Færsluflokkur: Umhverfismál

"megas"

Þessi pistill er ekki um hinn ágæta listamann Megas, þó vissulega sé hægt að skrifa langan og góðan pistil um þann dreng. Þessi pistill er um grein eftir Guðmund Pétursson, rafmagnsverkfræðing, þar sem hann segir frá hugmynd um framleiðslu á því sem hann kallar "megas". Áhugaverð grein.

Metan hefur verið framleitt og selt hér á landi um nokkuð skeið, en aldrei náð því flugi sem til var ætlast. Þar kemur fyrst og fremst til að dreifikerfi er ekki til staðar, einungis örfáir sölustaðir til og metanið þar selt undir lágum þrýstingi. Þetta veldur því að fáir hafa aðgang að sölunni og þeir sem hana hafa lenda oftar en ekki í vandræðum með áfyllingu á sína bíla.

Guðmundur bendir á að mikil mengun af CO2 kemur frá jarðgufuvirkjunum, nokkuð merkileg staðreynd þar sem manni hefur verið tjáð að slík orkuframleiðsla væri vistvæn. Þessa mengun, sem og mengun frá stóriðjuverum, mætti fanga og framleiða þannig metanrafeldsneyti. Þetta eldsneyti megi síðan þétta niður í vökva og selja þannig, bæði til nota innanlands á stór farartæki, vinnuvélar, skipaflotan og jafnvel flugflotann. Einnig er auðvelt að selja slíka afurð úr landi, til þurfandi meginlandsins.

Framleiðslugeta okkar á metani er mikil. Í dag er það einkum framleitt úr sorpi, hér á landi, en hauggas mætti vinna í stórum stíl. Þetta er þegar gert erlendis og framleiðendur vinnuvéla horfa til þessarar lausnar. T.d. eru þegar komnir á markað dráttavélar fyrir bændur sem ganga fyrir slíku gasi. Slík gasframleiðsla kostar nokkurt stofnfé og eins og staða bændastéttarinnar er hér á landi er ljóst að þeir munu seint koma slíkri framleiðslu á koppinn. Sjálf framleiðsla metan er í sjálfu sér ekki svo flókin, en að koma því í fljótandi form er nokkuð flóknara. Eftir að það hefur verið gert er hins vegar lítið mál að flytja það milli landa.

Grein Guðmundar um framleiðslu á rafeldsneyti er fróðleg. Slík framleiðsla, ásamt aukinni framleiðslu á metangasi, gæti hæglega hjálpað okkur við orkuskiptin, auk þess að bæta enn einni stoð undir gjaldeyrisöflun okkar.

 


Heimur versnandi fer

Allt frá því ég fyrst man eftir mér, sem er reyndar lengra síðan en ég man, hefur maður heyrt talað um að heimurinn fari versnandi, að allt hafi verið svo miklu betra áður fyrr. Þó er það svo að mannskepnan hefur það alltaf betra en áður.

Á mínum ungdómsárum var það kjarnorkuváin. Manni var innprentað að kjarnorkustríð væri að skella á. Viðkvæm börn tóku þetta nærri sér og búa sum enn af þeirri ógn sem að þeim var haldið. Næst voru það skógarnir sem áttu að hverfa. Hvert pappírssnifsi skildi nýtt til hins ýtrasta, því annars myndu skógar heimsins hverfa, súrefni hverfa og við kafna. Svo kom hafísinn að landinu og miklir kuldar voru um allan heim. Þetta var talið merki um að ísöld væri að skella á og að Ísland myndi verða komið undir tveggja kílómetra þykkan ís fyrir aldamót. Loks lauk barnaskóla.

En þetta var þó ekki búið. Einhverjum snilling út í heimi datt í hug að halda því fram að olíulindir væru að tæmast og innan örfárra ára myndi skella á mikil ógn um heimsbyggðina vegna orkuskorts. Fréttamiðlar voru duglegir að endurvarpa þessari speki. Þegar ljóst var að þarna var farið fram með fleipur, tók við ógnin um að jörðin myndi steikjast, með öllu sem á henni er. Þetta er sennilega sú mantra sem lengst hefur lifað. Með reglulegu millibili er gefin út spá um hvenær heimsendir verður. Þessar spár hafa verið nánast eins nú í nærri þrjá áratugi, með þeirri einu breytingu að lokadagurinn færist örlítið aftur.

Það efast enginn um að hlýnað hefur á jörðinni síðustu áratugi. Það er hið besta mál, verra væri ef það hefði kólnað. Þarna er mið tekið af upphafi almennra hitamælinga, en vandinn er bara sá að upphaf almennra hitamælinga er í lok litlu ísaldar, kaldasta tímabils þessa hlýskeiðs. Vill fólk virkilega fá slíkt kuldatímabil aftur? Vill fólk geta gengið á ís milli Akraness og Reykjavíkur?

Hlýnun jarðar er af hinu góða, kólnun væri verri. Auðvitað mun breytt hitastig hafa áhrif á sum byggð ból, en að öllu jöfnu verða þau áhrif óveruleg. Önnur svæði verða byggilegri. Vandinn er hins vegar sá að ekki er víst að þessi hlýnun haldi áfram, hefur reyndar látið á sér standa nú síðustu ár. En vonum það besta.

Sérfræðingar í lygum, þ.e. pólitíkusar, hafa tekið þessari spá af mikilli gleði, enda óttastjórnun eitt auðveldasta stjórnarform sem til er - til skamms tíma. Þetta hefur meðal annars leitt til þess að nú er skollin á einhver mesta ógn yfir Evrópu, ekki hlýnandi loftslag, heldur orkuskortur. Orkuskortur af þeirri stærðargráðu er aldrei áður hefur þekkst. Þetta eru ekki náttúruhamfarir, þetta er að öllu leiti manngerð ógn.

Meðan sérfræðingarnir í lygum sitja saman og spjalla um hvernig þeir geta snúið á náttúruna, gera þeir ekkert til að afstýra þeirri manngerðu ógn sem þeir hafa skapað, frekar að aukið verði í! Náttúran verður aldrei tamin, einungis hægt að aðlagast duttlungum hennar. Hitt má laga, manngerð mistök!

Hafi einhvertíma verið ástæða til að halda að heimur fari versnandi er það nú. Ekki vegna náttúruhamfara, heldur vegna þeirrar ótrúlegu heimsku sumra að halda að mannskepnan geti tamið náttúruna, með því einu að auka örbyrgð og vesaldóm jarðarbúa. Hvert er þetta fólk eiginlega komið?!

Hér er örstutt myndband með Dr Patrick Moore, umhverfisfræðingi. Hann er kannski þekktastur fyrir að vera einn af stofnendum Greenpeace og forseti þeirra samtaka um skeið. Þessi maður hefur lagt sig um að sinna sinna því er hann lærði, var um tíma fulltrúi Kanada í hringborði SÞ um þessi mál. Þarna fer enginn sérfræðingur í lygum, heldur sérfræðingur í umhverfismálum. 


mbl.is „Allir verða að vera sammála“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æran og orkan

Nú held ég að sá gamli sé búinn að tapa glórunni. Sæstrengur er það síðasta sem við Íslendingar þurfum.

Aðstaða Grænlands og Íslands ansi misjöfn þegar að orkumálum kemur. Fyrir það fyrsta er Grænland utan EES og ESB, meðan við Íslendingar erum bundnir ESB gegnum EES. Þar sem ESB hefur skilgreint orku sem vöru og Alþingi okkar samþykkt þá skilgreiningu, eru orkumál okkar að stórum hluta komin undir þá deild innan ESB er kallast ACER, deild sem sér um að stýra orkumálum ESB ríkja. Meðan við erum ótengd rafkerfi ESB getum við haft einhverja stjórn sjálf á okkar málum, s.s. verði orkunnar, hvar og hversu mikið skuli virkja og þar fram eftir götum. Ef við tengjumst þessu raforkukerfi ESB með sæstreng missum við endanlega alla stjórn á þessu. Þá er ljóst að orkuverð hér á landi mun verða á sama grunni og innan þessa kerfis og sveiflast í takt við það. Þetta mun leiða til margföldunar orkuverðs hér á landi, um það þarf ekki að deila. Hins vegar geta menn deilt um hversu margföld sú hækkun verður. Fyrst finna landsmenn þetta á pyngju sinni og fljótlega einnig á atvinnuöryggi sínu.

Í öðru lagi er ljóst að rafstrengur í sjó er mun erfiðari og dýrari framkvæmd en slíkir strengir á landi, jafnvel þó þeir séu grafnir í jörðu. Þá er munur á viðhaldi þeirra geigvænlegur, eftir því hvort þeir eru djúpt í úthafinu eða uppi á þurru landi. Það þarf ekki einu sinni að líta á landakort til að átta sig á hvert hugur Grænlendinga mun liggja, þegar að slíkum útflutningi kemur. Þeir munu auðvitað velja þá leið sem styðst er yfir haf, þannig að strengurinn verði sem mest á þurru landi. Ísland er í órafjarlægð frá þeirri leið.

Blessunarlega eigum við mikla orku hér á Íslandi og jafnvel þó við séum að stórum hluta búin að hafa orkuskipti varðandi heimilin og jafnvel þó okkur takist að skipta um orku á öllum okkar fartækjum, á láði, legi og í lofti, munum við sjálfsagt verða aflögufær um einhverja orku til hjálpar öðrum þjóðum.

Þá hjálp gætum við lagt til með því að taka að okkur orkusækin fyrirtæki hér á landi og sparað þannig þeim þjóðum sem illa eru sett varðandi orkuöflun. Þannig getum við lagt okkar að mörkum til að afnema einhver kolaorkuver meginlandsins. Þessi fyrirtæki munu þá framleiða sína vöru með sannarlega hreinni orku, á lágu verði. Atvinnuöryggi landsmanna mun þá tryggt og væntanlega mun verð á raforku til neytenda haldast á viðráðanlegu verði áfram.

Að selja orkuna úr landi gegnum sæstreng, sér í lagi undir stjórn erlendra hagsmunaaðila, mun gera Ísland að þriðjaheims ríki innan fárra ára. Æra þeirra sem fyrir slíku standa mun verða lítt metin.

 

 


mbl.is Sæstrengur góð leið til að nýta hreina orku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað skal kjósa?

Nú eru innan við tvær vikur til kosninga og enn hafa frambjóðendur ekki minnst á stóru málin. Það er rifist um dægurmál líðandi stundar, sama hversu smá þau eru. Athugasemdir samfélagsmiðla virðast ráða orðum frambjóðenda.

Enn hefur ekkert verið rætt um orkupakka4, ees/esb samstarfið eða neitt sem máli skiptir fyrir framtíð okkar lands. Ekki er rætt um vindmillubarónana sem flykkjast til landsins og vilja leggja undir sig hvern hól fyrir vindmilluófreskjur, ófreskjur af þeirri stærð að fólki er framandi. Það er ekkert rætt um erlenda auðjöfra sem kaupa hér bújarðir, gjarnan til að komast yfir laxveiðihlunnindi sem þeim fylgja. Þá forðast frambjóðendur að segja hug sinn til hálendisþjóðgarðs, vilja sennilega ekki styggja þann flokk sem að líkindum mun ráða hvernig stjórnarsamstarf verður eftir kosningar. 

Það er einungis einn flokkur, Miðflokkurinn, sem hefur rætt þessi mál, mál sem skipta framtíð okkar mestu. En þar sem fjölmiðlar landsins virðast hafa bundist höndum um að útiloka þann flokk frá pólitískri umræðu fyrir þessar kosningar, koma frambjóðendur þess flokks illa frá sér boðskapnum. Einungis einn fjölmiðill virðist standa frambjóðendum Miðflokks opinn, Bændablaðið. Sá miðill gerir ekki greinarmun á stjórnmálastefnu þeirra sem þar vilja láta ljós sitt skína. Allir fá þar áheyrn. Enda eini alvöru fjölmiðill þessa lands.

Með sama áframhaldi, meðan frambjóðendur vilja ekki eða þora ekki að gefa upp sína stefnu í stóru málunum, meðan þeir forast í smámálum dagsins í dag, er ekki nema einn flokkur sem kemur til greina að kjósa, það er sá flokkur sem þorir að nefna stóru málin, þorir að taka afstöðu til framtíðar og lætur ekki hversdagsleg dægurmál draga sig niður í svaðið.

Kjósendur, skoðið stefnumál flokkanna. Allir flokkar nema Miðflokkur eru með nákvæmlega sömu stefnu, froðu um ekki neitt. Þar er enginn munur á Sjálfstæðisflokki eða VG né neinum flokk þar á milli. Sjálfstæðisflokkur er kominn á fulla ferð í auglýsingum, þar sem sömu málum er lofað og fyrir síðustu kosningar, kosningarnar þar á undan og kosningarnar.... Það sama má segja um Samfylkingu, þó forustan láti minna metna innan flokksins um að halda uppi merki aðildarumsóknar og evru. Forusta þess flokks veit að það er gott að geta verið beggja megin borðsins og lætur því þá sem mega missa sig um erfiðu málin. Viðreisn er að festast í evru rugli og ESB aðildarumsókn. Það kemur ekki á óvart, enda flokkurinn flís frá Sjálfstæðisflokki vegna þess máls. Framsókn er farinn að hlaupa um skóga. Formaðurinn ætlar að fjárfestra í fólki. Daginn sem hann færði þjóðinni þann boðskap, afhenti hann vegagerðinni smá auka milljónir, til að setja upp klósett hringinn í kringum landið. Hvernig næsta fjárfesting formannsins verður, verður gaman að sjá.  Um Pírata þarf ekkert að ræða, þeir eru bara píratar. Flokkur fólksins á erindi á þing, þó ekki sé nema vegna þess eina máls sem hann er stofnaður um. Hann verður þó aldrei ráðandi á þingi. Svo skulum við bara biðja guð að forða okkur frá því að kapítalistarnir sem kalla sig sósíalista komist á þing.

Það ætti ekki að vera erfitt fyrir hugsandi fólk að kjósa, einungis einn flokkur sem kemur til greina. Fyrir hina getur vandinn orðið meiri, enda fátt sem skilur forarflokkanna í sundur.


Vandi VG

Stjórnarflokkarnir þrír héldu hver og einn sinn flokksfund í gær og kynntu sínar stefnur. Magnað var að heyra formenn þessara flokka tjá sig í fréttum eftir þá fundi. Þeir sigldu þar milli skers og báru og reyndu að koma sínum málum á framfæri, án þess að styggja samstarfsflokkana. Bjarni talaði um aukna sókn í umhverfismálum, meðan Kata talar um aukna sókn í atvinnulífinu. Hún minnist hins vegar lítið á umhverfismálin, lætur Bjarna og auðvitað varaformann VG um þau mál. Og hugur varaformannsins er skýr þar, reyndar fátt annað sem hann talar um.

En vandi VG er stór, sennilega sá flokkur sem erfiðast á um þessar mundir. Umhverfismál eru kjósendum þess flokks hugleikin og er það auðvitað gott og gilt. En það er erfitt að samræma alþjóðlega loftlagsvernd og innanlands umhverfisvernd. Til að auka þátt okkar í loftlagsvernd jarðar þurfum við að virkja sem mest má og nýta þá orku til framleiðslu hinna ýmissa þarfa er jarðarbúar þurfa. Að færa þá framleiðslu frá því að vera olíu eða kolakynnt yfir í rafkynnta, með hreinni raforku. En þetta samrýmist ekki hugsjón VG, þar sem þar á bæ má hellst ekki virkja eina einustu lækjarsprænu.

Þennan vanda verður VG að yfirstíga vilji þeir láta kalla sig alvöru stjórnmálaflokk. Annað hvort horfa þeir vítt og leita lausna fyrir alla jarðarbúa, nú eða hitt að þeir horfa bara á tær sér og loka fyrir að hægt sé að framleiða hreina orku hér á landi. Það er algjör ómöguleiki að gera hvoru tveggja.

Eftir fréttir gærdagsins er ljóst að Sjálfstæðisflokkur er genginn lengra til vinstri en nokkurn tíma áður og að VG er farinn að teygja sig lengra til hægri en mörgum flokksfélaganum þykir gott. Að venju dinglar Framsókn eins og lauf í vindi, haustlauf.


mbl.is Velsæld og tækifæri með félagslegum áherslum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loftslag

Engum blöðum er um það að fletta að það hefur hlýnað hér á skerinu okkar síðustu áratugi. Þeir sem muna veðurfarið á áttunda áratug síðustu alda og reyndar nokkuð fram á þann níunda, kætast yfir þessari breytingu í veðri. Minni snjór, hlýrri vetur og jafnvel sumstaðar hlýrri sumur er eitthvað sem flestir ættu að gleðjast yfir. Hvað veldur er erfitt að segja til um, en varla er þar að kenna co2 einu um. Sjálfsagt á mannskepnan einhvern þátt í þessari hlýnun.

Nú telja sumir að ég hafi glatað þeirri litlu glóru sem til var, enda slík "hamfarahlýnun" bara af hinu slæma. IPCC segir það. Segir reyndar líka að þetta sé allt manninum að kenna og samkvæmt fréttastofu ruv má ætla að þar séu Íslendingar helsti sökudólgurinn. Beri höfuð og herðar yfir allar aðrar þjóðir í því að hita upp andrúmsloft jarðar! Hvorki meira né minna!

Nýjasta skýrsla IPCC var opinberuð um daginn, upp á rétt um 4000 blaðsíður. Ekkert nýtt kom þar fram, nánast samhljóða skýrslunni í fyrra, árið þar á undan og árið þar á undan og...  Á heimasíðu IPCC sést að þegar er hafist handa við skýrsluna fyrir árið 2022 og gera má ráð fyrir að hún verði samhljóða þeirri sem nú var opinberuð. Skemmst er frá því að segja að erfiðlega gengur fyrir IPCC að láta spádómana rætast. Enda er enn notast við sama spáforrit, enn notaðar sömu forsendur og því verður niðurstaðan jafn vitlaus og áður.

Það þarf svo sem ekki neinn snilling til að átta sig á að losun co2 af mannavöldum getur ekki verið sá þáttur sem mestu ræður. Magn co2 í andrúmslofti hefur aukist úr um 300 ppg í um 400 ppg. Þetta gerir aukningu um rúm 30%. Losun co2 af mannavöldum er talin vera nálægt 3% af heildarlosun í andrúmsloftið. Það sér því hver maður að þarna spilar eitthvað annað inn í, sennilega það nærtækasta, hlýnun jarðar. Þegar hlýnar minnkar sífreri í jörðu og við það sleppur gífurlegt magn af gösum út í andrúmsloftið. Því er líklegra að að losun co2 sé afleiðing hlýnunar en ekki orsök.

En aftur að fréttastofu ruv. Hún hefur sannarlega svarað kalli viðhlæjendur sinna í pólitík og berst nú á hæl og hnakka við gera skýrslu IPCC að kosningamáli hér. Síðasta "fréttin" þeirra fjallar um hversu miklir umhverfissóðar Íslendingar eru og vísar þar til skýrslu frá ESB, því heilaga fyrirbæri!

Það er þó margt að athuga við þá frétt. Sem von er þá notast ESB við þá aðferð að reikna mengun á haus í viðkomandi landi. Ef mengun er ástæða hnattrænnar hlýnunar á auðvitað að reikna mengun hvers lands á það landsvæði sem það ræður yfir, ekki fjölda íbúa. Við sem búum í stóru landi, sem að stórum hluta er óbyggilegt, getum aldrei komist nærri öðrum þjóðum í samanburði ESB. Það er einfaldlega útilokað. Þetta er því ekki frétt heldur áróður. Í öðru lagi er talið til gróðurleysi sem okkar sök. Gróðurleysi stafar af því að síðustu aldir voru þær köldustu frá síðustu ísöld, en nú stendur það væntanlega til bóta, með hlýnun. Losun vegna landnotkunar er þarna líka talin okkar sök, þó hún sé til þess eins að framleiða matvæli. Magn vegna þessa er stórlega ofmetið, enda stuðst við spálíkön að mestu, ekki mælingar. Þá er ljóst að aðrar þjóðir telja þetta ekki með, a.m.k. ekki Svíþjóð, miðað við það magn af heildarlosun sem þeir gefa upp.

Hvers kyns mengun er auðvitað af hinu slæma og koma á böndum á hana. Það kemur þó ekkert hlýnun jarðar við. Þar eru aðrir hlutir sem við ráðum lítið við, sem ráða för. Og jafnvel þó maður legði trúnað á að losun mannsins á co2 sé sökudólgurinn, er útilokað að hægt sé að minnka það um það magn sem þá þarf. Jafnvel þó við færum aftur um tvær aldir í þróuninni, fórnuðum öllum tölvum, símum og öllu því sem gerir líf okkar að því sem það er, myndi það ekki duga. En það má samt alveg koma böndum á almenna mengun jarðar.

Eitt er það sem enginn hefur nefnt, en er þó örugglega mun viðsjárverðara fyrir jörðina en öll önnur mengun mannsins, en það er svokallað Starlink. Þetta fyrirbæri er ætlað að tengja saman alnetið gegnum gervitungl og er hugarsmiðja Elon Musk. Hann ætlar að senda 45.000 gervitungl á sporbraut um jörðu, mun nær en önnur gervitungl eru, eða einungis í um 550 km hæð og munu ferðast þar á 28.000 km/klst. Þessi gervitungl hafa líftíma upp á 3 til 5 ár, en þá þarf að senda annað til skiptanna. Það tekur um 10 ár fyrir þau að falla til jarðar og vonast menn þá til að þau brenni upp. Gerist það ekki erum við vægast sagt í slæmum málum! Þetta segir að senda þarf 10 - 11.000 gervitungl upp á hverju ári og eftir tíu ár má búast við að jafn mikill fjöldi falli til jarðar. Það verður sannarlega sjónarspil! Á þeim tíma munu um eða yfir 100.000 gervitungl sveima um himingeiminn, í einungis 550 km hæð. Þetta er þá einungis á vegum Elon Musk. Heyrst hefur að Kínverjar séu að skoða þessa leið, einnig ýmsar aðrar þjóðir. Þá gæti fjöldinn orðið ævintýralegur.

Hvaða áhrif þetta hefur á jörðina veit enginn. Enn er einungis verið að tala um hversu slæm áhrif þetta hefur á stjörnuskoðun frá jörðu, einstaka menn velta fyrir sér hvort geimferðir leggist af vegna þessa, þar sem ekki verði komist gegnum þetta net. En hvað með áhrif á jörðina? Mun þetta net gervitungla virka sem gardína fyrir sólina til jarðar? Eða mun þetta net gervitungla virka sem spegill til endurvörpunnar sólarljóss af jörðu? Mun kólna? Mun hlýna?

Ef eitthvað mannlegt ógnar jörðinni er það Starlink og sambærileg fyrirbæri frá fleiri þjóðum.

Saga mannsins á jörðinni er stutt. Talið að Homo sapines hafi komið fram fyrir um 200.000 árum. Risaeðlurnar ríktu á jörðinni í 160 milljónir ára. Víst er að við munum hverfa af yfirborði jarðar fyrr en flestar aðrar skepnur. Því verður ekki forðað. Þau svokölluð hlýindi sem nú eru sögð ógna jörðinni eru ekki meiri en svo að enn er með því kaldasta á jörðu. Það viðmið sem notast er við, undir lok litlu ísaldar, segir flest sem segja þarf. Engu að síður þurfum við að ganga vel um jörðina.

Stjórnmálamenn telja sitt hlutverk að breyta veðurfari á jörðinni. Til þess notast þeir við skattlagningu. Ef eitthvað er fáránlegt er það að ætla að kaupa sér annað veður en náttúran vill. Hlutverk stjórnmálamanna er að vinna að þeim bótum sem þarf til að takast á við þann vanda sem veðurfarsbreytingar valda. Slíkar breytingar hafa ætið verið og munu áfram verða. Það er ekkert eitt loftslag rétt á jörðinni, það segir sagan okkur. Jörðin hefur frosið póla á milli, hlýnað svo að regnskógar hafa náð til póla hennar og allt þar á milli. Slíkar sveiflur hafa verið nokkrar, þó reyndar einungis tvisvar hafi jörðin frosið alveg póla á milli. Í jarðsögulegu tilliti lifum við eitt kaldasta skeið frá síðustu ísöld, á kaldasta hlýskeiði jarðar.

Við skulum því ekki óttast hlýnun, færi að kólna væri tilefni til ótta!

 


Dulbúin yfirlýsing?

Enn á ný sýna ráðherrar og ríkisstjórn hvað þau eru föst í sínum fílabeinsturni. Tekin er á leigu 32 manna flugvél til að ferja þrjá ráðherra þvert yfir landið. Vissulega eru sumir ráðherrar nokkuð massamiklir og aðrir miklir inn í sér, en rúmlega tíu sæti fyrir hvern er vel í lagt!

Það er til hugbúnaður til að halda fundi gegnum veraldarvefinn, kallaður fjarfundabúnaðar. Þessi tækni er orðin nokkuð algeng hér á landi, enda þægindi hennar ótvíræð. Hægt er að taka þátt fundi hvar sem er í heiminum með snjallsímanum einum saman. Þessa tækni þekkja sumir ráðherrar, enda verið duglegir að auglýsa fundarsetur sínar gegnum slíkan búnað, við margt af mestu fyrirmennum heimsbyggðarinnar. Ástæða vinsælda þessa hugbúnaðar er auðvitað covid og þær takmarkanir á ferðalög sem því hefur fylgt.

En það ber annað við hjá ríkisstjórninni okkar, þar er bara hringt og pöntuð flugvél, þurfi ráðherrar að tala saman. Reyndar magnað að ekki skyldi bara verið kallað eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar, til viðviksins.

Það er einkum tvennt sem kemur í hugann við lestur fréttarinnar, hvað mikið kolefnisspor þessir þrír ráðherrar skilja eftir sig vegna fundarins og hitt hvort þessir þrír ráðherrar eru að gefa einhverskonar yfirlýsingu með athæfi sínu. Vitað er að tveir þeirra eru  og hafa verið á móti öllum takmörkunum til varnar covid. Þriðji dinglar bara með síðasta ræðumanni.

Vildi svo heppilega til að aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar voru einmitt staddir á Egilstöðum þegar fundarstaður var ákveðinn, eða þurftu þeir kannski að keyra langar leiðir til fundarins?

Það er auðvitað eðlilegt að ráðherrar ferðist um landið í sínu fríi og ekkert um það að segja. Hins vegar, þegar halda þarf fund í skyndi, er eðlilegt að nýta þá tækni sem til er. Fjarfund hefði verið hægt að halda strax og ráðherrar höfðu farið yfir tillögur sóttvarnarlæknis. Þannig mátti eyða óvissu sem margir standa frammi fyrir, mun fyrr, spara peninga við leigutöku á flugvél og minnka óþarfa kolefnisspor. 

Ég held að ríkisstjórnin ætti að skammast sín!


mbl.is Ríkisstjórnin tók þotu á leigu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað getum við gert?

Hvað getum við gert? er nafn á þætti sem sýndur var á ruv fyrir skemmstu. Sjálfur horfði ég ekki á þáttinn er hann var sýndur, en vegna líflegrar umræðu um hann á samfélagsmiðlum lét ég mig hafa það að horfa á hann.

Þar kemur ýmislegt á óvart og framsetning þáttastjórnanda með þeim hætti að vart verður annað séð en að um áróðursþátt sé að ræða. Þar fær hann til viðtals mann sem stjórnandinn kallar "helsta jarðvegsfræðing á Norðurlöndum" Ólaf Arndals. Væntanlega eru frá honum komin öll fræði sem stjórnandinn taldi sér. Þó má telja þáttastjórnanda til tekna er hann opnaði þáttinn, að eftir að hann var búinn að nefna manninn og sauðkindina, sem helsta sökudólg Íslands, taldi hann einnig upp eldgos og veðurfar. Það var reyndar í eina skiptið í öllum þættinum sem þau atriði komu fram. Og fljótlega var maðurinn einnig dreginn út úr dæminu, þannig að blessuð sauðkindin stóð ein eftir sem sökudólgur.

Fljótlega kom fram að á 45% lands er lítill sem enginn gróður, á 30% lands er gróður illa farinn og mikil rofabörð og að einungis 25% lands er vel gróið. Skilgreiningin á hálendi er 200 metrar yfir sjó og um 76% landsins liggur ofan þeirrar línu. 10% lands liggur undir jöklum og svo mætti lengi telja. Þó er ljóst að sú tafla sem sýnd var í þættinum um gróðurfar getur vart staðist, þar sem vitað er að heiðarlönd eru víða grasi gróin með þéttri jarðvegsþekju. 

Hins vegar er ljóst að á hluta landsins er lítill gróður og einnig sýna rofabörð að jarðvegsþekja hefur á sumum svæðum fokið á brott. Þetta má ekki vanmeta og víða sem bændum í samstarfi við landgræðsluna, hefur tekist að snúa þeirri þróun við. En með vilja er enn hægt að finna rofabörð og með yfirlegu má ná þar myndum að einstaka kind skýla sér undir þeim.

En hvað veldur? Þáttur mannsins er sjálfsagt einhver og jafnvel má segja að sauðkindin hafi svo sem ekki hjálpað til. En kenna þeim alla sökina er fráleitt. Þar eru þau öfl sem þáttastjórnandi impraði á í opnun þáttarins, veður og eldgos helsti orsakavaldur.

Fyrir það fyrsta var mannfjöldi og fjöldi sauðfjár í landinu svo lítill að útilokað er að þeir þættir hafi verið örlagavaldur. Það er ekki fyrr en á tuttugustu öld sem fólki fer að fjölga í landinu og sauðfé samhliða. Fram til þess tíma var fjöldi fólks og fjár hverfandi. Enn er fólki að fjölga en hámarki fjölda sauðfjár náðist um 1980, um 800.000. Síðan þá hefur því fækkað niður í um 400.000 fjár.

Nú er farið að rækta eikarskóga á Íslandi. Við landnám er talið að landið hafi verið vaxið trjám milli fjalls og fjöru. Hvort það er rétt skal ósagt látið, en vitað er að eikarskógar uxu hér á landi á þeim tíma, enda tíðarfar mun betra en nú og þó stutt kuldatímabil hafi orðið á jörðinni á fyrstu öldum okkar tímatals, hafði verið enn hlýrra í margar aldir þar á undan og því alls ekki ótrúlegt að eikur hafi lifað af það stutta kuldatímabil. Sá síðasti þessara skóga lét undan síga í lok átjándu aldar, i kjölfar Skaftárelda. Til eru ritaðar heimildir sem lýsa því hvernig síðasti eikarskógurinn hvarf, nánast á einni nóttu, eftir að gös frá gosinu lögðust yfir hann.

Eldgos eru sennilega stærsti orsakavaldur landeyðingar á Íslandi, enda bæði mörg og sum mikil frá landnámi. Þessum gosum fylgir bæði aska og gös, sem eru skeinuhætt gróðri. Samhliða mikið kólnandi veðri var nánast útilokað fyrir gróður að ná sér upp aftur. Þetta sést auðvitað best á því að það land sem enn á erfitt uppdráttar, þrátt fyrir hlýnun, er það land sem er á gosbeltinu þvert yfir landið. Utan þess er gróður mjög góður og jarðþekja með ágætum. Þó hafa stærri tré ekki náð sér á strik nema með hjálp mannsins og líklegt að nú þegar sé maðurinn búinn að gróðursetja fleiri tré en landnemar hjuggu í eldivið.

Varðandi losun kolefnis í andrúmsloftið þá fór jarðvegfræðingurinn heimskunni nokkuð frjálslega með sitt mál. Staðreyndin er að tiltölulega litlar rannsóknir eru til hér á landi um slíka losun og þær fáu sem gerðar hafa verið þarf að lesa með sérstökum gleraugum til að fullyrðing fræðingsins standist. Því er notast við erlendar rannsóknir og þær heimfærðar á fósturjörðina okkar. Slíkt er óhæfa, enda jarðvegur hér ekki í neinum skilningi líkur þeim jarðvegi er þekkist erlendis. Jarðvegur á Íslandi er mun steinefnaríkari, vegna þrálátra eldgosa og öskufalls, en steinefnaríkur jarðvegur losar mun minna co2 en mó og mýra jarðvegur. Þá er vitað að berir melar losa lítið eða ekkert af co2 í andrúmsloftið, en eins og áður sagði telur fræðingurinn að allt að 75% landsins sé nánast melur einn.

Hins vegar er rétt að sauðkindin losar co2, rétt eins og allar skepnur og það er einnig rétt sem stjórnandinn sagði, þegar hann hélt á tveim fallegum lambalærum, að misjafnt getur verið hvað mikil slík losun er, eftir því hvar þeim er beitt. Því er rétt að það eru svæði á landinu sem eru viðkvæm, eins og ég nefndi áður. Nú þegar er hafin stýring á beit á viðkvæmum svæðum, samhliða endurbótum á landi. Þetta er gert í samstarfi nokkurra aðila og eru bændur kannski fremstir í þeirri samvinnu. Hversu mikil losun co2 er frá bústofni er svo spurning, enda engar rannsóknir til um það heldur hér á landi. Þarna er því um áætlaðar tölur að ræða og ekki séð að erlendar rannsóknir séu sóttar til þeirrar áætlunar. Niðurstaðan er því að íslenskur bústofn, hvaða nafni sem hann nefnist, er sagður losa mun meira af co2 út í andrúmsloftið en sambærilegur bústofna annarsstaðar. Hvað veldur er erfitt að segja til um.

Við erum aðilar að samstarfi þjóðanna um losun á co2 út í andrúmsloftið. Því er gríðarlega mikilvægt að allar tölur séu réttar og byggðar á rannsóknum, miklum rannsóknum. Þetta á bæði við um losun sem og endurheimt. Það kemur að skuldadögum hjá okkur, skuldadögum í orðsins fyllstu merkingu. Þá þurfum við að greiða fyrir syndir okkar, með grjóthörðum peningum. Áætlanir um losun verða látnar standa, sér í lagi þegar séð er að okkar áætlanir gera meira úr henni en efni standa til. Hins vegar verður endurheimt tortryggð og engar tölur þar teknar gildar nema með grjóthörðum niðurstöðum rannsókna.

Landbúnaður hér á landi hefur legið undir miklum árásum og nánast sama hvar drepið er niður fæti í þeim málum. Það er ekki bara að landbúnaður sé búinn að eyða landinu eða losa mest allra atvinnugreina af co2, heldur virðist landbúnaður eiga sök á flestu sem miður fer. Í þessum árásum fara fremstir ákveðnir hagsmunahópar sem hafa greiðann aðgang að fjölmiðlum, stjórnmálafólki og embættiskerfinu.

Bændur verða að taka sig á, þeir verða að verjast. Það gengur ekki að láta ákveðna hagsmunahópa stjórna umræðunni um landbúnaðarmál. Það gengur ekki að láta ákveðna hagsmunahópa ná yfirráðum yfir stjórnmálamönnum. Það gengur ekki að ákveðnir hagsmunahópar ráði embættismannakerfinu. Það er auðvelt að verja íslenskan landbúnað og næg rök til, en til þess þarf sterka málssvara. Menn sem svar strax öllu bulli og krefjast þess að umræðan sé rökræn!


mbl.is Hvað hafa bændur gert?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Matvinningur

Matvinningur var þeir kallaðir er vegna aldurs, fötlunar eða annarra vankanta voru ekki meiri menn til vinnu en rétt fyrir mat.

Forstjóri Orkuveitu Reykjarvíkur fékk launahækkun fyrir nokkrum dögum. Þetta þykir svo sem varla fréttnæmt, enda laun manna í slíkum stöðum ekki ákvörðuð af vinnuframlagi eða getu til að skila því. Það sem þó kom nokkuð á óvart var hversu há þessi launahækkun var, þ.e. í krónum talið. Í prósentum var hún svo sem ekkert mjög há, bara nokkrum sinnum meiri en sú prósentuhækkun er féll til almennra launþega í landinu. En af háum launum þarf svo sem ekki mörg prósent til að krónurnar verði margar, jafnvel fleiri en lágmarkslaun almennings hljóða uppá.

Annað kom einnig á óvart, en það var svar stjórnarformanns OR um þessa launahækkun og tilurð hennar. Annars vegar var verið að "leiðrétta" laun forstjórans aftur í tímann og hins vegar var verið að bæta honum upp það tekjutap er hann varð fyrir er hann hætti sem stjórnarformaður í dótturfyrirtækjum OR. En eins og flestir vita er OR varla nema nafnið, þar sem allur rekstur fyrirtækisins og sala fer fram undir merkjum dótturfyrirtækja OR. En, sem sagt, forstjórinn minnkaði við sig vinnu hjá fyrirtækinu og fær væna launahækkun fyrir. Geri aðrir betur!

Nú er komin upp deila um hvort Árbæjarlón eigi að vera eða ekki. Um þetta hefur ekki verið deilt í heil eitt hundrað ár, eða frá því Reykjavíkurborg hóf framleiðslu rafmagns í Elliðaárdalnum. Lón þetta er því um aldar gamalt og fyrir löngu orðið hluti náttúrunnar. Þarna hefur því verið náttúruparadís fyrir menn og fugla um langt skeið. Ákvörðun um tæmingu lónsins og að því skuli eytt, tók hinn vellaunaði forstjóri OR. Nú þegar andmæli eru að komast í hámæli um þessa gjörð, fullyrðir forstjórinn að hann hafi gert þetta í samráði við fuglafræðing, sem á að hafa sagt honum að álftaparið sem hefur haldið sig í hólma lónsins, muni halda áfram að verpa í hólmanum, sem þó stendur nú á þurru landi! Fróðlegt verður að fylgjast með framhaldi þessa máls, hvort lónið verði fyllt aftur eða ekki. Líklegt verður þó að telja að forstjórinn fái enn eina launahækkunina, fyrir snilli sína!

Það skal aldrei vanmeta menn þó þeir séu smáir, bæði á velli og innra með sér. Þar geta leynst snillingar!


mbl.is Segja tæmingu hafa óveruleg áhrif
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Don Kíkóti

Stjórnvöld vilja taka þriðjung landsins undir þjóðgarð, setja yfir hann skipaða stjórn án aðkomu kjósenda. Ekki verður séð hver tilgangurinn er í raun, annar en einhverskonar minnisvarði fyrir ákveðna stjórnmálamenn. Náttúruvernd mun fórnað með þessum garði, enda hugmyndir um stjórnun hans með öllu óverjandi. Auk þess liggja engar áætlanir fyrir um kostnað eða fjármögnun þessa ævintýris.

Þeir sem að þessu standa bera gjarnan fyrir sig orðinu náttúruvernd, eins og það orð eitt og sér geti réttlætt allt. Náttúruvernd er meira en bara orðið eitt, náttúruvernd byggir á að vernda náttúruna. Ekki verður séð að tilgangur þess að taka einn þriðja af landinu undan lýðræðislegri stjórn og setja undir skipaða stjórn embættismanna stuðli með neinum hætti að frekari náttúruvernd. Enda fer ekki saman hljóð og mynd hjá þessu fólki, þar sem að á sama tíma og talað er um náttúruvernd, er einnig sagt að erlendu ferðafólki muni fjölga á svæðinu. Fyrir cóvið var verið að berjast við of mikinn fjölda erlendra ferðamanna á viðkvæmustu svæðunum!

Á sama tíma og þetta fólk skreytir sig með orðinu náttúruvernd fitlar það við hugmyndir um stórfellda "ræktun" vindmilla á landinu. Fara þar fyrir erlendum fjórplógsmönnum sem hugsa um það eitt að græða sem mest og láta aðra taka afleiðingunum. Varla er til sá dalur eða fjall á landinu þar sem ekki hefur sést til manna vera að mæla vindhraða og meta aðstæður fyrir vindmillur.

Nokkrir staðir eru lengra komnir, búnir að gera plön og sumir fengið þau samþykkt af viðkomandi stjórnvöldum hér á landi. Þegar þessi plön eru skoðuð er víðast verið að tala um vindmillur sem skaga meir en 200 metra upp í loftið, nærri þrisvar sinnum hærri en vindmillur Landsvirkjunar, sem sumum þykja þó nógu háar! Þessar vindmillur eru hreint út sagt ófreskjur á að líta og framleiðslugeta þeirra um 4,5mw, þegar vindur er hagstæður. En þróun vindmilluframleiðslu er hröð, enda líftími þeirra nokkuð stuttur og allir vilja stækka við sig. Í dag eru til vindmillur sem framleitt geta allt að 16mw, við bestu vindskilyrði. Spaðar þeirra eru yfir 100 metra langir svo heildar hæð slíkra milla fer nokkuð vel á þriðja hundrað metra. Ljóst er að eftir að erlendu vindmillibarónarnir hafa fengið tilskilin leyfi hér, mun krafa þeirra um "örlítið" stærri millur koma upp. Ekki verður séð að neinn sveitarstjórnarmaður eða stjórnvöld muni lyfta hönd gegn því.

Náttúruvernd er meira en orðið sjálft, eins og áður segir. Þetta virðast stjórnmálamenn hins vegar ekki skilja. Þeir líta þetta orð sem skrautfjöður í hatt sinn, til nota þegar við á en skipta síðan um hatt þegar skrautfjöðrin er til trafala.

Don Kíkóti barðist við vindmillur og þóttist mikill hermaður. Íslenskir stjórnmálamenn berjast fyrir villum og þykjast miklir menn. Sýn íslensku stjórnmálamannanna er söm og Don Kíkóta, þó baraáttan sé öfug.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband