Kynnt undir verkföllum

Í hvaða heimi býr ríkisstjórnin? Stundum er talað um að stjórnmálamenn lifi í fílabeinsturni, en þetta er mun alvarlegra. Úr slíkum turni ætti að sjást til jarðar. Stjórnvöld virðast hins vegar vera algerlega aflokuð í sínum heimi, sjá ekkert og skilja ekkert!

Að loknum fundi þar sem tillögur að aðkomu stjórnvalda til að liðka fyrir lausn kjarasamninga voru kynntar, fundi sem sumum formönnum stéttarfélaga var svo ofboðið að þeir gengu af fundi, koma stjórnvöld með enn eitt útspilið gegn lausn þess vanda sem þau ættu að vera að vinna að lausn á. Frystingu persónuafsláttar.

Og ástæðan sem gefin er af aðstoðarmenni fjármálaráðherra er "til þess að stöðva skattaskrið" og telur það vera kröfu launþega. Persónuafsláttur er ekki skattur, heldur afsláttur á skatti. Hvernig í helvítinu getur frysting slíks afsláttar stöðvað skattaskrið. Maður efast hreinlega um að allt sé í lagi í kolli þessa fólks!!

Síðast þegar persónuafsláttur var frystur var þegar vinstristjórnin sat, 2009 - 2013. Enn hafa launþegar ekki fengið þann skaða leiðréttan. Nú á að endurtaka leikinn með tilheyrandi tjóni fyrir launafólk, sér í lagi þá sem höllustum fæti standa.

Það er ljóst og hefur verið lengi, að stjórnvöld skilja ekki vandann og rót hans. Rótin liggur í ákvörðun kjararáðs, haustið 2016 og því höfrungahlaupi sem sú ákvörðun hefur leitt meðal efstu laga launþega, nú síðast með hækkun launa bankastjóra Landsbankans. Þó ótrúlegt sé og erfitt fyrir stjórnmálastéttina að skilja, þá kunna launþegar að lesa. Þeir horfa uppá þetta óréttlæti.

Vandinn liggur í því að stór hluti launafólks þarf að láta sér líka laun sem ekki duga til framfærslu, þó ríkið telji sig geta skattlagt þau hungurlaun. Það fólk má leitabrauðmolanna eftir að borð hefur verið þurrkað og gólf sópað!!

Þetta skilningsleysi stjórnvalda, framganga á fundi með fulltrúum launþega og síðan boðun frystingu persónuafsláttar, mun einungis vera sem bensín á eld verkfalla. Stjórnvöld eiga að vinna að hag þjóðarinnar, ekki eymd hennar. Þau eiga að vinna að lausn deilunnar, ekki að kynda undir hana.

Það er engu líkara en að sú ríkisstjórn sem nú situr sé orðin leið á setunni og vinni að því hörðum höndum að gera landið stjórnlaust. Að hún sé að fara að slíta stjórnarsamstarfinu og ætli að boða til kosninga.

Vonandi skoða þá kjósendur ummæli stjórnmálamanna á Alþingi, skoði hversu trúverðugir þingmenn eru og skoði hverjir hafa staðið á sínu þegar þeir hafa verið með stjórn landsins á sinni könnu. Úthluti sínu atkvæði síðan samkvæmt því. 

 


mbl.is Persónuafsláttur frystur í þrjú ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þegar maður skoðar þessa "aðgerð", þá er engu líkara en að þarna sé um að ræða HEFND vegna viðbragða ríkisstjórnarinnar vegna viðbragða verkalýðshreyfingarinnar vegna "aðgerða(leysis)" ríkisstjórnarinnar.

Jóhann Elíasson, 21.2.2019 kl. 12:39

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Gunnar.

Vel orðaður pistill, segir kjarna málsins.

Svo maður spyr sig, hvað er að á Alþingi, því ég veit að þeir sem eru í stjórnarandstöðu eru ekki skömminni skárri.

Ekki einu sinni þó deilt sé með 8.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 21.2.2019 kl. 16:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband