Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Einbeitttur brotavilji stjórnvalda

Mikil einurð ríkir meðal þingmanna Sjálfsatæðisflokks um að samþykkja orkupakka 3 (op3), frá esb. Reyndar á það við um flesta þingmenn hinna tveggja stjórnarflokkanna einnig. Svo mikil einurð ríkir um þetta mál að undrun sætir og við kjósendur eigum erfitt með að átta okkur á hvers vegna svo er. Umræðan hefur ýmist snúist um hvort op3 sé okkur til mikils skaða eða bara lítils. Enn hefur ekki tekist að finna neitt í honum sem er okkur hagfellt, þó stjórnarþingmenn hafi í raun lofað kjósendum að sumarið yrði nýtt til þess að upplýsa kjósendur um það. Því voru miklar væntingar til ræðu formanns flokksins, á fundi sem haldinn var í Valhöll, nú hlyti að koma í ljós hvers vegna svo nauðsynlegt er að samþykkja þennan pakka.

Vonbrigðin urðu því mikil, þegar í ljós kom að formaðurinn, sem hélt nokkuð langa ræðu, gat ekki fært fram neitt nýtt í málinu, reyndar talaði hann svo sem ekki mikið um það, þó þetta sé án vafa eitthvað mikilvægasta mál sem lagt hefur verið fyrir Alþingi og brennur hvað mest á landsmönnum. Nei, formaðurinn valdi að fara í skítkast og að sjálfsögðu kastaði hann fyrst og fremst til þeirra sem með dugnaði komu í veg fyrir að málið væri afgreitt með skömm frá Alþingi, síðasta vor. Taldi þar með ólíkindum að þingmenn Miðflokksins, einkum formaður og varaformaður, skuli hafa snúist hugur frá árinu 2015. Formaður Sjálfstæðisflokks ætti kannski að líta sér nær, var sjálfur ráðherra á þeim tíma. Síðan þá hefur formaðurinn ekki bara einu sinni snúist hugur, heldur tvisvar, fyrst fyrir nokkrum mánuðum síðan, þegar hann sá enga ástæðu til að samþykkja op3 og svo aftur nú, þegar hann er tilbúinn að fórna flokk sínum fyrir þann pakka. Eitt er að skipta um skoðun, þegar staðreyndir kenna manni að slíkt sé nauðsyn, annað að vera eins og skopparakringla og vita ekkert í sinn haus!

Það er vissulega rétt, að Miðflokkurinn, einn flokka, stóð gegn afgreiðslu op3 á Alþingi í vor og ber að þakka þeim það. Það segir þó ekki að einungis Miðflokksfólk sé á móti op3, enda væri fylgi þess flokks þá dægilegt. Andstaðan er ekki síst innan kjósenda Sjálfstæðisflokks, kjósendur Framsóknar eru flestir á móti pakkanum og ef kjósendur VG eru trúir sinni sannfæringu hljóta þeir að vera það einnig.

Svo sterk er andstaðan innan Sjálfstæðisflokks að þeir hafa virkjað 6. grein skipulagsreglna flokks síns, en hún heimilar landsfundi, flokksráði, miðstjórn, kjördæmaráðum eða flokksráðum að efna til atkvæðasöfnunar um ósk til stjórnar flokksins að láta fara fram bindandi kosningu um ákveðin málefni. Stjórninni ber að verða við þeirri ósk. Auðvitað er það svo að hver þingmaður kýs samkvæmt eigin sannfæringu um mál á Alþingi, þ.e. formlega séð. Bindandi kosning um ákveðið mál snýr því í raun um hvernig þingflokkurinn fjallar um málefni og vinnur því fylgi. Hvað hver þingmaður gerir síðan verður hann að eiga við sjálfan sig og sína kjósendur.

Það var því eins og blaut tuska þegar formaðurinn lét í veðri vaka að slík kosning væri einungis ráðgefandi, að ekki væri þörf á að hlýta henni. Ja mikill asskoti!! Fylgi flokksins í sögulegu lágmarki og formaðurinn ætlar bara að hundsa kjósendur hans!! Margt hefur maður séð í pólitík, en sjaldan svo hressilega andúð á eigin kjósendum!

Á sama tíma og í sömu ræðu kvartar hann yfir því hversu margir flokkar eru komnir á þing, að erfitt eða útilokað sé lengur að mynda ríkisstjórn tveggja flokka. Staðreyndin er að aldrei hefur verið hægt að mynda meirihlutastjórn tveggja flokka á Íslandi, nema því einu að Sjálfstæðisflokkur hafi komið þar að, utan auðvita ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms, svo böguleg sem hún nú var. Formaður þessa eina flokks sem raunverulega hefur getað náð meirihluta á Alþingi með tveggja flokka stjórn, jafnvel eins flokka stjórn, ætti því að hlusta á sína kjósendur, ekki hundsa þá. Sér í lagi þegar fylgið er komið svo neðarlega að flestir aðrir flokkar gætu hæglega orðið stærri.

Hvað það er sem gerir svo nauðsynlegt að samþykkja op3 er með öllu óskiljanlegt. Eitthvað liggur að baki. Hvað sem það er þá verða stjórnvöld að upplýsa þjóðina, að öðrum kosti stefnum við í eitthvað sem ekki hefur áður sést á Íslandi. Þjóðin mun ekki samþykkja afsal yfir auðlindinni nema því aðeins að haldbær rök liggi fyrir. Þau rök sem hingað til hafa verið notuð eru hvorki haldbær né trúanleg. Orkupakki 3 snýst fyrst og fremst um flutning orku milli landa og stofnun yfirþjóðlegrar stofnunar til að stjórna þeirri gerð. Hvað okkur snert er bætt einu valdalausu embætti á milli, þannig að þessi yfirþjóðlega stofnun verður að fara þar í gegn með sinn vilja. Það breytir engu um getu þeirrar stofnunar, enda einungis um að ræða boðbera.

Svokallaðir fyrirvarar finnast ekki, enda einungis þar um að ræða gula minnismiða sem límdir eru aftaná pakkann. Ekki er ætlunin að þeir fyrirvarar verði að lögum hér, ekki einu sinni þingsályktun, einungis einskisverðir minnismiðar. Ríkisstjórnin veit þetta, veit að hún getur ekki sett fyrirvara í lög, veit að ekki er hægt að setja þá í þingsályktun, veit að dómstóll EFTA mun ekki hlusta á slíkt bull og því eru þeir límdir utaná pakkann. Ríkisstjórnin veit einnig að þegar pakkinn verður samþykktur munu fyrirvararnir strax tínast. Ríkisstjórnin veit að samþykkt orkupakka 3 er samþykkt orkupakka 3, með öllum göllum sem honum fylgja. Hún veit einnig að út í Bretlandi bíður fjárfestir þess að op3 verði samþykktur hér á landi, fjárfestir sem tilbúinn er að hefja byggingu verksmiðju til að framleiða strenginn milli Íslands og meginlandsins og tilbúinn að hefja lagningu hans strax í framhaldinu. Þessi fjárfestir er búinn að fjármagna þá ætlun sína að fullu. Ríkisstjórnin veit að hún mun ekki geta rönd við reyst, þegar ósk frá honum berst.

Allt þetta veit ríkisstjórnin, eða ætti a.m.k. að vita. Það er því ekki hægt annað en að segja að um einbeittan brotavilja sé að ræða, samþykki Alþingi op3.


mbl.is Orkupakkinn takmarkað framsal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

EES og orkupakki 3

Björn Bjarnason hafnar því í grein sinni að þeir sem aðhyllast op3 þurfi að leggja fram einhverja sönnun fyrir því að hingað verði ekki lagður strengur. Nú er það svo að op3 fjallar fyrst og fremst um orkuflutning milli þeirra landa sem hann samþykkja. Reglugerð 714/2009, frá ESB og er hluti op3 segir;

Reglugerðin kveður á um skilyrði fyrir aðgangi að neti fyrir raforkuviðskipti yfir landamæri. Markmið reglugerðarinnar er að setja sanngjarnar reglur um raforkuviðskipti yfir landamæri og auka með því samkeppni á innri markaðnum. Þá leysir hún af hólmi eldri reglugerð um sama efni.

Skýrara etur þetta varla orðið og því hljóta þeir sem aðhyllast þennan orkupakka að þurfa að færa fyrir því sönnur að ekki verði lagður hér strengur, verði pakkinn samþykktur af Alþingi. Fyrir liggur að lög samkvæmt tilskipunum ESB eru rétthærri en lög viðkomandi þjóðar, þannig að einhliða fyrirvarar Alþingis eru ansi léttvægar ef til dómsmála kemur.

Fyrir stuttu hélt formaður Flokks fólksins því fram að umræðuhópurinn Orkan okkar, á FB, væri gerður fyrir Miðflokkinn, væntanlega þá að meina að andstaðan við op3 sé bundinn við þann flokk. Orkan okkar er umræðuhópur þeirra sem eru á móti op3, algerlega óháð flokkadrætti. Stór hluti þeirra sem þar skrifa eru, eða voru, félagar í Sjálfstæðisflokk. Þá er vitað að fyrrverandi þingmenn og ráðherrar í öllum flokkum, utan Viðreisnar, eru á móti orkupakkanum. Að Miðflokkurinn skuli vera að njóta einhverra ávaxta af op3, stafar eingöngu af því að sá flokkur hefur einn mótmælt pakkanum á Alþingi, að þingmenn þess flokks kunna að lesa í vilja kjósenda. Betur færi ef fleiri þingmen væru gæddir þeirri náðargáfu og hefðu kjark til að standa í lappirnar!!

Nú er það svo að ekki eru allir sáttir við EES og sá sem þetta ritar hefur verið á móti þeim samningi frá upphafi. Í fyrstu vegna þess hvernig málið var afgreitt, þegar Alþingi samþykkti þann samning með minnsta mögulega meirihluta, án þess að þjóðin fengi þar nokkra aðkomu. Síðar meir af þeirri ástæðu að þrátt fyrir að finna megi góða kosti við þann samning eru ókostirnir hróplegir. Það eru þó ekki allir sem eru í andstöðu við op3 sem vilja EES samninginn burtu. Gæti til dæmis ætlað að Jón Baldvin Hannibalsson vilji ekki fórna EES, þó hann sé yfirlýstur andstæðingur orkupakkans. Hitt er ljóst að með tilkomu þessa pakka hafa margir sem ekki voru í andstöðu við EES áður, nú farið að líta þann samning öðrum augum. Og alveg er á tæru að verði op3 samþykktur af Alþingi mun andstaðan við EES aukast verulega, enda ljóst að eina von okkar til að ná yfirráðum yfir orkuauðlindinn aftur, úrganga úr EES. Því ættu menn eins og Björn Bjarnason að vinna hörðum höndum að því að op3 verði sendur til heimahúsanna og þar fengin endanleg undanþága frá honum. Einungis þannig er hægt að bjarga EES.

Ekki ætla ég að telja allt það upp sem óhagkvæmt er okkur, verði op3 samþykktur. Fjöldi manna, bæði lærðir sem leikir hafa séð um það. Unnendum pakkans hefur hins vegar ekki tekist að benda á neitt okkur hagfellt, þeirra málflutningur hefur fyrst og fremst snúist um útúrsnúninga og máttlausar tilraunir til að gera lítið úr staðreyndum.

 

 


Lögbrot eiga ekki að líðast

Framkvæmdastjóri verslunar og þjónustu segir okkur fréttir af því að tugir tonna af erlendum lambahryggjum séu á leið til landsins. Þetta skýtur nokkuð skökku við þar sem ráðherra hefur ekki heimilað slíkan innflutning. Reyndar þvert á móti, þá hefur ráðherrann vísað tilmælum ráðgjafanefndar um inn og útflutning landbúnaðarvara til heimahúsanna og óskað eftir að nefndin endurskoði tillögu sína. Enda nægt kjöt til í landinu.

Kannski telja SVÞ sig utan laga og reglna í landinu, að það nægi að fífla einhverja embættismenn til fylgilags við sig.

Allt er þetta mál hið undarlegasta og engu líkara en að félagsmenn SVÞ hafi verið búnir að versla kjötið erlendis áður en nefndin gaf út úrskurð sinn. Hafi dottið niður á einhverja útsölu. Þá er magnið sem Andrés nefnir ótrúlegt, jafnvel þó svo einhver skortur hefði verið þessar tvær vikur sem eru til fyrstu slátrunar hér heima. Tugir tonna af hryggjum er nokkuð vel í lagt og ljóst að verslunin ætlar þarna að búa sér í haginn.

Það er vonandi að ráðherrann svari þessu á viðeigandi hátt og láti endursenda kjötið úr landi jafn skjótt og það birtist. Lögbrot eiga ekki að líðast!

Ef Andrés  er í einhverjum vandræðum með að fá hrygg á grillið hjá sér þá á ég a.m.k. tvo í kistunni hjá mér og gæti alveg selt honum þá, ef hann er tilbúinn að borga viðunnandi verð.

 


mbl.is Hryggir á leiðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljótleiki stjórnmálanna

Orkupakki 3 er farinn að bíta í hæla stjórnarflokkanna og ljóst að í þeim flokkum er fólk farið að ókyrrast, bæði þingmenn þeirra sem og hinir almennu kjósendur. Þingmennirnir, sumir hverjir, eru að átta sig á að kannski geti þeir ekki gengið að kjósendum sínum vísum í næstu kosningum og kjósendur þessara flokka eru farnir að horfa á önnur mið, sumir þegar yfirgefið sinn flokk. Nú er því leitað logandi ljósi að einhverju sem friðað gæti kjósendur.

Það fer ekkert á milli mála að með 0p3 flyst hluti stjórnunar orkumála úr landi. Þetta vita stjórnvöld og viðurkenndu þegar svokallaðir fyrirvarar voru settir. Og nú á að efla þessa fyrirvara enn frekar og viðurkenna þar endanlega hvert valdið fer, samkvæmt op3. Vandinn er bara sá að fyrirvarar við tilskipunum frá esb fást einungis í gegnum sameiginlegu ees/esb nefndina. Einhliða fyrirvarar einstakra þjóða er ekki gildir og hafa aldrei verið, enda gengur það einfaldlega ekki upp. Það myndi leiða til upplausnar esb/ees. Þetta vita stjórnvöld mæta vel, eða ættu a.m.k. að vita. Því mun Alþingi standa frammi fyrir því að samþykkja tilskipun esb um op3 með öllum kostum og göllum, líka þeim að ákvörðun um lagningu sæstrengs mun flytjast úr landi. Heimagerðir fyrirvarar munu þar engu breyta. Eina vörnin felst í að vísa tilskipuninni aftur til sameiginlegu nefndarinnar.

Það liggur í augum uppi og þarf enga snillinga til að sjá, að fari svo að Alþingi samþykki tilskipun esb um orkupakka3 og setji síðan einhverja fyrirvara, jafnvel þjóðaratkvæðagreiðslu, um einhverja tiltekna gildistöku eða framkvæmd, samkvæmt þeirri tilskipun, mun landið ekki einungis lenda í dómsmáli fyrir samningsbrot heldur gæti skapast skaðabótakrafa á ríkissjóð, þar sem upphæðir væru af þeirri stærðargráðu að útilokað væri fyrir okkur sem þjóð að standa skil á. Það er alvarlegt þegar stjórnarherrar leggja til slíka lausn, enn alvarlegra af þeim sökum að þeir eiga að vita afleiðingarnar.

Allt er þetta mál hið undarlegasta. Fyrst þurfti nauðsynlega að leggja streng til útlanda og samþykkja op3 vegna þess að svo mikil umframframleiðsla er í landinu og nauðsynlegt að koma henni í verð. Nú er það bráð nauðsyn vegna þess að það stefnir í skort á orku, innan stutts tíma. Þegar umræðan um op3 fór á skrið í þjóðfélaginu þurfti í raun ekkert að óttast. Stór hluti Sjálfstæðismanna og nánast allur þingflokkur Framsóknar voru á móti og þingmenn þessara flokka ekkert ósínkir á þá skoðun sína. Um VG var minna vitað, en samkvæmt þeirra stefnumálum áttu þeir góða samleið með hinum tveim stjórnarflokkunum. Til að festa þetta enn frekar í sessi samþykktu æðstu stofnanir Framsóknar og Sjálfstæðisflokks afgerandi ályktanir um málið.

Það var svo nánast á einni nóttu sem þetta breyttist. Þingmenn Sjálfstæðisflokks kepptust nú um að réttlæta fyrir þjóðinni þá skoðun sína að samþykkja bæri op3 og þingmenn Framsóknar fylgdu á eftir. Frá VG heyrist lítið nema frá formanninum.
Jafn skjótt og þessi sinnaskipti stjórnarþingmanna urðu ljós, hófst alvöru barátta gegn op3. Við sem tjáð okkur höfum um málið höfum þurft að þola svívirðingar og uppnefningar vegna þess og kölluð öllum illum nöfnum. Fyrir suma hefur þetta reynst erfitt, aðrir hafa sterkari skráp. Jafnvel þingmenn og ráðherrar hafa tekið þátt í slíkum uppnefningum. Verst hefur mér þótt þegar andstæðingar op3 eru afgreidd sem "rugluð gamalmenni sem ekkert er mark á takandi". Slíkar uppnefningar lýsa kannski frekar þeim sem sendir þær, hver hugsun þess fólks er til eldri borgara landsins. Önnur uppnefni hefur verið auðveldara að sætta sig við, jafnvel að vera kallaður "fasisti", "einangrunarsinni", "afturhaldssinni" eða "öfgasinni". Allt eru þetta orð sem þingmenn og ráðherrar hafa látið frá sér fara á undanförnum mánuðum og mörg fleiri í sama stíl. Ætti það fólk að skammast sín!!

Ljótleiki stjórnmálanna opinberast þarna í sinni verstu mynd.

Enn hafa stjórnvöld möguleika á að snúa af rangri leið. Það gæti reynst einhverjum stjórnarþingmanninum eða ráðherranum erfitt, en öðrum yrði það frelsun.

Ég skora því á þingmenn stjórnarflokkanna að hafna orkupakka 3 og vísa málinu aftur til sameiginlegu ees/esb nefndarinnar. Dugi það ekki, er eina leiðin að vísa málinu til þjóðarinnar.

 


mbl.is Útilokar ekki þjóðaratkvæði um sæstreng
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að kunna að lesa vilja kjósenda

Samkvæmt skoðanakönnun er kjarnafylgi Sjálfstæðisflokks farið að gefa sig. Þegar gengur á kjarnafylgið er stutt í endalokin.

Málflutningur þingmanna flokksins í orkupakkamálinu hafa verið með þeim hætti að jafnvel hörðustu stuðningsmenn hans, til margra ára og áratuga, hafa nú yfirgefið flokkinn. Það litla fylgi sem eftir stendur er vegna fólks sem enn telur sér trú um að hægt verði að snúa forustunni til réttra vegar. Ef það ekki tekst, ef þingmenn Sjálfstæðisflokks halda sig við sama keip og samþykkja orkupakka 3, eftir rúman mánuð, mun fylgið hrapa enn frekar, jafnvel svo að ekki verði lengur hægt að tala um stjórnmálaflokk.

Vissulega eru margir innan Sjálfstæðisflokks sem ekki eru sáttir við forustuna, svona almennt. Slíkt hefur oft gerst áður og flokkurinn jafnað sig aftur. Aldrei hefur þó fylgið farið niður í slíka lægð sem nú.  Ástæðan er einföld, nú er óánægjan fyrst og fremst bundin við ákvarðanatöku í máli sem skiptir landsmenn miklu. Máli sem kemur inn á sjálfstæði þjóðarinnar og hag fólksins sem hér býr. Það er nefnilega tiltölulega auðvelt að skipta um forustu, en sjálfstæðið verður ekki endurheimt ef því er fórnað.

Þegar niðurstöður þessarar skoðanakönnunar lá fyrir fylltust netmiðlar af ýmsum "spekingum", sem sögðu að nú hefði Sigmundur Davíð veðjað á réttan hest, að með staðfestu gegn op3 gæti hann aflað sér og sínum flokk atkvæða. Betur væri að fleiri stjórnmálamenn kynnu að lesa þjóðina jafn vel og SDG. Fylgið fer nefnilega til þeirra sem vinna að vilja og hag þjóðarinnar. Sumir kalla það popppúlisma, en í raun er það bara eðlilegur hlutur. Þegar síðan stjórnmálamenn blindast svo gjörsamlega að þeir ekki einungis hafna vilja þjóðarinnar, heldur einnig vilja þeirra eigin kjósenda og samflokks manna, getur niðurstaðan einungis farið á einn veg.

Ekki ætla ég að fjalla um alla þá galla sem op3 fylgir, né að reyna að finna einhverja kosti við þann  pakka, enda skiptir það í raun ekki máli lengur. Þjóðin er upplýst um málið og hefur gert upp hug sinn. Það er hins vegar merkilegt, svo ekki sé meira sagt, ef forusta þeirra þriggja stjórnmálaflokka sem með völd í landinu fara, ætla að láta þann pakka verða til þess að flokkar þeirra stór skaðist eða jafnvel þurrkast út.

Það verður skarð fyrir skildi ef Sjálfstæðisflokkur, þessi höfuð flokkur landsins, hverfur af svið stjórnmálanna, fyrir það eitt að forusta flokksins hefur ekki vit né getu til að lesa vilja kjósenda.


mbl.is „Auðvitað erum við óánægð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þér er ekki boðið"

Svo mælir formaður Framsóknarflokksins. Kannski ætti hann að líta sér nær. Það skiptir í sjálfu sér litlu máli þó ruglaður formaður stjórnmálaflokks vilji ekki bjóða formanni annars stjórnmálaflokks að borði sínu. Hitt skiptir meira máli hvað kjósendur velja, hvort þeir velja að bjóða stjórnmálamönnum að alsnægtaborði Alþingis. Nokkuð er víst að torsótt verður fyrir núverandi formann Framsóknar að sækja sér slíkt umboð, við næstu kosningar.

Að kalla formann Framsóknar ruglaðan er kannski stór fullyrðing, en þó. Skoðum aðeins hvernig þessum manni hefur vegnað við að standa við orð sín, frá því honum tókst með klækjum og hjálp óvandaðra manna að ná stöðu sinni.

Strax um sumarið 2016 var dregið í land með kröfur á svokallaða vogunarsjóði, sem á þeim tíma áttu landið okkar, með manni og mús, kröfur sem fyrirrennari SIJ hafði barist fyrir í kosningum 2013 og unnið að framkvæmd á. Það leiddi til þess að ný ríkisstjórn, sem stofnuð var þá um haustið átti enn auðveldara með að gera þessum sjóðum til góða.

Fyrir síðustu kosningar, haustið 2017, voru mikil loforð gefin. Reyndar var þá lítið rætt um op3, enda honum enn haldið að mestu leyndum fyrir kjósendum, en hins vegar var mikið rætt vegamál. Ástæða þess var að þáverandi samgönguráðherra Sjálfstæðisflokks hafði dottið sú snilldarlausn að skattleggja ætti landsmenn enn frekar í því nafni. Óhófleg skattlagning er eitthvað sem maður hélt að vinstri flokkar og þá einkum VG ætti einkarétt á, eða svo er okkur kjósendum talin trú um.

Í þessum anda spilaði SIJ enda málið vægast sagt heitt meðal kjósenda. Auka skattar vegna vegaframkvæmda væru bara alls ekki til umræðu og myndu aldrei verða ef kjósendur gæfu honum umboð sitt. Eftir kosningar var ljóst að Framsókn yrði í ríkisstjórn, jafnvel þó kjósendur hefðu gefið flokknum rautt spjald. Rétt fyrir jól var svo ný ríkisstjórn komin á koppinn, Framsókn komin með ráðherra vegamála og margir önduðu léttar, allar hugmyndir um vegaskatta voru úr sögunni. Í fyrsta viðtali við hinn nýja ráðherra, milli jóla og nýárs, áréttaði hann þetta. En eitthvað fór áramótagleðin illa í þennan nýja ráðherra, því strax eftir áramótin kom annað hljóð úr skrokknum, nú skildi leggja á vegaskatta og jafnvel enn meiri en fyrirrennari hans hafði þorað að nefna. Nú er unnið hörðum höndum í útfærslu þessa nýja skatts.

Að framsögðu og fleira má svo sem tína til, má að ósekju segja að ráðherrann sé eitthvað ruglaður, í það minnst á hann erfitt með að muna hvað hann sagði deginum áður.

En aftur að fréttinni sem þetta blogg hengist við.

Þar vænir hann sinn höfuðandstæðing, fyrrum félaga og samflokksmann, um að stunda innihaldslaust málþóf á Alþingi. Stórt sagt af manni sem sveik samherja sinn, samherja sem þó hafði treyst honum. Framsóknarflokkur var ekki beysinn haustið 2008 og ef ekki hefði verið fyrir nýjan og ferskan formann, er líklegt að flokkurinn hefði þurrkast út vorið 2009. Þá hefði Sigurður Ingi Jóhannsson aldrei orðið þingmaður.

Líklegt er að ráðherrann hafi lítið hlustað á ræður Miðflokksmanna á þingi. Hafi hann gert það ætti honum að vera ljóst að margir nýir fletir hafa komið upp í þeirra málflutningi, fletir sem ekki komu fram í upphafi umræðunnar, meðan ráðherra nennti að fylgjast með. Þessir nýju fletir hafa orðið til þess að enn fleiri lögfræðingar og spekingar sem ríkisstjórnin vísar til, í sínum málflutningi, hafa neyðst til að koma í fjölmiðla til að leiðrétta stjórnvöld.

Steininn tekur þó úr þegar ráðherra velur að ljúga að samherjum sínum og segir að op3 muni engu breyta nema að eftirlit Orkustofnunnar verði betra og að hagsmunir neytenda verði betur tryggðir!

Á hvaða leið er ráðherrann?!  Vissulega telur hann sig þurfa að beita þeim brögðum sem hægt er, til að róa sína kjósendur. Landsþing hafði jú bannað með öllu að þingmenn flokksins stæðu að því að orka færi úr landi, en að grípa til lyga?! Það er nokkuð sem menn gera í örvæntingu, þegar allar aðrar leiðir eru ófærar. Þetta skilar þó aldrei árangri.

Op3 er um frjálst flæði orku milli landa, ekkert annað. Inn í það spilar að Orkustofnun verði gerð sjálfstæð frá stjórnvöldum en sett þess í stað undir ESA sem aftur tekur við fyrirmælum frá ACER. Sjálfstæðið eykst ekkert við þetta, þvert á móti. Og vald þjóðarinnar verður ekkert.

Hagmunir neytenda munu vissulega batna, þ.e. neytenda á meginlandinu. Hagsmunir íslenskra neytenda mun sannarlega versna.

Ekki er deilt um að þegar strengur hefur verið lagður munu hagsmunir neytenda hér á landi versna mjög mikið. Heimili munu þurfa að greiða hærra gjald fyrir orkuna, en verra er þó að fæst minni og meðalstór fyrirtæki eru í stakk búin til að taka á sig slíka stökkbreytingu á orkuverði. Því munu fyrirvinnur heimilanna missa vinnu í stórum stíl í ofanálag við hærra orkuverð.

Hins vegar hafa menn deilt um hvar valdið liggur við ákvörðun um sæstreng og hvort fyrirvarar, sem reyndar finnast ekki enn í gögnum, haldi. Um þetta þarf ekki að deila, því strengur mun koma. Bara spurning um hvenær.

Liggi valdið hjá Alþingi og haldi tíndu fyrirvararnir, þá erum við upp á Alþingi komin með ákvörðun um streng. Alþingismenn koma og fara og margséð er að þeim er sjaldnast treystandi. Því mun sæstrengur koma eftir sem áður.

Staðreyndin er hins vegar skýr, enda op3 til þess ætlaður, að valdið mun ekki liggja hjá Alþingi, jafnvel þó fyrirvararnir finnist. Þeir eru gagnslausir.

Valdið liggur hjá ESB, sem sendir tilkynningu til ACER sem aftur tilkynnir ESA að Orkustofnun Íslands skuli samþykkja lagningu á slíkum streng. Hin leiðin er að einkarekið fyrirtæki, t.d. Atlantic Super Connection, en í þeirra plönum er ætlunin að hefja sölu um strenginn árið 2025, eða eftir sex ár, leggi fram umsókn um streng. Þeim liggur á og eru sjálfsagt búnir að semja sína umsóknina, bíða bara eftir að Alþingi samþykki op3. Sú umsókn verður send til Orkustofnunar og ef stjórnvöld eða Alþingi ætla eitthvað að skipta sér að því, fer málið einfaldlega til eftirlitsstofnunnar ESA. Ef það ekki dugir mun málið lenda hjá EFTA dómstólnum, sem getur einungis dæmt eftir sjálfri tilskipuninni. Heimatilbúnir fyrirvarar munu þar lítt gagnast, sér í lagi þegar þeir finnast ekki.

Atlantic Super Connection ætlar að flytja út gífurlegt magn af orku, meira en menn almennt gera sér grein fyrir og um svo langan streng verður mikið orkutap. Samkvæmt áætlunum ASC mun orkutapið eitt sér nema sem næst þeirri orku sem Elkem Ísland, á Grundartanga notar, töluvert meira en fyrirhuguð Hvalárvirkjun mun geta framleitt. Umframorka í kerfinu er lítil sem engin, a.m.k. hafa garðyrkjubændur og aðrir stórnotendur sem óska eftir slíkri orku, ekki getað fengið hana keypta. Því má áætla að byggja þurfi sem svarar tveim Kárahnjúkavirkjunum til að fóðra strenginn. Það magn sem keyra á um þennan eina streng samsvara nærri þriðjungi þeirrar orku sem við framleiðum í dag!!

En einn strengur mun aldrei verða látinn duga. Að lágmarki þarf tvo, þó ekki sé nema vegna afhendingaröryggis. Fjöldi strengjanna mun þó væntanlega ráðast af því hversu mikla orku mun verða hægt að totta út úr íslenskri náttúru.  Allt tal um verð orkunnar miðast við afhendingarverð. Engum hefur dottið til hugar að nefna verð hennar hérna megin strengsins. Víst er að ASC mun vilja fá sinn kostnað greiddan og ríflega það og eitthvað mun viðhald á strengnum og búnaði honum tengdum kosta. Því er ekki víst að orkufyrirtækin hér á landi fái mikið í sinn vasa. En verð til íslenskra neytenda mun þó ekki ráðast af verði á orkunni hérna megin strengsins, heldur því verði sem evrópskur markaður greiðir, þ.e. því verði sem á hinum enda strengsins.

Þó ég segi að formaður Framsóknar sé ruglaður, í upphafi þessa pistils, er fjarri því að ég telji hann heimskan. Hann veit allt um tilskipun ESB, svokallaðan op3. Hann er fullkomlega meðvitaður um afleiðingar þessa pakka og jafnvel þó hann telji eitthvað hald í fyrirvörum sem ekki finnast, þá veit hann að Alþingi mun ekki verða fyrirstaða við lagningu sæstrengs. En hann velur að ljúga að samflokksmönnum sínum. Hann er kominn upp við vegg, hann veit sök sína og reynir í örvæntingu að ljúga sig frá henni. Það mun ekki takast.

Sigurður Ingi "þér er ekki boðið" til Alþingis í næstu kosningum!!


mbl.is „Þér er ekki boðið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með belti og axlabönd

Það er fremur aum umsögn sem Náttúrufræðistofnun Íslands sendir vegna þingsályktunartillögu utanríkisráðherra, vegna orkupakka 3. Stofnunin telur að samþykkt orkupakkans muni geta aukið álag á náttúruna, en það velti þó fyrst og fremst á því hvort sæstrengur verði lagður. Gerir þar greinilega ráð fyrir að beltið og axlaböndin sem ráðherra hefur gjarnan nefnt, muni halda og því sé engin ástæða til að leggjast gegn tillögunni. Aumara getur það vart orðið.

Það er lítið gagn af belti og axlaböndum ef beltið er ekki reyrt og axlaböndin hneppt. Þá missa menn buxurnar alveg jafnt og án beltis og axlabanda. Og þannig er það varðandi orkupakka 3. Það handsal sem ráðherra gerði við embættismann ESB og þeir kossar sem forsætisráðherra fékk frá framkvæmdastjóra ESB mun lítt halda gagnvart op3. Þeir fyrirvarar sem stjórnvöld ætla að setja vegna þess pakka munu ekki halda, um það þarf ekkert að rífast. EES samningurinn er skýr og EES samningurinn segir að allar undanþágur frá tilskipunum ESB skulu afgreiddar í hinni sameiginlegu nefnd EES í viðræðum við ESB. Allar aðrar leiðir eru ófærar. Um þetta eru allir lögfróðir menn sammála. Því er hvorki beltið reyrt né axlaböndin hneppt hjá ráðherra og því mun hann standa buxnalaus eftir.

Það er út frá þessari staðreynd sem menn eiga að skoða málið, að tilskipunin mun taka gildi að fullu, sama hvað lög Alþingi setur. Og þar sem op3 er fyrst og fremst um flæði orku milli landa, hvernig því skal stjórnað og hver þar mun hafa valdið, er ljóst að Ísland mun tengjast meginlandinu með rafstreng, verði op3 samþykktur. Það verður ekki í valdi þjóðarinnar að ákveða það. Vissulega er ekkert í þessari tilskipun sem skikkar Ísland til að leggja streng, en það er skýrt að það mun teljast brot á henni ef Ísland leggst gegn slíkri tengingu.

Því er þessi umsögn Náttúrufræðistofnunar frekar aum. Stofnunin á að meta málið út frá þeirri staðreynd að strengur mun verða lagður, fyrr en síðar. Stofnunin á að meta málið út frá því hverjir hafa valdið. Stofnunin á að meta hvaða áhrif það mun hafa að Ísland missi stjórn yfir vernd náttúrunnar. 

Hvað verður um rammaáætlun Alþingis, mun hún standa? Op3 mun vissulega ekki ógilda þá áætlun, en krafan um einkavæðingu og krafan um nægt afl til Evrópu, mun sannarlega gera erfiðara fyrir að standa við þá áætlun. Ljóst er að þegar þingmenn hafa ekki kjark til að vísa tilskipuninni til baka og fá þar afgreiðslu hennar breytt á réttum vígvelli, munu þeir fjarri því hafa kjark til að standa gegn fjármagnsöflunum undir handleiðslu ESB, til að verja rammaáætlun. Og svo kemur Op4 og þá eru allar varnir hér heima fallnar, einnig rammaáætlun.

Það er barnalegt að tala um streng til meginlandsins, þar á að tala um strengi. Tveir er lágmark, þó ekki sé nema vegna afhendingaröryggis. Þegar valdið hefur endanlega verið tekið af Alþingi, mun fjöldi strengja ráðast af því einu hvað mikið verður hægt að virkja hér á landi. Rammaáætlun og umhverfismat mun þá litlu skipta, einungis hvar hægt er að ná í orku.

Þá verða buxur ráðherra ekki á hælum hans, þær verða týndar og tröllum gefnar. Hann mun þá standa nakinn frammi fyrir alþjóð!!


mbl.is Gæti aukið álagið á náttúruna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að sá fræi illgresis

Þeir sem sá fræi illgresis uppskera gjarnan illgresi. Þetta stundar utanríkisráðherra nú.

Í erindi sínu við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands talar ráðherra undur rós, gefur ýmislegt í skyn en segir ekkert berum orðum. Svona tal hefur gjarnan verið kennt við Gróu á Leiti, sáð er fræjum efasemdar í von um að þannig megi afvegaleiða sannleikann.

Ráðherra talar þarna til yngra fólks og gefur í skyn að þeir sem eldri eru viti ekki og skilji ekki. Þegar áheyrendur eru að stærstum hluta þeir sem teljast til þeirra yngri, er smá von til að slíkur málflutningur skili árangri. Hann nefnir í sömu andrá einangrunarstefnu, bannorð sem enginn vill láta spyrða sig við. Enginn þarf að efast að þarna er ráðherra að tala um það mál sem nú brennur heitast á landsmönnum, orkupakka 3. Hann segir það þó ekki með berum orðum, en hver heilvita maður skilur hvert hann er að fara. Í ofanálag gefur hann í skyn að EES samningurinn sé í hættu, vitandi fullvel að svo er alls ekki. Þarna fer ráðherra nokkuð langt yfir strikið og líklegt að Jóni Toroddsen hefði aldrei dottið til hugar að láta persónu sína, Gróu, ganga svo langt.

Þarna lítilsvirðir ráðherra þá sem komnir eru til vits og ára, þá sem mun hvernig tilurð EES samningsins varð til, muna afgreiðslu hans á Alþingi og muna hvernig þjóðin var hundsuð af Alþingi. Þarna fer ráðherra vísvitandi með rangt mál, þó hann segi það ekki berum orðum, enda veit hann að illa gæti gengið að standa við slík orð. Því sáir hann fræjum, fræjum illgresis!

Guðlaugur Þór tók ungur að skipta sér að pólitík og því líklegt að hann muni þá umræðu sem fram fór hér á landi í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar, þá rétt sloppinn yfir tvítugt. Því veit hann vel að Ísland var hvorki einangrað né lokað fyrir umheiminum fyrir daga EES. Ferðalög til Evrópu voru lítt lokaðri en nú og lítið mál fyrir þá sem vildu sækja sér nám erlendis að gera slíkt. EFTA samningurinn gerði verslun með vörur lítið verri en hún er í dag. Tengsl okkar við Evrópu voru með ágætum og reyndar heiminn allan.

Ráðherra veit einnig að þjóðin var hreint ekkert samhent um EES samninginn, reyndar ekki Alþingi heldur. Var samþykktur þar með minnsta mögulega meirihluta. Þjóðin fékk engu ráðið. Af þeim sökum hefur aldrei verið full sátt meðal þjóðarinnar um EES. Og ráðherra veit einnig að til að ná þessum minnsta mögulega meirihluta fyrir EES samningnum, lágu nokkur afgerandi atriði sem meitluð voru í stein. Sjávarauðlindin skyldi vera utan þessa samnings, landbúnaður einnig, orkumálum var haldið utan hans, við áttum alltaf að hafa val um hvort við tækjum við viðbótum við samninginn, eða jafnvel segðum honum upp og rauði þráðurinn var að stjórnarskráin skyldi ætið vera þessum samning æðri. Þannig og aðeins þannig náðist að samþykkja EES samninginn á Alþingi. Hvert eitt þessara atriða hefðu nægt til að Alþingi hefði fellt hann. En allt þetta veit ráðherra mæta vel. Enn er sjávarútvegur utan EES, landbúnaður er að formi til utan hans en í verki kominn inn, orkumál voru samþykkt inn í samninginn stuttu eftir aldamót og veruleg áhöld eru um hvort framkvæmd EES samningsins hafi brotið stjórnarskrá.

Þá má ekki gleyma að EES samningurinn var gerður við Efnahagsbandalag Evrópu, EB. Árið 2009 breyttist EB yfir í ESB, eða Evrópusambandið, breyttist úr viðskiptabandalagi yfir í stjórnmálalegt yfirvald, með tilkomu Lissabonsáttmálans. Eðli samskipta breyttust verulega við þetta. Ekki var lengur um að ræða samvinnu milli tveggja viðskiptasambanda, heldur var nú annar aðilinn orðinn að yfirþjóðlegu stjórnmálasambandi. Ekki lengur samvinna á jafnréttisgrundvelli, heldur annar aðilinn orðinn dómerandi.

Vissulega má segja að EES samningurinn hafi gert okkur gott á sumum sviðum, en einnig hefur hann verið okkur verulegur fjötur um fót, sér í lagi eftir að EB breyttist yfir í ESB. Lög og reglur eru samin fyrir löndin á meginlandinu, fyrir samfélag 500 milljón manna. Oftar en ekki hentar slík lagasetning illa eyju norður í Atlantshafi, sem telur 340 þúsund íbúa.

Þó EES samningurinn sé orðinn hluti okkar lífs, hér á Íslandi, er fjarri því að hægt sé að halda því fram að hann sé okkur nauðsynlegur, að hér muni allt leggjast í kör og að landið muni einangrast, án hans. Slíku trúa einungis þeir sem ekki muna hvernig hér var fyrir EES.

Á það treystir ráðherra og því lítilsvirðir hann þá sem komnir eru til vits og ára. Því sáir hann illgresisfræjum sínum meðal ungs fólks!!

 


mbl.is Varaði við „erlendri einangrunarhyggju“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingmönnum ber að fara að vilja þjóðarinnar

Umræðan um orkupakka 3 frá ESB hefur tekið á sig nokkuð leiðinlega mynd að undanförnu. Menn keppast við að tefla fram ummælum hinna ýmsu stjórnmálamanna, sumum hverjum nokkuð gömlum. Leiðandi á þessu sviði og til skamms tíma sá eini sem þetta stundaði, Björn Bjarnason, lætur þar ekki deigan síga. Fylgjendur orkupakkans voru fljótir að tileinka sér þessa leiðinda umræðuhefð og það sem verra er að nú síðustu daga hafa andstæðingar pakkans einnig fetað þessa leið, sem er þó alger óþarfi þar sem næg rök eru gegn samþykkt pakkans. Látum andstæðingana um lítilmennskuna, höldum okkur sjálf við nútíðina, hvað menn segja og gera í dag. Notum rök og notum brjóstvitið!

Hvað menn sögðu eða gerði fyrir ári síðan skiptir engu máli og enn minna eftir því sem lengra er liðið. Hvað menn segja í dag, hvað menn ætla að gera í dag skiptir öllu máli, varðandi orkupakka 3. Fyrir ári voru ekki nema örfáir menn sem áttuðu sig á skelfingu þessa pakka, í dag er fólki ljóst hvaða gildi hann hefur. Hér á bloggsíðum mbl var lengi vel einungis einn maður sem skrifaði um þetta mál, Bjarni Jónsson rafmagnsverkfræðingur. Aðrir virtust ekki vita hvað hann var að fara og ekki fyrr en á haustmánuðum sem umræðan loks hófst fyrir alvöru á þessum vettvangi. Út í samfélaginu hófst þessi umræða enn síðar.

Eins og flestir ættu að vera búnir að átta sig á þá snýst orkupakki 3 fyrst og fremst um flutning orku milli landa, auk þess sem í honum eru ákvæði sem lögskilda ýmsar gerðir orkupakka 1 og 2, er voru áður valkvæð. Því hefur umræðan fyrst og fremst snúist um tvennt, sæstreng til Evrópu og einkavæðingu Landsvirkjunar. Þetta eru enda helstu ásetningssteinar orkupakka 3. Um þetta snýst málið, um þetta snýst tilskipun ESB um orkupakka 3.

Stjórnvöld hafa viðurkennt að fyrri málflutningur þeirra um að tilskipun þessi stangist ekki á við stjórnarskrá og að ákvörðun um lagningu sæstrengs færist ekki frá þjóðinni yfir til ACER/ESA. Því var farin sú leið að setja fyrirvara á tilskipunina í þeim tilgangi að komast hjá þessu. Þannig átti að setja hér innlend lög um að ákvörðun um lagningu sæstrengs yrði tekin af Alþingi og þar sem enginn tenging væri við meginlandið mætti fresta gildingu tilskipunarinnar.

Þetta er bæði barnalegt og stenst enga skoðun. Fyrir það fyrsta þá er ljóst að slíkir fyrirvarar hafa ekkert gildi gagnvart EES/ESB nema þeirra sé getið og um samið innan sameiginlegu EES nefndarinnar gagnvart ESB. Framhjá þessu verður aldrei komist, hversu mikil lög sem einstakar þjóðir setja hjá sér. Því mun sæstrengur verða lagður og tilskipunin taka gildi að fullu og öllu. Þar með mun stjórnarskrá verða brotin.

Ummæli ýmissa manna undanfarið vegna orkupakkans hafa komið manni nokkuð á óvart, sér í lagi þegar heitustu andstæðingar Sjálfstæðisflokks og menn sem vilja láta minnast sín sem náttúruverndarsinna og varðmenn þeirra sem minna mega sín, eru farnir að mæra orkupakka 3. Söngvaskáld, sem mikið hefur haft sig í frammi um stjórnmál, frá hruni og telur Sjálfstæðisflokk vera ímynd hins allra versta sem til er, hefur haft sig í frammi á athugasemdum netmiðla, þar sem hann mælir gegn þeim sem á móti tilskipuninni skrifa.   

Þingmenn Sjálfstæðisflokks sem fram til þessa hafa mælt gegn tilskipuninni eða haldið sig fjarri umræðu um hana, rita nú hver á fætur öðrum greinar í moggann, þar sem þeir réttlæta sinnaskipti sín. Ummæli vikunnar komu þó frá Þórdísi Kolbrúnu Gylfadóttur, ferðamála- iðnaðar- nýsköpunar og dómsmálaráðherra, þegar hún sagði að henni þóknaðist ágætlega sæstrengur til meginlandsins. Þá vitum við íbúar Akraness hvaða hug hún ber til okkar og sjálfsagt að hafa það í huga í næstu kosningum. Enginn, ekki heldur ÞKG hefur mótmælt því að orkuverð muni hækka hér á landi, komi sæstrengur til framkvæmda. Hækkun raforkuverðs mun sannarlega leggja af stóriðjuna og hér á Akranesi er tilvera flestra tengd stóriðju, beint og óbeint. Þetta 7000 manna samfélag væri næsta fátæklegt ef ekki nyti við stóriðjunnar. Það er af sem áður var, þegar fiskurinn var helsta lifibrauð Akurnesinga. Sementsverksmiðjan, sem hafði nokkurn hóp fólks í vinnu og annað eins af fólki sem þjónaði hana, er horfin. Eftir stendur stóriðjan á Grundartanga, sem reyndar stendur höllum fæti eftir að Landsvirkjun ákvað að umframorka skildi ekki nýtt þar lengur. Hin ýmsu fyrirtæki á Akranesi eiga síðan tilveru sína að mestu eða öllu undir þeirri stóriðju. Verslanir og þjónusta ýmis, eins og skólarnir geta þakkað stóriðjunni fyrir gildi sitt innan samfélagsins.

Þá hefur þessi allsherjarráðherra okkar verið dugleg við að halda á lofti þeirri mýtu að vegna orkupakka 1 og 2 sé orkuverð lægra en ella og vísar þá í einhverja ímyndaða samkeppni á orkumarkaði. Þessi fullyrðing stenst auðvitað ekki, þó ekki væri nema vegna þess að enginn samanburður er til. Þó er vitað að þar sem eitt fyrirtæki var áður eru nú þrjú, með tilheyrandi aukakostnaði. Þá er einnig vitað að skuldir orkufyrirtækja hafa lækkað og rekstur þeirra batnað. Samkvæmt því má allt eins fullyrða að orkuverð ætti að vera enn lægra. Reyndar er öll umræða um orkupakka 1 og 2 tilraun til að afvegaleiða umræðuna. Við erum nefnilega að ræða hvort samþykkja eigi orkupakka 3 núna og síðan 4 og 5!  

Sömuleiðis megum við íbúar í norðvesturkjördæmi þakka fyrir grein Haraldar Benediktssonar í mogganum, þar sem hann réttlætir þægni sína við orkupakkann. Þessi fyrrum skeleggi talsmaður bænda mun sennilega ekki verða vel séður um sveitir kjördæmisins í næstu kosningum eftir þá grein, en í kjördæminu eru sennilega stærstu köldu svæði landsins, þar sem íbúar þurfa að kynda sín hús með raforku. Þá er ljóst að bændur hafa ekkert borð fyrir báru til að taka á sig hærra raforkuverð, svo illa sem með þá hefur verið farið síðustu ár og misseri.

Fleiri ummæli má telja en engin ástæða til þess. Þau skipta í raun ekki máli fyrr en næst verður gengið til kosninga. Þá verður þeim haldið á lofti. Hitt er nokkuð umhugsunarefni hvers vegna hin ýmsu hagsmunasamtök hafa þagað þessa umræðu af sér. Bændasamtökin hafa reyndar látið frá sér yfirlýsingu um málið, en hvað með samtök iðnaðarins, samtök þeirra sem stunda sjávarútveg og önnur þau samtök sem standa að fyrirtækjarekstri. Eru þau tilbúin að takast á við hærra orkuverð? Hvað með stéttarfélögin, eru þau samþykk því að kjör félagsmanna skerðist? Hvað með sveitarfélögin, er þeim sama þó fólk flosni upp og flytji burt?

Hvað með náttúrverndarsamtökin? Einungis einn yfirlýstur náttúruverndarsinni hefur tjáð sig opinberlega, Ómar Ragnarsson og er hans framtak vissulega þakkarvert. En hvað með aðra sem sveipa sig ljóma náttúruverndar? Þeir sem eiga erfitt með að sætta sig við að orkan okkar sé nýtt hér á landi til að byggja upp atvinnu fyrir þúsundir manna, hljóta að eiga erfitt með að sætta sig við að orkan sé flutt ónýtt úr landi, sér í lagi þegar ljóst er að arðurinn mun að mestu eða öllu lenda í höndum erlendra auðjöfra.

Við höfum í dag val og vald um hvort og hvar virkjað er. Til þess hefur Alþingi samþykkt svokallaða rammaáætlun, þar sem svæði eru flokkuð í verndarflokk, biðflokk og virkjanaflokk. Ef virkjanir fara yfir ákveðna stærð þurfa þær að fara í umhverfismat, þar sem kostir og gallar eru metnir. Vissulega eru ekki allir sáttir við niðurstöðurnar, en þarna höfum við þó eitthvað vopn í baráttunni við verndun landsins. Þetta mun allt falla, þegar völdin eru komin úr landi. ESB er nokkuð sama um einhverja fossa eða náttúrumyndir hér á landi. Þeir vilja orku.

Það er nefnilega barnalegt að ætla að einungis verði lagður einn strengur til meginlandsins, tveir eru lágmark en fjöldin mun að endingu ráðast af því hversu mikið verður hægt að virkja hér á landi. Þó Hörður Árnason og Bjarni Bjarnason, forstjórar stærstu orkufyrirtækjanna hér á landi, telji ekkert mál að fóðra strenginn, þá erum við að tala um mikla orku, eða sem svarar einni Kárahnjúkavirkjun fyrir hvern streng.

Svartasta sviðsmynd sem nokkrum hefur tekist að kasta fram, um afleiðingar orkupakka 3, er næsta hvít í samanburði við þann raunveruleika sem við munum sjá. Ímyndunarafl okkar er einfaldlega of takmarkað til að sjá þá skelfingu!

Staðreyndir málsins eru einfaldar. Þær snúast í raun ekki um hvort fyrirvarar standist eða ekki, sem reyndar liggur ljóst fyrir að þeir ekki gera. Þær snúast ekki heldur um hvað menn sögðu eða gerðu fyrir ári síðan eða þaðan af lengra.

Staðreyndirnar snúast um eitt og aðeins eitt, hver vilji þjóðarinnar er. Tveir stjórnarflokkanna hafa skýrann vilja sinna kjósenda í farteskinu. Treysti þeir sér ekki til að fara að þeim vilja, er einfaldast og best að fresta afgreiðslu málsins og leggja það í dóm þjóðarinnar allrar. Þannig og aðeins þannig fæst fram hvað þjóðin vill og þingmönnum BER að fara að vilja þjóðarinnar!!


Hvað er lýðskrum?

Er það lýðskrum að tala um hlutina eins og þeir eru?

Er það lýðskrum að vísa efnislega í þau gögn sem tilheyra því máli sem rætt er um?

Er það lýðskrum að vísa í úttektir sem gerðar eru að málsmetandi mönnum, eins og Friðriki Árna  Friðrikssyni og Stefáni Má Stefánssyni, máli sínu til stuðnings?

Er það lýðskrum að taka heill þjóðarinnar fram yfir hagsmuni einstakra einstaklinga?

Svarið við þessum spurningum er NEI, það er ekki lýðskrum að vísa í gögn, það er ekki lýðskrum að vísa í álitsgerð manna sem fengnir eru til að skoða málið í kjölinn, að beiðni stjórnvalda, það er ekki lýðskrum að taka heill þjóðarinnar fram yfir hagsmuni einstaklinga, sem fæstir búa á Íslandi.

Hins vegar er það lýðskrum að hafna því að ræða málefni út frá efni þess og færa umræðuna alltaf yfir þá einstaklinga sem eru á öðru máli.

Það er lýðskrum að velja einstakar setningar, stundum hluta af setningum, úr álitsgerð lögfræðinga og nýta sem rök máli sínu til framdráttar, að gera þannig tilraun til að rangtúlka efni álitsgerðarinnar og snúa henni á haus.

Það er lýðskrum að tala um hagsmuni neytenda máli sínu til stuðnings, þegar ljóst er að þar er átt við einhverja allt aðra neytendur en þá sem hér búa. Til þess eins gert að fórna hag almennings til handa örfáum einstaklingum.

Menn geta svo velt fyrir sér hverjir eru með meira lýðskrum, þeir sem á móti orkupakkanum eru og notast við rök sínu máli til staðfestingar, eða hinir sem samþykkir eru pakkanum og beita hellst þeirri aðferð að ráðast með dylgjum á andstæðinginn auk þess að niðurlægja þjóðina með því að gefa í skyn að hún sé ekki læs!!

Tilskipun ESB um orkupakka 3, álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar og Stefáns Más Stefánssonar, EES samningurinn og stjórnarskráin eru opinber skjöl og auðvelt að finna á netinu. Þar geta allir lesið þessi gögn og er það í raun tiltölulega fljótlegt, utan EES samninginn hann er nokkuð flóknari. Margir hafa gefið sér tíma til að lesa þetta allt, aðrir láta duga að lesa álitsgerð Friðriks og Stefáns.

Það er sama hvar er borið niður, allt liggur að sama brunni; ef Alþingi samþykkir orkupakkann munum við glata forræði yfir orkunni, annað hvort strax eða síðar. Samkvæmt greinagerð Friðriks og Stefáns má búast við að mjög fljótt verði þetta vald af okkur tekið, þarf ekki nema eina kæru til eftirlitsstofnunnar EFTA og síðan dómsmál í framhaldi af því. Niðurstaða þess dóms er augljós, enda getur EFTA dómstóllinn einungis dæmt samkvæmt lögum og reglum EES/ESB. Orkumál okkar færast undir þann dómstól jafn skjótt og tilskipunin hefur verið samþykkt. Heimagerðir fyrirvarar munu enga breyta gagnvart EFTA dómstólnum. Um þetta þarf ekki að deila, hafi menn lesið sér til um málið!!

Hér má finna þingsályktunartillögu utanríkisráðherra þar sem fram kemur í fyrsta kafla vísanir í þau lög sem orkupakkinn mun yfirtaka og leiða af sér. 

Hér er álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar og Stefáns Más Stefánssonar

Hér er síðan afrit af EES samningnum, með tilvísunum til lagabreytinga frá því hann tók gildi

Og að lokum er hér sjálf stjórnarskráin okkar

Ég hvet alla sem ekki hafa kynnt sér málið að gera það nú þegar og tjá sig út frá staðreyndum, ástunda ekki lýðskrum eins og þeir gera sem reyna að ljúga að þjóðinni og halda því fram að samþykkt orkupakka 3 skaði okkur ekki!!


mbl.is „Það kalla ég ómerkilegt lýðskrum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband