Færsluflokkur: Umhverfismál

Vindorka og op3

Ég hef ritað nokkrar greinar um ásókn erlendra aðila til að byggja vindorkuver á Íslandi, enda málið stórt á alla vegu. En það verður ekki rætt um þessa ásókn erlendra aðila án þess að nefna einnig orkupakka ESB. Það er nauðsynlegt fyrir þessa erlendu aðila að rjúfa einangrun Íslands frá orkumarkaði Evrópu. Forsendur fyrir byggingu slíkra risamannvirkja liggja auðvitað í því að geta fengið sem mest fyrir orkuna.

Til hliðsjónar þessum pistli hef ég tekið skýrslu er unnin var fyrir stjórnvöld um op3, áður en hann var samþykktur á Alþingi, höfundar Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson. Það sorglega er að stjórnvöld og stór hluti þingmanna nenntu ekki að lesa þá skýrslu. Hefðu þeir haft dug til að vinna sína vinnu, værum við ekki í þeirri stöðu sem við erum í dag.

Orkupakkar ESB eru nú orðnir þrír, sá fyrsti tók gildi 1999 og fjallaði fyrst og fremst um gagnsæi í viðskiptum með orku. Annar orkupakkinn tók gildi 2003 og hann fjallaði einkum um framleiðslu, flutning og dreifingu, auk þess aðskilnað þessara þátta.

Orkupakki 3 tók gildi 2009, samþykktur af Alþingi vorið 2019. Þessi pakki skiptist niður í tvær tilskipanir og þrjár reglugerðir. Við samþykkt þeirra áskildi Alþingi að þessar tilskipanir og reglugerðir yrðu að íslenskum lögum. Maður veltir hins vegar svolítið fyrir sér hvernig hægt er að taka upp lög hér á landi, sem koma frá erlendum aðilum og samþykkt af Alþingi með einfaldri þinsályktunartillögu.

Af þessum fimm tilskipunum og reglugerðum eru það þrjár sem fjalla um raforku og tvær um gas og eldsneyti. Það eru þessar þrjár sem fjalla um raforku sem skipta okkur máli;

Tilskipun 2009/72/EB, sameiginlegar reglur um innrimarkað raforku.

Reglugerð 713/2009 samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði, ACER.

Reglugerð 714/2009 raforkuviðskipti yfir landamæri.

Það eru einkum þær tvær síðarnefndu sem skipta máli, vald ACER og viðskipi yfir landamæri.

ACER er ný stofnun innan ESB, sem sér um stýringu orkuflæðis um sameiginlegt orkunet aðildarríkjanna. Þessi stofnun hefur einnig vald til að heimila lagningu tenginga milli landa, 8. grein 713/2009.

Í skýrslu Friðriks og Stefáns er komist að þeirri niðurstöðu að 8. grein 713/2009 samrýmist vart stjórnarskrá Íslands. Sér í lagi vegna þess að við samþykkt EES samningsins hér á landi, hafi verið gengið eins nærri stjórnarskrá og hugsast gat og síðan hefur fjöldi laga verið tekin upp sem enn frekar gekk á hana. Þó telja þeir að þessi 8. grein reglugerðarinnar gangi það langt að um brot á stjórnarskrá sé að ræða. Þarna er erlendri stofnun fært vald til ákvarðanatöku sem hefur víðtæk áhrif á íbúa okkar lands. Þ.e. færir erlendri stofnun vald til ákvörðunar um tengingu landsins við meginland Evrópu og stýringu orkunnar um þann streng.

Við samþykkt þingsályktunartillögu á Alþingi, vorið 2019, um op3, setti orkumálaráðherra fyrirvara við hana, um að Alþingi réði hvort slíkur strengur yrði lagður. Orðalagið á þessum fyrirvara minnir hellst á samþykkt í ungmennafélagi, svo almenn var hún. Ekki var nefnt hvaða grein fyrirvarinn átti við og í raun ljóst að hann var skrifaður í fússi, til að sætta flokksfélaga.

En slíkur fyrir segir ekkert, hvort heldur hann er vel eða illa orðaður. Friðrik og Stefán rekja hvernig og hvar slíkir fyrirvarar fást í samskiptum EES við ESB. Þá má einungis fá þegar sameiginlega EES nefndin fjallar um málið. Það er þar sem hugsanlega er hægt að ná fram fyrirvörum, þ.e. ef EES nefndin kemur sér saman um að fara í slíkar viðræður við ESB. Þeir taka skýrt fram að við samþykkt reglugerðarinnar eru íslensk stjórnvöld búin að samþykkja hana, með öllum kostum og göllum.

Það liggur því ljóst fyrir að ef einhverjum dettur til hugar að leggja hingað sæstreng getur Alþingi ekkert sagt. Málið er sótt til umboðsmanns ACER á Íslandi, Orkustofnunar, sem samkvæmt reglugerð 713/2009 heyrir að öllu leyti undir ACER. Verði tafir þar mun ACER yfirtaka málið og það fer fyrir ESA, sem lítið getur sagt. Ísland samþykkti jú viðkomandi reglugerð án þess að fá fyrirvar samkvæmt starfsreglum EES/ESB samningsins. Hámarkstími til lausnar málsins eru 6 mánuðir. ACER getur hins vegar heimilað framkvæmdir áður en málsmeðferð líkur.

Ásókn erlendra aðila til að byggja hér vindorkuver byggir á þessu. Það sér hver heilvita maður að enginn færi að leggja peninga sína til slíkra framkvæmda þar sem orkuverð er lægst, nema því aðeins þeir viti sem er að Ísland muni tengjast erlendum orkumarkaði, með tilheyrandi hækkun á orkuverði hér á landi.

Reglugerð 714/2009 fjallar um raforkuviðskipti yfir landamæri. Þar er ACER fært allt vald til stjórnunar á orkuflæðinu. Við munum áfram eiga orkuna en ráðum litlu hvernig henni er ráðstafað. Þessi reglugerð skiptir okkur litlu meðan ekki er sæstrengur en mun taka öll völd um leið og slíkur strengur verður lagður.

Talsmenn þessara erlendu aðila, er vilja leggja landið okkar undir risastórar vindtúrbínur, hafa sagt að þeir ætli ekki að selja orkuna úr landi. Þeir hafa líka sagt að orkan gefi okkur svo og svo mikla auðsæld. Það er auðvelt að lofa einhverju sem ekki þarf að standa við. Þeir ráða ekkert hvert orkan fer efir að þeir keyra hana inn á landsnetið og þó vissulega orka geti skapað atvinnutækifæri, verður verð hennar að vera viðráðanlegt. Eftir að sæstrengur hefur verið lagður er engin hætta á að nokkurt fyrirtæki vilji starfa hér á landi.

Einu heiðarlegu erlendu fjármálamennirnir í þessum bransa eru þeir sem vilja leggja fiskimiðin okkar undir vindorkuver. Þeir hafa ætíð sagt að þeirra ætlun væri að leggja sæstrengi, í fleirtölu. Meir um það síðar.


Íslenskir lukkuriddarar fyrir erlenda vindbaróna

Mætti á fund í vikunni, þar sem umræðuefnið var vindorka. Bar hann yfirskriftina "Vindmillur fyrir hverja? til hvers?"

Þetta var fróðlegur fundur en frummælendur voru Bjarni Jónsson, rafmagnsverkfræðingur, Kristín Helga Gunnarsdóttir, rithöfundur, Ólafur Ísleifsson, fyrrverandi þingmaður og Arnar Þór Jónsson, lögfræðingur. Erindi þeirra voru bæði fróðleg og vöktu upp ýmsar spurningar. Vonandi að áframhald verði á fundum þessa hóps, enda ljóst að áhugi fyrir málefninu fer vaxandi.

Það er erfitt að sjá hver kostur við vindorku á Íslandi er, ef frá er skilinn hugsanlegur ávinningur þeirra erlendu aðila er að þeim virkjanahugmyndum standa. Og þó er enn erfiðara að átta sig á hvers vegna erlendir fjármálamenn, sem vilja ávaxta sitt fé í orkuframleiðslu, velja að koma hingað til lands í þeim tilgangi. Orkuverð hér á landi er með því lægsta sem þekkist í Evrópu, meðan orkuverð á meginlandinu er í hæstu hæðum. Fjármálamenn vilja jú ávaxta sitt fé og leita ætíð bestu leiða til þess. Því liggur beinast við fyrir þessa menn,  vilji þeir fjárfesta í vindorku, að gera það á meginlandinu. Miðað við kostnað í peningum talið, er ljóst að lítill ef einhver ágóði fellur til þeirra hér á landi, meðan ljóst er að veski þeirra gætu bólgnað verulega ef þeir nýttu sinn pening þar sem orkuverð er margfalt hærra. Þarna er eitthvað stór undarlegt í gangi.

Nokkur atriði geta leitt til skýringa á þessu. Í fyrsta lagi gæti verið á íslensku lukkuriddararnir séu að nýta sér þessa erlendu vindbaróna, sér til hagsbóta. Í öðru lagi gæti verið að þessir erlendu vindbarónar viti að stutt sé í lagningu sæstrengs til landsins og að orkuverð hér fari á sama plan og á meginlandinu, telji auðveldara að fífla íslenska sveitarstjórnarmenn en þá erlendu, sem þekkja orðið til vindmilla og þeirra ókosta. Í þriðja lagi gæti verið að þessir erlendu vindbarónar, í samstarfi við íslensku lukkuriddarana, telji að styrkjakerfi ESB muni hjálpa þeim við uppbygginguna, þannig að þeir þurfi bara að hugsa um ágóðann. Hverjar sem ástæður þessara fjármálamanna er, þá er ljóst að kostnaður við vindorkuver er ekki bara mældur í peningum.

Vindorkuver eru í eðli sínu mjög áberandi. Reyndar gera lukkuriddarar vindbarónanna lítið úr þeim þætti, tala gjarnan um vindlundi, vindskóga og svo framvegis. Eðlilegast er að kalla þessi fyrirbæri réttu nafni, orkuver. Þetta eru orkuver og ekkert annað, með öllu því sem slíkum iðnaði fylgir. Vindorkuver eru þó sú mynd orkuvera sem verst er fyrir landið og fyrir okkur Íslendinga er fátt verðmætara en landið okkar. Þetta ber hverjum stjórnmálamanni að standa vörð um, hvort heldur er í sveitarstjórnar- eða landsmálapólitík. Þetta ber hverju mannsbarni á Íslandi að standa vörð um! Það eru því ekki krónur og aurar sem eiga að ráða för í ákvörðunum um hvort hér eigi að virkja vindinn, heldur náttúran okkar. Hún er það sem við eigum og henni ber okkur skilda að skila svo hreinni sem hugsast getur til komandi kynslóða.

Í máli Bjarna kom m.a. fram að landþörf vindorkuver er mikil, að flatarmáli. Ef rennslisvirkjun er sett á gildið 1.0, það er að 1.0 er gildi fyrir ákveðna orkueiningu, er landnotkun vatnsorkuvers með miðlunarlóni 1.67 á sömu orkueiningu. Jarðgufuvirkjun er með landnotkun 5.0 á þá orkueiningu en til að framleiða sama magn orku úr vindi er landnotkun 16.7. Það er s.s. 16.7 meiri þörf á landi til framleiðslu ákveðinnar einingar að orku en rennslisvirkjun þarf og 10 sinnum meira land til virkjana á vindi en þarf til virkjana á vatni með uppistöðulóni. Þetta eru svo hrópandi tölur að engu tali tekur. Fullt Hálslón er 57 km2. Til að virkja vind til jafns við Kárahnjúkavirkjun þarf því 520 km2!. Fyrirhuguð Hvammsvirkjun verður með 4 km2 lóni, að stórum hluta þar sem áin rennur nú þegar. Það þarf því 40 km2 á þurru landi til að virkja vind til samræmis við Hvammsvirkjun. Þarna er einungis talað um flatarmálið. Lón er í sjálfu sér ekki mikil sjónmengun, þó vissulega sé sárt að missa land undir vatn. Í sumum tilfellum getur það fegrað umhverfið og innan ekki margra ára er það lón orðið að hluta landslagsins. Það myndi sennilega fáir verða hrifnir af því ef Þingvallavatn yrði fært til sömu stærðar og það var fyrir virkjun þess. Vindmillur eru hins vegar eitthvað sem aldrei mun falla að landslaginu, sér í lagi þegar um þær hæðir þeirra er að ræða sem hugmyndir eru um,, um og yfir 200 metrana. Í umhverfisáætlun Zephyr sem það sendi umhverfisstofnun, fyrir vindorkuver á Brekkukambi (650metra hár), er gert ráð fyrir að vindmillur geti orðið 246 metra háar. Svona til að sjá aðeins samhengið þá er Hallgrímskirkjuturn 74.5 metrar á hæð.

Íslensku lukkuriddarar erlendu vindbarónana tala mikið um nauðsyn þess að auka raforkuframleiðslu hér á landi, svo markmiðum stjórnvalda í loftlagsmálum verði náð. Það er rétt, ef þeim markmiðum skal náð, án þess að skerða lífskjör landsmanna, þarf að virkja meira. En hvers vegna í ósköpunum ættum við að velja þar versta kostinn?! Er einhver glóra í því að fórna stórum hluta landsins undir vindorkuver, með öllum þeim göllum sem þeim fylgja, meðan enn eru nægir kostir til vatns- og gufuvirkjana? Ég er enginn talsmaður þess að sökkva landinu undir vatn, en í samanburði við vindorkuna er sá kostur þó mun skárri. Orkuskipti kalla á meiri raforku, til að halda uppi lífskjörum okkar þarf meiri raforku og vegna fjölgunar landsmanna þarf aukna raforku. Meðan nægir viðunandi kostir til vatns- og gufuvirkjana eru fyrir hendi, á ekki einu sinni að horfa til vindorkunnar. Þá umræðu eigum við ekki að þurfa að taka fyrr en þrengja fer að öðrum kostum. Hugsanlega er þá komin einhver tækni sem gerir með öllu óþarft að hugleiða vindorkuna, nú eða einhver kostur til virkjunar hennar án þess að reisa þurfi risa vindmillur á miklu landsvæði.

20221012_204257

 

Það er tvennt sem fólk ætti að hugleiða, svona í alvöru. Hvers vegna velja erlendir fjármálamenn Ísland til vindorkubygginga, þegar ljóst er að þeir fá mun meiri ávöxtun á sitt20221012_204257 fé með því að byggja slík orkuver á meginlandi. Og hvers vegna ætti að velja versta kostinn við aukna framleiðslu á raforku í landinu.

 

 


Baulan bliknar

Franska fyrirtækið Qair ætlar að reisa "nokkrar" vindmillur í landi Hvamms í Borgarfirði, kalla þá virkjun Múlavirkjum. Nafnið stafar væntanlega af því að vindmillurnar munu rísa á múlanum ofan Hvamms, nánast við hlið Baulunnar.

Það er svolítið erfitt að gera sér grein fyrir umfangi þeirra áætlana sem margir erlendir aðilar hafa í huga hér á landi. Þar hefur mest borið á franska fyrirtækinu Qair, norska fyrirtækinu Zephyr og ítalska fyrirtækinu EM orka. Umfangið er mikið, stór landsvæði hafa verið "pöntuð" undir þessi áform en það er þó stærð vindmillana sem mann óar mest. Nokkuð fer eftir hvenær vindorkufyrirtækin létu gera fyrir sig matsáætlanir, en því yngri sem þær eru því hærri verða vindmillurnar. Ástæðan er einföld, valdar eru stærstu vindmillur sem fást á hverjum tíma er matsáætlun er gerð. Hagkvæmni vindmilla liggur jú í stærð þeirra og því víst að þegar að framkvæmdum kemur munu þær allra stærstu verða fyrir valinu. Í dag eru þær stærstu sem framleiddar eru farnar að nálgast 300 metra á hæð.

Þetta eru stærðir sem erfitt er að gera sér í hugarlund, rétt svona eins og laun bankastjóra voru fyrir hrun. Þetta eru stærðir sem almenningur þekkir ekki. Hér ætla ég þó að gera smá tilraun til að varpa örlitlu ljósi á þessar stærðir og nota til þess það orkuver er Qair hyggst byggja á múlanum ofan Hvamms í Borgarfirði. Samkvæmt matsáætlun fyrir þá virkjun er gert ráð fyrir að vindmillurnar verði um 230 metrar á hæð. Þær munu, eins og áður segir, verða byggðar á múlanum við Hvamm. Hæð þessa múla er um 300 - 400 metra yfir sjávarmál og ef þar rís slík vindmilla mun hún ná 530 - 630 metra hæð yfir sjávarmál. Stolt Borgfirðinga, sjálf Baulan, er sögð sjást frá nánast hverjum bæ í héraðinu. Hæð hennar yfir sjó er um 930 metrar, Holtavörðuheiðin er hæst 407 metrar yfir sjó og Skarðsheiðin er 1056 metrar yfir sjó. Þessar vindmillur munu því verða töluvert hærri í landslaginu en Holtavörðuheiðin. Reyndar slaga hátt upp í hæð Baulunnar.

Þetta segir þó einungis hálfa söguna. Hinu megin Norðurárdals, nánast beint á móti Múlavirkjun, mun rísa annað vindorkuver, upp á Grjóthálsi. Þær vindmillur verða í svipaðri hæð í landslaginu og væntanlega álíka háar. Því verður tryggt að þeir sem hugsanlega gætu falið sig fyrir vindmillum Múlavirkjunar, verða berskjaldaðir fyrir vindmillunum á Grjóthálsi.

Ef allar áætlanir þessara erlendi vindbaróna gengur eftir er ljóst að ekki verður hægt að ferðast um vesturland án þess að vindmillur mengi sýn. Ef farið er frá höfuðborgarsvæðinu munu fljótt blasa við slíkar ófreskjur á Brekkukambi, fyrir ofan Hvalfjörðinn. Þegar komið er fyrir Hafnarfjall koma síðan í ljós vindmillurnar við Baulu og á Grjóthálsi. Þær munu skerða náttúrusýn yfir Holtavörðuheiðina, en áður en af henni er komið munu vindmillur í landi Sólheima blasa við. Ef beygt er til vestur við Bauluna, yfir í Dalina. munu vindmillur Grjóthálsi fylgja sýn, þar til vindmillur við Hróðnýjarstaði taka við og nánast á sama tíma vindmillur á fjallinu ofan Garpsdals og vindmillurnar í landi Sólheima einnig.

Ég veit ekki hvort einhver er nokkru vísari um stærð og umfang áætlana erlendu vindbarónana, hér á Vesturlandi. Þetta er þó smá tilraun til að gera fólki skiljanlegar stærðirnar sem verið er að tala um.

Það mun verða nýtt manngert landslag, þar sem stolt borgfirðinga, Baulan, mun blikna. Það verður vart til sá blettur á Vesturlandi þar sem ekki sér til risa vindmilla.


Fávísir sveitastjórnarmenn

Skipulagsmál er í höndum sveitarfélaga. Þau ákveða hvernig landnotkun skal nýtt og veita byggingarleyfi fyrir framkvæmdum. Því er brýnt fyrir þá sem vilja byggja eitthvað umdeilt, eins og vindmillur, að koma sér í mjúkinn hjá sveitarstjórn.

Til þessa verk hika erlendir vindabarónar ekki að beita öllum þeim meðulum sem tiltæk eru, jafnvel beinar lygar stundaðar. Sveitastjórnarmenn virðast auðkeyptir og falla fyrir snákaolíunni. Fyrsta verk þessara erlendu manna er að ráða til sín fólk sem þeir telja vigta vel í íslensku þjóðfélagi, fólk sem á einhverja sögu um þátttöku í stjórnmálaelítunni, bankakerfinu eða jafnvel verið starfandi hjá íslenskum orkufyrirtækjum. Ekki er verra ef hægt er að komast yfir fyrrverandi háskólarektor. Þessu fólki er síðan lagt línurnar hvernig að málum skuli staðið, svo  fram megi ganga vilji þessara erlendu manna.

Eins og áður segir er skipulags og byggingavald í höndum sveitarstjórna. Því þarf að ná þeim á sitt band. Aðferðin er þekkt erlendis, lofað er gulli og meira gulli. Reiknikúnstir eru stundaðar sem sýna mikinn hagnað sveitarfélaga á öllu bröltinu. Þar eru jafnvel stundaðar þvílíkir loftfimleikar í reiknikúnstum að áður hefur vart sést. Í þeim loftfimleikum kemur sér vel að hafa háskólarektor innanborðs, enda fáir sem þora að andmæla "vísindum" slíkra manna, eru jú úr efsta stigi menntakerfisins í landinu!

Fyrir stuttu var ég staddur á "kynningarfundi" nokkurra erlendra orkufyrirtækja, sem æskja þess að reisa hér á landi vindmillur í stórum stíl, bæði er varðar hæð þeirra og fjölda. Á þessum fundi voru kynnt áætlanir þessara fyrirtækja hér á Vesturlandi og kallaði hópurinn sig "Vestanvindur". Þeim til halds og trausts fyrrverandi háskólarektor, sem að auki hafði unnið verkefni fyrir íslensk stjórnvöld um orkumál.

Fátt fróðlegt kom fram á fundinum, enda ljóst fljótt að hann snerist ekki um vindorkuverin, kosti þeirra og galla, heldur var þarna eingöngu verið að fræða fólk um hversu ríkt samfélagið yrði, næðu þessi áform fram að ganga. Þá var einnig kvartað mikið undan starfsleysi stjórnvalda í málaflokknum og gefið í skyn að fólkið yrði þar að beita sér, í þágu þessara erlendu vindbaróna. Það lægi á svo allur hagnaðurnn gæti nú farið að skila sér!

Háskólarektorinn kom fram með ansi nýstárlega aðferðafræði, sem í raun allur hagnaðurinn byggir á. Þar var tekið eitt að stóriðjufyrirtækjum landsins, tekin sú orka er það keypti og deilt í þá tölu með starfsmannafjölda. Sá fjöldi var síðan margfaldaður með hámarksorkugetu þeirra vindorkuvera er þessir menn stóðu fyrir. Það merkilega var að þessa aðferðarfræði kynnti rektorinn sjálfur og var bara ansi stoltur af! Út frá þessum loftfimleikum komst rektorinn að þeirri niðurstöðu að samfélagið myndi hagnast um 22 milljarða króna og af því myndu sveitarfélögin skipta með sér 7.8 milljörðum. Að vísu væri þetta miðað við hagnað á líftíma vindmillana, eða tuttugu og fimm árum. Í síðustu færslu fór ég yfir galla þessarar aðferðarfræði, eða öllu heldur þá staðreynd að heildarorkugeta er fjarri því að vera raun orkuframleiðsla vindmilla.

En það er fleira sem má gagnrýna við þessa loftfimleika rektorsins, en niðurstaða þeirra var:

Tekjuskattur                   7.7 milljarðar

Staðgreiðsla                    4.4 milljarðar

Útsvar til sveitarfélaga        4.5 milljarðar

Tryggingargjald                 2,3 milljarðar

Umhverfis og auðlindaskattur      131 miljón

Fasteignaskattur og lóðaleiga  3.3 milljarðar

Samtals til sveitarfélaga      7.8 milljarðar,   þ.e. útsvar, fasteignaskattar og lóðarleiga.

Allar byggja þessar tölur á þeirri staðreynd að til verði vel yfir 2.200 störf með tilheyrandi atvinnuuppbyggingu, en af þeim verða einungis til 100 - 150 bein störf vegna virkjanan. Hagnaðurinn er sem sagt fundinn út af einhverjum ímynduðum störfum, sem vindorkuverin eru að sjálfsögðu ekki að fara að koma á lappirnar. Þar eiga "einhverjir aðrir" að koma til. Og þar munu fáir treysta á ótrygga vindorku sem aflgjafa!

Þá verður spurningin? Hverjar eru rauntekjur af byggingu vindorkuvera?

Hver verður tekjuskattur af vindorkuverum? Miðað við orkuverð hér á landi án sæstrengs, kostnað við uppbyggingu þeirra og þá staðreynd að erlendir aðilar eiga þessi orkuver, má búast við að tekjuskattur verði ansi lítill.

Hver verður staðgreiðsla skatta af vindorkuverunum? Það er talað um 100 - 150 beinum störfum við virkjanirnar. Að sögn fulltrúa Vindorku eru þetta hálaunuð stjórnunarstörf, þannig að eitthvað skilar sér þar í ríkiskassann, en fjarri því að það geti nálgast einhverja milljarða.

Hvert verður útsvarið sem vindorkuverin skila af sér? Þar er sama svar og með tekjuskattinn, nema það mun að mjög litlu leiti skila sér til þeirra sveitarfélaga er vindur verður beislaður. Orkuverunum verður stjórnað af höfuðborgarsvæðinu. Jafnvel hægt að stjórna þeim frá Kalkútta ef svo vill. Þar verða tekjur sveitarfélaganna litlar ef nokkrar.

Tryggingagjald? Eitthvað tryggingagjald verður greitt en fjarri því að það nái þeim hæðum er rektorinn telur.

Umhverfis og auðlindaskattur? Þarna er í raun rennt blint í sjóinn, af rektornum, enda Alþingi ekki enn búið að afgreiða það mál. Nema auðvitað að þessir menn viti betur. Hvort heldur, eru þessar tekjur ansi litlar á tuttugu og fimm ára tímabili. einungis rétt um 5 milljónir á ári. Það dugir ekki einu sinni fyrir launahækkunum þingmanna!

Fasteignaskattur og lóðarleiga? Tökum fyrst lóðarleiguna. Í fæstum tilfellum fellur hún til sveitarfélaga, heldur eigenda þeirra jarða sem vindmillur rísa á, t.d. eiginkona og faðir eins ráðherrans okkar! Fasteignaskattur reiknast ekki af orkuverunum sjálfum, þ.e. vindmillunum. Einhverjar krónur koma af svokölluðu safnhúsi, þar sem orkunni er safnað saman áður en henni er dælt ínn á landsnetið.

Það er því ljóst að tekjur vegna vindorku verða fátæklegar, sérstaklega munu sveitarfélögin verða þar utangarðs. En sveitastjórnarmenn trúa snákaolíusölumönnunum, ekkert er efast og engar staðreyndir skoðaðar.

Það er deginum ljósara að erlendu vindbarónarnir eru ekki að fara að framleiða hér orku fyrir það verð sem gildir hér á landi. Þeir horfa til sæstrengs. Málpípur þeirra hér á landi hafa gefið út að þeir ætli ekki að selja orkuna úr landi. Það er bara ekki þeirra að ákveða hvert orkan fer, ekki frekar en að það er ekki þeirra að nýta orkuna hér á landi. Þeir framleiða bara orku og setja hana á landsnetið. Eftir það kemur málið þeim ekki við. Hins vegar vita þeir að þegar sæstengur tengist við meginland Evrópu, mun orkuverð hér margfaldast, enda salan þá komin undir yfirstjórn ACER. Þetta vita þeir og á þetta treysta þeir!


Blekkingar á blekkingar ofan

Það er einkenni þeirra er mest aðhyllast vindorkuver á Íslandi að blekkja fólk. Lítið er gert úr neikvæðum áhrifum slíkra virkjana en mikið gert úr því sem telst til kosta. Þar eru jafnvel stundaðar loftfimleikar sem ekki hafa áður þekkst.

Þetta sést vel þegar kynningarefni og skýrslur þessara fyrirtækja til opinberra aðila er skoðað og einnig í því efni sem fjölmiðlum er fært. Þar er ætíð gert lítið úr stærð vindmillana, ýmist með því að setja vísvitandi rangar stærðir miðað við umhverfið inn á myndir, eða með því að mynda vindmillur úr mikilli hæð þannig þær virki minni. Flestir ættu að þekkja myndina sem svo oft er sýnd í fjölmiðlum, þar sem vindmilla er sett við hlið Hallgrímskirkjuturns. Þar er vindmillan ca. helmingi hærri en turninn, þó staðreyndin sé að þær hugmyndir um vindmillur hér á landi séu flestar upp á hæð sem er vel yfir þrefalda hæð Hallgrímskirkju. Gjarnan eru sýndar myndir erlendis frá og þá gjarnan notað myndefni af litlum vindmillum.

Vitað er að nokkur hávaði er frá vindmillum, en þó halda forsvarsmenn þeirra erlendu aðila er hér vilja reisa slík mannvirki, að ekki heyrist hærra í vindmillum en í ísskáp! Um lágtíðnihljóð vilja þessir aðilar ekki kannast. Þó sannað sé að það valdi verulegum skaða.

Fugladráp er vel þekktur vandi vindmilla. Hér hefur vindbarónum tekist að skauta með öllu framhjá þeim vanda, jafnvel svo að heimild virðist vera að myndast fyrir byggingu fjölda vindmilla í grennd við þekkt varpsvæði hafarna og á mörkum friðlanda.

Þegar svo kemur að telja upp kostina vantar ekki gorgeirinn í vindbarónana. Það er auðvitað erfitt fyrir lítt menntaðan mann að efast um reikniaðferðir fyrrverandi rektors við einn af háskólum landsins. En vissulega verður sú aðferðafræði sem hann beitir að teljast nýlunda, þegar hann er að finna út fjárhagslegan hagnað af byggingu vindmilla. En jafnvel þó ég hafi ekki burði til að efast um aðferðafræðina við þennan útreikning, leifi ég mér sannarlega að efast um forsendurnar sem hann færir inn í þá aðferðafræði sína. Í stuttu máli, samkvæmt eigin sögn rektorsins, fjallar aðferðafræðin út á það að taka eitt af stóriðjufyrirtækjum landsins, hversu mikla orku það notar og deila í hana með fjölda starfsmanna þess. Niðurstaðan er síðan margfölduð með hámarksorkugetu vindorkuveranna. Þarna ætla ég ekki að efast um fyrripart aðferðafræðinnar, enda hún fundin upp af háskólarektor. Síðari hlutinn er hins vegar gagnrýniverður. Hámarksorkugeta vindorkuvera er langt frá orkuframleiðslugetu þeirra. Þetta er auðvitað ekki nein ný staðreynd, enda vindmillur verið í rekstri bæði hér á landi og erlendis um nokkuð langt skeið. Orkuframleiðsla vindorkuvera þykir nokkuð góð ef hún fer yfir 35% af hámarksorkugetu þeirra. Reikna má með að hún geti orðið eitthvað betri hér á landi, meðan vindmillur eru nýjar og lítil bilanatíðni. Gefum okkur að hún gæti orðið allt að 50%, sem er auðvitað nokkur bjartsýni.

Út frá þessum forsendum sínum komst fyrrverandi rektorinn að því, í útreikningum fyrir hóp vindbaróna sem kalla sig Vestanvindur, að heildartekjur af vindorkuverum þess hóps á Vesturlandi, fyrir samfélagið, gæti orðið 22 milljarða króna á rekstrartíma orkuveranna. Þ.e. tæpar 900 milljónir á ári. Þar af eiga sveitarfélögin að skipta með sér 300 milljónum á ári. Stór hluti þessara tekna er í formi útsvars allra þeirra sem munu fá vinnu vegna vindorkuveranna. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Ef forsendur rektorsins eru notaðar varðandi fjölda starfa sem mun fást, en seinni hluti aðferðarfræði rektorsins leiðrétt miðað við hugsanlega raunorkuframleiðslu þessara vindorkuvera, þá fækkar fjöldi starfa um helming og tekjum sveitarfélaga einnig. Heildartekjur samfélagsins hljóta einnig að minnka samsvarandi. Þá er niðurstaðan kannski að heildartekjur á hverju rekstrarári vindorkuveranna á Vesturlandi gefi samfélaginu einungis 450 milljónir og af því fái sveitarfélögin að bítast um 150 milljónir. Reyndar, eins og kemur fram í síðasta pistli, þá er ljóst að tekjur sveitarfélaga verður mun minni, þar sem ekki er um að ræða neina atvinnuuppbyggingu í þeim sveitum er vindurinn skal beislaður og hálaunastörfin sem verða til við stýringu veranna verða öll á höfuðborgarsvæðinu. Sum sveitarfélög fá því ansi litlar tekjur meðan önnur fá eitthvað aðeins meira. Jafnvel má búast við að töluverðar tekjur falli til sveitarfélaga utan Vesturlands. Hitt er ljóst að mörg þessara sveitarfélaga munu verða af öðrum tekjum, sem eru í hendi í dag. Þar er nærtækast að nefna ferðaþjónustuna, en einnig má gera ráð fyrir að landbúnaður skerðist verulega í grennd við vindorkuverin. Það leiðir aftur til þess að samfélögin bæklast og fasteignaverð hrynur, með tilheyrandi tekjufalli sveitarfélaga.

Eina atvinnuuppbyggingin sem þessi hópur nefnir er bygging vetnisverkmiðju á Grundartanga, þar sem ætlunin væri að framleiða m.a. flugvélaeldsneyti. Þessi áform er skammt á veg komin og líklegast notuð til að greiða leið fyrir leifum fyrir vindorkuverum. Þetta rímar vel við loftlagsáform ríkisstjórnarinnar og á það spila þessir menn. Loftlagsáform stjórnvalda eru óspart notuð til að rökstyðja bygginu vindorkuvera. Staðreyndin er sú að samkvæmt þeim áformum stjórnvalda þarf vissulega að auka orkuframleiðslu í landinu. Samkvæmt rammaáætlun eru nægir kostir til vatns eða gufu virkjana, til að uppfylla þá þörf. Jafnvel einnig til að framleiða hér eldsneyti úr vetni í stórum stíl, þegar hagkvæmni þess verður viðunandi.

Vatnsorkan kallar vissulega á að land fer undir miðlunarlón og ár geta breyst. Stundum til hins verra en einnig til betri vegar. Auðvitað er sárt að sökkva landi, en það er þó mun minni skemmd fyrir náttúruna en fjöldi vindorkuvera. Mun meira land þarf undir vindorkuver en vatnsorku, til framleiðslu sama magns af orku, að ekki sé nú talað um rekstraröryggið. Líftími vindorkuvera er sagður 25 ár, fer þó eftir því hvort menn eru tilbúnir að endurnýja spaðana á þeim tíma. Líftími vatnsorkuvers er meira en mannsaldur.

Að lokum aðeins um hæð vindmilla, þ.e. þeirra sem áformað er að byggja vítt og breytt um okkar fagra land. Við hér á Skaganum þekkjum vel skorsteininn, sem felldur var fyrir nokkrum árum. Ein vindmilla er eins og þrír skorsteinar hver ofaná öðrum og þar ofaná þarf að bæta við 7 gámum, upp á endann, hvern ofaná annan!

 

 


mbl.is Ísland verði hluti af orkubrú
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vestanvindur

Maður er hugsi, verulega hugsi. Hvers vegna erum við ekki búin að byggja vindmillur á hvern hól í landinu? Samkvæmt messu trúfélagsins Vestanvindur, þá væri allt svo bjart hjá okkur og smjör dræpi af hverju strái. En svo hugar maður; jú það eru vindmillur víða, ekki síst í Evrópu. Þó er orkuverð þar í hæstu hæðum. Og þegar litið er yfir prestana í trúfélaginu, þá sér maður nokkur kunnugleg andlit, frá því fyrir Hrun. Og svo má ekki gleyma þeirri staðreynd að við erum svo heimsk og vitlaus hér á Íslandi að slíkar vindmillur verða ekki byggðar nema af erlendum aðilum. Það var okkur alla vega tjáð af prestunum í messunni er trúfélagið hélt yfir okkur hérna á Skaganum.

Þessir erlendu aðilar eru franska fyrirtækið Qair, norska fyrirtækið Zephyr, ítalskt fyrirtæki sem kallar sig EM orka hér á landi og Grjótháls en í gögnum um hugmyndir þess fyrirtækis er einungis nefnt að um erlenda aðila sé að ræða. Auk þess kemur Norðurál að þessu verkefni vindbarónanna, þó óljóst sé með hvaða hætti það er. Fátt kom fram á messunni um það. Það eitt að þessir erlendu aðilar hafi tekið saman höndum vekur undrun og spurning hvað samkeppnisstofnum segir við því. Þetta eru jú aðilar sem hafa áform um að framleiða hérna orku, til sölu hér á landi. Eru væntanlega að fara í samkeppni um kaupendur hennar, eða hvað?

Það var margt undarlegt sem kom fram á messunni. Ekki get ég talið upp allt ruglið sem okkur var fært, en ætla að drepa niður á einstök atriði. það var m.a. talið hversu mikla atvinnu þetta skapaði, talað um að á framkvæmdatíma myndu hátt í eitt þúsund manns fá vinnu og að þeim loknum yrðu til í landinu allt að tvöþúsund og fimm hundruð störf. Af þeim yrðu allt að hundrað og fimmtíu vel launuð bein störf við stýringu vindmillana, er gæfu nærsamfélaginu góðar útsvarstekjur. Víst er að á byggingatíma mun mönnun verða að mestu erlendir "sérfræðingar" þ.e. ódýrasta vinnuafl sem finnst. Eins og fram kom á fundinum kunna Íslendingar ekki að byggja vindmillur. Stýring vindmillanna mun ekki fara fram í þeim héruðum sem þeim er ætlað að rísa, heldur verður þeim stýrt frá höfuðborginni. Reyndar má allt eins stýr þeim frá Indlandi, ef því er að skipta. Rúsínan í pylsuendanum er svo öll störfin sem ætlað er að þessi áform öll skili svo til frambúðar, þ.e. hér á vesturlandi. Eins og fram kom hjá fyrrverandi rektor eins af háskólum okkar, var þar notuð nýtísku aðferð við útreikninginn. Skoðað var hversu mikla orku Norðurál notar, í þá tölu var deilt þeim fjöldann er vinna hjá fyrirtækinu, bæði beint og óbeint og síðan var sú niðurstaða margfölduð með þeirri orku er vindorkuverunum er mögulegt að framleiða! Út úr þessum reikningum komust prestarnir að því að hér myndi verða um 2.250 störf, jafnvel mun meira! Þetta er auðvitað einstök aðferð og sjálfsagt ekki verri en hver önnur, enda algerlega óljóst hversu mörg eða hvort yfirleitt einhver störf verða hér til. Hins vegar er hægt með svona reiknikúnstum að fá út miklar tekjur fyrir samfélagið, Að á 25 ára rekstrartíma vindorkuveranna, muni tekjur samfélagsins verða nærri 25 milljörðum króna og af því er sveitarfélögum ætlað  um 7.5 milljarðar, eða rúmlega 300 milljónir árlega. Þetta er vissulega biti sem freistar, þ.e. ef engar efasemdir eru um forsendurnar. Þar má þó í fyrsta lagi nefna aðferðafræðina við útreikninginn en einnig að notuð er hámarks geta vindorkuveranna. Fleira þarf varla til að átta sig á að þarna er um hreina snákaolíu að ræða!

Franska fyrirtækið Qair er með vindorkuver vítt og breitt um Evrópu. Nú vill þetta fyrirtæki nema land hér og hefur fengið ekki minni snilling en Tryggva Herbertsson til að predika sinn málstað hér á landi. Enn eru áform þess fyrirtækis einungis um tvö vindorkuver hér á vesturlandi, í og við Hrútafjörðinn, þó annað þeirra teljist til Dalabyggðar. Hins vegar eru áform þessa fyrirtækis hér á landi mun stærri, eru nánast búin að leggja allt landið undir sig. Nefni einungis tvö særstu þeirra vindorkuvera sem eru í pípum Qair hér á landi, á Melrakkasléttu og í landi Grímsstaða í Meðallandssveit. Þá hefur fyrirtækið nefnt að það hyggist byggja vetnisverksmiðju að Grundartanga, til að nýta hluta þeirrar orku er þeir hyggjast framleiða. Þær hugmyndir eru þó skammt á veg komnar, ekki enn búið að ganga frá landleigu, hvað þá annað. Það er einna helst að sjá að þau áform séu fyrst og fremst ætluð til að liðka fyrir leyfum fyrir vindmillu áformin.

Norska fyrirtækið Zephyr er einnig öflugt í vindmillum erlendis, einkum þó á norðurlöndum. Það fyrirtæki vill einnig nema land hér, feta í fótspor víkinganna. Talsmaður þess hér á landi er enginn annar en Ketill Sigurjónsson, einn heitasti aðdáandi landsins á sæstreng til útlanda. Það var nokkur söknuður af því að hann skyldi ekki sjá sér fært að mæta á messuna á Akranesi, lét rektorinn fyrrverandi tala þar sínu máli. Þar hefði verið hægt að spyrja Ketil að því hvað kom honum til að ljúga að þjóðinni í sjónvarpi, þegar hann sagði vindmillur á Brekkukambi ættu að vera 200 metra háar og að hægt yrði að lækka þær niður í 150 metra með því að fjölga þeim. Þó kemur fram í skipulagsáætlun sem Zephyr lét gera fyrir sig og afhenti Skipulagsstofnun, að vindmillurnar ættu að vera 247 metra háar og hægt að lækka þær niður í 200 metra með því að fjölga þeim. Hvergi í gögnum Zephyr til Skipulagsstofnunar er minnst á að þær gætu orðið 150 metra háar! Ljóst er að hagkvæmni vindmilla liggur í stærð þeirra, þannig að hæstu hugmyndir um vindmillur eru ætíð lágmarkshæðir. Hver er trúverðugleiki manna sem ljúga blákalt að þjóðinni?

Ítalska fyrirtækið EM orka segist vera búið að vinna alla undirbúningsvinnu fyrir vindorkuveri í Garpsdal, eða öllu heldur upp á fjallinu þar fyrir ofan. Þetta segjast þeir vera búnir að vinna í sátt við samfélagið, jafnvel þó alls engin sátt sé á svæðinu um málið, Hugsanlega hafa þeir náð sátt við sveitastjórnir um málið, með loforðum um einhverjar tekjur sem svo aldrei verða að veruleika og hugsanlega eru þeir í sambandi við einhverja burtflutta landeigendur þar vestra, með sömu loforðum. Í öllu falli er sáttin grunn, ef hún er einhver.

Eins og áður segir þá er erfitt að finna raunverulega eigendur að Grjótháls verkefninu. Einungis nefnt að þar liggi erlendir aðilar að baki. Þessir erlendu eigendur eru a.m.k. nokkuð klókir, láta ábúendur þeirra tveggja jarða sem þar eru undir vera sína talsmenn. En jafnvel þó þeir eiga við sína sveitunga, hefur þeim ekki tekist að ná sátt um verkefnið, enda aðrir og tryggari hagsmunir þar í húfi, þ.e. laxveiði.

Fram kom í messunni að ætlun þessara vindbaróna er að framleiða meira en 2.000Mw af orku, bara hér á vesturlandi. Þetta er vissulega nokkuð magn. Sem dæmi er ætlað að Hvalsárvirkjun framleiði 50Mw.  Segjum sem svo að þetta gangi eftir, hvað á þá að gera þegar dettur á logn á vesturlandi og þessi rúmlega 2.000Mw detta úr framleiðslu. Er aðkoma Norðuráls kannski sú að taka slíka skelli? Því miður, þó það fyrirtæki væri tilbúið að vera dempari fyrir vindbarónana er það bara tæknilegur ómöguleiki. Eina stóriðjan sem gæti orðið slíkur dempari er Elkem, en orkunotkun þess segði lítið upp í þessi 2.000Mw. Skellurinn mun lenda á almenningi og fyrirtækjum landsins, með skömmtunum og hærra orkuverði! Og ekki þurfa þeir að spá í hvað kostar að tengja orkuverin við raforkukerfið. Samkvæmt op3 ber landsneti að tengja öll orkuver við kerfið, án kostnaðar fyrir orkuframleiðandann. Sá kostnaður leggst á kaupendur orkunnar.

Þegar litið er yfir þann hóp sem að þessum áætlunum stendur, Hrunhöfunda, sæstrengstalsmenn og ESB sinna, er ljóst að þeir eru ekki með hugann við okkur mörlandann, þó þeir lofi öllu fögru. Þeir horfa til sæstrengs til Evrópu, enda verð á orku þar eitthvað sem eftir er að slægjast. Lágt orkuverð hér a landi freistar þeirra ekki!

Fyrsta skrefið er að fá leyfi til að framleiða orkuna, þá er hægt að sýna fram á að ofgnótt orku sé hér til. Eftirleikurinn er þá auðveldur. Þar sem Alþingi samþykkti op3 þarf ekki meira til en að óskað verði eftir leifi til að leggja slíkan streng. Málið fer þá fyrir ACER, sem að sjálfsögðu samþykkir erindið fljótt, enda þegar í áformum þess að Ísland tengist meginlandinu með rafstreng. Alþingi mun þar ekkert hafa að segja, nema auðvitað að stimpla á pappírana. Þá eru vindbarónarnir á grænni grein en lífskjör hér a landi munu færast aftur um aldir!


mbl.is Tugmilljarða tekjur af vindorku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vindorka og mengun

Það er flestum ljóst að vindorka er fjarri því að vera mengunarfrí. Fyrir utan augljósa sjónmengun og hávaðamengun frá vindmillum er vitað að spaðar þeirra eyðast ótrúlega fljótt og að olían sem notuð er á spennana mengast af geislavirkni. Þá er vitað að mikið rask á landi fylgir vindmillum og þau landspjöll eru ekki afturkræf. Þetta er sú mengun sem mest hefur verið rædd opinberlega, en lítið talað um þá mengun sem er þó hættulegust og ein og sér ætti að leiða til þess að öllum hugmyndum um vindmillur ætti að slá strax út af borðinu, bæði hér á landi sem og erlendis. Þarna erum við að tala um SF6 eða brennisteinshexaflúorið.

Brennistenshexaflúoríð SF6, eða sulfur hexafluorid upp á erlenda tungu, er litlaust, lyktarlaust og algerlega ósýnileg gastegund. Gas þetta hefur þann eiginleika að vera einstaklega heppilegt til að kæla niður stóra rafmagnsrofa og er notað til þess. Nú hefur orðið mikil aukning á þessu gasi í mælingum í andrúmslofti Þýskalands og er sú mengun fyrst og fremst rakin til vindmilla. Þó vissulega þetta gas sé einnig notað í öðrum orkuverum, er ljóst að vegna þess hversu óstabílar vindmillur eru, eru oft að stöðva og starta, verður mun meiri mengun frá þeim en orkuverum sem eru stabílli í orkuframleiðslu. Þá kemur endingatími orkuveranna þarna einnig inní, þar sem eyða þarf gasinu þegar orkuframleiðslu er hætt. Endingatími vindorkuvera er einungis talin um 20 ár, meðan vatnsorkuver geta endast meira en mannsævi. 

SF6 er gastegund sem er talið hafa sterkustu gróðurhúsaáhrif allra lofttegunda á jörðinni, 23.000 sinnum meiri áhrif en co2. Reyndar telur IPCC efnið vera 27.000 sinnum öflugra. Hvert eitt kíló sem sleppur út í andrúmsloftið af brennisteinshexaflúoríði jafngildir því losun á 23  - 27 tonnum af co2. Og það tekur einungis 3000 ár fyrir gasið að eyðast eða brotna niður!

ESB vildi banna notkun á SF6, en það var lagst hart gegn því, einkum af vindmillueigendum. Að lokum náðist samþykki um bann við notkun þess, í nýjum búnaði eftir árið 2030. Siemens telur sig hafa leyst vandann, en sú lausn er dýr. Því er ljóst að SF6 mun verða notað þar til bannið tekur gildi, með tilheyrandi mengun fyrir lofthjúp jarðar. Og meðan svo er, er erfitt að átta sig á hagnaðnum við beislun vindsins. Að minnsta kosti er ljóst að hagur lofthjúpsins versnar, þó hugsanlega einhverjir gróðapungar nái að fylla vasa sína. 

Eins og áður segir hefur orðið umtalsverð aukning af SF6 í andrúmsloftinu í Þýskalandi. Sjálfsagt víðar, en þar vantar mælingar, bæði fyrir og eftir vindmilluæðið. Hér á landi eru sjálfsagt engar mælingar til á þessu efni í andrúmsloftinu. Eftirlitskylda um meðferð á brennisteinshexaflúoríði er í molum um allan heim. Það er vitað hversu mikið af því er framleitt og selt á hverju ári, það er einnig vitað hversu miklu SF6 er komið til eyðingar. Þarna á milli er mikið gap, mun meira framleitt en eytt. Það segir að mikið magn af brennisteinshexaflúoríði hefur sloppið út í andrúmsloftið, með tilheyrandi mengun lofthjúpsins. Í Þýskalandi berast böndin að vindorkuverum.

Sem betur fer hefur okkur hér á landi tekist að halda aftur af byggingu stórra vindmillugarða. Einungis eitt sveitarfélag hefur breytt skipulagi til handa vindbarónum, en það er Dalabyggð. Önnur sveitarfélög hafa ýmist hummað nálið fram af sér eða segjast ætla að bíða leiðsagnar stjórnvalda. Þá er virkjanasvæðið fyrir ofan Búrfell klárt til slíkrar uppbyggingar, enda þegar skipulagt sem slíkt. Það má alveg koma fram að einn ráðherrann tengist áformum um vindmillur í Dalabyggð, eða réttara sagt eiginkona hans og faðir hans. Kannski er það skýring þess að það sveitarfélag, eitt íslenskra sveitarfélaga, hefur glapist til að breyta skipulagi fyrir vindbarónana.

En nú er ljóst að þeir aðilar sem að áformum um byggingu vindmilla hér á landi, eru teknir að ókyrrast. Inn um lúguna hjá okkur íbúum á vesturlandi kom einblöðungur, tilkynning um fundarboð. Að þeim fundi standa EMOrka, Qair, Zephyr og Grjótháls, auk þess sem Norðurál hefur látið undan að setja nafn sitt á fundarboðið. Dagskráin er einföld, fjórir erindrekar munu halda ræður yfir þeim sem mæta. Þetta verður sannkölluð messa þar sem gestir eiga að meðtaka boðskapinn og auðvitað er ekki gert ráð fyrir fyrirspurnum kirkjugesta. 

Þarna sameinast helstu erlendu vindbarónarnir í því að reyna að siða sauðsvartan almúgann!


Að flækja fyrirsjáanleikann

Umhverfis- orku og loftlagsráðherra (nokkuð dýr titill) telur að auka þurfi fyrirsjáanleik í kaupum á rafbílum. Fyrirsjáanleikinn var hins vegar nokkuð skýr, allt fram undir síðastliðið vor. Ívilnanir voru miðaðar við kaup á fyrstu 15.000 bílunum, en áttu síðan að leggjast af. Þetta vafðist ekki fyrir neinum og fyrirsjáanleikinn mjög skýr. En á vordögum ákvað ríkisstjórnin, eftir kröfum innflytjenda bílanna, að hækka þetta mark í 20.000 bíla. Þar með var fyrirsjáanleikinn horfinn út í veður og vind. Og enn ætlar ráðherrann með langa titilinn að auka á flækjustigið. Nú með hálfkveðnum vísum um nýjar ívilnanir til kaupa á rafbílum. Ekkert kemur þó fram í hverju þær ívilnanir liggja. Hann flækir bara fyrirsjáanleikann.

Við Íslendingar erum einstaklega nýjungagjarnt fólk. Þurfum alltaf að versla það nýjasta sem kemur á markaðinn. Því er næsta víst að jafnvel þó engar ívilnanir hefðu komið til og jafnvel þó eigendur rafbíla hefðu frá upphafi þurft að greiða sinn hluta til vegakerfisins, væri rafbílaeign lítið minni en hún er í dag. Það þurfti engar skattaívilnanir til að þjóðin færi á kostum þegar flatskjáir komu fyrst á markað. Snjallsímavæðingin hér á landi hefur tekist með ágætum þó engar skattaívilnanir komi til. Nú er hvert mannsbarn frá grunnskólaaldri með slík tæki í vasanum og flestir eru með dýrustu og nýjustu símana hverju sinni. Efnahagur skiptir þar litlu, snjallsíminn er látinn ganga fyrir öðrum nauðsynjum.

Megin ástæða þess að ekki eru fleiri rafbílar hér á landi er ekki skattaívilnanir. Ástæðan er að framleiðendur hafa ekki undan að framleiða rafbíla. Innflytjendur fá ekki nægt magn til landsins. Fleiri mánaða bið er eftir slíkum bílum hjá flestum umboðum. Þarna skipta skattaívilnanir minnstu máli.

Staðreyndin er sú að kaupendur rafbíla eru fyrst og fremst þeir er betur hafa það. Hástéttin og millistéttin. Hástéttin þarf ekki ívilnanir og millistéttin sem slíka bíla verslar, tekur bara hærra lán í bönkunum, enda þeir einstaklega viljugir til að lána til slíkra kaupa. Þeir sem minnst hafa milli handanna verða hins vegar að aka áfram á eldsneytisbílum. Það fólk hefur ekki efni á að nýta sér þessar skattaívilnanir. Hins vegar lendir á því fólki auknir skattar svo hægt sé að niðurgreiða bílana fyrir hástéttina!

 


mbl.is Boðar nýjar ívilnanir vegna rafbíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er betra að vakna og pissa en...

Það er betra að vakna og pissa en pissa og vakna. Stjórnmálamenn í Noregi eru nú vaknaðir við þá ónotatilfinningu að hafa migið undir, meðan þeir íslensku liggja enn í hlandi sínu.

Orkupakki 3 frá ESB, sem EES löndum var ætlað að samþykkja, fékk mikla gagnrýni. Lærðir menn með þekkingu á málinu, vöruðu eindregið þjóðþingin við að samþykkja þennan orkupakka, bentu á að sjálfræði þjóðanna yrði skert verulega varðandi orkumál. Nú hefur þetta sannast í Noregi, en enn erum við ótengd meginlandinu, þó sumir sjái þar einhverjar ofsýnir. Íslenskir stjórnmálamenn láta sig enn dreyma, liggjandi í hlandi sínu!

Vissulega er það svo að ríkin eiga enn sínar orkulindir og dreifikerfi. Noregur á m.a.s. strengina er tengja landið við meginland Evrópu. Það dugir þó ekki til, því Noregur ræður ekki lengur hvert né hversu mikla orku skuli selja. Þar er undirstofnun ESB, ACER með öll völd. Í þeirri orkukrísu sem skollin er á meginlandinu og menn vilja kenna við stríðið í Úkraínu, þó auðvitað hún stafi fyrt og fremst af rangri orkustefnu ESB, hefur sambandið nýtt þessa undirstofnun sína til að totta eins mikla orku frá Noregi og hugsast getur. Ástandið í Noregi er því orðið vægast sagt skelfilegt. Verð á orkunni hefur tífaldast og það sem skelfir þó meira er að Noregur er að fara inn í veturinn með hálf tóm miðlunarlónin. Það stefnir því í mikinn orkuskort er líður á veturinn og eina leiðin fyrir þá verður að kaupa orku af sveltandi orkumarkaði meginlandsins. Eitthvað mun sú orka kosta! Ekki víst að norski olíusjóðurinn dugi þá lengi til niðurgreiðslna á raforkunni.

Enn sleppum við hér á landi. Það eru þó vissulega blikur á lofti. Einkum er tvennt sem gæti breytt þessari stöðu okkar og orkuverð hér farið í hæstu hæðir. Fyrst er auðvitað að nefna sæstreng til meginlandsins, en enn eru menn að halda þeirri hugmynd uppi hér á landi. Afstaða ESB í því máli er skýr, enda slíkur sæstrengur inn í þeirra plönum og verið lengi.

Hitt atriðið er aðild Íslands að ESB. Síðast í dag voru nokkrir stjórnmálaflokkar að boða inngöngu í sambandið. Þeir fara auðvitað öðrum orðum að þeirri tillögu sinni, vilja "skoða samning" og velja svo. Það er eins og þetta fólk sé ekki með öllum mjalla. Það er ekki um neinn samning að ræða, einungis hversu hratt og vel okkur tekst að aðlaga okkur að lögum og reglum ESB. Þáverandi utanríkisráðherra var minntur rækilega á þetta á fréttamannafundi með Stefáni Fule, eins og sést í þessu myndbandi. Það eru engar undanþágur frá lögum og reglum ESB. Fyrir samþykkt Lissabonsamningsins var hægt að fá frest á aðlögun minniháttar mála, en þó einungis til skamms tíma. Eftir að hann tók gildi, í byrjun desember árið 2010, var slíkum frestum úthýst.

Viðræður um aðild eru því einungis um hversu vel gengur að aðlagast hverjum kafla þeirra og að lokinni aðlögun er viðkomandi kafla lokað með samþykki viðræðunefndar ESB. Eftir að aðlögun allra kafla er lokið og þeir samþykktir af sambandinu, fara þeir til samþykktar allra aðildarþjóðanna. Eftir samþykkt þeirra er umsóknarland hæft til aðildar í ESB, enda búið að aðlaga stjórnkerfið, lögin og reglurnar, að fullu að lögum og reglum ESB. Þessa aðferðarfæði er svo oft búið að segja að allir landsmenn ættu að þekkja hana. Það er ekki verið að semja um eitt né neitt, einungis að uppfylla kröfur sambandsins til aðildar.

Hitt liggur ljóst fyrir að ef landráðamönnum tekst það ætlunarverk að koma landinu undir stjórn ESB, þurfum við ekki lengur að spá neitt í orkumál hér á landi, né neitt annað. Þá mun hver einasta lækjarspræna verða virkjuð, allir hverir landsins beislaðir og vindmilluófreskjur reistar á hverjum hól! Og öll orkan flutt með sæstrengjum til meginlandsins.


Pólitísk nálykt

Nú hefur Skipulagsstofnun og ráðherra innanríkismála staðfest breytingu á skipulagi lands, svo byggja megi vindorkuver hér á landi. Þetta er fyrsta alvöru breytingin sem á sér stað hér á landi, þar sem um er að ræða risa vindmillur. Áður hafa verið reistar tvær smá vindmillur á svokölluðu Hafi, norðan Búrfellsvirkjunar og tvær minni við Þykkvabæ, sem ekki hafa verið starfandi um nokkuð skeið. Einstaka enn minni vindmillur hafa síðan einstaklingar reyst í sínu landi, sem flestar eru orðnar óstarfhæfar.

Það er því um að ræða stóran atburð fyrir land og þjóð, þegar Skipulagsstofnun og innviðaráðherra samþykkja breytta notkun land, til hjálpar erlendum aðilum að koma hér upp risa vindmillum. Enn ljótari atburður er þetta þegar ljóst er að ráðherra í ríkisstjórninni á þarna mikilla hagsmuna að gæta. Um er að ræða jarðirnar Hróðnýjarstaði, rétt við Búðardal og Sólheima vestast í Laxárdalsheiði. En það er einmitt jörðin Sólheimar sem tengist sterkum böndum inn í ríkisstjórnina. Ásmundur Einar Daðason, barnamálaráðherra og ein stærsta stjarna Framsóknarflokks, er einmitt eigandi þeirrar jarðar. Reyndar, svo alt sé nú satt og rétt, þá er jörðin skráð á eiginkonu Ásmundar og föður hans, en sjálfur ráðherrann skrifaði undir kaupsamninginn í þeirra umboði.

Sveitarstjórn Dalabyggðar sótti stíft eftir samþykki á breyttu skipulagi þessara jarða, þrátt fyrir mikla andstöðu heimamanna. Þegar ljóst var að ráðherra gæti ekki í fyrstu staðfest breytinguna, eftir að Skipulagsstofnun hafnaði henni, var farin bakleið að breytingunni. Lítilsháttar breyting á orðalagi dugði til að Skipulagsstofnun varð að breyta afstöðu sinni og ráðherra innviðamála, sem reyndar er einnig ráðherra og formaður Framsóknar, var fljótur til að staðfesta samþykkið.

Bæði munu þessi vindorkuver hafa mikil áhrif, þar sem þau koma. Hróðnýjarstaðir eru mitt í vaxandi ferðamannaparadís Dalanna, auk þess sem sumar bestu laxveiðiár landsins eru þar nálægt. Sjónmengun, hávaðamengun og ekki síst örplastmengun, mun verða mikil í nágrenni vindorkuvera. Þetta leiðir til þess að fasteignaverð mun lækka verulega á svæðinu, ferðaþjónusta er í voða og óvíst að menn kæri sig um að veiða í laxveiðiám sem eru svo að segja undir risa vindmillum.

Enn verra er þetta varðandi fyrirhugað vindorkuver að Sólheimum, landi ráðherrans. Þar er ætlunin að reisa risa vindmillur upp á háheiðinni, rétt við austurmörk jarðarinnar. Hinu megin þeirra marka er annað sveitarfélag og íbúar þess því ekki taldir aðilar að málinu! Þar er verið að breyta landnotkun sem mun klárlega hafa áhrif á eignir þessa fólks, án þess að það sé spurt um málið eða fái að koma að ákvörðun þess á einn eða annan hátt. Yfirgangur ráðherrans er því algjör og lítilsvirðing við íbúa nágerannasveitarfélagsins.

Þess má svo geta að báðar þessar jarðir eru á svæði hafarna. Allir vita áhrif vindmilla á fugla, sér í lagi stærri fugla. Erlendis er þetta þekkt vandamál, þó vindmillur þar séu í flestum tilfellum mun minni en þær risa vindmillur er til stendur að reisa að Hróðnýjarstöðum og Sólheimum í Dölum. Svo virðist sem ekkert tillit sé tekið til verndunar hafarna, eða annarra fugla, s.s. álfta, gæsa og rjúpu, er halda sig mikið á Laxárdalsheiðinni.

Ekki ætla ég að fjölyrða um sjálft vindorkuverið og þá skelfingu sem því fylgir. Hef áður ritað mörg blogg, bæði um þetta viðkomandi vindorkuver, sem og önnur.

Þessi breyting á landnotkun, sem ráðherra samþykkir, er tímamót á Íslandi. Línan hefur verið lögð og erlendum vindbarónum er hér með hleypt inn í landið, til að framleiða orku. Orku sem ekki er sjáanleg not fyrir vegna kostnaðar við framleiðsluna.  Vindorkusinnar halda því fram að mikil þróun hafi orðið í framleiðslu á vindmillum, þannig að kostnaður hafi farið lækkandi. Vissulega má taka undir það, en sú þróun hefur öll verið á einn veg, að stækka vindmillurnar. Gera þannig vandamálið enn stærra en áður var. Og þrátt fyrir þessa "þróun" á vindmillum, er enn haf og himinn milli framleiðslukostnaðar á raforku með vindi versus vatni eða gufu. Rýr rekstratími miðað við vatns/gufu virkjanir, stuttur endingatími miðað við vatns virkjanir og hár byggingakostnaður eru þar aðal orsök. Með þessar staðreyndir er farið í reiknileikfimi, til að réttlæta arðsemi vindaflsins, en til að raunverulegur ávinningur fáist af vindaflinu þarf orkuverð hér á landi að hækka verulega.

Ásmundur Einar er ein stærsta stjarna Framsóknar í dag. Hvað veldur er erfitt að segja, hugsanlega þó frægt viðtal í fjölmiðlum, skömmu fyrir síðustu kosningar. Honum tókst að vinna hug og hjörtu höfuðborgarbúa og ná fylgi Framsóknar þar vel upp, í síðustu Alþingiskosningum. Segja má að hann hafi farið með himinskautum undanfarin misseri. En þeir sem hátt fljúga eiga á hættu langt fall.

Erlendis þætti ekki góð pólitík að formaður og ráðherra stjórnmálaflokks hjálpaði öðrum samflokksfélaga og ráðherra við gróðabrask, sér í lagi ef það væri gert til að koma viðkvæmri innlendri grunnþjónustu undir erlenda aðila. Hér á landi telst slík ósvinna ekki til tíðinda!

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband