Borgarlína, ætt út í dauðann

Það kemur svo sem ekki á óvart þó kostnaður við svokallaðan samgöngusáttála á höfuðborgarsvæðinu hækki. Þegar ætt er af stað í verkefni sem enginn veit í raun hvert er eða hvað mun kosta, eru áætlanir lítið annað en hugarburður. Oft settar fram eins lágar og mögulegt er, svo koma megi verkefninu í gang. Það er jú erfiðara að hætta við hafið verk en að byrja á nýju. Á þetta var bent af fjölmörgum aðilum, áður en ákvörðun um verkefnið var tekin, en ráðamenn þjóðarinnar hlustuðu ekki.

Samgöngusáttmálinn er að sjálfsögðu um það að koma á gamaldags borgarlínu um höfuðborgarsvæðið. Verkefni sem er algerlega ofvaxið sveitarfélögum á svæðinu og því nauðsynlegt að fá ríkissjóð að málinu. Til þess var sett einskonar framkvæmdabann á allar framkvæmdir varðandi þann hluta gatnakerfisins sem ríkið ber ábyrgð á. Þannig var hægt að nauðga ríkinu til að taka þátt í verkefninu, með loforði um að liðka skildi fyrir þeim framkvæmdum er taldar voru nauðsynlegar á stofnvegum svæðisins.

Kostnaður við áætlaðar framkvæmdir á stofnvegakerfinu á svæðinu er nokkuð ljós, þ.e. sá þáttur er snýr að ríkissjóð. Það sama verður þó ekki sagt um kostnað við borgarlínu. Því kemur á óvart að einn liður þeirra verkefna, sem nokkuð ljóst lá fyrir hvað kostaði, skuli hækka um allt að 15 milljarða króna, bara rétt sí svona. Ástæðan er þó skýr, það á að fórna mislægum gatnamótum fyrir stokk.

Bergþór Ólafsson kom í pontu Alþingis og taldi kostnað vegna sáttmálans vera kominn 50 milljarða yfir áætlun. Fljótlega kom Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna í fjölmiðla og sagði kostnaðinn "einungis" vera kominn 17 milljarða yfir áætlun. Þar munaði mestu um að í stað mislægra gatnamóta skyldi setja Sæbraut í stokk og að það hefði alltaf legið fyrir. Ég spyr nú eins og fávit, ef það lá alltaf fyrir, hvers vegna var stokkurinn þá ekki inni í upphaflegu áætlunum? Ef ein stök framkvæmd hoppar upp um 15 milljarða króna (15.000.000.000), hvað mun þá öll borgarlínan kosta? Er verið að búa til fordæmi? Heyrst hefur að sumum langi í neðanjarðarlestir. Lá það kannski fyrir frá upphafi líka?

Hvort kostnaður hefur hækkað um 50 milljarða eða 17 milljarða breytir ekki svo miklu. Hvoru tveggja hækkun um peninga sem ekki eru til. Hins vegar má fyllilega gera athugasemd þegar 0 hoppar upp í 17.000.000.000. Þar stendur hnífurinn í kúnni, eða öllu heldur vösum landsmanna, því þetta fé kemur jú úr þeim, með einum eða öðrum hætti.

Hvað sem öllu líður, þá er ljóst að ekki verður lengra haldið á þessari braut. Stofnun félagsins Betri samgangna voru mistök, vald þessa félags er allt of mikið og ljóst að framkvæmdastjóri þess hefur ekki hundsvit á peningum eða hvernig skuli með þá farið. Ég sagði áður að erfitt væri að hætta við hafið verk. Það er þó ekki útilokað og stundum nauðsynlegt. Þegar komið er út í kelduna og fyrir séð að hún er dýpri og verri en ætlað var, er snúið til baka, ekki ætt út í dauðann!


mbl.is Margra anga kolkrabbi sem þarf að beisla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband