Pólitísk nálykt

Nú hefur Skipulagsstofnun og ráðherra innanríkismála staðfest breytingu á skipulagi lands, svo byggja megi vindorkuver hér á landi. Þetta er fyrsta alvöru breytingin sem á sér stað hér á landi, þar sem um er að ræða risa vindmillur. Áður hafa verið reistar tvær smá vindmillur á svokölluðu Hafi, norðan Búrfellsvirkjunar og tvær minni við Þykkvabæ, sem ekki hafa verið starfandi um nokkuð skeið. Einstaka enn minni vindmillur hafa síðan einstaklingar reyst í sínu landi, sem flestar eru orðnar óstarfhæfar.

Það er því um að ræða stóran atburð fyrir land og þjóð, þegar Skipulagsstofnun og innviðaráðherra samþykkja breytta notkun land, til hjálpar erlendum aðilum að koma hér upp risa vindmillum. Enn ljótari atburður er þetta þegar ljóst er að ráðherra í ríkisstjórninni á þarna mikilla hagsmuna að gæta. Um er að ræða jarðirnar Hróðnýjarstaði, rétt við Búðardal og Sólheima vestast í Laxárdalsheiði. En það er einmitt jörðin Sólheimar sem tengist sterkum böndum inn í ríkisstjórnina. Ásmundur Einar Daðason, barnamálaráðherra og ein stærsta stjarna Framsóknarflokks, er einmitt eigandi þeirrar jarðar. Reyndar, svo alt sé nú satt og rétt, þá er jörðin skráð á eiginkonu Ásmundar og föður hans, en sjálfur ráðherrann skrifaði undir kaupsamninginn í þeirra umboði.

Sveitarstjórn Dalabyggðar sótti stíft eftir samþykki á breyttu skipulagi þessara jarða, þrátt fyrir mikla andstöðu heimamanna. Þegar ljóst var að ráðherra gæti ekki í fyrstu staðfest breytinguna, eftir að Skipulagsstofnun hafnaði henni, var farin bakleið að breytingunni. Lítilsháttar breyting á orðalagi dugði til að Skipulagsstofnun varð að breyta afstöðu sinni og ráðherra innviðamála, sem reyndar er einnig ráðherra og formaður Framsóknar, var fljótur til að staðfesta samþykkið.

Bæði munu þessi vindorkuver hafa mikil áhrif, þar sem þau koma. Hróðnýjarstaðir eru mitt í vaxandi ferðamannaparadís Dalanna, auk þess sem sumar bestu laxveiðiár landsins eru þar nálægt. Sjónmengun, hávaðamengun og ekki síst örplastmengun, mun verða mikil í nágrenni vindorkuvera. Þetta leiðir til þess að fasteignaverð mun lækka verulega á svæðinu, ferðaþjónusta er í voða og óvíst að menn kæri sig um að veiða í laxveiðiám sem eru svo að segja undir risa vindmillum.

Enn verra er þetta varðandi fyrirhugað vindorkuver að Sólheimum, landi ráðherrans. Þar er ætlunin að reisa risa vindmillur upp á háheiðinni, rétt við austurmörk jarðarinnar. Hinu megin þeirra marka er annað sveitarfélag og íbúar þess því ekki taldir aðilar að málinu! Þar er verið að breyta landnotkun sem mun klárlega hafa áhrif á eignir þessa fólks, án þess að það sé spurt um málið eða fái að koma að ákvörðun þess á einn eða annan hátt. Yfirgangur ráðherrans er því algjör og lítilsvirðing við íbúa nágerannasveitarfélagsins.

Þess má svo geta að báðar þessar jarðir eru á svæði hafarna. Allir vita áhrif vindmilla á fugla, sér í lagi stærri fugla. Erlendis er þetta þekkt vandamál, þó vindmillur þar séu í flestum tilfellum mun minni en þær risa vindmillur er til stendur að reisa að Hróðnýjarstöðum og Sólheimum í Dölum. Svo virðist sem ekkert tillit sé tekið til verndunar hafarna, eða annarra fugla, s.s. álfta, gæsa og rjúpu, er halda sig mikið á Laxárdalsheiðinni.

Ekki ætla ég að fjölyrða um sjálft vindorkuverið og þá skelfingu sem því fylgir. Hef áður ritað mörg blogg, bæði um þetta viðkomandi vindorkuver, sem og önnur.

Þessi breyting á landnotkun, sem ráðherra samþykkir, er tímamót á Íslandi. Línan hefur verið lögð og erlendum vindbarónum er hér með hleypt inn í landið, til að framleiða orku. Orku sem ekki er sjáanleg not fyrir vegna kostnaðar við framleiðsluna.  Vindorkusinnar halda því fram að mikil þróun hafi orðið í framleiðslu á vindmillum, þannig að kostnaður hafi farið lækkandi. Vissulega má taka undir það, en sú þróun hefur öll verið á einn veg, að stækka vindmillurnar. Gera þannig vandamálið enn stærra en áður var. Og þrátt fyrir þessa "þróun" á vindmillum, er enn haf og himinn milli framleiðslukostnaðar á raforku með vindi versus vatni eða gufu. Rýr rekstratími miðað við vatns/gufu virkjanir, stuttur endingatími miðað við vatns virkjanir og hár byggingakostnaður eru þar aðal orsök. Með þessar staðreyndir er farið í reiknileikfimi, til að réttlæta arðsemi vindaflsins, en til að raunverulegur ávinningur fáist af vindaflinu þarf orkuverð hér á landi að hækka verulega.

Ásmundur Einar er ein stærsta stjarna Framsóknar í dag. Hvað veldur er erfitt að segja, hugsanlega þó frægt viðtal í fjölmiðlum, skömmu fyrir síðustu kosningar. Honum tókst að vinna hug og hjörtu höfuðborgarbúa og ná fylgi Framsóknar þar vel upp, í síðustu Alþingiskosningum. Segja má að hann hafi farið með himinskautum undanfarin misseri. En þeir sem hátt fljúga eiga á hættu langt fall.

Erlendis þætti ekki góð pólitík að formaður og ráðherra stjórnmálaflokks hjálpaði öðrum samflokksfélaga og ráðherra við gróðabrask, sér í lagi ef það væri gert til að koma viðkvæmri innlendri grunnþjónustu undir erlenda aðila. Hér á landi telst slík ósvinna ekki til tíðinda!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Framsóknarmenn hafa fundið nýjan Finn.

Magnús Sigurðsson, 9.7.2022 kl. 19:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband