Hvað er fyrirtæki ?

Vilhjálmur Egilsson vælir mikið þessa dagana, enda verið að reyna að ná kjarasamningum í gegn. Hann vælir og segir að fyrirtækin geti ekki borgað hærri laun, jafnvel þó hann viti að stór hluti fyrirtækja stendur vel og sum mjög vel.

Má þar nefna fiskiðnaðinn, stóriðjuna og alla þjónustu við þessar greinar. Þá er ferðaþjónustan og allar greinar er tengjast henni að gera góða hluti. Öll fyrirtæki sem standa að útfluttningi eru að gera það gott. Verslun og þjónusta notar, sem fyrr, þá aðferð að hækka sínar verðskrár, svo varla er þar mikið vandamál.

Vissulega eru þó fyrirtæki sem illa standa, sum vegna efnahagshrunsins en önnur einfaldlega vegna óstjórnar og offjárfestingar. Byggingariðnaðurinn og verktakaiðnaðurinn eru vissulega ekki í góðum málum og þarf að rétta hlut þeirra. Vandi þessara geira er þó ekki launagreiðslur til starfsmanna, þann vanda hafa þessar greinar þegar leyst hjá sér, með uppsögnum.

En hvað er fyrirtæki? Maður einn er ég þekkti og var forstjóri til margra ára í einu af stæðstu fyrirtækjum landsins, sagði að fyrirtækið væri fólkið sem í því ynni. Hús og búnaður væri járnarusl sem notað væri sem hjálpartæki en starfsmenn sköpuðu verðmætin. Þessi forstjóri var einkar farsæll, starfsmannavelta í fyrirtækinu með því minnsta sem þekktist og verkföll óþekkt. Þegar vel áraði var starfsmönnum umbunað, sem aftur leiddi til þess að þegar illa gekk, voru starfsmenn tilbúnir að leggja sitt af mörkum til að hjálpa. Sjálfur var ég í samninganefnd starfsmanna í þessu fyrirtæki um tíma og helsta vandamálið við samningagerð var ekki milli starfsmanna og fyrirtækisins, heldur milli fyrirtækisins og Vinnuveitenda sambandsins, forvera SA.

En ef fyrirtækið er fólkið, er þá ekki hagur fyrir SA að laun verði mannsæmandi? Vissulega. Ef þeim fyrirtækjum sem geta er heimilað að greiða sínu fólki hærri laun, er ljóst að þau eru betur sett varðandi val á starfsfólki, geta fengið til sín hæfara starfsfólk sem aftur skilar fyrirtækinu meiri arði.

Þetta myndi einnig leiða til þess að fyrirtækin færu að keppast um að greiða hærri laun, til að halda sínu góða fólki.

Sú launastefnu sem SA ákvað í haust og ASÍ samþykkti, að laun skuli ákvarðast af greiðslugetu þeirra fyrirtækja sem verst standa, er eins vitlaus og hugsast getur. Þessi launastefna stuðlar að því að einginn áhugi verður fyrir vinnunni og því mun arðsemi fyrirtækjanna smá saman minnka og þau að lokum leggja upp laupana.

Fólk er í vinnu fyrst og fremst til að ná sér í lifibrauð. Ef laun eru lág lítur fólk svo á að það sé í þrælkun og gerir einungis það sem nauðsynlegt er til að halda vinnu. Hærri laun gera starfsmenn ánægðari og þá fara þeir að skila meiru af sér og leggja sig betur fram fyrir fyrirtækið. Þetta er ekki flókin fræði, en þó vefst hún eitthvað fyrir þeim sem stjórna SA, enda flestir þar í háum stöðum svo sem bankastjórar og fleira í þeim dúr, fólk sem er ekki í neinum tengslum við raunveruleikann.

EXEL er ágætur töflureiknir, en hann tekur bara tölur. Því er erfitt að nota hann við útreikninga á því hvernig skuli stjórnað fyrirtækjum. Þar koma stærðir eins og starfsmenn, starfsánægja, vinnuaðstaða og fleira til, stærðir sem ekki verða settar inn í EXEL. Þó eru þetta stærðir sem mestu máli skipta í rekstri fyrirtækisins og þeir sem hundsa þær munu ekki geta rekið fyrirtæki lengi.

Hugsanlega er vandi einhverra þeirra fyrirtækja sem verst standa einmitt vegna þessa, hver veit.

Ef launafólk fær ekki mannsæmandi laun, þannig að það geti lifað þokkalegu lífi, gefst það upp og flýr land. Þá verða fyrirtækin fljót að legga upp laupana. Þau geta ekki starfað án fólksins sem skapar verðmætin!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband