Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Orkupakki 3, samantekt

Aumt er yfirklórið hjá Birni Bjarnasyni í dagbókarfærslu dagsins í dag. Fyndnasta við þau skrif BB er að fyrir tveim dögum kallaði hann það fyrirbrigði að einhver hafði notast við "03" sem heiti orkupakkans. Í dag nýtir hann þetta sama "fyrirbrigði" í fyrirsögn eigin skrifa. Reyndar er allur málflutningur BB í pistli dagsins á sama grunni, forðast að ræða efni málsins en gerir mönnum upp orð og skrif. Reyndar má taka undir með BB um að frekar hefur hljóðnað um orkupakkann síðustu daga og vekur það vissulega upp spurningar hvort fjölmiðlar, einkum mbl.is, hafi kannski verið keyptir til þagnar. Líklegri skýring er þó að málið er nú í meðferð nefnda og því fátt fréttnæmt að ske á meðan. Varðandi fylgisaukningu við pakkann, sem BB telur vera, þá er hún eingöngu bundin við þá þingmenn Sjálfstæðisflokks sem framanaf sýndu smá kjark, en virðast nú hafa verið barðir til hlýðni.

En að samantektinni. Skrifin fyrir ofan komu eingöngu til vegna dagbókarfærslu BB og kemur því sem á eftir kemur ekkert við.

Það eru allir sammála um að orkupakkinn gefur okkur ekkert, einungis rifist um hversu slæmur hann muni verða.

Það eru allir sammála um að orkuverð til íslenskra neytenda mun hækka við samþykkt orkupakkans. Einungis deilt um hvort sú hækkun kemur nú strax eða ekki fyrr en Ísland tengist meginlandinu með rafstreng.

Það eru allir sammála um að rafstrengur mun koma verði orkupakkinn samþykktur. Einungis deilt um hvort fyrirvarar halda eða ekki, hvort byrjað verði á lagningu strengsins strax eða síðar. 

Það eru allir sammála um að stjórnarskráin er að veði, verði orkupakkinn samþykktur í heild sér. Því setja stjórnvöld fyrirvara um frestun á framkvæmd meginmáls pakkans.

Þannig að; orkupakkinn er slæmur, orkupakkinn mun hækka orkuverð hér á landi, rafstrengur mun verða lagður yfir hafið og stjórnarskrá mun brotna. Kannski kemur þetta í beinu framhaldi af samþykkt orkupakkans, kannski mun fyrirvarar halda og þá verður allt þetta að veruleika þegar þeim er aflétt. Í öllu falli mun þetta allt skella á þjóðinni, okkur sem nú lifum eða börnum okkar og barnabörnum.

Eina leiðin til að forðast allt þetta er fengin með því að hafna tilskipun um orkupakka 3 frá ESB. Þannig getum við sjálf ráðið okkar orkumálum um alla framtíð.

Vissulega er þetta ekki góð lausn fyrir alla, einungis okkur Íslendinga, sem þjóð. Kauphallarhéðnar og braskarar, bæði íslenskir sem erlendir, munu tapa. Fyrir lönd ESB mun þetta litlu skipta, öðru en orðspori búrókratana í Brussel, starfsmenn kaupahéðna og braskara. Staðreyndin er að jafnvel þó allar lækjasprænur á Íslandi verði virkjaðar þá mun það ekki hafa nein afgerandi áhrif á orkuþörf þeirra landa, enda þegar búið að selja þeim þjóðum hreinleika orkunnar okkar, þökk sé orkupakka 2.  

Hvernig á því stendur að þingmönnum VG og Framsóknar er svo fyrirmunað að sjá vitleysuna í þessu öllu er magnað. VG sem hefur talað fyrir náttúruvernd og skreytir nafn sitt til höfuð þess og Framsókn sem alla tíð hefur sagt sig fylgja svokallaðri samvinnuhugsjón og var um tíma helsta vígi landsbyggðarinnar. Það eru jú náttúruvernd og byggðir um landið sem í mestri hættu eru af orkupakka 3. Sjálfstæðisflokkur hefur ætið haft góða breidd, verið flokkur allra stétta. Því kemur ekki á óvart þó nokkrir þingmenn hans séu fylgjandi orkupakkanum og lengi framanaf voru þeir frekar í minnihluta. Nú hefur orðið breyting þar einnig og þeir sem þorðu að standa gegn pakkanum eru annað hvort farnir að tala fyrir honum eða sestir út í horn og þora ekki að tjá sig. Ekkert þarf að ræða um Samfylkingu og Viðreisn í þessu sambandi, þeir flokkar eru sjálfum sér trúir og þingmenn þeirra þurfa ekki að svíkja sína kjósendur. Í augum þess fólks er Ísland ónýtt land og óska þeir þess mest að það verði hjálenda ESB.

Fyrri umræðu vegna þingályktunartillögu utanríkisráðherra um tilskipun ESB um orkupakka 3 er lokið á Alþingi. Atkvæðagreiðslan fór hljótt og málið nú í meðferð nefndar. Þegar síðari umræðu lýkur verður aftur kosið. Það er loka afgreiðsla. Þá er mikilvægt að kosning fari fram með nafnakalli, þannig að þjóðin geti fengið að sjá svart á hvítu hverjir eru svikarar þjóðarinnar. Þeir svikarar munu ekki eiga afturkvæmt á þing!!

 


Hroki ráðherra

Það er með ólíkindum hvernig ráðherra talar. Fyrir það fyrsta þá segir hann að um afléttingu fyrirvara sé að ræða, í öðru lagi heldur hann því fram að hægt sé að samþykkja orkupakkann en jafnframt að framkvæmd hans sé hafnað og í þriðja lagi vísar hann til álit sérfróðra manna máli sínu til stuðnings. Allt er þetta rangt! Menn hafa verið álitnir veikir í höfðinu af minna rugli en þessu!!

Fyrir það fyrsta þá getur ekki verið um neina afléttingu að ræða, einungis samþykki eða höfnun Alþingis. Væri um afléttingu að ræða þá er ljóst að búið er að færa vald frá Alþingi til embættismanna og ekki man ég til að Alþingi hafi gert slíkt, enda stæðist það ekki stjórnarskrá. Allar tilskipanir þurfa samþykki Alþingis, sama hvað embættismenn, jafnvel með samþykki ráðherra, gera eða skrifa undir. Að tala um afléttingu er því einungis orðsrúð til þess eins ætlað að gera minna úr málinu en efni standa til!

Í öðru lagi er það hámark fáviskunnar að bera fram fyrir alþjóð að hægt sé að samþykkja tilskipun frá ESB en fresta framkvæmd hennar. Þetta er þvílíkur hroki að engu tali tekur. Annað hvort er tilskipun samþykkt eða henni hafnað. Þegar maður selur húsið sitt getur maður ekki bara búið þar áfram, "þar til síðar".

Í þriðja lagi vísar ráðherra til umsagnar ákveðinna sérfræðinga um málið. Þarna gengur ráðherra lengra í lítilsvirðingu sinni á þjóðinni en áður. Þessar álitgerðir eru opinberar og stór hluti þjóðarinnar hefur kynnt sér þær. Í greinargerð Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar er bent á tvær leiðir. Fyrri kosturinn er að hafna tilskipuninni og mun málið þá færast aftur til EES nefndarinnar. Þar gætum við reynt að fá undanþágur eftir lögformlegri leið, undanþága sem stenst dómstól EFTA. Þessi leið er nokkuð örugg og lögformlega örugg. Hinn kosturinn er að samþykkja tilskipunina með fyrirvara. Þessi leið er hins vegar óörugg og lögformlega slæm. Þar gætu hvort heldur eftirlitsstofnun EFTA, nú eða hvaða einstaklingur sem telur að fyrirvarinn skaði sig, sótt málið fyrir EFTA dómstólnum. Fari málið fyrir þann dómstól, á hann þann eina kost að dæma samkvæmt efni tilskipunarinnar, sem Alþingi hefur þá samþykkt. Þetta áréttaði annar höfundur umsagnarinnar í fjölmiðlum í gær.

Það er því einungis ein leið fær í þessu máli, að hafna tilskipuninni. Málið mun þá fara til baka til EES nefndarinnar, eins og fram kemur í álitgerð SMS og FÁF. Þar höfum við hugsanlega möguleika á að ná fram varanlegum fyrirvörum sem stæðust dómstól EFTA. Að öðrum kosti er hægt að hafna samstarfi við ESB um orkumál og munu þá fyrri orkupakkar væntanlega falla úr gildi. Ekki að nein eftirsjá sé af þeim, en ef við teljum eitthvað innan þeirra henta okkur er hægt að láta þær greinar standa áfram sem lög hér innanlands.

Þegar maður hélt að maður væri búinn að upplifa allt það slæma við pólitík, hvernig hér var staðið að verki í endurreisn eftir hrun, hvernig þá var vegið að þjóðinni af stjórnmálastéttinni á alla vegu, hvernig Alþingi hagaði sér í Icesave málinu og var gert afturreka með og hvernig stjórnarherrar hafa heygst á því að standa vörð þjóðarinnar, koma núverandi stjórnvöld og ætla að toppa allar slæmar gerðir fortíðar með því að fórna gullepli okkar, orkunni! Sjálfstæði þjóðarinnar lagt að veði!!

Við skulum ekki gleyma þeirri staðreynd að grunnurinn undir bankahrunið var jú frelsi í flutningi fjármagns milli landa, þ.e. afleiðing EES samningsins. Þetta setti landið á hausinn og einungis með kjark fárra manna sem tókst að halda sjálfstæði þjóðarinnar, fyrst með samþykkt neyðarlaga og síðan aðkomu þjóðarinnar að Icesave. Það stóð þó tæpt, mjög tæpt.

Sú gerð sem ráðamenn nú standa að, fórn orkunnar, er þó mun svartara en hrun bankakerfisins og afleiðingar þess. Ef við missum orkuna, þá er sjálfstæðið farið. Ef þingmenn í dag eru slíkar landeyður að þeir hafi ekki kjark til að stoppa málið nú, er ljóst að mikið þarf að gerast til að hægt verði að beita eina vopninu sem eftir verður, til að endurheimta fullveldi þjóðarinnar, uppsögn EES samningsins.

 


mbl.is Innleidd að fullu en gildistöku frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lagaleg vissa

Fyrir þann sem ekki hefur kynnt sér þá álitsgerð sem unnin var af Friðrik Árna Friðrikssyni, landsréttarlögmanni og Stefáni Má Stefánssyni, prófessor, fyrir ríkisstjórnina og fjallaði um orkupakka 3, kemur þessi viðhengda frétt kannski nokkuð á óvart. Málflutningur stjórnvalda um orkupakkann hefur verið á nokkuð öðru plani en fram kemur í þessu viðtali við annan höfund skýrslunnar. Þó hafa stjórnvöld ávallt vísað til hennar í sínum rökstuðningi. Það er erfitt annað en að halda því fram að þar hafi íslensk stjórnvöld tekið meðvitaða ákvörðun um að ljúga að þjóðinni. Ekki viljum við trúa að ráðherrar séu ólæsir!

Í þessu viðtali við Friðrik Árna, nefnir hann að engin lagaleg óvissa sé til staðar ef tilskipuninni verður hafnað. Þá fari í gang þekkt ferli þar sem endirinn verður í öllu falli okkur hagstæður. Annað hvort mun tilskipuninni verða breytt okkur í hag eða við höfnum henni að fullu.

Hitt er annað að landsréttarlögmaðurinn telur að lagaleg óvissa geti skapast ef farin er sú leið sem stjórnvöld hafa valið. Í raun er engin óvissa þar í gangi, heldur nær víst að það mun valda okkur tjóni. Málið mun sannarlega lenda fyrir eftirlitsstofnun EFTA og síðan EFTA dómstólnum. Sá dómstóll getur einungis dæmt á einn veg, eftir sjálfri tilskipuninni. Íslensk lög eru ekki gild fyrir EFTA dómstólnum og handsal stjórnmálamanna hefur ekkert gildi þar heldur. Því er ljóst að dómstóllinn mun dæma þeim í hag sem óskar þess að tilskipunin skuli gilda á öllum sviðum hér á landi. Fyrirvarar eða íslensk lög munu þar engu breyta, ekki frekar en handsal utanríkisráðherra við einhvern mann innan kerfis ESB sem er umboðslaus frá kjósendum. Öllum ætti að vera þetta ljóst eftir nýlegan dómstól EFTA dómstólsins gegn Íslandi.

Það er því sama hvor leiðin er valin, sú sem ráðunautar ríkisstjórnarinnar mæla með eða hin sem svo þessi sama ríkisstjórn velur. Vissan er ætíð til staðar, niðurstaðan hins vegar mjög ólík. Annars vegar er um að ræða leið þar sem vissan um að sjálfstæði þjóðarinnar verður virt og hins vegar leið þar sem því er fórnað. Stjórnvöld velja vísvitandi að fara síðari leiðina!!


mbl.is Felur í sér lagalega óvissu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvert er Alþingi komið?

 

Sá misskilningur virðist vera í gangi að með því að bera samþykkt tilskipunar ESB um orkupakka 3 upp sem þingsályktun, þá megi komast framhjá aðkomu forsetans að málinu. Að þá verði að sækja á forseta að vísa lögum tengdum þessum pakka til þjóðarinnar. Sjálfur hélt ég svo vera, þegar ég skrifaði síðasta pistil, enda horfði ég þá einungis til 26. gr. stjórnarskrárinnar.

Þegar betur er að gáð fjalla tvær aðrar greinar stjórnarskrárinnar um aðkomu forseta að ákvörðunum Alþingis, greinar 16 og 19.

16. gr.
Forseti lýðveldisins og ráðherrar skipa ríkisráð, og hefur forseti þar forsæti.
Lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir skal bera upp fyrir forseta í ríkisráði.

19. gr.
Undirskrift forseta lýðveldisins undir löggjafarmál eða stjórnarerindi veitir þeim gildi, er ráðherra ritar undir þau með honum.

Þarna er skýrt tekið fram að samþykki forseta þarf fyrir lögum sem sett eru á Alþingi en einnig mikilvægum stjórnarráðsathöfnum og stjórnarerindum. Varla er hægt að hugsa sér mikilvægari stjórnarráðstöfun en framsal orkuauðlinda okkar. Fyrirvarar breyta þar engu, afsalið er jafn gilt.

Ef það er svo að ráðamenn þjóðarinnar eru farnir að velja málum leiðir gegnum Alþingi sem þeir telji að dugi til að komast hjá eina varnagla þjóðarinnar, er illa farið. Ef stjórnarherrarnir ætla sér að fá samþykki fyrir þingsályktun um orkupakka 3, án samþykkis forseta, eru þeir ekki einungis að brjóta stjórnarskrá með því að fórna sameign þjóðarinnar, heldur er framkvæmdin sjálf brot á stjórnarskrá!

Hvert er þá Alþingi okkar, sjálft löggjafavaldið, komið?!


mbl.is Beiti synjunarvaldi gegn orkupakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hvers að skera sauðinn, ef ekki á að éta hann?

Það er að verða nokkuð ljóst að Alþingi mun samþykkja þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um að hér skuli 3. orkupakki ESB taka gildi. Hafi þeir þingmenn sem leggja blessun sína á þessa aðför ráðherrans að lýðræði okkar skömm fyrir.

Málflutningur þeirra sem vilja samþykkja orkupakka 3 eru fyrst og fremst byggð á einu atriði, persónum þeirra sem á móti eru. Framanaf voru þetta einu rök landsölufólksins, fullyrt að engin hætta væri af samningnum, að vald yrði ekki að neinu leyti flutt úr landi. Þegar ljóst var að þessu svokölluðu rök stóðust ekki, þegar ljóst var að um afsal valds var að ræða og ráðamenn gátu ekki lengur dulið það fyrir þjóðinni, voru settir fram fyrirvarar. Þar með viðurkenndu stjórnvöld málflutning þeirra sem á móti voru. En fyrirvarar við tilskipanir frá ESB hafa aldrei haldið og munu aldrei halda. Einungis tilskipunin sjálf, með kostum og göllum virkar. Þetta hefur margoft verið reynt. Enginn hefur getað bent á fyrirvar sem hafi haldið, þ.e. fyrirvarar sem gerður er við þegar samþykkta tilskipun frá ESB. Ef breyta þarf einhverju þarf að breyta sjálfri tilskipuninni.

Ljóshundur verður lagður til meginlandsins, um það þarf ekkert að efast. Hugmyndir ráðamanna um að einhver fyrirvari við tilskipuninni muni þar einhverju breyta eru barnalegar. Til hvers að skera sauðinn ef ekki á að éta hann, til hvers að samþykkja orkupakka 3 ef ekki á að hagnast á honum? Sá hagnaður mun þó einungis falla á annan veginn; til þeirra sem að strengnum sjálfum standa, til þeirra sem framleiða orkuna fyrir strenginn og til þeirra sem taka við orkunni frá strengnum. Við, hinn almenni Íslendingur munum einungis sjá tap og það af stærðargráðu sem engum gæti dottið til hugar. Rekstrargrundvelli flestra fyrirtækja verður fórnað. Og ekki skal nokkur láta sér detta til hugar að einn strengur verði látinn duga. Tveir eru lágmark, þó ekki sé nema vegna afhendingaröryggis. Þegar síðan gróðasjónarmiðum er bætt við mun fjöldi strengja miðast við getu okkar lands til að framleiða orku. Þar mun engu verða eirt og ekkert skilið undan. Baráttu Sigríðar í Brattholti mun því að engu verða gerð, að baráttan um ásælni erlendra afla yfir auðlindum okkar, sem hófst með baráttu um Gullfoss, sé að fullu töpuð!

Teikn eru skýr, búið er að skoða rekstrargrunn sæstrengs, búið er að hanna framkvæmdina og það sem til þarf og ESB hefur sett þennan streng í forgang hjá sér. Erlendir auðjöfrar sniglast um landið eins og gráir kettir í leit að hentugum virkjanakostum og landsvæðum fyrir vindmilluskóga. Ekki eru þeir að spá í að framleiða rafmagn fyrir okkur mölbúana, þeir horfa yfir hafið.

Það er reyndar magnað að nokkur skuli láta sér detta til hugar að ætla að framleiða rafmagn með vindmillum, sem ætlað er til notkunar í 1000 km fjarlægð. Jafnvel þó hægt væri að flytja þá orku eftir landi alla leið, dytti engum slíkt í hug, hvað þá ef þarf að fara yfir úfið útaf. Vindur blæs jú um allan heim og styrkur vindmillna liggur í að hægt er að framleiða rafmagn nálægt notanda, að hægt er að minnka til muna það tap á orku sem flutningur þess leiðir af sér. Kannski væri þarna verk fyrir þá fréttamenn sem vilja hengja "rannsóknar" við nafnbót sína, til skrauts. Að rannsaka hvers vegna erlendir aðilar séu svo áfram um að framleiða hér orku með vindmillum ætlaða til flutninga langar leiðir. Getur verið að andstaðan gegn vindmillum sé orðin svo víðtæk, þar sem stærstu skógar að þeim eru, að það þyki nauðsynlegt að koma óskapnaðnum, sem lengst frá notanda?

Og talandi um orkutap, þá er lítið rætt um þá miklu orku sem þarf að framleiða hér á landi til þess eins að henda í hafið í formi orkutaps gegnum strenginn. Sú umframframleiðsla sem forstjóri Landsvirkjunar er svo tíðrætt um en fáir finna, mun verða léttvæg í þeim samanburði. Ef slík umframorka er til, þá á auðvitað að nýta hana hér á landi, t.d. til garðyrkju eða bræðsluverksmiðja.

Orkutilskipun 3 fer gegn stjórnarskrá, um það þarf ekki að deila. Fyrirvara stjórnvalda munu þar engu breyta. Í ofanálag hefur heyrst að ástæða ráðherra að flytja málið sem þingsályktun sé til þess ætluð að komast framhjá valdi forseta. Þarna er verið að leika hættulegan leik. Höfnun tilskipunarinnar af Alþingi gefur ESB heimild til að fella niður aðrar fyrri samþykktir Alþingis um sama efnisflokk, í þessu tilviki að orkumál verði ekki lengur hluti af EES samningnum. Um þetta þarf þó að semja milli EES og ESB. Samþykki hins vegar Alþingi tilskipunina, en forseti vísar lögum henni tengdri til þjóðarinnar, mun koma upp önnur og verri staða. Þá verður sjálfur EES samningurinn undir, ekki einungis sá hluti er snýr að orkumálum.

Þegar horft er á rök með og móti þessari tilskipun kemur nokkuð glögglega í ljós hversu víðáttu vitlaust það er að samþykkja tilskipun um orkupakka 3. Þeir sem eru á móti samþykktinni hafa einkum nýtt sjálfa tilskipunina sem gagn í sinni rökfærslu og fengið til þess verks færustu menn á sviði Evrópuréttar. Hinir sem samþykkir eru tilskipuninni hafa hins vegar fallið í þá gröf að hlaupa í manninn, í stað boltans. Það er ljótur leikur. Sumir þeirra sem mest hafa mælt með og skrifað um samþykkt tilskipunarinnar hafa beinna hagsmuna að gæta, fyrir sig eða sína fjölskyldu. Hjá öðrum eru ekki jafn skýr tengls, en þau hljóta þó að vera til staðar. Annað er ekki í boði, því einungis heimska mun þá skýra þeirra framferði. Og svo eru það auðvitað ESB sinnarnir. Hjá þeim gilda ekki rök, einungis nóg að pappírinn komi frá Brussel. Því fólki verður aldrei snúið.

Þá er rétt að benda á þá einföldu staðreynd, sem ætti að vera öllum ljós, að jafnvel þó svokallaðir fyrirvarar ríkisstjórnarinnar héldu, þá dugir það bara alls ekki. Þessari ríkisstjórn sem nú situr er vart treystandi til að standa í lappirnar þegar ættingjar sækja að. Síðan kemur ný ríkisstjórn og enginn veit hvernig hún verður skipuð. Miðað við hvernig kjörnir fulltrúar hafa gert leik að því að hundsa niðurstöður kosninga og setja saman stjórnir þvert á niðurstöðu kosninga, má búast við öllu, jafnvel því að ESB sinnar nái völdum. Þá eru fyrirvarar lítils virði!

Ég ætla rétt að vona að kosningin um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra verði með nafnakalli. Listinn um landsölufólkið mun þá verða varðveittur og reglulega opinberaður!!


mbl.is Tókust á um fjarveru Sigmundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að leggja eða leggja ekki streng

Fyrir utan ESB flokkana tvo, sem allt mæra er kemur frá Brussel, eru einungis eftir nokkrir þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokks, sem aðhyllast 3. orkupakka sambandsins. Hver ástæða þess er hefur ekki komið fram en óneitanlega læðist að manni sá grunur að þar búi eitthvað að baki, eitthvað annað en hagur þjóðarinnar. Það væri þarft verkefni fyrir "fjórða valdið" að kafa nánar í þetta, að skoða hvað veldur því að nokkrum þingmönnum og ráðherrum móðurflokks okkar er svo brátt um að svíkja flokk sinn og þjóð.

Nú hefur helsti talsmaður þessa hóps og sá sem í raun fer með forræði yfir málinu innan ríkisstjórnarinnar, fengið starfsfólk sitt í ráðuneytinu til að gefa út eins konar minnisblað. Þetta blað er sett fram sem "spurningar og svör" en er þó í raun einungis tilraun til að kveða niður þá gagnrýni sem verið hefur á orkupakkann. Þarna er haldið uppi fullyrðingum og einu vísanir í heimildir eru í innanbúðaskrif þeirra sjálfra, auk skrifa þeirra sem berjast harðast fyrir orkustreng til útlanda.

Vegna þess hversu hratt fjarar nú undan stuðningi við orkupakka ESB, er leitast við að koma þeirri hugsun til landsmanna að sjálfur EES samningurinn komi í veg fyrir að við getum sem þjóð, neitað um lagningu strengs til landa ESB/EES. Að sjálf tilskipunin um orkupakka 3 komi í raun því máli ekki við. Þarna er í raun verið að viðurkenna að tilskipunin muni færa valdið um lagningu á streng til ESB, en reynt að deyfa þá hugsun með því að halda fram að EES samningurinn geri slíkt hið sama.

Nú ætla ég ekki að fara út í lögfræðilegar vangaveltur, enda ekki menntaður á því sviði, læt nægja að taka orð þeirra löglærðu manna sem hafa lagt fyrir sig Evrópurétt sem sérþekkingu, trúanleg. Þeir eru ekki í neinum vafa um að orkupakki 3 færi valdið úr landi og gaman væri að fá þeirra álit á því hvort þetta vald hafi í raun færst úr landi strax við samþykkt EES samningsins, eins og haldið er fram í minnisblaði ráðuneytisins.

Sé svo er ljóst að EES samningurinn þjónar okkur ekki lengur.


mbl.is Mögulega óheimilt að banna sæstreng
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað býr að baki?

Hvað býr að baki því að ráðherra velur að senda röð "tísta" um orkupakka ESB? Var ríkisstjórnin ekki búin að fresta málinu? Var sú frestun ekki til að láta færustu sérfræðinga skoða það nánar? Á ráðherra þá ekki að halda sig til hlés, meðan slík skoðun fer fram? Eða er kannski eitthvað annað sem býr að baki þeirri festu sem ráðherrann hefur í málinu? Kannski eitthvað sem hún óttast að komi fram við frekari skoðun?

Ráðherra fullyrðir að ekkert afsal fylgi samþykkt orkupakka ESB. Þetta eru menn ekki sammála um og færustu lögfræðingar í Evrópurétti, bæði innlendir og erlendir, telja þessa fullyrðingu hennar ranga.

Þá talar ráðherrann um að ákvörðun um hvort sæstrengur verði lagður til Bretlands, muni áfram verða á valdi Alþingis. Sömu sérfræðingar í Evrópurétti eru ósammála þessari fullyrðingu einnig.

Það eru fyrst og fremst þessi tvö atriði sem skilur á milli þeirra sem samþykkja vilja orkupakkann og hinna sem eru honum mótfallnir, enda snýst sjálfstæði okkar að stórum hluta um að halda yfirráðum um þessi mál. Af þeim sökum var málinu frestað, svo hægt væri að skoða það nánar. Því kemur þetta "tíst" ráðherrans eins og skrattinn úr sauðaleggnum.

En það er ekki bara skoðanamunurinn sem fram kemur í skrifum ráðherrans, þau opinbera einnig hroka hennar og tillitsleysi til skoðana annarra og gerir hún fólki upp sakir, sem henni eru ekki sammála.

Ráðherrann fullyrðir að þeir sem á móti orkupakkanum eru, séu einnig á móti EES samningnum. Þetta tvennt er sitt hvor hluturinn og algerlega óháð hvoru öðru, nema að orkupakkinn verði samþykktur. Þá mun eina ráðið sem eftir er, til að halda völdum yfir orkuauðlindinni, vera að segja upp EES samningnum. Ekkert annað svar verður þá til fyrir okkur sem þjóð!!

Því ættu þeir sem vilja EES samningnum allt hið besta og að hann verði við lýði áfram, að fara varlega og bíða með allar fullyrðingar um orkupakkann þar til hann hefur fengið fullkomna skoðun færustu manna á þessu sviði! Það sæmir ekki ráðherra að bulla um eitthvað sem hún greinilega hefur mjög litla þekkingu á!!

Vissulega hafa sumir kallað eftir endurskoðun EES samningsins, enda hann að verða 30 ára gamall og fullt tilefni til að skoða hvernig hann gagnast okkur. Endurskoðun og uppsögn er þó sitt hvað, eins og ráðherra hlýtur að vita. Því miður var sú nefnd sem skipuð var til skoðunar hans þannig samsett, að niðurstaða hennar liggur í raun ljós fyrir. Þar voru skipaðir tveir yfirlýstir ESB sinnar, með formann sem hefur einstaka ást á EES samningnum. Niðurstaða er því fyrirfram pöntuð og mun ekki slá á gagnrýnisraddir á þann samning, þvert á móti. 

Hitt liggur ljóst fyrir, að ef orkupakkinn verður samþykktur og það rennur upp fyrir þjóðinni hversu frámunalegur afleikur það var, mun verða næsta auðvelt að fá hana á það band að segja þeim samningi einhliða upp. Sjálfstæði okkar er meira virði en einhver 30 ára stórgallaður samningur, sem í þokkabót var samþykktur með minnsta mögulega meirihluta á Alþingi og án aðkomu þjóðarinnar!!

 


mbl.is Er ekki afsal á forræði auðlindarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt örstutt skref

Segja má að náðst hafi að stíga eitt örstutt skref frá þeirri forarmýri sem stjórnvöld ætluðu að leiða þjóðina útí, a.m.k. er staldrað við.

Tilkynning utanríkisráðherra, seint í gærkvöldi, um að frestað væri framlagningu frumvarpi um orkupakka ESB, kom nokkuð á óvart, eða þannig. Kannski eru þingmenn Sjálfstæðisflokks eitthvað orðnir hræddir um stóla sína, enda ljóst að hratt fjarar undan flokknum.

En þetta er þó enginn sigur, einungis örstutt vopnahlé. Frumvarpið mun verða lagt fram og því engin ástæða til að hrósa happi strax.

Gulli segir í þessari fréttatilkynningu að ákveðið hafi verið að láta sérfræðinga skoða málið. Er hann virkilega að segja okkur að slík skoðun hafi ekki enn farið fram?. Skipa á hóp sérfræðinga, vonandi þó ekki sérfræðinga í að tala niður gagnrýnisraddir, til að skoða þetta nánar. Reyndar nefnir hann að þeir sem mest hafa gegn málinu talað, muni fá sæti í þeim hóp, svo kannski er von.

Það er einlæg von mín að ráðherra auðnist að skipa í þessa nefnd þá sem mesta þekkingu hafa á málinu, þá sem mest hafa kynnt sér það. Þar má t.d. nefna Bjarna Jónsson, rafmagnsverkfræðing.

Reyndar má svo sem búast við öllu. Eftir skipan nefndar um skoðun á EES samningnum, að kröfu Alþingis, þar sem tveir yfirlýstir ESB sinnar fengu sæti og yfir þeim settur maður sem hefur einstaka ást á EES samningnum, gæti allt eins orðið að þessi "sérfræðihópur" ráðherrans verði skipaður af þeim einum sem með orkusamningnum hafa talað.

En bíðum og sjáum til.


mbl.is Fresta orkupakkanum til vors
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erum á réttri leið

Umræðan um orkupakka 3, frá ESB, tekur á sig nýja mynd. Nú er sendiherra ESB á Íslandi farinn að tjá sig um það mál í fjölmiðlum. Þó það sé vissulega stór undarlegt og ekki talið eðlilegt í störfum sendiherra að skipta sér af pólitískum málum í sínu gistiandi, er þetta því miður ekki einsdæmi. Forveri hans frá ESB gerði slíkt hið sama í tengslum við umræðuna um aðildarumsókn okkar að ESB, á sínum tíma. Þeim sendiherra var gert að yfirgefa landið, eftir þau afskipti sín og það sama hlýtur að gilda um þann sem nú er fulltrúi ESB á Íslandi. Það eru eðlileg viðbrögð og gild um allan heim. Hitt er svo önnur saga, hvers vegna ríkjasamband er með sendiherra hér á landi, slíkar stöður eiga einungis þjóðríki að hafa.

Eitt er þó víst, að þegar ESB er farið að senda sinn fulltrúa í fjölmiðla hér á landi,er ljóst að málið er mjög heilagt ESB og sannar það eitt að við sem gegn þessum orkupakka tölum, erum á réttri leið.

Ekki ætla ég að ræða grein sendiherrans hér, að öðru leyti en því að þar sannar hann það sem haldið hefur verið fram, að áhrif neitunar tilskipunarinnar mun einungis heimila ESB að óvirkja þær tilskipanir er snúa að sama máli, þ.e. orkumálum.

Þetta er vissulega þarft í umræðuna, nú þegar einu rökin sem eftir eru hjá þeim sem tilskipunina vilja samþykkja, eru að sjálfur EES samningurinn gæti verið í húfi ef hún ekki verður samþykkt. Jafnvel stjórnmálaskýrendur fengnir til að tala því máli.

Svo rammt kveður reyndar að þeim málflutningi nú, að enginn þeirra sem tilskipunina vilja samþykkja kemur í fjölmiðla án þess að nefna einmitt þetta atriði. Þetta hengja þeir örfáu þingmenn Sjálfstæðisflokks, sem þora að tjá sig um málið, sig einmitt á þó þeir segist andvígur tilskipuninni. Vilja fá að vita hvað áhrif neitun tilskipunarinnar hefur á EES samninginn! Ættu þessir þingmenn ekki frekar að spyrja hvað gott samþykkt hennar hefur fyrir Ísland?!

Það er búið að afsanna hið keypta lögfræðiálit ráðherrans um málið, það liggur ljóst fyrir að strengur milli Íslands og Bretlands er á plönum ESB og nú hefur sendiherra ESB á Íslandi sannað að EES samningurinn er ekki að veði þó tilskipuninni verði hafnað, einungis kaflinn um orkumál.

Því er eina spurningin sem eftir er; hvað gott hefur þessi pakki fyrir okkur Íslendinga? Öðru þurfa þingmenn ekki að spyrja sig.

Hitt er ljóst, að þessi orkupakki mun hafa mikil áhrif fyrir ESB, það sanna afskipti sendiherra þeirra af pólitískum innanlandsmálum hér á landi. Þó snúa þau áhrif ekki að orkumálum innan ESB, enda orkuframleiðslugeta okkar einungis brotabrot af orkuþörf landa ESB, svo lítil að engu skiptir. Þarna eru einungis um völd ESB að ræða, völd til að ráða sem allra mestu.

Við sem tölum gegn orkupakka 3, frá ESB, erum greinilega á réttri leið!!

 

 


Eitt augnablik

Eitt augnablik hélt maður að loks væri eitthvað að rofa til í kolli ráðherra, eftir að fréttastofa rúv útvarpaði um miðjan dag í gær, frétt um að ráðherrann væri ekki viss um hvort meirihluti væri fyrir samþykkt tilskipunar ESB um orkupakka 3 og jafnvel mátti skilja á þeirri frétt að hún sjálf væri nokkuð andhverf honum. Að þetta væri vandi sem hún hafi, óumbeðið, fengið upp í hendurnar. En svo komu sjónvarpsfréttir, þar sem viðtalið var sent út. Þá varð ljóst að lítið hafði breyst, enn er setið við sama heygarðshornið.

En nú voru önnur rök uppi. Eftir að hið keypta lögfræðiálit ráðherrans hefur verið tætt í frumeindir og opinberað að lagning sæstrengs er kominn mun lengra en haldið hefur verið fram, hefur ráðherrann nú hengt sig á ný rök: Óvissu um hvað muni verða um EES samninginn, verði tilskipuninni hafnað.

Þvílík fyrra! Er ráðherrann að gera því skóna að Alþingi sé ekki fært að hafna tilskipunum frá ESB, án þess að setja sjálfan EES samninginn í uppnám? Til hvers þá að taka slíkar tilskipanir til þinglegrar meðferðar? Og hver er þá túlkun ráherrans á samningum, svona yfirleitt? Nú ef svo væri, að sjálfur EES samningurinn væri í uppnámi, þá er ljóst að sá samningur þjónar okkur ekki lengur og einfaldast að segja honum upp!

Í þeirri frétt sem þetta blogg er hengt við, heldur ráðherrann því fram að engin samskipti hafi verið höfð við ráðuneytið um lagningu á sæstreng til Bretlands. Þarna fer ráðherrann sennilega full langt í þægni sinni við sína yfirmenn, enda klárt mál að þessi strengur væri ekki á borði ESB og að ekkert fyrirtæki væri komið á fulla ferð í fjármögnun á lagningu hans, nema með vitund og vilja ráðuneytisins. Henni til varnar er hugsanlegt að hún viti ekki af þeim samskiptum, að embættismenn ráðuneytisins hafa þar farið að baki henni. Sé svo, er hún með öllu óhæf í stól ráðherra.

 

Þar sem ég hef nú skrifað nokkrar greinar þar sem fram kemur nokkur ádeila á Þórdísi Kolbrúnu Gylfadóttur, vil ég árétta að þar er ég alls ekki að deila á hana sem persónu. Hún fer hins vegar með forsjá þess máls sem ég deili hart á og að auki er hún, enn, þingmaður í mínu kjördæmi. Á þeim forsendum byggjast mín skrif.


mbl.is Ráðuneytið hefur ekki tekið afstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband