Hvers vegna Ísland

Hvað veldur því að erlendir aðilar sækjast svo mjög eftir landi undir vindorkuver, hér á landi? Ekki er það vegna orkuverðsins, svo mikið er víst og varla verður það skýrt með hugmyndum um vetnis og rafeldsneytisverkmiðjur. Þær þurfa stöðuga orku, ekki raunhæft að keyra þær bara þegar vindur blæs. En hvað hangir þá á spýtunni? Hvers vegna að reisa hér vindorkuver í stórum stíl?

Þarna kemur einkum tvennt til, sæstrengur til meginlandsins og þannig tenging orkukerfis okkar inn á "alvöru" orkumarkað, markað sem er óseðjandi með háu orkuverði. Hitt atriðið vegur þó kannski þyngra, en það eru peningar. ESB hefur þegar eyrnamerkt mikla fjármuni sem styrki til vindorkuverkefna á Íslandi, eða um 3.2 milljörðum evra (um 500 milljörðum íslenskra króna). Það er því eftir miklu að slægjast og mikilvægt að komast framarlega í röð styrkumsækjenda. 

Eitt er þó alveg á hreinu, þessir aðilar eru ekki að hugsa um hag lands og þjóðar og enn síður um íslenska náttúru. Þeir eru ekki heldur með hugann við minnkun co2 í andrumslofti. Þeirra hugur liggur allur að því hvernig hægt er að græða sem mest á þessu brölti. Þegar í boði eru styrkir af þeirri gráðu sem okkur landsmönnum eru framandi og þegar ljóst er að mun auðveldara er að fá heimild til tengingar okkar orkukerfis við orkukerfið á meginlandinu, er Ísland að sjálfsögðu einn besti kostur sem þekkist, hér á vesturhveli jarðar. Auðvelt að snúa pólitíkusum um fingur sér að ekki sé nú talað um hversu lítið fjármagn þarf til að fá fjársvelta bændur og fjársvelt sveitarfélög á sitt band. Og ekki er verra þegar ráðherrar eiga lönd sem eru föl undir ósómann. 

Ætla ekki að tala um hreinleik vindorkuvera í þessum pistli en bendi á að vindorkuver flokkast nú í sama flokk og olíukynnt raforkuver. Gasorkuver er talið hreinna fyrir náttúruna en vindorkuver. Þar kemur margt til en þó er ekki rætt um örplastmengun vindtúrbína í þeirri flokkun.

Það er erfitt að sjá tilganginn í því að eyða hér stórum hluta náttúrunnar og upplifun af perlum hennar, í nafni loftlagsins. Að gera Ísland að ruslakistu í þeim tilgangi. Sér í lagi þegar nota á stórmengandi risastórar vindtúrbínur, í hundruðum talið, til þess verkefnis. Hver er þá hagurinn?

Ég er ekki með loftlagskvíða, einfaldlega vegna þess að hiti jarðar sveiflast upp og niður og ekkert sem við getum við því gert. Vonandi hlýnar eitthvað meira áður en kólna tekur á ný. Ég er hins vegar með kvíða yfir því hvernig við umgöngumst jörðina okkar. Þar má margt bæta. Samfara gífurlegri fólksfjölgun hefur sóðaskapur gagnvart jörðinni margfaldast og sóun á öllum sviðum mikil. Verr er þó að í nafni loftlagsins er verið að tæma ýmsar náttúruauðlindir sem eru af takmörkuðu magni til á jörðinni, hleypa út í andræumsloftið baneitruðu gasi sem er margfalt hættulegra en CO2 og sleppa gígatísku magni af örplasti út í náttúruna. Þeir sem það stunda reyna að telja okkur trú um að með því sé verið að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir, þegar í raunin er verið að sóa enn frekar auðlindum jarðar og sóða hana enn frekar, verið að vinna að því hörðum höndum að gera jörðina óbyggilega fyrir næstu aldamót.  

Hvenær ætlar skynsemin að vakna í höfðum stjórnmálamanna? Það hefur stundum heyrst að við sem berjumst gegn vindorkuverum, á þeim skala sem til stendur að byggja hér á landi, séum eins og Don Kíkóti. Það er þó ekki allskostar rétt. Sú sögupersóna barðist gegn vindmillum af því hann hélt þær vera riddarar óvinarins. Honum var lítt ágengt. Við berjumst gegn ofurvindorkuverum, af því þetta eru ofurvindorkuver. Þar er engin tálsýn. Hitt er kannski umhugsunarvert að meðan heimurinn er á heljarþröm, hugsa þjóðarleiðtogar heims um það eitt að berjast gegn byggingarefni alls lífs á jörðinni, CO2. Þar mætti hugsa sér að Don Kíkótar væru á ferð!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Góður pistill Gunnar, -eins og ævinlega hjá þér um vindmyllurnar. Þú átt heiður skilinn.

En er það virkilegt, að ESB hafi eyrnamerkt 3.2 milljarða evra (um 500 milljarða íslenskra króna) til vindorkuvera á Íslandi?

Ef svo er þá er það eitt og sér grímulaus aðför, og full ástæða til að líta vindmyllurnar með sömu augum og Don Kíkóti.

Magnús Sigurðsson, 6.2.2023 kl. 16:57

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hafðu þökk fyrir að standa vaktina í þessum jafn vel og þú gerir. 

Fyrir tuttugu árum sðgðu menn þarna fyrir austan að Kárahnjúkavirkjun myndi leysa öll efnahags- og byggðamál á gervöllu Austurlandi.  

Nú koma sömu menn fram með nýjar virkjanahugmyndir, sem á endanum munu fá Kárahnjúkavirkjun blikna hvað stærð snertir. 

Fyrir nokkrum árum var sagt að 50 þúsund tonna framleiðsla á eldislaxi myndi leysa öll byggðavandamálin.  

En síðustu fréttir herma, að nú krefjist sömu menn þess að sú framleiðsla verði tífölduð, upp í hálfa milljón tonna á ári.  

Veldisvöxtur græðginnar er yfirþyrmandi. 

Ómar Ragnarsson, 6.2.2023 kl. 17:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband