Fullveldið 105 ára og sjálfshól rásar 2.

Mikil mistök voru gerð fyrir fjörutíu árum síðan, þegar rás 2 var hleypt út í loftið. Ekki var hægt að velja verri dag en sjálfan fullveldisdaginn til að starta þeirri útvarpsrás.

Rás 2 má muna sinn fífil fegurri. Nú er svo komið að fáir hæla þessari stöð sem einhverjum meiriháttar menningarmiðli. Því er einungis eitt til ráða hjá starfsfólki hennar, að hæla sjálfu sér! Hvert sinn sem ég hef álpast inn á þessa útvarpsrás í dag, hefur dunið á manni sjálfshólið. Fer reyndar lítið fyrir hóli á það fólk sem ruddi þar brautina, en þess meira hæla starfandi starfsmenn stöðvarinnar sjálfu sér. Sjálfshól er einn angi minnimáttarkenndar og ekki annað séð en innan stöðvarinnar sé fólk haldið alvarlegri minnimáttarkennd.

Í dag er fullveldið 105 ára. Ekki er minnst á þann áfanga hjá starfsfólki rásar 2. Ekki frekar en þegar við héldum upp á aldarafmæli fullveldisins, fyrir fimm árum síðan. Þá voru starfsmenn stöðvarinnar svo uppteknir af því að halda upp á 35 ára afmæli rásarinnar. Taldi það merkari tímamót en aldarafmæli fullveldis okkar.

En hvað sem starfsfólk rásar 2 segir, þá eigum við þjóðin stórafmæli, fullveldisafmæli. Fullveldið gaf þjóðinni yfirráð yfir löggjafavaldinu, dómsvaldinu og framkvæmdavaldinu. Urðum fullvalda þjóð í konungsríki. Þetta var stærsta og afdrifaríkasta skrefið í átt til stofnunar lýðveldis Íslands.

En það eru blikur á lofti. Löggjafavaldið og jafnvel dómsvaldið hefur verið fært í litlum en mörgum skrefum undir erlend yfirráð. Framkvæmdavaldið telur sig ekki lengur starfsfólk landsmanna, talar frekar máli þessara erlendu aðila.  Enn er talað um að Ísland sé fullvalda lýðveldi. Fullveldið byggir á fullum yfirráðum yfir eigin þegnum. Svo er ekki í dag. Við gerð EES samningsins var bent á að fullveldinu væri að hluta fórnað. Að sá samningur stæðist ekki stjórnarskrá. Síðan eru liðnir um þrír áratugir og hægt og sígandi verið gengið á rétt landsmanna og stjórnarskrá, gegnum þann samning. Hin síðari ár hefur svo keyrt um þverbak. Regluverk ESB, gegnum EES samninginn flæðir inn í landið. Fæstir þingmenn nenna að kynna sér allt það regluverk og samþykkja hljóðalaust. Þannig höfum við glatað sjálfræði yfir einni mestu auðlind okkar, orkuauðlindinni.

Á starfandi þingi nú liggja svo fyrir áætlanir um að samþykkja enn frekari eftirgjöf af fullveldinu, með svokallaðri bókun 35. Þar fer fyrir málinu formaður þess stjórnmálaflokks sem kennir sig við sjálfstæði þjóðarinnar. Kaldhæðnin getur vart orðið meiri. Verði af samþykkt þeirrar bókunar, verður ekkert fullveldi eftir til að halda uppá.

Þá getum við glaðst með sjálfhverfa starfsfólkinu á rás 2, þann 1. des hvert ár. Gætum jafnvel sent skjaldarmerki rásarinnar til Winnipeg í Kanada, þar sem það gæti staðið við hlið styttunnar af Jóni Sigurðssyni. Hætt er þó við að afkomendum íslendinganna sem þangað fluttu, þegar sjálfstæðisbarátta okkar stóð sem hæst, þyki slík gjöf móðgandi. Þar vestra er minning Jóns Sigurðssonar og fullveldisstofnunin í hávegum höfð.

Það færi betur ef landsmenn ræktu arf sinn jafn vel og afkomendur þess fólks sem þurfti að flýja héðan náttúruhamfarir, örbyrgð og fátækt, mitt í baráttunni um fullveldi landsins okkar.

Það færi betur ef við stæðum vörð þeirrar baráttu er forfeður okkar unnu, í skugga hafísára, stórgosa, fátæktar og landflótta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Nú skil eg humor stórstjörnu Gísla Marteins þegar ég fletti á Ruv.í dag. Hún fékk meira að segja forsætisráðherra okkar í viðtal; reglu lega smart mest um okkar elkulega Sjálfsstæði,eða ég tók það svo!!  

Helga Kristjánsdóttir, 1.12.2023 kl. 19:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband