Færsluflokkur: Kjaramál

Hvað er fyrirtæki ?

Vilhjálmur Egilsson vælir mikið þessa dagana, enda verið að reyna að ná kjarasamningum í gegn. Hann vælir og segir að fyrirtækin geti ekki borgað hærri laun, jafnvel þó hann viti að stór hluti fyrirtækja stendur vel og sum mjög vel.

Má þar nefna fiskiðnaðinn, stóriðjuna og alla þjónustu við þessar greinar. Þá er ferðaþjónustan og allar greinar er tengjast henni að gera góða hluti. Öll fyrirtæki sem standa að útfluttningi eru að gera það gott. Verslun og þjónusta notar, sem fyrr, þá aðferð að hækka sínar verðskrár, svo varla er þar mikið vandamál.

Vissulega eru þó fyrirtæki sem illa standa, sum vegna efnahagshrunsins en önnur einfaldlega vegna óstjórnar og offjárfestingar. Byggingariðnaðurinn og verktakaiðnaðurinn eru vissulega ekki í góðum málum og þarf að rétta hlut þeirra. Vandi þessara geira er þó ekki launagreiðslur til starfsmanna, þann vanda hafa þessar greinar þegar leyst hjá sér, með uppsögnum.

En hvað er fyrirtæki? Maður einn er ég þekkti og var forstjóri til margra ára í einu af stæðstu fyrirtækjum landsins, sagði að fyrirtækið væri fólkið sem í því ynni. Hús og búnaður væri járnarusl sem notað væri sem hjálpartæki en starfsmenn sköpuðu verðmætin. Þessi forstjóri var einkar farsæll, starfsmannavelta í fyrirtækinu með því minnsta sem þekktist og verkföll óþekkt. Þegar vel áraði var starfsmönnum umbunað, sem aftur leiddi til þess að þegar illa gekk, voru starfsmenn tilbúnir að leggja sitt af mörkum til að hjálpa. Sjálfur var ég í samninganefnd starfsmanna í þessu fyrirtæki um tíma og helsta vandamálið við samningagerð var ekki milli starfsmanna og fyrirtækisins, heldur milli fyrirtækisins og Vinnuveitenda sambandsins, forvera SA.

En ef fyrirtækið er fólkið, er þá ekki hagur fyrir SA að laun verði mannsæmandi? Vissulega. Ef þeim fyrirtækjum sem geta er heimilað að greiða sínu fólki hærri laun, er ljóst að þau eru betur sett varðandi val á starfsfólki, geta fengið til sín hæfara starfsfólk sem aftur skilar fyrirtækinu meiri arði.

Þetta myndi einnig leiða til þess að fyrirtækin færu að keppast um að greiða hærri laun, til að halda sínu góða fólki.

Sú launastefnu sem SA ákvað í haust og ASÍ samþykkti, að laun skuli ákvarðast af greiðslugetu þeirra fyrirtækja sem verst standa, er eins vitlaus og hugsast getur. Þessi launastefna stuðlar að því að einginn áhugi verður fyrir vinnunni og því mun arðsemi fyrirtækjanna smá saman minnka og þau að lokum leggja upp laupana.

Fólk er í vinnu fyrst og fremst til að ná sér í lifibrauð. Ef laun eru lág lítur fólk svo á að það sé í þrælkun og gerir einungis það sem nauðsynlegt er til að halda vinnu. Hærri laun gera starfsmenn ánægðari og þá fara þeir að skila meiru af sér og leggja sig betur fram fyrir fyrirtækið. Þetta er ekki flókin fræði, en þó vefst hún eitthvað fyrir þeim sem stjórna SA, enda flestir þar í háum stöðum svo sem bankastjórar og fleira í þeim dúr, fólk sem er ekki í neinum tengslum við raunveruleikann.

EXEL er ágætur töflureiknir, en hann tekur bara tölur. Því er erfitt að nota hann við útreikninga á því hvernig skuli stjórnað fyrirtækjum. Þar koma stærðir eins og starfsmenn, starfsánægja, vinnuaðstaða og fleira til, stærðir sem ekki verða settar inn í EXEL. Þó eru þetta stærðir sem mestu máli skipta í rekstri fyrirtækisins og þeir sem hundsa þær munu ekki geta rekið fyrirtæki lengi.

Hugsanlega er vandi einhverra þeirra fyrirtækja sem verst standa einmitt vegna þessa, hver veit.

Ef launafólk fær ekki mannsæmandi laun, þannig að það geti lifað þokkalegu lífi, gefst það upp og flýr land. Þá verða fyrirtækin fljót að legga upp laupana. Þau geta ekki starfað án fólksins sem skapar verðmætin!

 


Leiksýningunni er lokið og alvaran tekin við

Það er rétt mat hjá Vilhjálmi Egilssyni að upplausn mun verða á vinnumarkaði eftir helgi, ef ekkert verður að gert. Launafólki hefur þegar verið ofboðið og því eins víst að það taki til sinna ráða sjálft, ef þeim mönnum sem telja sig vera í forsvari fyrir launþega og atvinnurekendur koma sér ekki saman um samning strax eftir helgi. Þessi sleifarskapur og aumingjaháttur Gylfa og Vilhjálms verður ekki lengur liðinn!!

Hvað er svo í veginum? Nýr samningur milli starfsmanna Elkem og SA er í anda þess sem SA hefur viljað, eftir því sem Vilhjálmur Egilsson hefur sagt. Svo vart er annað eftir en að þessir tveir menn setjist niður og gangi frá málinu!

Hellstu atriði þess samnings sem starfsmenn Elkem gerði við SA eru:

1. Samningurinn gildir frá lokum síðasta samnings.

2. 9,5% launahækkun á fyrsta ári, 3,3 á öðru ári og 3% á síðasta ári.

3. Samningurinn er til þriggja ára.

Auk þessa er svo eingreiðsla vegna góðrar afkomu fyrirtækisins.

Ef SA og ASÍ gera samning á þessum nótum munu þeir launþegar sem eru á allra lægstu töxtunum fá eingreiðslu sem nemur 78.400 kr þann 1. maí. og lægstu laun hækka í 180.000 kr.

Þetta er mun betri kjör en sú tillaga sem lá á borðum þessara aðila þegar upp úr slitnaði. Ágóðinn liggur fyrst og fremst í því að samningurinn væri þá látinn gilda frá 1. des í stað 1. mars. Það er auðvitað sjálfsagt mál að nýr samningur gildi frá lokum þess fyrri, annað ætti ekki að þekkjast.

Til viðbótar við þetta þarf vissulega að rétta enn frekar hlut þeirra sem lægstu launin hafa. Þar sem þessi hækkun mun sjálfkrafa lyfta lægsta taxta í 180.000 kr mun mjög fækka því fólki sem er undir 200.000 kr markinu, svo varla ætti það að standa í mönnum.

Auk þess verði vel stöddum fyrirtækjum gefinn heimild til að láta sína starfsmenn fá hlut í þeim gróða sem þau eru að vinna sér.

Hlutur ríkisins í þessum samningum gæti orðið sá að skila aftur þeirri skerðingu sem orðin er vegna afnáms verðtryggingar skattleysismarka og festa þá verðtryggingu aftur. Auk þess væri sennilega besta kjarabótin sem alþingi gæti gefið launþegum, lög um að ætíð skuli nýjir kjarasamningar gilda frá lokum þess fyrri.

Ég vil þó taka það skýrt fram að samningur á þessum nótum mun vissulega ekki bæta launafólki það tap sem það hefur orðið fyrir frá hruni. Hækkunin ein og sér mun ekki koma fólki í sömu stöðu og áður auk þess gífurlega taps sem það hefur orðið fyrir þau tvö og hálfa ár sem það hefur þurft að taka á sig allar hækkanir án nokkurra leiðréttinga launa.

Það mætti orða þennan samning sem einskonar skiptisamning, þar sem launþegar og atvinnurekendur skipta jafnt sín á milli því tapi sem launþegar hafa orðið fyrir. Eða ef menn vilja orða það á hinn veginn, að launþegar og atvinnurekendur skipta sín á milli tapi fyrirtækjanna.

Samning á þessum nótum væri þó hugsanlega hægt að fá samþykktann hjá launþegum. Það er þó ekki víst, en hugsanlega gengi hann í gegn. Ef gildistíminn er látinn gilda frá lokum síðasta samnings og þeim launþegum er vinna hjá betur stöddum fyrirtækjum gefin heimild til að sækja í gróða þeirra, mun það vissulega liðka verulega fyrir samþykkt samninga.

Það er ljóst að þær tillögur sem SA og ASÍ höfðu komið sér saman um munu verða mjög umdeildar og líkur á samþykkt slíks samnings mjög litlar.

Það er í öllu falli ljóst að biðlund launafólks er á enda og til stórtíðinda mun draga eftir helgi ef þeir félagar Gylfi og Viljálmur fara ekki að hysja upp um sig buxurnar og taka til hendinni. Leiksýningunni er lokið og komið að alvörunni!!

 


mbl.is Hætta á upplausn á vinnumarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísinn brotinn

Þessi samningur hlýtur að vekja von í brjóstum launafólks, von um að ekki þurfi að grípa til verkfalla, von um að nú sé að sjá fyrir endann á þeirri kjaradeilu sem stendur yfir.

Vissulega hefur ísinn verið brotinn í þessum samningi, þó að sjálfsögðu betur hefði mátt gera. 9.5% hækkun á fyrsta ári er varla nóg til að brúa það bil sem launþegar hafa orðið fyrir en er þó mun skárrra en þær tillögur sem SA og ASÍ voru að ræða. 9,5% er nærri því að vera ásættanlegt.

Það er þó annað í þessum samning sem vekur athygli. Það er að hann skuli gilda frá lokum síðasta samnings. Þetta atriði ætti að vera sjálfsagt í hverjum samningum.

Það er ótrúlegt að semja þurfi um þetta atriði í hverjum samningum, að launagreiðandinn skuli í raun geta hagnast á því að ekki skuli samið. Það er spurning hvort mesta kjarabótin fyrir launþega af hálfu stjórnvalda væri að þau settu lög um að alltaf skuli nýr kjarasmningur gilda frá lokum þess fyrri.

Þá er enginn ávinningur fyrir launagreiðendur að draga gerð kjarasamnings, eins og nú er. Í tillögum SA og ASÍ var gert ráð fyrir að nýr kjarasamningur gilti frá 1. mars. Það gefur launagreiðendum þriggja mánaða gróða!! Þá hefur ríki og sveitarfélög verið enn verri, þar sem sumir samningar hafa verið lausir í meir en tvö ár. Tap þeirra launþega er orðið gríðarlegt.

Vilhjálmur Egilsson sagði að þessi kjarasamningur væri samkvæmt stefnu SA. Eftir hverju er þá beðið? Þá hlýtur að verða farið í það stra eftir helgi að framfylgja þessari stefnu, 9,5% hækkun frá 1. des síðastliðinn, 3,3% á næsta ári og 3% hækkun árið þar á eftir og þeim fyrirtækjum sem eru að hagnast, leyft að greiða sínu fólki hlut í þeim hagnaði með eingreiðslu.

Varla fer ASÍ að standa gegn slíku boði, þó er aldrei að vita hvað ólíkindatólin á þeim bænum gera!

Það er vissulega ástæða til að óska formanni VLFA og starfsmönnum Elkem til hamingju með þennan samning, þó vissulega hefði verið betra að fá meira.


mbl.is Fá aukalega ein mánaðarlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að hrökkva eða stökkva

Vilhjálmur Egilson er ekki sáttur við tilboð SGS og telur það ekki stuðla að uppbyggingu atvinnu. En gera verkföll það? Munu verkföll stuðla að aukinni atvinnu og vera fyrirtækjum landsins til hagsbóta?

Vilhjálmur verður að sætta sig við þá staðreynd að launafólkið mun ekki bíða mikið lengur eftir samningum. Launafólk hefur eitt vopn og aðeins eitt. Verkfallsvopnið.

Ef SA tefur mikið lengur fyrir kjarasamningum munu launþegar telja sig nauðbeygða til að grípa til vopna, þá taka þeir í hendur sér sitt eina vopn. Verkfallsvopnið.

Auðvitað vita launþegar að þetta vopn þeirra er tvíeggjað og að þeir muni hugsanlega tapa ef þeir nota það, en þeir hafa ekki annara úrkosta. Þeir hafa einungis eitt vopn. Verkfallsvopnið.

Reyndar er þetta tilboð SGS til SA með þeim hætti að SA ætti að stökkva í stað hrökkva. Staðreyndin er einföld, þær kjarabætur sem þarna er um rætt eru með þeim hætti að erfitt gæti reynst að fá samninga samþykkta í stéttarfélugunum. Launþegar hafa komið verst út úr því hruni sem varð hér haustið 2008 og þetta tilboð mun ekki bæta nema brot af þeim skaða sem þeir hafa orðið fyrir. Því er eins víst að launþegar vilji frekar grípa til þess eina vopns sem þeir eiga. Verkfallsvopnið.

Launþegar vita nefnilega sem er að stæðsti hluti fyrirtækja landsins eru vel sett og sum eru að raka inn miljörðum í hverri viku. Auðvitað eru til mörg fyrirtæki sem illa standa, sum vegna bankahrunsins en þó flest vegna lélegrar eða rangrar stjórnunar. Þetta vita launþegar og eru ekki sáttir við að fá ekki hlut í þeim gróða sem mörg fyrirtæki eru að hala inn. Því gæti allt eins skeð að þeir gripu til þess eina vopns sem þeir hafa. Verkfallsvopnið.

Að ætlast til þess að launþegar sættist á að laun þeirra verði hækkuð sem nemur getu þeirra fyrirtækja sem verst standa, er ekki ásættanlegt. Launþegar vilja sjá hlut sinn réttann af, fá til baka það sem af þeim hefur verið tekið og eitthvað til að greiða allar þær skattahækkanir sem stjórnvöld hafa lagt á þá. Launþegar hafa þegar lagt meira af mörkum til hjálpar þjóðinni en nokkur annar hópur,  nú er komið að öðrum að leggja sitt af mörkum.

Vilhjálmur þarf að spyrja sig þeirrar spurningar hvort hann eigi að hrökkva eða stökkva.

Ef hann velur að stökkva er möguleiki á að launþegar greiði samningnum sitt atkvæði, alls ekki þó víst, en möguleiki.

Ef hann hrekkur er ljóst að einungis er dagaspursmál hvenær launþegar grípa til þess eina vopns sem þeir hafa.

Verkfallsvopnsins!

 

 


mbl.is Líst illa á samningstilboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningar í nánd ?

Ekki er nú vitinu fyrir að fara hjá Össur, fremur en vanalega.

Að ætla að taka þann atvinnurekstur sem skaffar okkur nærri helming gjaldeyristekna og kollvarpa honum án þess að nein raunhæf lausn önnur er tilbúin, er eins heimskulegt og hugsast getur.

Sú aðferð sem SA notaði nú í samningum, þegar þeir spyrtu saman stjórn fiskveiða við gerð kjarasamninga,  er vissulega fordæmanleg. En það er skiljanlegt að þeir sem standa að veiðum og vinnslu sjávarfangs vilji fá skýr svör. Það að þetta mál skuli hafa verið sett saman við kjarasamninga er þó ekki SA að kenna, þeir reyna hvað þeir geta til að koma sínum  málum að.

Þetta klúður er alfarið á ábyrgð ASÍ, það var þeirra verk að sjá svo um að þetta mál yrði ekki spyrt saman við kjarasamniga, það var í verkahring ASÍ að neita að ræða samninga ef þetta mál yrði tengt þeim. Því er sökin alfarið á höndum flokksbróður Össurar, Gylfa Arnbjörnssonar.

Endurskoðun á fiskveiðikerfinu okkar er nauðsynleg. Það verk verður þó ekki unnið í andstöðu við hagsmunaaðila. Og allra síst með atkvæðagreiðslu. Um hvað ætti svo að kjósa?

Því var síðasta sumar skipuð nefnd allra flokka og hagsmunaaðila í sjávarútvegi, undir stjórn Björns Vals Gíslasonar, VG. Þessi nefnd skilaði sameiginlegu áliti og því hefði legið beinast við að gera frumvarp og leggja það fyrir þingið, útfrá niðurstöðu nefndarinnar.

En það hugnaðist Jóhönnu ekki, niðurstaðan var nefnilega ekki eins og hún sjálf vildi! Því var niðurstöðu nefndarinnar kastað í ruslið og ekkert gert. Þegar svo farið var að ganga á Jóhönnu með þetta mál tók hún upp vinsæla frasa sem allir þekkja, en eru þó í engu samræmi við veruleikann. Ekkert var gert nema hrópa, af hálfu Jóhönnu. Hennar sök er því einnig mikil í þessu máli.

Nú er Össur farinn að taka undir með henni og víst að Samfylkingarkórinn mun fylgja fast á eftir.

Þessi ríkisstjórn var andvanafædd svo varla er hægt að tala um að stjórnin sé að springa eða sprungin. En það verður ekki annað séð en að loks sé komið að endapunkti á þessu skelfilega ástandi sem okkur hefur plagað síðustu tvö ár.

Orð Össurar verða ekki skilin á annan hátt en að þingkosningar séu í nánd. 


mbl.is Þjóðaratkvæði um kvótann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gíslataka ?

Vissulega má segja að SA hafi tekið kjarasamninga í gíslingu. En hvernig gat það skeð?

Sjaldan veldur einn þegar tveir deila. Þetta sannast hér sem áður.

Hvar var Gylfi Arnbjörnsson þegar SA ákvað að tengja fiskveiðistjórnun við gerð kjarasamninga?

Þetta mál kom upp strax við upphaf kjaraviðræðna. Þá átti Gylfi vissulega að stoppa það af og gera vini sínum Vilhjálmi Egilssyni það ljóst að þessi mál yrðu ekki tengd saman. Það gerði Gylfi hins vegar ekki!!

Sú krafa að þessi mál yrðu aðskilin kom fram strax í upphafi frá a.m.k. einum formanni í stéttarfélagi, en hann fékk bágt fyrir.

ASÍ er nákvæmlega jafn sekt SA þessari gíslatöku. ASÍ átti og hafði alla möguleika á að stöðva þetta leikrit strax við upphaf samninga en sviðsljósið heillaði!! Þar með hafði ASÍ kastað teningnum og ekki varð aftur snúið og ekki séð fyrir endann á þessum skrípaleik.

Enn sannast vangeta ASÍ og forusta hennar til að standa vörð launþega!!


mbl.is Tala um gíslatöku LÍÚ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varstu "tekinn" Gylfi ?

Hvenær hafa þessir samningar snúist um annað en pólitík, Gylfi?

Þið vinirnir hafið ekki farið dult með það. Þið hafið í sameiningu beytt ykkur hart í icesavemálinu og ESB aðlögunarferinu. Svo langt gekk sá áróður að þið gerðust brotlegir við stjórnarskránna þegar þið tengduð icesavekosningunna saman við kjarasamninga og reynduð þannig að hafa áhrif á skoðanir þúsunda manna. Sem betur fer fyrir ykkur voru lögin um icesave felld, annars er hætt við að þið hefðuð verið kærðir fyrir óeðlileg afskipti af þeirri kosningu.

Vinur þinn, Vilhjálmur Egilsson hefur ekki viljað segja mörg styggðaryrði gegn ríkisstjórn þinni, Gylfi. Ekki meðan hann taldi sig getað notað tengsl þín innan hennar til að ná fram sínum málum. Nú þegar ljóst er að ríkisstjórnin ætlar að vinna samkvæmt venju, að gera ekki neitt, vill hann að þú samþykkir ályktun með sér gegn samherjum þínum. Auðvitað getur þú það ekki, þú svíkur ekki flokkinn!!

Það gagnar lítið nú að tala um að verið sé að nota samningana í pólitískum tilgangi, það hefur verið gert frá upphafi viðræðnanna. Og hvað er það annað en pólitísk afstaða þegar þú getur ekki smþykkt neikvætt plagg gegn ríkisstjórninni, eftir að þú gafst eftir til vinar þíns allt er snýr að réttlátri leiðréttingu kjara launafólks, sem þessir samningar eiga jú að snúast um!!

Það er hárrétt hjá þér Gylfi, ASÍ er fullfært um að velja sér sína andstæðinga. Það gerði ASÍ strax í upphafi þesara kjaraviðræðna, ASÍ valdi launafólkið sem sinn andstæðing!!


mbl.is Viðræðuslit í Karphúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öfugmælavísur Guðmundar Gunnarssonar

Samfylkingarmaðurinn og ESB sinninn Guðmundur Gunnarsson, sem þykist vera að verja hag rafiðnaðarmanna á Íslandi, snýr út úr sannleikanum.

Guðmundur veit að það skelfilega atvinnuleysi sem hér ríkir, tæp 8%, er svipað eða minna en var viðvarandi í ríkjum ESB meðan best gekk.

Guðmundur veit að atvinnuleysi í mörgum ríkjum ESB hefur aukist stórlega eftir fjármálahrun heimsins og mælidst í byrjun mars um 20% á Spáni.

Guðmundur veit að samanburður á opinberum tölum um atvinnuleysi hér á landi við lönd ESB eru ekki sambærilegar, þar sem hérlendis er fólk skráð mun lengur á atvinnuleysisskrá.

Guðmundur veit að t.d. í Finnlandi og á Spáni getur fólk einungis skráð sig atvinnulaust í eitt ár og einyrkjar hafa ekki heimild til að skrá sig, samt mælist yfir 20% atvinnuleysi á Spáni. Raunverulegt atvinnuleysi þar er því mun meira.

Guðmundur veit að flest eða öll lönd ESB hafa sett svipaðar eða sömu reglur um þetta.

Guðmundur veit að atvinnuleysið í löndum ESB er ekki línulegt eftir aldri, heldur er atvinnuleysið mest meðal þeirra sem eru undir þrítugu. Hjá því fólki mælist sum staðar yfir 50% atvinnuleysi, samkvæmt opinberum tölum.

Guðmundur veit að atvinnuleysi fer stórhækkandi innan flestra landa ESB.

Guðmundur veit að flestir þeir iðnaðarmenn sem flytja erlendis, flytjast til Noregs, en það er sem kunnugt er EKKI í ESB.

Guðmundur veit einnig að verkalýðshreyfingin í Evrópu hefur marg oft sagt að ESB sé stæðsti vandinn sem að þeim snýr, að vegna ESB sé það skelfilega atvinnuleysi sem dregur kjark úr öllum.

Allt þetta veit Guðmundur Gunnarsson en hann kýs að líta undann. Það gerir hann vegna sinna pólitísku hugsjóna, sem hann telur æðri hag sinna félagsmanna!

Guðmundi Gunnarsyni er frjálst að hafa sínar pólitísku skoðanir. Það er hins vegar hræsni þegar menn ætla að koma sjálfum sér til valda í pólitík í skjóli stéttarfélaganna. Sérstaklega er þetta svínslegt þegar sú barátta kostar félagsmenn beinlínis réttindi og skerðir kjör þeirra.

Þetta er svo sem ekki óþekkt aðferð. menn hafa í gegn um tíðina farið þessa leið til að koma sjálfum sér áfram og einn núverandi ráðherra skýrasta merki þess.

Þetta er hins vegar gamaldags og á ekki að þekkjast. Þeir sem taka að sér það verk að standa á rétti og berjast fyrir launafólk, eiga að sinna því eingöngu, þeir eiga að leggja sín pólitísku afskipti til hliðar á meðan.

Því miður hafa Guðmundur Gunnarsson, Gylfi Arnbjörnsson og nokkrir fleiri, sem hafa komið sér ofarlega í metorðastiga verkalýðshrefingarinnar, ekki vit, skynsemi né þroska til að gera þetta.

Fyrir þeim eru þessar stöður til þess eins að koma sjálfum sér áfram í pólitík. Þar skiptir engu hvort umbjóðendur þeirra vinna eða tapa!!

Svei þessum mönnum!!


mbl.is Þúsund rafiðnaðarmenn farnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú ríður á ....

Þjóðin hefur sagt sitt, hún hafnaði lögum um icesave.

Nú ríður á að rétt skilaboð fari til umheimsins, á því veltur framtíð okkar. Röng skilaboð og röng viðbrögð ráðamanna getur skaða okkur en rétt skilaboð geta hjálpað.

En treystum við því fólki sem nú er við stjórnvölinn til að koma réttum skilaboðum frá sér? Treystum við þessu þingi, sem samþykkti lögin með nærri tveim þriðju atkvæða? Treystum við fulltrúum vinnumarkaðarins, sem fyrir kosningu vildu tengja þessa kosningu kjarasamningum og sögðu í nótt að byrja þyrfti upp á nýtt í því máli?

NEI þjóðin treystir þessu fólki ekki.

Fjármálaráðherra lét hafa eftir sér að hugsanlega þyrfti að kjósa til þings árlega, ef þessi forseti sæti áfram. Þarna vill hann kenna forsetanum um ófarir ríkisstjórnarinnar. Staðreyndin er sú að ef á þingi væri fólk sem þjóðin treysti og hagaði sér í samræmi við vilja þjóðarinnar, þyrfti forsetinn ekki að taka fram fyrir hendur þingsins. Svo einfallt er það.

Tveir þriðju þingmanna mat vilja þjóðarinnar rangt. Þeir þingmenn eru í andstöðu við þjóðina. Margir þeirra höfðu sig mikið í frammi til varnar eigin ákvörðun, þó flestir hefðu haft vit á að þegja. Sök þeirra er þó engu minni þó þeir hafi ekki tjáð sig.

Forusta atvinnulífsins, einkum framkvæmdarstjóri SA og forseti ASÍ höfðu sig einnig mikið í frammi um ágæti laganna, fyrir kosningu og gerði tilraun til að tengja saman kjarasamninga við þessa kosningu. Það var svínslegt og algjörlega siðlaust. Fyrstu viðbrögð þeirra beggja gefa ekki von um rétt viðbrögð. Það fyrsta sem þeir sögðu að endurskoða þyrfti forsemdur samninga. Þetta eru neikvæð skilaboð til umheimsins og ekki til þess fallin að hjálpa okkur, jafnvel þó þau væru sönn. Þessum mönnum er ekki treystandi.

Menn verða nú að gæta orða sinna. Því miður er ekki að sjá að það muni verða.

Því er aðeins eitt í stöðunni, að rjúfa þing og boða til kosninga, fá þing sem hefur traust þjóðarinnar.

Varðandi atvinnulífið er nauðsynlegt að skipta strax út þeim sem þar eru í forsvari.  Fyrir fyritæki landsins getur það skipt sköpum að þau hafi í fosvari fyrir sig mann sem metur stöðuna rétt og vinnur samkvæmt því. Og fyrir launþega er nauðsynlegt að taka allt umboð, sem þeir hafa fært ASÍ til samningsgerðar, af því. Að fólkið í stéttarfélugunum fái sjálft að semja um sín mál.

Niðurstaða þessarar kosningar sýnir svo ekki verður um villst að gjá er milli þjóðarinnar og þeirra sem valdið hafa. Því verður að skipta þeim út valdhöfum og fá nýtt fólk, fólk sem er tilbúið að vinna fyrir fólkið!!

Kosningar til alþingis strax!!

 


mbl.is Yfir 58% hafna Icesave-lögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiríkur Jónsson er á Íslandi !!

Eiríkur Jónsson lætur heyra í sér. Hann kvartar yfir því að kennarar skuli vera búnir að vera samningslausir í tvö ár. Réttmæt athugasemd, en hverjum er það að kenna?

Sú var tíðin að Eiríkur var fljótur til með kröfur og stóð harður fyrir. Skipti þar einu þótt kröfur hanns þættu stundum nokkuð háar og úr takt við það sem í gangi var hjá öðrum. Eiríkur lét ekki viðgangast, þegjandi og hljóðalaust, að ekki væri rætt við kennara þegar samningar þeirra voru lausir. Svo harður var hann og óhræddur við að koma sínum sjónarmiðum í fjölmiðla, að ekki var hægt annað en að dást að honum, þó stundum maður færi dult með þá aðdáun.

Nú eru aðrir tímar. Kennarar hafa verið án samninga í tvö ár og ekkert heyrst frá Eiríki. Svo mikil hefur þögn hans verið að maður hélt að hann væri farinn af landinu, væri einn af þeim þúsundum sem ákváðu að freista gæfunnar erlendis, einn af þeim þúsundum sem hafa ákveðið að flýja þetta stjórnlausa land sem Ísland er.

Það merkilega er að einmitt þann tíma sem Eiríkur hefur þagað og látið það viðgangast að ekki væri samið við kennara, hefur verið "tær vinstristjórn" við völd. Er hugsanlegt að þarna sé eitthvað samhengi?

Ekki eru kennarar ofsælir af sínum launum, góðir kennarar eiga skilið góð laun, þeir eru að móta unga fólkið og því mikilvægt að þar sé hæft og gott fólk.

 


mbl.is Til skammar að ekki hafi verið samið við kennara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband