Fávísir sveitastjórnarmenn

Skipulagsmál er í höndum sveitarfélaga. Þau ákveða hvernig landnotkun skal nýtt og veita byggingarleyfi fyrir framkvæmdum. Því er brýnt fyrir þá sem vilja byggja eitthvað umdeilt, eins og vindmillur, að koma sér í mjúkinn hjá sveitarstjórn.

Til þessa verk hika erlendir vindabarónar ekki að beita öllum þeim meðulum sem tiltæk eru, jafnvel beinar lygar stundaðar. Sveitastjórnarmenn virðast auðkeyptir og falla fyrir snákaolíunni. Fyrsta verk þessara erlendu manna er að ráða til sín fólk sem þeir telja vigta vel í íslensku þjóðfélagi, fólk sem á einhverja sögu um þátttöku í stjórnmálaelítunni, bankakerfinu eða jafnvel verið starfandi hjá íslenskum orkufyrirtækjum. Ekki er verra ef hægt er að komast yfir fyrrverandi háskólarektor. Þessu fólki er síðan lagt línurnar hvernig að málum skuli staðið, svo  fram megi ganga vilji þessara erlendu manna.

Eins og áður segir er skipulags og byggingavald í höndum sveitarstjórna. Því þarf að ná þeim á sitt band. Aðferðin er þekkt erlendis, lofað er gulli og meira gulli. Reiknikúnstir eru stundaðar sem sýna mikinn hagnað sveitarfélaga á öllu bröltinu. Þar eru jafnvel stundaðar þvílíkir loftfimleikar í reiknikúnstum að áður hefur vart sést. Í þeim loftfimleikum kemur sér vel að hafa háskólarektor innanborðs, enda fáir sem þora að andmæla "vísindum" slíkra manna, eru jú úr efsta stigi menntakerfisins í landinu!

Fyrir stuttu var ég staddur á "kynningarfundi" nokkurra erlendra orkufyrirtækja, sem æskja þess að reisa hér á landi vindmillur í stórum stíl, bæði er varðar hæð þeirra og fjölda. Á þessum fundi voru kynnt áætlanir þessara fyrirtækja hér á Vesturlandi og kallaði hópurinn sig "Vestanvindur". Þeim til halds og trausts fyrrverandi háskólarektor, sem að auki hafði unnið verkefni fyrir íslensk stjórnvöld um orkumál.

Fátt fróðlegt kom fram á fundinum, enda ljóst fljótt að hann snerist ekki um vindorkuverin, kosti þeirra og galla, heldur var þarna eingöngu verið að fræða fólk um hversu ríkt samfélagið yrði, næðu þessi áform fram að ganga. Þá var einnig kvartað mikið undan starfsleysi stjórnvalda í málaflokknum og gefið í skyn að fólkið yrði þar að beita sér, í þágu þessara erlendu vindbaróna. Það lægi á svo allur hagnaðurnn gæti nú farið að skila sér!

Háskólarektorinn kom fram með ansi nýstárlega aðferðafræði, sem í raun allur hagnaðurinn byggir á. Þar var tekið eitt að stóriðjufyrirtækjum landsins, tekin sú orka er það keypti og deilt í þá tölu með starfsmannafjölda. Sá fjöldi var síðan margfaldaður með hámarksorkugetu þeirra vindorkuvera er þessir menn stóðu fyrir. Það merkilega var að þessa aðferðarfræði kynnti rektorinn sjálfur og var bara ansi stoltur af! Út frá þessum loftfimleikum komst rektorinn að þeirri niðurstöðu að samfélagið myndi hagnast um 22 milljarða króna og af því myndu sveitarfélögin skipta með sér 7.8 milljörðum. Að vísu væri þetta miðað við hagnað á líftíma vindmillana, eða tuttugu og fimm árum. Í síðustu færslu fór ég yfir galla þessarar aðferðarfræði, eða öllu heldur þá staðreynd að heildarorkugeta er fjarri því að vera raun orkuframleiðsla vindmilla.

En það er fleira sem má gagnrýna við þessa loftfimleika rektorsins, en niðurstaða þeirra var:

Tekjuskattur                   7.7 milljarðar

Staðgreiðsla                    4.4 milljarðar

Útsvar til sveitarfélaga        4.5 milljarðar

Tryggingargjald                 2,3 milljarðar

Umhverfis og auðlindaskattur      131 miljón

Fasteignaskattur og lóðaleiga  3.3 milljarðar

Samtals til sveitarfélaga      7.8 milljarðar,   þ.e. útsvar, fasteignaskattar og lóðarleiga.

Allar byggja þessar tölur á þeirri staðreynd að til verði vel yfir 2.200 störf með tilheyrandi atvinnuuppbyggingu, en af þeim verða einungis til 100 - 150 bein störf vegna virkjanan. Hagnaðurinn er sem sagt fundinn út af einhverjum ímynduðum störfum, sem vindorkuverin eru að sjálfsögðu ekki að fara að koma á lappirnar. Þar eiga "einhverjir aðrir" að koma til. Og þar munu fáir treysta á ótrygga vindorku sem aflgjafa!

Þá verður spurningin? Hverjar eru rauntekjur af byggingu vindorkuvera?

Hver verður tekjuskattur af vindorkuverum? Miðað við orkuverð hér á landi án sæstrengs, kostnað við uppbyggingu þeirra og þá staðreynd að erlendir aðilar eiga þessi orkuver, má búast við að tekjuskattur verði ansi lítill.

Hver verður staðgreiðsla skatta af vindorkuverunum? Það er talað um 100 - 150 beinum störfum við virkjanirnar. Að sögn fulltrúa Vindorku eru þetta hálaunuð stjórnunarstörf, þannig að eitthvað skilar sér þar í ríkiskassann, en fjarri því að það geti nálgast einhverja milljarða.

Hvert verður útsvarið sem vindorkuverin skila af sér? Þar er sama svar og með tekjuskattinn, nema það mun að mjög litlu leiti skila sér til þeirra sveitarfélaga er vindur verður beislaður. Orkuverunum verður stjórnað af höfuðborgarsvæðinu. Jafnvel hægt að stjórna þeim frá Kalkútta ef svo vill. Þar verða tekjur sveitarfélaganna litlar ef nokkrar.

Tryggingagjald? Eitthvað tryggingagjald verður greitt en fjarri því að það nái þeim hæðum er rektorinn telur.

Umhverfis og auðlindaskattur? Þarna er í raun rennt blint í sjóinn, af rektornum, enda Alþingi ekki enn búið að afgreiða það mál. Nema auðvitað að þessir menn viti betur. Hvort heldur, eru þessar tekjur ansi litlar á tuttugu og fimm ára tímabili. einungis rétt um 5 milljónir á ári. Það dugir ekki einu sinni fyrir launahækkunum þingmanna!

Fasteignaskattur og lóðarleiga? Tökum fyrst lóðarleiguna. Í fæstum tilfellum fellur hún til sveitarfélaga, heldur eigenda þeirra jarða sem vindmillur rísa á, t.d. eiginkona og faðir eins ráðherrans okkar! Fasteignaskattur reiknast ekki af orkuverunum sjálfum, þ.e. vindmillunum. Einhverjar krónur koma af svokölluðu safnhúsi, þar sem orkunni er safnað saman áður en henni er dælt ínn á landsnetið.

Það er því ljóst að tekjur vegna vindorku verða fátæklegar, sérstaklega munu sveitarfélögin verða þar utangarðs. En sveitastjórnarmenn trúa snákaolíusölumönnunum, ekkert er efast og engar staðreyndir skoðaðar.

Það er deginum ljósara að erlendu vindbarónarnir eru ekki að fara að framleiða hér orku fyrir það verð sem gildir hér á landi. Þeir horfa til sæstrengs. Málpípur þeirra hér á landi hafa gefið út að þeir ætli ekki að selja orkuna úr landi. Það er bara ekki þeirra að ákveða hvert orkan fer, ekki frekar en að það er ekki þeirra að nýta orkuna hér á landi. Þeir framleiða bara orku og setja hana á landsnetið. Eftir það kemur málið þeim ekki við. Hins vegar vita þeir að þegar sæstengur tengist við meginland Evrópu, mun orkuverð hér margfaldast, enda salan þá komin undir yfirstjórn ACER. Þetta vita þeir og á þetta treysta þeir!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fróðleikinn Gunnar, kom eitthvað fram um hvað þeir í Þykkvabænum höfðu upp úr vindmyllu ævintýrinu?

Lífeyrissjóðirnir hafa vonandi sloppið skaðlausir frá þessu, eða hvað?

Magnús Sigurðsson, 4.10.2022 kl. 15:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband