áætluð kosta kvart milljarð króna, fyrir utan tengingar að henni og frá. Þar mun sennilega óþarfar kröfur um útlit skipta mestu máli auk þess sem brúin skal vera hreyfanleg. Þetta er er bráðabyrgða brú og kröfur um listrænt útlit með öllu óþarfar og þar sem ekki er vitað hvar né hvort brúin verði nýtt á öðrum stað er fráleitt að auka kostnað við hönnun og bygginguna með kröfu um að hún skuli verða hreyfanleg.
250 milljónir er nokkuð stór upphæð og víst að hægt væri að byggja þarna brú fyrir mun minni fjárhæð. Þá er ekki víst að þessar 250 milljónir dugi til að greiða fyrir hönnun og byggingu þessarar brúar, ef farið skuli að öllum kröfum. En það er með þetta eins og margt annað, þegar að þeim verkefnum sem tengjast borgarlínu kemur, skipta peningar ekki máli. Varan er seld með einni hugmynd en framkvæmd á allt annan hátt. Varan er seld á óraunhæfu verðmati og stór aukinn kostnaður síðan sóttur í tómann ríkissjóð.
Og allt fer þetta framhjá Alþingi. Betri samgöngur ohf. segja bara ráðherrum fyrir verkum og alþingismenn nenna ekki að sinna þeirri grunn skyldu sinni að stoppa þennan ósóma og þetta sukk með almannafé. Betri samgöngur ohf. getur ekki og má ekki hafa fjárveitingarvald úr sjóðum landsmanna, hvort heldur er úr mis vel stæðum sveitarfélögum eða galtómum ríkissjóð.
Ef eitthvað verkefni er til hér á landi sem stjórnvöld og sveitarfélög geta stöðvað, til baráttu gegn verðbólgunni, er það þessi borgarlína og það sem henni tengist. Sem lið í betri samgöngum um höfuðborgarsvæðið, þarf borgin að hætta þrengingu gatna. Þannig komast bæði almenningsvagnar og aðrir bílar fljótt milli staða. Þannig getur borgin sparað sér pening og þannig getur borgin að auki lagt sitt af mörkum í baráttu gegn verðbólgu. Fáir eru eins þurfandi fyrir lækkun verðbólgunnar og þeir sem skulda og þar er borgin mjög ofarlega á blaði.
Að hafa eitthvað batterí starfandi í landinu, batterí sem virðist geta gengið hindrunarlaust í sjóði almennings, er fráleitt á öllum tímum en þó sjaldan jafn fráleitt og þegar þjóðin berst gegn vágesti sem hefur það markmið að koma fólki á götuna. Betri samgöngur ohf. á að leggja niður hið snarasta. Það tók Alþingi kvöldstund að samþykkja ræktun þessa krabbameins og það ætti ekki að taka lengri tíma að skera það burt!
![]() |
Göngubrú reist yfir Sæbraut |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 07:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Lágkúra
4.5.2023 | 16:38
Það er útaf fyrir sig sérstakt rannsóknarefni hvers vegna Dagur leggur þvílíka áherslu á að koma flugvellinum burt úr Reykjavík, hverra hagsmuna hann er að gæta þar. Enn undarlegra er þó að honum skuli hafa tekist að véla formann Framsóknar til að heimila byggingu nærri vellinum, þvert á fyrir samþykktir.
Það kemur skýrt fram að byggð við Skerjafjörð mun hafa truflandi áhrif á flug um völlinn. Síðan er bætt við að minnka megi þá truflun með mótvægisaðgerðum. Ekkert kemur fram í skýrslunni sem segir að hægt verði að halda sama öryggi fyrir flug um völlinn, einungis að truflunina megi minnka með mótvægisaðgerðum. Hverjar þær mótvægisaðgerðir eru er minna sagt. Þannig að samkomulagið frá 2019, sem segir að öryggi flugvallarins skuli tryggt jafn gott eða betra, þar til annar flugvöllur hefur verið byggður, er því í öllu falli brostið.
Hver á svo að fjármagna þessar mótvægisaðgerðir. Varla ríkissjóður. Og vart er hægt að treysta borginni til þess, enda getur hún nú auðveldlega bent á að samkomulagið frá 2019 sé brostið og því engin þörf á þær mótvægisaðgerðir.
Framsóknarmenn eru komnir út í horn með þetta mál, mál sem þingmenn og flokksfélagar hafa barist hart fyrir gengum árin. Sjá að þeir léku þarna stórann afleik. Komið er fram með skýringar sem ekki standast skoðun og vísa í samkomulag sem þeir sjálfir hafa gert að engu. Þetta er lágkúra af verstu gerð og vart hægt að komast neðar.
Oddviti Framsóknar stútaði flokknum í Reykjavík, með því að halda áhæfri borgarstjórn á lífi. Nú vinnur formaður flokksins hörðum höndum að því að klára flokkinn á landsbyggðinni, með því að brjóta eigið samkomulag við borgina um öryggi flugvallarins í Reykjavík. Flugvallarins sem er lífæð landsbyggðarinnar. Víst er að framsókn mun ekki ríða feitum hesti í Reykjavík, eftir næstu sveitarstjórnarkosningar og flokkurinn má þakka fyrir að ná inn þingmanni að loknum næstu alþingiskosningum. Niðurrif flokksforustunnar á eigin flokki er fáheyrð.
![]() |
Treysti niðurstöðum sérfræðinganna í þessu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sannur framsóknarmaður
1.5.2023 | 08:05
Fyrir utan hagsmunaaðila hafa sennilega engir verið eins ötulir í því að halda Reykjavíkurflugvelli á lofti en framsóknarmenn. Þingmenn flokksins og aðrir flokksfélagar hafa verið duglegir í ræðu og riti í vörn flugvallarins. Þar hefur núverandi formaður ekki látið sitt eftir liggja. Þar til fyrir skömmu.
Framsókn fékk góðan byr í síðustu borgarstjórnarkosningum, undir merkjum þess að nú væri kominn tími breytinga í borginni. Ekki tók þó langan tíma fyrir oddvita flokksins að brjóta það kosningaloforð og gekk til liðs við þann flokk sem borgarbúar höfðu þá hafnað í tvígang. Breytingar í borginni voru ekki lengur forgangsmál. Og formaðurinn spilaði með, rétt eins og sannur Framsóknarmaður.
Nú eru það túlkanir Dags sem blífa. Segi hann að byggja verði við flugvöllinn, samþykkir formaður framsóknar byggingu við flugvöllinn, enda flokkur hans orðinn samherji Dags. Samkomulag sem formaður framsóknar gerði við Dag er ekki lengur heilagt, eða kannski ekki lengur túlkað samkvæmt því sem þar er ritað, heldur er það nú túlkað eins og Dagur vill túlka það.
Í því samkomulagi var sagt að völlurinn skildi rekinn á sama stað þar til annar sambærilegur kostur fyndist, að öryggi vallarins yrði jafn gott eða betra en áður, þar til nýr völlur hefði verið byggður. Þetta er einföld setning sem segir í raun allt sem segja þarf. Þó hefur Dagur viljað hoppa yfir þessa setningu í samkomulaginu, eins og honum er tamt þegar eitthvað er ekki eins og hann vill. Er með einstaklega sérstakan lesskilning. Og nú hefur mótaðilinn, undir stjórn framsóknar, tekið undir þann skilning Dags.
Sagt er að Framsóknarflokkur sé opinn í báða enda og vissulega er formaðurinn sannur framsóknarmaður.
![]() |
Neikvæð áhrif bygginga á flugvelli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 08:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Draumórar, fallegur texti og fráleit kostnaðaráætlun
13.4.2023 | 00:09
Þá er hvítbók Reykjavíkurborgar varðandi snjóhreinsun komin út. Fallegur texti og margar hugmyndir, svo sem að snjómagn skuli ráða snjómokstri og upphitun gatna með hitaveitu, ásamt fleirum undarlegum hugmyndum.
Það er þó ekki fyrr en búið er að pæla í gegnum allan fallega textann, fyrstu 28 blaðsíðurnar af 32 og kostnaðaráætlunin á síðustu fjórum blaðsíðunum er skoðuð, sem sést hvað þessi vinna er lítils virði og byggð fyrst og fremst á draumórum.
Ef tekin eru dæmi úr kostnaðaráætluninni, sem samtals hljóðar upp á 190 milljónir má nefna einn þátt sem hugsanlega getur staðist raunveruleikann, en þó varla. Það er kostnaður við ráðningu manna til eftirlits snjóruðnings, upp á heilar 50 milljónir á ári. Aðrir liðir eru svo fjarri raunveruleikanum að furðu sætir. Sem dæmi um einskiptisaðgerð um fjölgun tækja til snjóhreinsunar, upp á 5 milljónir. Það er ekki hægt að fá neina vinnuvél keypta fyrir þann pening. Minnsti liðléttingurinn eru dýrari og þá á eftir að kaupa snjótönn eða snjóblásara á hann. Þessi upphæð dugir vart fyrir virðisaukaskatti af skilvirku snjóruðningstæki.
Öll þessi áætlun ber þess merki að þeir sem hana sömdu vita fátt um snjóhreinsun. Þeir liðir sem hugsanlega geta staðist eru þeir sem snúa að skrifstofuvinnu borgarinnar, en allir liðir er snúa beint að sjálfri snjóhreinsuninni er eru vanreiknaðir, sumir jafnvel svo að undrun sætir.
Auðvitað á að miða snjóhreinsun að snjómagni. Það þarf ekki einhvern stýrihóp til að komast að þeirri einföldu staðreynd. Og auðvitað væri gott ef hægt væri að hita upp gatnakerfið, en meðan tæplega er til heitt vatn til að hita hús borgarinnar og sundlaugum er lokað, er varla til vatn í slíka draumóra.
190 milljónir hljóðar þessi áætlun uppá. Stór hluti þeirrar upphæðar á að notast við skrifborð borgarstarfsmanna. Væri ekki betra bara að nota allan peninginn til snjóhreinsunar? Það er ekki eins og það séu einhver vísindi sem liggja að baki þeirrar vinnu. Og gaman væri einnig að vita hver kostnaður við þessa hvítbók var. Þann pening hefði einnig mátt nota til snjóhreinsunar.
Draumórar, fallegur texti og fráleit kostnaðaráætlun er besta lýsingin á afurð þessa stýrihóps.
![]() |
Svona vill borgin bæta snjómokstur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 00:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Vanhæfni í rekstri olíufélaga?
11.4.2023 | 07:48
Grátklökkur forstjóri eins af olíufélögum þessa lands mætti í viðtal á sjónvarpsrás rúv í gærkvöldi. Taldi hann illa vegið að olíufélögunum hér, sér í lagi af hálfu framkvæmdastjóra FÍB.
Forstjórinn sagði að hér á landi væri einungis notað hreint eldsneyti og að skattar væru háir. Því væri alls ekki hægt að bera saman eldsneytisverð hér á landi við verð á eldsneyti erlendis. Við þessa er ýmislegt að athuga.
Erlendis er eingöngu hreinsað eldsneyti selt af dælum, enda fáir bílar, ef einhverjir, búnir getu til að aka á óhreinsuðu eldsneyti. Því er sá samanburður vel hæfur. Um skatta er það að segja að t.d. í Danmörku, en verð eldsneytis þar var grunnur að fréttatilkynningu FÍB, eru skattar sambærilegir við það sem hér er. Því er sá samanburður einnig vel hæfur.
Þó keyrði um þverbak þegar forstjórinn var þráspurður um fákeppni olíufélaganna. Það taldi hann fráleitt, enda fjögur olíufélög í landinu og fimmti eldneytissalinn að auki. Samt sagði hann að öll þessi olíufélög sem sæju um innflutninginn, versluðu við sama birgja erlendis. Hver er þá samkeppnin?
Þá er spurning hvað breyttist við covidið. Var olían eitthvað minna hreinsuð fyrir það? Skattar hafa vissulega hækkað, rétt eins og í Danaveldi og samkeppnisstaðan hér er söm. Þó er álagningin nú margfalt meiri en hún var fyrir covid.
Eftir stendur að hagnaður olíufélagana hér hafa dregist saman um helming, að sögn forstjórans. Ef svo er, þegar séð er svo ekki verður um villst að álagning þeirra hefur aukist til muna, er ekki nema eitt í stöðunni.
Íslensku olíufélögin eru rekin af vanhæfu fólki!
Borgarlína, ætt út í dauðann
11.2.2023 | 08:22
Það kemur svo sem ekki á óvart þó kostnaður við svokallaðan samgöngusáttála á höfuðborgarsvæðinu hækki. Þegar ætt er af stað í verkefni sem enginn veit í raun hvert er eða hvað mun kosta, eru áætlanir lítið annað en hugarburður. Oft settar fram eins lágar og mögulegt er, svo koma megi verkefninu í gang. Það er jú erfiðara að hætta við hafið verk en að byrja á nýju. Á þetta var bent af fjölmörgum aðilum, áður en ákvörðun um verkefnið var tekin, en ráðamenn þjóðarinnar hlustuðu ekki.
Samgöngusáttmálinn er að sjálfsögðu um það að koma á gamaldags borgarlínu um höfuðborgarsvæðið. Verkefni sem er algerlega ofvaxið sveitarfélögum á svæðinu og því nauðsynlegt að fá ríkissjóð að málinu. Til þess var sett einskonar framkvæmdabann á allar framkvæmdir varðandi þann hluta gatnakerfisins sem ríkið ber ábyrgð á. Þannig var hægt að nauðga ríkinu til að taka þátt í verkefninu, með loforði um að liðka skildi fyrir þeim framkvæmdum er taldar voru nauðsynlegar á stofnvegum svæðisins.
Kostnaður við áætlaðar framkvæmdir á stofnvegakerfinu á svæðinu er nokkuð ljós, þ.e. sá þáttur er snýr að ríkissjóð. Það sama verður þó ekki sagt um kostnað við borgarlínu. Því kemur á óvart að einn liður þeirra verkefna, sem nokkuð ljóst lá fyrir hvað kostaði, skuli hækka um allt að 15 milljarða króna, bara rétt sí svona. Ástæðan er þó skýr, það á að fórna mislægum gatnamótum fyrir stokk.
Bergþór Ólafsson kom í pontu Alþingis og taldi kostnað vegna sáttmálans vera kominn 50 milljarða yfir áætlun. Fljótlega kom Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna í fjölmiðla og sagði kostnaðinn "einungis" vera kominn 17 milljarða yfir áætlun. Þar munaði mestu um að í stað mislægra gatnamóta skyldi setja Sæbraut í stokk og að það hefði alltaf legið fyrir. Ég spyr nú eins og fávit, ef það lá alltaf fyrir, hvers vegna var stokkurinn þá ekki inni í upphaflegu áætlunum? Ef ein stök framkvæmd hoppar upp um 15 milljarða króna (15.000.000.000), hvað mun þá öll borgarlínan kosta? Er verið að búa til fordæmi? Heyrst hefur að sumum langi í neðanjarðarlestir. Lá það kannski fyrir frá upphafi líka?
Hvort kostnaður hefur hækkað um 50 milljarða eða 17 milljarða breytir ekki svo miklu. Hvoru tveggja hækkun um peninga sem ekki eru til. Hins vegar má fyllilega gera athugasemd þegar 0 hoppar upp í 17.000.000.000. Þar stendur hnífurinn í kúnni, eða öllu heldur vösum landsmanna, því þetta fé kemur jú úr þeim, með einum eða öðrum hætti.
Hvað sem öllu líður, þá er ljóst að ekki verður lengra haldið á þessari braut. Stofnun félagsins Betri samgangna voru mistök, vald þessa félags er allt of mikið og ljóst að framkvæmdastjóri þess hefur ekki hundsvit á peningum eða hvernig skuli með þá farið. Ég sagði áður að erfitt væri að hætta við hafið verk. Það er þó ekki útilokað og stundum nauðsynlegt. Þegar komið er út í kelduna og fyrir séð að hún er dýpri og verri en ætlað var, er snúið til baka, ekki ætt út í dauðann!
![]() |
Margra anga kolkrabbi sem þarf að beisla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 08:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
EGO borgarstjórnar reynist landanum dýrkeypt
2.2.2023 | 01:23
Íslenskir fjölmiðlar eru pólitískir í sínum störfum, um það verður ekki deilt. Sumir stjórnmálamen og stjórnmálaflokkar eiga hægara með að koma sínum málum á framfæri en aðrir, það á einnig við um ýmsa hópa í samfélaginu. Fréttamenn eru fljótir til að flytja hvaða vitleysu sem er, ef það kemur úr hálsi "réttra" manna og þegar sum málefni eru til umfjöllunar eru tilkallaðir "sérfræðingar" sem styrkja fréttir fjölmiðla. Aðrir stjórnmálamenn komast ekki að, jafnvel þó þeir komi fram með málefni sem rík þörf er fyrir þjóðina að fá fréttir af.
Síðastliðinn þriðjudag (31/1) steig þingmaður í pontu Alþingis og lagði spurningar fyrir innviðaráðherra. Þær spurningar sneru að borgarlínu og samgöngusáttmála Alþingis við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, um þá staðreynd að nú þegar hefðu áætlanir um þau verkefni hækkað um 50 milljarða króna og að einn einstakur liður þeirra hækkað úr 2,74 milljörðum upp í 17,72 milljarða, eða um 15 milljarða, Það gerir að sá einstaki liður áætlunarinnar hækkar um 650%. Enginn fjölmiðill, ekki einn einasti, hefur flutt fréttir af þessari umræðu á Alþingi, enda viðkomandi þingmaður ekki í náð fréttamiðla.
Um fyrirspurnina og fátækleg svör ráðherra má lesa í tenglum hér að neðan, en kannski það sem mest kom á óvart var að það virðist sem búið sé að færa fjárveitingarvaldið frá Alþingi yfir til Betri samgangna og einhvers stýrihóps sem í sitja ráðherrar og forsvarsmenn sveitarfélagana á svæðinu. Að sá hópur geti sóað fjármunum ríkissjóðs að eigin vild, án afskipta Alþingis. Sumir segja stjórnarskránna ónýta, en þar kemur þó skýrt fram að fjárveitingarvaldið liggur hjá Alþingi og engu fé megi eyða úr sjóðum ríkisins nema með samþykki þess.
Einhverjum kann að finnast þetta lítil frétt, sérstaklega vegna þess hver stingur á kýlinu. En þetta er engin smáfrétt. Fyrir utan þann augljósa sannleik að Vegagerðin er stórkostlega fjársvelt, getur ekki haldið við vegakerfinu um landið, svo börn sem keyrð eru til skóla vítt um landið mæta þangað ælandi eftir torfærur ferðarinnar, nefni sem dæmi Vatnsnesveg, þá er 50 milljarða hækkun borgarlínuverkefnis ekki nein smá upphæð. Munum að í fyrstu var talað um að kostnaður yrði um 70 milljarðar.
Það er ekki eins og ríkissjóður sé að springa undan peningum og ekki eru sveitarfélögin betur sett, sér í lagi sjálf höfuðborgin. Því verður að sækja þessa peninga með einhverjum hætti til landsmanna. Ef við gefum okkur að þessari upphæð yrði bara skipt jafnt á hvert mannsbarn í landinu, mun þessi kostnaðarauki þýða kostnað fyrir hverja fjögurra manna fjölskyldu upp á rúmlega hálfa milljón króna. Upphæðin yrði töluvert hærri ef einungis íbúar höfuðborgasvæðisins tækju hana á sig en það verður auðvitað ekki. Þetta eru ekki neinir smáaurar!
Þessi frétt á fullt erindi í fjölmiðla og þeir verða að hætta sínu dekri við pólitíkina. Fjölmiðlar eiga að flytja fréttir. Þar er auðvitað ruv sekast, þar sem sá fréttamiðill er í eigu landsmanna og rekinn fyrir fé sem hvert mannsbarn þarf að greiða, hvort sem vilji er til eða ekki. Aðrir fjölmiðlar eru reknir á öðrum grunni og kannski viðkvæmari fyrir þeirri hönd sem fæðir þá.
Hér má svo sjá umræðuna:
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 01:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kostnaðaráætlun
15.1.2023 | 16:10
Það er nokkuð kómískt að lesa í upphafi hvers árs hversu langt yfir kostnaðaráætlun snjómokstur fer. Þetta á bæði við um ríki og sveitarfélög. Þessar fréttir hafa verið nær árvissar nú um langt skeið, sama hversu snjóþungt er.
Flestir reyna að gera sér í hugarlund hvernig bókhaldið mun ganga upp, fyrir hvert ár. Heimili, fyrirtæki sveitarfélög og ríkissjóður, þurfa að hafa einhverja hugmynd um rekstur komandi árs og gera því kostnaðaráætlun. Reyndar er kannski ekki slík áætlun sett á blað varðandi heimilisrekstur, er meira í höfði fólks, svona almennt. Fyrirtæki, sveitarfélög og ríki verða hins vega að hafa formið nokkuð fastara.
Í heimilisrekstri er nokkuð ljóst hver innkoman er og einnig föst gjöld. Matarkostnaður, húsaleiga eða afborganir húsnæðislána, rekstur bifreiðar og svo framvegis, er nokkuð fastur rekstrarliður heimila, þó sífellt hækkandi. Annar kostnaður eins og bilanir heimilistækja, veikindi og fleira, er aftur kostnaður sem erfiðara er að ráða í. Þann kostnað er jafnvel útilokað að áætla og flestir sem láta þar skeyta að sköpum, taki á þeim vanda eftir þörfum.
Varðandi fyrirtæki þá verður málið örlítið erfiðara. Þar geta tekjur orðið mismunandi og gjöld sveiflast, þó ekki alltaf í takt. Eftir sem áður þurfa fyrirtæki að koma saman einhverri vitrænni kostnaðaráætlun og notast þá gjarnan við söguna, þ.e. rekstur fyrri ára. Auk þess að spá í komandi ár. Sumum tekst nokkuð vel við þessa áætlanagerð og skila sínu búi nærri því sem ætlað var, en öðrum gengur verr.
Þegar kemur að sveitarfélögum og ríkissjóð virðist annað vera upp á teningnum. Þar standast áætlanir sjaldnast. Tekjur gjarnan ofætlaðar og gjöld vanætluð. Þetta á jafnt við um svokallaðan fastan kostnað sem og ófyrirséðan. Eitt er þó sammerkt með bæði ríki og sveitarfélugum, þau vanáætla snjómokstur á hverju ári, væntanlega til að láta sínar áætlanir líta betur út. Jafnvel á snjóléttustu árunum fer kostnaður við snjómokstur fram úr áætlun.
Reyndar er það svo að áætlun um snjómokstur getur aldrei orðið réttur. Það eru 99.99% líkur á að hann verði rangur. Veðurguðunum er slétt sama hvað stjórnmálamenn hugsa. Ef vel er áætlað og mokstur minni, verður afgangur og ef lágt er áætlað og mokstur meiri vantar uppá. Í báðum tilfellum er áætlunin röng. Þó er eðlilegra og móralskt betra að fá afgang en skort. Að áætlunin sé rífleg. Þegar hins vegar vanáætlað er ár eftir ár, sama hvernig snjóalög eru, er beinlínis verið að segja fólki ósatt um rekstur sveitarfélaga og ríkis. Þá er allt eins gott að sleppa þessum lið úr áætlunum þeirra og gefa einfaldlega upp kostnaðinn fyrir hvert ár, eftirá. Snjónum þarf alltaf að ryðja burt af götunum, sama hvernig sjóðir sveitarfélaga og ríkis standa.
Um áætlanir í framkvæmdum, sér í lagi á vegum ríkis og sveita, ætla ég ekki að skrifa. Það er sérstakur kapítuli og mun svæsnari.
![]() |
Kostnaður við snjómokstur í Kópavogi langt yfir áætlun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |