Það er betra að vakna og pissa en...

Það er betra að vakna og pissa en pissa og vakna. Stjórnmálamenn í Noregi eru nú vaknaðir við þá ónotatilfinningu að hafa migið undir, meðan þeir íslensku liggja enn í hlandi sínu.

Orkupakki 3 frá ESB, sem EES löndum var ætlað að samþykkja, fékk mikla gagnrýni. Lærðir menn með þekkingu á málinu, vöruðu eindregið þjóðþingin við að samþykkja þennan orkupakka, bentu á að sjálfræði þjóðanna yrði skert verulega varðandi orkumál. Nú hefur þetta sannast í Noregi, en enn erum við ótengd meginlandinu, þó sumir sjái þar einhverjar ofsýnir. Íslenskir stjórnmálamenn láta sig enn dreyma, liggjandi í hlandi sínu!

Vissulega er það svo að ríkin eiga enn sínar orkulindir og dreifikerfi. Noregur á m.a.s. strengina er tengja landið við meginland Evrópu. Það dugir þó ekki til, því Noregur ræður ekki lengur hvert né hversu mikla orku skuli selja. Þar er undirstofnun ESB, ACER með öll völd. Í þeirri orkukrísu sem skollin er á meginlandinu og menn vilja kenna við stríðið í Úkraínu, þó auðvitað hún stafi fyrt og fremst af rangri orkustefnu ESB, hefur sambandið nýtt þessa undirstofnun sína til að totta eins mikla orku frá Noregi og hugsast getur. Ástandið í Noregi er því orðið vægast sagt skelfilegt. Verð á orkunni hefur tífaldast og það sem skelfir þó meira er að Noregur er að fara inn í veturinn með hálf tóm miðlunarlónin. Það stefnir því í mikinn orkuskort er líður á veturinn og eina leiðin fyrir þá verður að kaupa orku af sveltandi orkumarkaði meginlandsins. Eitthvað mun sú orka kosta! Ekki víst að norski olíusjóðurinn dugi þá lengi til niðurgreiðslna á raforkunni.

Enn sleppum við hér á landi. Það eru þó vissulega blikur á lofti. Einkum er tvennt sem gæti breytt þessari stöðu okkar og orkuverð hér farið í hæstu hæðir. Fyrst er auðvitað að nefna sæstreng til meginlandsins, en enn eru menn að halda þeirri hugmynd uppi hér á landi. Afstaða ESB í því máli er skýr, enda slíkur sæstrengur inn í þeirra plönum og verið lengi.

Hitt atriðið er aðild Íslands að ESB. Síðast í dag voru nokkrir stjórnmálaflokkar að boða inngöngu í sambandið. Þeir fara auðvitað öðrum orðum að þeirri tillögu sinni, vilja "skoða samning" og velja svo. Það er eins og þetta fólk sé ekki með öllum mjalla. Það er ekki um neinn samning að ræða, einungis hversu hratt og vel okkur tekst að aðlaga okkur að lögum og reglum ESB. Þáverandi utanríkisráðherra var minntur rækilega á þetta á fréttamannafundi með Stefáni Fule, eins og sést í þessu myndbandi. Það eru engar undanþágur frá lögum og reglum ESB. Fyrir samþykkt Lissabonsamningsins var hægt að fá frest á aðlögun minniháttar mála, en þó einungis til skamms tíma. Eftir að hann tók gildi, í byrjun desember árið 2010, var slíkum frestum úthýst.

Viðræður um aðild eru því einungis um hversu vel gengur að aðlagast hverjum kafla þeirra og að lokinni aðlögun er viðkomandi kafla lokað með samþykki viðræðunefndar ESB. Eftir að aðlögun allra kafla er lokið og þeir samþykktir af sambandinu, fara þeir til samþykktar allra aðildarþjóðanna. Eftir samþykkt þeirra er umsóknarland hæft til aðildar í ESB, enda búið að aðlaga stjórnkerfið, lögin og reglurnar, að fullu að lögum og reglum ESB. Þessa aðferðarfæði er svo oft búið að segja að allir landsmenn ættu að þekkja hana. Það er ekki verið að semja um eitt né neitt, einungis að uppfylla kröfur sambandsins til aðildar.

Hitt liggur ljóst fyrir að ef landráðamönnum tekst það ætlunarverk að koma landinu undir stjórn ESB, þurfum við ekki lengur að spá neitt í orkumál hér á landi, né neitt annað. Þá mun hver einasta lækjarspræna verða virkjuð, allir hverir landsins beislaðir og vindmilluófreskjur reistar á hverjum hól! Og öll orkan flutt með sæstrengjum til meginlandsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Mjög góð grein og vonandi verður hún til þess að einhverjir fari að fara úr "hlandblautu náttfötunum sínum"..... cool tongue-out undecided

Jóhann Elíasson, 16.9.2022 kl. 09:02

2 Smámynd: Hrossabrestur

Líður ekki pólitíkusunum best liggjandi í hlandforinni?

kv. hrossabrestur.

Hrossabrestur, 16.9.2022 kl. 16:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband