Með belti og axlabönd

Það er fremur aum umsögn sem Náttúrufræðistofnun Íslands sendir vegna þingsályktunartillögu utanríkisráðherra, vegna orkupakka 3. Stofnunin telur að samþykkt orkupakkans muni geta aukið álag á náttúruna, en það velti þó fyrst og fremst á því hvort sæstrengur verði lagður. Gerir þar greinilega ráð fyrir að beltið og axlaböndin sem ráðherra hefur gjarnan nefnt, muni halda og því sé engin ástæða til að leggjast gegn tillögunni. Aumara getur það vart orðið.

Það er lítið gagn af belti og axlaböndum ef beltið er ekki reyrt og axlaböndin hneppt. Þá missa menn buxurnar alveg jafnt og án beltis og axlabanda. Og þannig er það varðandi orkupakka 3. Það handsal sem ráðherra gerði við embættismann ESB og þeir kossar sem forsætisráðherra fékk frá framkvæmdastjóra ESB mun lítt halda gagnvart op3. Þeir fyrirvarar sem stjórnvöld ætla að setja vegna þess pakka munu ekki halda, um það þarf ekkert að rífast. EES samningurinn er skýr og EES samningurinn segir að allar undanþágur frá tilskipunum ESB skulu afgreiddar í hinni sameiginlegu nefnd EES í viðræðum við ESB. Allar aðrar leiðir eru ófærar. Um þetta eru allir lögfróðir menn sammála. Því er hvorki beltið reyrt né axlaböndin hneppt hjá ráðherra og því mun hann standa buxnalaus eftir.

Það er út frá þessari staðreynd sem menn eiga að skoða málið, að tilskipunin mun taka gildi að fullu, sama hvað lög Alþingi setur. Og þar sem op3 er fyrst og fremst um flæði orku milli landa, hvernig því skal stjórnað og hver þar mun hafa valdið, er ljóst að Ísland mun tengjast meginlandinu með rafstreng, verði op3 samþykktur. Það verður ekki í valdi þjóðarinnar að ákveða það. Vissulega er ekkert í þessari tilskipun sem skikkar Ísland til að leggja streng, en það er skýrt að það mun teljast brot á henni ef Ísland leggst gegn slíkri tengingu.

Því er þessi umsögn Náttúrufræðistofnunar frekar aum. Stofnunin á að meta málið út frá þeirri staðreynd að strengur mun verða lagður, fyrr en síðar. Stofnunin á að meta málið út frá því hverjir hafa valdið. Stofnunin á að meta hvaða áhrif það mun hafa að Ísland missi stjórn yfir vernd náttúrunnar. 

Hvað verður um rammaáætlun Alþingis, mun hún standa? Op3 mun vissulega ekki ógilda þá áætlun, en krafan um einkavæðingu og krafan um nægt afl til Evrópu, mun sannarlega gera erfiðara fyrir að standa við þá áætlun. Ljóst er að þegar þingmenn hafa ekki kjark til að vísa tilskipuninni til baka og fá þar afgreiðslu hennar breytt á réttum vígvelli, munu þeir fjarri því hafa kjark til að standa gegn fjármagnsöflunum undir handleiðslu ESB, til að verja rammaáætlun. Og svo kemur Op4 og þá eru allar varnir hér heima fallnar, einnig rammaáætlun.

Það er barnalegt að tala um streng til meginlandsins, þar á að tala um strengi. Tveir er lágmark, þó ekki sé nema vegna afhendingaröryggis. Þegar valdið hefur endanlega verið tekið af Alþingi, mun fjöldi strengja ráðast af því einu hvað mikið verður hægt að virkja hér á landi. Rammaáætlun og umhverfismat mun þá litlu skipta, einungis hvar hægt er að ná í orku.

Þá verða buxur ráðherra ekki á hælum hans, þær verða týndar og tröllum gefnar. Hann mun þá standa nakinn frammi fyrir alþjóð!!


mbl.is Gæti aukið álagið á náttúruna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband