Það er ekki bæði sleppt og haldið

Framkvæmdastjóri Landverndar telur ekki ástæðu til frekari uppbyggingar á orkusviðinu, nema kannski að efla línur um landið. Þetta kemur ekki á óvart, utan þess að hún skuli nú opna á frekari uppbyggingu dreifikerfisins. Þar hefur Landvernd verið dugleg að stöðva málin, hingað til.

Rök framkvæmdastjórans eru þau að nú sé óvenjulegt ástand. Lítil raforkuframleiðsla yfir veturinn, hátt verð á áli og loðna. Það er svo sem ekkert óvenjulegt við þetta, né að það þurfi að vera meitlað í stein. Raforkuframleiðsla þarf ekki að vera minni á veturna, en þá þarf auðvitað að vera þannig búið hjá Landsvirkjun að til staðar sé bæði aukin framleiðslugeta og nægt vatn í lónum. Það má vissulega segja að þar hafi Landsvirkjun sofið á verðinum.

Álverð rokkar alltaf upp og niður, hefur ætið gert það og mun sjálfsagt halda því áfram. Hápunktar á verði á áli taka ekki mið af árstíðum, heldur markaði. Því þarf að vera til orka til þeirrar framleiðslu, nema Landvernd telji betra að loka þessum verksmiðjum og færa framleiðsluna úr landi, þar sem orkan kæmi frá kolakyntum orkuverum.

Loðnan er ólíkindatík og erfitt að átta sig á hennar hegðun. Hitt er víst að þegar hún gefur sig, þarf að veiða hana. Það er líka vitað að veiðitími loðnunnar er að vetri til. Ef við viljum gera vinnslu loðnunnar umhverfisvænni, þarf auðvitað að vera til rafmagn til þess. Annars er sú vinnsla keyrð með olíu, olíu sem svarar til um 20.000 fólksbílum að magni til en sennilega nærri 40.000 að mengun til, þar sem fiskimjölsverksmiðjur eru kynntar með mun meira mengandi eldsneyti en bílaflotinn.

Umhverfisvernd og aðgerðir gegn umhverfismengun eiga vart saman. Það sannar framkvæmdastjóri Landverndar í þessu viðtali. Umhverfisvernd vinnur gegn allri nýtingu auðlinda landsins, sér í lagi orkuauðlinda. Aðgerðir gegn umhverfismengun kalla hins vegar á aukna nýtingu auðlinda okkar. Þar breytir engu hvort um er að ræða aðgerðir gegn umhverfismengun á landsvísu eða heimsvísu. Framkvæmdastjóri Landverndar verður að átta sig á það er ekki bæði sleppt og haldið í þessu máli.

Orkuskipti í samgöngum kosta orku. Kannski hafa menn verið sofandi á verðinum vegna þeirra ummæla er forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur lét falla, að ekki þyrfti aukna orku til orkuskipta í samgöngum, kannski trúðu of margir þessu gaspri forstjórans. Það er vitað hvað við flytjum mikið af eldsneyti til landsins, auðvelt er að reikna það magn til orku og þannig hægt að sjá hversu mikla orku þarf til orkuskipta í samgöngum. Þetta er ekki flókið, hitt er flóknara að átta sig hvernig forstjóri OR gat komist að sinni undarlegu niðurstöðu. Einna líkast því að hann telji rafmagn verða til í tenglunum! Eitt liggur fyrir að innflutningur á rafbílum hefur aukist verulega og kannski það eigi einhvern þátt í að ekki er lengur til næg orka í kerfinu. Það hefur alla vega ekki verið gert neitt í að auka orkuframleiðsluna.

Undir lok viðtalsins segir framkvæmdastjóri Landverndar að Ísland sé verra en margar Evrópuþjóðir þegar kemur að mengun, að hér á landi sé mengun á hvern íbúa mun hærri en þar. Það má reikna sig í allan fjandann, og vissulega er ljóst að fámenn þjóð í stóru landi, sem að auki hefur yfir að ráða miklu magni af hreinum orkulindum, sé verra sett í samanburðinum, þegar valið er að nota viðmiðun útreikninga á hvern íbúa. Vandinn er hins vegar ekki landlægur, heldur á heimsvísu. Því væri eðlilegra að reikna mengun hvers lands á landstærð, þann hluta heimsbyggðarinnar sem viðkomandi þjóð ræður yfir. Þá er ljóst að fáar þjóðir komast með tærnar þar sem við höfum hælana. Í öllu falli er ljóst að þessir útreikningar verða okkur vart hagstæðari ef við þurfum að kynda bræðslurnar á olíu, sem svarar því að á götur og vegi landsins væri dengt 20-40.000 bensínbílum, í viðbót við það sem fyrir er!

Megin málið er að til að vinna gegn mengun á heimsvísu þarf að nýta allar hreinar og endurnýjanlegar orkulindir sem fyrir finnast á jörðinni. Þá er ég að tala um hreinar endurnýjanlegar orkulindir, vatn, jarðhita, etc.  ekki vindmillur eða eitthvað sem mengar jafnvel meira en gasorkuverin.

 

 


mbl.is Ekki afsökun til að virkja meira
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Sæll.

Það er ljóst í mínum huga að orkuskipti verða ekki gerð með rafhlöðuvæðingu bílaflotans. Bílaflotinn er pínöts í þessu samhengi og í raun fáránlegt að verið sé að einblína á hann.

En samhengi hlutanna hjá Landvernd fer engan vegin saman við rökrásir í mínum heila. Þessi framkoma og skæruliðastarfsemi, sem ég kalla, er komin út í tóma vitleysu og þarfnast einhverra skýringa á æðri stöðum.

Sindri Karl Sigurðsson, 10.12.2021 kl. 16:42

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ég er sammála báðum málsgreinum í þinni athugasemd, Sindri. Hitt er ljóst að orkuskipti í samgöngum er þegar hafið, hvort sem okkur líkar betur eða verr og sama hvort það hefur áhrif á veðurfarið eða ekki. Þessi orkuskipti kosta auðvitað orku.

Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að taka slaginn í orkuskiptum í samgöngum. Ekki vegna þess að ég telji að það hafi nein áhrif á hlýnun jarðar, heldur af þeirri einföldu ástæðu að fyrir okkur sem þjóð er hagkvæmara að nýta innlenda orku í stað erlendrar. Það sparar okkur dýrmætan gjaldeyri.

Vissulega eru vandamál varðandi geymslu raforku, en vonandi ´æa það eftir að lagast. Ef ekki er spurning hvort við ættum þá bara ekki að laga okkur að þeim vanda og reyna að lifa við hann.

Hitt kom mér virkilega á óvart, þegar Bjarni litli ítrekaði enn og aftur, í fjölmiðlum, í dag, að orkuskiptin kalli ekki á frekari orkuframleiðslu. Þekki kauða nokkuð, en þarna kom hann mér enn á óvart í sinni fávisku!

Gunnar Heiðarsson, 10.12.2021 kl. 20:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband