Einbeitttur brotavilji stjórnvalda

Mikil einurð ríkir meðal þingmanna Sjálfsatæðisflokks um að samþykkja orkupakka 3 (op3), frá esb. Reyndar á það við um flesta þingmenn hinna tveggja stjórnarflokkanna einnig. Svo mikil einurð ríkir um þetta mál að undrun sætir og við kjósendur eigum erfitt með að átta okkur á hvers vegna svo er. Umræðan hefur ýmist snúist um hvort op3 sé okkur til mikils skaða eða bara lítils. Enn hefur ekki tekist að finna neitt í honum sem er okkur hagfellt, þó stjórnarþingmenn hafi í raun lofað kjósendum að sumarið yrði nýtt til þess að upplýsa kjósendur um það. Því voru miklar væntingar til ræðu formanns flokksins, á fundi sem haldinn var í Valhöll, nú hlyti að koma í ljós hvers vegna svo nauðsynlegt er að samþykkja þennan pakka.

Vonbrigðin urðu því mikil, þegar í ljós kom að formaðurinn, sem hélt nokkuð langa ræðu, gat ekki fært fram neitt nýtt í málinu, reyndar talaði hann svo sem ekki mikið um það, þó þetta sé án vafa eitthvað mikilvægasta mál sem lagt hefur verið fyrir Alþingi og brennur hvað mest á landsmönnum. Nei, formaðurinn valdi að fara í skítkast og að sjálfsögðu kastaði hann fyrst og fremst til þeirra sem með dugnaði komu í veg fyrir að málið væri afgreitt með skömm frá Alþingi, síðasta vor. Taldi þar með ólíkindum að þingmenn Miðflokksins, einkum formaður og varaformaður, skuli hafa snúist hugur frá árinu 2015. Formaður Sjálfstæðisflokks ætti kannski að líta sér nær, var sjálfur ráðherra á þeim tíma. Síðan þá hefur formaðurinn ekki bara einu sinni snúist hugur, heldur tvisvar, fyrst fyrir nokkrum mánuðum síðan, þegar hann sá enga ástæðu til að samþykkja op3 og svo aftur nú, þegar hann er tilbúinn að fórna flokk sínum fyrir þann pakka. Eitt er að skipta um skoðun, þegar staðreyndir kenna manni að slíkt sé nauðsyn, annað að vera eins og skopparakringla og vita ekkert í sinn haus!

Það er vissulega rétt, að Miðflokkurinn, einn flokka, stóð gegn afgreiðslu op3 á Alþingi í vor og ber að þakka þeim það. Það segir þó ekki að einungis Miðflokksfólk sé á móti op3, enda væri fylgi þess flokks þá dægilegt. Andstaðan er ekki síst innan kjósenda Sjálfstæðisflokks, kjósendur Framsóknar eru flestir á móti pakkanum og ef kjósendur VG eru trúir sinni sannfæringu hljóta þeir að vera það einnig.

Svo sterk er andstaðan innan Sjálfstæðisflokks að þeir hafa virkjað 6. grein skipulagsreglna flokks síns, en hún heimilar landsfundi, flokksráði, miðstjórn, kjördæmaráðum eða flokksráðum að efna til atkvæðasöfnunar um ósk til stjórnar flokksins að láta fara fram bindandi kosningu um ákveðin málefni. Stjórninni ber að verða við þeirri ósk. Auðvitað er það svo að hver þingmaður kýs samkvæmt eigin sannfæringu um mál á Alþingi, þ.e. formlega séð. Bindandi kosning um ákveðið mál snýr því í raun um hvernig þingflokkurinn fjallar um málefni og vinnur því fylgi. Hvað hver þingmaður gerir síðan verður hann að eiga við sjálfan sig og sína kjósendur.

Það var því eins og blaut tuska þegar formaðurinn lét í veðri vaka að slík kosning væri einungis ráðgefandi, að ekki væri þörf á að hlýta henni. Ja mikill asskoti!! Fylgi flokksins í sögulegu lágmarki og formaðurinn ætlar bara að hundsa kjósendur hans!! Margt hefur maður séð í pólitík, en sjaldan svo hressilega andúð á eigin kjósendum!

Á sama tíma og í sömu ræðu kvartar hann yfir því hversu margir flokkar eru komnir á þing, að erfitt eða útilokað sé lengur að mynda ríkisstjórn tveggja flokka. Staðreyndin er að aldrei hefur verið hægt að mynda meirihlutastjórn tveggja flokka á Íslandi, nema því einu að Sjálfstæðisflokkur hafi komið þar að, utan auðvita ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms, svo böguleg sem hún nú var. Formaður þessa eina flokks sem raunverulega hefur getað náð meirihluta á Alþingi með tveggja flokka stjórn, jafnvel eins flokka stjórn, ætti því að hlusta á sína kjósendur, ekki hundsa þá. Sér í lagi þegar fylgið er komið svo neðarlega að flestir aðrir flokkar gætu hæglega orðið stærri.

Hvað það er sem gerir svo nauðsynlegt að samþykkja op3 er með öllu óskiljanlegt. Eitthvað liggur að baki. Hvað sem það er þá verða stjórnvöld að upplýsa þjóðina, að öðrum kosti stefnum við í eitthvað sem ekki hefur áður sést á Íslandi. Þjóðin mun ekki samþykkja afsal yfir auðlindinni nema því aðeins að haldbær rök liggi fyrir. Þau rök sem hingað til hafa verið notuð eru hvorki haldbær né trúanleg. Orkupakki 3 snýst fyrst og fremst um flutning orku milli landa og stofnun yfirþjóðlegrar stofnunar til að stjórna þeirri gerð. Hvað okkur snert er bætt einu valdalausu embætti á milli, þannig að þessi yfirþjóðlega stofnun verður að fara þar í gegn með sinn vilja. Það breytir engu um getu þeirrar stofnunar, enda einungis um að ræða boðbera.

Svokallaðir fyrirvarar finnast ekki, enda einungis þar um að ræða gula minnismiða sem límdir eru aftaná pakkann. Ekki er ætlunin að þeir fyrirvarar verði að lögum hér, ekki einu sinni þingsályktun, einungis einskisverðir minnismiðar. Ríkisstjórnin veit þetta, veit að hún getur ekki sett fyrirvara í lög, veit að ekki er hægt að setja þá í þingsályktun, veit að dómstóll EFTA mun ekki hlusta á slíkt bull og því eru þeir límdir utaná pakkann. Ríkisstjórnin veit einnig að þegar pakkinn verður samþykktur munu fyrirvararnir strax tínast. Ríkisstjórnin veit að samþykkt orkupakka 3 er samþykkt orkupakka 3, með öllum göllum sem honum fylgja. Hún veit einnig að út í Bretlandi bíður fjárfestir þess að op3 verði samþykktur hér á landi, fjárfestir sem tilbúinn er að hefja byggingu verksmiðju til að framleiða strenginn milli Íslands og meginlandsins og tilbúinn að hefja lagningu hans strax í framhaldinu. Þessi fjárfestir er búinn að fjármagna þá ætlun sína að fullu. Ríkisstjórnin veit að hún mun ekki geta rönd við reyst, þegar ósk frá honum berst.

Allt þetta veit ríkisstjórnin, eða ætti a.m.k. að vita. Það er því ekki hægt annað en að segja að um einbeittan brotavilja sé að ræða, samþykki Alþingi op3.


mbl.is Orkupakkinn takmarkað framsal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Þakka góðan og skilmerkilegan pistil, eins og þín er von og vísa, Gunnar.

 Bjarni Benediktsson hefur opinberlega viðurkennt að samþykkt op3 sé takmarkað framsal á fullveldinu. BB hefur ekki enn útskýrt þá algeru umpólun sína í þessu máli, sem blasir við öllum hugsandi mönnum. Hvers vegna hann hefur fram að þessu ekki séð nokkra einustu ástæðu til að útskýra þessar hamfarir í hausnum á sér fyrir okkur hinum, sem komum honum í stöðu sína, þurfa sennilega fornleifafræðingar að grafa upp seinna meir og meta. Það verður mikið vísindaverkefni og þó.

 Ístöðuleysi BB og hringlandaháttur hans í skoðunum sínum er á pari við seglskútuskipstjóra, sem ávallt velur lensið, (vindurinn ávallt í bakið) en stýrir aldrei fleyi sínu jafnvel þvert á vindinn á leið sinni á ákvörðunarstað. Þannig aulasigling kann ekki góðri lukku að stýra og endar yfirleitt upp í fjöru, eða á vitlausum stað. 

 Eru allir búnir að gleyma Ice-save afstöðu hans, þar sem hann samþykkti ánauð á þjóð sína, eins og að drekka vatn?

 Þessi fundur um helgina í Valhöll, hélt ég að hefði verið til þess ætlaður að taka á þeim pirringi, sem enginn getur neitað að á sér stað innan Sjálfstæðisflokksins þessi dægrin, vegna op3. Jafnvel til þess að lægja öldurnar með einhverjum skynsamlegum útskýringum á umpóluninni, en nei takk. Ekki eitt orð um það hve mikið við Íslendingar höfum mikinn hag af op3, enda ekki búið að finna upp í orðabókinni þá hagsæld. Í stað þess að útskýra fyrir grasrótinni nánast stjarnfræðilega umpólun sjálfs sín í þessu máli, kaus BB að grípa til skítkasts á aðra og upphafningu eigin snilldar og viðhlæjenda sinna, í tíð þessarar ríkisstjórnar, sem setið hefur sali Alþingis undir vökulu auga eftirhrunsáraallsherjarráðherrans, sem ýmist skar menn niður úr fjárhagslegum hengingarólum sínum, eða hengdi aðra, að eigin geðþótta, í nafni skjaldborgar heimilanna.

 Brotatilhneygingin gegn þjóðinni er svo alger og einbeitt, að eitthvað hlýtur þar að liggja að baki, sem pöpullinn fær ekki að vita um, fyrr en of seint.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 13.8.2019 kl. 02:01

2 Smámynd: Gunnlaugur I.

Flottur pistill. Takk fyrir.

Gunnlaugur I., 13.8.2019 kl. 21:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband