Vá er

Kannski má segja að tilkoma WOW hafi gert líf okkar betra, kannski ekki. Þetta er í raun getgáta sem enginn getur svarað. Margir vilja þó halda þessu á lofti og lofa Skúla fyrir.

Hitt er ljóst að sé svo, hafi tilkoma WOW aukið hagvöxt, lækkað verðbólgu, aukið kaupmátt og aukið vinnu, var þá til innstæða fyrir þeim bótum?

Fyrir hrun var gósentíð hér á landi, gengið svo hagstætt neysluþjóðinni að annað eins hafði aldrei þekkst og hingað flæddu gámaskipin full af vörum sem við í raun höfðum engar forsendur eða efni á að kaupa. Svo mikill var innflutningurinn að flutningafyrirtækin stóðu í ströngu við að finna pláss fyrir alla gámana. Bankarnir skekktu hér hagkerfið með blekkingum og skaðinn varð gríðarlegur. Kannski má segja það sama um WOW, þó það sé mun minna að umfangi, kannski má segja það sama um fleiri fyrirtæki sem rekin eru með duldu tapi árum saman.

Ég er ekki að segja að við eigum að setja hér upp einhverskonar lögreglu, að stjórna eigi stærð fyrirtækja á einhvern hátt eða velja hverjir megi og hverjir ekki.

Hitt verðum við að skoða, hvernig hægt sé að stjórna hér hagkerfinu án stórra áfalla, áfalla sem bitna ætið á þeim sem minnst mega sín og eiga allra minnstu sök á því hvernig fer.

Eitt af því er að fylgjast með rekstri fyrirtækja, sér í lagi þeirra sem stærri eru og grípa inní áður en illa fer. Að koma því svo fyrir með einhverjum hætti að einstaklingur eða lítill hópur fólks geti ekki keyrt sín fyrirtæki í botnlaust tap og jafnvel haldið þeim á floti þannig um lengri tíma, með tilheyrandi skaða fyrir okkur sem þjóð.

Rekstur fyrirtækja er auðvitað ekkert auðveldur, stundum koma áföll og illa gengur um einhvern tíma en svo byrtir upp og úr rætist. Þetta er eðlilegt, oftar en ekki er erfitt að spá um það ókomna. En þegar fyrirtæki sem rekið er með miklu tapi ár eftir ár er ljóst að eitthvað stórt er að. Þegar við það bætist að viðkomandi fyrirtæki er rekið á þeim grunni að bjóða þjónustu sína á þeim verðum sem lægst eru hverju sinni, er ljóst að margra ára tap getur aldrei unnist upp.

Varðandi WOW, sem var rekið sem einkafyrirtæki og því reikningar þess ekki eins opnir og ef um hlutafélag væri að ræðas, var kannski erfitt að fylgjast með hversu mikið og stórt tapið var, eða hver skuldasöfnun þess var. Hitt má ljóst vera að mörg teikn voru á lofti um mikla erfiðleika.

Þegar flugfélag er komið í margra mánaða skuld með lendingagjöld er ljóst að illa er komið. Þegar flugfélag skuldar leigu á grunnbúnaði sínum, flugvéluunum, er ljóst að eitthvað stórt er að. Þó eru fyrstu og sterkustu merki þess að fyrirtæki er komið í alvarlegann vanda þegar það er farið að skulda lögbundin gjöld starfsmanna sinna. Öll þessi teikn hafa legið á borðinu um langann tíma hjá WOW air og því átt að vera fyrir löngu ljóst að þar voru mjög alvarlegir hlutir í gangi. Þegar við bætist að þetta fyrirtæki byggir sína tilveru á að bjóða lægstu fargjöld milli staða, má hverjum vera ljóst að ekki yrði snúið til baka. Að útilokað yrði að fyrirtækið gæti nokkurn tímann rétt sig af.

Það er því nánast hlægilegt í skelfingunni að nú komi hver stjórnmálamaðurinn og spekingurinn og lýsi því yfir að hér hafi eitthvað óvænt og alvarlegt skeð. Vissulega alvarlegt, en fráleitt óvænt. Mörg fyrirtæki eru farin að boða uppsagnir, sum vegna sannanlegs taps við fall WOW air, sum til þess eins að tryggja sína eigendur. Svo eru fyrirtæki sem virðast ætla að nýta þá stöðu sem upp er komin og kenna henni um samdrátt, samanber byggingafyrirtækið sem nú boðar uppsögn vegna falls flugfélags! Og stjórnmálamenn baða sig í sviðsljósinu og boða neyðarfundi af miklum krafti, eins og slíkir fundir geti eitthvað gert. Skaðinn er skeður!

Stígandi lukka er best. Að byggja hana á bólu hefur aldrei gengið. Þetta sáum við í bankaævintýrinu, þar til það ævitýri varð að skelfingu og þetta sjáum við í WOW, þó enn sé eftir að sjá hversu stór skelfingin verður.

Hitt er borðleggjandi að höfundur þessa falls munu ekki þurfa að bera mikla ábyrgð, ekki frekar en höfundar bankahrunsins. Skaðinn mun lenda á öðrum. Starfsfólk WOW air mun verða verst úti en fjárhagslega tapið mun lenda á heimilum landsins. Þar mun engu breyta hvort einhver tengsl þau heimili hafa átt við WOW eða ekki.

Skúli heldur bar upp í Hvalfjörð og hreiðrar um síg á óðali sínu.

 

 

 


mbl.is Neyðarfundur vegna WOW air
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hélt að eitthvað hefði mátt læra af hruninu

Skúla virðist hafa tekist að reka tréflís í gatið á skektunni, í von um að takast að róa í land áður en hún óhjákvæmilega sekkur.

Það verður að segjast eins og er að Skúli er nokkuð sleipur í viðskiptum. Eftir að hafa kafsiglt einu flugfélagi tekst honum að fá hluta kröfuhafa til að breyta skuldum í hlutabréf. Síðan er ætlunin að selja rest. Sjálfur mun Skúli væntanlega labba frá þessu óskaddaður en hinir nýju hluthafar þurfa að bera skaðann. Fyrirtækinu verður ekki bjargað, dauðastríðið einungis lengt.

Það er annars magnað hvað einum manni getur tekist að valda miklum skaða. Hvað eitt lítið flugfélag getur haft áhrif á kjör margra einstaklinga, sem jafnvel aldrei hafa komið nálægt vélum þess flugfélags eða haft nokkur afskipti af því á nokkurn hátt.

Samkvæmt fréttum mun verða verðbólguskot, ef WOW með sínar skuldir verður látið rúlla. Slíkt verðbólguskot mun þó ekki hafa áhrif á fjármagnskerfið í landinu, heldur fyrst og fremst það fólk sem er að reyna að koma yfir sig þaki, eignast íbúð. Það fólk mun bera allan þunga af þeim skaða sem einn maður hefur valdið.

WOW skuldar rúma 20 milljarða. Sagt er að verðbólgan geti farið upp í 6% við fall fyrirtækisins. Gangi það eftir munu skuldir heimila landsins hækka rúma 50 milljarða. Þannig að fjármagnsöflin munu græða um 30 milljarða á þessu!

Þetta er hreint út ótrúlegt, svo ekki sé meira sagt. Hvernig í ósköpunum er þetta hægt?

Þetta sýnir hversu arfavitlaus verðtrygging lána er. Þar breytir engu hversu ábyrgir lántakendur eru, hversu duglegir þeir eru að standa við sínar skuldbindingar eða hversu gott veð liggur að baki lánum. Einn maður, fullur að uppskrúfuðum loftdraumum, knúinn áfram af óstjórnlegu egói, getur rústað lífi fjölskyldna landsins á einu bretti.

Ég hélt að eitthvað hefði mátt læra af hruninu!!


mbl.is „Erum að vinna þetta mjög hratt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er erfitt að vera Vestlendingur

Það er erfitt að vera fæddur uppalinn og búandi á Vesturlandi um þessar mundir og liggur við að maður skammist sín fyrir það. Héðan eru ættaðir tveir ráðherrar og annar þeirra þingmaður kjördæmisins. Þessir ráðherrar eru Guðlaugur Þór Þórðarson, ættaður og uppalinn í Borgarnesi og Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, þingmaður Norð-Vesturkjördæmis og uppalin á Akranesi. Þessir tveir ráðherrar bera þungann af því að svíkja land og þjóð með því að koma yfirráðum yfir orku okkar og náttúru undir vald ESB.

Bæði tala þau mikinn um að ekki sé verið að flytja vald úr landi. Engin rök eða staðreyndir flytja þau þjóðinni um að svo sé, nefna eingöngu einhverja skoðun sem enginn fær að sjá. Væntanlega eiga þau þar við álit þeirra lögfræðinga sem enn fylgja þeim að málum, lögfræðinga sem hafa verið kveðnir í kútinn af færustu sérfræðingum í Evrópurétti.

Enn hefur hvorugt þeirra rökstutt hvers vegna við eigum að taka tilskipun ESB um orkupakka 3 upp. Eru hætt að bera við þeirri vitleysu að okkur sé skylt að samþykkja af því einhverjir embættismenn hafi skrifað undir. Allir vita að svo er alls ekki, enda væri þá til lítils að halda úti Alþingi, væri nóg að hafa einhvern starfsmann hjá Póstinum með stimpil. Þar gæti hann bara stimplað tilskipanir ESB jafn skjótt og þær berast til landsins.

Þetta er farið að minna skuggalega á Icesave málið, enda sömu öfl sem mæla fyrir þessum pakka og vildu að við samþykktum Icesave samningana.

Það er akkúrat ekki neitt í þessum pakka sem er til góða fyrir þjóðina. Hins vegar má tína margt til sem slæmt er fyrir okkur. Þetta vita þessir ráðherrar en kjósa að skella skollaeyrum yfir því. Allt frá upphafi hafa þau haldið því fram að engin hætta væri á að rafstrengur yrði lagður til annarra landa þó tilskipunin yrði samþykkt. Þetta viðurkenna þau að sé rangt, þar sem nú skal setja fyrirvara á tilskipunina um að það muni verða í valdi Alþingis að samþykkja slíkan streng.

Vandinn er að slíkir fyrirvarar hafa aldrei haldið gagnvart tilskipunum ESB eða samskiptum við sambandið, svona yfirleitt. Því er  þessi fyrirvari jafn mikils virði og pappírinn sem hangir við klósettskálar landsmanna. 

Ef upp kemur sú staða að erlent fyrirtæki óskar þess að leggja streng og Alþingi hafnar því, snýr þetta fyrirtæki sér beint til ESA. Þar mun verða reynt að koma viti fyrir íslenska ráðamenn og ef það ekki dugir mun málið fara fyrir EFTA dómstólinn. Hann á ekki annarra kosta völ en að dæma samkvæmt lögum. Undanþágur gilda ekki fyrir þeim dómstól, hafa aldrei gert og munu aldrei gera. Þurfum ekki annað en að hugsa nokkra mánuði aftur í tímann, til dóms varðandi frystingu á kjöti sem flutt er til landsins. Landbúnaður er utan lögsögu EFTA dómstólsins, en vegna þess að gerður var samningur um innflutning á kjöti frá löndum ESB, fyrir nokkrum árum, samningur sem hafði bókun um að allt kjöt skildi vera fryst, dæmdi þessi dómstóll samt í málinu og horfði einungis til samningsins, ekki bókunarinnar.

Hitt er aftur verra, að ef til valda komast flokkar eins og Viðreisn og Samfylking, er ljóst að umsækjandi þarf ekki að fara með málið fyrir dómstóla, slík umsókn um sæstreng yrði samþykkt með lófaklappi á Alþingi!

Það liggur fyrir að IceLink er kominn á forgangslista ESB um millilandatengingu. Það liggur fyrir að erlent fyrirtæki hefur kastað miklum fjármunum í rannsóknir og þróun á sæstreng milli Íslands og Bretlands (Írlands ef af BREXIT verður). Þetta fyrirtæki vill fá eitthvað fyrir sinn snúð, þannig að búast má við umsókn fáum dögum eftir að Alþingi hefur afgreitt þennan pakka.

En það er fleira sem skeður. Orkupakki 2 lagði á öll lönd að markaðsvæða verð orku, þ.,e. öll orka átti að vera boðin á uppboðsmarkaði. Þetta var val og við íslendingar höfum ekki enn tekið upp það kerfi. Orkupakki 3 skildar öll orka skuli seljast á slíkum markaði. Þetta mun strax leiða til hærra orkuverðs og í raun geta orkufyrirtækin þá stjórnað verðinu með skömmtun á markaðinn, sér í lagi hér á landi meðan við erum ekki tengd. Á svo litlum markaði sem hér er, er útilokað að neytendur geti þar einhverju ráðið. Eftir að strengurinn kemur mun síðan orkuverð stökkbreytast, verða svo hátt að flest eða öll fyrirtæki landsins leggja upp laupana, landið verður óbyggilegt.

Eitt enn má nefna og kannski er þar skýringin á hegðun þeirra Kolbrúnar, Guðlaugs og fleiri þingmanna Sjálfstæðisflokks. Strax eftir samþykkt pakkans mun koma bréf frá Brussel þar sem stjórnvöldum verður tilkynnt að það standist ekki að allur eignahlutur Landsvirkjunar sé í höndum ríkisins og tveggja sveitarfélaga. Fyrirtækið skuli einkavætt á evrópska efnahagssvæðinu.

Orkupakki 3 fjallar fyrst og fremst um flæði orkunnar milli landa og miðstýringu þess. Vetrarpakkinn, þ.e. orkupakki 4 er kominn á lokastig innan kerfis ESB. Hann mun fjalla um stýringu á framleiðslu orkunnar. Ef pakki 3 verður samþykktur er erfitt að sjá að ráðamenn hér á landi hafi kjark til að hafna pakka 4.

Þá mun landið fyrst fara að blæða. En kannski gerir það ekkert til, landið verður hvort eð er komið í eyði.

Kjarkleysi og aumingjaskapur ráðamanna er með einsdæmum. Þó hafa þeir eitthvað sterkasta vopn sem nokkur stjórnmálamaður getur haft, til að hafna þessum ólánspakka, sjálfa grasrót sinna flokka. Bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur samþykktu á sínum landsfundum að hafna orkupakka 3. Það er hreint með ólíkindum að þingmenn þessara flokka ætli að ganga svo freklega gegn grasrótinni til þess eins að þóknast einhverjum fjármálaöflum.

Einungis eru til tvær skýringar á slíkri hegðun, fádæma heimska eða að vel sé borgað fyrir viðvikið. Sjái einhver aðra skýringu á hegðun þessa fólks þætti mér gaman að fá að heyra hana.

Það er erfitt að trúa því fram að á Alþingi og í ráðherrastólum sitji fádæma heimskt fólk.

 


Fallegar umbúðir

Það er hægt að pakka hverju sem er í fallegar umbúðir. Innihaldið lagast lítið við það.

Þriðji orkupakki ESB mun ekki lagast við fallegar umbúðir. Þar er ekki rifist um hvort hann sé okkur hagstæður eða til skaða, einungis rifist um hvort hann skaðar okkur mikið eða lítið.

Þetta ætti að vera næg ástæða fyrir þingmenn til að hafna pakkanum, að láta ekki blekkjast af fallegum umbúðum. 

Því miður virðist vera auðvelt að blekkja hluta stjórnarliðsins og virðist sem þeir ætli að sækja sér stuðning fyrir málinu hja hluta stjórnarandstöðunni, þ.e. þeim hluta sem er andstæður sjálfstæði okkar.


mbl.is Orkupakkinn fyrir lok mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svei þeim öllum

Hlutverk stjórnvalda er að jafna hagsveiflur. Í því felst að draga saman seglin í ríkisrekstri þegar hagkerfið hitnar og auka útlát þegar það kólnar. Þetta er eitt ef megin verkefnum stjórnvalda í hverju ríki til að jafna hagsveiflur og gera fólki og fyrirtækjum auðveldara með að lifa.

Hér á landi hefur þessu gjarnan verið öfugt farið og því oft á tíðum sem hagsveiflur hér hafa verið mun stærri og valdið meiri skaða en í löndunum kringum okkur. Einhæft hagkerfi mest alla síðustu öld var síðan enn frekari valdur þessa. En nú er hagkerfið sterkara, með fleiri grunnstoðum. Því ætti að vera auðveldara að halda því stöðugu. Frumforsenda þess er þó að stjórnvöld vinni sína vinnu. Minnkandi tekjum ríkissjóðs eiga stjórnvöld ekki að mæta með því að draga saman fé til framkvæmda eða til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, heldur með því að minnka eigið bákn. Ekki er að sjá að nokkur skortur sé á fjármagni þegar kemur að því að belgja út utanríkisþjónustuna eða þegar fjölga skal aðstoðarmönnum þingmanna, svo dæmi séu tekin.

Undanfarna áratugi hefur verið nokkuð gert af því að færa verkefni frá ríki yfir til sveitarfélaga. Oftast hafa sveitarfélög farið halloka í þeim skiptum, en ríkissjóður hagnast.

Eitt af slíkum verkefnum er þjónusta við aldraða. Undir hatti sveitarfélaga var að byggja og reka dvalarheimili fyrir aldraða og víðast hvar gekk þetta ágætlega. Mörg dvalarheimili voru mjög vel rekin og íbúar bjuggu áhyggjulaust við góða þjónustu, sín síðustu æviár. Ríkið sá um hjúkrun þess fólk sem ekki gat lengur bjargað sér og fór sú þjónusta fram á sjúkrahúsum vítt og breitt um landið. Þetta fyrirkomulag gekk vel og allir ánægðir og á sumum smærri sjúkrahúsum landsins var þetta nánast grundvöllur rekstrar þeirra.

Upp úr síðustu aldamótum, þegar græðgisvæðingin herjaði á landsmenn af mikilli hörku, datt einhverjum snilling í hug að þetta væri allt of dýrt fyrir ríkið, hefur sennilega komist í tölvu með exelforriti. Farið var í þá vinnu að semja við sveitarfélögin um að þau tækju yfir hjúkrun aldraðra. Þetta skyldi gert með því að sveitarfélög gætu fengið aukið fjármagn frá ríkinu fyrir hvert rými sem þau breyttu úr dvalarrými yfir í sjúkrarými, á þeim dvalarheimilum sem þau hefðu yfir að ráða. Á þetta stukku sveitarstjórnarmenn, sá meiri peninga en gleymdu þeirri staðreynd að rekstur sjúkrarýmis er mun dýrari en rekstur dvalarrýmis.

Afleiðing þessa varð sú að rekstur dvalarheimila gengur mjög illa og á sumum stöðum er reksturinn ósjálfbær. Jafnvel dvalarheimili sem rekin voru með sóma ná nú vart endum saman. Álag á starfsfólk hefur aukist fram úr hófi, enda var ekki reiknað með fjölgun þess við þessa breytingu. Enn er reynt að hlúa að sjúklingum eftir besta hætti, en jafnvel þar er farið að verða brestur á, á sumum heimilum. Greiðslur úr jöfnunarsjóð eru eini grundvöllur þess að ekki er búið að loka flestum dvalarheimilum landsins.

Á sumum sjúkrahúsum standa heilu hæðirnar auðar, öðrum hefur verið lokað. Hagnaður þeirra af breytingunni var minni en enginn. Rekstrargrundvöllur minni sjúkrahúsa á landsbyggðinni nánast hvarf með þessari breytingu og sífellt meiri þjónusta var lögð niður. Æ oftar þarf landsbyggðafólk að sækja lækninga á höfuðborgarsvæðið.

Fá eða engin úrræði eru lengur til fyrir þá sem vilja eyða efri árum áhyggjulaust á dvalarheimilum. Þangað inn fer enginn lengur nema hann liggi fyrir dauðanum. Aldraðir verða því að búa heima, oftar en ekki í allt of stóru og dýru húsnæði og bíða þess að heilsan sé orðin nægilega léleg, hellst rúmliggjandi, til að komast í áhyggjuleysið sem dvalarheimili aldraðra var ætlað að mæta.

Og nú þegar sumum þykir hagkerfið vera að kólna, eru stjórnarherrar svo uppþornaðir og skyni skroppnir að þeim dettur ekkert annað í hug en að skerða enn frekar kjör og aðstæður aldraðra. Hafa gert aldraða að einhverri jöfnu í exelforriti.

Svei þeim öllum!!

 


mbl.is Kólnandi hagkerfi ástæða skerðingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband