Svik og galdrar

Maður veltir því virkilega fyrir sér til hvers fólk mætir á kjörstað. Vilji kjósenda er ekki virtur.

Í síðustu tvennum sveitarstjórnarkosningum hefur meirihluti borgarstjórnar verið felldur af kjósendum, þó hefur Samfylking farið einna verst út úr þessum kosningum. Málflutningur þessa flokks virðist ekki eiga upp á pallborð kjósenda. Þrátt fyrir að fylgi Samfylkingar hafi fallið um þriðjung á þessum tíma, lafir flokkurinn í meirihluta, með hjálp annarra flokka. Eftir kosningarnar 2018 kom Viðreisn Samfylkingu til hjálpar og nú bætti sá flokkur enn betur og gekk í raun inn í hinn deyjandi flokk, með samkomulagi um að halda samstarfi áfram, hvað sem kjósendur segðu. Og í einfeldni sinni gekk Framsókn að þessum afarkjörum Viðreisnar. Þar með hefur Framsókn tryggt að dýrð þeirra mun ekki standa fram yfir næstu kosningar. Svikin við kjósendur eru algjör!

Framsókn vann vissulega stórsigur í Reykjavík. Kosningaloforðin voru í sjálfu sér loðin, meira horft til ímyndar en málefna, en þó stóð eitt kosningaloforð uppi sem einkennisorð Framsóknar; breytingar voru boðaðar. Kosningabandalag við Dag og hans fylgifólk mun tryggja að þetta eina kosningaloforð Framsóknar mun ekki standa, það verður einnig svikið. Svik við kjósendur er algjört!

Galdramenn eru þeir sem af snilligáfu sinni geta platað fólk til að sjá eitthvað annað en raunveruleikann. Platað fólk til að upplifa eitthvað allt annað en það í raun upplifir. Plata fólk til að trúa því ótrúanlega. Dagur er sannarlega einn slyngasti galdramaður Íslands.

Skoðum nú aðeins málefni og gerðir Samfylkingar, síðustu þrenn kjörtímabil. Vorið 2014 fékk flokkurinn 31% fylgi kjósenda, tími leikarans var liðinn og við tók tími galdramannsins. Fyrir þær kosningar var í sjálfu sér ekki mikið rætt um svokallaða borgarlínu og allt ruglið tengt henni. Flestir kjósendur töldu á þeim tímapunkti að hugmyndin væri svo afspyrnu fáránleg að hún yrði aldrei annað en hugmynd einhverra vitskertra. Strax að loknum kosningum var þó farið á fulla ferð í vinnu til að koma þessari hugmynd á koppinn. Byrjað var á að þrengja götur og gera einkabílnum erfiðara fyrir, unnið að framgangi málsins á bak við tjöldin, meðal annars innan landsstjórnar og löggjafans.  Svona gekk fram undir kosningarnar 2018. Í þeim kosningum felldu kjósendur þennan meirihluta, enda farnir að átta sig á að jafnvel þó hugmyndin um borgarlínu væri svo fráleitar sem mest mátti vera, auk þess sem kostnaður af henni væri eitthvað sem enginn vissi í raun, ætluðu vinstri menn, undir stjórn Dags, að koma henni í framkvæmd. Ætluðu sér að færa höfuðborg landsmanna aftur um heila öld í samgöngumálum. En þá kom Viðreisn til sögunnar og vilji kjósenda var hafður að engu.

Eftir að Dagur hafði verið reistur upp úr öskustónni, með hjálp Viðreisnar hófst enn eitt kjörtímabil skelfingar. Nú var fullum krafti hleypt í þessa afturhaldshugmynd vinstrimanna. Jafnvel tókst galdramanninum Degi að fífla stjórnvöld til liðs við sig, auðvitað með hálfkveðnum vísum. Þegar seinnihluti vísanna var kveðinn áttuðu stjórnvöld sig á að þau höfðu verið höfð af fíflum, en höfðu ekki kjark til að viðurkenna það. Því hafði Dagur tangarhald á þeim og tókst ekki bara að láta ríkissjóð opna opinn víxil fyrir þessum gerðum, heldur beinlínis kosta kosningabaráttu flokksins fyrir nýafstaðnar kosningar. Eftir sem áður höfnuðu kjósendur þessum meirihluta, enn og aftur. Fylgi Samfylkingar hafði nú minnkað um rúm 30%, í tvennum kosningum. Þá kemur Viðreisn til sögunnar. Af einhverjum ótrúlegum ástæðum komst fulltrúi flokksins að þeirri niðurstöðu að sinn flokkur, sem hafði tapað helmingi sinna borgarfulltrúa, bæri að vera í borgarstjórn og ekki aðeins það, heldur átti hennar flokkur að bjarga Degi enn og aftur.

Framsókn, sem hafði unnið stórsigur, hafði nú einungis tvo kosti eftir, að ganga til viðræðna við galdramanninn og hans slekti, eða stíga til baka. Flokkurinn valdi verri kostinn. Þegar þessir afarkostir Viðreisnar voru staðreynd átti Framsókn ekki að sætta sig við þá stöðu og draga sig til baka. Með þessari ákvörðun sinni skrifaði flokkurinn upp á hrun sitt í næstu kosningum. Kjósendur Framsóknar kusu þann flokk út á loforð um breytingar, ekki loforð um sama ástand áfram.

Hér hef ég einkum bent á borgarlínu sem óstjórn vinstri meirihlutans, enda það mál lang stærst í göldrum Dags. Það má líka benda á margt annað, eins og bragga og strá, pálmatré, Hlemm, hin ýmsu torg þar sem gras er rifið upp með rótum og hellur lagðar, óþrifnaður á gatnakerfi og landi borgarinnar, Sorpu og margt margt fleira í dúr óstjórnar. En borgarlínu fylgir sú skelfing að borgin er færð öld aftur í tíma. Ekki einungis er slíkur rekstur gamaldags og úreltur og kostnaður mikill, heldur á að neyða fólk til að nota hana með skipulagi byggðar. Farið er aftur til tíma sovéts í þeim málum og háhýsi byggð svo þétt að ekki nær sól til jarðar. Fá eða engin bílastæði eru ætluð íbúum eða gestum þeirra. Byggt er á dýrustu lóðum borgarinnar og rifin þar hús sem eru í ágætis standi og sum jafnvel mjög góðu standi. Þetta gerir kostnað bið byggingu íbúðahúsnæðis enn dýrara en ella og er þó nóg samt!

Bílaflotinn er að færast frá eldsneytisbílum yfir í rafbíla. Hér á landi er þessi breyting svo hröð að bílaframleiðendur hafa ekki undan. Bið eftir nýjum rafbílum er mikil. Því er ljóst að þessi þróun mun verða mun hraðari hér en víðast annarsstaðar. Einungis framboðið sem mun tefja. Þetta breytir þó ekki hugsanagangi vinstrimanna í höfuðborginni. Einkabíll er einkabíll og einkabíll er slæmur, að þeirra mati. Mengun skiptir þar engu máli. Þá skiptir engu máli hjá þessu fólki að Reykjavík er höfuðstaður Íslands. Þangað þurfa íbúar landsins að sækja ýmsa þjónustu, sem ekki er lengur til staða á landsbyggðinni. Það fólk þarf að komast um borgina. Hef reyndar oft velt fyrir mér hvers vegna allir kjósendur landsins hafi með það að gera hver stjórnar höfuðborginni okkar.

Það sem átti að vera stuttur pistill um svik við kjósendur er orðinn lengri en góðu hófi gegnir. Hitt er deginum ljósara að björgun Framsóknar á hinum fallna meirihluta eru stór svik við kjósendur. Framsókn á ekki roð í galdramanninn.


mbl.is Meirihlutasamningur BSPC í höfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flott samantekt !

Kýs aldrei aftur Framsókn !!!

Birgir Gudjonsson (IP-tala skráð) 6.6.2022 kl. 09:32

2 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Engvu við þetta að bæta.laughing

Sigurður Kristján Hjaltested, 6.6.2022 kl. 10:10

3 Smámynd: Stefán Stefánsson

Vel skrifað.

Mikil vonbrigði með Einar.... kjósendur hans héldu að boðaðar breytingar fælust í því að Dagur B færi í löngu tímabært frí.

Þetta eru mikil svik og mun trúlega gera góðan árangur Framsóknar að engu. 

Stefán Stefánsson, 6.6.2022 kl. 10:27

4 Smámynd: Rafn Haraldur Sigurðsson

Kjósendur gátu vitað þetta. Að kjósa þessa smáflokka er bara ávísun á svona samasull og ef þeir hafa haldið að það væri bara best að kjósa Framsókn þá vaða þeir villu vegar því hann hefur alltaf verið stefnulaus og opinn í alla enda. Ef þeir vilja sannanlega breytingar þá er bara einn flokkur í boði og það er Sjálfstæðisflokkurinn.

Rafn Haraldur Sigurðsson, 6.6.2022 kl. 14:51

5 identicon

Nýr meirihluti er samt meirihluti. Og meirihluti er kosinn af meirihluta kjósenda. Hinir eru í minnihluta og hafa minnihluta atkvæða á bak við sig og stuðning minnihluta borgarbúa. Súrt fyrir þá að þeirra flokkar skuli ekki ná meirihluta. 

Þannig virkar lýðræðið. Það er ekki fullkomið og ansi oft sem einhverjir telja meirihlutann ekki eiga að stjórna. En hver einasti kjósandi hvers einasta flokks var að kjósa hvaða flokk hann vildi í borgarstjórn, ekki hvað hann vildi ekki. Enginn merkti við þennan, þennan og þennan vill ég ekki í borgarstjórn. Og því komust þeir flokkar sem flestir borgarbúar vildu í borgarstjórn í borgarstjórn.

Meirihluti kjósenda fékk sinn flokk í borgarstjórn. Svik? Nei, bara súrt fyrir hina.

Vagn (IP-tala skráð) 7.6.2022 kl. 00:32

6 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er skrítin sýn sem þú hefur á lýðræðið, Vagn. Auðvitað er það svo að þegar meirihluti fellur þá er það skilaboð kjósenda um að hann skuli víkja. Um þetta snýst minn pistill. Kjósendur velja fólk til starfa fyrir sig og það fólk verður auðvitað að virða vilja kjósenda.

Þessi svik eru ekki bundin við Reykjavík eina, heldur mun fleiri sveitarfélög. Tökum sem dæmi Akranes. Þar voru þrír flokkar í framboði, tveir þeirra töpuðu miklu fylgi meðan sá þriðji jók verulega fylgi sitt. Myndaður var meirihluti þeirra flokka sem töpuðu og sá flokkur er jók sitt fylgi lenti í stjórnarandstöðu. Varla getur það talist endurspegla vilja kjósenda.

En aftur til höfuðborgarinnar. Þar réði úrslitum flokkur sem tapaði helming sinna fulltrúa í borgarstjórn. Talsmaður þess flokks taldi það vera skýran vilja kjósenda að hún yrði áfram í meirihluta borgarstjórnar og að henni bæri skylda til sjá svo um að sá meirihluti sem kjósendur höfnuðu skildi starfa áfram.

Hversu spillt eða vitskert getur fólk orðið?

Gunnar Heiðarsson, 7.6.2022 kl. 04:29

7 identicon

Meirihluti kjósenda fékk sinn flokk í borgarstjórn.  Það var ekki kosið um síðustu borgarstjórn.

Vagn (IP-tala skráð) 7.6.2022 kl. 08:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband