Kostnaðaráætlun

Það er nokkuð kómískt að lesa í upphafi hvers árs hversu langt yfir kostnaðaráætlun snjómokstur fer. Þetta á bæði við um ríki og sveitarfélög. Þessar fréttir hafa verið nær árvissar nú um langt skeið, sama hversu snjóþungt er.

Flestir reyna að gera sér í hugarlund hvernig bókhaldið mun ganga upp, fyrir hvert ár. Heimili, fyrirtæki sveitarfélög og ríkissjóður, þurfa að hafa einhverja hugmynd um rekstur komandi árs og gera því kostnaðaráætlun. Reyndar er kannski ekki slík áætlun sett á blað varðandi heimilisrekstur, er meira í höfði fólks, svona almennt. Fyrirtæki, sveitarfélög og ríki verða hins vega að hafa formið nokkuð fastara.

Í heimilisrekstri er nokkuð ljóst hver innkoman er og einnig föst gjöld. Matarkostnaður, húsaleiga eða afborganir húsnæðislána, rekstur bifreiðar og svo framvegis, er nokkuð fastur rekstrarliður heimila, þó sífellt hækkandi. Annar kostnaður eins og bilanir heimilistækja, veikindi og fleira, er aftur kostnaður sem erfiðara er að ráða í. Þann kostnað er jafnvel útilokað að áætla og flestir sem láta þar skeyta að sköpum, taki á þeim vanda eftir þörfum.

Varðandi fyrirtæki þá verður málið örlítið erfiðara. Þar geta tekjur orðið mismunandi og gjöld sveiflast, þó ekki alltaf í takt. Eftir sem áður þurfa fyrirtæki að koma saman einhverri vitrænni kostnaðaráætlun og notast þá gjarnan við söguna, þ.e. rekstur fyrri ára. Auk þess að spá í komandi ár. Sumum tekst nokkuð vel við þessa áætlanagerð og skila sínu búi nærri því sem ætlað var, en öðrum gengur verr.

Þegar kemur að sveitarfélögum og ríkissjóð virðist annað vera upp á teningnum. Þar standast áætlanir sjaldnast. Tekjur gjarnan ofætlaðar og gjöld vanætluð. Þetta á jafnt við um svokallaðan fastan kostnað sem og ófyrirséðan. Eitt er þó sammerkt með bæði ríki og sveitarfélugum, þau vanáætla snjómokstur á hverju ári, væntanlega til að láta sínar áætlanir líta betur út. Jafnvel á snjóléttustu árunum fer kostnaður við snjómokstur fram úr áætlun.

Reyndar er það svo að áætlun um snjómokstur getur aldrei orðið réttur. Það eru 99.99% líkur á að hann verði rangur. Veðurguðunum er slétt sama hvað stjórnmálamenn hugsa. Ef vel er áætlað og mokstur minni, verður afgangur og ef lágt er áætlað og mokstur meiri vantar uppá. Í báðum tilfellum er áætlunin röng. Þó er eðlilegra og móralskt betra að fá afgang en skort. Að áætlunin sé rífleg. Þegar hins vegar vanáætlað er ár eftir ár, sama hvernig snjóalög eru, er beinlínis verið að segja fólki ósatt um rekstur sveitarfélaga og ríkis. Þá er allt eins gott að sleppa þessum lið úr áætlunum þeirra og gefa einfaldlega upp kostnaðinn fyrir hvert ár, eftirá. Snjónum þarf alltaf að  ryðja burt af götunum, sama hvernig sjóðir sveitarfélaga og ríkis standa.

Um áætlanir í framkvæmdum, sér í lagi á vegum ríkis og sveita, ætla ég ekki að skrifa. Það er sérstakur kapítuli og mun svæsnari.


mbl.is Kostnaður við snjómokstur í Kópavogi langt yfir áætlun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Að gera áætlun um kostnað snjómoksturs þar sem ekki má miða við mögulegar hækkanir launa, eldsneytis og annars verður ætíð snúið og nær ómögulegt að fara nálægt endanlegri niðurstöðu. En þar getur auðveldlega munað tugum prósenta á sumum kostnaðarliðum sem samt ber að taka í áætlanirnar á því verði sem gildir þegar kostnaðarmatið er gert. Jafnvel þó ofankoma sé óbreytt milli ára, eins og aðeins má reikna með. Við búum einfaldlega ekki við hagkerfi sem býður upp á nákvæmar áætlanir, hvað þá veðurfar. Þess vegna er mikilvægara að eftir allar áætlanirnar sé gert ráð fyrir afgangi til að dekka frávik í verðum frá upphafi fjárhagsársins og jafnvel meiri snjókomu.

Lögin krefjast þess að gerð sé kostnaðaráætlun en staðlar snjómagn og leyfir ekki að neinar kostnaðarhækkanir séu áætlaðar. Kostnaðaráætlun er lítið annað en hvað kostar á verðlagi dagsins í dag það sem gert var á öllu síðasta ári. Að kalla það áætlun er eiginlega rangt og villandi. En það er samt nafnið sem gefið hefur verið þessum skilyrtu skylduútreikningum og ruglar marga sem heimta útreikninga þar sem sest er við spádómskúlu og rýnt í kaffikorg.

Vagn (IP-tala skráð) 15.1.2023 kl. 22:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband