Færsluflokkur: Bílar og akstur

Hvenær er nóg, nóg?

Vitleysan og fjárausturinn varðandi borgarlínu ætlar engan endi að taka. Hvenær er nóg, nóg?

Brúin yfir Fossvoginn skrifast að öllu leyti á borgarlínuverkefnið. Þar fá engir að aka um nema vagnar borgarlínu. Að vísu mun gangandi og hjólandi umferð náðarsamlegast að fá að fara þarna um, en engin önnur umferð. Þetta verkefni er því borgarlínan í sinni tærustu mynd.

Þegar ákvörðun var tekin um stofnun sérstaks félags um byggingu borgarlínu, af Alþingi, lágu auðvitað einhverjar hugmyndir um hver kostnaður yrði við borgarlínuna. Þar var meðal annars gert ráð fyrir að bygging brúar yfir Fossvoginn myndi kosta um 2,25 milljarða. Dágóð upphæð. Í september á síðasta ári var þessi áætlun kominn upp í 7,5 milljarða króna og nú, einungis fjórum mánuðum síðar er áætlaður kostnaður kominn upp í 8,8 milljarða króna! Þrátt fyrir þessar ótrúlegu hækkanir á áætluninni hefur verið hætt við að nota ryðfrítt stál í brúnna, eins og fyrst var gert ráð fyrir og ákveðið að nota svart stál í staðinn, sem auðvitað mun kalla á margfalt meira viðhald og mun styttri endingartíma. Brúin mun einfaldlega ryðga niður á örfáum árum!

Þegar verkefni hækkar svo gríðarlega  sem hér sést, bendir til að eitthvað stórkostlegt sé að í stjórnun verkefnisins, að þar sitji ekki hæft fólk í starfi. Hækkun á áætlunum frá 2,25 milljörðum upp í 8,8 milljarða og þar af hækkun um 1,3 milljarða síðustu fjóra mánuði, er ekki merki þess að þetta fólk viti hvaða það er að gera. Enn eru nokkrir mánuðir í útboð, svo reikna má með að áætlunin hækki enn frekar fram að því. Sagan segir okkur að við sjálft útboðið mun kostnaður hækka enn frekar. Hver svo endanlegur verðmiði verður á þessari einu brú, sem ekki er ætluð til almennrar umferðar, á eftir að koma í ljós.

Betri samgöngur ohf. voru stofnaðar fyrir fimm árum síðan. Þar er eigandinn að stærstum hluta ríkissjóður, eða 75% og síðan deila sveitarfélögin sem borgarlína er ætluð að fara um 25% eignarhlut. Kostnaður mun sjálfsagt skiptast í sama hlutfalli við eign í þessu félagi. Fá ef nokkuð sveitarfélaganna hefur aura til að leika sér með og allra síst það þeirra sem er stærst. Ríkissjóður er einnig rekinn á lánum. Því liggur fyrr að allur þessu kostnaður mun verð fjármagnaður með látökum. Við einfaldlega höfum ekki efni á slíku bruðli. Þá er vandséð hvernig hægt er að réttlæta að ríkissjóður sjái um fjármögnun að þrem fjórðu hluta verkefnisins. Hvernig hægt er að réttlæta að landsmenn sem aldrei munu eiga þess kost að nýta sér þessi ósköp, vegna búsetu, þurfi að láta sitt fjármagn í verkefnið.

Ef sveitafélögin á höfuðborgarsvæðinu sjá sér hag af því að leggja borgarlínu um sitt svæði eiga þau bara að gera það sjálf. Ríkið getur liðkað til með lagasetningum, ef þörf er á, en á ekki að vera aðili að þessu ævintýri, hvað þá að bera ábyrgð á þrem fjórðu hluta þess.

Meðan ríkið er aðili að borgarlínu, hlýtur að vera krafa á ríkisstjórn að stöðva málið hið snarasta. Það getur ekki gengið lengur að eitthvað fólk fái að leika sér með skattpeninga okkar eins og því lystir!


mbl.is Ekki litið til verðs við valið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draumórar, fallegur texti og fráleit kostnaðaráætlun

Þá er hvítbók Reykjavíkurborgar varðandi snjóhreinsun komin út. Fallegur texti og margar hugmyndir, svo sem að snjómagn skuli ráða snjómokstri og upphitun gatna með hitaveitu, ásamt fleirum undarlegum hugmyndum.

Það er þó ekki fyrr en búið er að pæla í gegnum allan fallega textann, fyrstu 28 blaðsíðurnar af 32 og kostnaðaráætlunin á síðustu fjórum blaðsíðunum er skoðuð, sem sést hvað þessi vinna er lítils virði og byggð fyrst og fremst á draumórum.

Ef tekin eru dæmi úr kostnaðaráætluninni, sem samtals hljóðar upp á 190 milljónir má nefna einn þátt sem hugsanlega getur staðist raunveruleikann, en þó varla. Það er kostnaður við ráðningu manna til eftirlits snjóruðnings, upp á heilar 50 milljónir á ári. Aðrir liðir eru svo fjarri raunveruleikanum að furðu sætir. Sem dæmi um einskiptisaðgerð um fjölgun tækja til snjóhreinsunar, upp á 5 milljónir. Það er ekki hægt að fá neina vinnuvél keypta fyrir þann pening. Minnsti liðléttingurinn eru dýrari og þá á eftir að kaupa snjótönn eða snjóblásara á hann. Þessi upphæð dugir vart fyrir virðisaukaskatti af skilvirku snjóruðningstæki.

Öll þessi áætlun ber þess merki að þeir sem hana sömdu vita fátt um snjóhreinsun. Þeir liðir sem hugsanlega geta staðist eru þeir sem snúa að skrifstofuvinnu borgarinnar, en allir liðir er snúa beint að sjálfri snjóhreinsuninni er eru vanreiknaðir, sumir jafnvel svo að undrun sætir.

Auðvitað á að miða snjóhreinsun að snjómagni. Það þarf ekki einhvern stýrihóp til að komast að þeirri einföldu staðreynd. Og auðvitað væri gott ef hægt væri að hita upp gatnakerfið, en meðan tæplega er til heitt vatn til að hita hús borgarinnar og sundlaugum er lokað, er varla til vatn í slíka draumóra.

190 milljónir hljóðar þessi áætlun uppá. Stór hluti þeirrar upphæðar á að notast við skrifborð borgarstarfsmanna. Væri ekki betra bara að nota allan peninginn til snjóhreinsunar? Það er ekki eins og það séu einhver vísindi sem liggja að baki þeirrar vinnu. Og gaman væri einnig að vita hver kostnaður við þessa hvítbók var. Þann pening hefði einnig mátt nota til snjóhreinsunar.

Draumórar, fallegur texti og fráleit kostnaðaráætlun er besta lýsingin á afurð þessa stýrihóps.


mbl.is Svona vill borgin bæta snjómokstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanhæfni í rekstri olíufélaga?

Grátklökkur forstjóri eins af olíufélögum þessa lands mætti í viðtal á sjónvarpsrás rúv í gærkvöldi. Taldi hann illa vegið að olíufélögunum hér, sér í lagi af hálfu framkvæmdastjóra FÍB.

Forstjórinn sagði að hér á landi væri einungis notað hreint eldsneyti og að skattar væru háir. Því væri alls ekki hægt að bera saman eldsneytisverð hér á landi við verð á eldsneyti erlendis. Við þessa er ýmislegt að athuga. 

Erlendis er eingöngu hreinsað eldsneyti selt af dælum, enda fáir bílar, ef einhverjir, búnir getu til að aka á óhreinsuðu eldsneyti. Því er sá samanburður vel hæfur. Um skatta er það að segja að t.d. í Danmörku, en verð eldsneytis þar var grunnur að fréttatilkynningu FÍB, eru skattar sambærilegir við það sem hér er. Því er sá samanburður einnig vel hæfur.

Þó keyrði um þverbak þegar forstjórinn var þráspurður um fákeppni olíufélaganna. Það taldi hann fráleitt, enda fjögur olíufélög í landinu og fimmti eldneytissalinn að auki. Samt sagði hann að öll þessi olíufélög sem sæju um innflutninginn, versluðu við sama birgja erlendis. Hver er þá samkeppnin?

Þá er spurning hvað breyttist við covidið. Var olían eitthvað minna hreinsuð fyrir það? Skattar hafa vissulega hækkað, rétt eins og í Danaveldi og samkeppnisstaðan hér er söm. Þó er álagningin nú margfalt meiri en hún var fyrir covid.

Eftir stendur að hagnaður olíufélagana hér hafa dregist saman um helming, að sögn forstjórans. Ef svo er, þegar séð er svo ekki verður um villst að álagning þeirra hefur aukist til muna, er ekki nema eitt í stöðunni.

Íslensku olíufélögin eru rekin af vanhæfu fólki!


En ekki hvað?

Það er ekkert smá embætti að gegna formennski í umhverfis og skipulagsnefnd Reykjavíkurborgar. Þegar snjóa tók í desember síðastliðnum, nokkur snjór en fráleitt að tala um einhverjar hamfarir í þeim efnum, kom í ljós að borgin var ekki viðbúin. Allt varð ófært. 

Í framhaldinu var rætt við formann umhverfis og skipulagsnefndar, en snjómokstur er víst á hans ábyrgð. Formaðurinn lét ekki slá sig út af laginu, þó fólk kæmist hvorki lönd né strönd og borgin lömuð. Boðaði hann stofnun stýrihóps. Taldi það vænlegra en mokstur gatna.

Nú, í lok vetrar, skilar loks þessi stýrihópur afurð sinni og mun væntanlega koma í hlut formanns skipulags og umhverfisnefndar að færa borgarbúum hinn heilaga sannleik um snjómokstur.

Snjómokstur á að taka mið af snjómagni! 

Djúpur sannleikur fyrir suma en einföld staðreynd fyrir flesta


Kostnaðaráætlun

Það er nokkuð kómískt að lesa í upphafi hvers árs hversu langt yfir kostnaðaráætlun snjómokstur fer. Þetta á bæði við um ríki og sveitarfélög. Þessar fréttir hafa verið nær árvissar nú um langt skeið, sama hversu snjóþungt er.

Flestir reyna að gera sér í hugarlund hvernig bókhaldið mun ganga upp, fyrir hvert ár. Heimili, fyrirtæki sveitarfélög og ríkissjóður, þurfa að hafa einhverja hugmynd um rekstur komandi árs og gera því kostnaðaráætlun. Reyndar er kannski ekki slík áætlun sett á blað varðandi heimilisrekstur, er meira í höfði fólks, svona almennt. Fyrirtæki, sveitarfélög og ríki verða hins vega að hafa formið nokkuð fastara.

Í heimilisrekstri er nokkuð ljóst hver innkoman er og einnig föst gjöld. Matarkostnaður, húsaleiga eða afborganir húsnæðislána, rekstur bifreiðar og svo framvegis, er nokkuð fastur rekstrarliður heimila, þó sífellt hækkandi. Annar kostnaður eins og bilanir heimilistækja, veikindi og fleira, er aftur kostnaður sem erfiðara er að ráða í. Þann kostnað er jafnvel útilokað að áætla og flestir sem láta þar skeyta að sköpum, taki á þeim vanda eftir þörfum.

Varðandi fyrirtæki þá verður málið örlítið erfiðara. Þar geta tekjur orðið mismunandi og gjöld sveiflast, þó ekki alltaf í takt. Eftir sem áður þurfa fyrirtæki að koma saman einhverri vitrænni kostnaðaráætlun og notast þá gjarnan við söguna, þ.e. rekstur fyrri ára. Auk þess að spá í komandi ár. Sumum tekst nokkuð vel við þessa áætlanagerð og skila sínu búi nærri því sem ætlað var, en öðrum gengur verr.

Þegar kemur að sveitarfélögum og ríkissjóð virðist annað vera upp á teningnum. Þar standast áætlanir sjaldnast. Tekjur gjarnan ofætlaðar og gjöld vanætluð. Þetta á jafnt við um svokallaðan fastan kostnað sem og ófyrirséðan. Eitt er þó sammerkt með bæði ríki og sveitarfélugum, þau vanáætla snjómokstur á hverju ári, væntanlega til að láta sínar áætlanir líta betur út. Jafnvel á snjóléttustu árunum fer kostnaður við snjómokstur fram úr áætlun.

Reyndar er það svo að áætlun um snjómokstur getur aldrei orðið réttur. Það eru 99.99% líkur á að hann verði rangur. Veðurguðunum er slétt sama hvað stjórnmálamenn hugsa. Ef vel er áætlað og mokstur minni, verður afgangur og ef lágt er áætlað og mokstur meiri vantar uppá. Í báðum tilfellum er áætlunin röng. Þó er eðlilegra og móralskt betra að fá afgang en skort. Að áætlunin sé rífleg. Þegar hins vegar vanáætlað er ár eftir ár, sama hvernig snjóalög eru, er beinlínis verið að segja fólki ósatt um rekstur sveitarfélaga og ríkis. Þá er allt eins gott að sleppa þessum lið úr áætlunum þeirra og gefa einfaldlega upp kostnaðinn fyrir hvert ár, eftirá. Snjónum þarf alltaf að  ryðja burt af götunum, sama hvernig sjóðir sveitarfélaga og ríkis standa.

Um áætlanir í framkvæmdum, sér í lagi á vegum ríkis og sveita, ætla ég ekki að skrifa. Það er sérstakur kapítuli og mun svæsnari.


mbl.is Kostnaður við snjómokstur í Kópavogi langt yfir áætlun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er dimmt yfir Reykjavík

Það þarf ekki hámenntaða menn til að átta sig á því að ekki skapast rykmengun af umferð þegar götur eru ýmist undirlagðar saltpækli eða klakabrynjaðar, eins og gatnakerfi borgarinnar er nú um stundir. Því kom borgarstjóri eins og skrattinn úr sauðaleggnum, þegar hann tjáði alþjóð að nagladekk væri sökudólgur þeirrar mengunar er leggst yfir borgina þegar vindurinn tekur sér smá frí. Þessi mengun er hrein útblástursmengun bíla með sprengimótor.

Það vekur hins vegar upp nokkuð stóra spurningu. Hvers vegna er þessi ógurlega mengun í borginni, þegar rafbílum fjölgar sem aldrei fyrr og mengun frá eldsneytisbílum minnkar  með hverju árinu sökum tækninýjunga? Getur verið að sú ákvörðun borgarstjórnar að hægja á umferð, hafi þar eitthvað að segja? 

Það er augljóst að bíll sem ekur á 30 km hraða er lengur milli staða en sá er ekur á 50 km hraða. Hvort bíll er á 30 eða 50 breytir litlu um mengun per tíma. Vélin gengur á svipuðum hraða, einungis gírkassinn breytist. Er í lægri gír þegar hægt er ekið. Því er ljóst að með því að hægja á umferð, eykst mengun.

Þó má einnig velta fyrir sér hversu mikil aukning á mengun svokölluð þétting byggðar hefur. Niðurbrot eldra húsnæðis, flutningur þess burt af svæðinu, mokstur fyrir nýjum grunni og akstur burt með það efni, flutningur á möl til að fylla aftur upp þá holu og jöfnun og þjöppun þess, kallar á óhemju mikla umferð stórra flutningabíla og fjölda vinnuvéla. Þá tekur við uppsteyping hins nýja stórhýsis með akstri fjölda steypubíla. Allt er þetta gert í grónum og byggðum hverfum, með tilheyrandi töfum á öllum stigum. Allt þetta veldur gífurlegri mengun, margfalt meiri en ef byggt er í nýjum hverfum. 

Hvort þessa miklu mengun megi rekja til ákvarðana borgarstjórnar, skal ósagt látið. Hitt er ljóst að rafbílum hefur fjölgað og nýrri eldsneytisbílar eru jafnt og þétt að útrýma eldri og mengunarmeiri bílum. 

Svo getum við, þegar vora fer og götur þorna, rifist um hvor er meiri sökudólgur varðandi rykmengun, nagladekkin eða einstakur og heimsfrægur sóðaskapur borgarstjórnar.


mbl.is Ekki vegryk heldur útblástur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nagladekk- eða ekki / öryggisbelti- eða ekki

Nú síðustu daga hefur verið nokkur hálka á vegum. Þá er gott að vera kominn með nagladekkin undir bílinn.

Mikill áróður er gegn notkun nagladekkja hér á landi. Þar fara hæst sumir stjórnmálamenn, sem telja sig höndla sannleikann í hverju máli. Þó er staðreynd sem ekki verður hrakin að engin dekk ráða betur við þær aðstæður er verið hafa snemma morguns og seint að kvöldi, síðustu daga. Vissulega eru til dekk sem ráða ágætlega við þetta, harðkornadekk, loftbóludekk og sumar tegundir vetrardekkja eru orðin mjög góð í hálku, en engin þeirra betri en nagladekkin. Þá er einnig vitað að aldur dekkja skiptir máli, að ný sumardekk geti jafnvel verið betri í hálku en gömul ónegld vetrardekk. Auðvitað er það svo að engin dekk, negld eða ónegld, gefa fullkomna viðspyrnu í hálku. Ætið þarf að aka við þær aðstæður af varúð. En enginn getur haldið því fram að ónegld dekk séu betri en negld dekk, í ísingu og hálku.

Notkun nagladekkja er öryggismál. Þeir sem halda því fram að nagladekk séu óþörf, að slík tækni hafi átt sér stað í framleiðslu dekkja, að naglar séu óþarfir, geta allt eins sagt að framleiðsla bíla hafi tekið slíkum stakkaskiptum að öryggisbelti séu óþörf. Og vissulega hefur orðið mikil breyting í bílaframleiðslu síðust áratugi, þar sem megin áhersla er lögð á öryggi farþega, að ekki sé talað um að allir bílar eru komnir með loftpúða til að verja farþega. Engum, ekki einu sinni allra fávísustu stjórnmálamönnunum, dettur þó til hugar að nefna að öryggisbelti séu óþörf. Enda öryggi í umferðinni aldrei of mikið. Því er nánast ótrúlegt að fólk sem vill láta taka mark á sér, skuli tala gegn einu mesta umferðaröryggi sem hægt er að hugsa sér, þegar að hálku kemur. Einungis keðjur geta talist betri en nagladekk.

Þarna skipta aurar auðvitað mestu máli fyrir stjórnmálamenn. Notkun öryggisbelta eykur ekki neinn kostnað fyrir ríki og sveitarfélög, meðan hægt er að halda því fram að naglar auki slit á götum. Þar er þó kannski stærri sökudólgur saltaustur á göturnar. Á móti kemur kostnaður vegna slysa sem orsakast vegna notkunarleysis á nagladekkjum. Beinn kostnaður af þeim tjónum leggst á tryggingafélögin, ríki og borg og fyrirtækin og lendir að endingu alltaf á almenningi. Óbeini kostnaðurinn, örkumlun eða dauði, lendir hins vegar á nánustu fjölskylduaðilum. Þann kostanað er ekki hægt að reikna til aura.

Niðurstaðan verður alltaf að kostnaður við nagladekkjanotkun er lægri, þegar upp er staðið.

Verum ekki fífl, nýtum alla möguleika í umferðaröryggi.

Ökum á nagladekkjum.


mbl.is Hálka víða um land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Firringin í ráðhúsinu við Tjörnina

Það er spurning í hvaða heimi borgarfulltrúinn lifir. Fyrir ekki löngu síðan var mikil hálka á þjóðvegum landsins, jafnvel í byggð á sumum stöðum. Loka þurfti vegum vegna snjóa á hluta landsins. Miðborg Reykjavíkur slapp að mestu en morgunhálka var í efri byggðum borgarinnar. Þó skammvinn hlýindi hafi komið til okkar aftur, síðustu daga, er full ástæða fyrir þá sem þess þurfa að setja naglafdekkin undir. Sér í lagi þeir sem þurfa að fara yfir fjallvegi.

Fyrir nokkrum vikum gerði logn í Reykjavík. Þetta var fagur og bjartur dagur og fjallasýn hin besta. Þegar litið var til borgarinnar var þykkt mengunarský yfir henni, reyndar svo þykkt að vart sáust þar húsin, héðan ofanaf Skaganum.

Ekki voru menn komnir á nagladekkin á þessum tíma, þannig að vart var hægt að tengja þá mengun við nagla. Þarna opinberaðist greinilega sóðaskapur borgaryfirvalda. Í logninu og þurrkinum þyrlaðist drullan upp af götum borgarinnar, enda götusópar eitthvað sem borgfaryfirvöld hræðast.

Hafi Hjálmar svona miklar áhyggjur af svifryksmengun innan borgarmarkanna ætti hann að byrja á því að hreinsa eigin rass, byrja á því að þrífa götur borgarinnar. Vegna þéttingastefnu borgaryfirvalda er óhemju magni jarðefna mokað á stóra flutningabíla og keyrt út fyrir borgarmörkin. Sömu bílar ferðast síðan sömu leið skömmu síðar til að koma með jarðefni til fyllingar þeim holum sem grafnar voru. Öll þessi umferð og allt þetta jarðrask skapar mikla rykmengun. Þetta ryk sest bæði á götur borgarinnar en ekki síður í illa hirt græn svæði, þar sem það liggur og bíður síns tíma. Þá má ekki gleyma þeirri staðreynd að víða um land eru sandar, einkum í fjörum suðurlandsins. Þaðan fýkur sandur yfir borgina. Allt skapar þetta síðan sviðryksmengun, sér í lagi þegar þéttingastefna borgarinnar leiðir til þess að stórir og þungir flutningabílar aka um götur hennar af miklum móð og mala rykið niður í svifryk.

Undrun borgarfulltrúans á því að bílaleigubílar skuli komnir á nagladekk er eiginlega toppurinn á heimskunni. Undanfarna vetur hafa bílaleigur verið harðlega gagnrýndar fyrir að hafa sína bíla ekki á viðeigandi dekkjabúnaði. Sú gagnrýni skapast vegna þess fjöld slysa sem hafa orðið og flest hægt að rekja til þess þáttar. Það ætti að gleðja hvern mann að bílaleygur skuli vera að gera bragabót þar á. Langstærsti hluti þeirra er leigja sér bíl eru erlendir ferðamenn. Þeir leigja sér ekki bíl til að ferðast um höfuðborgina, heldur til að ferðast um landið. Það er skammarlegt af stjórnmálamanni, sama hverja skoðun hann hefur á notkun nagladekkja, að láta svona ummæli frá sér. Fyrir okkur sem þurfum að ferðast um þjóðvegi landsins, nær daglega og þurfum að mæta erlendum ferðamönnum á bílaleigubílum. er örlítið meira öryggi að vita til þess að bílaleigur skuli vera að bæta þarna úr. Rétt eins og við sem þurfum að aka þjóðvegi til vinnu, sama hvernig færið er, ferðast erlendir ferðamenn um þessa sömu þjóðvegi, án tillits til færðar.

Að aumkunarverður borgarfulltrúi telji sig hæfan til að gagnrýna lögreglu landsins lýsir kannski best þeirri firringu sem ríkir í ráðhúsinu við Tjörnina.

 


mbl.is Eðlilegt að gagnrýna lögreglu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að flækja fyrirsjáanleikann

Umhverfis- orku og loftlagsráðherra (nokkuð dýr titill) telur að auka þurfi fyrirsjáanleik í kaupum á rafbílum. Fyrirsjáanleikinn var hins vegar nokkuð skýr, allt fram undir síðastliðið vor. Ívilnanir voru miðaðar við kaup á fyrstu 15.000 bílunum, en áttu síðan að leggjast af. Þetta vafðist ekki fyrir neinum og fyrirsjáanleikinn mjög skýr. En á vordögum ákvað ríkisstjórnin, eftir kröfum innflytjenda bílanna, að hækka þetta mark í 20.000 bíla. Þar með var fyrirsjáanleikinn horfinn út í veður og vind. Og enn ætlar ráðherrann með langa titilinn að auka á flækjustigið. Nú með hálfkveðnum vísum um nýjar ívilnanir til kaupa á rafbílum. Ekkert kemur þó fram í hverju þær ívilnanir liggja. Hann flækir bara fyrirsjáanleikann.

Við Íslendingar erum einstaklega nýjungagjarnt fólk. Þurfum alltaf að versla það nýjasta sem kemur á markaðinn. Því er næsta víst að jafnvel þó engar ívilnanir hefðu komið til og jafnvel þó eigendur rafbíla hefðu frá upphafi þurft að greiða sinn hluta til vegakerfisins, væri rafbílaeign lítið minni en hún er í dag. Það þurfti engar skattaívilnanir til að þjóðin færi á kostum þegar flatskjáir komu fyrst á markað. Snjallsímavæðingin hér á landi hefur tekist með ágætum þó engar skattaívilnanir komi til. Nú er hvert mannsbarn frá grunnskólaaldri með slík tæki í vasanum og flestir eru með dýrustu og nýjustu símana hverju sinni. Efnahagur skiptir þar litlu, snjallsíminn er látinn ganga fyrir öðrum nauðsynjum.

Megin ástæða þess að ekki eru fleiri rafbílar hér á landi er ekki skattaívilnanir. Ástæðan er að framleiðendur hafa ekki undan að framleiða rafbíla. Innflytjendur fá ekki nægt magn til landsins. Fleiri mánaða bið er eftir slíkum bílum hjá flestum umboðum. Þarna skipta skattaívilnanir minnstu máli.

Staðreyndin er sú að kaupendur rafbíla eru fyrst og fremst þeir er betur hafa það. Hástéttin og millistéttin. Hástéttin þarf ekki ívilnanir og millistéttin sem slíka bíla verslar, tekur bara hærra lán í bönkunum, enda þeir einstaklega viljugir til að lána til slíkra kaupa. Þeir sem minnst hafa milli handanna verða hins vegar að aka áfram á eldsneytisbílum. Það fólk hefur ekki efni á að nýta sér þessar skattaívilnanir. Hins vegar lendir á því fólki auknir skattar svo hægt sé að niðurgreiða bílana fyrir hástéttina!

 


mbl.is Boðar nýjar ívilnanir vegna rafbíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Syndaaflausn

Kaþólska kirkjan býður upp á að fólk geti keypt sig laust frá syndum og ræðst þar upphæð syndaaflausnar gjarnan af mikilfengleik syndarinnar. Auðvitað sjá allir að þarna er ekki um annað að ræða en peningaplokk kirkjunnar. Við sem stöndum utan kaþólsku kirkjunnar eigum svolítið erfitt með að skilja þennan hugsanahátt, þó sumir innan þeirrar kirkju telji þetta góða lausn frá syndum sínum. Að geta mætt með nokkrar spesíur til klerksins og þurrkað þannig út framhjáhald eða aðrar syndir sínar.

Í dag eru hins vegar annarskonar syndaraflausnir seldar. Hægt er að kaupa sig frá þeirri synd að losa lífsandann, co2, út í andrúmsloftið. Þessi viðskipti standa nú í blóma, þvert á trúarskoðanir og lönd. Hér á Íslandi er hópur sem er duglegur að selja slík aflausnarbréf og eru kaupendur þar bæði fólk og fyrirtæki. Þessi hópur segist geta létt þeirri synd af fólki með því einu að moka ofaní skurði landsins. Ólíkt syndaaflausn kaþólsku kirkjunnar, veit enginn í raun hvert það fé fer er borgað er fyrir þessa nútíma synd.

En nú er komið babb í bátinn. Í nýjasta Bændablaði er fróðleg grein um rannsóknir á meintri losun co2 úr þurrkuðu landi, reyndar fyrsta íslenska rannsóknin hér á landi sem er opinberuð. Að þessari rannsókn standa 7 fræðingar, hver á sínu sviði. Niðurstaðan er vægast sagt fróðleg og hætt við að margur er keypt hefur syndaaflausn af votlendissjóði muni eiga erfitt um svefn næstu vikurnar. Þeir hafa verið blekktir og synd þeirra lítið minni en áður.

Skemmst er frá að segja að opinberar tölur, er byggja á tölum er IPCC hefur kokkað upp, eru nærri 90% ofmetnar. Þannig að sá er keypti sér syndaaflausn fyrir að aka hringveginn er enn stór syndugur, fékk aflausn fyrir einungis 132 km af 1.320 km er ekið var. Þetta er auðvitað skelfilegt fyrir viðkomandi!

Plottið er það sama og hjá kaþólsku kirkjunni þó undir öðrum formerkjum sé.

Hér má lesa skýrsluna, á blaðsíðum 20 og 21


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband