Færsluflokkur: Umhverfismál

Algerlega í rusli

Í Bændablaðinu, eina alvöru fréttablaði landsins, er grein um rusl, eða öllu heldur förgun á því. Svo virðist vera sem stjórnvöld hafi flotið sofandi að feigðarósi í þessum málaflokk og að tími til aðgerða sé á þrotum.

Talað er um tvær leiðir til förgunar sorps, að flytja það úr landi eða setja upp brennslu hér á landi. Urðun er ekki til umræðu og hefði í raun átt að vera fyrir löngu hætt þeirri starfsemi. Sorp er í sjálfu sér eldsneyti, rétt eins og t.d. Svíar hafa sýnt. Því er víst að ekki gangi illa að koma því til förgunar erlendis. Þar er það brennt í háhitaofnum og flokkaða plastið nýtt til að fá þann hita sem þarf til að mengun verði lítil sem engin. En er einhver glóra í að flytja rusl um langan sjóveg? Er það í raun ásættanleg lausn?

Eins og ég sagði hafa Svíar um nokkuð langt skeið brennt sorp. Varmann nýta þeir til upphitunar á vatni, sem fyrst er látið framleiða rafmagn en síðan upphitunar húsa. Þetta er hagkvæm lausn til lengri tíma, þó stofnkostnaður sé nokkuð hár. Þetta mætti nota sem fordæmi hér á landi.

Þær hugmyndir sem hér eru, eru þó nokkuð undarlegar. Þar er talað um að byggja einn stórann ofn fyrir allt landið og staðsetningin á auðvitað að vera sem næst höfuðborgarsvæðinu, þar sem rafmagn er hvað stöðugast á landinu og nægt heitt vatn. Að vísu fellur mest til af rusli á því sama svæði. Hér á landi er fjöldi svokallaðra kaldra svæða, þ.e. ekki um að ræða hitaveitu. Saman liggur með þeim svæðum yfirleitt óstöðugra rafmagn. Því væri eðlilegra og á allan hátt þjóðhagslega betra að byggja kannski tvo ofna, einn á köldu svæði á vesturhluta landsins og annan á köldu svæði á þeim eystri. Flutningur á ruslinu yrði þá kannski eitthvað meiri en nýting orkunnar margfalt meiri, auk þess að fækka köldum svæðum eitthvað.

Flokkun á rusli má auðvitað vera betri. Þó er erfitt eða útilokað að flokka plast meira en þegar er gert. Staðreyndin er að plasti er skipt upp í 7 flokka. Sumir flokkar eru auðendurvinnanlegir meðan aðra er erfitt að endurvinna. Útilokað er að flokka allt heimilisplast eftir þessari skilgreiningu, þar sem merkingar eru litlar. Sem dæmi getur venjulegur plastpoki verið gerður úr a.m.k tveim þessara flokka eða jafnvel báðum. Þá á eftir að taka til greina þá poka sem gerðir eru úr einhverskonar gerviplasti, sem sagt er eyðast hratt. Ef við tökum gosflösku þá er flaskan sjálf gerð úr PET plasti eða flokki 1, en tappinn aftur úr HDPE flokki 2. Raunveruleg endurvinnsla úr plasti, þ.e. að það verði aftur að plastvöru, verða því einungis gerð með endurvinnslu á plast frá stórnotendum. Netarusl, rúlluplast og fleira í þeim dúr er tiltölulega auðvelt að safna saman og endurvinna. Svo merkilegt sem það er, þá er slík endurvinnslustöð í gangi hér á landi.

En endurvinnsla á plast getur einnig verið á annan hátt, svona eins og ég nefndi áður að Svíar gera. Þ.e. að nýta það sem eldsneyti á ruslaofnana. Þar getur plast frá heimilum skilað miklum árangri. Því flokkum við áfram plast frá öðru rusli, eins og við höfum gert. Þurfum einungis eina tunnu undir plastið, í stað sjö.

Eins og ég sagði áður hafa verið uppi hugmyndir um útflutning á ruslinu. Þar bíða ákveðnir aðilar í startholunum enda um mikla hagsmuni að ræða. Daglega má ætla að til falli rusl hér á landi sem fyllir um 15 vel troðna gáma á dag!  Það er því ekki skrítið að aðaleigendur eins stærsta ruslsöfnunarfyrirtæki landsins tali máli þess að flytja ruslið úr landi. Því miður stefnir allt í að það fyrirtæki muni njóta ávaxtar aumingjaskapar og getuleysis stjórnvalda, með tilheyrandi mengun fyrir heimsbyggðina.

 


Örlítill grenjndi minnihluti

 Ég tilheyri þeim þúsundum landsmanna sem kallaðir hafa verið "örlítill grenjandi minnihluti".

Við landsmenn höfum verið þeirra gæfu aðnjótandi að fyrsti forseti Alþingis hefur lítið nýtt sér ræðustól stofnunarinnar, mestan part þess kjörtímabils er nú er senn að ljúka. Undantekningu gerði hann þó á þessari nýju en gleðilegu venju sinni, fyrir um viku síðan, er hann taldi sér nauðsynlegt að lítillækka hluta þjóðarinnar, með þeim orðum að um "örlítinn grenjandi minnihluta" væri að ræða. Sem forseti Alþingis og handhafi forsetavalds, voru þessi ummæli kuldaleg, hvort sem um stórann eða lítinn hluta þjóðarinnar væri að ræða. Þarna setti forseti Alþingis stórann og ljótan blett á þá stofnun sem honum er trúað til að stjórna.

Ekkert hafði forseti þó fyrir sér í þessari fullyrðingu annað en gamla skoðanakönnun er gerð var fyrir Landvernd. Gerð á þeim tíma er enginn vissi í raun um hvað málið fjallaði. Haldið var uppi þeirri fullyrðingu að um einhverskonar vernd landsins væri að ræða, án frekari útskýringa. Og auðvitað vilja allir Íslendingar að landið okkar sé verndað. Núverandi hugmyndir um hálendisþjóðgarð, er ná mun um einn þriðja landsins, á þó ekkert skylt við landvernd, enda ekki séð hvernig verndun hálendisins getur orðið betri undir einhverri fjárvana stofnun í Reykjavík. Í dag er hálendið vel varið. Engar framkvæmdir er hægt að gera þar nema með leyfi margra stofnana og sveitarfélaga. Utanvegaakstur er bannaður sem og öll náttúruspjöll. Þó vanmönnuð lögregla eigi erfitt með að framfylgja þessum bönnum, er þó ekki neitt í frumvarpi ráðherra sem gerir ráð fyrir bótum á því.

 Sporin hræða.

Núverandi þjóðgarðar eru sveltir fé til sinna mála og sá stærsti þeirra, Vatnajökulsþjóðgarður er nær yfir um 14% landsins, er svo fjársveltur að uppsafnaðar skuldir hans nema hundruðum milljóna króna, þó verulega skorti á að uppbygging þar sé viðunandi og í sumum tilfellum í molum.

Miklar deilur hafa verið um aðgengi að sumum perlum þess þjóðgarðar og í nýju frumvarpi umhverfisráðherra er því svo fyrir komið að slíkar deilur muni aukast markfalt, ef stofnaður verður þjóðgarður um það sem eftir stendur af hálendinu. Allt vald til ákvarðanatöku um ferðir um hina og þessa vegi og slóða hins nýja þjóðgarðs verður sett til einhverra manna sem ekkert umboð hafa frá þjóðinni og þeir jafnvel geta fært það umboð til landvarða á hverjum stað. Fyrir séð er því algert öngþveiti á þessu sviði og jafnvel má búast við fjölda dómsmála gegn ríkin, vegna ákvarðana Péturs eða Páls í nafni hins nýja þjóðgarðar.

 Aðkoma þjóðarinnar.

Forseti Alþingis hélt því fram að um örlítinn grenjandi minnihluta væri að ræða, sem væri á móti því að taka einn þriðja hluta landsins undan eðlilegri stjórnsýslu og fela fámennum hópi fólks vald til stjórnunar þess, fólki sem ekkert umboð hefði frá kjósendum og jafnvel Alþingi sjálft mun ekki geta ráðið yfir. Sama málflutning hafa aðrir aðstandendur frumvarpsins haft uppi, þó enginn hafi verið jafn orðljótur og forseti Alþingis, a.m.k. ekki í ræðustól Alþingis. Ef þeir þingmenn sem þannig tala trúa eigin orðum, því þá ekki að setja málið í dóm þjóðarinnar? Það ætti að reynast þeim auðvelt. Eða eru þessir þingmenn vitandi um það að í slíkri kosningu yrði málið sennilega fellt?

 Hrossakaup?

Það kemur vissulega upp í huga manns hvort um einhver hrossakaup stjórnarflokkanna sé að ræða. VG fer nú hamförum í sínum pólitísku gælumálum og hendir þeim fram á færibandi, fyrir þing og þjóð. Hinir tveir stjórnarflokkarnir sitja hjá sem hýenur og bíða þess er að þeim kemur. Vissulega hafa sumir stjórnarþingmenn sett fram fyrirvara gegn stofnun hálendisþjóðgarðs og síðast nú í gær sem formaður Framsóknar ítrekaði sína fyrirvara. Enginn stjórnarþingmaður hefur þó sett sig gegn þessu frumvarpi, einungis um einhverja fyrirvara að ræða, sem vigta lítið í heildarmyndinni.  Það er því spurning, hvað fá Framsókn og Sjálfstæðisflokkur fyrir að hleypa VG liðum lausum þessa dagana? Þessi spurning er stór en brennur sennilega á vörum margra. Stendur eitthvað stórt til? Er verið að kaupa af VG sölu ríkiseigna? Bankarnir? Keflavíkurflugvöllur? Eða jafnvel gullegg þjóðarinnar, Landsvirkjun?

Allir landsmenn vilja að landið okkar og náttúra þess fái sem mest vernd, að ekki sé anað út í einhverja framkvæmd sem gerir landið fátækara og verra. Í dag höfum við komið málum þannig fyrir að þessi markmið eru höfð í hávegum. Rammaáætlun tryggir hvar er virkjað og hvar ekki. Landgræðsla og landbætur eru í höndum bænda og Landgræðslu Ríkisins, auk aðkomu sveitarfélaga. Þetta hefur reynst vel og landið okkar orðið grænna fyrir vikið. Engar framkvæmdir, svo sem vegir eða annað, eru heimilar nema í samráði sveitarfélaga og stjórnvalda og allar stærri slíkar aðgerðir þurfa ð fara í umhverfismat. Málin eru því nokkuð góð hjá okkur í vernd landsins, þó vissulega megi bæti í á einstaka stað. Það er ekkert í hugmyndum um þennan nýja þjóðgarð sem gerir betur. Hins vegar má leiða líkum að því að sumt muni fara á verri veg, svo sem samstaða Landgræðslunnar og bænda, svo dæmi sé tekið.


Vitlaust gefið

Nú um næstu áramót fellur svokallaður Kyoto samningur úr gildi og við tekur svonefndur Parísar sáttmáli. Við þessi tímamót þurfa þjóðir heims að stand skil á sínum "syndum". Svo virðist vera sem um sé að ræða tvennskonar uppgjör, annarsvegar með kaupum á einhverju sem kallast CER eininga og enginn veit hvað er eða hvert það fé fer, eða með kaupum á því sem kallast ETS einingar, en sú upphæð mun renna ósskipt inn í óendurskoðaða reikninga ESB. Sumir halda því fram að þarna sé val á milli, en víst er að bæði ESB og ICE vilja fá sitt.

Nokkur munur virðist vera á hvor leiðin verður valin, ef um val er að ræða. Það mun kosta okkur um 200 milljónir ef keypt eru CER bréf en allt að 20 milljarða ef evrópsku ETS bréfin eru keypt. Þessar tölur eru auðvitað með fyrirvara, þar sem ég veit auðvitað ekki hver "synd" okkar er, ekki frekar en forsætisráðherra. En mismunurinn er þó nokkuð réttur, miðað við verðmun þessara bréfa.

Það er hins vegar nokkuð undarlegt að forsætisráðherra skuli ekki vita hver upphæðin er, einungis mánuði áður en greiðsluseðill er prentaður. Það þætti lélegur heimilisbókari sem ekki vissi útgjöld sín mánuð fram í tímann. Það er ekki eins og þetta sé einhver óvænt uppákoma, hefur víst legið fyrir í nokkur ár, eða frá því Ísland gerðist aðili að samningnum.

200 milljónir eru nokkuð stór upphæð, að ekki sé nú talað um 20 milljarðar. Hvað um þessa peninga verður veit víst enginn, nema auðvitað viðtakandinn, en hann er alltaf til staðar þegar peningar fara á flakk. Ef valin verður dýrari kosturinn, sem umhverfisráðherra hefur talað fyrir, er ljóst að aldrei verður hægt að finna móttakanda fjárins, enda ekki verið hægt að endurskoða reikninga ESB í áratugi, vegna fjármálaóreiðu á þeim bænum. Ef ódýrari kosturinn er valinn, sem formaður loftlagsráðs Gumma vill, mun einnig verða erfitt að rekja slóð peningana. Að vísu munu þeir fara frá okkur í alþjóðlega gjaldeyrismiðsstöð. Hvað svo veit enginn.

En svo er auðvitað stóra spurningin, hvers vegna þurfum við að kasta hundruðum eða þúsundum milljóna króna út í loftið? Hvers vegna var ekki endirinn skoðaður strax í upphafi?

Það er ljóst öllum sem einhverja glóru hafa í kollinum að það var vitlaust gefið til okkar, þegar ákveðið var að gangast að þessum samningi og þeim sem á eftir komu. Viðmiðunarár Kyoto samningsins var 1990. Hvers vegna það ár var valið hefur engum tekist að komast að, en fyrir okkur hér á Íslandi er þetta kolrangt viðmið. Á sjötta áratug síðustu aldar hófust hér á landi markviss orkuskipti í húshitun heimila og var því markmiði að mestu náð fyrir árið 1990, upphafsári Kyoto samningsins. Aðrar þjóðir voru ekki enn farnar að huga að slíkum orkuskiptum þá og margar eiga enn langt í land með það markmið. Hvað heimili varðar er kostnaður við kyndingu heimila einn stærsti útgjaldaliðurinn, sér í lagi ef kynnt er með olíu eða kolum. Ólíkt öðrum þjóðum höfðum við því ekki möguleika á að minnka notkun á jarðefnaeldsneyti í þessum lið, sem aftur leiðir til þess að einkabíllinn er tekinn fyrir af miklum móð. Hvergi í víðri veröld eru lagðir eins miklir skattar á einkabílinn eins og hér á landi. Í strjálbýlu landi er einkabíllinn ekki lúxus, heldur bráð nauðsynlegur. Því er ljóst að upphafsmarkmið Kyoto samningsins er glórulaust fyrir okkur og með ólíkindum að það hafi verið samþykkt.

Ekki ætla ég að fara út á þá braut að ræða sjálfa "loftlagsvána" núna. Læt nægja að tala um þá skattpíningu sem stjórnmálamenn stunda í nafni hennar. Aflátsbréfin, bæði þau sem fyrirtæki versla með sín á milli sem og hin sem þjóðir þurfa að greiða sem syndaaflausn, munu auðvitað alltaf lenda á almúganum, til viðbótar við alla þá skatta sem stjórnmálamenn leggja beint og óbeint á þegna landa sinna í nafni loftlagsvár. Hvernig í andskotanum mun það minnka mengun? Halda menn virkilega að hægt sé að kaupa sig frá vandanum, ef hann er á annað borð til staðar?

Verst er að nú er staðan orðin slík, vegna endalausra og stórkostlegrar skattlagningar í nafni loftlagsvár, að ráðamenn vita hvorki upp né niður hvað er hvað eða hver þurfi að borga hverjum. Andsvar forsætisráðherra við spurningu formanns Miðflokksins, á Alþingi í dag, sannar þetta.

Hræsnin og hálfvitaskapurinn er allsráðandi.

 


mbl.is Kemur í ljós hve há fjárhæðin verður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarlína og plast

Enn hefur gengið erfiðlega að fá skilgreiningu á hvað svokölluð borgarlína er. Margar hugmyndir hafa komið fram en í raun með öllu óvitað að hverju er stefnt. Þó hafa menn komist að þeirri niðurstöðu að þetta sem enginn veit hvað er mun kosta mikla peninga, reyndar ekki enn á hreinu hversu mikla en þó aldrei undir 80 milljörðum íslenskra króna, sennilega þó mun meira.

Það er því snjallt hjá þingmönnum að afsala sér þessari óvissu allri og stofna bara opinbert einkahlutafélag um málið. Þeir þurfa þá ekkert að pæla meira í því. Enn betra er þó að þetta opinbera einkahlutafélag mun fá völd til skiplagningar umferðarsvæða og fjáröflunar þannig að þingstörf verða enn léttari. Þeir geta þá snúið sér að merkari málum, eins og að rífast um hvernig fatnað þeir klæðast, hvort klukkan sé rétt eða hver eigi að stjórna hverri nefnd, sem sumar hverja verða þá væntanlega einnig verkefnalausar.

Umboðslausi ráðherrann fagnar, bæði því að þurfa nú ekki lengur að pæla í svokallaðri borgarlínu og einnig hinu að nú skal bannað að selja áakveðnar tegundir af plasti. Þar er viðmiðið hvort viðkomandi plastvara finnst á stöndum meginlands Evrópu.

Í flestum tilfellum er plast nytsamlegt og sumum tilfellum getur annað efni illa komið í staðinn. Það er hins vegar umgengnin um plastið sem er vandamál, þ.e. eftir að upphaflegu notkun er lokið. Þar má vissulega taka til hendinni. Það er þó ekki sjáanlega plastið sem er verst, þó það sé slæmt. Örplastið, þetta ósýnilega, er mun verra. Það finnst víða og einhver mesti örplastframleiðandinn í dag eru vindmillur. Spaðarnir eyðast upp á undarlega skömmum tíma þó enginn sjái hvað verði um það plast. Ástæðan er augljós öllum sem vilja, það verður að ósýnilegu örplast.

En Mummi umboðslausi hefur ekki áhuga á því, hann horfir bara til stranda meginlands Evrópu og það sem á þær rekur skal banna.


mbl.is Borgarlínan verður að veruleika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær ætlar fólk að vakna?

Umræðan um hlýnun loftlags og orsakir og afleiðingar þess virðist meira eiga heima í skáldsögum en raunveruleikanum. Kannski af þeirri ástæðu sem skáld eru svo hrifin af þessari umræðu.

Enginn efast um að loftlag á hnettinum hefur hlýnað frá þeim tíma er kaldast var, um nokkur þúsund ára skeið. Hvort sú hlýnun muni halda áfram eða hvort toppnum er náð, mun framtíðin skera úr um. Í það minnsta er vart mælanleg hlýnun síðasta áratug og reyndar farið kólnandi á sumum stöðum hnattarins.

Um afleiðingar þessarar hlýnunar þarf ekki að deila. Gróðurþekja hefur aukist, sérstaklega á þeim svæðum sem voru komin að mörkum undir lok litlu ísaldar, en einnig hefur gróður aukist á svæðum sem skilgreind hafa verið sem eyðimerkur. Skapast það fyrst og fremst af þeirri augljósu ástæðu að við hlýnun loftlags eykst raki í loftinu. Sá raki skilar sér síðan sem rigning, einnig á þau svæði sem þurrust eru. Því hefur gróðurþekja aukist verulega frá upphafi tuttugustu aldar. Mælingar gervihnatta, sem hófust undir lok sjötta áratugarins, staðfesta þetta svo ekki verði um villst. Hlýni enn frekar, ætti þessi þróun að aukast enn frekar, mannkyn til góðs. Ef aftur kólnar, munum við fara í sama horfið. Gróður mun aftur minnka og hungur aukast.

Mestar deilur eru um orsakir þessarar hlýnunar. Þær eru sjálfsagt fjölmargar en af einhverjum ástæðum hefur verið einblínt á einn þátt, co2 í andrúmslofti. Þessi skýring er þó langsótt og í raun með ólíkindum hvað fólk gleypir við þeirri skýringu, vitandi að loftslag er flóknara en svo að einn þáttur, sem vigtar mjög lítið, geti verið sökudólgurinn, eða blessunin, eftir því hvernig á málið er litið. Eitt liggur þó kristaltært fyrir, viðmiðunarpunktur mælinga er rangur. Að það hitastig sem var á jörðinni við lok litlu ísaldar skuli vera heilagur sannleikur er auðvitað fásinna. Nær væri að taka meðaltal hita yfir nokkur þúsund ár og reikna út hlýnun eða kólnun loftlags út frá því. Þegar við mælum hitastig líkama okkar er viðmiðunin meðaltal hita mannslíkamans, ekki sá hiti sem lægstur hefur mælst í lifandi manni.

Eins og áður sagði, þá hefur af einhverjum ástæðum verið valið að saka magn co2 í andrúmslofti um meinta hlýnun. Ástæðuna má kannski rekja til þess að fyrrum varaforseti Bandaríkjanna, Al nokkur Gore, kom með þessa skýringu. Bar þar fyrir sig línurit sem sannaði þetta. Þó er ljóst að ekkert beint samhengi er þarna á milli, auk þess sem skiptar skoðanir eru um orsök og afleiðingu, hvort co2 valdi hlýnun eða hvort hlýnun valdi auknu co2, þó síðari skýringin sé þó mun skynsamlegri á allan hátt. Eitt hafa menn þó átt erfitt með að útskýra, en það er þróun hitastigs og losun co2 á síðustu öld. Alla öldina var nánast línuleg aukning co2, meðan hitastig hækkað mjög hratt fram undir 1940, lækkaði þá skart aftur fram undir 1980, hækkaði aftur mjög hratt næstu tvo til þrjá áratugi og hefur nánast staðið í stað síðan. Þetta misræmi milli hitaaukningar og aukningu á losun co2 hefur vafist nokkuð fyrir þeim sem tala fyrir þeirri skýringu að co2 sé aðal sökunautur. Nú hafa hins vegar spekingar NOOA og NASA leyst þennan vanda, með því einfaldlega að jafna línuritið út. Enginn gæti útskrifast úr háskóla með slíkum hætti.

Stjórnvöld út um allan heim, ekki síst hér á landi, hafa lagt ofurafl á minnkun co2 í loftslagi. Telja sig þar með vera að "bjarga heiminum".  Aðgerðirnar eru hins vegar handahófskenndar og í flestum tilfellum felast þær í auknum sköttum eða einhverju sem mælist með peningum. Engin sjáanleg merki eru um að þetta fólk hagi sér í samræmi við sinn boðskap, en boðar fjárútlát á alla aðra sem ekki bæta sitt ráð. Verslað er með svokallaða mengunarkvóta, þvert og endilangt, án þess þó að mengunin minnki nokkuð. Skattar eru lagðir á þá sem ekki eiga þess kost að ferðast á "vistvænan" hátt og enn frekari skattar boðaðir. Allt leiðir þetta að einu og aðeins einu, frekari skerðingu lífskjara án nokkurra áhrifa á loftslagið.

Þegar maður vill síðan skoða tölulegar staðreyndir um málið, þ.e. hversu mikið Ísland losar af þessari lofttegund, sem sumir hafa skilgreint sem baneitrað en er í raun grundvöllur alls lífs, rekur maður sig á vegg.

Samkvæmt skýrslu stjórnarráðsins er losun Íslands á co2 ígildi um 2,9 miljónum tonna. Af því eru ígildistonn vegna orku, þ.e. eldsneyti og annað í þeim dúr, 1,8 milljón.  Til samanburðar losar Katla um 6,6 miljón ígildistonn á hverju ári, samkvæmt síðustu mælingum og Landsvirkjun 8,8 milljón ígildistonn vegna sölu á losunarkvóta. Þarna fer greinilega ekki saman hljóð og mynd, svo vitlaust sem þetta er. Látum vera þó losun eldfjalla sé haldið frá þessum upplýsingum, þó vissulega sú losun ætti að skipta máli í umræðunni. Hitt er aftur undarlegra að eitt fyrirtæki hér á landi skuli geta selt losunarheimildir erlendis, án þess að það komi fram í bókhaldi stjórnarráðsins. Þetta er auðvitað galið!

Ekki er neinn vafi á að þeir sem þessar losunarheimildir kaupa skrá það í sínar bækur, sem skilað er til viðkomandi lands. Til þess er jú leikurinn gerður, eða hvað? Hvað verður þá um sjálfa mengunina? Gufar hún þá bara upp? Þetta er ein af þeim snilldarlausnum sem ESB kom fram með, enda hefur losun co2 í Evrópu aldrei verið meiri en nú, jafnvel þó íslenskt fyrirtæki selji þeim losunarkvóta sem er rúmlega þrisvar sinnum það magn losunar sem stjórnarráðið telur landsmenn losa!

Hvenær ætlar fólk að vakna? Hvers vegna er þjóð, sem telur sig vera þokkalega vitiborin, svo auðkeypt?

 


mbl.is Bann við notkun svartolíu í landhelgi Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vísindi, sjórnmál og peningar

Fyrst af öllu ætla ég að taka upp breytt orðalag. Fram til þessa hef ég talað um efasemdarfólk og fólk sem trúir, þegar loftlagsmál eru rædd. Orðið afneitunarsinnar hefur sífellt orðið algengara á efasemdarfólk, jafnvel þingmenn farnir að skrifa greinar til réttlætingar þess orðs og ríkisútvarpið notar það í sinni umfjöllun, tel ég rétt að kalla þá sem trúa á manngert loftslag, hamfarasinna. Mér er illa við þessi bæði orð, en til að tolla í tískunni verður maður jú að spila með.

En þessi pistill átti ekki að vera um orðnotkun, heldur vísindi, stjórnmá og peninga. Mjög hefur verið haldið á lofti að vísindamenn þiggi ekki greiðslur fyrir sín störf, að þeir séu engum háðir og vinni allt út frá vísindalegum forsendum. Í hinum fullkomna heimi væri svo, en svo er þó alls ekki. allir þurfa jú salt í grautinn, einnig vísindamenn. Þeir sækja því vinnu, oftast hjá einhverjum stofnunum og því merkilegri sem stofnunin er, því virtari telja vísindamenn sig vera. Auk þess sem launin hækka eftir því sem stofnunin verður virtari. Ekki ætla ég að halda því fram vísindamenn, almennt, séu að taka við aukagreiðslum ofaná sín laun, en starfið getur vissulega verið í húfi, ef ekki er gert það sem ætlast er til.

Hins vegar er vitað að þær stofnanir sem vísindamenn vinna hjá eru alfarið háðar fjárframlögum. Þau fjárframlög koma bæði frá ríkissjóðum landa sem og frá þeim sem eiga mikla peninga. Því er víst að það skiptir miklu máli fyrir stofnanir að frá þeim komi það sem hentar þeim er með fjármagnið fara, hvort heldur það eru þeir sem tímabundið fara með fjármál ríkja eða einhverjum sem beinlínis hagnast á "réttum" niðurstöðum vísindamanna. Því eru vísindamenn gjarnan bundnir við að "réttar" niðurstöður séu framreiddar, þó ekki væri nema til að halda stöðu sinni.

Sem dæmi flutti kanadískur vísindamaður, Susan Janet Crockford, prófessor í mannfræði og dýrafræðingur við Viktoríuháskóla, erindi þar sem hún benti á hið augljósa. Að Ísbirnir væru í mestri þörf fyrir mat eftir að þeir skriðu úr híði að vori, að það væri þá sem sem líf húna hennar réðust og því ætti hlýnun loftlags og minnkun heimskautaíss einmitt að auka lífslíkur ísbjarna, að þá yrði auðveldara fyrir þá að afla sér matar. Fyrir þennan fyrirlestur var hún rekin frá háskólanum!

Það er ljóst öllu hugsandi fólki að peningar hafa áhrif á vísindamenn. Hellst að þeir sem eru komnir á eftirlaun og engum háðir geti talað út frá vísindum á hlutlægan hátt. Enda er það svo að flestir þeirra sem tala gegn því að veðurfar jarðar sé manngert, að ekki sé talað um hamfarahlýnun, eru vísindamenn á efri árum, komnir á eftirlaun. Hafa engu að tapa og eru engum háðir.

Aðeins um stjórnmál. Ef eitthvað skiptir stjórnmálamenn máli, eru það peningar. Hugsjónir og stefnur eru einskis virði þegar völdum er náð. Því skipir öllu máli fyrir stjórnmálamenn að hlíða í einu og öllu því sem peningamenn sega. Þetta eru auðvitað ekki ný sannindi, hefur þekkst um nokkuð langan tíma. Hin síðari ár hafa fjármagnöflin þó sífellt verið að gera sig gildari í stjórnmálum. Því skiptir máli fyrir stjórnmálamenn hvernig þeir haga sér. Litið er fram hjá tali þeirra um stefnumál og hugsjónir fyrir kosningar, en eftir þær skulu menn spila rétt!

Að halda því fram að peningar skipti ekki máli í vísindum, eins og haldið var fram í svokölluðum borgarafundi um loftlagsmál, á ruv, er firra. Á þessu ári nema styrkir frá ríkisstjórnum og fjármálamönnum, vegna global warming um 400 milljörðum bandaríkjadala. Þá er ótalinn óbeinn kostnaður. Ríkisstjórnir sækja þetta fé í vasa þegna sinna og ef einhver heldur að fjármálamenn leggi fram peninga af hugsjón, er það mikill misskilningur. Þeir nota sína peninga til að ávaxta þá.

Vísindi byggjast á rannsóknum og tilgátum. Vísindamenn eiga að vera tilbúnir að skipta um skoðun, komi í ljós að fyrri tilgáta var röng eða að nýjar rannsóknir gefa til kynna að svo hafi verið. Á þessu verður stundum misbrestur, það er þekkt úr sögunni. Ætíð hefur þó sannleikurinn opinberast þó á stundum þeir sem héldu honum fram væri burtu flognir meðal lifandi manna.

Enginn efast um að hlýnað hefur á jörðinni frá lokum litlu ísaldar. Einnig er vitað að oftar en ekki hefur verið hlýrra á jörðinni í sögu hennar. Reyndar er það svo að sá upphafspunktur sem valin er til mælinga hlýnunar jarðar er í lok eins kaldasta skeiðs jarðar um þúsundir ára og reyndar kaldasta tímabil fyrir utan alvöru ísaldarskeiða jarðarinnar. Við lifum því í dag mun nær ísöld en hlýskeiði, enda benti fyrrum veðurstofustjóri á að hann hefði svo sem ekki miklar áhyggjur þó hitastig hækki um tvær gráður, mun alvarlegra væri ef það hefði lækkað um þær tvær gráður.

Frá aldamótum hefur hitastig jarðar staðið nokkuð í stað, þ.e. samkvæmt mælingum á jörðu niðri. Mælingar gervihnatta segja reyndar annað, en þær mælingar hefur reglulega þurft að leiðrétta, allt frá því þær hófust, seint á sjötta áratugnum.

Nokkuð er víst að þessi stöðugleiki í hitastigi jarðar, sem verið hefur frá aldamótum, mun ekki haldast. Hvort enn frekari hlýnun verði, jafnvel svo að svipuðu hitastigi verði náð og við landnám eða jafnvel svipuðum hita og var er Rómaveldi varð til, er útilokað að segja til um. Allt eins gæti kólnað aftur, aftur orðið sú staða að firðir hér á landi og ár og skipaskurðir Evrópu yrðu ísilagðaðir stóran hluta vetrar. Eitt er þó ljóst að um stóran hluta norðurhvels jarðarinnar, þ.e. í Rússlandi og Norður Ameríku, hefur árið í ár verið hið kaldasta í áratugi og sumstaðar hafa jafnvel kuldamet allt frá nítjándu öld fallið. Hvort um einstakt ár er að ræða eða hvort þetta er vísir að því að það fari kólnandi, get ég auðvitað ekki sagt til um.

Hamfarasinnar kenna auðvitað hlýnun jarðar um þennan kulda, en það er önnur saga.

 

 


Sauðhausar og sauðkindin

Um nokkuð skeið hefur verið unnið markvisst gegn íslensku sauðkindinni. Ýmis rök telja menn sig hafa gegn þeirri fallegu skepnu og kannski ekki síður gegn þeim sem strögla við að reyna að hafa lífsviðurværi af henni, bændum.

Framanaf voru það greiðslur til bænda sem mesta umræðan snerist um, jafnvel þó slíkar greiðslur séu viðhafðar í öllum ríkjum hins vestræna heims. Ekki eru þær greiðslur þó til að fylla vasa bænda af aurum, heldur til að halda verðlagi matvara niðri. Það kostar nefnilega að framleiða kjöt og ef sá kostnaður á að lenda að fullu á neytendum þarf að hækka laun. Þeir sem hæst létu í þessari umræðu voru gjarnan þeir sem lifðu alfarið á greiðslum úr sameiginlegum sjóðum okkar landsmanna, ekki í formi styrkja til að framleiða verðmæti, heldur á fullum launum, stundum við það eitt að níða niður þá sem skapa verðmæti og það oft á tíðum á launum í hærri kantinum. 

Svo færðist umræðan til og snerist um landeyðingu, að sauðkindin væri að éta upp landið. Enn eru til sauðhausar sem halda þessu fram, þó þeim vissulega fari fækkandi. Það er nú þannig að landnámsmenn fluttu tiltölulega fátt fé með sér frá Noregi, enda sauðkindin haldin fyrst og fremst til að nýta ullina. Svín og naut voru nýtt til kjötframleiðslu. Á þeim tíma var nokkuð hlýrra en nú og gróður því meiri. En svo tók að kólna og svínahald illmögulegt. Þá kom sauðkindin sér vel, enda harðgerðari skeppna. Engu að síður var fólk í landinu fátt og sauðfé einnig. Það var ekki fyrr en eftir miðja nítjándu öld sem fólki tók að fjölga, hægt í fyrstu en tók stökk er á leið 20 öldina. Sauðfé fjölgaði samtímis. Um 1980 náði sauðfé hámarki, fór yfir 800.000 fjár en hefur fækkað um helming síðan. Talið er að sauðfé hafi aldrei náð að komast yfir 30-50.000 kindur fyrr en á tuttugustu öldinni, lengst af verið undur 20.000 kindum. Landeyðing hefur aftur staðið yfir í aldir. Þar má fyrst og fremst kenna veðurfari og eldgosum, enda veðurfar hér á landi einstaklega hart í um 5-6 aldir, eða meðan litla ísöld stóð yfir. Í öllu falli er útilokað að svo fátt fé sem hér var á þeim tíma er landeyðing var sem mest, geti verið sökudólgurinn. 

Og nú hafa postularnir sem predika gegn sauðkindinni fundið enn eina sökin, til að ásaka hana fyrir. Nú er það prumpið og ropið. Að íslenska sauðkindin sé svo mögnuð að henni muni takast að leggja af allt líf á jörðinni. Þessu er haldið fram í nafni hamfarahlýnunar og auðvitað hlýtur það þá að vera rétt. Það er nóg að nefna orðið hamfarahlýnun, þá má segja hvaða bull sem er!

En skoðum málið aðeins. Annað orð er sem fegursti söngur í eyrum glóbista, en það er "Parísarsamkomulagið". Þegar menn setja það orð í sömu málsgrein og hamfarahlýnun, breytast þeir í snillinga, ef ekki dýrlinga. Í þessu magnaða samkomulagi er talað um minnkun á koltvíoxíð CO2, í andrúmslofti. Og þar komum við að prumpi og ropi sauðkindarinnar. Samkomulagi byggir á viðmiðunartíma og síðan hvað CO2 skuli lækka mikið til annars ákveðins tíma. Þessi upphafstími er árið 1990 og lokaárið 2050, þannig að við erum nánast hálfnuð á vegferðinni. Þó eykst enn losun CO2 hér á landi, eins og reyndar í flestum eða öllum löndum er settu nafn sitt við þetta samkomulag. Eina ríkið sem hefur náð að minnka hjá sér losun CO2 er USA, þrátt fyrir að hafa dregið sig frá samkomulaginu.

Og þá er næst að skoða skaðræðisskepnuna sauðkindina. Eins og áður segir hefur losun CO2 aukist hér á landi frá 1990. Hins vegar má halda því fram að samdráttur í losun þessa lífgjafa hafi minnkað vegna sauðkindarinnar, um meira en 20% á sama tíma. Frá 1990 til 2017, en yngri tölur eru ekki enn útgefnar, hefur sauðfé fækkað hér á landi um 20%. Þar til viðbótar má nefna að innflutningur á kjarnfóðri hefur á sama tíma dregist saman. Öflun heyfanga hefur breyst og fleira má telja til. Því er ekki ofsagt að halda fram 20% minnkun á losun CO2 frá sauðfé, sennilega er talan þó nokkuð hærri. Erfiðlega getur verið að finna annan þátt þar sem slíkur árangur hefur náðst, hvort heldur er hér á landi eða erlendis.

 

 

 


Þeir hafa hæst sem ættu að sjá sóma sinn í að þegja

Í kjölfar hrunsins var afskrifað lán sem sagt var í eigu eiginmanns Þorgerðar Katrínar. Svo vel vildi til að eiginmaður hennar hafði starfað við einn af föllnu bönkunum og fékk því sér meðferð. ÞKG var þingmaður á þessum tíma og varaformaður Sjálfstæðisflokks. Þó hún staðfastlega neitaði því að vita nokkuð um fjármál eiginmannsins, þá hrökklaðist hún af þingi með skömm og úr sæti varaformanns skömmu síðar, enda öllum ljóst að hjón vita yfirleitt nokkuð um fjárskuldbindingar hvors annars. Upphæð þessa láns var á við eitt þúsund meðallán íbúðakaupenda, á þeim tíma. Þeir þurftu hins vegar margir hverjir að færa bankanum húseign sína og sumir þóttust hafa sloppið vel með það eitt að verða öreigar! Þessi saga mun seint gleymast!

Því ætti Þorgerður Katrín að sjá sóma sinn í því að vera ekki að tjá sig í fjölmiðlum, af virðingu við þá sem misstu sína aleigu í kjölfar hrunsins, meðan hún sjálf hélt sínum.

Sómi ÞKG nær skammt, í stað þess að halda sig til hlés þá stofnaði hún nýjan stjórnmálaflokk, enda frami hennar innan þess gamla þrotin. Hún komst á þing og hefur verið helsti talsmaður þeirra sem vilja inngöngu í ESB, hvað sem það kostar.

Í viðhengdri frétt fer ÞKG hamförum, málar Bandaríkin sem verstu skúrka sem heiminn byggja og krefst að stjórnmálasambandi við þá verði slitið, fórni USA ekki slatta af unga fólkinu sínu í stríði, hinumegin á hnettinum. Ekki fyrir löngu síðan kom svipuð gagnrýni, en þá fyrir að Bandaríkin væru í stríði um allan heim!

Það er fleira sem frá ÞKG kemur í þessari frétt, fyrir utan að Bandaríkin séu upphaf og endir alls hins vonda. Hún nær að tengja þetta loftlagsmálum. Segir umhverfisstefnu Bandaríkjanna vera ógn við heimsbyggðina. Ef Bandaríkin menga svo mikið, sem hún segir, hvers vegna kallar hún þá eftir að þau stundi frekari hernað? Varla er það til bóta fyrir umhverfið?

Reyndar ætti hún að gagnrýna vini sína í Evrópu, fyrir slælega umhverfisstefnu, eða réttara sagt framkvæmd hennar. Þar eykst enn losun loftegunda sem kennd eru við hlýnun jarðar, meðan verulega hefur dregið úr henni í Bandaríkjunum. Vissulega drógu Bandaríkin sig úr svokölluðu Parísarsamkomulagi, ekki vegna þess að þeir vildu ekki minnka hjá sér mengun, heldur vegna þess að í því samkomulagi var ákvæði um að nokkur lönd þriðja heimsins, s.s. Indland og Kína, áttu að fá lausn frá greiðslu fyrir mengun. Og til að ná því fé var ætlast til að Bandaríkin myndu greiða fyrir þessar þjóðir. Sjóðinn varð jú að stofna, enda það helsta markmið Parísarsamkomulagsins. Mengun per se skipti minna máli.

Ef Þorgerður Katrín er svo umhugað um að fara í stríð við Tyrki, því talar hún þá ekki við vini sína í ESB. Þeir hljóta að sinna kalli hennar.

 

Kúrdar hafa mína samúð, en þeim verður ekki bjargað með hervaldi. Ljóst er að ef Bandaríkin færu í stríð við Tyrki munu Rússar skerast í leikinn. Þarna yrði langdrægt stríð sem allir munu tapa á, mest þó Kúrdar. ESB getur auðvitað lítið gert, bæði vegna viðskiptahagsmuna við Rússa og kannski fremur vegna þess að Tyrkir liggja með umsókn um inngöngu í sambandið.

Því eru viðskiptaþvinganir á Tyrki mun árangursríkari, auk þess að Kúrdar munu þá ekkert skaðast.

En kannski er Þorgerði Katrínu sama um Kúrda, kannski vill hún bara stríð.

 

 


mbl.is Vill endurskoða samskipti við Bandaríkin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hækkun sjávarstöðu

Enginn efast um að hlýnað hefur á jörðinni. Hitt eru menn ekki sammála um af hvaða völdum það sé, hvort áfram muni hlýna eða hvort kólni aftur. Nýjasti vinkillinn er bréf sem samið er af 500 loftlagssérfræðingum og sent á ráðstefnu SÞ, sem nú stendur yfir. Fréttamiðlar hafa verið þögulir sem gröfin um þetta bréf og gæta þess vandlega að það sé hvergi birt.

Þegar lesin er fréttin sem þetta blogg tengist við, verður maður nokkuð sorgmæddur. Ekki vegna innihalds fréttarinnar heldur framsetningar. Þarna eru fullyrðingar sem ekki standast skoðun og að auki eru þversagnir í fréttinni sem gerir erfiðar að taka hana trúanlega. M.a. er sagt að flóð vegna bráðnunar snjóa á vorin muni færast hærra til fjalla. Hvað verður svo um vatnið þegar það kemur lægra í landið er erfitt að skilja, kannski halda menn að það muni bara gufa upp!

Flest eða öll þau rök sem færð eru fram í fréttinni og þau rök sem notuð eru til að trilla mannfólkið eru fjarri því að vera ný af nálinni. Í tveim fræðslumyndum, annarri frá áttunda áratug síðustu aldar og fjallað er um í síðasta bloggi mínu og hinni frá seinni hluta þess níunda, eru öll þessi rök tiltekin. Í seinni myndinni er málflutningurinn líkari því sem nú er, að því leyti að fastar er að orði kveðið. Talað um að "engan tíma megi missa" að "aðgerða sé þörf tafarlaust" og jafnvel eru nautin orðin jafn miklir sökudólgar og í dag. Þarna var þó ekki verið að vara við hlýnun jarðar, heldur ísöld! Og takið eftir, þetta myndband og viðtölin við fræðimennina var gert fyrir einungis rúmum þrjátíu árum síðan!! Sem betur fer fór ekki sem fræðingar spáðu, því þá væri sennilega kominn jökull yfir allt okkar fagra land!!

Hin síðustu ár hefur vísindamönnum tekist að spá um veður með nokkurri vissu, en einungis til tveggja daga. Lengri spátími er óáreiðanlegur og því óáreiðanlegri sem lengra líður. Á áttunda og níunda ártug síðustu aldar töldu þessir menn sig geta spáð með nokkurri vissu nokkra áratugi fram í tímann og spáðu ísöld. Enn í dag eru til vísindamenn sem telja sig hafa hæfileika til slíkrar spámennsku, en spá nú hamfarahlýnun. Það fyndnasta við þetta er að nú er að nokkru leiti um sömu spámenn að ræða, þó í fyrra tilfellinu hafi hlutur loftlagssérfræðinga meðal þessara spámanna verið stærri.

Stjórnmálamenn eru hrifnir af þessum spádómum. Þeir þeytast um heiminn þveran og endilangan og keppast við að lýsa sem mestri ógn. Þetta þjónar þeim vel, enda fátt sterkara en ógnarvopnið. Minna fer fyrir lausnum, öðrum en skattlagningu. Eins og veðurfarið láti stjórnast af peningum!

Forsætisráðherra okkar hélt þrungna ræðu í New York og lýsti því fjálglega hvað Ísland væri öflugt í aðgerðum gegn þessari miklu ógn. Jú vissulega hafa verið lagðir hér á skattar en fátt annað. Ef hún tryði því að hamfarahlýnun væri handan hornsins, þá ætti hún að vita að sjávarborð mun hækka verulega. Því væri Alþingi væntanlega fyrir löngu búið að banna allar nýbyggingar við sjó. Hvar rísa stærstu og dýrustu byggingar höfuðborgarinnar?!!

 

 


mbl.is Tvöfalt hraðari hlýnun á norðurslóðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ice Age is Coming

Ísöld er að skella á - þetta er ekki mælt af munni þeirra sem í daglegu tali eru uppnefndir "afneitendur", heldur er þetta nafn á fræðslumynd sem framleidd var í samstarfi við vísindamenn, árið 1978.

Á síðustu öld hlýnaði verulega á jörðinni, þ.e. frá aldamótum og fram undir lok fjórða áratugarins, eftir það kólnaði aftur allt til loka þess áttunda, en þá tók að hlýna aftur. Síðasta áratug þessa kuldakafla voru vísindamenn á því að ísöld væri á leiðinni, enda snjóþyngsli sífellt meiri eftir því sem á leið þess áratugar. En svo hlýnaði aftur og enginn talaði um ísöld. Hin síðari ár hafa þeir vísindamenn sem hæst létu í spá um ísöld reynt að þvo hendur sínar, enda margir enn að störfum og spá nú ofsahlýnun. Þó kalt hafi verið undir lok áttunda áratugarins var enn mun hlýrra en seinni part nítjándu aldar, þann tíma er vísindamenn dagsins í dag eru gjarnir á að nota sem viðmiðun um "hamfarahlýnun jarðar".

Þann 28 apríl 1975 rituðu nokkrir sérfræðingar NOAA grein í Newsweek þar sem þeir vöruðu við kólnun loftlagsins og kölluðu eftir aðgerðum stjórnmálamanna. Þar var fyrst og fremst talað um að minnka mengun, enda var það skoðun þeirra að meiri mengun gæti leitt til þess að sólarljósið ætti erfiðara um vik að ná til jarðar. Þeir voru þó ekki tilbúnir að taka undir tillögu sumra annarra vísindamanna um að dæla kolaryki á jökla, til að bræða þá og halda þeim í skefjum. Þessir vísindamenn sögðu að engan tíma mætti missa, að fyrir séð væri hungursneið og hörmungar, innan fimmtán ára.

Sem betur fer höfðu vísindamenn áttunda áratugar síðustu aldar rangt fyrir sér.

Í dag eru vísindin önnur. Nú er talað um hamfarahlýnun og flest sem gerist í náttúrunni sagt af þeim völdum. Það er þó margt líkt með því sem áður var. Engan tíma má missa, mengun er sökudólgurinn og yfirleitt nokkuð sömu rök notuð, bara talað um hlýnun í stað kólnunar. Nú segja vísindamenn, reyndar ekki sagt hvaðan þeir koma en gera má ráð fyrir að NOAA eigi þar einhverja aðkomu, að aldrei fyrr hafi verið hlýrra á jörðinni en einmitt núna. Þetta er auðvitað röng fullyrðing. Ef við tökum hitastig jarðar síðustu tíu þúsund ár, sem er nokkuð vel þekkt staðreynd í dag, m.a. vegna borkjarna úr Grænlandsjökli, kemur í ljós að á þessum tíma hefur þrisvar skollið á kuldaskeið. Þessi kuldaskeið falla þó ekki undir alvöru ísöld, eins og hér var fyrir 18000 árum. Síðasta þessara kuldaskeiða og það hlýjasta þeirra er þó stundum nefnt litla ísöld. Á þessum tíu þúsund árum hafa hins vegar komið átta hlýskeið, flest þeirra mun hlýrri en nú og sum verulega hlýrri.

Svo haldið sé áfram að tala um met í veðurfari eru tvö kuldamet í Bandaríkjunum sem verulega standa uppúr. Í janúar og febrúar 1936 mældist frost niður í -51 gráðu á celsíus og aldrei hafði mælst svo mikið frost áður þar. Þetta met hélt allt fram í janúar 2019, er frost mældist -53 gráður á celsíus og sló þar með út fyrra met. Það merkilega við þessi hörkufrost er að bæði verða á tíma þegar frekar hlýtt er á jörðinni, það fyrra undir lok þess hlýkafla sem staðið hafði yfir frá aldamótum og það síðara fyrr á þessu ári, sem vísindamenn segja það hlýjasta til þessa. Þegar fyrra metið féll var svo sem ekki mikið rætt um orsakir, en veðrið sem því fylgdi var geysilegt. Svo mikið var veðrið að dæmi var um að stórgripir hefðu frosið til bana standandi.

Hins vegar var nokkuð rætt um orsakir þess mikla kulda er mældist í janúar síðastliðinn. Þá kepptust menn um að koma sökinni á hversu hlýtt væri orðið, að það leiddi til aukinna öfga. Ekki ætla ég að dæma um það.

Hvað sem öðru líður, þá er víst að nokkuð hefur hlýnað á jörðinni okkar hin síðari ár. Hverju er um að kenna er erfitt að segja, en vitandi að slíkt hefur gerst oft áður, er erfitt að segja orsökina eitthvað sem mannskepnan aðhefst. Bent er á co2 í því sambandi, að mannskepnan láti frá sér svo mikið magn af þeirri lofttegund. Þó eru vísindamenn enn ekki sammála um hvort sú lofttegund er orsök eða afleiðing. Sumir standa á því fastar en fótunum að með aukinni hlýnun muni eldfjöll gjósa meira og það leiði til enn frekari hlýnunar. Við vitum jú að mikið magn co2 losnar úr læðingi við það. Á sögulegum tíma hafa stór eldgos orðið og afleiðingin alltaf verið á sömu leið, leitt til kólnunar á jörðinni.

Hitt er ljóst að náttúran sjálf losar mikið magn co2 út í andrúmsloftið, sem betur fer. Annars væri lítið líf til. Mannskepnan hefur vissulega aukið verulega losun þessarar lofttegundar, en það er bara brotabrot af því magni sem náttúran sjálf skaffar til að viðhalda lífi a jörðinni. Nú tala menn um að draga þurfi úr losun co2 um svo og svo mikið, gjarnan nefnd einhver prósent með einsstafa tölu. Það mun litlu eða engu breyta þar sem heildarmagn þess sem mannskepnan losar er svo ofboðslega lítið. Jafnvel þó tækist að stöðva alla losun mannskepnunnar á co2 nú í dag, mun það litlu breyta. 

Ótti er eittvað vinsælast og sterkasta vopn sem valdhafar geta notað. Vandinn er að þetta vopn er gjarnan skammvinnt, fólk áttar sig og rís upp gegn þeim sem það nota. Á víkingaöld var ótti sterkast vopn víkinga og með því náðu þeir undir sig stórum hluta Englands. Þeir féllu. Fljótlega eftir það var það kristindómurinn. Þjónar kirkjunnar náðu ótrúlegum árangri í að kúga þegna sína með óttan að vopni. En sú kúgun varð að láta undan. Hin síðari ár má nefna þann ótta sem viðhafður var vegna kjarnorkuvár og spurning hvort meiri sigur var fyrir valdhafa yfir þegnum sínum eða þeim þjóðum sem þeir beindu flaugum sínum að. Á áttundaáratugnum var það óttinn við ísöld sem reynt var að koma á legg, en það mistókst. Nánast í beinu framhaldi kom svo óttinn um hamfarahlýnun. Þegar óttinn fór dvínandi og sífellt fleiri vísindamenn þorðu að koma fram með efasemdir, var sú snilldar aðferð notuð að láta barn taka við svipunni. Það klikkar auðvitað ekki.

Það er of langt mál að telja upp allar þær hamfaraspár sem dunið hefur á heimsbyggðinni, síðustu tvo áratugi. Læt nægja að nefna spá Al Gore frá árinu 2003, er hann hélt því fram að innan tíu ára yrði allur ís á norðurskautinu horfinn. Árlega frestaði hann þessu þó um eitt ár, en hélt sig þó ætíð við einn áratug. Enn er ísinn þarna til staðar og hefur reyndar heldur aukist hin allra síðustu ár.

Eins og áður segir eru vísindamenn alls ekki sammála um hvað veldur þeirri hlýnun sem hefur verið síðustu áratugi, hvort áfram heldur að hlýna eða hvort aftur muni kólna. Þarna skiptast vísindamenn nokkuð í tvo hópa. Flestir þeirra sem menntaðir eru í loftlagsvísindum telja fjarri því að hægt sé að kenna mannskepnunni og hennar athöfnum um, hinir sem ýmist eru menntaðir á öðrum sviðum eða eru vísindamenn í lygum (stjórnmálamenn), eru harðir á að manninum sé um að kenna og ekkert annað.

En gefum okkur nú að dómsdagsfólkið hafi rétt fyrir sér, gefum okkur að hafin sé einhver hamfarahlýnun og að jörðin muni farast. Í meira en tuttugu ár hafa stjórnmálamenn heimsins verið nánast á stöðugu flugi, heimsálfa á milli, til að sækja ráðstefnur um vandann. Og hver er niðurstaðan? Jú, auknir skattar, það er allt og sumt. Ekkert gert af viti til að sporna gegn losun co2, akkúrat ekkert. Það er hellst ef stjórnvöld hvers lands finna eitthvað sem ekkert kostar og þau geti notað sem sýndarpassa um aðgerðir, gagnvart öðrum þjóðum. Annars er bara horft til skattlagningar og hennar af stærri gráðunni.

Sumir reka sjálfsagt upp stór augu og vilja nefna rafbílavæðinguna sem dæmi. Það er þó fjarri því að hún muni miklu breyta. Rafbílavæðing hefði orðið eftir sem áður, einfaldlega vegna þess að þeir bílar eru mun einfaldari og þegar fram líður ódýrari en bílar með sprengihreyfli. Eini vandinn við rafbíla er geymsla orkunnar og ekki alveg séð að þeir geti tekið yfir að fullu fyrr en lausn fæst þar.

Það er þó fjarri því að ég telji að ekki þurfi að minnka mengun, hverju nafni sem hún nefnist. Mengun getur aldrei orðið til góða og sjálfsagt að gera allt sem hægt er til að minnka hana. Þar þarf auðvitað allt að liggja undir, loftmengun á að halda í lágmarki og ruslmengun er vandamál sem nauðsynlegt er að horfa til og finna lausn á. Þetta kemur þó ekkert við hitastigi jarðar. Þar eru öfl sem mannskepnan mun sennilega aldrei geta tamið.

Og ef stjórnmálamenn virkilega tryðu sjálfum sér og teldu að hamfarahlýnun væri á leiðinni, ættu þeir auðvitað að vera að finna lausnir á því hvað þurfi að gera til að mannskepnan fái lifað af slíka hlýnun. Leita lausna á hvernig hægt verður að viðhalda lífi á jörðinni, ef svo færi að aftur yrði hér hitabeltisskógur um nyrstu lendur Kanada, Grænlands, Noregs og Rússlands. Það hefur gerst og það gæti gerst aftur. Maðurinn mun þar engu ráða, en gæti kannski aðlagað sig að breyttu loftslagi.

Ice Age is Coming 1978 Science Facts

 

 


mbl.is Hitinn hefur aldrei mælst hærri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband