Færsluflokkur: Umhverfismál
Bara ef það hentar mér
7.7.2022 | 00:25
"Bara ef það hentar mér" sungu Stuðmenn um árið. Þessi setning kom upp í hugann er ég las frétt á visir.is, um nýja túlkun ESB á orkugjöfum. Nú telst orka sem unnin er með gasi eða kjarnorku til grænnar orku.
ESB hefur verið duglegt að setja fram hinar ýmsu kvaðir á íbúa aðildarlanda sinna. Reyndar smitast þetta út fyrir ESB, því EES samningurinn virðist vera spyrtur við flestar kvaðir ESB. Loftlagsmál hafa verið fyrirferðarmikil í þessari herferð sambandsins gegn þegnum sínum. Þar hefur offorsið verið slíkt að það sem sannarlega er undirstaða lífs á jörðinni er nú skilgreint sem eitruð lofttegund, þ.e. co2.
Það er vissulega af hinu góða að berjast gegn mengun, hvaða nafni sem hún nefnist. En þá þarf að skilgreina hvað er mengun og hvað ekki. Co2 er til dæmis ekki mengun, heldur grundvöllur lífs á jörðinni, enda hefur alla jarðsöguna verið hærra hlutfall Co2 í andrúmslofti en nú. Hins vegar er klárlega hægt að tala um mengun í útblæstri, bæði bíla en þó einkum frá verksmiðjum. Reyndar eru flest mannanna verk mengunarvaldur, þó andardrátturinn sé það ekki, jafnvel þó fátt sé eins mikil uppspretta Co2 en einmitt hann. Samhliða því að fólksfjöldi jarðar hefur nærri áttfaldast frá lokum nítjándu aldar til dagsins í dag, er ljóst að mengun frá fólki hefur stór aukist. Gegn því þarf að sporna.
Undir lok tuttugustu aldar kom fáviss fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna fram með þá bábilju að Co2 væri valdur þess að hlýnað hafi á jörðinni. Vitnaði hann m.a. í tilraun sem gerð hafði verið í lokuðu tilraunaglasi, nærri öld áður. Einnig vitnaði hann í borkjarnarannsóknir vísindamanna. Loftslag jarðar er flóknara en svo að hægt sé að koma öllum breytum þess fyrir í tilraunaglasi. Og jafnvel þó vísindamenn hafi reynt af mætti að benda þessum fyrrverandi varaforseta á að þó leitni væri milli magns Co2 í andrúmslofti og hitastig þess, þá væru mun meiri líkur á að hlýnun leiddi til aukinnar losunar á Co2, frekar en hitt. En það var ekki hlustað á vísindamenn, varaforsetinn hafði talað. Brátt var svo komið að fáir þorðu að mótmæla hinum nýju fræðum, enda hætta á að missa vinnuna. Fræðunum var því kastað fyrir hina nýju trú!
Reyndar var bæði hitastig jarðar og magn Co2 í andrúmslofti í sögulegu lágmarki, undir lok nítjándu aldar, svo lágu að líf á jörðinni var komið í hættu. Jörðin stóð á þröskuldi ísaldar.
En aftur að fréttinni frá ESB. Vegna stefnu sambandsins í þessum málum var ljóst að til tíðinda myndi draga, fyrr en seinna. Orkuskortur var farinn að segja til sín löngu áður en Pútín réðst inn í Úkraínu. Covid var þá kennt um. Covid jók þó ekki eftirspurn eftir orku, þvert á móti minnkaði orkunotkun meðan á faraldrinum stóð. Hins vegar jókst hún aftur eftir að hjólin fóru að snúast aftur, þó ekki mikið meira en áður hafði verið. Orkan var hins vegar ekki til staðar, rétt eins og ráðamenn gerðu ráð fyrir að covid ástand yrði eilíft. ESB hafði einblínt á framleiðslu vind- og sólarorku. Orkugjafar sem útilokað er að treyst á sem stabíla orkugjafa. Þá er ljóst að fáar aðferðir til orkuframleiðslu eru meira mengandi en einmitt vindorkan, jafnvel þó einungis sé þar talin einn mengunarvaldur af mörgum, örplastmengun.
En nú er ESB sem sagt búið að skilgreina gas og kjarnorku sem græna orku. Það er vissulega gott. Áður var gas skilgreint sem grá orka. En það er fleira skrítið sem frá ESB hefur komið, eins og skilgreining þess á að tjákurl skuli skilgreint sem græn orka. Þetta getur átt við þegar trjákurl sem fellur til við timburframleiðslu, einkum í nánd við orkuverin, er nýtt til orkuframleiðslu í stað þess að urða það. En þegar raunveruleikinn er sá að skógar eru hoggnir í stórum stíl, vítt um heimsbyggðina og trén kurluð niður, flutt í skip með stórum flutningabílum og siglt með það um heimsins höf til Evrópu, svo framleiða megi þar orku, er ljóst að fátt umhverfisvænt er hægt að finna í þeim leik!
Vonandi verður þessi nýja tilskipan ESB, jafnvel þó hún minni á lagið sem Stuðmenn fluttu, til þess að vindmilluævintýrin taki enda. Eitt lítið kjarnorkuver getur framleitt stöðuga orku sem tæki þúsundir vindmilla að framleiða, þegar vindur blæs!
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 00:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Breytt ásýnd Hvalfjarðar?
28.6.2022 | 00:59
Hjá Skipulagsstofnun er til kynningar matsáætlun um vindorkuver á Brekku í Hvalfirði, nánar tiltekið upp á Brekkukambi. Brekkukambur er um 647 metra hár frá sjó og ætlunin er að þetta vindorkuver muni standa á toppi hans.
Þessi matsáætlun er fyrsta formlega skrefið sem tekið er í þessari framkvæmd, síðan verður matið sjálft unnið og samhliða því þarf sveitarfélagið að samþykkja breytingu á skipulagi svæðisins. Þar mun reyna á getu sveitastjórnar til að hrinda af sér óværunni. Þegar þessi matsáætlun er lesin kemur margt skrítið fram, tölur eru mjög reikandi og í sumum tilfellum stangast þær á. Þó er ljóst að ætlunin er að setja þarna upp vindorkuver er hefur getu til að framleiða allt að 50MW, í fyrsta áfanga. Í áætluninni er gert ráð fyrir að síðar megi stækka verið. Aðrar tölur, sem væntanlega eru fengnar frá framkvæmdaraðila, eru hins vegar á mjög breiðu bili. Sem dæmi er talað um að undirstöður geti verið allt frá 1600 til 4560m2. Vindmillurnar eru sagðar eiga að geta framleitt 5,6MW hver, en samt er talað um að þær geti verið frá 8 til 12. Það gerir framleiðslugetu frá 45 til 67MW. Á einum stað er talað um að varanleg landnotkun verði frá 3,9 til 6,2 ha, á öðrum stað er sagt að taka eigi 300 ha undir verkefnið. Svona má lengi telja, bæði eru tölur reikandi en einnig í andstöðu við hverjar aðrar.
En þetta er bara kynning á áætlun um mat á verkinu, matið sjálft er eftir. Í áætluninni segir Skipulagstofnun að notuð verði hæstu gildi við matið, hveju sinni. Þá erum við að tala um að reistar verði 12 vindmillur sem verða 247 metra háar, upp á fjalli sem er 647 metra hátt. Því munu þessar vindmillur teygja sig upp í rétt tæplega 900 metra hæð yfir sjó!
Nýverið lýsti forsætisráðherra því yfir að eðlilegt væri að þjóðin nyti góðs af arði vindorkuvera. Það er því miður lítill arður væntanlegur af slíku ævintýri hér á landi. Þar kemur fyrst og fremst til hár byggingakostnaður og stutt ending. Orkuverð hér á landi þarf því að hækka verulega til að dæmið gangi upp. Þá er það fyrirtæki sem stendur að þessu, Zephyr, erlent og því mun seint sjást arður hér á landi frá því. Nokkur atvinnusköpun verður á byggingatíma orkuversins en eftir hann er ekki gert ráð fyrir að nokkur maður verði við vinnu á svæðinu, öllu stýrt frá höfuðborginni, eða jafnvel Noregi. Sveitarfélagið mun ekki hafa miklar tekjur af ævintýrinu, þar sem einungis húsnæði fyrir safnstöð orkunnar eru skattskyld. Það er vonandi að vindbarónarnir hafi ekki tekið orð forsætisráðherra a þann veg að þau mætti túlka á báða vegu, að ríkið fengi hluta af arðinum, ef hann verður einhver en á móti þá komi ríkið með peninga upp í tapið!
Það er stundum talað um að vindorkuver séu vistvæn. Fátt er fjær sannleikanum. Vindorkuver eru sennilega með óvistvænstu aðferðum til að framleiða orku. Í hverja vindmillu þarf óhemju mikið magn af stáli og öðrum málmum, sumum fágætum. Við rafalana eru gírar sem þurfa mikla olíu til smurnings. Hana þarf að endurnýja oft og reglulega. Í hverri vindmillu er spennir og í safnstöð eru fleiri spennar. Þeir þurfa olíu til kælingar, olíu sem getur orðið geislavirk og erfitt að losna við. Á hverri vindmillu eru spaðar. Þeir eru úr trefjaplast, sem eyðist ótrúlega fljótt. Það leiðir af sér einhverja mestu örplastmengun sem hugsast getur. Undir hverri vindmillu er síðan járnbent steypa, hátt í tvö þúsund rúmmetrar! Þessi steypa mun ekki verða fjarlægð aftur, þannig að fullyrðingar um að vindorkuver sé afturkræft eru fjarri lægi. Sjónmengun er auðvitað mikil, sér í lagi þegar vindmillum er prjónað upp á hátt fjall, nærri byggð. Samkvæmt matsáætluninni er talað um að sjónmengun muni ná allt frá Þingvöllum of vestur um upp í Borgarfjörð! Hljóðmengun, einkum lágtíðnihljóð sem mannseyrað ekki nemur, er mikil. Það hefur áhrif á allt dýralíf, líka mannskepnuna, þó hún heyri það ekki. Segulsvið myndast umhverfis vindorkuver og það mun hafa áhrif á margar fuglategundir, sem treysta á segulsvið jarðar til að rata um, auk þess sem það getur haft áhrif á aðrar skepnur líka. Tvö síðasttöldu atriðin hafa leitt til þess að bannað er að byggja vindorkuver nærri flugvöllum í Bandaríkjunum. Þá er óvíst hvaða áhrif vindmillur munu hafa á vindafar. Það getur oft verið hvasst í Hvalfirðinum í norðan og norð-austanáttum. Hvaða áhrif hefur það á vindstrengi þegar þeir ganga fram af Brekkufjallinu?
Sem fyrr segir þá er þetta skjal frá Skipulagsstofnun einungis kynning á áætlun um mat á vindorkuveri á Brekku í Hvalfirði. Þar til sjálft matið hefur verið framkvæmt er í sjálfu sér lítið hægt að segja. Þá á sveitastjórn eftir að taka afstöðu til þess hvort skipulagi verði breytt. Þar verður að treysta á íbúana, að þeir geri sveitarstjórn grein fyrir vilja sínum. Jafnvel ætti sveitastjórn að boða til kosninga um málið, enda svo stórt að vart verður séð að umboð hennar sé til staðar fyrir þeirri ákvörðun. Við erum að tala um framkvæmd sem ekki verður tekin til baka, líki fólki ekki. Við erum að tala um að breyta ásýnd Hvalfjarðar til frambúðar.
Fúafen
9.4.2022 | 00:47
Í síðustu færslu fór ég aðeins inná fróðlega grein í Bændablaðinu, er kom út þann 7. apríl. Sú grein er rituð af sjö sérfræðingum, hverjum á sínu sviði og fjallar um rannsóknir á losun co2 úr jörðu.
Svo virðist sem stjórnvöld hafi látið teyma sig út í fúafen, í orðsins fyllstu merkingu. Þeir sem lenda í slíku feni hafa um tvo kosti að velja, að snúa aftur á fast land, ellegar að halda áfram út í fenið. Síðari kosturinn hefur aldrei gengið upp, en með því að snúa til baka má finna greiðfærari og öruggari leið að markmiði sínu.
Til að því sé haldið til haga þá nefna sérfræðingarnir oft í sinni grein að efla þurfi rannsóknir á sviði losunar co2 úr jarðvegi. Þar kemur hellst til að niðurstaða þeirra er í svo hrópandi ósamræmi við viðhafðar skoðanir um málið, skoðanir sem ekki byggjast á rannsóknum heldur fyrirfram ákveðinni niðurstöðu. Þarna munar allt að 88.6% á viðhafðri skoðun á og niðurstöðum rannsókna! Þessu munur er svo hrópandi að engu tali tekur og þó er þarna einungis verið að ræða losun á co2 úr jarðvegi, ekki tekið tillit til þess að þurrkað land hefur mun þykkari og betri gróðurþekju grænblöðunga, sem jú eins og allir vita, vinna stöðugt að því að binda kolefnið úr co2 og skilja einungis súrefni þess eftir í andrúmsloftinu. Co2 er jú ein eining kolefnis á móti tveim einingum af súrefni. Fróðlegt væri að vita hver heildarlosun er frá jarðvegi ef þetta er einnig tekið með í jöfnuna.
Þarna er ekki um neitt smá mál að ræða, fyrir okkur sem þjóð. Standist þessar rannsóknir getum við náð losunarmarkmiðum stjórnvalda og gott betur, með því einu að endurreikna losun co2 úr jarðvegi, til samræmis við raunveruleikann. Við gætum með því einu minnkað losun landsins um 57% strax, meðan markmið stjórnvalda er að minnka hér losun um 55% fyrir árið 2030. Reyndar er það markmið stjórnvalda með öllu óraunhæft, ef ekki kæmi til þessi óvænta niðurstaða á raunlosun úr jarðvegi.
Stjórnvöld hljóta að taka þessari fyrstu opinberu skýrslu fegins hendi og leggja pening til aukinna rannsókna. Jafnvel þó niðurstaðan yrði eitthvað örlítið lakari við frekari rannsóknir, gæti líkað orðið enn betri, er einséð að þarna er um mikla hagsmuni að ræða. Það hefur ekki staðið á að leggja peninga til hinna ýmsu verkefna sem hafa í sinni kynningu loftlagsmál, jafnvel þó óljóst sé hvað verið er að meina og engar rannsóknir standi að baki þeim fullyrðingum. Því ætti ekki að vefjast fyrir stjórnvöldum að styðja vel við bak þeirra vísindamanna sem leita sannleikans um málið!
Meðan raunveruleg vitneskja liggur ekki fyrir er fráleitt að kasta peningum í einhverjar framkvæmdir sem jafnvel gætu gert vandann mun stærri. Að endurheimt votlendis muni ekki skila neinu í minnkun losunar á co2 en muni auka stórlega losun á metani og að grænblöðungum muni fækka stórkostlega með tilheyrandi minnkun á virkni þeirra til að binda kolefni í jörðu. Þetta er ekki vitað og verður ekki vitað nema með rannsóknum. Sú fyrsta sem er opinberuð bendir í allt aðra átt en tölur IPCC segja til um. Þær tölur byggja á örfáum rannsóknum erlendis. Þar er bæði mun dýpri jarðvegur sem og að akuryrkja er þar ráðandi. Akuryrkju fylgir að jörð er opinn stórann hluta árs, meðan heyrækt byggir á grónum túnum með lokuðum jarðvegi. Allir ætti að sjá að þarna er himinn og haf á milli og með öllu ótækt að notast við slíkar tölur.
Að lokum óska ég þjóðinni til hamingju með niðurstöðu þessarar rannsóknar, jafnvel þó þarna sé um staka rannsókn að ræða. Niðurstaðan er hrópandi á frekari rannsóknir. Sérstaklega óska ég forsætisráðherra til hamingju, enda hefur hún verið dugleg að lofa upp í ermina á sér erlendis. Þarna fær hún tækifæri til að standa við gefin loforð og að auki getur hún hrósað sér af enn frekari samdrætti á losun co2 á Íslandi. Orkuskiptin í flutningum, stór aukin skógrækt og uppgræðsla lands mun halda áfram. Fyrirtæki munu einnig halda áfram raunverulegri minnkun á losun co2, þó vissulega þau geti ekki lengur stundað felueik um málið, með kaupum á aflátsbréfum frá votlendissjóði. Því má forsætisráðherra búast við að geta gengið reyst fram á hið erlenda pólitíska sviðs, hafi hún vit til að snúa aftur til lands úr fúafeninu, sem hún hefur verið leidd út í. Gangi greiðfærari leið að markmiðinu.
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 00:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Syndaaflausn
8.4.2022 | 00:17
Kaþólska kirkjan býður upp á að fólk geti keypt sig laust frá syndum og ræðst þar upphæð syndaaflausnar gjarnan af mikilfengleik syndarinnar. Auðvitað sjá allir að þarna er ekki um annað að ræða en peningaplokk kirkjunnar. Við sem stöndum utan kaþólsku kirkjunnar eigum svolítið erfitt með að skilja þennan hugsanahátt, þó sumir innan þeirrar kirkju telji þetta góða lausn frá syndum sínum. Að geta mætt með nokkrar spesíur til klerksins og þurrkað þannig út framhjáhald eða aðrar syndir sínar.
Í dag eru hins vegar annarskonar syndaraflausnir seldar. Hægt er að kaupa sig frá þeirri synd að losa lífsandann, co2, út í andrúmsloftið. Þessi viðskipti standa nú í blóma, þvert á trúarskoðanir og lönd. Hér á Íslandi er hópur sem er duglegur að selja slík aflausnarbréf og eru kaupendur þar bæði fólk og fyrirtæki. Þessi hópur segist geta létt þeirri synd af fólki með því einu að moka ofaní skurði landsins. Ólíkt syndaaflausn kaþólsku kirkjunnar, veit enginn í raun hvert það fé fer er borgað er fyrir þessa nútíma synd.
En nú er komið babb í bátinn. Í nýjasta Bændablaði er fróðleg grein um rannsóknir á meintri losun co2 úr þurrkuðu landi, reyndar fyrsta íslenska rannsóknin hér á landi sem er opinberuð. Að þessari rannsókn standa 7 fræðingar, hver á sínu sviði. Niðurstaðan er vægast sagt fróðleg og hætt við að margur er keypt hefur syndaaflausn af votlendissjóði muni eiga erfitt um svefn næstu vikurnar. Þeir hafa verið blekktir og synd þeirra lítið minni en áður.
Skemmst er frá að segja að opinberar tölur, er byggja á tölum er IPCC hefur kokkað upp, eru nærri 90% ofmetnar. Þannig að sá er keypti sér syndaaflausn fyrir að aka hringveginn er enn stór syndugur, fékk aflausn fyrir einungis 132 km af 1.320 km er ekið var. Þetta er auðvitað skelfilegt fyrir viðkomandi!
Plottið er það sama og hjá kaþólsku kirkjunni þó undir öðrum formerkjum sé.
Hér má lesa skýrsluna, á blaðsíðum 20 og 21
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 00:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Maður verður hugsi
11.3.2022 | 21:42
Maður verður nokkuð hugsi við lestur þeirrar fréttar er tengjast þessu bloggi.
Í fyrsta lagi er ánægjulegt að ráðamenn skuli átta sig á að orkuskipti kalla á aukna raforkuframleiðslu, enda erfitt að átta sig hvernig hætta skuli innkaupum á orku án þess að samsvarandi orka sé til staðar í landinu. Í öðru lagi má einnig gleðjast yfir að ráðamenn átta sig á að nýsköpun kallar einnig á aukna orkuframleiðslu í landinu. Og í þriðja lagi gleður að vita að í rammaáætlun eru nægir kostir til þessarar aukinnar orkuframleiðslu.
Hitt er ekki eins ánægjulegt að sjá, að stjórnvöld skuli vera búin að ákveða vindorka skuli skipa stóran sess í orkuframleiðslu framtíðarinnar, hér á landi. Við búum við þann lúxus að eiga nægar uppsprettur orku, hér á landi, aðrar en vindorkuna. Því ætti vindorkan ekki að vera til umræðu hér á landi, a.m.k. ekki á þessari öld.
Ráðherra talar væntanlega fyrir munni ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Það hlýtur því að vera búið að afgreiða það innan hennar, þó Alþingi sé ekki upplýst um það ennþá. Ráðherrann telur vindorku skapa litlar breytingar á landi. Það er þó sennilega engin orkuframleiðsla sem hefur meiri umhverfisáhrif en einmitt vindmillur, hvort heldur er í nærumhverfi þeirra eða fjær. Að reisa eina vindmillu, af þeirri stærð sem menn vilja reisa hér á landi, veldur óafturkræfum skaða á landinu og umhverfi þess. Fyrir hverja eina vindmillu þarf að lágmarki 1000 rúmmetra af steypu með áður óþekktri stærð af járnabindingu. Þetta er áður en upp úr jörðu er komið. Þar ofaná er síðan reyst stálrör upp á fleiri hundruð tonn, nærri 140 metra upp í loftið. Ofaná þennan turn er síðan plantað rafstöðvarhúsi á stærð við einbýlishús og á það síðan settir spaðar sem verða um 80 metrar á lengd. Hæð þessa mannvirkis verður, með spaða í hæstu stöðu, komin á þriðja hundrað metra frá jörðu! Þá eru ótaldar allar vegaframkvæmdir vegna þessara ófreskja og annað rask. Olíumengun frá þessum vindmillum er vandamál sem enn er óleyst, en þó er kannski stærst vandamálið örplastmengun frá spöðum þeirra. Enn hefur ekki tekist að vinna bug á þeim vanda að spaðarnir endast ekki nema hálfan líftíma vindmilla, þá er þeim skipt út. Óþarfi á að vera að þurfa að nefna sjónmengun, lágtíðnimengun og fugladrápið.
Það hafa orðið nokkrar framfarir í smíði vindmilla á síðustu árum. Þær framfarir snúa að því einu að auka afl þeirra og hefur verið leyst með þeirri einföldu aðferð að stækka þær. Allir aðrir agnúar vindmillna er sá hinn sami og í upphafi, einungis aukist í takt við aukna stærð þeirra.
Vindmillur eru ein óáreiðanlegasta aðferð við framleiðslu á raforku. Jafnvel sólorkuframleiðsla er áreiðanlegri kostur. Þegar ekkert annað er í boði má skoða vindorkuframleiðslu og þá einungis nærri þeim stað er orkan skuli notuð. Svo óáreiðanleg orkuframleiðsla sem vindorkan er, má alls ekki við því að bæta þar ofaná orkutapi vegna flutnings orkunnar um lengri veg.
Forstjóri Landsvirkjunar lætur mikið með að staða lóna hafi verið slæm í byrjun vetrar. Ekki ætla ég að deila við hann um það. Hitt má ljóst vera að hafi sú staða verið uppi má vart kenna veðurguðunum um. Þar er ástæðan einfaldlega sú að orkusalan er komin yfir framleiðslugetu fyrirtækisins. Forstjórinn, stjórn fyrirtækisins og stjórnvöld landsins hafa sofið á verðinum, eða öllu heldur ekki þorað að tala um augljósan hlut. Tabú segir ráðherrann og vissulega má samþykkja það. En hvers vegna er það tabú? Eiga stjórnvöld hverju sinni ekki að sjá til þess að grunnþjónustan sé til staðar? Ef það er tabú að ræða þessi mál, geta stjórnvöld sjálfum sér um kennt. Þau hafa leift umræðunni að þróast á þann veg og eiga fulla skömm fyrir!
Segir umræður um virkjanir vera tabú | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ómarktækir menn
29.1.2022 | 16:55
Forgangsorka og afgangsorka eru hugtök sem gjarnan heyrast í fréttum. Þetta eru tveir ólíkir kostir, forgangsorka er orka sem keypt er í þeirri trú að hún sé ekki skerðanleg og borgað hærra verð fyrir og hins vegar afgangsorka sem raforkufyrirtækin selja á lægra verði og geta skert þegar þörf er á. Nú er staðan orðin sú að útlit er fyrir að skerða þurfi forgangsorkuna, að ekki sé næg afgangsorka í kerfinu til að taka á móti áföllum. Ástæðan sögð vera erfitt veðurfar og skortur á vatni í miðlunarlónum, auk þess sem dreifikerfið er sagt lélegt.
Vissulega má taka undir að dreifikerfi orkunnar um landið er komið af fótum fram, enda stór hluti þess nálægt því hálfrar aldar gamalt. Þetta eru engin ný sannindi, nánast nóg að vind hreyfi til að einhverjir hlutar þess gefi sig. Skemmst er að mynnast er stór hluti norðurlands varð rafmagnslaus í marga daga vegna óveðurs. Það er reyndar umhugsunarvert hvernig stjórnvöld hugsa sér að framkvæma orkuskipti hér á landi meðan dreifikerfið getur ekki haldið uppi annarri nauðsynlegri þjónustu, svo sem að halda raforku á sjúkrastofnunum. Orkuskortur verður hins vegar ekki leystur með bættu dreifikerfi, einungis hægt að jafna þannig skerðingar yfir landið.
Hitt er alvarlegra, en það er staða miðlunarlóna. Þar getur tvennt komið til, annars vegar minna innstreymi í lónin yfir sumartímann og hins vegar meira útstreymi úr þeim á þeim tíma er verið er að safna byrgðum. Rafmagnsframleiðsla meiri en efni standa til.
Stærstu miðlunarlónin okkar tengjast Vatnajökli. Vart verður sagt að sumarið í sumar hafi verið einstaklega óhagstætt hvað veðurfar snertir. Á norðanverðum jöklinum var einstaklega hlýtt og að sunnanverðu nokkuð úrkomusamt. Hvor tveggja ákjósanleg veðurskilyrði til vatnsframleiðslu jökulsins. Í það minnsta er ekki hægt að tala um neinar hamfarir í veðurfari og fráleitt að reyna að skella skuldinni á það. Því hlýtur ástæðan frekar að liggja í að útstreymi úr lónunum, yfir sumartímann sé meira en núverandi lón ráða við. Að orkusalan sé meiri en framleiðslugetan.
Orkunotkun landsmanna hefur aukist, um það þarf svo sem ekki að deila. Hitt er líka ljóst að orkunotkun mun aukast enn frekar á komandi árum. Ef síðan ætlunin er að fara í orkuskipti, eins og stjórnvöld hafa boðað og eru í raun hafin að litlu leyti, þá mun orkunotkun landsmanna aukast verulega á næstu árum. Til að mæta þessu þarf annað hvort að stækka miðlunarlónin eða nýta betur það vatn sem nú er verið að virkja. Virkjanir neðar í Þjórsá eru nærtækasta lausnin til að nýta það vatn sem þegar er virkjað. Síðan þarf að horfa til annarra kosta, svo sem nýrra virkjana í nýjum stöðum, að dreifa áhættunni.
Afgangsorka á að vera til að taka við stórum áföllum, hvort heldur er í veðurfari, framleiðsluferli eða dreifikerfi. Því má afgangsorka í raun aldrei verða fullnýtt. Ætíð þarf að vera til afgangsorka í kerfinu, jafnvel þó áföll skelli á. Lögmál Murphys er oft sterkt, eins og sýndi sig nú á dögunum, en daginn eftir að forstjóri Landsvirkjunar tilkynnti um miklar skerðingar á orkusölu, vegna lélegra stöðu miðlunarlóna, kom hann aftur í fjölmiðla til að tilkynna að ein eining í framleiðsluferlinu hefði bilað. Nokkrum dögum síðar tilkynnir annað orkufyrirtæki um bilun hjá sér. Því þarf afgangsorka ætið að vera næg, ef ekki á illa að fara. Við getum rétt ímyndað okkur ástandið, eftir orkuskiptin, ef bílaflotinn, skipaflotinn og jafnvel flugflotinn verður að stoppa vegna orkuskorts í landinu!
Það er skammt síðan Hörður Árnason, forstjóri Landsvirkjunar, talaði fyrir því að við þyrftum að leggja sæstreng til útlanda, svo selja mætti afgangsorkuna sem væri að fylla raforkukerfi landsmanna. Enn styttra er síðan Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, fullyrti í fjölmiðlum að næg orka væri til í landinu og að ekki þyrfti að virkja vegna orkuskiptanna. Þarna töluðu forstjórar tveggja stærstu orkuframleiðenda landsins og þó stöndum við nú frammi fyrir orkuskorti og það áður en orkuskipti er í raun hafin. Eigendur þessara fyrirtækja, landsmenn og höfuðborgarbúar, hljóta að krefja þá um skýringar á þessum ummælum sínum, í ljósi stöðunnar. Þessir menn er vart marktækir og alls ekki starfi sínu vaxnir!
Ef ætlun stjórnvalda er að standa við þau orð sem fallið hafa af munni þeirra, bæði innanlands og erlendis, um orkuskipti, er ljóst að efla þarf raforkuframleiðslu verulega og bæta þarf dreifikerfið, bæði milli landshluta sem og innan byggða. Miðað við þau markmið sem boðuð eru á sviði orkuskiptanna og miðað við þann gang sem er í orkuöflun og orkudreifingu, verður ekki séð að hljóð og mynd fari saman. Reyndar líkara því að horfa á gamla þögla mynd!
Fyrsta og stærsta skrefið væri að endurheimta yfirráð yfir framleiðslu og nýtingu orkunnar okkar, úr höndum ESB.
Frekari skerðingar á næsta ári | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Það er ekki bæði sleppt og haldið
10.12.2021 | 00:13
Framkvæmdastjóri Landverndar telur ekki ástæðu til frekari uppbyggingar á orkusviðinu, nema kannski að efla línur um landið. Þetta kemur ekki á óvart, utan þess að hún skuli nú opna á frekari uppbyggingu dreifikerfisins. Þar hefur Landvernd verið dugleg að stöðva málin, hingað til.
Rök framkvæmdastjórans eru þau að nú sé óvenjulegt ástand. Lítil raforkuframleiðsla yfir veturinn, hátt verð á áli og loðna. Það er svo sem ekkert óvenjulegt við þetta, né að það þurfi að vera meitlað í stein. Raforkuframleiðsla þarf ekki að vera minni á veturna, en þá þarf auðvitað að vera þannig búið hjá Landsvirkjun að til staðar sé bæði aukin framleiðslugeta og nægt vatn í lónum. Það má vissulega segja að þar hafi Landsvirkjun sofið á verðinum.
Álverð rokkar alltaf upp og niður, hefur ætið gert það og mun sjálfsagt halda því áfram. Hápunktar á verði á áli taka ekki mið af árstíðum, heldur markaði. Því þarf að vera til orka til þeirrar framleiðslu, nema Landvernd telji betra að loka þessum verksmiðjum og færa framleiðsluna úr landi, þar sem orkan kæmi frá kolakyntum orkuverum.
Loðnan er ólíkindatík og erfitt að átta sig á hennar hegðun. Hitt er víst að þegar hún gefur sig, þarf að veiða hana. Það er líka vitað að veiðitími loðnunnar er að vetri til. Ef við viljum gera vinnslu loðnunnar umhverfisvænni, þarf auðvitað að vera til rafmagn til þess. Annars er sú vinnsla keyrð með olíu, olíu sem svarar til um 20.000 fólksbílum að magni til en sennilega nærri 40.000 að mengun til, þar sem fiskimjölsverksmiðjur eru kynntar með mun meira mengandi eldsneyti en bílaflotinn.
Umhverfisvernd og aðgerðir gegn umhverfismengun eiga vart saman. Það sannar framkvæmdastjóri Landverndar í þessu viðtali. Umhverfisvernd vinnur gegn allri nýtingu auðlinda landsins, sér í lagi orkuauðlinda. Aðgerðir gegn umhverfismengun kalla hins vegar á aukna nýtingu auðlinda okkar. Þar breytir engu hvort um er að ræða aðgerðir gegn umhverfismengun á landsvísu eða heimsvísu. Framkvæmdastjóri Landverndar verður að átta sig á það er ekki bæði sleppt og haldið í þessu máli.
Orkuskipti í samgöngum kosta orku. Kannski hafa menn verið sofandi á verðinum vegna þeirra ummæla er forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur lét falla, að ekki þyrfti aukna orku til orkuskipta í samgöngum, kannski trúðu of margir þessu gaspri forstjórans. Það er vitað hvað við flytjum mikið af eldsneyti til landsins, auðvelt er að reikna það magn til orku og þannig hægt að sjá hversu mikla orku þarf til orkuskipta í samgöngum. Þetta er ekki flókið, hitt er flóknara að átta sig hvernig forstjóri OR gat komist að sinni undarlegu niðurstöðu. Einna líkast því að hann telji rafmagn verða til í tenglunum! Eitt liggur fyrir að innflutningur á rafbílum hefur aukist verulega og kannski það eigi einhvern þátt í að ekki er lengur til næg orka í kerfinu. Það hefur alla vega ekki verið gert neitt í að auka orkuframleiðsluna.
Undir lok viðtalsins segir framkvæmdastjóri Landverndar að Ísland sé verra en margar Evrópuþjóðir þegar kemur að mengun, að hér á landi sé mengun á hvern íbúa mun hærri en þar. Það má reikna sig í allan fjandann, og vissulega er ljóst að fámenn þjóð í stóru landi, sem að auki hefur yfir að ráða miklu magni af hreinum orkulindum, sé verra sett í samanburðinum, þegar valið er að nota viðmiðun útreikninga á hvern íbúa. Vandinn er hins vegar ekki landlægur, heldur á heimsvísu. Því væri eðlilegra að reikna mengun hvers lands á landstærð, þann hluta heimsbyggðarinnar sem viðkomandi þjóð ræður yfir. Þá er ljóst að fáar þjóðir komast með tærnar þar sem við höfum hælana. Í öllu falli er ljóst að þessir útreikningar verða okkur vart hagstæðari ef við þurfum að kynda bræðslurnar á olíu, sem svarar því að á götur og vegi landsins væri dengt 20-40.000 bensínbílum, í viðbót við það sem fyrir er!
Megin málið er að til að vinna gegn mengun á heimsvísu þarf að nýta allar hreinar og endurnýjanlegar orkulindir sem fyrir finnast á jörðinni. Þá er ég að tala um hreinar endurnýjanlegar orkulindir, vatn, jarðhita, etc. ekki vindmillur eða eitthvað sem mengar jafnvel meira en gasorkuverin.
Ekki afsökun til að virkja meira | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 00:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Blessað skammtímaminnið
7.12.2021 | 08:13
Það hefur gjarnan verið sagt að minni kjósenda sé skammt, sérstaklega kringum kosningar. Verra er þegar þeir sem treysta á þetta skammtímaminni kjósenda eru sjálfir haldnir þeim kvilla.
Ólína Þorvarðardóttir gagnrýnir að kísilverið að Bakka hafi fengið tvöþúsund milljónir af almannafé við stofnun. Svo sem ekki fráleit gagnrýni. En man Ólína ekki hverjir voru við stjórnvölin þegar þessi höfðinglega gjöf var gefin? Sjálf sat hún þá á þingi, fyrir samfylkinguna, sem leiddi þá stjórn.
Auðvitað man Ólína þetta, hún er fjarri því að vera heimsk. En þarna, eins og svo oft áður, velur hún að fegra söguna og treystir þar á að skammtímaminni almennings sé bilað. Og vissulega má segja að henni hafi tekist ætlunarverk sitt, að hluta. Skammtímaminni annarra er voru í þessu viðtali virðist ekki ná aftur til síðasta áratugar.
Það er ekkert búið að loka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
57 blaðsíður af litlu
29.11.2021 | 00:53
Jæja, þó höfum við fengið nýja ríkisstjórn og já, líka nýjan stjórnarsáttmála. Í stuttu máli má segja að niðurstaðan komi nokkuð á óvart. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn fá "góðu" stólana en VG fær stjórnarsáttmálann.
Varðandi stólaskiptin ber að sjálfsögðu að fagna því að umhverfisráðuneytið hefur verið heimt úr helju. Ný nöfn og ný hlutverk sumra ráðuneyta ruglar mann nokkuð í rýminu, enda erfitt að átta sig á hvar sum málefni liggja. Var þar vart á bætandi, enda kom í ljós á síðustu dögum síðustu ríkisstjórnar, að ráðherrar þar voru ekki með á hreinu hver bar ábyrgð á hverju.
Stjórnarsáttmálinn er upp á heilar 57 blaðsíður, vel og fallega orðaður en málefnalega fátækur. Orðið "loftlagsmarkmið" kemur þar oft við sögu, sennilega algengast orð stjórnarsáttmálans.
Það sker þó í augun nokkur atriði þessa nýja sáttmála. Til dæmis er tekið fram að leggja á allt land sem hefur verið friðlýst, undir þjóðgarð. Þeir kjósendur hins fámenna grenjandi minnihluta er treystu loforðum frambjóðenda Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks hafa þar látið plata sig illilega. Þó umhverfisráðuneyti sé komið undan ægivaldi VG, virðist hafa verið þannig gengið frá hlutum að hálendisþjóðgarður er enn á borðinu, bara farnar aðrar leiðir en áður var ætlað. Reyndar vandséð hver aukin landvernd liggur í því að færa land úr verndun yfir í þjóðgarð, sem ekki hefur lýðræðislega kosna stjórn.
Þá er í þessum sáttmála tiltekið að sett verði sérstök lög sem hafa það markmið að einfalda uppbyggingu vindorkuvera! Þar hvarf öll umhverfisverndin í einni setningu!
Verst, fyrir almennt launafólk að minnsta kosti, er að sjá kaflann um vinnumarkaðsmál. Þar er ljóst að skerða á rétt launþega nokkuð hressilega. Salekdraugurinn er þar uppvakinn. Þetta er stórmál og mun sjálfsagt hafa meiri afleiðingar en nokkuð annað í komandi kjarasamningum. Verkfallsrétturinn er eina vopn launþega og virkjast einungis þegar samningar eru lausir. Ef ætlunin er að skerða þann rétt, er ljóst að langvarandi vinnudeilur munu herja á landið. Það er það síðasta sem við þurfum.
Þá er nýtt í þessum stjórnarsáttmála, a.m.k. mynnist ég ekki eftir að hafa séð slíkt ákvæði fyrr í slíkum sáttmála, heill kafli um aukna tekjuöflun ríkissjóðs. Aukin tekjuöflun ríkissjóðs er annað orðalag yfir aukna skatta. Nokkuð merkilegt af ríkisstjórn sem hefur Sjálfstæðisflokk innandyra. Hins vegar er ekki orð að finna um skattalækkanir eða hagræðingu í ríkisrekstri.
Sem aðrir kaflar í þessum sáttmála er kaflinn um byggðamál vel og fallega orðaður. Talað um að styðja byggðaþróun, nýsköpun, að gera Akureyri að varahöfuðborg og auðvitað að halda áfram að byggja upp háhraðanetrið. Það er kannski ekki vanþörf á vara höfuðborg, enda rekstur þeirrar gömlu ekki beysinn. Og þar sem Míla er flutt til Frakklands, þarf auðvitað aukið fjármagn til að klára uppbyggingu háhraðatengingu um allt land. Það sem hins vegar er nokkuð spaugilegt er svokallaður stuðningur við byggðaþróun í landinu. Þetta má skilja á tvo vegu, að styðja þróun til eflingar byggðar eða styðja þróun til flutninga á mölina. Í öllu falli voru verk fyrrverandi sveitastjórnarráðherra, núverandi innviðaráðherra, með þeim hætti að engu líkar væri en að hann styddi þá byggðaþróun að landsbyggðin flyttist bara á SV hornið.
Læt þetta duga í bili af þessum einstaklega fátæklega en langa stjórnarsáttmála.
Nýtt ríkisráð fundar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Jökull bráðnar - yfir sumartímann
11.11.2021 | 20:49
Með hlýnandi veðri hopa skriðjöklar. Það þarf engin vísindi til að átta sig á því.
Þegar menn fara að taka myndskeið af skriðjökli, frá vori til hausts og segja að bráðnun hans sé skýrt merki um að heimurinn sé að farast vegna hlýnunar, er eitthvað að í kollinum á fólki. Allt eins mætti taka slíkt myndskeið frá hausti til vors og halda því fram að ísöld sé að skella á.
Eina leiðin til að segja til um hopun skriðjökla er að taka mynd einu sinni á ári, á svipuðum tíma og bera þær saman yfir nokkur ár. Þessar myndir eru til og sýna svo ekki verður um villst að jöklar hopa, eða að minnsta kosti var svo fyrir tveim árum. Ekki hafa verið opinberaðar yngri myndir en það.
Hlýnun jarðar er staðreynd, þ.e. ef talið er frá lokum litlu ísaldar. Hiti jarðar er þó ekki nærri komin að meðalhita á þessu hlýskeiði og enn lengra frá meðalhita á því hlýskeiði sem var fyrir síðust alvöru ísöld. Jörðin er enn hársbreidd frá ísöld.
Hitt er annað mál að með aukinni hlýnun mun ýmislegt breytast á jörðinni. Maður væri nokkuð rólegri ef ráðstefnan mannmarga í Glasgow hefði verið um hvernig þjóðir heims ætla að tækla þær breytingar. Við munum ekki geta stjórnað veðrinu, en við getum búið okkur undir þær breytingar sem breytt veðurfar hefur í för með sér.
Myndskeið af Breiðamerkurjökli vekur athygli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |