Hringavitleysa

Vegurinn um Kjalarnes er oft torsóttur og hættulegur. Hætturnar skapast þó ekki vegna hraðs aksturs og ekki vegna gatnamóta. Flest slys verða af tveim þáttum, veðri og frammúrakstri.

Veðrinu stjórnum við ekki og því lítið hægt að gera þar til bóta. Þó mætti hugsa sér að vegagerðin, í samvinnu við landeigendur, myndi standa fyrir skógrækt á um eitthundrað metra breiðu belti norðan vegarins. Þannig mætti hugsanlega minnka þá vindstrengi sem feykja bílum útaf.

Varðandi slys vegna frammúraksturs þá stafa þau í flestum tilfellum af því að einhverjum, gjarnan erlendum túristum, dettur í hug að aka þennan veg á mjög hægum hraða. Það leiðir til frammúraksturs og vegna mikillar umferðar um veginn getur það leitt til skelfilegra slysa. Oftar en ekki lendir maður í því að umferðahraðinn um Kjalarnesið er 50 - 60km/klst, þar sem hámarkshraði er 90km/klst. Það gefur sig sjálft að margir reyna frammúrakstur við slíkar aðstæður, jafnvel þó aðstæður til slíks séu vart fyrir hendi. Stundum tekst það, stundum ekki.

Því er brýnt að breikka þennan veg. 2+1 vegur mun þar ekki duga, þar sem ekki er hægt að sjá mun á því hvort menn velji að aka frekar hægt til austurs eða vesturs. Yfir sumartímann má styðjast við veglínur en á veturna stoðar slíkt lítið og hætt við að erlendir ferðamenn verði enn meira undrandi og enn meiri hætta skapist.

En vegagerðin er engu lík. Hún ætlar að leggja 1+2 veg og telur það bara yfirdrifið. Reyndar má það til sanns vegar færa, 1+1, 1+2, 2+2 eða jafnvel 3+3 skiptir bara engu máli, eftir að Kjalarnesið hefur verið fyllt af hringtorgum!

Hringtorg eru góð og gild, þar sem þau eiga við, s.s. innan íbúðabyggðar og við vissar aðstæður þar sem nauðsyn þykir að hægja á eða stöðva umferð. Út á þjóðvegum eru slík fyrirbrigði beinlínis hættuleg, auk þess sem þau valda meiri mengun og auknu sliti á bílum. Ellefta hringtorgið á leið þeirra sem ferðast frá Hvalfjarðargöngum til höfuðborgarinnar var tekið í notkun fyrir um mánuði síðan. Þar hefur þegar orðið eitt slys og umferðartafirnar sem því torgi fylgja eru farnar að nálgast Esjurætur.

Og nú ætlar vegagerðin að bæta a.m.k. þremur við, þannig að hringtorgin á þessari leið verða orðin 14! Dekkjasalar munu kætast.

Hvergi erlendis hef ég lent í að aka gegnum hringtorg á stofnvegi, þó þau þekkist vissulega innan íbúðahverfa. Gatnamót eru gatnamót, oftar en ekki án umferðaljósa, jafnvel þó á stundum séu allt að fjórar akreinar í hvora átt eftir stofnveginum og tvær akreinar í hvora átt á veginum sem hann þvera. Þetta er ekki talið vandamál og aldrei hef ég orðið var við umferðatafir vegna þessa, utan borgarmarka. A.m.k. engar umferðartafir í líkingu við þær sem nú eru farnar að myndast við hringtorg nr. 11 a Vesturlandsvegi. Þegar umferð nær ákveðnum fjölda og slík gatnamót anna ekki umferðinni, eru gerð mislæg gatnamót. Á leiðinni um Kjalarnesið er vissulega mikil umferð til austurs og vesturs, en lítil um þau gatnamót sem að veginum liggja.

Hringavitleysa vegagerðarinnar ætlar engan endi að taka. Það er ljóst að þar á bæ er lítt spáð í kolefnisspor eða einhverja slíka vitleysu, lítið spáð um slit bíla, lítið spáð umferðarflæði og það sem er verst, lítið spáð í umferðaröryggi. Hvaða viðmið vegagerðin notar er erfitt að sjá.

Hringavitleysa

 

 


Bloggfærslur 1. febrúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband