Veggjöld

Hvað eru veggjöld? Því er erfitt að svara. Þó er ljóst að þetta er fyrst og fremst skattur og ekkert annað en skattur. Að  öðru leyti er erfitt að skilja umræðuna, virðist sem hugmyndir þingmanna um þessi gjöld sé jafn margar stólum Alþingis.

Fyrst var talað um að veggjald skildi leggja á ákveðnar framkvæmdir, eftir að þeim lyki. Var þar m.a.vísað til Hvalfjarðargangna sem fyrirmynd. Síðan var farið að tala um ótilgreind gjöld á ótilgreindum stöðum, til að flýta ótilgreindum framkvæmdum. Nú er jarðgöng komin inn í þessi gjöld,jafnvel göng sem þegar hafa verið greidd að fullu og vel það, með slíkum gjöldum. Og nú eiga veggjöld að leggjast á til að flýta orkuskiptum. Manni er farið að hlakka til hvað kemur næst! Er nema von að ráðherra nuddi saman lófum og sé farinn að leita að "hagstæðum" lánum. Gjöldin munu ekki klikka!

Verst er þó að í sumum tilfellum munum við fá að greiða veggjöld fyrir framkvæmdir sem leiða af sér enn verri samgöngur en nú eru.

Eftir tuttugu ára baráttu og fjölda slysa, sum hver skelfileg, fyrir tvöföldun vegarins um Kjalarnes virðist sú framkvæmd loks komast í gegnum hið þétta net hagkvæmispólitíkusa Alþingis. Að vísu einhver frestun, en framkvæmdin hefur þó verið samþykkt.

Þá kemur Vegagerðin að málinu. Eftir að snillingar þar á bæ hafa farið höndum um málið er tvöföldunin einungis hálfföldun og til að tryggja endanlega einhvern bata á þessari leið, ákváðu þessir snillingar að setja þrjú til fjögur hringtorg á þessum stutta kafla. Eftir sitjum við íbúar á Vesturlandi og horfum á veg sem í sjálfu sér er þokkalegur, verða að vegi sem verður nánast ókeyrandi og stór hættulegur, vegna hringtorga. Og þurfum síðan að greiða skatt fyrir "dýrðina".

Ég er nú svo grænn að ég hélt að þegar um bætur á vegakerfinu væri að ræða, þá væri verið að tala um betri veg, betra flæði og minni hættur. Hélt líka að þegar verið væri að skoða hvernig bæta megi vegi,væri fyrst skoðuð slysasaga vegarins. Varðandi Kjalarnesið virðist hvorugt vera haft að leiðarljósi, rétt eins og dagskipunin hafi verið að gera bara eitthvað,svo hægt væri að innheimta meiri skatta!

Á Kjalarnesinu verða slys fyrst og fremst af tvennu, vindi og framúrakstri. Vindur breytist lítið við tvöföldun,þreföldun eða jafnvel fjórföldun vega og enn síður með tilkomu hringtorga,hversu mörgum sem mönnum dettur til hugar að drita niður. Framúrakstur er aftur vandamál og verður einungis leystur með breikkun vega. Hringtorg skipta þar litlu máli. Tiltölulega fá slys verða vegna gatnamóta og fjölmargar leiðir til að bæta þau.

Hins vegar er ljóst að við hvert hringtorg þarf að hægja mikið á bílum,sem leiðir til umferðateppu fyrir framan þau. Þegar svo loks er komist þar í gegn, hefst kappakstur til að ná góðri stöðu fyrir næsta haft. Þetta verður því beinlínis stór hættulegur vegur, mun seinfarnari en nú og mun skapa gífurlega mengun og slit á dekkjum bíla.

Eins og staðan er í dag, ættu sveitarstjórnarmenn á Vesturlandi að afþakka þessar svokölluðu vegabætur og skattinn sem þeim fylgir,skattinn sem þeir voru plataðir til að mæra. Bíða með frekari framkvæmdir þar til fólk sem hefur minnsta skammt af skynsemi sest á Alþingi! Ein plús einn vegur um Kjalarnesið, með öllum þeim göllum sem slíkum vegi fylgja, er mun greiðfarnari og hættuminni en einn plús tveir vegur, með fjögur hringtorg á 11 km kafla!!

 

 


mbl.is Gjöld hvati til að skipta um bíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. febrúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband