Áttatíu og eitthvað

Stórveldið Ísland sendi 80 og eitthvað fulltrúa til Dúbaí, þvert yfir hnöttinn. Þar stendur enn yfir ráðstefna sem kallast Cop28, eða 28 unda loftlagsráðstefna Sameinuðuþjóðana. Þá ráðstefnu sækja um 97.000 einstaklinga.

Hvers vegna sendum við bara 80 og eitthvað, af hverju ekki 180 og eitthvað eða 1080 og eitthvað. Við erum nefnilega svo öflug á heimsvísu, svo ofboðslega rík, nema kannski þegar kemur að grunnþjónustunni hér heima. Þá eru fáir aurar til. Á okkar ráðamenn er sko hlustað á erlendri grundu og ráð þeirra mikils metin. Enda ljóst að Ísland spilar lykilhlutverk þegar kemur að stjórnun veðurfarsins. Það má skilja á orðum fyrrum forseta vors, sem eitt sinn naut aðdáunar og trausts þjóðarinnar. 

Það er vísindalega sannað að skömmu eftir að lauf fara að gulna á trjám hér á landi, tekur að kólna í Evrópu og meir en það, það kólnar þá um allt norðurhvel jarðar! Því ættum við að vera dugleg að senda sem flesta ráðamenn okkar út í heim, sem lengst og sem oftast. Þannig gætum við hugsanlega frestað eitthvað banvænum kuldum í Evrópu og á norðurhvelinu, gætum hugsanlega lengt þann tíma sem laufin á trjánum okkar halda fallega græna lit sínum. Bónusinn væri að þessir ráðamenn gera þá ekkert af sér hér heima á meðan, meðan heimsbyggðin hæðist að þeim. 

Cop 28 er semsagt 28 ráðstefnan á jafn mörgum árum, þar sem heimsbyggðinni er færð sú frétt að jörðin eigi einungis örfá ár eftir til tortímingar, eða eins og forsætisráðherra okkar hafði sem lokaorð í sinni ræðu, suður í Dúbaí, steikingar jarðar.

Eitt skilur þessi ráðstefna eftir, sem margir hafa bent á en fáir viðurkenna. Þessar ráðstefnur snúa um eitt verkefni og aðeins eitt. Að færa peninga frá almenningi til valdra auðmanna. Sönnunin liggur svo skýr á borðinu að fáir geta efast. Forríkur forstjóri stærsta olíufyrirtækis Saudí Arabíu, háttsettur innan samtaka olíufyrirtækja þar syðra, nær með auð sínum að kaupa sig sem formann ráðstefnunnar! Hann hélt hjartnæma opnunarræðu á henni, þar sem hann fór stórum og þungum orðum um olíuvinnslu heimsins, taldi að þar mætti finna sökudólga. Ekki hafði hann yfirgefið höllina þegar hann, í viðtali eftir þessa hjartnæmu ræðu sína, fullyrti að notkun jarðefnaeldsneytis væri ekki skaðleg jörðinni, að engar vísindalegar rannsóknir staðfestu það.

Þarna var auðvitað komin skýring þess að réttlætanlegt væri fyrir hann að kaupa formannsæti ráðstefnunnar. Ekki var það til að standa að því að fórna eigin auðæfum, alls ekki. Nei, þarna náði hann að gera vægi orða sinna verulegt. Enda er það svo að vart berast nú fréttir af þessari ráðstefnu. Reyndar fræddi mogginn okkur um að nokkur mengun væri í Dúbaí. Sennilega bæði á götum þar syðra sem og í hugum þeirra 97 þúsund gesta sem ráðstefnuna sækja.

Miklar fréttir voru um einhver straumhvörf myndu verða á ráðstefnunni, áður en hún hófst, þar sem færa átti heimsbyggðina aftur um eina öld eða svo, á næstu fimm til tíu árum. Minna fer af þeim fréttum nú, meira að segja rúv þegir að mestu. 

Vonandi skilar þessi ráðstefna því að fólk hugsi aðeins, opni hug sinn og forvitnist. Forvitni er jú forsenda vísinda, að leita sannana. Að fólk átti sig á því að náttúrunni verði ekki bjargað með því að fórna henni. Við erum reyndar komin nokkuð vel á leið í þeirri vegferð. Frumskógar eru ruddir til að framleiða "náttúrulegt" eldsneyti, ökrum til matvælaframleiðslu er breytt í sama tilgangi. Ósnortinni náttúru og blómlegum landbúnaðarhéruðum er fórnað undir sólarrafhlöð og stórmengandi vindorkuver. 

Það mun ekki verða hlýnun jarðar sem útrýmir mannverunni á jörðinni, heldur meintar aðgerðir til stjórnunar hitastigs jarðar. Fórn náttúru og endalaus skattlagning mun kollvarpa tilveru mannsins. Og þegar við aumingjarnir sem búum til verðmætin, föllum fyrir hungrinu, verða peningar auðrónanna lítils virði.

Íslenskir stjórnmálamenn ráða þar litlu, eru ekki einu sinni peð á skákborði heimsmálanna! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Góður Gunnar, algjörlega með kjarnann.

Við björgum ekki náttúrunni með því að fórna henni.

Við björgum ekki mannkyninu með því að afneita forsendum tilvistar þess, sem er orka.

Og ekki hvað síst, þá tökumst við ekki á við loftslagsvandann með því að takast ekki á við hann.  Hinar meintu markaðslausnir auðrónanna hafa aukið vandann með því að skattleggja orkuhagkvæma framleiðslu til kolaorkuvera risaþjóða Asíu, þar sem það er mengað eins og enginn sé morgundagurinn.

Stærra sjónarspil hefur ekki verið hannað í sögu mannkyns en þessar meintu bjarganir.

Það er ekki von þó Halldór heitinn Jónsson hafi talað um 10.000 loftslagsfífl, þó þau hafi síðast verið 80.000 þúsund.

Svei attan.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 7.12.2023 kl. 07:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband