Hvað býr að baki?

Hvað býr að baki því að ráðherra velur að senda röð "tísta" um orkupakka ESB? Var ríkisstjórnin ekki búin að fresta málinu? Var sú frestun ekki til að láta færustu sérfræðinga skoða það nánar? Á ráðherra þá ekki að halda sig til hlés, meðan slík skoðun fer fram? Eða er kannski eitthvað annað sem býr að baki þeirri festu sem ráðherrann hefur í málinu? Kannski eitthvað sem hún óttast að komi fram við frekari skoðun?

Ráðherra fullyrðir að ekkert afsal fylgi samþykkt orkupakka ESB. Þetta eru menn ekki sammála um og færustu lögfræðingar í Evrópurétti, bæði innlendir og erlendir, telja þessa fullyrðingu hennar ranga.

Þá talar ráðherrann um að ákvörðun um hvort sæstrengur verði lagður til Bretlands, muni áfram verða á valdi Alþingis. Sömu sérfræðingar í Evrópurétti eru ósammála þessari fullyrðingu einnig.

Það eru fyrst og fremst þessi tvö atriði sem skilur á milli þeirra sem samþykkja vilja orkupakkann og hinna sem eru honum mótfallnir, enda snýst sjálfstæði okkar að stórum hluta um að halda yfirráðum um þessi mál. Af þeim sökum var málinu frestað, svo hægt væri að skoða það nánar. Því kemur þetta "tíst" ráðherrans eins og skrattinn úr sauðaleggnum.

En það er ekki bara skoðanamunurinn sem fram kemur í skrifum ráðherrans, þau opinbera einnig hroka hennar og tillitsleysi til skoðana annarra og gerir hún fólki upp sakir, sem henni eru ekki sammála.

Ráðherrann fullyrðir að þeir sem á móti orkupakkanum eru, séu einnig á móti EES samningnum. Þetta tvennt er sitt hvor hluturinn og algerlega óháð hvoru öðru, nema að orkupakkinn verði samþykktur. Þá mun eina ráðið sem eftir er, til að halda völdum yfir orkuauðlindinni, vera að segja upp EES samningnum. Ekkert annað svar verður þá til fyrir okkur sem þjóð!!

Því ættu þeir sem vilja EES samningnum allt hið besta og að hann verði við lýði áfram, að fara varlega og bíða með allar fullyrðingar um orkupakkann þar til hann hefur fengið fullkomna skoðun færustu manna á þessu sviði! Það sæmir ekki ráðherra að bulla um eitthvað sem hún greinilega hefur mjög litla þekkingu á!!

Vissulega hafa sumir kallað eftir endurskoðun EES samningsins, enda hann að verða 30 ára gamall og fullt tilefni til að skoða hvernig hann gagnast okkur. Endurskoðun og uppsögn er þó sitt hvað, eins og ráðherra hlýtur að vita. Því miður var sú nefnd sem skipuð var til skoðunar hans þannig samsett, að niðurstaða hennar liggur í raun ljós fyrir. Þar voru skipaðir tveir yfirlýstir ESB sinnar, með formann sem hefur einstaka ást á EES samningnum. Niðurstaða er því fyrirfram pöntuð og mun ekki slá á gagnrýnisraddir á þann samning, þvert á móti. 

Hitt liggur ljóst fyrir, að ef orkupakkinn verður samþykktur og það rennur upp fyrir þjóðinni hversu frámunalegur afleikur það var, mun verða næsta auðvelt að fá hana á það band að segja þeim samningi einhliða upp. Sjálfstæði okkar er meira virði en einhver 30 ára stórgallaður samningur, sem í þokkabót var samþykktur með minnsta mögulega meirihluta á Alþingi og án aðkomu þjóðarinnar!!

 


mbl.is Er ekki afsal á forræði auðlindarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Varaformaðurinn, Dísa Reykás, tístir ekki um þriðja orkupakkann nema með vilja formannsins.  Hún á alla sína upphefð honum að þakka. 

Það er tími til kominn að sjálfstæðismenn dragi Bjarna Benediktsson Junior, og krefji hann svara um afstöðu hans.  Nú munu öll spjót standa að teflon-laumu-ESB-sinnannum Bjarna Junior.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 19.11.2018 kl. 12:51

2 identicon

Dragi Bjarna Benediktsson Junior fram á eyrunum undan puntudúkkuteppi Dísu Reykás ... skyldi það vera.

Undarlegt að verða vitni að því að nú boða góðir sjálfstæðismenn í Selja- og Skógahverfi fremur Jón Baldvin Hannibalsson til fundar, en formanninn Bjarna Benediktsson Jr.  Það segir allt sem segja þarf um álit þeirra á formanni flokksins.  Það skilur nú brátt milli forystu og flokks, um ófyrirséða framtíð.  

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 19.11.2018 kl. 13:29

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þegar skoðað er hver framleiðslugeta okkar er í orku, miðað við að allir kostir væru full nýttir, er ljóst að það magn er sem örlítið brotabrot af orkuþörf ríkja ESB. Því er vart hægt að halda því fram að það sé orkan sem ESB sækist eftir, mun frekar valdið yfir henni og þá um leið Íslandi.

Því á að hafna þessum pakka og gera ESB ljóst að yfirráð þeirra sé ekki óskað, hvorki í þessu né neinu öðru sem gerir okkur að sjálfstæðri þjóð.

Gunnar Heiðarsson, 19.11.2018 kl. 15:09

4 identicon

Sammála Gunnar, það eru yfirráðin yfir landinu sem ESB ásælist helst.  Kletturinn í norðri, m.a. tengist það draumum Merkel/Macron um evrópuherinn.  Kannski Björn Bjarnason vilji nú helst að við verðum kletturinn í norðri fyrir stór-þýska herinn?  Má ég þá fremur biðjs um kanann.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 19.11.2018 kl. 16:16

5 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Hafðu þökk Gunnar Heiðarsson sem og gestur þinn Símon Pétur fyrir ágætt mál og í huga má hafa, að við og afkomendur okkar komum til með að hafa þörf fyrir alla þá orku sem hér finnst, enda mun heillavænlegra fyrir þjóð á eyju útí ballarhafi að selja út unna vöru frekar en hráefni.  

Hrólfur Þ Hraundal, 19.11.2018 kl. 17:05

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Eitilskarpur ertu hér, ekkert minna, Gunnar Heiðarsson, í afar öflugri grein þinni, margþættri í raun, en hvergi nein missmíði á.

Og hittinn er Símon Pétur sem fyrri daginn og háðskur að verðleikum.

Og ekki vantar hér landdvarnarmanninn góða Hrólf Hraundal í Grundarfirði.

Jón Valur Jensson, 19.11.2018 kl. 17:11

7 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Innleiðing orkupakka 2 var stór mistök. Þá spruttu upp ýmsir milliliðir sem juku kostnað undir því villuyfirvarpi að hér væri um "samkeppni" að ræða!  En það er samskonar samkeppni og hjá hverfisverslunum sem kaupa sinn lager af Bónus. Það væri best ef hægt væri að vinda ofan af innleiðingu orkupakka 2 og afþakka síðan frekari afskipti Evrópusambandsins af skipan mála hér í sambandi við nýtingu okkar á helstu auðlindum hvort sem um raforku eða fisk er að ræða. Í framtíðinni verður næg eftirspurn eftir raforku innanlands. Og óþarfi að setja hér allt í uppnám vegna ásælni peningamanna í orkuauðlindirnar

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 19.11.2018 kl. 17:15

8 identicon

Í þessu samhengi er vert að benda á pistil Palla Vill þar sem hann vitnar í viðtal á rúv 10.06.2010 þar sem þýskur sérfræðingur um málefni Norðurlanda sagði eftirfarandi:

Schymik segir Þýskaland hafa hagsmuna að gæta og sjái mikla kosti við inngöngu Íslendinga í ESB. Það snerti náttúruauðlindirnar.

Fyrir utan fiskinn eru það endurnýjanlegar orkuauðlindir.

Einnig ræðst það af mikilvægri legu landsins í N-Atlantshafi, sem eins konar gátt til Norðurskautsins.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 19.11.2018 kl. 18:05

9 identicon

Í framhaldi af þessu segir Palli, réttilega:

ESB umsókn Samfylkingar dó drottni sínum 2012. En Þýskaland og ESB hafa enn áhuga á náttúruauðlindum Íslands.

Nýtt í málinu er að ráðherrar Sjálfstæðisflokks leggja sig fram um að færa Evrópusambandinu á silfurfati raforkuna sem framleidd er á Íslandi. Þriðji orkupakkinn gengur út á það.

Blekking djúpríkisins á Íslandi gengur út á að telja þjóðinni trú um að þriðji orkupakkinn sé til að samræma reglur um meðferð raforku og sölu.

Evrópusambandið er stórveldi sem þekkir sína hagsmuni.

Í stjórnarráði Íslands sitja heimasætur í þeirri trú að allir pakkar séu gjafir, - og stinga höfðinu ofan í umbúðirnar á meðan fjölskyldusilfrinu er stolið.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 19.11.2018 kl. 18:39

10 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Var að kíkja á tístið hennar Þórdísar á Twitter og hef bara eitt um það að segja að hún virðist ekki hafa hyggjuvit til að ímynda sér mögulegar sviðsmyndir ef af samþykkt þessarar tilskipunar verður. Til dæmis er 11.gr raforkulaga sem opnar á sölu raforku til annars dreifanda en Landsnets.  Og í þriðja pakkanum er þetta áréttað enn frekar. hlutafélög eiga að sjá um flutningsvirkin en einkafyrirtæki um öflunina. Svo þegar HS Orka vill virkja en fær ekki leyfi hjá Orkustofnun þá verður sú ákvörðun kærð til Efta sem mun leita ráða hjá ACER og hvað er það annað en framsal valds?

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 19.11.2018 kl. 18:40

11 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

"Í stjórnarráði Íslands sitja heimasætur í þeirri trú að allir pakkar séu gjafir, - og stinga höfðinu ofan í umbúðirnar á meðan fjölskyldusilfrinu er stolið."

@Símon Pétur, Í stjórnarráðinu er líka Bjarnabófinn sem ætlar að stela silfrinu og gera að sínu fjölskildusilfri!  Ekki gleyma hver raunveruleg ástæða er. Að einkavinavæða Landsvirkjun sem HF.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 19.11.2018 kl. 20:48

12 identicon

Sæll Jóhannes, enginn vafi að á bakvið hverja puntudúkku er Bjarnabófi og valinkunnug ættmenni.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 19.11.2018 kl. 21:52

13 Smámynd: Jón Valur Jensson

Er gersamlega verið að spila með þessa litlu þjóð?

Og Bjarni Ben. vogaði sér að fara sjálfur til Bretlands að reyna að semja um sölu rafmagns þangað gegnum sæstreng!

Svo eru áform þýzkra borðleggjandi þarna -- þeir vita vel, hve mörgu og miklu er hér eftir að slægjast, enda hafa þeir líka á ríkisþingsins vettvangi talað fullum fetum um "strategische Interesse" af því að ná Íslandi inn í Evrópusambandið.

Jón Valur Jensson, 20.11.2018 kl. 04:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband