Kynnt undir verkföllum

Í hvaða heimi býr ríkisstjórnin? Stundum er talað um að stjórnmálamenn lifi í fílabeinsturni, en þetta er mun alvarlegra. Úr slíkum turni ætti að sjást til jarðar. Stjórnvöld virðast hins vegar vera algerlega aflokuð í sínum heimi, sjá ekkert og skilja ekkert!

Að loknum fundi þar sem tillögur að aðkomu stjórnvalda til að liðka fyrir lausn kjarasamninga voru kynntar, fundi sem sumum formönnum stéttarfélaga var svo ofboðið að þeir gengu af fundi, koma stjórnvöld með enn eitt útspilið gegn lausn þess vanda sem þau ættu að vera að vinna að lausn á. Frystingu persónuafsláttar.

Og ástæðan sem gefin er af aðstoðarmenni fjármálaráðherra er "til þess að stöðva skattaskrið" og telur það vera kröfu launþega. Persónuafsláttur er ekki skattur, heldur afsláttur á skatti. Hvernig í helvítinu getur frysting slíks afsláttar stöðvað skattaskrið. Maður efast hreinlega um að allt sé í lagi í kolli þessa fólks!!

Síðast þegar persónuafsláttur var frystur var þegar vinstristjórnin sat, 2009 - 2013. Enn hafa launþegar ekki fengið þann skaða leiðréttan. Nú á að endurtaka leikinn með tilheyrandi tjóni fyrir launafólk, sér í lagi þá sem höllustum fæti standa.

Það er ljóst og hefur verið lengi, að stjórnvöld skilja ekki vandann og rót hans. Rótin liggur í ákvörðun kjararáðs, haustið 2016 og því höfrungahlaupi sem sú ákvörðun hefur leitt meðal efstu laga launþega, nú síðast með hækkun launa bankastjóra Landsbankans. Þó ótrúlegt sé og erfitt fyrir stjórnmálastéttina að skilja, þá kunna launþegar að lesa. Þeir horfa uppá þetta óréttlæti.

Vandinn liggur í því að stór hluti launafólks þarf að láta sér líka laun sem ekki duga til framfærslu, þó ríkið telji sig geta skattlagt þau hungurlaun. Það fólk má leitabrauðmolanna eftir að borð hefur verið þurrkað og gólf sópað!!

Þetta skilningsleysi stjórnvalda, framganga á fundi með fulltrúum launþega og síðan boðun frystingu persónuafsláttar, mun einungis vera sem bensín á eld verkfalla. Stjórnvöld eiga að vinna að hag þjóðarinnar, ekki eymd hennar. Þau eiga að vinna að lausn deilunnar, ekki að kynda undir hana.

Það er engu líkara en að sú ríkisstjórn sem nú situr sé orðin leið á setunni og vinni að því hörðum höndum að gera landið stjórnlaust. Að hún sé að fara að slíta stjórnarsamstarfinu og ætli að boða til kosninga.

Vonandi skoða þá kjósendur ummæli stjórnmálamanna á Alþingi, skoði hversu trúverðugir þingmenn eru og skoði hverjir hafa staðið á sínu þegar þeir hafa verið með stjórn landsins á sinni könnu. Úthluti sínu atkvæði síðan samkvæmt því. 

 


mbl.is Persónuafsláttur frystur í þrjú ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanhæfur þingmaður

Það er rangt hjá þingmanninum að stjórnvöld eigi ekki aðild að kjarasamningum. Fyrir það fyrsta þá er stór hluti launafólks á launum hjá ríkinu og kjarasamningar þess renna senn út. Það sem samið er um í almennu kjarasamningunum mun verða leiðandi fyrir starfsfólk ríkisins. Ríkið á að koma þar inn með aðgerðir sem stuðlað geti að kjarasamningum sem ekki kollvarpa hagkerfinu.

Í öðru lagi þá er eini tími launafólks til að fá leiðréttingar eða bætur sinna kjara, þegar samningar eru lausir. Kjör þess ráðast ekki að launum einum saman, heldur spilar þar stórt skattar og álögur, sér í lagi hér á landi þar sem skattar eru með því mesta sem þekkist. Þó ríkið eigi ekki beinan aðgang að kjaraviðræðum, er þetta eini tími launafólk til að ná eyrum stjórnvalda, svo hlustað sé. Því er það klárt að ríkið getur ekki fríað sig frá kjarasamningum, eins og þingmaðurinn heldur fram.

Þá heldur þingmaðurinn því fram að kjörnir fulltrúar Alþingis séu þeir einu sem með stjórn landsins eigi að fara. Þeir séu kosnir af þjóðinni. Þingmen eru kjörnir út á loforð sín fyrir kosningar, loforð sem þeir eru ótrúlega fljótir að gleyma. Eitt hellst hlutverk þingmanna og stjórnvalda er að hugsa um hag þjóðarinnar og auka hagsæld hennar. Þar vegur þyngst að halda sveiflum hagkerfisins eins litlum og hægt er. Aðkoma að kjarasamningum, til að koma í veg fyrir verkföll og að samningar leiði til sem minnstra sveiflna, er vissulega hlutverk stjórnvalda. Svo hefur ætið verið, þó á stundum stjórnöld hafi sofið hellst til of lengi.

Það lýsir fávisku og barnaskap þeirra sem halda því fram að stéttarfélög séu með einhverjar hótanir í garð stjórnvalda. Stjórnvöld hafa verið í viðræðum við deiluaðila, eins og þeim ber og það eina sem stéttarfélögin fara fram á er að nú verði gengið til verka. Samninganefndir launþega og atvinnurekenda hafa unnið sína vinnu, nú er komið að lokapunktinum. Þetta eru ekki hótanir, heldur einungis sagðar staðreyndir. Náist ekki að loka samningum mun skella á verkfall. Málið er ekki flókið!

Hins vegar er það ekki beint merki um skynsemi, þegar þingmaður úr stjórnarflokki talar með þeim hætti sem Bryndís Haraldsdóttir gerir, tal sem vissulega má skilja sem hótun, ef ekki lægi fyrir sú staðreynd að hún hefur einungis eitt atkvæði af 63 á Alþingi og er ekki beinn aðili að þeim viðræðum sem nú fara fram.

Verkföll eru mesta böl sem nokkur þjóð verður fyrir. Til þeirra er ekki stofnað af leik, einungis neyð. Stjórnvöld spila stórann þátt í að koma í veg fyrir að verkföll skelli, enda lendir það oftast á þeim að leysa þann vanda eftir að í óefni er komið.

Þeir þingmenn sem halda að eitthvað annað lögmál ríki, þekkja ekki söguna, eru fastir í fílabeinsturni og alls ekki hæfir í starfi!!

 


mbl.is Verkalýðsfélög stýra ekki landinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á Evu klæðum

Mail online flutti heimsbyggðinni nokkuð sérstæða frétt í morgun. Þar segir að breska verslunarkeðjan Boohoo ætli að hætta sölu á fötum sem innihalda ull af einhverju tagi, bannið tekur gildi hjá þeim í haust. Ástæðan er að dýraverndunarsamtökin PETA telji rúning áa vera dýraníð!

Þá vaknar spurning; hvernig skal framleiða föt? Í flestum fötum er ull af einhverju tagi þó hún hafi vissulega vikið nokkuð fyrir plastefnum. Varla viljum við þó framleiða fötin úr plast, þessu baneitraða efni sem allstaðar er verið að banna!

Þá eru einungis nýju föt keisarans eftir, öðru nafni Evuklæðin. Mannskepnan verður bara að vera nakin!

PETA samtökin fara þarna offari, svo vægt sé til orða tekið. Það er ekki dýraníð að rýja ærnar, hins vegar er það sannarlega dýraníð að gera það ekki og getur það leitt skepnuna til dauða. Það hefur eitthvað skolast til í haus þeirra hjá PETA sem fullyrða svona bull.

Og ekki er hitt skárra, að virt verslunarkeðja skuli taka undir þessa vitleysu. Það verður gaman að koma í verslanir þeirra á hausti komandi, einungis tóm herðatrén á fataslánum.

Það er vandlifað í henni veröld. Barnaskapur og fáviska virðast vera að ná völdum á öllum sviðum.

Hvað næst?!!


Upp á von og óvon

Er þetta framtíðin, að hægt sé að rukka upp á von og óvon? Er það þessi leið sem samgönguráðherra vill fara?

Æ fleiri dæmi heyrast um að menn fái rukkun frá Vaðlaheiðagöngum, jafnvel þó viðkomandi hafi verið á hinum helming landsins. Afsökun fyrirtækisins er að illa hafi sést á númer bílanna og því verið sendur reikningur á þann sem líklegast telst að eigi viðkomandi bíl. Númerið bara skáldað. Þetta er hreint með ólíkindum!

Hversu margir borga bara, þegjandi og hljóðalaust. Bankar bjóða uppá þjónustu sem margir nýta, þá þjónustu að sjá um greiðslu innheimtuseðla sem koma fram í einkabanka viðkomandi. Ekki getur þjónustufulltrúi bankans vitað hvort viðkomandi hafi ekið um einhver göng út á landi, millifærir bara upphæðina. Eigandi bankareikningsins verður lítt var við það, að öðru leyti en að kannski klárast óeðlilega fljótt út af reikningnum.

Það hlýtur að vera grunnskylda þeirra sem senda út reikninga að fyrir þeim standi lögmæt krafa. Að menn geti ekki bara sent reikninga á Pétur og Pál, upp á von og óvon um að þeir greiði!

Notkun myndavéla til að rukka inn vegskatt er mjög ófullkomin, eins og sannast. Óhreinindi eða snjór geta skyggt á tölur númers og því ekki hægt að lesa úr því svo óyggjandi sé. Í slíkum tilfellum á auðvitað að fella gjaldið niður, ekki senda rukkun bara á einhvern.

Eitt af því sem þeir sem tala fyrir vegsköttum eru sammála, er að ekki verði sett upp gjaldskýli, vítt og breytt um landið. Heldur skuli myndavélar sjá um það verk að sanna hver ekur yfir þær línur vegakerfisins, sem skattlagðar verða. Kannski sér ráðherra þarna tækifæri, að þegar umferð er ekki næg fyrir afborgunum af lánum, nú eða einhverja aukapeninga þarf í ríkissjóð, kannski til hækkunar launa ráðherra, þá sé bara sendur slatti af skálduðum reikningum til bíleigenda, í þeirri von að einhverjir glóbist til að greiða?

Þessar fréttir af vandræðum Vaðlaheiðagangna, vandræði sem ekki verða leyst nema með því að banna rigningu og snjókomu, staðfesta enn frekar fávisku vegskatta!!


mbl.is Rukkun fyrir ferð sem aldrei var farin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningasvindl

Það er sama hvernig á það er litið, allt fikt varðandi kosningar túlkast sem kosningasvindl. Þar skiptir engu hvort fiktarar hafi af því fleiri eða færri atkvæði, hvort það fikt er gert í nafni þess að auka þurfi kosningaþátttöku, rannsóknarskyni eða hverju öðru sem menn vilja nefna.

Hornsteinn lýðræðis er frjálsar kosningar og að þær kosningar séu hafðar yfir allan vafa um fikt á nokkurn hátt. Að kjósandinn geti treyst því að hann hafi fullkomið vald til að velja þá kosti sem í boði eru, einnig þann kost að sitja heima. Öll afskipt eða fikt afnema lýðræðið og gera kosningarnar marklausar. Þar eru engar undantekningar!

Enn verra er þegar svona fikt er stundað af sitjandi meirihluta, sem samkvæmt skoðanakönnunum fyrir kosningar, eru að tapa verulega fylgi. Ekki verður slíkt skilið nema á einn veg.

Yfir allan þjófabálk tekur síðan, þegar fiktið uppgötvast og verður kjósendum ljóst, skuli þeir sem að svindlinu stóðu, telja skrif og athugasemdir kjósenda "alvarlega ærumeiðandi". Þetta fólk skilur greinilega ekki út á hvað lýðræðið gengur og ætti því kannski að sleppa því að taka þátt í afskiptum af því.

Hafi einhverjir orðið fyrir ærumeiðingu eru það kjósendur, af hálfu meirihlutans í Reykjavík. Ekki bara vegna kosningasvindlsins, heldur ekki síður vegna þess hvernig viðbrögð meirihlutans eru, þegar upp kemst um ósvífnina.

Það er einungis ein leið til að endurheimta lýðræðið innan borgarinnar, að kjósa aftur. Kannski þarf að breyta lögum um kosninga til sveitarstjórna, svo slíkt megi gera. Þá verður Alþingi bara að gera slíka breytingu og það sem fyrst.

Allt annað en endurkosning er aumt yfirklór og engum til sóma, síst lýðræðinu okkar.

 

 

 

 


mbl.is Þarf álit utanaðkomandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veggjöld

Hvað eru veggjöld? Því er erfitt að svara. Þó er ljóst að þetta er fyrst og fremst skattur og ekkert annað en skattur. Að  öðru leyti er erfitt að skilja umræðuna, virðist sem hugmyndir þingmanna um þessi gjöld sé jafn margar stólum Alþingis.

Fyrst var talað um að veggjald skildi leggja á ákveðnar framkvæmdir, eftir að þeim lyki. Var þar m.a.vísað til Hvalfjarðargangna sem fyrirmynd. Síðan var farið að tala um ótilgreind gjöld á ótilgreindum stöðum, til að flýta ótilgreindum framkvæmdum. Nú er jarðgöng komin inn í þessi gjöld,jafnvel göng sem þegar hafa verið greidd að fullu og vel það, með slíkum gjöldum. Og nú eiga veggjöld að leggjast á til að flýta orkuskiptum. Manni er farið að hlakka til hvað kemur næst! Er nema von að ráðherra nuddi saman lófum og sé farinn að leita að "hagstæðum" lánum. Gjöldin munu ekki klikka!

Verst er þó að í sumum tilfellum munum við fá að greiða veggjöld fyrir framkvæmdir sem leiða af sér enn verri samgöngur en nú eru.

Eftir tuttugu ára baráttu og fjölda slysa, sum hver skelfileg, fyrir tvöföldun vegarins um Kjalarnes virðist sú framkvæmd loks komast í gegnum hið þétta net hagkvæmispólitíkusa Alþingis. Að vísu einhver frestun, en framkvæmdin hefur þó verið samþykkt.

Þá kemur Vegagerðin að málinu. Eftir að snillingar þar á bæ hafa farið höndum um málið er tvöföldunin einungis hálfföldun og til að tryggja endanlega einhvern bata á þessari leið, ákváðu þessir snillingar að setja þrjú til fjögur hringtorg á þessum stutta kafla. Eftir sitjum við íbúar á Vesturlandi og horfum á veg sem í sjálfu sér er þokkalegur, verða að vegi sem verður nánast ókeyrandi og stór hættulegur, vegna hringtorga. Og þurfum síðan að greiða skatt fyrir "dýrðina".

Ég er nú svo grænn að ég hélt að þegar um bætur á vegakerfinu væri að ræða, þá væri verið að tala um betri veg, betra flæði og minni hættur. Hélt líka að þegar verið væri að skoða hvernig bæta megi vegi,væri fyrst skoðuð slysasaga vegarins. Varðandi Kjalarnesið virðist hvorugt vera haft að leiðarljósi, rétt eins og dagskipunin hafi verið að gera bara eitthvað,svo hægt væri að innheimta meiri skatta!

Á Kjalarnesinu verða slys fyrst og fremst af tvennu, vindi og framúrakstri. Vindur breytist lítið við tvöföldun,þreföldun eða jafnvel fjórföldun vega og enn síður með tilkomu hringtorga,hversu mörgum sem mönnum dettur til hugar að drita niður. Framúrakstur er aftur vandamál og verður einungis leystur með breikkun vega. Hringtorg skipta þar litlu máli. Tiltölulega fá slys verða vegna gatnamóta og fjölmargar leiðir til að bæta þau.

Hins vegar er ljóst að við hvert hringtorg þarf að hægja mikið á bílum,sem leiðir til umferðateppu fyrir framan þau. Þegar svo loks er komist þar í gegn, hefst kappakstur til að ná góðri stöðu fyrir næsta haft. Þetta verður því beinlínis stór hættulegur vegur, mun seinfarnari en nú og mun skapa gífurlega mengun og slit á dekkjum bíla.

Eins og staðan er í dag, ættu sveitarstjórnarmenn á Vesturlandi að afþakka þessar svokölluðu vegabætur og skattinn sem þeim fylgir,skattinn sem þeir voru plataðir til að mæra. Bíða með frekari framkvæmdir þar til fólk sem hefur minnsta skammt af skynsemi sest á Alþingi! Ein plús einn vegur um Kjalarnesið, með öllum þeim göllum sem slíkum vegi fylgja, er mun greiðfarnari og hættuminni en einn plús tveir vegur, með fjögur hringtorg á 11 km kafla!!

 

 


mbl.is Gjöld hvati til að skipta um bíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svar til Björns Bjarnasonar

 

Björn Bjarnason heldur úti vefsíðu sinni hér á bloggmiðli moggans. Sá ljóður er á vefsíðu hans að þar er ekki nein tök á að gera athugasemdir við skrif hans, né hæla þeim. Því er ekki um annað að ræða, þegar menn vilja gera athugasemdir, nú eða hæla skrifum Björns, en að nota sitt eigið blogg til verksins. Mér varð á að gera slíkt, þar sem ég bæði hældi Birni og setti fram mína skoðun á veru hans í starfshóp um skoðun á kostum og göllum EES samningsins. Þetta fór eitthvað fyrir brjóstið á Birni, þar sem hann taldi sér nauðugt að eyða pistli dagsins til að ráðast að mér, fyrir þá skoðun mína. Taldi greinilega ekki heppilegt að nýta athugasemdakerfi við blogg mitt til þessa verks.

Sæll Björn

Takk fyrir innlitið á blogg mitt. Betur hefði farið ef þú hefðir gefið þér örlítið meiri tíma til að lesa það, þá hefðir þú ekki þurft að eyða tíma og orku í skrif gegn mér, aumum almúgamanninum. Hvergi kemur fram í mínu bloggi neitt sem kallast mætti andúð til þín, þvert á móti hæli ég þér fyrir skemmtileg skrif á köflum, enda ertu vel ritfær maður. Ekki heldur krefst ég þess að þú sért bannfærður á netmiðlum, eða öðrum stöðum sem þú kýst að nota til að koma þínum skoðunum fram. Því ferð þú fram með staðlausa stafi á þinni vefsíðu, þegar þú heldur því fram að ég krefjist brottrekstra þíns í þágu net-ritskoðunar.

Blogg mitt var fyrst og fremst um hæfi eða vanhæfi. Því gagnrýndi ég setu þína í starfshóp um skoðun á EES samningnum. Í sjálfu sér er það ekki þér að kenna að ráðherra valdi þig í þann hóp, en það var alfarið á þínu valdi að samþykkja þá skipun eða hafna henni.

Eins og þú veist, þá var gerð og tilurð EES samningsins gagnrýnd harkalega á sínum tíma. Að þeirri gagnrýni stóðu bæði leikir og lærðir. Þrátt fyrir þá gagnrýni var kjósendum haldið frá ákvörðun um samþykkt þessa samnings og málið keyrt gegnum Alþingi með minnsta mögulega meirihluta. Ekki var sú málsmeðferð beinlínis til að sætta hópa, þvert á móti.

Nú eru liðin 25 ár frá því EES samningurinn tók gildi. Því ætti að vera komin nokkuð góð reynsla á hann og vissulega tímabært að skoða hvernig til hefur tekist. Hvað við höfum haft gott af þessum samning, hvað verra er og síðan það þýðingarmesta, sem mest var jú deilt um áður en samningurinn var samþykktur, hvort hann sé innan þess ramma sem stjórnarskráin okkar segir til um.

Því mátti vissulega fagna því að ráðherra skyldi stofna starfshóp um skoðun samningsins, til að "lyfta umræðunni um þessi mál þannig að hún verði málefnaleg og gagnleg" eins og segir í tilkynningu ráðherra.

Frumforsenda þess að slíkt megi takast er að til hópsins séu valdir einstaklingar sem ekki er hægt að vefengja á neinn hátt, fólk sem ekki hefur opinberar skoðanir á samningnum og alls ekki fólk sem hefur yfirlýstar skoðun á honum, á hvorn veginn sem er. Þarna féll ráðherra harkalega á prófinu og þeir sem hann tilnefndi einnig, fyrir að taka málið að sér. Niðurstaða hóps sem er skipaður fólki með fyrirfram ákveðnar skoðanir á samningnum munu aldrei getað orðið til þess að "lyfta umræðunni um þessi mál þannig að hún verði málefnaleg og gagnleg". Í grein þinni gegn mér staðfestir þú, svo ekki verður um villst, þinn hug til EES samningsins og staðfestir þar enn frekar vanhæfi þitt til að vinna þá vinnu að "lyfta umræðunni um þessi mál þannig að hún verði málefnaleg og gagnleg".

Þú nefnir einnig í þinni grein gegn már að þarna sé ekki um lögfræðilegt mál að ræða, heldur pólitískt viðfangsefni. Vissulega kemur lögfræði þessari skoðun við, enda hópurinn eingöngu skipaður lögfræðingum. Pólitískt viðfangsefni, hum, kannski það pólitíska viðfangsefni að gera þennan samning fegurri en hann er!

Viðfangsefni þessa starfshóps á að vera eitt og aðeins eitt, að skoða hvernig til hefur tekist með samninginn, hvort hann er okkur til hagsbóta eða ekki og hvort hann stenst íslensku stjórnarskránna. Einungis skoðun staðreynda og kemur í raun pólitík ekkert við!

Þá nefnir þú að menn ættu ekki að gagnrýna störf hópsins fyrr en niðurstaða liggur fyrir. Ég gagnrýni ekki störf hópsins, heldur val á fólki í skipun hans!

Megin málið er þó þetta. Ég hef aldrei krafist að þú, Björn Bjarnason, yrðir bannfærður á netmiðlum, hvorki í þágu net-ritskoðunar né nokkurs annars. Ég lýsti þeirri skoðun minni að ég teldi þig ekki hæfan til þess verks að fara fyrir nefnd um skoðun á kostum og ókostum EES samningsins, vegna opinberrar skoðunar þinnar á þeim samningi. Það er mín skoðun og við hana stend ég. Hvergi í pistli mínum vega ég að þér sem persónu eða skrifa á þann hátt að skilja megi sem andúð. Ekki heldur segi ég að þú megir ekki hafa skoðun á málum og opinbera þær, heldur að vegna þess sértu vanhæfur til að stýra þessum hóp. Trúverðugleiki niðurstöðunnar mun ekki verða til staðar.

Læt þetta duga og óska þér og þínum alls hins besta

 

 


Um hæfi, óhæfi, EES og fleira

Sú undarlega staða kom upp á Alþingi Íslendinga fyrir rúmum mánuði síðan, að málefni sem barst forsætisnefnd var ekki hægt að afgreiða þar sem allir sjö forsetar Alþingis voru óhæfir til að taka á málinu. Þrátt fyrir þá óhæfni, ákvað forseti Alþingis, eða forsætisnefnd, að skipa nýja forseta þingsins. Ekki fundust þó fleiri en tveir, af þeim 63 sem þingið sitja, sem bæði töldust hæfir til að taka á málinu og voru tilkippilegir í þann leik. Vissulega er gleðilegt þegar kjörnir eða skipaðir fulltrúar víkja þegar hæfi þeirra þverr, ekki alltaf sem slíkt gerist hér á landi. Skugginn sem fellur þó á er sá að ekki verður annað séð en að Alþingi hafi með þessari gjörð brotið 3ju grein laga um þingsköp. Þar er skýrt kveðið á um forseta og sex varaforseta Alþingis.  Ekki ætla ég að hafa þá sögu lengri núna, þó hægt væri að skrifa marga pistla um það mál.

Í lok ágúst á síðasta ári skipaði utanríkisráðherra starfshóp til að meta kosti og ókosti EES samningsins. Formaður þess hóps er Björn Bjarnason, fyrrum þingmaður og ráðherra. Með honum sitja Kristrún Heimisdóttir, fyrrum varaþingmaður Samfylkingar og framkvæmdarstjóri SI og Bergþóra Halldórsdóttir, lögmaður SA. Allt ágætis fólk sem örugglega mun gera sitt best þó erfitt sé að sjá hlutleysi þess í málaflokknum.

Reyndar er formaður hópsins þegar búinn að gera störf starfshópsins marklaus, hver svo sem niðurstaðan verður. Hlutleysi veltur á ýmsu, en þó efast enginn að þar skiptir þó mestu máli hvernig menn tjá sig. Þetta vissu allir sjö forsetar Alþingis, er þeir viku frá máli sem á þeirra borð kom. Þetta virðist hins vegar ekki formaður starfshóps um mat á kostum og ókostum EES samningsins gera.

Björn Bjarnason heldur úti eigin bloggsíðu, þar sem hann tjáir hugleiðingar sínar um hin ýmsu mál, daglega. Oft er gaman að lesa pistla Björns, enda maðurinn ágætlega stílfær.

Síðastliðinn mánuð brá Björn ekki útaf þessari reglu sinni. Einn pistill á dag, rétt eins og klukka. Í þeim mánuði fjölluðu um þriðjungur pistla hans um EES, ESB eða önnur mál því nátengdu. Björn hefur í sjálfu sér aldrei dregið dul á hug sinn til EES. Annað kemur á daginn þegar að ESB kemur. Þá virðist hellst skipta máli hver tjáir sig, hvern hann er að gagnrýna eða sannmælast. Það er t.d. öruggt þegar einhver Samfylkingarmaður hælir ESB þá er Björn andstæðingur sambandsins. Ef annar sem er honum nær í pólitík mærir sambandið, gerir Björn slíkt hið sama. Þegar hann velur að tjá sig um það án þess að vera að svar öðrum, fer hins vegar ekki milli mála að ást hans til ESB er meiri en ætla mætti. Þetta sést vel í þeim mörgu pistlum sem hann hefur ritað um Brexit, en þar gagnrýnir hann Breta hart fyrir þá ósvinnu að hafa dottið til hugar að vilja yfirgefa sambandið og síst of mikið gert hjá fulltrúum ESB í því að hefna þess.

En starfshópur Björns á ekki að fjalla um ESB og honum því heimilt að ræða það opinberlega eins og honum sýnist. Það er EES samningurinn sem starfshópurinn á að skoða og meta. Þar skiptir engu máli hver tjáir sig eða hvernig, Björn tekur ætið upp hanska EES og er ósínkur við það. Skrif hans um orkupakkann hafa verið mörg og sum hver ákaflega undarleg. Fer þar fram með fullyrðingar sem ekki standast og er ósínkur á að rangnefna menn og gera lítið úr þeim. Gengur jafnvel svo langt að nefna einhvern virtasta sérfræðin Norðmanna í Evrópurétti sem lögfræðing á þröngu siði fiskveiða, einungis vegna þess að sá maður hefur verið talsmaður þeirra sem vilja segja upp aðild Noregs að EES samningnum. Kannski er það einmitt vegna þeirrar afstöðu sinnar sem sá lögfræðingur hefur sérhæft sig í Evrópurétti, til að vinna gegn öllum þeim sem eru á launum frá Brussel og þá um leið að vinna fyrir stórann meirihluta norsku þjóðarinnar.

Jafnvel í gær tókst Birni að koma hug sínum til EES að, í pistli sínum um einkavæðingu bankanna og gagnrýni á skrif Þórðar Snæs Júlíussonar um það mál. Þar vill Björn meina að engin hætta felist í einkavæðingu nú, enda sé regluumhverfið orðið allt annað í dag, þökk sé EES samningnum. Honum láist hins vegar að geta þess að hrun bankakerfisins náði þeim skala að koma landinu nánast á hausinn, að fjöldi fjölskyldna landsins endaði beinlínis á götunni, einmitt vegna EES samningsins og ákvæða hans um frjálst flæði fjármagns.

Einkavæðing bankanna hefði sjálfsagt getað orðið, þó enginn EES samningur hefði verið til staðar, en vegna þess samnings og ákvæðis um frjálst flæði fjármagns milli landa, gat sú einkavæðing skapað þá stöðu að bankakerfið óx langt umfram getu landsins til að standa undir því og því fór sem fór. Meðan við erum aðilar að EES samningnum getur slíkt gerst aftur, alveg sama hversu mikil lög og miklar reglur eru settar. Það verður þá bara enn meira spennandi að komast framhjá þeim. Því er í raun forsenda þess að allt bankakerfið verði einkavætt, að EES samningnum og þeirri tengingu sem hann gerir okkur við markaði sem við eru okkur ofurefli, verði segja upp.

Óhæfi Björns til mats á kostum og ókostum EES samningsins er algjört og ljóst að hann mun ekki segja sig frá þeirri vinnu. Gulli ætti því að kalla hópinn til sín, uppræta hann og stofna nýjan, með fólki þar sem ekki verður efast um hæfi.

 


Að rembast eins og rjúpan

Enn er rambst eins og rjúpan við staurinn. Þegar reglur og lög eru ekki hagkvæm þeim sem vilja komast að ákveðinni niðurstöðu, er þeim einfaldlega breitt.

Nú ætla hinir nýju forsetar Alþingis, sá áttundi og sá níundi, að undirbúa erindi um gildissvið siðareglna þingmanna til nefndarmanna. Sem sagt, siðareglurnar ná ekki yfir það málefni sem þessum auka auka forsetum var falið að leiða í höggstokkinn. Eða eru fulltrúar í siðanefnd kannski bara ekki læsir?!

Í annarri grein siðareglana fyrir alþingismenn er fjallað um gildissvið þeirra reglna. Þar segir orðrétt:

Gildissvið.
2. gr.

Reglur þessar gilda um alþingismenn við opinbera fram­göngu þeirra og snerta skyldur þeirra sem þjóðkjörinna fulltrúa.

Svo mörg voru þau orð og í raun auðskilin, en henta þó ekki þeirri niðurstöðu sem hinir nýju dómarar rannsóknarréttarins var falið að ná.

Að Halli á Reyn skuli láta leiða sig í svona forarsvað er magnað. Hann mun missa virðingu margra sveitunga og kjósenda vegna þessa. Hitt er eðlilegra, að þingmaður VG skuli vera strengjabrúða yfirvalds síns flokks, kommúnismi felst jú í því að herrann stýri og hinir hlýði.

 


mbl.is Undirbúa erindi til siðanefndar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hringavitleysa

Vegurinn um Kjalarnes er oft torsóttur og hættulegur. Hætturnar skapast þó ekki vegna hraðs aksturs og ekki vegna gatnamóta. Flest slys verða af tveim þáttum, veðri og frammúrakstri.

Veðrinu stjórnum við ekki og því lítið hægt að gera þar til bóta. Þó mætti hugsa sér að vegagerðin, í samvinnu við landeigendur, myndi standa fyrir skógrækt á um eitthundrað metra breiðu belti norðan vegarins. Þannig mætti hugsanlega minnka þá vindstrengi sem feykja bílum útaf.

Varðandi slys vegna frammúraksturs þá stafa þau í flestum tilfellum af því að einhverjum, gjarnan erlendum túristum, dettur í hug að aka þennan veg á mjög hægum hraða. Það leiðir til frammúraksturs og vegna mikillar umferðar um veginn getur það leitt til skelfilegra slysa. Oftar en ekki lendir maður í því að umferðahraðinn um Kjalarnesið er 50 - 60km/klst, þar sem hámarkshraði er 90km/klst. Það gefur sig sjálft að margir reyna frammúrakstur við slíkar aðstæður, jafnvel þó aðstæður til slíks séu vart fyrir hendi. Stundum tekst það, stundum ekki.

Því er brýnt að breikka þennan veg. 2+1 vegur mun þar ekki duga, þar sem ekki er hægt að sjá mun á því hvort menn velji að aka frekar hægt til austurs eða vesturs. Yfir sumartímann má styðjast við veglínur en á veturna stoðar slíkt lítið og hætt við að erlendir ferðamenn verði enn meira undrandi og enn meiri hætta skapist.

En vegagerðin er engu lík. Hún ætlar að leggja 1+2 veg og telur það bara yfirdrifið. Reyndar má það til sanns vegar færa, 1+1, 1+2, 2+2 eða jafnvel 3+3 skiptir bara engu máli, eftir að Kjalarnesið hefur verið fyllt af hringtorgum!

Hringtorg eru góð og gild, þar sem þau eiga við, s.s. innan íbúðabyggðar og við vissar aðstæður þar sem nauðsyn þykir að hægja á eða stöðva umferð. Út á þjóðvegum eru slík fyrirbrigði beinlínis hættuleg, auk þess sem þau valda meiri mengun og auknu sliti á bílum. Ellefta hringtorgið á leið þeirra sem ferðast frá Hvalfjarðargöngum til höfuðborgarinnar var tekið í notkun fyrir um mánuði síðan. Þar hefur þegar orðið eitt slys og umferðartafirnar sem því torgi fylgja eru farnar að nálgast Esjurætur.

Og nú ætlar vegagerðin að bæta a.m.k. þremur við, þannig að hringtorgin á þessari leið verða orðin 14! Dekkjasalar munu kætast.

Hvergi erlendis hef ég lent í að aka gegnum hringtorg á stofnvegi, þó þau þekkist vissulega innan íbúðahverfa. Gatnamót eru gatnamót, oftar en ekki án umferðaljósa, jafnvel þó á stundum séu allt að fjórar akreinar í hvora átt eftir stofnveginum og tvær akreinar í hvora átt á veginum sem hann þvera. Þetta er ekki talið vandamál og aldrei hef ég orðið var við umferðatafir vegna þessa, utan borgarmarka. A.m.k. engar umferðartafir í líkingu við þær sem nú eru farnar að myndast við hringtorg nr. 11 a Vesturlandsvegi. Þegar umferð nær ákveðnum fjölda og slík gatnamót anna ekki umferðinni, eru gerð mislæg gatnamót. Á leiðinni um Kjalarnesið er vissulega mikil umferð til austurs og vesturs, en lítil um þau gatnamót sem að veginum liggja.

Hringavitleysa vegagerðarinnar ætlar engan endi að taka. Það er ljóst að þar á bæ er lítt spáð í kolefnisspor eða einhverja slíka vitleysu, lítið spáð um slit bíla, lítið spáð umferðarflæði og það sem er verst, lítið spáð í umferðaröryggi. Hvaða viðmið vegagerðin notar er erfitt að sjá.

Hringavitleysa

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband