Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál
Er búið að gelda alla þingmenn Sjálfstæðisflokks?
12.11.2018 | 04:28
Það var hálf sorglegt að hlusta á Brynjar í þættinum Þingvellir á K100. Hann fór eins og köttur um heitan graut og þorði ekki að segja neitt af viti. Sneri úr og í.
Þó hafðist upp úr honum að honum hugnaðist ekki 3.orkupakkinn frá Brussel, talaði um að ekki mætti skerða þá hagmuni sem EES samningurinn gefur, að hans mati og bar síðan við að eitthvað óskýrt væri með gildi þess samnings ef Ísland hafnar 3.orkupakkanum. Varðandi EES samninginn vildi þingmaðurinn alls ekki segja þeim samning upp en taldi hann þó mein gallaðan og kröfur ESB um sífellt meiri völd gegnum hann, ótækar.
Hitt var aftur skrítnara, afsökunin um að ekki sé vitað hvað skeður ef tilskipuninni verður hafnað. Þar má benda þingmanninum á að lesa þann samning, nú eða ræða við einhverja þá sem stóðu að gerð hans af Íslands hálfu, t.d. þáverandi utanríkisráðherra. Þá kemst þingmaðurinn að þeirri augljósu niðurstöðu að ekkert mun gerast, annað en að hugsanleg muni ESB aftengja fyrstu tvo orkupakkana. Þá gæti Brynjar einnig velt fyrir sér hvers vegna Alþingi þarf að taka þessa tilskipun til afgreiðslu og atkvæðagreiðslu, ef ekki má hafna henni.
Um þá hagsmuni sem við Íslendingar höfum af EES samningnum er fátt að segja og ekki allir á eitt sáttir. Í það minnsta er svo komið í dag að vegna aðildar að þessum samningi erum við að greiða ýmislegt hærra verði en áður, auk þess gjald sem við greiðum fyrir aðildina. Þar er verið að tala um tugi milljarða á ári og þætti sjálfsagt einhverjum það nokkuð hátt gjald til að fá tollaafslætti inn í ESB. Víst þykir þó að Björn Bjarna og hans nefnd muni sjá allt til góða þessum samningi, er gjarnan svo þegar útsýnið er skoðað með blinda auganu.
Þegar EES samningurinn var saminn og samþykktur af minnsta meirihluta á Alþingi, án aðkomu þjóðarinnar, var ljóst að þrjú megin málefni voru utan þess samnings, sjávarútvegur, landbúnaður og orkumál.
Enn hefur okkur tekist að halda sjávarútveginum utan samningsins, hversu lengi sem það mun halda. Landbúnaður er óbeint kominn inn í hann, með dómi EFTA dómstólsins, sem ákvað að breyta íslenskum landbúnaði í viðskipti og dæma út frá því. Og ráðamenn þjóðarinnar sátu hjá eins og barðir hundar.
Það var hins vegar með fyrstu tilskipun ESB um orkumál sem Ísland festist í neti ESB um orkumál og enn frekar þegar Alþingi samþykkti 2. tilskipunin um þetta málefni. Þessar tvær tilskipanir hafa þó haft frekar lítil áhrif hér á landi og það litla til hins verra. Samkvæmt þeim varð að skipta orkufyrirtækjum upp í vinnslu, dreifingu og sölu. Búa til þrjú fyrirtæki með þremur yfirstjórnum um það sem áður var eitt fyrirtæki með einni stjórn, með tilheyrandi aukakostnaði. Þá voru feld úr gildi lög um skipan orkumála hér á landi. Þar tapaðist m.a. út eini varnaglinn sem var til fyrir heimili landsmanna, en hann hljóðaði upp á að hagnaði orkufyrirtækja skildi ráðstafa til lækkunar orkuverðs og að aldrei mætti láta heimili landsins niðurgreiða orku til annarra nota. Það væri því vart hundrað í hættunni þó ESB ákveði að fyrstu tveir orkupakkarnir verði aftengdir.
Brynjar, þessi ágæti þingmaður sem sjaldan hefur látið segja sér fyrir verkum og gjarn á að tala stórt, virðist nú kominn undir hæl einhvers. Orðræða hans í þessu viðtali bar öll merki þess sem er haldið í bandi. Hann hefur brostið kjark.
Merkilegast við þetta viðtal á K100, voru þó orð þáttastjórnanda um að erfiðlega hafi gengið að fá þingmenn Sjálfstæðisflokk til viðtals um orkupakkann. Er það virkilega orðið svo innan Sjálfstæðisflokks að þingmenn þar láti skipa sér fyrir verkum, láti segja sér á hvorn hnappinn skuli ýtt, í atkvæðagreiðslum? Þeir ættu kannski að spá aðeins í nafn síns flokks og fyrir hvað það stendur, skoða stefnu flokksins og hlusta á þá fulltrúa flokksins sem mæta á landsfund. Kannski mun fylgi flokksins eitthvað braggast við það.
![]() |
Vilja ekki innleiða orkupakkann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 04:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Málið er skuggalegra en haldið hefur verið fram
10.11.2018 | 21:22
Það er ljóst að sæstrengur er kominn mun lengra í kerfinu hér enn menn hafa látið í veðri vaka og ekki annað séð en að ráðherrar sé mjög vel meðvitaðir um þá staðreynd. Þetta skýrir kannski hvers vegna nokkrir ráðherrar Sjálfstæðisflokks, Þórdís Kolbrún Gylfadóttir þó þar kannski fremst í flokki, leggja slíka ofuráherslu á samþykkt 3. orkumálapakka ESB. Ráðherrar hafa vísvitandi logið að þjóðinni.
Fyrir skömmu sagði Þórdís að "sum svör vildu menn ekki heyra" og bætti við "að talað væri niður til þeirra sem best vissu um málið".
Þetta eru vissulega orð að sönnu hjá ráðherranum. Hún hengir sig á álit eins lögfræðings, sem hann tók sér tvo heila daga til að semja. Annað vill hún ekki heyra og í hvert sinn sem hún er spurð erfiðra spurninga um málið, talar hún þóttalega til viðspyrjandans, rétt eins og kom fram á Alþingi, er hún svaraði fyrirspurn SDG.
Engu skiptir í huga ráðherrans þó norskur lögfræðingur með sérþekkingu á ESB rétti, sjái málið í allt öðru og skelfilegra ljósi. Eftir að hafa farið yfir lögfræðiálit það er ráðherrann keypti og tekið sér góðan tíma til þess, komst þessi evópufræðingur að því að ekki stóð steinn yfir steini í hinu keypta áliti, sem ráðherrann velur að nota sem sitt leiðarljós. Álit evrópusérfræðingsins er samhljóða áliti nokkurra íslenskra lögfræðinga, með sérþekkingu á ESB rétti, sem og hinna ýmsu fræðinga sem þekkja einna best til þessa máls, sumir búnir að kynna sér það í þaula.
Ráðherrar og þingmenn Sjálfstæðisflokks ættu aðeins að íhuga stöðu sína. Þeir hafa í sínu farteski umboð frá æðstu stofnun flokksins, landsfundi, um að hafna þessum pakka frá Brussel. Fari þeir gegn sínu baklandi þurfa þeir sennilega flestir að finna sér aðra vinnu eftir næstu kosningar. Það er alveg ljóst að það eru sumir ráðherrar og þingmenn Sjálfstæðisflokks sem draga þennan vagn fáviskunnar út í drullusvaðið. Framsókn er þar bara attaníossi og gerir það sem þarf til að halda stólum. Hugsun þeirra nær ekki fram til næstu kosninga. Og VG er kominn í þá stöðu að þeir geta ekki með neinum hætti gengið til kosninga. Alveg er á kristaltæru að Þórdís mun ekki njóta náðar kjósenda í sínu kjördæmi, breyti hún ekki afstöðu sinni í þessu máli.
Þá spyr maður sig; hvers vegna láta ráðherrar sjálfstæðisflokks svona? Ein skýringin er að þeir séu þegar komnir með sæstreng svo langt að erfitt er að snúa við, en það skýrir þó ekki allan illviljann til landsmanna. Getur verið að þetta fólk sem fremst stendur í samþykkt 3. orkupakka ESB, eða eittvað fólk sem er því nátengt, eigi einhverra hagsmuna að gæta?
3. orkumálapakki ESB snýr fyrst og fremst að orkuflutningum milli landa, auk ýmissa annarra aukaverkana. Á þeirri forsendu er lögfræðiálitið sem ráðherra keypti, byggt. Þó er ljóst að þó enginn strengur komi, munu áhrif pakkans verða nokkuð víðtæk. Um það má lesa í mörgum greinum sem ritaðar hafa verið, af fólki sem hefur mun meiri þekkingu en ég á þessu máli. Þar hefur Bjarni Jónsson, rafmagnsverkfræðingur, kannski verið fremstur í flokki, en ljóst er að hann hefur mikla og víðtæka þekkingu á málinu. Nú er ljóst að eina forsendan sem finnst í hinu pantaða áliti ráðherrans er brostin og strengur til Bretlands kominn á fullt rek.
Hingað til hefur fyrst og fremst verið deilt um hvort 3. orkupakki ESB sé bara slæmur fyrir okkur íslendinga eða hvort hann er mjög slæmur. Þetta var í sjálfu sér réttmætt deila, meðan hægt var að telja fólki trú um að enginn strengur væri á leiðinni. Nú þarf ekki lengur að deila um þetta og eftir stendur að samþykkt þessa pakka mun valda þjóðinni skelfingu.
Atvinnufyrirtæki munu leggja upp laupana, sum fljótlega en önnur, eins og stóriðjan, þegar gildandi raforkusamningar falla úr gildi. Þegar er ljóst að garðyrkjubændur munu allir hætta sinni starfsemi, enda rekstrargrundvöllur þeirra nánast brostinn nú þegar, eftir að orkufyrirtækin hér á landi hættu að selja þeim umframorku. Annar landbúnaður mun leggjast af, þar sem hækkun orkuverðs mun verða þeim ofviða og í framhaldi af því mun ferðaþjónustan skerðast gífurlega, enda landið þá komið í auðn á stórum svæðum.
Eftir munu einhver kaffihús í miðbæ Reykjavíkur standa og hinn nýi Landspítali, sem á að taka í gagnið á svipuðum tíma og lagningu strengsins er lokið, mun standa nánast tómur. Landsmenn verða að stærstum hluta fluttir úr landi.
Þetta er ekki glæsileg sýn sem fyrir augum ber, fái þessir misvitru ráðherra Sjálfstæðisflokks framgengt vilja sínum og lygum.
Hugguleg gjöf sem þeir ætla að færa þjóðinni, á fyrsta ári annarrar aldar sjálfstæðisins!!
![]() |
Ice Link-strengurinn á lista ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 21:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
IceLink, tenging Íslands við Evrópu
19.10.2018 | 11:18
Umræðan um tilskipun ESB um þriðja orkumálapakka sambandsins hefur hingað til fyrst og fremst snúist um hversu slæmur hann sé fyrir okkur Íslendinga, hvort hann sé bara slæmur eða hvort hann sé mikið slæmur. Enn hefur enginn nefnt neitt gott við þessa tilskipun, þ.e. gott fyrir Ísland. En nú er að verða breyting á og umræðan farin að dýpka. Má þar nefna lögfræðiálit sem Birgir Tjörvi Pétursson vann fyrir Iðnaðarráðuneytið. Þar kemst lögfræðingurinn að þeirri skoðun að að þessi tilskipun hafi lítil sem engin áhrif hér á landi, meðan ekki er kominn sæstrengur sem tengir okkur við evrópskan raforkumarkað.
Fenginn var norskur sérfræðingur í Evrópurétti, Peter Torberg Örebech, lögfræðingur, til að fara yfir þetta álit Birgis Tjörva og er skemmst frá að segja að sá norski sá lítið vit í áliti þess íslenska. Nú hefur skoðun Peters verið þýtt á íslensku og má lesa hana hér. Það ætti engum að dyljast að lögfræðingur sem sérhæfir sig í Evrópurétti hefur nokkuð meiri þekkingu í þeim rétti en íslenskur hæstaréttarlögmaður, jafnvel þó báðir séu vel að sér í lögum, á sínu sviði.
Frá því EES samningurinn var undirritaður, þann 2. maí 1992, hefur mikið vatn runnið til sjávar og ljóst að túlkun samningsins hefur farið heldur á verri veg. Það breytir ekki þeirri staðreynd að grunn samningurinn stendur enn, enda aldrei verið tekinn upp. Strax í upphafi voru tveir megin atvinnuvegir þjóðarinnar utan þessa samnings, sjávarútvegur og landbúnaður.
Á þeirri forsendu strönduðu aðildarviðræður okkar við ESB, um áramótin 2012/2013 og á sömu forsendu var gerður viðskiptasamningur við ESB um sölu á landbúnaðarvörum, sumarið 2015, samningur sem var utan EES samnings. Samt sem áður tókst EFTA dómstólnum, héraðsdómi og nú fyrir nokkrum dögum hæstarétti að dæma innflutning á hráu og ófrosnu kjöti frá ESB til Íslands, löglegan. Þetta tókst með því að færa rökfærsluna frá kaflanum um landbúnað yfir í kaflann um viðskipti. Engu var skeytt um að landbúnaður var utan samningsins og því síður var hlustað á rök lækna og annarra um dýraheilbrigði.
Það þarf því vart snilling til að átta sig á hvernig þessir sömu dómstólar muni dæma, verði íslenska ríkið eða Alþingi ekki nægjanlega leiðitamt við ESB, í málefni sem Alþingi hefur þó samþykkt sem tilskipun frá sambandinu. Að halda að lög um að Alþingi fái ráðið hvort tenging við evrópskan raforkumarkað verði að veruleika eða ekki, eftir samþykkt tilskipunarinnar, er í besta falli barnalegt og að halda að við getum tekið hér upp tilskipun frá ESB um eitthvað málefni, tilskipun sem við síðan þurfum ekki að fara eftir, er svo fráleitt að undur þykja að nokkrum manni detti í hug að setja slíkt fram!!
Það verður fróðlegt að sjá hvort þingmenn velji að skoða þetta mál með opnum huga, eða hvort þeir ætla að æða áfram út í það fen sem leið þeirra liggur nú. Þetta á sérstaklega við um þingmenn og ráðherra Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, en þeir hafa jú í farteski sínu skýr fyrirmæli frá sínum æðstu stofnunum um að samþykkja EKKI tilskipun um þriðja orkumálapakka ESB!!
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sífellt hærra ákall á uppsögn EES
15.10.2018 | 01:34
Nýlega felldi Hæstiréttur dóm um að innflutningur á ófrosnu kjöti væri heimill, samkvæmt EES samningnum. Þetta er nokkuð undarlegur dómur, þar sem landbúnaði og fiskveiðum var haldið utan þess samnings, við gerð hans í upphafi síðasta áratugar síðustu aldar. Má kannski eiga von á að evrópskir dómstólar fari að fella dóma í sambandi við fiskveiðar hér við land, af því þeir standist ekki EES samninginn?
Sárt var að lesa á fésbókinn færslu eftir fyrrverandi formann Bændasamtakanna, þar sem uppgjafartónninn var í fyrirrúmi hjá þessum fyrrum skelegga forustumanni bænda. Kannski núverandi staða hans sé farin að skekkja eitthvað dómgreindina.
Það er ljóst að hvert kíló af innfluttu kjöti mun leiða af sér sama magn af óseldu íslensku kjöti. Þá þarf ekki að nefna þann regin mun á íslensku kjöti og því erlenda, en enginn bústofn er jafn hreinn og sá íslenski og hér á landi er sýklalyfjanotkun nánast engin og hormónagjöf óþekkt, meðan erlendis er slíkri ólyfjan beinlínis blandað saman við fóður skeppnanna. Þetta hefur auðvitað þann ókost að íslenskur bústofn er einstaklega viðkvæmur fyrir smiti alls kyns sjúkdóma sem viðgangast í erlendum bústofnum þó kostirnir toppi það auðvitað margfalt.
Smitsjúkdómafræðingar hafa mælt eindregið gegn innflutningi á ófrosnu kjöti, enda smithættan margfalt meiri. Lyfjaofnæmi er orðið stórt vandamál erlendis og jafnvel talið að innan skamms tíma muni þar herja alvarlegir sjúkdómar og mannfellir, vegna þess. Leiða má líkum að því að slíkt lyfjaofnæmi megi að stærstum eða öllum hluta rekja til þess að skepnur til manneldis eru markvisst fóðraðar á fúkalyfjum.
Á vefsíðu visir.is er viðtal við framkvæmdastjóra Krónunnar, þar sem hún fullyrðir að bændur þurfi ekkert að óttast þó innflutningur á erlendu kjöti aukist. Segir að nú þegar sé flutt inn töluvert magn af kjöti og það hafi sýnt sig að neytendur haldi tryggð við íslenska kjötið. Á hvaða lyfjum er manneskjan!!
Fyrir það fyrsta þá væru innflytjendur vart að flytja inn erlent kjöt, ef það ekki selst.
Í öðru lagi þá er það rétt, töluverður innflutningur er nú þegar á kjöti og spurning hvort vandi bænda í dag væri jafn stór ef sá innflutningur væri minni eða jafnvel ekki til staðar.
Í þriðja lagi er ljóst að kaupmaður sem flytur inn kjöt, þarf að greiða það að fullu áður en það fæst flutt til landsins og ber því sjálfur ábyrgð á rýrnun vegna söluleysis, meðan hann fær innlenda kjötið lánað út á krít og skilar aftur því sem ekki selst. Þetta leiðir af sér að innflutta kjötinu verður haldið frammi fyrir neytandanum meðan leita þarf að því íslenska aftast í hillum verslana.
Í fjórða lagi þá er með öllu útilokað að hægt sé að treysta matvælaeftirliti ESB til að gefa út heilbrigðisvottorð fyrir erlent kjöt. Allar þær krísur og öll þau hneyksli sem það eftirlit hefur orðið fyrir síðustu ár, hafa gert trúverðugleika þess að engu. Þá er samkvæmt reglum ESB nægilegt að einungis 60% matvæla sé frá því landi sem fær upprunavottorðið, hin 40% geta verið hvaðan sem er úr heiminum. Uppraunavottorðið er að auki gefið á það land sem kjötið er unnið, sem þarf alls ekki að vera sama land og skepnan fæddist í og var alin upp.
Það er ljóst að þessi dómur hæstaréttar er enn eitt áfallið fyrir íslenska bændur og vandséð hvernig þeir geta bætt því á annað sem á þá hefur verið lagt. Þetta er í raun enn frekari staðfesting þess að vilji til að halda íslenskan landbúnað er einungis til staðar á tyllidögum. Ráðherra landbúnaðarmála er eins mikil dula og frekast getur og ætti að skammast sín. Allt sem hann hefur gert hefur verið gegn bændum og fáheyrt að ráðherra ráðist með slíku offorsi á þá stétt sem hann á að vera fulltrúi og varðmaður fyrir. Jafnvel forveri hans, formaður Viðreisnar, var skárri og er þá mikið sagt. Hætt er við að fáir kjósendur Sjálfstæðisflokk hugsi vel til hans í næstu kosningum.
Þá er einstakt hvernig fyrrum formaður bænda talar og einstakt hvernig einn maður hefur snúast frá dyggri stöðu með bændum til algerrar uppgjafar. Þingmaðurinn talar nú um að engin önnur lausn sé en að fara að dómi Hæstaréttar, meðan augljósa leiðin er auðvitað að byrja strax á að reyna viðræður við ESB um málið, þó reyndar lýkur á lausn þar séu frekar litlar, svona í ljósi þess hvernig breskum stjórnvöldum gengur að uppfylla vilja kjósenda sinna.
Þá er alltaf ein lausn eftir, lausn sem reyndar myndi leysa mörg önnur vandamál hér á landi og myndi leysa þingmenn frá þeirri kvöð að samþykkja landsölufrumvarp utanríkisráðherra, sem mun verða flutt eftir áramót. Sú lausn myndi einnig leysa fyrrum þingmann og ráðherra Sjálfstæðisflokks frá nefndarstarfi því sem nú þegar er farið að gera hann að einskonar hirðfífli.
Þessi lausn er uppsögn EES samningsins.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Enn er hoggið í sama knérunn
24.9.2018 | 08:09
Aldrei hefur þjóðin verið spurð að því hvort hún vilji að framsal valdheimilda verði rýmkað í stjórnarskránni. Þó ætla þingmenn að standa saman sem einn um slíka breytingu. Hvers vegna?
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta mál kemur upp. Eftir hrun var farið í ítarlega vinnu um breytingu stjórnarskrár, þar sem tilgangurinn var fyrst og fremst að afnema þennan varnagla úr henni, enda þáverandi stjórnarflokkar búnir að afreka að kljúfa þjóðina í tvennt með umsókn að ESB. Frumskilyrði slíkrar umsóknar var auðvitað að þurrka úr stjórnarskránni þau ákvæði sem hömluðu aðild að erlendu ríkjasambandi.
Þá hefur stundum heyrst að vegna þess að EES samningurinn er sífellt farinn að brjóta meira á þessu ákvæði stjórnarskrár, þurfi að afnema það. Svona rétt eins og ef breyta ætti lögum til samræmis við þarfir afbrotamanna. Þvílíkt bull!
Nú er staðan hins vegar sú að af einhverjum óskiljanlegum ástæðum vilja stjórnvöld endilega afhenda öll yfirráð yfir stjórn raforkumála til ESB og svo slíkt megi gerast verður auðvitað að laga stjórnarskránna aðeins til. Auðlindin verður ekki framseld með núgildandi stjórnarskrá og henni skal því breytt!
Auðvitað er það svo að stjórnarskrá er ekkert heilagt plagg og henni þarf að viðhalda. Breyta og bæta það sem þarf, miðað við þróun og þarfir. Slíkt hefur verið gert gegnum tíðina. Þegar núgildandi stjórnarskrá var samin voru hugtök eins og mannréttindi túlkuð á annan hátt en í dag og því lítið eða ekkert um það nefnt í frumútgáfunni. Í dag fjallar stór hluti stjórnarskrár um mannréttindi. Fleira mætti telja sem talist getur breyting til batnaðar á stjórnarskránni, frá því hún fyrst var skrifuð.
Framsali valdheimilda úr landi má þó ekki breyta í stjórnarskrá. Stjórnmálamönnum er fráleitt treystandi fyrir slíku. Það verður alltaf að vera í valdi þjóðarinnar sjálfrar að ákveða hvort eða hversu mikið af valdheimildum verði afhent erlendum aðilum, hvort sem þar er um að ræða erlend ríki, ríkjasambönd eða jafnvel erlendum auðkýfingum!!
Störf íslenskrar stjórnmálastéttar sanna svo ekki verður um villst, að hún hefur ekki vit til að fara með slíkt vald!!
Það versta er þó, að nauðsynlegum breytingum á stjórnarskrá, til að færa hana nær nútíma, gætu verið hafnað af þjóðinni. Ekki er ákvæði um að kosið sé um hverja efnislega breytingu stjórnarskrár fyrir sig, einungis kosið um breytinguna í heild sér. Því gætu nauðsynlegar breytingar hennar fallið af þeirri einu ástæðu að verið er að læða með afnámi til varnar afsali á valdheimildum til erlendra aðila. Taka varnagla þjóðarinnar og færa hann til misvitra og mis heiðarlegra stjórnmálamanna!
![]() |
Stjórnarskrárvinnan gengur vel |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Eru þingmenn og ráðherrar almennt með skerta greind?
14.9.2018 | 21:29
Það er hreint með ólíkindum hvernig þingmenn og ráðherrar stjórnarflokkanna geta hagað sér. Þeir láta sem þeir einir viti og allir aðrir séu ekki marktækir. Jafnvel þegar málflutningur þeirra er svo yfirmáta heimskulegur að hvert mannsbar með lágmarks skynsemi sér ruglið. Því er von að maður velti fyrir sér hvort virkilega einungis fólk sem hefur litla eða enga skynsemi og mjög takmarkaða greind, veljist á þing.
Nú hefur um nokkurra mánaða skeið verið rædd tilskipun frá ESB um orkumál, oftast nefnd 3. orkumálapakki sambandsins. Umræðan hefur eingöngu snúist um hvort og þá hversu mikinn skaða fyrir okkur sem þjóð, þessi tilskipun mun leiða af sér. Enginn hefur nefnt hvort eitthvað gott er í þessari tilskipun fyrir Ísland og íslenska þjóð, enda ekki hægt að finna neitt af því tagi í henni. Einungis er því deilt um hversu slæm hún er, mikið eða mjög mikið.
Þetta hefði að öllu venjulegu átt að duga til að þingmenn, allir sem einn, segðu einfaldlega að þessi tilskipun kæmi okkur ekkert við og hún því ekki samþykkt. Punktur.
Það atriði sem mest hefur verið rætt um er hvort og þá hvenær tilskipunin tekur gildi hér á landi. Auðvitað tekur hún gildi um leið og Alþingi hefur samþykkt hana. Allt tal um sæstreng kemur því í sjálfu sér lítið við, þó hugsanlega áhrifin verði ekki mjög mikil fyrr en slíkur strengur hefur verið lagður. Þá munu áhrif tilskipunarinnar birtast landsmönnum af fullum þunga og vandséð hvernig hægt verður að halda landinu í byggð. Minni áhrif, sem þó gætu orðið veruleg, munu koma fram fljótlega eftir samþykkt tilskipunarinnar. Má kannski helst þar nefna að nánast öruggt er að skipun um að Landsvirkjun verði skipt upp í mörg fyrirtæki, til að mynda hér "samkeppnismarkað", mun koma fljótt.
Með tilskipuninni er valdið yfir því hvort sæstrengur verði lagður yfir hafið ekki lengur í höndum íslenskra stjórnvalda, nema kannski að nafni til. ACER mun setja reglur um hvað þurfi að uppfylla til að fá leyfi fyrir slíkum streng og komi einhver fram sem getur uppfyllt þær kröfur, verða íslensk stjórnvöld að samþykkja strenginn. Að öðrum kosti mun málið fara fyrir eftirlitsstofnun ESA og þaðan fyrir EFTA dómstólinn, sem getur ekki annað en dæmt samkvæmt þeim reglum sem ESB/ACER hafa sett.
Eitthvað eru ráðherrar farnir að óttast þar sem þeim dettur nú sú barnalega lausn í hug að byrja á að setja lög um að ákvörðun um lagningu á slíkum streng verði í höndum Alþingis. Þvílíkur barnaskapur!! Þekkja ráðherrar virkilega ekki EES samninginn, hafa þeir ekki séð hvernig framkvæmd hans er háttað?!!
Um leið og Alþingi samþykkir tilskipanir frá ESB hefur það samþykkt að þau lög eða reglur sem þeirri tilskipun fylgja, verði þau íslenskum lögum um sama efni yfirsterkari. Því er algerlega tilgangslaust að samþykkja nú einhver lög um að vald yfir því hvort strengur verði lagður, muni vera hjá Alþingi. Jafn skjótt að sjálf tilskipunin hefur verið samþykkt mun hún yfirtaka þau lög. Það er í besta falli barnalegt að trúa öðru.
Þegar svo frámunalega vitlaus tilskipun, fyrir okkur Íslendinga, kemur frá ESB á auðvitað að hafni henni strax. Auðvitað eru til stjórnmálaflokkar, sem óska þess heitast að við göngum í ESB, sem sjá ekkert athugavert við þetta, en jafnvel aldraðir stjórnmálamenn innan þeirra geta ekki sætt sig við þessa tilskipun.
Tveir af þrem stjórnarflokkanna eru með nýsamþykktar ákvarðanir um að framselja ekki frekara vald yfir orkulindum til ESB og þriðji stjórnarflokkurinn hefur hingað til talað um að yfirráð ESB yfir Íslandi séu nú þegar meiri en gott þykir. Þetta ætti að róa fólk, þar sem þessir flokkar eru jú með meirihluta á Alþingi, auk þess sem a.m.k. tveir stjórnarandstöðuflokkar eru á sama máli. Því er í raun svipað fylgi fyrir samþykkt tilskipunarinnar á Alþingi og á meðal þjóðarinnar, eða innan við 20%. Lýðræðið virðist því virka þarna fullkomlega og ætti þjóðin því ekki að óttast.
Það sem hins vegar veldur hugarangri er hvernig ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna tala og haga sér. Sér í lagi ráðherrar og þingmenn þeirra tveggja flokka sem nýlega samþykktu í sínum æðstu stofnunum, að ekki skuli samþykkja þessa tilskipun. Það er alls ekki óþekkt að þingmenn hafi þurft að beygja sig undir vald flokksforustunnar, jafnvel þó þeir fari gegn eigin samvisku og samþykktum flokks síns. Svo virðist vera að einhvern slíkan leik eigi að spila á Alþingi, á komandi vetri.
Þegar gerður er samningur er ætið farið bil beggja. Þegar annar aðilinn er orðinn dómerandi yfir hinum, er ekki lengur um samning að ræða, heldur kúgun. Þegar EES samningurinn var gerður, var farið að mörkum þessa og fljótlega var ljóst að við máttum okkar lítils gegn hinum samningsaðilanum. Þessi tilskipun er í raun prófsteinn á hvort lengur er hægt að tala um EES samning eða hvort við verðum að fara að tala um EES kúgun. Tilskipun sem gerir okkur einungis illt, bara spurning um hversu illt, getur aldrei orðið hluti samnings, hún er hrein og klár kúgun!
Framtíð EES samningsins mun því verða ljós á þessu þingi, lifi ríkisstjórnin það lengi. Verði tilskipunin samþykkt er ljóst að krafan um uppsögn EES samningsins verður algjör, enda framtíð lands og þjóðar að veði!!
![]() |
Þriðji orkupakkinn í febrúar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
ESB sinnar í EES nefnd
31.8.2018 | 17:12
Ég hélt satt að segja að þetta hefði átt að vera óhlutdræg úttekt, að skoða ætti hvernig samningurinn hefur virkað hingað til og leggja mat á framtíðina. Meðal annars að kanna hvort fótur er fyrir því að EES samningurinn er farinn að brjóta í bága við stjórnarskrá. Það er sennilega misskilningur hjá mér. Ráðherra ætlar greinilega að fá "rétta" niðurstöðu.
Allir vita að utanríkisráðherra slefar fyrir Brussel og hefur ekki farið leynt með. Það er þó full langt gengið hjá honum að stofna þriggja manna nefnd til að skoða aðild okkar að EES, þar sem tveir nefndarmanna eru aðildarsinnar, annar þeirra fyrrum þingmaður Samfylkingar og setja síðan Björn Bjarnason sem formann yfir nefndina. Einungis örfáir dagar eru síðan Björn skrifaði harðorða ádeilu á Bjarna Jónsson, rafmagnsverkfræðing, fyrir að vogaði sér að gagnrýna Rögnu Árnadóttur um hennar sýn á þriðja orkumálapakka ESB. Ragna, sem á sínum tíma var ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, komst að þeirri niðurstöðu að þessi pakki væri bara alveg ágætur fyrir þjóðina!
Niðurstaða þessarar nefndar hefur verið dæmd ógild, áður en fyrsti fundur er haldinn, enda sjaldan verið talið gilt að hinn seki rannsaki eigin glæp!!
![]() |
Björn Bjarnason leiðir starfshóp um EES |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 17:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Græðgisfálkarnir
31.8.2018 | 09:11
Það er aldeilis stór undarlegt að grasrót stæðsta stjórnmálaflokks landsins skuli, á miðju kjörtímabili, þurfa að segja ráðherrum sínum fyrir verkum og minna þá á samþykktir flokksins. Slíkt verk ætti auðvitað að vera í höndum formanns flokksins, en þegar hann er genginn til liðs við þá sem markvisst vinna að því að svíkja stefnuna, er grasrótin ein eftir. Víst er að núverandi forusta Sjálfstæðisflokks þarf að endurskoða framferði sitt, vilji þeir vera áfram innan þessa flokks.
Annars er umræðan um þriðja orkumálapakka ESB og innleiðing hans hér á landi, ákaflega undarleg. Rætt er um hversu slæm þau áhrif verða, mikil eða lítil. Einstaka hjáróma rödd vill þó meina að áhrifin verði jafnvel engin.
Ekki hefur nokkur maður komið fram með rök fyrir því að áhrif pakkans gætu að einhverju leyti verið góð fyrir þjóðina, nýst henni á einhvern hátt.
En auðvitað er á flestum málum tvær hliðar. Það vefst fáum hugur um að áhrif pakkans á þjóðina eru heilt yfir slæm, enda yfir 90% þjóðarinnar á móti samþykkt hans, jafnvel margir hörðustu ESB andstæðingar geta illa samþykkt þennan orkupakka. Þó er til lítill hópur manna, svokallaðir græðgisfálkar, sem sjá sér hag í samþykkt pakkans. Þeir bíða þess með stjörnur í augum að fá keyptan hlut í fjöreggi þjóðarinnar, Landsvirkjun.
Eitt atriði af fjölmörgum sem orkupakkinn mun gefa af sér er að hér verður stofnað sérstök stofnun, til að setja reglur og fylgjast með að þær séu hafðar í heiðri. Sú stofnun mun ekki vera undir Alþingi eða ríkisstjórn sett, heldur hlíta fyrirmælum frá ACER, yfirstofnun orkumála ESB.
Þessi nýja stofnun mun m.a. fylgja eftir að "frjáls markaður" með orku verði í heiðri hafður hér á landi. Því mun fljótt koma krafa um að Landsvirkjun, sem er ráðandi á íslenskum orkumarkaði, verði skipt upp í smærri einingar og að ríkið láti af hendi alla eign á þeim fyrirtækjum. Orkuveita Reykjavíkur mun fljótlega fara sömu leið.
Þessu bíða fálkarnir eftir og því miður virðist þeir ná vel til æðstu stjórnenda landsins. Þar liggur skýringin á því hvers vegna forusta þeirra tveggja stjórnmálaflokka sem sitja í ríkisstjórn og eru með í farteski sínu samþykktir sinna æðstu stofnana um að samþykkja ekki orkupakkann, er svo áfram um að reyna að gera lítið úr slæmum áhrifum orkupakkans á þjóðina. Þeir þurfa að þóknast sínum.
Þegar verið er að ræða orkumál heillar þjóðar á sú umræða ekki að snúast um hvort áhrifin eru bara slæm eða mjög slæm. Sú umræða á að snúast um hversu góð áhrifin geti orðið og ekkert annað. Finnist engin góð áhrif, er óþarfi að ræða málið frekar!!
![]() |
Flokkurinn hafni orkupakkanum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 09:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvers vegna eru þingmenn svo áfram um að brjóta stjórnarskránna?
8.6.2018 | 14:15
Nú um nokkurt skeið hefur verið nokkur umræða um EES samninginn, hvernig hann hefur þróast og skarast sífellt meira viðstjórnarskránna okkar. Reyndar hefur þessi umræða komið upp áður og á árum umsóknarferlisins, frá vori 2009 til áramóta 2012/13 töluðu sumir þingmenn um nauðsyn breytingar á stjórnarskrá og rökstuddu þann málflutning með EES samningnum. Sem betur fer fór það ekki lengra.
Ástæða umræðunnar nú eru tilskipanir sem liggja fyrir Alþingi, annars vegar um persónuverndarlöggjöf og hins vegar um þriðja hluta orkumálapakka ESB. Báðar þessar tilskipanir munu færa bæði löggjafavald og dómsvald frá Íslandi yfir til stofnana ESB. Það er skýlaust brot á annarri grein stjórnarskrár okkar.
Það fer enginn lengur í felur með að EES samningurinn er farinn að brjóta á stjórnarskránni, þó einstaka menn séu tilbúnir að leggja mannorð sitt í rúst með því að gera lítið úr þeirri staðreynd. Við höfum séð hvernig dómstóll EFTA hefur snúið hér dómum Hæstaréttar trekk í trekk, þvert á stjórnarskránna.
Og nú liggur fyrir utanríkisráðuneytinu bréf frá Eftirlitsstofnun EFTA, handlangara ESB, um bókun 35. Þessi bókun fjallar í stuttu máli um að Hæstiréttur beri að fara eftir erlendum lögum, stangist þau á við þau íslensku! Þarna ætlar ESB, gegnum eftirlitsstofnunina að skikka íslenska dómstóla til að láta íslensk lög, sett af Alþingi Íslendinga, víkja fyrir erlendum lögum!!
Það sem mér gengur hins vegar illa að skilja er hvers vegna sumir þingmenn okkar, kosnir af þjóðinni til að vinna að hag hennar, eru tilbúnir að samþykkja tilskipanir erlendis frá, ef minnsti vafi er á að þær brjóti í bága við stjórnarskránna sem þeir leggjadrengskaparheit sitt við. Hefði haldið að þeir létu stjórnarskránna njóta vafans. Nú hefur aðjúnkt við háskólann ályktað að tilskipunin um persónuverndarlöggjöf ESB sé í bága við stjórnarskrá. Engu að síður rísa sumir þingmenn upp og afla sér umfjöllunar "sérfræðinga" um hið gagnstæða og jafnvel erlendir ritlingar ESB fengnir til að skrifa greinar í Fréttablaðið.
Það koma æ oftar upp í huga manns nokkrar spurningar:
1. Hver getur kært brot á stjórnarskránni?
2. Hvert skal kæra?
3. Hverja skal kæra?
1. Kannski er það svo að hverjum er heimilt að kæra slíkt brot. Vandinn er að það kostar mikla peninga að leita til dómsstóla og ekki á færi einstaklinga að fara í slíka vegferð.
2. Á að kæra til lægsta dómstig eða beint til hins hæsta? Er kannski einhver annar dómstóll sem fjallar um slík brot?
3. Þegar Alþingi samþykkir tilskipanir erlendis frá, er stangast á við stjórnarskrá, ber þá að kæra það sem stofnun, eða skal kæra þá þingmenn sem tilskipunina samþykktu? Í mínum huga bæri að kæra viðkomandi þingmenn, enda varla eðlilegt að þeir þingmenn sem kjósa gegn tilskipuninni séu ákærðir.
Þingmenn ættu að hugsa sinn gang. Þeir leggja drengskarheit sitt við vörð um stjórnarskránna, þegar þeir hefja störf á Alþingi. Þar breytir engu hverjar pólitískar hugsjónir þessa fólks er, stjórnarskráin er æðsta löggjöf landsins, alltaf! Ef vafi leikur um lögmætið á stjórnarskráin alltaf að njóta vafans!
Annað er ekki í boði!!
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Annað hvort, eða
25.4.2018 | 23:54
Annað hvort samþykkir Alþingi tilskipun ESB um þriðja orkupakka sambandsins, eða ekki. Engar undanþágur eru í tilskipuninni, þannig að ef Alþingi samþykkir hana er verið að færa völd yfir orku okkar úr landi. Svo einfalt er það!!
Það kemur hins vegar ekki á óvart þó ESB aðildarsinnar finni sig knúna til að tala um einhverja ímyndaða fyrirvara, fyrirvara sem þó eru hvergi nefndir í tilskipuninni. Fyrir þeim er sjálfstæði okkar lítils virði og stjórnarskráin einungis til óþurftar.
Það er í hæsta máta undarlegt að ráðherra skuli leita álits "sérfræðings" sem er illa haldinn af ESB veikinni og ekki annað að sjá en að ráðherra sjálfur sé eitthvað smitaður.
En til hvers var ráðherra að leita eftir slíku áliti? Dugir henni ekki leiðbeiningar landsfundar eigin stjórnmálaflokks? Er hún kannski svo illa smituð, að hún telji nauðsyn að finna, með öllum tiltækum ráðum, leið framhjá samþykkt landsfundar? Á maður virkilega að trúa því að ráðherrar og kannski þingmenn Sjálfstæðisflokks ætli að stika út í það forarsvað?!!
Og sannarlega mun það verða stjórnarskrárbrot, samþykki Alþingi tilskipunina. Í Noregi er þegar hafin vinna við málsókn vegna stjórnarskrárbrots Stórþingsins, vegna sömu tilskipunar.
Málflutningur ESB sinnans og álitsgjafa ráðherra, fjallar í stuttu máli um að samþykkt tilskipunarinnar hafi engin áhrif hér á landi og færð fátækleg og jafnvel lygarök fyrir því máli. Þá mætti spyrja þennan ágæta mann þeirrar spurningar; til hvers að samþykkja eitthvað sem kemur okkur ekkert við og skiptir engu máli?!!
Staðreyndin er einföld. Ef við viljum halda yfirráðum yfir auðlindum okkar, má aldrei rétta litla fingur út fyrir landsteinana. Nú eru það orkuauðlindir, á morgun kannski fiskveiðiauðlindirnar!
![]() |
Gæti falið í sér stjórnarskrárbrot |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)