Lagaleg vissa

Fyrir þann sem ekki hefur kynnt sér þá álitsgerð sem unnin var af Friðrik Árna Friðrikssyni, landsréttarlögmanni og Stefáni Má Stefánssyni, prófessor, fyrir ríkisstjórnina og fjallaði um orkupakka 3, kemur þessi viðhengda frétt kannski nokkuð á óvart. Málflutningur stjórnvalda um orkupakkann hefur verið á nokkuð öðru plani en fram kemur í þessu viðtali við annan höfund skýrslunnar. Þó hafa stjórnvöld ávallt vísað til hennar í sínum rökstuðningi. Það er erfitt annað en að halda því fram að þar hafi íslensk stjórnvöld tekið meðvitaða ákvörðun um að ljúga að þjóðinni. Ekki viljum við trúa að ráðherrar séu ólæsir!

Í þessu viðtali við Friðrik Árna, nefnir hann að engin lagaleg óvissa sé til staðar ef tilskipuninni verður hafnað. Þá fari í gang þekkt ferli þar sem endirinn verður í öllu falli okkur hagstæður. Annað hvort mun tilskipuninni verða breytt okkur í hag eða við höfnum henni að fullu.

Hitt er annað að landsréttarlögmaðurinn telur að lagaleg óvissa geti skapast ef farin er sú leið sem stjórnvöld hafa valið. Í raun er engin óvissa þar í gangi, heldur nær víst að það mun valda okkur tjóni. Málið mun sannarlega lenda fyrir eftirlitsstofnun EFTA og síðan EFTA dómstólnum. Sá dómstóll getur einungis dæmt á einn veg, eftir sjálfri tilskipuninni. Íslensk lög eru ekki gild fyrir EFTA dómstólnum og handsal stjórnmálamanna hefur ekkert gildi þar heldur. Því er ljóst að dómstóllinn mun dæma þeim í hag sem óskar þess að tilskipunin skuli gilda á öllum sviðum hér á landi. Fyrirvarar eða íslensk lög munu þar engu breyta, ekki frekar en handsal utanríkisráðherra við einhvern mann innan kerfis ESB sem er umboðslaus frá kjósendum. Öllum ætti að vera þetta ljóst eftir nýlegan dómstól EFTA dómstólsins gegn Íslandi.

Það er því sama hvor leiðin er valin, sú sem ráðunautar ríkisstjórnarinnar mæla með eða hin sem svo þessi sama ríkisstjórn velur. Vissan er ætíð til staðar, niðurstaðan hins vegar mjög ólík. Annars vegar er um að ræða leið þar sem vissan um að sjálfstæði þjóðarinnar verður virt og hins vegar leið þar sem því er fórnað. Stjórnvöld velja vísvitandi að fara síðari leiðina!!


mbl.is Felur í sér lagalega óvissu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Góð Grein Gunnar. Það skildi engin trúa því að pólitíkusar ljúgi ekki. Pólitík er byggð á lygum og túlkunum sér í hag. Þessir menn telja ekkert til fyrirstöðu að fremja landráð sér í hag. 

Valdimar Samúelsson, 11.4.2019 kl. 15:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband