Draumórar, fallegur texti og fráleit kostnaðaráætlun

Þá er hvítbók Reykjavíkurborgar varðandi snjóhreinsun komin út. Fallegur texti og margar hugmyndir, svo sem að snjómagn skuli ráða snjómokstri og upphitun gatna með hitaveitu, ásamt fleirum undarlegum hugmyndum.

Það er þó ekki fyrr en búið er að pæla í gegnum allan fallega textann, fyrstu 28 blaðsíðurnar af 32 og kostnaðaráætlunin á síðustu fjórum blaðsíðunum er skoðuð, sem sést hvað þessi vinna er lítils virði og byggð fyrst og fremst á draumórum.

Ef tekin eru dæmi úr kostnaðaráætluninni, sem samtals hljóðar upp á 190 milljónir má nefna einn þátt sem hugsanlega getur staðist raunveruleikann, en þó varla. Það er kostnaður við ráðningu manna til eftirlits snjóruðnings, upp á heilar 50 milljónir á ári. Aðrir liðir eru svo fjarri raunveruleikanum að furðu sætir. Sem dæmi um einskiptisaðgerð um fjölgun tækja til snjóhreinsunar, upp á 5 milljónir. Það er ekki hægt að fá neina vinnuvél keypta fyrir þann pening. Minnsti liðléttingurinn eru dýrari og þá á eftir að kaupa snjótönn eða snjóblásara á hann. Þessi upphæð dugir vart fyrir virðisaukaskatti af skilvirku snjóruðningstæki.

Öll þessi áætlun ber þess merki að þeir sem hana sömdu vita fátt um snjóhreinsun. Þeir liðir sem hugsanlega geta staðist eru þeir sem snúa að skrifstofuvinnu borgarinnar, en allir liðir er snúa beint að sjálfri snjóhreinsuninni er eru vanreiknaðir, sumir jafnvel svo að undrun sætir.

Auðvitað á að miða snjóhreinsun að snjómagni. Það þarf ekki einhvern stýrihóp til að komast að þeirri einföldu staðreynd. Og auðvitað væri gott ef hægt væri að hita upp gatnakerfið, en meðan tæplega er til heitt vatn til að hita hús borgarinnar og sundlaugum er lokað, er varla til vatn í slíka draumóra.

190 milljónir hljóðar þessi áætlun uppá. Stór hluti þeirrar upphæðar á að notast við skrifborð borgarstarfsmanna. Væri ekki betra bara að nota allan peninginn til snjóhreinsunar? Það er ekki eins og það séu einhver vísindi sem liggja að baki þeirrar vinnu. Og gaman væri einnig að vita hver kostnaður við þessa hvítbók var. Þann pening hefði einnig mátt nota til snjóhreinsunar.

Draumórar, fallegur texti og fráleit kostnaðaráætlun er besta lýsingin á afurð þessa stýrihóps.


mbl.is Svona vill borgin bæta snjómokstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Vonandi létu þau prenta skýrsluna á nógu harðan pappír svo að hún sé a.m.k. nothæf til snjómoksturs.

Guðmundur Ásgeirsson, 14.4.2023 kl. 15:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband