Fúafen

Í síðustu færslu fór ég aðeins inná fróðlega grein í Bændablaðinu, er kom út þann 7. apríl. Sú grein er rituð af sjö sérfræðingum, hverjum á sínu sviði og fjallar um rannsóknir á losun co2 úr jörðu.

Svo virðist sem stjórnvöld hafi látið teyma sig út í fúafen, í orðsins fyllstu merkingu. Þeir sem lenda í slíku feni hafa um tvo kosti að velja, að snúa aftur á fast land, ellegar að halda áfram út í fenið. Síðari kosturinn hefur aldrei gengið upp, en með því að snúa til baka má finna greiðfærari og öruggari leið að markmiði sínu.

Til að því sé haldið til haga þá nefna sérfræðingarnir oft í sinni grein að efla þurfi rannsóknir á sviði losunar co2 úr jarðvegi. Þar kemur hellst til að niðurstaða þeirra er í svo hrópandi ósamræmi við viðhafðar skoðanir um málið, skoðanir sem ekki byggjast á rannsóknum heldur fyrirfram ákveðinni niðurstöðu. Þarna munar allt að 88.6% á viðhafðri skoðun á og niðurstöðum rannsókna! Þessu munur er svo hrópandi að engu tali tekur og þó er þarna einungis verið að ræða losun á co2 úr jarðvegi, ekki tekið tillit til þess að þurrkað land hefur mun þykkari og betri gróðurþekju grænblöðunga, sem jú eins og allir vita, vinna stöðugt að því að binda kolefnið úr co2 og skilja einungis súrefni þess eftir í andrúmsloftinu. Co2 er jú ein eining kolefnis á móti tveim einingum af súrefni. Fróðlegt væri að vita hver heildarlosun er frá jarðvegi ef þetta er einnig tekið með í jöfnuna.

Þarna er ekki um neitt smá mál að ræða, fyrir okkur sem þjóð. Standist þessar rannsóknir getum við náð losunarmarkmiðum stjórnvalda og gott betur, með því einu að endurreikna losun co2 úr jarðvegi, til samræmis við raunveruleikann. Við gætum með því einu minnkað losun landsins um 57% strax, meðan markmið stjórnvalda er að minnka hér losun um 55% fyrir árið 2030. Reyndar er það markmið stjórnvalda með öllu óraunhæft, ef ekki kæmi til þessi óvænta niðurstaða á raunlosun úr jarðvegi.

Stjórnvöld hljóta að taka þessari fyrstu opinberu skýrslu fegins hendi og leggja pening til aukinna rannsókna. Jafnvel þó niðurstaðan yrði eitthvað örlítið lakari við frekari rannsóknir, gæti líkað orðið enn betri, er einséð að þarna er um mikla hagsmuni að ræða. Það hefur ekki staðið á að leggja peninga til hinna ýmsu verkefna sem hafa í sinni kynningu loftlagsmál, jafnvel þó óljóst sé hvað verið er að meina og engar rannsóknir standi að baki þeim fullyrðingum. Því ætti ekki að vefjast fyrir stjórnvöldum að styðja vel við bak þeirra vísindamanna sem leita sannleikans um málið!

Meðan raunveruleg vitneskja liggur ekki fyrir er fráleitt að kasta peningum í einhverjar framkvæmdir sem jafnvel gætu gert vandann mun stærri. Að endurheimt votlendis muni ekki skila neinu í minnkun losunar á co2 en muni auka stórlega losun á metani og að grænblöðungum muni fækka stórkostlega með tilheyrandi minnkun á virkni þeirra til að binda kolefni í jörðu. Þetta er ekki vitað og verður ekki vitað nema með rannsóknum. Sú fyrsta sem er opinberuð bendir í allt aðra átt en tölur IPCC segja til um. Þær tölur byggja á örfáum rannsóknum erlendis. Þar er bæði mun dýpri jarðvegur sem og að akuryrkja er þar ráðandi. Akuryrkju fylgir að jörð er opinn stórann hluta árs, meðan heyrækt byggir á grónum túnum með lokuðum jarðvegi. Allir ætti að sjá að þarna er himinn og haf á milli og með öllu ótækt að notast við slíkar tölur.

Að lokum óska ég þjóðinni til hamingju með niðurstöðu þessarar rannsóknar, jafnvel þó þarna sé um staka rannsókn að ræða. Niðurstaðan er hrópandi á frekari rannsóknir. Sérstaklega óska ég forsætisráðherra til hamingju, enda hefur hún verið dugleg að lofa upp í ermina á sér erlendis. Þarna fær hún tækifæri til að standa við gefin loforð og að auki getur hún hrósað sér af enn frekari samdrætti á losun co2 á Íslandi. Orkuskiptin í flutningum, stór aukin skógrækt og uppgræðsla lands mun halda áfram. Fyrirtæki munu einnig halda áfram raunverulegri minnkun á losun co2, þó vissulega þau geti ekki lengur stundað felueik um málið, með kaupum á aflátsbréfum frá votlendissjóði. Því má forsætisráðherra búast við að geta gengið reyst fram á hið erlenda pólitíska sviðs, hafi hún vit til að snúa aftur til lands úr fúafeninu, sem hún hefur verið leidd út í. Gangi greiðfærari leið að markmiðinu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Sæll Gunnar.

 Eftir að hafa lesið þessa grein í Bændablaðinu, sem ég tel eina leshæfa prentmiðil þessa lands nú til dags, tek ég undir hvert þitt orð. Fúafen er réttnefni á því öngstræti, sem pólitískir, hugsjónalausir stjórnmálamenn og konur hafa vaðið út í, þegar kemur að loftslagsmálum.  

 Fjörtíu þúsund þeirra komu saman í París um árið og sötruðu þar á fínum vínum og frönskum ostum, yfir eina helgi. Í þynnkunni á síðasta degi þeirrar samkundu, ákvað þetta stóð að handstýra hitastigi jarðar næstu áratugi og fundu meira að segja út, upp á brot úr gráðu á celsíus hver hitinn ætti að vera.

 Verst hamast fyrrum sósíalistar, því þeirra málstaður féll með Murnum og því nauðsynlegt að halda völdum með öðrum hætti og hoppaði þá ekki glóbal warming upp í fang þeirra! 

 Því miður hefur þessi þvæla náð að smita aðra, að því er virðist jafngelda stjórnmálamenn annara flokka og nú er svo komið að að allt hið pólitíska litróf er orðið gegnumsýrt af þessari dellu. Dellu, sem sú eina lausn virðist vera við, að hækka álögur á vinnandi fólk í formi alls kyns skatta og álagna, svo hinu rétta hitastigi fjörtíu þúsund fiflanna í París verði náð.

 Staðan í dag er sú, að það virðist alveg sama hversu sterk rök eru færð fram, hlustar þetta fólk ekki lengur á neitt, sem raskað getur þessari heimsendaspá bjálfanna i París.

 Ein sú síðasta sem hugsanlega verður snúið af braut glópskunnar, er núverandi forætisráðherfa Íslands, því miður. Við þá stelpukind verður engu tauti við komið, enda stólar undir. Það lærði hún svo sannarlega vel af forvera sínum og læriföður, Þistilfjarðarkúvendingnum frá Gunnarsstöðum.

 Afsakaðu langlokuna.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 10.4.2022 kl. 23:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband