Sáttin er grunn

Jæja, þá er farið að glitta í einhvern málefnasamning hinnar nýju borgarstjórnar. Reyndar erfitt að átta sig á því sem tilvonandi borgarstjórar tjá sig um, svo ólíkur sem málflutningur þeirra er. Varla traustvekjandi, svona á fyrsta degi hjónabandsins.

En hvað um það, förum aðeins yfir það sem Einar segir. Munum að hann talaði um miklar breytingar í kosningabaráttunni. Líklega hefur það gefið ófá atkvæði til Framsóknar.

Einar boðar 18 breytingar. Þó nefnir hann einungis þrjár þeirra, væntanlega þær mikilvægustu. Fyrst nefnir hann metnaðarfyllri áætlanir í byggingu íbúðahúsnæðis. Það hefur svo sem ekki skort metnaðinn í áætlanir á þessu sviði, hjá fyrrverandi meirihluta. Glærusýningar og annað útgefið efni um málið hefur flætt frá þeim yfir landsmenn síðustu tólf ár. Hins vegar hefur orðið minna úr framkvæmdum. Þarna er því ekki um neina breytingu að ræða, áætlanir eru svo sem góðar en það eru framkvæmdir sem telja.

Sundabraut er næst hjá hinum nýja verðandi borgarstjóra. Þar er svipað upp á borðum, borgarstjórn hefur í sjálfu sér aldrei hafnað Sundabraut, þó einstaka fulltrúar hafi ákveðnar skoðanir gegn henni. Reyndar skipulagði borgin íbúðabyggð á því svæði sem hagkvæmast hefði verið að leggja þessa braut, þannig að verkefnið mun kosta meira en ella. Reyndar er nýlegt samkomulag milli borgarinnar og stjórnvalda um þetta málefni í gildi og ekki séð annað en að verið sé að fylgja því. Það er því vart hægt að tala um að þarna sé um einhvern viðsnúning eða taktískar breytingar að ræða.

Og svo er það þriðja málið sem Einar nefnir, Vatnsmýri og flugvöllur. Þar er sama upp á teningnum og í Sundabrautarmálinu, nýlegt samkomulag um að flugvöllurinn verði enn um sinn og að ekki megi skerða öryggi hans með byggingum við hann. Því er ekki heldur nein breyting þarna.

Reyndar má lesa aðra frétt, þar sem talað er við Dag um málið. Hann snýr dæminu svolítið á annan veg. Fyrst skal byggt og síðan unnið með Isavia varðandi mótvægisaðgerðir vegna minna öryggis flugvallarins. Þarna greinir nokkuð á milli þeirra, tilvonandi borgarstjóranna. Misræmið í túlkun þeirra í þessu máli ber ekki merki um sátt milli þeirra.

Í öllu falli er ljóst að þær breytingar sem Framsókn lofaði höfuðborgarbúum og reyndar landsmönnum öllum, finnast varla.


mbl.is Byggja í Vatnsmýri ef það ógnar ekki flugöryggi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það hafa verið rök ófárra andstæðing flugvallarins að HANN sé hættulegur íbúabyggðinni.  Alltaf sé jú möguleiki á að vél fatist flugið þó sem betur fer sjaldgæft sé. 

Einkennilegt er þá þegar hinir sömu vilja þrengja að flugvellinum með byggð!

Bjarni G. (IP-tala skráð) 7.6.2022 kl. 16:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband