Nagladekk- eða ekki / öryggisbelti- eða ekki

Nú síðustu daga hefur verið nokkur hálka á vegum. Þá er gott að vera kominn með nagladekkin undir bílinn.

Mikill áróður er gegn notkun nagladekkja hér á landi. Þar fara hæst sumir stjórnmálamenn, sem telja sig höndla sannleikann í hverju máli. Þó er staðreynd sem ekki verður hrakin að engin dekk ráða betur við þær aðstæður er verið hafa snemma morguns og seint að kvöldi, síðustu daga. Vissulega eru til dekk sem ráða ágætlega við þetta, harðkornadekk, loftbóludekk og sumar tegundir vetrardekkja eru orðin mjög góð í hálku, en engin þeirra betri en nagladekkin. Þá er einnig vitað að aldur dekkja skiptir máli, að ný sumardekk geti jafnvel verið betri í hálku en gömul ónegld vetrardekk. Auðvitað er það svo að engin dekk, negld eða ónegld, gefa fullkomna viðspyrnu í hálku. Ætið þarf að aka við þær aðstæður af varúð. En enginn getur haldið því fram að ónegld dekk séu betri en negld dekk, í ísingu og hálku.

Notkun nagladekkja er öryggismál. Þeir sem halda því fram að nagladekk séu óþörf, að slík tækni hafi átt sér stað í framleiðslu dekkja, að naglar séu óþarfir, geta allt eins sagt að framleiðsla bíla hafi tekið slíkum stakkaskiptum að öryggisbelti séu óþörf. Og vissulega hefur orðið mikil breyting í bílaframleiðslu síðust áratugi, þar sem megin áhersla er lögð á öryggi farþega, að ekki sé talað um að allir bílar eru komnir með loftpúða til að verja farþega. Engum, ekki einu sinni allra fávísustu stjórnmálamönnunum, dettur þó til hugar að nefna að öryggisbelti séu óþörf. Enda öryggi í umferðinni aldrei of mikið. Því er nánast ótrúlegt að fólk sem vill láta taka mark á sér, skuli tala gegn einu mesta umferðaröryggi sem hægt er að hugsa sér, þegar að hálku kemur. Einungis keðjur geta talist betri en nagladekk.

Þarna skipta aurar auðvitað mestu máli fyrir stjórnmálamenn. Notkun öryggisbelta eykur ekki neinn kostnað fyrir ríki og sveitarfélög, meðan hægt er að halda því fram að naglar auki slit á götum. Þar er þó kannski stærri sökudólgur saltaustur á göturnar. Á móti kemur kostnaður vegna slysa sem orsakast vegna notkunarleysis á nagladekkjum. Beinn kostnaður af þeim tjónum leggst á tryggingafélögin, ríki og borg og fyrirtækin og lendir að endingu alltaf á almenningi. Óbeini kostnaðurinn, örkumlun eða dauði, lendir hins vegar á nánustu fjölskylduaðilum. Þann kostanað er ekki hægt að reikna til aura.

Niðurstaðan verður alltaf að kostnaður við nagladekkjanotkun er lægri, þegar upp er staðið.

Verum ekki fífl, nýtum alla möguleika í umferðaröryggi.

Ökum á nagladekkjum.


mbl.is Hálka víða um land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Skeggi Skaftason

Hvar býrð þú?

Hér þar sem ég bý, á höfuðborgarsvæðinu, hefur ekki komið einn einasti dagur í vetur sem hefur kallað á notkun nagladekkja.

Það er fullkomlega fullnægjandi hér í höfuðborginni að aka á góðum ónegldum vetrardekkjum. 

Ef fólk lendir í aðstæðum þar sem nagladekk myndu nýtast betur þá er nú yfirleitt bara að aka hægar sem nemur 10-20 km/klst, en ef þú værir á nöglum.

Nagladekk slíta yfirborð gatna a.m.k. 20-falt á við ónegld dekk. Um það er ekki deilt og þau sem neita því afneita staðreyndum.

Skeggi Skaftason, 6.12.2022 kl. 15:17

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Skeggi og gaman að sjá að þú hafir vaknað. Leiðinlegra er hins vegar að þú skulir ekki skrifa undir eigin nafni. Þarft ekkert að skammast þín fyrir það, þó landsþekkt sé.

En hvað um það. Það er hins vegar spurning hver er að afneita staðreyndum. Allar rannsóknir sýna að nagladekk eru betri í hálku en ónegld dekk. Um þá staðreynd þarf ekki að deila. Hitt má deila um, hver orsök á eyðingu á malbikinu er.

Salt leysir upp tjöru, það er staðreynd. Tjara er eitt aðal efni malbiks og bindur það saman, það er líka staðreynd. Eyðing á malbiki er talin vera um 20% á ári, það er þó ekki óyggjandi staðreynd. Hver þáttur nagla þar er, er ekki vitað, svo óyggjandi sé. Þá er staðreynd að hér á landi er lélegra malarefni notað við malbiksframleiðslu en erlendis. Við skulum alveg halda gervimalbikinu, svo kölluðu Ottodekki, utan umræðunnar.

Það er því saltið sem er höfuð vandinn varðandi endingu malbiks. Þegar við bætist lélegt malarefni og jú, nagladekk, verður niðurstaðan sem hún er. Hitt hefur verið skoðað, bæði austan hafs og vestan, að slit á malbiki verður meira þar sem saltað er og engir naglar notaðir, en þar sem ekki er saltað og nagladekk notuð.

Þetta er þó tittlingaskítur. Jafnvel þó hægt væri að segja að nagladekk slíti malbiki um einhverjar prósentur, er sá skaði alltaf minni en hlýst af þeim tjónum sem verða þegar hálka skellur á. Á höfuðborgarsvæðinu er saltað. Aldrei mun þó verða hægt að salta allar götur samtímis hálkumyndun. Sumt fólk þarf að fara snemma til vinnu, annað seint að kvöldi. Allir þurfa að komast út úr íbúðahverfum borgarinnar. Því er tómt mál að segja að ekki sé hætta á hálku innan borgarinnar.

Ég bý út á landi, þ.e. hin megin flóans, eða á Skipaskaga. Ég vinn vaktavinnu og stundum er ég á ferðinni eldsnemma á morgnana og stundum seint á kvöldin. Þarf að aka til vinnu eftir þjóðveginum og þarf að aka þessa leið hvernig sem viðrar og í hvaða færi sem er. Undanfarna morgna og kvöld hefur verið töluverð hálka á þessari leið og þar sem hún er nú ekki nema í nokkurra kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni, þarftu ekki að segja mér það bull að ekki hafi myndast hálka á götum borgarinnar. Því síður að náðst hafi að eyða þeirri hálku af öllum götum, jafn skjótt og hún myndaðist. Þetta er slíkt bull að engu tali tekur og leitt að heyra frá þér. Sumir taka mark á orðum þínum, athugaðu það. Það þarf ekki að fletta fréttum langt aftur til að sjá hverskonar rugl þinn málflutningur er.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2022/12/06/bilvelta_naerri_vifilsstadavatni/

Megin málið er þó það að umferðarslys eru skelfileg og allur búnaður sem getur minnkað minnkað þá hættu á að notast. Ef eitthvað af þeim hjálpartækjum sem fást til aukins umferðaröryggis, leiðir af sér aukinn kostnað við gatnakerfið, á samt að nýta þau hjálpartæki. Örkuml eða dauði verður aldrei bættur, en ef hægt er að minnka líkur á slíkum skaða, má ekkert koma í veg fyrir að svo verði gert. Það er sektað fyrir að nota ekki öryggisbelti, þá ætti einnig að sekta fyrir að aka ekki á nagladekkjum.

Gunnar Heiðarsson, 6.12.2022 kl. 16:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband