Vestanvindur

Maður er hugsi, verulega hugsi. Hvers vegna erum við ekki búin að byggja vindmillur á hvern hól í landinu? Samkvæmt messu trúfélagsins Vestanvindur, þá væri allt svo bjart hjá okkur og smjör dræpi af hverju strái. En svo hugar maður; jú það eru vindmillur víða, ekki síst í Evrópu. Þó er orkuverð þar í hæstu hæðum. Og þegar litið er yfir prestana í trúfélaginu, þá sér maður nokkur kunnugleg andlit, frá því fyrir Hrun. Og svo má ekki gleyma þeirri staðreynd að við erum svo heimsk og vitlaus hér á Íslandi að slíkar vindmillur verða ekki byggðar nema af erlendum aðilum. Það var okkur alla vega tjáð af prestunum í messunni er trúfélagið hélt yfir okkur hérna á Skaganum.

Þessir erlendu aðilar eru franska fyrirtækið Qair, norska fyrirtækið Zephyr, ítalskt fyrirtæki sem kallar sig EM orka hér á landi og Grjótháls en í gögnum um hugmyndir þess fyrirtækis er einungis nefnt að um erlenda aðila sé að ræða. Auk þess kemur Norðurál að þessu verkefni vindbarónanna, þó óljóst sé með hvaða hætti það er. Fátt kom fram á messunni um það. Það eitt að þessir erlendu aðilar hafi tekið saman höndum vekur undrun og spurning hvað samkeppnisstofnum segir við því. Þetta eru jú aðilar sem hafa áform um að framleiða hérna orku, til sölu hér á landi. Eru væntanlega að fara í samkeppni um kaupendur hennar, eða hvað?

Það var margt undarlegt sem kom fram á messunni. Ekki get ég talið upp allt ruglið sem okkur var fært, en ætla að drepa niður á einstök atriði. það var m.a. talið hversu mikla atvinnu þetta skapaði, talað um að á framkvæmdatíma myndu hátt í eitt þúsund manns fá vinnu og að þeim loknum yrðu til í landinu allt að tvöþúsund og fimm hundruð störf. Af þeim yrðu allt að hundrað og fimmtíu vel launuð bein störf við stýringu vindmillana, er gæfu nærsamfélaginu góðar útsvarstekjur. Víst er að á byggingatíma mun mönnun verða að mestu erlendir "sérfræðingar" þ.e. ódýrasta vinnuafl sem finnst. Eins og fram kom á fundinum kunna Íslendingar ekki að byggja vindmillur. Stýring vindmillanna mun ekki fara fram í þeim héruðum sem þeim er ætlað að rísa, heldur verður þeim stýrt frá höfuðborginni. Reyndar má allt eins stýr þeim frá Indlandi, ef því er að skipta. Rúsínan í pylsuendanum er svo öll störfin sem ætlað er að þessi áform öll skili svo til frambúðar, þ.e. hér á vesturlandi. Eins og fram kom hjá fyrrverandi rektor eins af háskólum okkar, var þar notuð nýtísku aðferð við útreikninginn. Skoðað var hversu mikla orku Norðurál notar, í þá tölu var deilt þeim fjöldann er vinna hjá fyrirtækinu, bæði beint og óbeint og síðan var sú niðurstaða margfölduð með þeirri orku er vindorkuverunum er mögulegt að framleiða! Út úr þessum reikningum komust prestarnir að því að hér myndi verða um 2.250 störf, jafnvel mun meira! Þetta er auðvitað einstök aðferð og sjálfsagt ekki verri en hver önnur, enda algerlega óljóst hversu mörg eða hvort yfirleitt einhver störf verða hér til. Hins vegar er hægt með svona reiknikúnstum að fá út miklar tekjur fyrir samfélagið, Að á 25 ára rekstrartíma vindorkuveranna, muni tekjur samfélagsins verða nærri 25 milljörðum króna og af því er sveitarfélögum ætlað  um 7.5 milljarðar, eða rúmlega 300 milljónir árlega. Þetta er vissulega biti sem freistar, þ.e. ef engar efasemdir eru um forsendurnar. Þar má þó í fyrsta lagi nefna aðferðafræðina við útreikninginn en einnig að notuð er hámarks geta vindorkuveranna. Fleira þarf varla til að átta sig á að þarna er um hreina snákaolíu að ræða!

Franska fyrirtækið Qair er með vindorkuver vítt og breitt um Evrópu. Nú vill þetta fyrirtæki nema land hér og hefur fengið ekki minni snilling en Tryggva Herbertsson til að predika sinn málstað hér á landi. Enn eru áform þess fyrirtækis einungis um tvö vindorkuver hér á vesturlandi, í og við Hrútafjörðinn, þó annað þeirra teljist til Dalabyggðar. Hins vegar eru áform þessa fyrirtækis hér á landi mun stærri, eru nánast búin að leggja allt landið undir sig. Nefni einungis tvö særstu þeirra vindorkuvera sem eru í pípum Qair hér á landi, á Melrakkasléttu og í landi Grímsstaða í Meðallandssveit. Þá hefur fyrirtækið nefnt að það hyggist byggja vetnisverksmiðju að Grundartanga, til að nýta hluta þeirrar orku er þeir hyggjast framleiða. Þær hugmyndir eru þó skammt á veg komnar, ekki enn búið að ganga frá landleigu, hvað þá annað. Það er einna helst að sjá að þau áform séu fyrst og fremst ætluð til að liðka fyrir leyfum fyrir vindmillu áformin.

Norska fyrirtækið Zephyr er einnig öflugt í vindmillum erlendis, einkum þó á norðurlöndum. Það fyrirtæki vill einnig nema land hér, feta í fótspor víkinganna. Talsmaður þess hér á landi er enginn annar en Ketill Sigurjónsson, einn heitasti aðdáandi landsins á sæstreng til útlanda. Það var nokkur söknuður af því að hann skyldi ekki sjá sér fært að mæta á messuna á Akranesi, lét rektorinn fyrrverandi tala þar sínu máli. Þar hefði verið hægt að spyrja Ketil að því hvað kom honum til að ljúga að þjóðinni í sjónvarpi, þegar hann sagði vindmillur á Brekkukambi ættu að vera 200 metra háar og að hægt yrði að lækka þær niður í 150 metra með því að fjölga þeim. Þó kemur fram í skipulagsáætlun sem Zephyr lét gera fyrir sig og afhenti Skipulagsstofnun, að vindmillurnar ættu að vera 247 metra háar og hægt að lækka þær niður í 200 metra með því að fjölga þeim. Hvergi í gögnum Zephyr til Skipulagsstofnunar er minnst á að þær gætu orðið 150 metra háar! Ljóst er að hagkvæmni vindmilla liggur í stærð þeirra, þannig að hæstu hugmyndir um vindmillur eru ætíð lágmarkshæðir. Hver er trúverðugleiki manna sem ljúga blákalt að þjóðinni?

Ítalska fyrirtækið EM orka segist vera búið að vinna alla undirbúningsvinnu fyrir vindorkuveri í Garpsdal, eða öllu heldur upp á fjallinu þar fyrir ofan. Þetta segjast þeir vera búnir að vinna í sátt við samfélagið, jafnvel þó alls engin sátt sé á svæðinu um málið, Hugsanlega hafa þeir náð sátt við sveitastjórnir um málið, með loforðum um einhverjar tekjur sem svo aldrei verða að veruleika og hugsanlega eru þeir í sambandi við einhverja burtflutta landeigendur þar vestra, með sömu loforðum. Í öllu falli er sáttin grunn, ef hún er einhver.

Eins og áður segir þá er erfitt að finna raunverulega eigendur að Grjótháls verkefninu. Einungis nefnt að þar liggi erlendir aðilar að baki. Þessir erlendu eigendur eru a.m.k. nokkuð klókir, láta ábúendur þeirra tveggja jarða sem þar eru undir vera sína talsmenn. En jafnvel þó þeir eiga við sína sveitunga, hefur þeim ekki tekist að ná sátt um verkefnið, enda aðrir og tryggari hagsmunir þar í húfi, þ.e. laxveiði.

Fram kom í messunni að ætlun þessara vindbaróna er að framleiða meira en 2.000Mw af orku, bara hér á vesturlandi. Þetta er vissulega nokkuð magn. Sem dæmi er ætlað að Hvalsárvirkjun framleiði 50Mw.  Segjum sem svo að þetta gangi eftir, hvað á þá að gera þegar dettur á logn á vesturlandi og þessi rúmlega 2.000Mw detta úr framleiðslu. Er aðkoma Norðuráls kannski sú að taka slíka skelli? Því miður, þó það fyrirtæki væri tilbúið að vera dempari fyrir vindbarónana er það bara tæknilegur ómöguleiki. Eina stóriðjan sem gæti orðið slíkur dempari er Elkem, en orkunotkun þess segði lítið upp í þessi 2.000Mw. Skellurinn mun lenda á almenningi og fyrirtækjum landsins, með skömmtunum og hærra orkuverði! Og ekki þurfa þeir að spá í hvað kostar að tengja orkuverin við raforkukerfið. Samkvæmt op3 ber landsneti að tengja öll orkuver við kerfið, án kostnaðar fyrir orkuframleiðandann. Sá kostnaður leggst á kaupendur orkunnar.

Þegar litið er yfir þann hóp sem að þessum áætlunum stendur, Hrunhöfunda, sæstrengstalsmenn og ESB sinna, er ljóst að þeir eru ekki með hugann við okkur mörlandann, þó þeir lofi öllu fögru. Þeir horfa til sæstrengs til Evrópu, enda verð á orku þar eitthvað sem eftir er að slægjast. Lágt orkuverð hér a landi freistar þeirra ekki!

Fyrsta skrefið er að fá leyfi til að framleiða orkuna, þá er hægt að sýna fram á að ofgnótt orku sé hér til. Eftirleikurinn er þá auðveldur. Þar sem Alþingi samþykkti op3 þarf ekki meira til en að óskað verði eftir leifi til að leggja slíkan streng. Málið fer þá fyrir ACER, sem að sjálfsögðu samþykkir erindið fljótt, enda þegar í áformum þess að Ísland tengist meginlandinu með rafstreng. Alþingi mun þar ekkert hafa að segja, nema auðvitað að stimpla á pappírana. Þá eru vindbarónarnir á grænni grein en lífskjör hér a landi munu færast aftur um aldir!


mbl.is Tugmilljarða tekjur af vindorku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir þessa þörfu samantekt Gunnar, -það þarf einhver að standa vaktina í þessum óskapnaði.

Ég hygg samt, -þó landið liggi allt undir, að Tryggvi og félagar hlífi Mjóafirði fyrir vindmyllunum, ekki einu sinni Fúsa hefur tekist að fá þangað laxeldi, sem dritað á í alla firði austanlands, enda lítið varið í að njóta íslenskrar náttúru innan um óskapnaðinn.

Mín tilfinning er sú að ef vindmylluruglið fær byr til að veltast þá verði stutt í ljóshundinn til Evrópu og himinháa orkureikninga rétt eins og í orkuparadísinni  Noregi.

Magnús Sigurðsson, 24.9.2022 kl. 10:14

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Magnús

Er Fúsi ekki að fara rangt að þessu? Hann býður hinum og þessum fjörðinn sinn. Væri ekki betra að vera á móti? Þá kæmu laxeldisrónarnir eins og skot og krefðust þess að fá að fylla fjörðinn mjóa af alls kyns furðuverum.

Varðandi vindmilludrauma þá óttast ég að sá slagur sé tapaður, þó enn séu einstaka nöldrarar að agnúast út í þau áform.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 24.9.2022 kl. 11:40

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Það virðist fara meira eftir sumarbústaða eigendum en íbúum hvernig þetta veltist í Mjóafirði.

Mér grunar það sama og þig varðandi vindmyllurnar. Landsmenn fljóta sofandi að feigðarósi á meðan kolefnissporið strókar aftan úr rassgatinu á þeim.

Fólk svaf af sér alla orkupakkana. Þegar ekki verður aur fyrir ferðinni til Tene vegna himinhárra orkureikninga er von til þess að það rumski, en því miður og seint.

Magnús Sigurðsson, 24.9.2022 kl. 13:14

4 Smámynd: Júlíus Valsson

Mjög góður pistinn Gunnar. Við sem störfum í samtökunum Orkan Okkar höfum um árabil varað harðlega og endurtekið við þessari öfugþróun. Það er algjörlega galið að Íslendingar hafi gengið inn í Orkusamband ESB og innleitt orkulöggjöf ESB. Gallar kerfisins í Evrópu hafa berlega komið i ljós við skort á gasi sem hefur valdið miklum hækkunum á raforku eins og sést best á raforkuverðinu í Suður Noregi og Suður Svíþjóð þ.e. á landsvæðum þar sem neytendur eru beintengdir raforkukerfi ESB með sæstrengjum. Ástæðan er svokallað "jaðarverð" á raforku sem tekur mið af dýrasta orkugjafanum á hverjum tíma (olía, kol, gas, kjarnorka, vatnsorka o.s.frv.) og miðast því raforkuverðið nú við verð á gasi, sem er algjörlega galið fyrir bæði Norðmenn (sem eiga nóg af gasi og græða vel á því) og hvað þá fyrir Íslendinga sem eiga eða geta átt nóg af ódýrri vatnsorku. Íslenskir stjórnmálamenn sem hafa sjálfir hagsmuna að gæta og hinir sem nenna ekki að kynna sér málin hafa smám saman verið að grafa unan okkar góða, ódýra og trausta raforkumarkaði með óheiðarlegu og í raun ógeðfelldu eiginhagsmuna poti. Þessir einstaklingar gefa skít í hag almennings. Þessa þrónun þarf að stöðva. Strax!  

Júlíus Valsson, 26.9.2022 kl. 10:54

5 Smámynd: Júlíus Valsson

Það er pólitísk ákvörðun þeirra sem stjórna Landsvirkjun að halda að sér höndunum með að reisa ekki vinmyllugarða og virkja ekki fallvötnin. Hver er hinn pólitíski leiðangur sem ríkisstjórnin er að teyma okkur sofandi Íslendinga út í? Ekki tekur betra við þegar ESB-flokkarnir taka við völdum. Þá verður Alþingi ekki lengi að samþykkja sæstrengi. Við erum algjörir asnar Íslendingar. 

Júlíus Valsson, 26.9.2022 kl. 11:01

6 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Því miður þá er líklegt að stríðið um orkuna okkar hafi tapast 2. september 2019, Júlíus. Þann dag samþykktu 46 þingmenn orkupakka 3, 13 voru á móti og 4 höfðu ekki kjark til að taka afstöðu.

Þessir 46 þingmenn er sannarlega landráðamenn, enda brutu þeir stjórnarskránna með því að afsala valdi yfir orkuauðlindinni til erlendra aðila. Menn hafa verið kærðir, saksóttir og dæmdir fyrir minni sakir!

Gunnar Heiðarsson, 26.9.2022 kl. 15:47

7 Smámynd: Júlíus Valsson

Þrátt fyrir þöggun RÚV hefur almenningur nú loksins vaknað til vitundar um það skaðræði sem orkupakkar og samkeppnisreglur ESB eru að valda Norðmönnum sem búa á svæðum þar sem tengingar við raforkukerfi ESB hafa áhrif á raforkuverðið. Nú sjá Íslendingar loksins í gegn um þær blekkingar og lygar sem ráðuneytin á Íslandi buðu okkar upp á árið 2019. Halda menn að það sé einhver tilviljun að nú streyma til landsins erlendir lukkuriddarar með dyggri aðstoð gamalla þingmanna til að reisa hér vindmyllugarða? Hvert fer svo arðurinn? Í vasa skattreiðenda á Íslandi? Gettu betur. Hvers vegna er Landsvirkjun ekki fyrir löngu síðan búin að virkja fleiri vatnsöfl og setja upp vindmyllugarða? Fólkið í landinu þarf að taka völdin af þessum refum sem stjórna landinu og sem hugsa einungis um sinn eigin hag.  

Júlíus Valsson, 26.9.2022 kl. 15:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband