Ráðherrann og vifturnar hans

Ómar Ragnarsson benti á í bloggi í gær að framleiðsla orku með vindmillum væri utan rammaáætlunar og því væri í raun allt landið undir í þeim efnum. Þetta er rétt hjá Ómari og ekki annað að sjá en einhverskonar gullgrafaraæði ráði nú för, er kemur að vindmillum. Þetta sést nokkuð vel þegar litið er vestur í Dali og á Barðaströndina. Þar eru hugmyndir lengst komnar, þó víðar um land sé verið að skoða hugsanlega kosti fyrir vindmilluskóga.

Fyrir vestan eru þrír kostir mest ræddir, upp á fjöllunum við Garpsdal, á Hróðnýjarstöðum við Búðardal og í landi Sólheima, fremst í Laxárdal, jörð í sameign barnamálaráðherrans, eiginkonu hans og föður ráðherrans. Samtals er verið að tala þarna um vindmillur sem afkasta eiga allt að 375MW. Til samanburðar er framleiðslugeta Búrfellsvirkjunar 370MW eftir stækkun og Fljótsdalsvirkjunar 690MW. Það er ljóst að þarna er verið að tala um svo mikla framleiðslugetu að útilokað er að ætla að selja það allt hér innanlands, sæstrengur út er frum forsenda þess að þessar hugmyndir hafi einhvern tilgang, bæði til að koma orkunni á markað og einnig til að orkuverð hækki svo einhvern arð verði hægt að ná út úr dæminu.

Af þessum þrem viftuvirkjanakostum vestra er einn lengst kominn. Þar er um að ræða 27 vindmillur með framleiðslugetu upp á 115MW, eða vel rúmlega tvær Hvalárvirkjanir. Um ár er síðan lokið var við að setja upp mikið og hátt mælimastur og komið fyrir lítil rellu á svæðinu til að mæla vindstyrk og vindáttir. Í sumar var svo lagður ljósleiðari á framkvæmdasvæðið og endar hann þar sem stjórnhúsi er ætlað að vera. Vegagerðin vinnur hörðum höndum að mælingu á styrk á þeim hluta vegakerfisins að svæðinu sem að henni snýr og leitar nýrra náma, til styrktar þess. Í raun er ekki annað að sjá en að framkvæmdir séu nú í biðstöðu, en væntanlega fer allt á fullan snúning jafn skjótt og Alþingi hefur samþykkt op3.

Sólheimarellurnar eru ekkert smá flykki, hæðin með spaða í efstu stöðu verður um 175 metrar, eða um 100 metrum hærri en rellurnar sem Landsvirkjun reisti fyrir ofan Búrfell. Undir svona flykki þarf góða undirstöðu og gert ráð fyrir að þvermál undirstöðu hverrar viftu verði 30 metrar. Því má gera ráð fyrir að steypumagnið sem flytja þarf upp á Laxárdalsheiðina muni getað slagað hátt í 200.000 tonn. Það eru nokkuð margar ferðir steypubíla!  Áætlað er að vegakerfið sem framkvæmdaraðilinn þarf að leggja um svæðið sé um 26 km, af 6 metra breiðum vegi með fullu burðarþoli. Þar að auki þarf öflugt plan við hverja viftu, svo krani geti örugglega athafnað sig þar.

Það munu verða miklir flutningar samhliða þessari framkvæmd. Eins og áður sagði mun þurfa að flytja óhemju magn af steypu á svæðið. Hvaðan hún mun koma er ekki vitað en næsta alvöru steypustöð er í Borgarnesi, í 100 km fjarlægð. Þá þarf að koma viftunum og því sem þeim tilheyrir upp á heiðina. Líklega má ætla að ekki færri en 1000 full lestaða dráttarbíla þurfi til þess verks, jafnvel mun fleiri. Hvar skipa skuli upp herlegheitunum er enn óráðið, en í matsskýrslunni eru þrír staðir nefndir, Grundarfjörður, Grundartangi og Hvammstangi. Sá síðastnefndi hefur sannarlega þann kost umfram aðra að vegalengd er stutt, en þar er hvorki viðunandi höfn, athafnarsvæði við höfnina né nokkur aðstaða til að koma svona vörum á land og meðhöndla þær. Grundarfjörð má afskrifa strax, endurnýja þarf þá að fullu vegakerfið um Skógarströndina og vart er til fjármagn til þess í ríkissjóð. Eftir stendur Grundartangi, með alla aðstöðu og tækjabúnað sem þarf til að landa og meðhöndla þennan búnað. Vegalengdin er hins vegar nokkur, eða um 130 kílómetrar, aðra leiðina.

Mestur verður vandinn við að flytja spaðana á staðinn. Hver þeirra er nærri 68 m á lengd og koma þeir í heilu lagi, alls 81 stk. Vissulega er þetta gert erlendis, með erfiðismunum þó. Veðurfar hér og vegakerfi er þó á margan hátt ólíkt og gæti gert enn erfiðar um vik að flytja svo langan flutning. Við skulum átta okkur á að 68 metrar er langur farmur, eða sem svarar rúmlega ellefu 20" gámum. Samkvæmt umferðarlögum má heildarlengd ökutækis einungis vera 20 metrar, eða einungis tæplega einn þriðji af lengd spaðans. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig þetta mun ganga.

Það er ljóst að um gífurlega framkvæmd er að ræða í landi barnamálaráðherrans og ljóst að umfjöllun um hana hefur verið í mýflugumynd. Reynt er að gera sem minnst úr verkinu og áhrifum þess, í tölvugerðum myndum er vifturnar gjarnan sýndar mun minni en þær í raun eru og annað eftir því. Á byggingartímanum mun verða verulegt rask á heiðinni, auk mjög mikillar þungaumferðar um landið. Eftir að byggingartíma líkur mun landið hafa breytta ásjónu. Risa vindmillur, alls 27, munu dreifast um heiðina, með vegakerfi á milli og ýmsum þjónustuhúsum. Væntanlega mun Landsnet þurfa að leggja nýja lína af svæðinu niður í spennuvirki í Hrútafirði, á okkar kostnað auðvitað. Sem dæmi þá eru vifturnar um 175 metrar á hæð, eins og fyrr segir. Landið sem þeim er ætlað að standa er einungis í um 200 metra hæð yfir sjávarmáli, svo ljóst er að sjónmengunin mun sjást víða.

Hvers vegna umhverfissamtök hafi ekkert látið til sýn heyra er með öllu óskynjanlegt, þó vissulega megi þakka einum mesta og fremst manni hér á landi á því sviði reyfa málið, þ.e. Ómar Ragnarsson. Umhverfisáhrif svona risa vindmilluskógar eru gífurleg, ekki minni en af sambærilegri vatnsaflsvirkjun. Útilokað er að endurheimta það land aftur, þó sumir tali fjálglega um slíkt. Það magn steypu, sem í dag er víst talin einstaklega umhverfishættuleg, er með ólíkindum.

Það er deginum ljósara að engum dytti til hugar að fara út í slíka framkvæmd nema því aðeins að markaðurinn verði stækkaður og orkuverð hækkað. Því bíður barnamálaráðherrann nú rólegur eftir atkvæðagreiðslunni, einungis um vika þar til hjólin geti farið að snúast hjá honum og viðskiptafélögum hans.

Strengurinn til meginlandsins mun sannarlega koma, það vita allir þeir sem munu greiða atkvæði mánudaginn 2. september. Skömmin mun öll þeirra sem samþykkja orkupakka 3.!!

 


mbl.is Hefðbundið fyrirkomulag á þingstubb
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta er einstaklega fróðleg og vel unnin grein hjá þér, Gunnar Heiðarsson, hafðu beztu þakkir fyrir allar upplýsingarnar!

Eins og fram kemur hjá þér, er það gersamlega með ólíkindum, af hvílíkri stærðargráðu þessi áform öll og framkvæmdir standa til með að verða, með óheyrilegu magni steypu (hefur Ásmundur efni á þessu?) og risastærð (60 m) af mylluspöðum sem ná muni 175 metra upp í loft!!! Dettur manni einna helzt í hug, að hér sé um magnaðar skýjaborgir að ræða! 

Hefur svo potturinn og pannan í þessu öllu saman tíma til að sinna ráðherra- og þingmannsstörfum sem aukagetu eins og ekkert sé? Eða er hann einbert handbendi auðugra fjárfesta eða fyrirtækja, innlendra eða erlendra?

Hvílík steypa! Og hvílík skemmd á útliti landsins. Og ætlar Ásmundur Einar að taka það á sína samvizku að verða valdur að útrýmingu síðustu arnanna á Íslandi? Nota bene, sjá þetta myndband:

https://www.facebook.com/AfD.Freunde.Michendorf/videos/2226037754326363/

Jón Valur Jensson, 26.8.2019 kl. 13:20

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Jón Valur

Ég gleymdi að nefna ernina, en Breiðafjörður er jú friðland þeirra. Reyndar er virkt arnaróðal skammt frá framkvæmdarsvæði ráðherrans, á heiðinni.

Auðvitað er það svo að ráðherrann hefur vart efni á þessum framkvæmdum, eftir öll þau gjaldþrot sem hann hefur farið í gegnum síðust ár. Því er hann í samstarfi við fyrirtæki sem kallast Quadran Iceland Development, en stjórnarformaður þess er Tryggvi nokkur Herbertsson. Hverjir aðrir koma að þessu fyrirtæki hefur mér ekki enn tekist að finna.

Hitt liggur ljóst fyrir að framkvæmdir munu hefjast að fullu nú á haustdögum, þ.e. ef op3 verður samþykktur næsta mánudag.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 26.8.2019 kl. 14:58

3 Smámynd: Guðmundur Jónsson

""Umhverfisáhrif svona risa vindmilluskógar eru gífurleg, ekki minni en af sambærilegri vatnsaflsvirkjun""

Þetta er bara röng ályktun Gunnar. Vindmillur kosta um það bil fimm sinnum meir orku í framleiðslu en hagkvæmt vatnsafl eins og í Búrfelli. Og þær hafa mér vitanlega bara neikvæð áhrif á lífríki þeirra svæða sem þær upptaka á meðan vatnsaflsvirkjanir auka landgæði, sveiflujafna árnar og stórauka oft fjölbreytni lífríkisins í kring. Og það er lítil sem engin sjónmengun af vatnsaflsvirkjunum í samanburði við Vindaflið.

Guðmundur Jónsson, 26.8.2019 kl. 15:38

4 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Takk fyrir þess stórgóðu grein Gunnar.

Guðmundur Jónsson, 26.8.2019 kl. 15:39

5 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Sagt er að einn ríkasti maður Englands James Ratcliffe hafi keypt jarðir "út um allt" til að vermda íslenska laxinn. Hvaða laxá er á Grímstöðum á fjöllum? Þetta er ekkert smá land sem hann keypti þarna og til hvers? Vermda laxinn? Eða kannski til að koma upp vindmillu garði þegar búið er að samþykkja Op3?

Sigurður I B Guðmundsson, 26.8.2019 kl. 16:21

6 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Einmitt það sem ég var að segja Guðmundur, umhverfisáhrif vindmilluskóga er gífurleg. Þá leikur nú grunur á um að mikið af spanstraum sé umhverfis slíkar viftur, sem ýmis dýr eru mjög viðkvæm fyrir. Nýjustu fréttir frá Bretlandi segja frá að nokkuð af nautpening hafi drepist, engin skýring fannst önnur en að þau höfðu gengið til beitar nærri vindmillum.

Gunnar Heiðarsson, 26.8.2019 kl. 16:35

7 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er spurning Sigurður, kannski ætlar Ratcliff að fara að rækta vindmilluskóga. Nægt er landsvæðið sem hann hefur sankað að sér.

Það myndi sannarlega passa vel með öðrum orkulindum sem hann ræður yfir, s.s. olíunni.

Gunnar Heiðarsson, 26.8.2019 kl. 16:39

8 identicon

Eitt baráttutækið er https://www.jenga.is
u
m 10500 hafa skrifað undirþ

Jóna Imsland (IP-tala skráð) 27.8.2019 kl. 14:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband