30 til 50 árum á eftir ...

Skýrsla starfshóps umhverfis og iðnaðarráðherra um nýtingu vindorku var opinberuð við mikla athöfn síðasta miðvikudag. Ráðherrann var ekki lengi að sjá kjarna skýrslunnar, "Ísland 30 til 50 árum á eftir öðrum þjóðum". Svo mörg voru hans orð. Reyndar kemur þetta hvergi fram í sjálfri skýrslunni, en hvað með það. Frasinn er góður að mati ráðherra. Og forsætisráðherra hamrar síðan járnið í fréttum á ruv, þar sem hún hræðir okkur landsmenn með miklum komandi sköttum, takist ekki að minnka hér losun co2 út í andrúmsloftið, en mat þeirra allra heilögustu í Brussel er að okkur gangi það frekar illa.

Aðeins um skýrsluna, eða kannski öllu heldur bókina. Þar kemur fátt fram. Í skipunarbréfi starfshópsins kemur fram hvaða atriði skuli skoðuð. Þessi atriði eru talin upp aftur og aftur, án neinnar niðurstöðu. Greinilegt að hópurinn þorði hvorki að segja af eða á eð nokkurn skapaðan hlut. Þó má segja að ef skýrslan er grannt skoðuð, að nýting vindorku hér á landi sé vart gerleg. Í lokaorðum kristallast kjarkleysi hópsins til að taka afstöðu til málsins, en þar segir m.a.: 

"Starfshópurinn telur brýnt að stjórnvöld setji skýra stefnu um hagnýtingu vindorku, óháð
því hvort hún falli undir lög 48/2011 um rammaáætlun eða ekki. Vel útfærð og formlega
samþykkt heildarstefna myndi án vafa geta myndað skýran ramma fyrir alla þá aðila,
opinbera sem einkaaðila, sem vinna að málefninu og getur stuðlað að sátt".

Frekar þunnur endir á langri bók, svo ekki sé meira sagt.

Ráðherra umhverfis og auðlindamála telur hins vegar skýrsluna mikið afrek. Eins og áður segir gat hann lesið úr henni að við værum langt á eftir öðrum þjóðum í nýtingu vindorkunnar, auk þess sem hann taldi skýrsluna vera kjörna til að vinna frekar að framgangi vindorkuvera hér á landi. Allir vita hvar hugur ráðherrans liggur í því efni. Kannski einhverjir hagsmunir fyrir hann, svona eins og suma kollega hans. 

Það er stundum sagt að við Íslendingar viljum alltaf finna upp hjólið, aftur og aftur. Þetta hefur á stundum leitt þjóðina í mikla eymd. Skemmst að minnast bankahrunsins, á þessari öld en hugsa má lengra aftur í tímann, jafnvel aftur til þrettándu aldar, til að sjá hversu vitlausir við erum. Að vera 30 til 50 ár á eftir einhverjum öðrum gefur þann kost að læra af mistökum þeirra. Svo er með nýtingu vindorkunnar. Við getum lært af mistökum þeirra sem eru komnir svo langt fram úr okkur á því sviði. En nei, íslensk stjórnvöld vilja ekki læra, þau vilja finna upp hjólið!

Orðum fylgir ábyrgð. Það er háalvarlegt mál þegar ráðamenn þjóðarinnar lofa einhverju sem ekki er hægt að standa við, sér í lagi í samskiptum við aðrar þjóðir. Ísland gerðist aðili að Kyoto bókuninni og hefur fylgt þeim þjóðum eftir sem að henni komu í markmiðum að minnkandi losun co2 út í andrúmsloftið. Markmiðum sem allir vita að ekki verður náð. En okkar forsætisráðherra bætti um betur á einum þeirra funda sem þjóðhöfðingja flugu til og lofaði að Ísland yrði kolefnislaust árið 2040 og að árið 2030 yrði samdrátturinn kominn í 40%. Hins vegar er talað um 30% minni losun meðal annarra þjóða og það markmið er víst í húfi, hjá okkur. Náist það ekki munum við þurfa að greiða háar upphæðir fyrir kolefniskvóta, af einhverjum sjóðum sem eru á höndum ESB. Strax í upphafi var séð að þessu markmiði yrðu vart náð og alls ekki hér á landi, þar sem orkuskipti til húshitunnar hafði þegar farið fram og ekkert tillit tekið til þess. Þetta er sú orkunotkun sem vegur hæst í almennri orkunotkun og algjörlega galið að ekki skuli tekið tillit til þess. Þá er spurning hvaða áhrif á þessa útreikninga háu herranna í Brussel, sala slíkra kvóta úr landi hafa. Þurfum við að kaupa kolefniskvóta erlendis frá, vegna þess að orkan okkar er sögð vera framleidd með kjarnorku og kolum?

Það er ekki tilviljun að forsætisráðherra bryddar upp á þessu malefni í fréttum. Helstu rök vindbaróna fyrir að leggja land okkar undir slíkan óþrifnað sem vindorkuver eru, er einmitt skuldbinding okkar til kolefnisjöfnunar. Þeir hafa þó vit á að nefna ekki kolefnisleysi, eins og ráðherra, enda slíkt með öllu ófært.

Vindorkan hefur verið nýtt erlendis um nokkurn tíma, 30 til 50 ár að mati orkumálaráðherra, en staðreyndin er að nýtingin á sér mun lengri tíma. Þó við förum nú ekki aftur til miðalda, þegar vindur var látinn knýja kornmillur, hefur vindur til raforkuvinnslu verið þekktur um langa tíð. Smárellur á sveitabæjum var víða þekkt, jafnvel hér á landi. Seinna fóru stærri mannvirki að sjást erlendis, þó hér væri þróun hæg. Það sem kannski veldur er að við þurfum ekki vindorkuver, ólíkt ýmsum öðrum þjóðum. Við höfum nægt vatn og vatnsorkuver hefur alla yfirurði yfir vindorkuna. Stöðugleiki vindorku er mjög lítill, jafnvel svo að setja þarf upp meira en helmingi meira uppsett afl en það sem nýtist. Það eitt og sér gerir vindorkuna óhagstæðari en vatnsorkuna. Landsvæði sem þarf fyrir vindorkuver er margfalt meira en fyrir vatnsorkuver, að miðlunarlónum meðtöldum.

Að bera Ísland saman við þjóðir eins og Danmörk, þar sem engin virkjanleg á rennur, er fráleitt. Vindorkuver geta undir einstökum tilfellum verið réttlætanlegar, svo sem á eyjum og svæðum þar sem enginn annar hreinorkugjafi er til staðar. Reyndar er langt seilst að kalla vindorku hreinorku. Liggur nærri olíuorkuverum að hreinleika og mun óhreinni en gasorkuver. En það er efni í annan pistil. Seinna.


mbl.is Ísland 30 til 50 árum á eftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband