Vindorkuver byggt á sandi

Franska fyrirtækið Qair var með háleitar hugmyndir um byggingu vindorkuvers í Landi Grímsstaða í Meðallandi, alls um 30 vindtúrbínur af 7,2 MW aflgetu hver. Fljótlega kom í ljós að hluti svæðisins náði inn á verndarsvæði og lausn Qair við því að skipta svæðinu í tvennt, Grímstaðavirkjun 1 og Grímstaðavirkjun 2. Grímstaðavirkjun 1 er það svæði sem er innan verndarsvæðis og það sett í "frekari rannsóknir". Grímstaðavirkjun 2 nær frá verndarsvæðinu og niður að sjó, með 21 vindtúrbínu og er skipulagstillagan um þann hluta.

Eins og áður segir nær þetta svæði frá mörkum verndarsvæðisins, sjávarkambinum og niður til sjávar. Eðli málsins samkvæmt er þetta svæði allt á sandi, síkvikum sandi suðursrandar Íslands. Flest það sem borist hefur á þá sanda hefur horfið á skömmum tíma ofaní síkvika sandana og því ekki séð hvernig hægt er að byggja vindorkuver á þeim. Þá hefur landgræðslan verið að reyna að rækta upp sandana í Meðallandsfjörunni og mun það svæði falla undir athafnasvæði Grímsstaða 2.

Ofan fjörukambsins er, eins og áður segir, verndarsvæði votlendis og fuglalífs. Það er nokkuð mikil skammsýni að ætla að 7,2 MW vindtúrbínur, hátt í 300 metra upp í loftið og með spaðahafi nærri 200 metrum, alls 21 stykki, sem byggðar eru að mörkum þessa svæðis, hafi ekki áhrif á náttúruna þar. Fuglarnir fljúga ekki bara innan marka verndarsvæðisins. Þá er flug farfugla mikið þarna um og víst að þeim mun fækka verulega, þegar þeir koma inn til lendingar þarna, eftir erfitt flug yfir hafið.

Landbúnaður hefur dregist saman í Meðallandinu hin síðari ár, eins og svo víða. Hins vegar hefur ferðaþjónustan aukist verulega þarna og er mikil uppbygging á því sviði. Þar er ekki síst að þakka þeirri náttúru og fuglalífi sem finnst í Meðallandinu. Þetta hefur leitt til þess að stórfelld fækkun íbúa hefur breyst í fjölgun þeirra. Hætt er við að þessu verði öllu fórnað í þágu erlendra auðbaróna. Að landbúnaður leggist af og ferðaþjónustan láti undan með enn frekari fækkun íbúa.

Sem fyrr er gert minna úr stærðum og áhrifum vindtúrbína í þessari skipulagstillögu, rétt eins og flestum öðrum. Miðað við uppgefna aflgetu túrbína stemmir hæð þeirra ekki við upplýsingar framleiðenda. Svæði sem áætlað er undir orkuverið sjálft er mun minna en þarf fyrir þann fjölda túrbína sem byggja á. Sjónræn áhrif í skipulagstillögunni eru væntanlega mæld út frá þeirri hæð túrbína sem upp er gefin og því röng, þó það komi svo sem ekki að sök í tillögunni sjálfri, þar sem mælingin er gerð á afar takmörkuðu svæði, eða einungis 45 km radíus. Það svæði er nánast allt undirlagt sjónmengun frá orkuverinu. 

Það hefur sjaldan verið talin mikil viska að byggja á sandi, en kannski er þetta lýsandi dæmi um allar hugmyndir vindorkuvera á Íslandi. Þær eru byggðar á sandi, í eiginlegri eða óeiginlegri meiningu.

Það væri stórslys ef þetta vindorkuver verður byggt, stórslys fyrir náttúruna, stórslys fyrir fuglalífið og stórslys fyrir samfélagið í Meðallandinu.


mbl.is Vindorkugarður á Meðallandssandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er ekki með vindorkuverin eins og sjókvíeldið að reynt er að knýja það fram á meðan regluverkið er ekki nægilega skilvirkt og nær ekki að halda aftur af gróðahagsmunaöflunum sem skirrast ekki við að notfæra sér hagsmunatengsl sín við þingmenn sérstaklega þá sem hættir eru á þingi og notfæra sér tengslin við stjórnmálamenn.

Sigurgeir Árnason (IP-tala skráð) 12.2.2023 kl. 11:51

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Mikið rétt Sigurgeir. Svo er líka stór spurning hvort ekki sé vísvitandi verið að tefja málið af ráðamönnum, þar til of seint er að grípa inn í með reglusetningu. Víst er að erlendu aðilarnir vilja fá eitthvað fyrir þann kostnað sem þeir þegar hafa lagt til rannsókna og skýrslugerða og munu beita öllum tilteknum ráðum til þess.

Gunnar Heiðarsson, 12.2.2023 kl. 14:38

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Enn ein vandaða og ítarlega vindorkugreinin frá þér, félagi.  Hafðu þakkir fyrir.  Hver ætli afstaða sveitarfélagsins þarna sé til þessara áforma ?  Eru nokkur áform um að breyta aðalskipulagi, svo að þetta verði iðnaðarsvæði ?  Þarna verða augljósir hagsmunaárekstrar ?  Sammála þér, þessi áform eru reist á sandi.  Veit Tryggvi Herbertsson, hversu djúpt er þarna niður á fast ?  Þarna er sjálfsagt vindasamt, en líka tærandi selta og margir aðrir ókostir.  

Bjarni Jónsson, 12.2.2023 kl. 17:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband