Færsluflokkur: Samgöngur

Sáttin er grunn

Jæja, þá er farið að glitta í einhvern málefnasamning hinnar nýju borgarstjórnar. Reyndar erfitt að átta sig á því sem tilvonandi borgarstjórar tjá sig um, svo ólíkur sem málflutningur þeirra er. Varla traustvekjandi, svona á fyrsta degi hjónabandsins.

En hvað um það, förum aðeins yfir það sem Einar segir. Munum að hann talaði um miklar breytingar í kosningabaráttunni. Líklega hefur það gefið ófá atkvæði til Framsóknar.

Einar boðar 18 breytingar. Þó nefnir hann einungis þrjár þeirra, væntanlega þær mikilvægustu. Fyrst nefnir hann metnaðarfyllri áætlanir í byggingu íbúðahúsnæðis. Það hefur svo sem ekki skort metnaðinn í áætlanir á þessu sviði, hjá fyrrverandi meirihluta. Glærusýningar og annað útgefið efni um málið hefur flætt frá þeim yfir landsmenn síðustu tólf ár. Hins vegar hefur orðið minna úr framkvæmdum. Þarna er því ekki um neina breytingu að ræða, áætlanir eru svo sem góðar en það eru framkvæmdir sem telja.

Sundabraut er næst hjá hinum nýja verðandi borgarstjóra. Þar er svipað upp á borðum, borgarstjórn hefur í sjálfu sér aldrei hafnað Sundabraut, þó einstaka fulltrúar hafi ákveðnar skoðanir gegn henni. Reyndar skipulagði borgin íbúðabyggð á því svæði sem hagkvæmast hefði verið að leggja þessa braut, þannig að verkefnið mun kosta meira en ella. Reyndar er nýlegt samkomulag milli borgarinnar og stjórnvalda um þetta málefni í gildi og ekki séð annað en að verið sé að fylgja því. Það er því vart hægt að tala um að þarna sé um einhvern viðsnúning eða taktískar breytingar að ræða.

Og svo er það þriðja málið sem Einar nefnir, Vatnsmýri og flugvöllur. Þar er sama upp á teningnum og í Sundabrautarmálinu, nýlegt samkomulag um að flugvöllurinn verði enn um sinn og að ekki megi skerða öryggi hans með byggingum við hann. Því er ekki heldur nein breyting þarna.

Reyndar má lesa aðra frétt, þar sem talað er við Dag um málið. Hann snýr dæminu svolítið á annan veg. Fyrst skal byggt og síðan unnið með Isavia varðandi mótvægisaðgerðir vegna minna öryggis flugvallarins. Þarna greinir nokkuð á milli þeirra, tilvonandi borgarstjóranna. Misræmið í túlkun þeirra í þessu máli ber ekki merki um sátt milli þeirra.

Í öllu falli er ljóst að þær breytingar sem Framsókn lofaði höfuðborgarbúum og reyndar landsmönnum öllum, finnast varla.


mbl.is Byggja í Vatnsmýri ef það ógnar ekki flugöryggi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svik og galdrar

Maður veltir því virkilega fyrir sér til hvers fólk mætir á kjörstað. Vilji kjósenda er ekki virtur.

Í síðustu tvennum sveitarstjórnarkosningum hefur meirihluti borgarstjórnar verið felldur af kjósendum, þó hefur Samfylking farið einna verst út úr þessum kosningum. Málflutningur þessa flokks virðist ekki eiga upp á pallborð kjósenda. Þrátt fyrir að fylgi Samfylkingar hafi fallið um þriðjung á þessum tíma, lafir flokkurinn í meirihluta, með hjálp annarra flokka. Eftir kosningarnar 2018 kom Viðreisn Samfylkingu til hjálpar og nú bætti sá flokkur enn betur og gekk í raun inn í hinn deyjandi flokk, með samkomulagi um að halda samstarfi áfram, hvað sem kjósendur segðu. Og í einfeldni sinni gekk Framsókn að þessum afarkjörum Viðreisnar. Þar með hefur Framsókn tryggt að dýrð þeirra mun ekki standa fram yfir næstu kosningar. Svikin við kjósendur eru algjör!

Framsókn vann vissulega stórsigur í Reykjavík. Kosningaloforðin voru í sjálfu sér loðin, meira horft til ímyndar en málefna, en þó stóð eitt kosningaloforð uppi sem einkennisorð Framsóknar; breytingar voru boðaðar. Kosningabandalag við Dag og hans fylgifólk mun tryggja að þetta eina kosningaloforð Framsóknar mun ekki standa, það verður einnig svikið. Svik við kjósendur er algjört!

Galdramenn eru þeir sem af snilligáfu sinni geta platað fólk til að sjá eitthvað annað en raunveruleikann. Platað fólk til að upplifa eitthvað allt annað en það í raun upplifir. Plata fólk til að trúa því ótrúanlega. Dagur er sannarlega einn slyngasti galdramaður Íslands.

Skoðum nú aðeins málefni og gerðir Samfylkingar, síðustu þrenn kjörtímabil. Vorið 2014 fékk flokkurinn 31% fylgi kjósenda, tími leikarans var liðinn og við tók tími galdramannsins. Fyrir þær kosningar var í sjálfu sér ekki mikið rætt um svokallaða borgarlínu og allt ruglið tengt henni. Flestir kjósendur töldu á þeim tímapunkti að hugmyndin væri svo afspyrnu fáránleg að hún yrði aldrei annað en hugmynd einhverra vitskertra. Strax að loknum kosningum var þó farið á fulla ferð í vinnu til að koma þessari hugmynd á koppinn. Byrjað var á að þrengja götur og gera einkabílnum erfiðara fyrir, unnið að framgangi málsins á bak við tjöldin, meðal annars innan landsstjórnar og löggjafans.  Svona gekk fram undir kosningarnar 2018. Í þeim kosningum felldu kjósendur þennan meirihluta, enda farnir að átta sig á að jafnvel þó hugmyndin um borgarlínu væri svo fráleitar sem mest mátti vera, auk þess sem kostnaður af henni væri eitthvað sem enginn vissi í raun, ætluðu vinstri menn, undir stjórn Dags, að koma henni í framkvæmd. Ætluðu sér að færa höfuðborg landsmanna aftur um heila öld í samgöngumálum. En þá kom Viðreisn til sögunnar og vilji kjósenda var hafður að engu.

Eftir að Dagur hafði verið reistur upp úr öskustónni, með hjálp Viðreisnar hófst enn eitt kjörtímabil skelfingar. Nú var fullum krafti hleypt í þessa afturhaldshugmynd vinstrimanna. Jafnvel tókst galdramanninum Degi að fífla stjórnvöld til liðs við sig, auðvitað með hálfkveðnum vísum. Þegar seinnihluti vísanna var kveðinn áttuðu stjórnvöld sig á að þau höfðu verið höfð af fíflum, en höfðu ekki kjark til að viðurkenna það. Því hafði Dagur tangarhald á þeim og tókst ekki bara að láta ríkissjóð opna opinn víxil fyrir þessum gerðum, heldur beinlínis kosta kosningabaráttu flokksins fyrir nýafstaðnar kosningar. Eftir sem áður höfnuðu kjósendur þessum meirihluta, enn og aftur. Fylgi Samfylkingar hafði nú minnkað um rúm 30%, í tvennum kosningum. Þá kemur Viðreisn til sögunnar. Af einhverjum ótrúlegum ástæðum komst fulltrúi flokksins að þeirri niðurstöðu að sinn flokkur, sem hafði tapað helmingi sinna borgarfulltrúa, bæri að vera í borgarstjórn og ekki aðeins það, heldur átti hennar flokkur að bjarga Degi enn og aftur.

Framsókn, sem hafði unnið stórsigur, hafði nú einungis tvo kosti eftir, að ganga til viðræðna við galdramanninn og hans slekti, eða stíga til baka. Flokkurinn valdi verri kostinn. Þegar þessir afarkostir Viðreisnar voru staðreynd átti Framsókn ekki að sætta sig við þá stöðu og draga sig til baka. Með þessari ákvörðun sinni skrifaði flokkurinn upp á hrun sitt í næstu kosningum. Kjósendur Framsóknar kusu þann flokk út á loforð um breytingar, ekki loforð um sama ástand áfram.

Hér hef ég einkum bent á borgarlínu sem óstjórn vinstri meirihlutans, enda það mál lang stærst í göldrum Dags. Það má líka benda á margt annað, eins og bragga og strá, pálmatré, Hlemm, hin ýmsu torg þar sem gras er rifið upp með rótum og hellur lagðar, óþrifnaður á gatnakerfi og landi borgarinnar, Sorpu og margt margt fleira í dúr óstjórnar. En borgarlínu fylgir sú skelfing að borgin er færð öld aftur í tíma. Ekki einungis er slíkur rekstur gamaldags og úreltur og kostnaður mikill, heldur á að neyða fólk til að nota hana með skipulagi byggðar. Farið er aftur til tíma sovéts í þeim málum og háhýsi byggð svo þétt að ekki nær sól til jarðar. Fá eða engin bílastæði eru ætluð íbúum eða gestum þeirra. Byggt er á dýrustu lóðum borgarinnar og rifin þar hús sem eru í ágætis standi og sum jafnvel mjög góðu standi. Þetta gerir kostnað bið byggingu íbúðahúsnæðis enn dýrara en ella og er þó nóg samt!

Bílaflotinn er að færast frá eldsneytisbílum yfir í rafbíla. Hér á landi er þessi breyting svo hröð að bílaframleiðendur hafa ekki undan. Bið eftir nýjum rafbílum er mikil. Því er ljóst að þessi þróun mun verða mun hraðari hér en víðast annarsstaðar. Einungis framboðið sem mun tefja. Þetta breytir þó ekki hugsanagangi vinstrimanna í höfuðborginni. Einkabíll er einkabíll og einkabíll er slæmur, að þeirra mati. Mengun skiptir þar engu máli. Þá skiptir engu máli hjá þessu fólki að Reykjavík er höfuðstaður Íslands. Þangað þurfa íbúar landsins að sækja ýmsa þjónustu, sem ekki er lengur til staða á landsbyggðinni. Það fólk þarf að komast um borgina. Hef reyndar oft velt fyrir mér hvers vegna allir kjósendur landsins hafi með það að gera hver stjórnar höfuðborginni okkar.

Það sem átti að vera stuttur pistill um svik við kjósendur er orðinn lengri en góðu hófi gegnir. Hitt er deginum ljósara að björgun Framsóknar á hinum fallna meirihluta eru stór svik við kjósendur. Framsókn á ekki roð í galdramanninn.


mbl.is Meirihlutasamningur BSPC í höfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pawel brugðið

Pawel Bartoszek, borgarfulltrúa Viðreisnar er brugðið. Innviðaráðherra vill að borgin standi við gerðan samning. Það er nýlunda fyrir borgarfulltrúann, enda ráðherrar þessarar ríkisstjórnar og þeirrar síðustu, ekki verið að fetta fingur út í að borgin túlki samninga við ríkið eftir sínu höfði.

Megin málið er þó að borgarfulltrúinn bendir á samning frá 2013, máli sínu til stuðnings og gerir lítið úr samningi sem gerður var 2019. Það er þó kannski rétt fyrir borgarfulltrúann að átta sig á þeirri staðreynd að þegar tvennir samningar standast á, þá er það ætíð hinn nýrri sem tekur yfir þann eldri. Annað getur einfaldlega ekki gengið upp. Í samningnum frá 2013 var norður-suður brautin tryggð til ársins 2022, en í samningnum frá 2019 er hún tryggð þar til annar flugvöllur hefur verið byggður. Að öryggi vallarins verði ekki skert frekar en orðið er. Ekki mjög flókið.

Það er hins vegar rétt hjá borgarfulltrúanum, að hvorugur samningurinn fjallar um uppbyggingu borgarinnar á svæðinu, hvorki innan né utan flugvallar, enda varla þörf á að tíunda það. Það er fjallað um að öryggi flugvallarins skuli óskert og innviðauppbyggingu vegna starfsemi vallarins. Það ætti að duga. Ef rekstraraðili flugvallarins telur rekstraröryggi skert með uppbyggingu við flugbrautina, þá verður sú uppbygging auðvitað að bíða þar til rekstur vallarins hættir.

 


mbl.is Harður tónn ráðherra ekki í takt við sátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ómarktækir menn

Forgangsorka og afgangsorka eru hugtök sem gjarnan heyrast í fréttum. Þetta eru tveir ólíkir kostir, forgangsorka er orka sem keypt er í þeirri trú að hún sé ekki skerðanleg og borgað hærra verð fyrir og hins vegar afgangsorka sem raforkufyrirtækin selja á lægra verði og geta skert þegar þörf er á. Nú er staðan orðin sú að útlit er fyrir að skerða þurfi forgangsorkuna, að ekki sé næg afgangsorka í kerfinu til að taka á móti áföllum. Ástæðan sögð vera erfitt veðurfar og skortur á vatni í miðlunarlónum, auk þess sem dreifikerfið er sagt lélegt.

Vissulega má taka undir að dreifikerfi orkunnar um landið er komið af fótum fram, enda stór hluti þess nálægt því hálfrar aldar gamalt. Þetta eru engin ný sannindi, nánast nóg að vind hreyfi til að einhverjir hlutar þess gefi sig. Skemmst er að mynnast er stór hluti norðurlands varð rafmagnslaus í marga daga vegna óveðurs. Það er reyndar umhugsunarvert hvernig stjórnvöld hugsa sér að framkvæma orkuskipti hér á landi meðan dreifikerfið getur ekki haldið uppi annarri nauðsynlegri þjónustu, svo sem að halda raforku á sjúkrastofnunum. Orkuskortur verður hins vegar ekki leystur með bættu dreifikerfi, einungis hægt að jafna þannig skerðingar yfir landið.

Hitt er alvarlegra, en það er staða miðlunarlóna. Þar getur tvennt komið til, annars vegar minna innstreymi í lónin yfir sumartímann og hins vegar meira útstreymi úr þeim á þeim tíma er verið er að safna byrgðum. Rafmagnsframleiðsla meiri en efni standa til.

Stærstu miðlunarlónin okkar tengjast Vatnajökli. Vart verður sagt að sumarið í sumar hafi verið einstaklega óhagstætt hvað veðurfar snertir. Á norðanverðum jöklinum var einstaklega hlýtt og að sunnanverðu nokkuð úrkomusamt. Hvor tveggja ákjósanleg veðurskilyrði til vatnsframleiðslu jökulsins. Í það minnsta er ekki hægt að tala um neinar hamfarir í veðurfari og fráleitt að reyna að skella skuldinni á það. Því hlýtur ástæðan frekar að liggja í að útstreymi úr lónunum, yfir sumartímann sé meira en núverandi lón ráða við. Að orkusalan sé meiri en framleiðslugetan.

Orkunotkun landsmanna hefur aukist, um það þarf svo sem ekki að deila. Hitt er líka ljóst að orkunotkun mun aukast enn frekar á komandi árum. Ef síðan ætlunin er að fara í orkuskipti, eins og stjórnvöld hafa boðað og eru í raun hafin að litlu leyti, þá mun orkunotkun landsmanna aukast verulega á næstu árum. Til að mæta þessu þarf annað hvort að stækka miðlunarlónin eða nýta betur það vatn sem nú er verið að virkja. Virkjanir neðar í Þjórsá eru nærtækasta lausnin til að nýta það vatn sem þegar er virkjað. Síðan þarf að horfa til annarra kosta, svo sem nýrra virkjana í nýjum stöðum, að dreifa áhættunni.

Afgangsorka á að vera til að taka við stórum áföllum, hvort heldur er í veðurfari, framleiðsluferli eða dreifikerfi. Því má afgangsorka í raun aldrei verða fullnýtt. Ætíð þarf að vera til afgangsorka í kerfinu, jafnvel þó áföll skelli á. Lögmál Murphys er oft sterkt, eins og sýndi sig nú á dögunum, en daginn eftir að forstjóri Landsvirkjunar tilkynnti um miklar skerðingar á orkusölu, vegna lélegra stöðu miðlunarlóna, kom hann aftur í fjölmiðla til að tilkynna að ein eining í framleiðsluferlinu hefði bilað. Nokkrum dögum síðar tilkynnir annað orkufyrirtæki um bilun hjá sér. Því þarf afgangsorka ætið að vera næg, ef ekki á illa að fara. Við getum rétt ímyndað okkur ástandið, eftir orkuskiptin, ef bílaflotinn, skipaflotinn og jafnvel flugflotinn verður að stoppa vegna orkuskorts í landinu!

Það er skammt síðan Hörður Árnason, forstjóri Landsvirkjunar, talaði fyrir því að við þyrftum að leggja sæstreng til útlanda, svo selja mætti afgangsorkuna sem væri að fylla raforkukerfi landsmanna. Enn styttra er síðan Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, fullyrti í fjölmiðlum að næg orka væri til í landinu og að ekki þyrfti að virkja vegna orkuskiptanna. Þarna töluðu forstjórar tveggja stærstu orkuframleiðenda landsins og þó stöndum við nú frammi fyrir orkuskorti og það áður en orkuskipti er í raun hafin.  Eigendur þessara fyrirtækja, landsmenn og höfuðborgarbúar, hljóta að krefja þá um skýringar á þessum ummælum sínum, í ljósi stöðunnar. Þessir menn er vart marktækir og alls ekki starfi sínu vaxnir!

Ef ætlun stjórnvalda er að standa við þau orð sem fallið hafa af munni þeirra, bæði innanlands og erlendis, um orkuskipti, er ljóst að efla þarf raforkuframleiðslu verulega og bæta þarf dreifikerfið, bæði milli landshluta sem og innan byggða. Miðað við þau markmið sem boðuð eru á sviði orkuskiptanna og miðað við þann gang sem er í orkuöflun og orkudreifingu, verður ekki séð að hljóð og mynd fari saman. Reyndar líkara því að horfa á gamla þögla mynd!

Fyrsta og stærsta skrefið væri að endurheimta yfirráð yfir framleiðslu og nýtingu orkunnar okkar, úr höndum ESB.

 

 


mbl.is Frekari skerðingar á næsta ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er ekki bæði sleppt og haldið

Framkvæmdastjóri Landverndar telur ekki ástæðu til frekari uppbyggingar á orkusviðinu, nema kannski að efla línur um landið. Þetta kemur ekki á óvart, utan þess að hún skuli nú opna á frekari uppbyggingu dreifikerfisins. Þar hefur Landvernd verið dugleg að stöðva málin, hingað til.

Rök framkvæmdastjórans eru þau að nú sé óvenjulegt ástand. Lítil raforkuframleiðsla yfir veturinn, hátt verð á áli og loðna. Það er svo sem ekkert óvenjulegt við þetta, né að það þurfi að vera meitlað í stein. Raforkuframleiðsla þarf ekki að vera minni á veturna, en þá þarf auðvitað að vera þannig búið hjá Landsvirkjun að til staðar sé bæði aukin framleiðslugeta og nægt vatn í lónum. Það má vissulega segja að þar hafi Landsvirkjun sofið á verðinum.

Álverð rokkar alltaf upp og niður, hefur ætið gert það og mun sjálfsagt halda því áfram. Hápunktar á verði á áli taka ekki mið af árstíðum, heldur markaði. Því þarf að vera til orka til þeirrar framleiðslu, nema Landvernd telji betra að loka þessum verksmiðjum og færa framleiðsluna úr landi, þar sem orkan kæmi frá kolakyntum orkuverum.

Loðnan er ólíkindatík og erfitt að átta sig á hennar hegðun. Hitt er víst að þegar hún gefur sig, þarf að veiða hana. Það er líka vitað að veiðitími loðnunnar er að vetri til. Ef við viljum gera vinnslu loðnunnar umhverfisvænni, þarf auðvitað að vera til rafmagn til þess. Annars er sú vinnsla keyrð með olíu, olíu sem svarar til um 20.000 fólksbílum að magni til en sennilega nærri 40.000 að mengun til, þar sem fiskimjölsverksmiðjur eru kynntar með mun meira mengandi eldsneyti en bílaflotinn.

Umhverfisvernd og aðgerðir gegn umhverfismengun eiga vart saman. Það sannar framkvæmdastjóri Landverndar í þessu viðtali. Umhverfisvernd vinnur gegn allri nýtingu auðlinda landsins, sér í lagi orkuauðlinda. Aðgerðir gegn umhverfismengun kalla hins vegar á aukna nýtingu auðlinda okkar. Þar breytir engu hvort um er að ræða aðgerðir gegn umhverfismengun á landsvísu eða heimsvísu. Framkvæmdastjóri Landverndar verður að átta sig á það er ekki bæði sleppt og haldið í þessu máli.

Orkuskipti í samgöngum kosta orku. Kannski hafa menn verið sofandi á verðinum vegna þeirra ummæla er forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur lét falla, að ekki þyrfti aukna orku til orkuskipta í samgöngum, kannski trúðu of margir þessu gaspri forstjórans. Það er vitað hvað við flytjum mikið af eldsneyti til landsins, auðvelt er að reikna það magn til orku og þannig hægt að sjá hversu mikla orku þarf til orkuskipta í samgöngum. Þetta er ekki flókið, hitt er flóknara að átta sig hvernig forstjóri OR gat komist að sinni undarlegu niðurstöðu. Einna líkast því að hann telji rafmagn verða til í tenglunum! Eitt liggur fyrir að innflutningur á rafbílum hefur aukist verulega og kannski það eigi einhvern þátt í að ekki er lengur til næg orka í kerfinu. Það hefur alla vega ekki verið gert neitt í að auka orkuframleiðsluna.

Undir lok viðtalsins segir framkvæmdastjóri Landverndar að Ísland sé verra en margar Evrópuþjóðir þegar kemur að mengun, að hér á landi sé mengun á hvern íbúa mun hærri en þar. Það má reikna sig í allan fjandann, og vissulega er ljóst að fámenn þjóð í stóru landi, sem að auki hefur yfir að ráða miklu magni af hreinum orkulindum, sé verra sett í samanburðinum, þegar valið er að nota viðmiðun útreikninga á hvern íbúa. Vandinn er hins vegar ekki landlægur, heldur á heimsvísu. Því væri eðlilegra að reikna mengun hvers lands á landstærð, þann hluta heimsbyggðarinnar sem viðkomandi þjóð ræður yfir. Þá er ljóst að fáar þjóðir komast með tærnar þar sem við höfum hælana. Í öllu falli er ljóst að þessir útreikningar verða okkur vart hagstæðari ef við þurfum að kynda bræðslurnar á olíu, sem svarar því að á götur og vegi landsins væri dengt 20-40.000 bensínbílum, í viðbót við það sem fyrir er!

Megin málið er að til að vinna gegn mengun á heimsvísu þarf að nýta allar hreinar og endurnýjanlegar orkulindir sem fyrir finnast á jörðinni. Þá er ég að tala um hreinar endurnýjanlegar orkulindir, vatn, jarðhita, etc.  ekki vindmillur eða eitthvað sem mengar jafnvel meira en gasorkuverin.

 

 


mbl.is Ekki afsökun til að virkja meira
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"megas"

Þessi pistill er ekki um hinn ágæta listamann Megas, þó vissulega sé hægt að skrifa langan og góðan pistil um þann dreng. Þessi pistill er um grein eftir Guðmund Pétursson, rafmagnsverkfræðing, þar sem hann segir frá hugmynd um framleiðslu á því sem hann kallar "megas". Áhugaverð grein.

Metan hefur verið framleitt og selt hér á landi um nokkuð skeið, en aldrei náð því flugi sem til var ætlast. Þar kemur fyrst og fremst til að dreifikerfi er ekki til staðar, einungis örfáir sölustaðir til og metanið þar selt undir lágum þrýstingi. Þetta veldur því að fáir hafa aðgang að sölunni og þeir sem hana hafa lenda oftar en ekki í vandræðum með áfyllingu á sína bíla.

Guðmundur bendir á að mikil mengun af CO2 kemur frá jarðgufuvirkjunum, nokkuð merkileg staðreynd þar sem manni hefur verið tjáð að slík orkuframleiðsla væri vistvæn. Þessa mengun, sem og mengun frá stóriðjuverum, mætti fanga og framleiða þannig metanrafeldsneyti. Þetta eldsneyti megi síðan þétta niður í vökva og selja þannig, bæði til nota innanlands á stór farartæki, vinnuvélar, skipaflotan og jafnvel flugflotann. Einnig er auðvelt að selja slíka afurð úr landi, til þurfandi meginlandsins.

Framleiðslugeta okkar á metani er mikil. Í dag er það einkum framleitt úr sorpi, hér á landi, en hauggas mætti vinna í stórum stíl. Þetta er þegar gert erlendis og framleiðendur vinnuvéla horfa til þessarar lausnar. T.d. eru þegar komnir á markað dráttavélar fyrir bændur sem ganga fyrir slíku gasi. Slík gasframleiðsla kostar nokkurt stofnfé og eins og staða bændastéttarinnar er hér á landi er ljóst að þeir munu seint koma slíkri framleiðslu á koppinn. Sjálf framleiðsla metan er í sjálfu sér ekki svo flókin, en að koma því í fljótandi form er nokkuð flóknara. Eftir að það hefur verið gert er hins vegar lítið mál að flytja það milli landa.

Grein Guðmundar um framleiðslu á rafeldsneyti er fróðleg. Slík framleiðsla, ásamt aukinni framleiðslu á metangasi, gæti hæglega hjálpað okkur við orkuskiptin, auk þess að bæta enn einni stoð undir gjaldeyrisöflun okkar.

 


Gömul tækni og ný

Það voru mikil mistök af stjórnvöldum að afhenda Reykjavíkurborg Keldnaland. Ríkið átti að halda þessu landi, til uppbyggingar á nýju sjúkrahúsi fyrir landsmenn. Það er þegar ljóst að svokallaður nýr landspítali mun ekki geta sinnt því sem honum er ætlað. En "shit happens" og úr því sem komið er þýðir víst lítið að gráta Björn bónda.

Skortur á húsnæði í Reykjavík er eitthvað sem virðist vera að nálgast náttúrulögmál. Og enn virðist fjúka í skjólin þar á bæ, þar sem borgarstjóri virðist ætla að nýta þennan skort til að flýta fyrir borgarlínu, einhverju fyrirbæri sem fáir vita hvað er, kostar meira en nokkurn grunar og færir samgöngukerfi borgarinnar aftur á miðja síðustu öld, á kostnað allra landsmanna. Gamaldags og úrelt fyrrbæri, á tímum tækniframfara í framleiðslu rafbíla af öllum stærðum.

Röksemd borgarstjóra er þó frekar bágborin, kannski hægt að segja barnaleg. Hann heldur því fram að ekki sé hægt að auka íbúðamagn í efribyggðum borgarinnar, þar sem umferðaræðar anni ekki þeirri umferð! Fáist ekki byggingalóðir í efri byggðum innan borgarmarkanna mun fólk einfaldlega leita út fyrir borgarmörkin. Borgarlína mun þar engu breyta og götur borgarinnar munu eftir sem áður stíflast. Fólk þarf jú þak yfir höfuðið og að komast á milli staða, hvað sem borgarstjóri segir.

Það er löngu ljóst að gatnakerfi Reykjavíkur sinnir ekki þeirri umferð sem því ber. Borgarlína mun, samkvæmt björtustu spám, fjölga fólki sem ferðast með almenningssamgöngum úr um 4% í um 10%. Það er langt frá því að duga fyrir þeirri fjölgun sem ætluð er að muni ferðast um borgina í nánustu framtíð. Fjöldinn munu áfram ferðast á einkabílnum. Reyndar eru líkur á að færslan frá almenningssamgöngu til einkabílsins muni verða mikil á næstu árum, jafnvel svo að lítil sem engin þörf verður á rekstri stórra strætisvagna á götum borgarinnar, hvað þá einhverri borgarlínu.

Ástæða þessarar fullyrðingar minnar er einföld. Tækni í framleiðslu rafbíla af öllum stærðum er mikil og á eftir að aukast. Samhliða því fer framleiðslukostnaður við þessa bíla lækkandi. Nú þegar eru komnir á markað litlir ódýrir rafbílar á ótrúlega lágu verði. Þessir bílar eru að ná vinsældum sem borgarbílar erlendis. Eftir örfá ár, löngu áður en svokölluð borgarlína verður að veruleika, mun fólk telja jafn nauðsynlegt að eiga rafbíl, af þeirri stærð sem hverjum hentar, eins og að eiga snjallsíma eða fartölvu. Jafnvel að fartölvunni verði skipt út fyrir lítinn rafbíl, séu fjárráðin af skornum skammti.

Borgarstjórn Reykjavíkur undir stjórn Dags er hins vegar föst í fortíðinni. Þar er horft til úreltrar tækni, þegar sú nýja er ekki við þröskuldinn heldur komin innfyrir hann!!

Smá sýnishorn af framtíðinni:

e-cars

toyota

smart

honda

hiriko

 

 


mbl.is Uppbygging í Keldum ávísun á „stóra stopp“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örlítill grenjndi minnihluti

 Ég tilheyri þeim þúsundum landsmanna sem kallaðir hafa verið "örlítill grenjandi minnihluti".

Við landsmenn höfum verið þeirra gæfu aðnjótandi að fyrsti forseti Alþingis hefur lítið nýtt sér ræðustól stofnunarinnar, mestan part þess kjörtímabils er nú er senn að ljúka. Undantekningu gerði hann þó á þessari nýju en gleðilegu venju sinni, fyrir um viku síðan, er hann taldi sér nauðsynlegt að lítillækka hluta þjóðarinnar, með þeim orðum að um "örlítinn grenjandi minnihluta" væri að ræða. Sem forseti Alþingis og handhafi forsetavalds, voru þessi ummæli kuldaleg, hvort sem um stórann eða lítinn hluta þjóðarinnar væri að ræða. Þarna setti forseti Alþingis stórann og ljótan blett á þá stofnun sem honum er trúað til að stjórna.

Ekkert hafði forseti þó fyrir sér í þessari fullyrðingu annað en gamla skoðanakönnun er gerð var fyrir Landvernd. Gerð á þeim tíma er enginn vissi í raun um hvað málið fjallaði. Haldið var uppi þeirri fullyrðingu að um einhverskonar vernd landsins væri að ræða, án frekari útskýringa. Og auðvitað vilja allir Íslendingar að landið okkar sé verndað. Núverandi hugmyndir um hálendisþjóðgarð, er ná mun um einn þriðja landsins, á þó ekkert skylt við landvernd, enda ekki séð hvernig verndun hálendisins getur orðið betri undir einhverri fjárvana stofnun í Reykjavík. Í dag er hálendið vel varið. Engar framkvæmdir er hægt að gera þar nema með leyfi margra stofnana og sveitarfélaga. Utanvegaakstur er bannaður sem og öll náttúruspjöll. Þó vanmönnuð lögregla eigi erfitt með að framfylgja þessum bönnum, er þó ekki neitt í frumvarpi ráðherra sem gerir ráð fyrir bótum á því.

 Sporin hræða.

Núverandi þjóðgarðar eru sveltir fé til sinna mála og sá stærsti þeirra, Vatnajökulsþjóðgarður er nær yfir um 14% landsins, er svo fjársveltur að uppsafnaðar skuldir hans nema hundruðum milljóna króna, þó verulega skorti á að uppbygging þar sé viðunandi og í sumum tilfellum í molum.

Miklar deilur hafa verið um aðgengi að sumum perlum þess þjóðgarðar og í nýju frumvarpi umhverfisráðherra er því svo fyrir komið að slíkar deilur muni aukast markfalt, ef stofnaður verður þjóðgarður um það sem eftir stendur af hálendinu. Allt vald til ákvarðanatöku um ferðir um hina og þessa vegi og slóða hins nýja þjóðgarðs verður sett til einhverra manna sem ekkert umboð hafa frá þjóðinni og þeir jafnvel geta fært það umboð til landvarða á hverjum stað. Fyrir séð er því algert öngþveiti á þessu sviði og jafnvel má búast við fjölda dómsmála gegn ríkin, vegna ákvarðana Péturs eða Páls í nafni hins nýja þjóðgarðar.

 Aðkoma þjóðarinnar.

Forseti Alþingis hélt því fram að um örlítinn grenjandi minnihluta væri að ræða, sem væri á móti því að taka einn þriðja hluta landsins undan eðlilegri stjórnsýslu og fela fámennum hópi fólks vald til stjórnunar þess, fólki sem ekkert umboð hefði frá kjósendum og jafnvel Alþingi sjálft mun ekki geta ráðið yfir. Sama málflutning hafa aðrir aðstandendur frumvarpsins haft uppi, þó enginn hafi verið jafn orðljótur og forseti Alþingis, a.m.k. ekki í ræðustól Alþingis. Ef þeir þingmenn sem þannig tala trúa eigin orðum, því þá ekki að setja málið í dóm þjóðarinnar? Það ætti að reynast þeim auðvelt. Eða eru þessir þingmenn vitandi um það að í slíkri kosningu yrði málið sennilega fellt?

 Hrossakaup?

Það kemur vissulega upp í huga manns hvort um einhver hrossakaup stjórnarflokkanna sé að ræða. VG fer nú hamförum í sínum pólitísku gælumálum og hendir þeim fram á færibandi, fyrir þing og þjóð. Hinir tveir stjórnarflokkarnir sitja hjá sem hýenur og bíða þess er að þeim kemur. Vissulega hafa sumir stjórnarþingmenn sett fram fyrirvara gegn stofnun hálendisþjóðgarðs og síðast nú í gær sem formaður Framsóknar ítrekaði sína fyrirvara. Enginn stjórnarþingmaður hefur þó sett sig gegn þessu frumvarpi, einungis um einhverja fyrirvara að ræða, sem vigta lítið í heildarmyndinni.  Það er því spurning, hvað fá Framsókn og Sjálfstæðisflokkur fyrir að hleypa VG liðum lausum þessa dagana? Þessi spurning er stór en brennur sennilega á vörum margra. Stendur eitthvað stórt til? Er verið að kaupa af VG sölu ríkiseigna? Bankarnir? Keflavíkurflugvöllur? Eða jafnvel gullegg þjóðarinnar, Landsvirkjun?

Allir landsmenn vilja að landið okkar og náttúra þess fái sem mest vernd, að ekki sé anað út í einhverja framkvæmd sem gerir landið fátækara og verra. Í dag höfum við komið málum þannig fyrir að þessi markmið eru höfð í hávegum. Rammaáætlun tryggir hvar er virkjað og hvar ekki. Landgræðsla og landbætur eru í höndum bænda og Landgræðslu Ríkisins, auk aðkomu sveitarfélaga. Þetta hefur reynst vel og landið okkar orðið grænna fyrir vikið. Engar framkvæmdir, svo sem vegir eða annað, eru heimilar nema í samráði sveitarfélaga og stjórnvalda og allar stærri slíkar aðgerðir þurfa ð fara í umhverfismat. Málin eru því nokkuð góð hjá okkur í vernd landsins, þó vissulega megi bæti í á einstaka stað. Það er ekkert í hugmyndum um þennan nýja þjóðgarð sem gerir betur. Hins vegar má leiða líkum að því að sumt muni fara á verri veg, svo sem samstaða Landgræðslunnar og bænda, svo dæmi sé tekið.


Sóðaskapur borgaryfirvalda

Átti brýnt erindi til höfuðborgarinnar í dag. Fer helst ekki á þær slóðir að þarflitlu. Það sem kom á óvart, eftir að hafa ekið um sveitirnar í björtu og góðu veðri, var hvað skyggni var slæmt í borginni.

Við nánari skoðum sá ég, mér til mikillar undrunar, að yfir götunum lá mikið ryk, svo mikið að þegar ég leit í spegilinn sá ég að undan mínum litla bíl stóð rykský, rétt eins og ég væri að aka á malarvegi. 

Er það virkilega svo að ráðafólk borgarinnar veit ekki að götur borgarinnar eru malbikaðar? Það þarf auðvitað að sópa rykið af þeim, annars má allt eins spara malbikið og hafa bara malargötur.

Við búum á Íslandi, þar sem vikur eldgosa þvælist fram og til baka, í mörg ár eftir hvert gos. Þetta ryk sest á götur borgarinnar, sem annarsstaðar og eina lausnin er að þrífa það reglulega burtu.

Ekki er hægt að kenna nagladekkjum um núna, þar sem borgarstjóri hældi sér af því að borgin væri að kosta þrif gatna í upphafi nýliðin sumars og því fáir ef nokkrir ekið þessar götur á nagladekkjum síðan. En askan spyr víst lítið hvort það sé sumar eða vetur, hún nýtir allan vind sem býðst og sest þar sem skjól finnst.

Í viðhendri frétt er fólk hvatt til að leggja einkabílnum. Mun nær er að hvetja borgaryfirvöld um lágmarks hreinlæti. Sóðaskapur og slóðaskapur er engum til sóma! 


mbl.is Fólk hvatt til að leggja einkabílum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarlína og plast

Enn hefur gengið erfiðlega að fá skilgreiningu á hvað svokölluð borgarlína er. Margar hugmyndir hafa komið fram en í raun með öllu óvitað að hverju er stefnt. Þó hafa menn komist að þeirri niðurstöðu að þetta sem enginn veit hvað er mun kosta mikla peninga, reyndar ekki enn á hreinu hversu mikla en þó aldrei undir 80 milljörðum íslenskra króna, sennilega þó mun meira.

Það er því snjallt hjá þingmönnum að afsala sér þessari óvissu allri og stofna bara opinbert einkahlutafélag um málið. Þeir þurfa þá ekkert að pæla meira í því. Enn betra er þó að þetta opinbera einkahlutafélag mun fá völd til skiplagningar umferðarsvæða og fjáröflunar þannig að þingstörf verða enn léttari. Þeir geta þá snúið sér að merkari málum, eins og að rífast um hvernig fatnað þeir klæðast, hvort klukkan sé rétt eða hver eigi að stjórna hverri nefnd, sem sumar hverja verða þá væntanlega einnig verkefnalausar.

Umboðslausi ráðherrann fagnar, bæði því að þurfa nú ekki lengur að pæla í svokallaðri borgarlínu og einnig hinu að nú skal bannað að selja áakveðnar tegundir af plasti. Þar er viðmiðið hvort viðkomandi plastvara finnst á stöndum meginlands Evrópu.

Í flestum tilfellum er plast nytsamlegt og sumum tilfellum getur annað efni illa komið í staðinn. Það er hins vegar umgengnin um plastið sem er vandamál, þ.e. eftir að upphaflegu notkun er lokið. Þar má vissulega taka til hendinni. Það er þó ekki sjáanlega plastið sem er verst, þó það sé slæmt. Örplastið, þetta ósýnilega, er mun verra. Það finnst víða og einhver mesti örplastframleiðandinn í dag eru vindmillur. Spaðarnir eyðast upp á undarlega skömmum tíma þó enginn sjái hvað verði um það plast. Ástæðan er augljós öllum sem vilja, það verður að ósýnilegu örplast.

En Mummi umboðslausi hefur ekki áhuga á því, hann horfir bara til stranda meginlands Evrópu og það sem á þær rekur skal banna.


mbl.is Borgarlínan verður að veruleika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband