Færsluflokkur: Umhverfismál
Útrýming Arnarstofnsins?
27.8.2019 | 07:59
Örninn er stolt íslensku fuglaflórunnar. Það er því gleðilegt að stofninn skuli vera að eflast og stækka. Hins vegar er ljóst að um tímabundið ástand er að ræða, að stofn Arnarins mun falla mikið á næstu árum og vandséð að hann muni geta lifað af þær hremmingar sem hans bíða.
Breiðafjörður er kjörlendi Arnarstofnsins og flest óðul þar. Til stendur að reisa 86 vindmillur af stærstu gerð umhverfis botn fjarðarins, en vitað er að slík tól eru verulega skeinuhætt fuglum, sérstaklega stærri fuglum. Því má búast við miklum felli Arnastofnsins, eftir að þessir vindmilluskógar hafa verið reistir.
Hvar eru umhverfissamtökin hér á landi, af hverju heyrist ekkert frá þeim um málið. Vegagerð um syðri hluta Vestfjarða hefur verið í uppnámi í áratugi, vegna athugasemda þessara samtaka, m.a. vegna þess að vitað er um eitt Arnaróðal í hólma fyrir utan það svæði sem áætlað er að leggja þann veg. Það er einnig eitt Arnaróðal nánast inn á framkvæmdasvæði eins af þessum vindmilluskógum sem ætlað er að byggja upp, fyrir botni Breiðafjarðar!
Hvers vegna í ósköpunum heyrist hvorki hósti né stuna frá umhverfissinnum? Hvers vegna leggur ekki Guðmundur Ingi Guðbrandsson, fyrrverandi framkvæmdarstjóri Landsverndar og núverandi umhverfis og auðlindaráðherra, eitthvað til málanna? Getur það verið vegna þess að kollegi hans í ríkisstjórn hefur hagsmuna að gæta?!
https://www.youtube.com/watch?v=cQo-quWlAoI
https://www.youtube.com/watch?v=QRSAvD8VAbI
Arnarstofninn sterkur og 56 ungar á legg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 08:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Endurheimt votlendis
29.7.2019 | 09:45
Það er margt athugunarvert við endurheimt votlendis og þann ávinning sem af því hlýst. Að mestu er stuðst við útreikninga IPCC í því sambandi, útreikninga sem gerðir eru við allt aðrar aðstæður en hér á landi. Út frá þeim upplýsingum og reyndar einnig íslenskum um lengd skurða og mati á áhrifum þeirra, er farið af stað og ætlunin að leggja í það verkefni ómælda fjármuni. Engar beinharðar staðreyndir liggja að baki, einungis mat og væntingar. Ekki svo sem í fyrsta skipti sem við Íslendingar förum þá leiðina að einhverju markmiði.
Matið á losun kolefnis úr þurrkuðu landi hér eru svo stjarnfræðilega hátt að engu tali tekur. Talað er um að það losni gróðurhúsaloftegundir upp á 11,7 milljónir tonna vegna þurrkaðs lands hér á landi. Þarna er svo mikið magn sem um ræðir að beinlínis ætti að vera lífshættulegt að hætta sér út á land sem hefur verið framræst! Þegar skoðaðar eru forsendur fyrir þessari tölu er ljóst að eitthvað stórkostlegt hefur skeð í útreikningum, fyrir utan að notast við staðla sem engan vegin er hægt að heimfæra á Ísland.
Þegar skoðaðar eru forsendur sem liggja að baki þessari tölu sést fljótt að um mjög mikið ofmat er að ræða, jafnvel hægt að tala um hreinan skáldskap. Þessar upplýsingar er hægt að nálgast í skýrslu á heimasíðu stjórnarráðsins.
Fyrir það fyrsta er það landsvæði sem sagt er vera innan þessa áhrifasvæðis 420.000 ha., þ.e. um 4% landsins. Þetta skýtur nokkuð skökku við þar sem sambærilegt land er talið vera 3% alls heimsins. Hvernig getur það staðist að hér, á þessari veðurbörðu eldfjallaeyju með sinn þunna jarðveg, skuli vera að meðaltali meira af þykkri jarðvegsþekju en að meðaltali yfir jörðina.
Næst ber að telja áhrifasvæði skurða. Samkvæmt skýrslu stjórnarráðsins er talið að áhrifasvæði skurðar sé um 200 metrar, eða 100 metrar á hvorn kannt. Vera má að hægt sé að tala um slíkt þegar einn skurður er grafinn eftir blautri mýri, þó varla. Slíkir skurðir eru fáséðir, hins vegar eru flestir skurðir hér á landi grafnir til að þurrka upp land til túngerðar. Þar er bil milli skurða mun minna, eða frá 35 - 45 metrar. í blautum mýrum jafnvel minna. Meiri lengd á milli skuða í blautu landi veldur því að illfært getur orðið um miðbik túnsins og spretta þar minni en ella. Ef við erum nokkuð rausnarleg og segjum bil milli skurða vera 40 metra, er ljóst að áhrifasvæði skurðarins fellur úr 200 metrum niður í 40 metra. Það munar um minna.
Í skýrslunni er talað um að grafnir hafa verið 29.000 km af skurðum, að mestu á árunum 1951 - 1985. Fyrsta skurðgrafan kom til landsins 1941 og fram að þeim tíma var einungis um að ræða handgrafna skurði. Frá 1985 hefur framræsla verið lítið meiri en fyrir komu fyrstu gröfunnar og þá gjarnan einungis þegar brýn nauðsyn er til. Nú er það svo að skurðir fyllast ótrúlega fljótt upp, sé þeim ekki haldið við og hætta að virka sem framræsla. Ef ekki er hreinsað reglulega upp úr þeim má áætla að þeir séu orðnir næsta fullir af jarðvegi eftir 40 ár, sér í lagi í blautu landi. Þetta staðfesta nýjustu rannsóknir Landbúnaðarháskólans. Toppnum í framræslu var náð 1969, síðastliðin 40 ár hefur lítið verið framræst og nánast hverfandi framræsla verið frá árinu 1985, eins og áður segir. Því má áætla að flestir skurðir í votlendi, sem ekki er nýtt sem tún, séu nánast fullir af jarðvegi og hættir að virka sem framræsluskurðir. Endurheimt votlendis með því að moka ofaní slíka skurði er því nánast gangslítil eða gagnslaus. Oftar en ekki, þegar fjölmiðlaglaðir einstaklingar láta taka af sér myndir þar sem verið er að "endurheimta votlendi", eru þeir skurðir sem sjást nánast uppgrónir og landið um kring þá þegar orðið að mýri. Jafnvel lét forsetinn okkar plata sig í slíka myndatöku fyrir nokkrum misserum. Verra er þó þegar myndefni birtist af mönnum vera að fylla ofaní skurði í skráþurru vallendi og ætlast til að fá fyrir það greiðslu.
Samkvæmt þeirri skýrslu sem stjórnarráðið gaf út og notast við varðandi útreikning á losun gróðurhúsalofttegunda, eru þeir stuðlar sem stuðst er við rangir, kol rangir. Út frá þeim er áætlað að til endurheimtingu 100 hektara lands þurfi að fylla fjóra kílómetra af skurðum. Staðreyndin er að til að endurheimta 100 hektara af þurrkuðu votlendi þarf að fylla yfir 20 kílómetra af skurðum, miðað við að skurðirnir séu nýir. Við hvert ár sem líður hækkar kílómetratalan og er komin upp í það óendanlega eftir 40 ár.
Sömu forsendur og skýrslan er byggð á, er stuðst við þegar um heildarlosun Íslands er reiknað. Það er því mikilvægt að endurreikna þessa hluti til samræmis við raunveruleikann. Allt bókhald, líka bókhald um losun gróðurhúsalofttegunda, þarf að byggjast á staðreyndum. Og það er til mikils að vinna, með því að færa það til raunveruleikans má lækka opinbera losun hér á landi verulega, svo fremi að ekki gjósi.
Nú er það svo að ég hef ekkert á móti því að skurðum sem ekki eru í notkun sé lokað. Þannig má fá meira kjörland fyrir fugla. Því fylgir reyndar einn galli, en það er lélegri gróður og því minni framleiðsla á súrefni.
Allt þarf þó að gera á réttum forsendum og að baki öllum ákvörðunum, sér í lagi þegar verið er að tala um að ausa fé úr sameiginlegum sjóðum okkar, þurfa að liggja staðreyndir.
Einar ráðinn framkvæmdastjóri Votlendissjóðs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 10:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Með belti og axlabönd
27.4.2019 | 20:34
Það er fremur aum umsögn sem Náttúrufræðistofnun Íslands sendir vegna þingsályktunartillögu utanríkisráðherra, vegna orkupakka 3. Stofnunin telur að samþykkt orkupakkans muni geta aukið álag á náttúruna, en það velti þó fyrst og fremst á því hvort sæstrengur verði lagður. Gerir þar greinilega ráð fyrir að beltið og axlaböndin sem ráðherra hefur gjarnan nefnt, muni halda og því sé engin ástæða til að leggjast gegn tillögunni. Aumara getur það vart orðið.
Það er lítið gagn af belti og axlaböndum ef beltið er ekki reyrt og axlaböndin hneppt. Þá missa menn buxurnar alveg jafnt og án beltis og axlabanda. Og þannig er það varðandi orkupakka 3. Það handsal sem ráðherra gerði við embættismann ESB og þeir kossar sem forsætisráðherra fékk frá framkvæmdastjóra ESB mun lítt halda gagnvart op3. Þeir fyrirvarar sem stjórnvöld ætla að setja vegna þess pakka munu ekki halda, um það þarf ekkert að rífast. EES samningurinn er skýr og EES samningurinn segir að allar undanþágur frá tilskipunum ESB skulu afgreiddar í hinni sameiginlegu nefnd EES í viðræðum við ESB. Allar aðrar leiðir eru ófærar. Um þetta eru allir lögfróðir menn sammála. Því er hvorki beltið reyrt né axlaböndin hneppt hjá ráðherra og því mun hann standa buxnalaus eftir.
Það er út frá þessari staðreynd sem menn eiga að skoða málið, að tilskipunin mun taka gildi að fullu, sama hvað lög Alþingi setur. Og þar sem op3 er fyrst og fremst um flæði orku milli landa, hvernig því skal stjórnað og hver þar mun hafa valdið, er ljóst að Ísland mun tengjast meginlandinu með rafstreng, verði op3 samþykktur. Það verður ekki í valdi þjóðarinnar að ákveða það. Vissulega er ekkert í þessari tilskipun sem skikkar Ísland til að leggja streng, en það er skýrt að það mun teljast brot á henni ef Ísland leggst gegn slíkri tengingu.
Því er þessi umsögn Náttúrufræðistofnunar frekar aum. Stofnunin á að meta málið út frá þeirri staðreynd að strengur mun verða lagður, fyrr en síðar. Stofnunin á að meta málið út frá því hverjir hafa valdið. Stofnunin á að meta hvaða áhrif það mun hafa að Ísland missi stjórn yfir vernd náttúrunnar.
Hvað verður um rammaáætlun Alþingis, mun hún standa? Op3 mun vissulega ekki ógilda þá áætlun, en krafan um einkavæðingu og krafan um nægt afl til Evrópu, mun sannarlega gera erfiðara fyrir að standa við þá áætlun. Ljóst er að þegar þingmenn hafa ekki kjark til að vísa tilskipuninni til baka og fá þar afgreiðslu hennar breytt á réttum vígvelli, munu þeir fjarri því hafa kjark til að standa gegn fjármagnsöflunum undir handleiðslu ESB, til að verja rammaáætlun. Og svo kemur Op4 og þá eru allar varnir hér heima fallnar, einnig rammaáætlun.
Það er barnalegt að tala um streng til meginlandsins, þar á að tala um strengi. Tveir er lágmark, þó ekki sé nema vegna afhendingaröryggis. Þegar valdið hefur endanlega verið tekið af Alþingi, mun fjöldi strengja ráðast af því einu hvað mikið verður hægt að virkja hér á landi. Rammaáætlun og umhverfismat mun þá litlu skipta, einungis hvar hægt er að ná í orku.
Þá verða buxur ráðherra ekki á hælum hans, þær verða týndar og tröllum gefnar. Hann mun þá standa nakinn frammi fyrir alþjóð!!
Gæti aukið álagið á náttúruna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 20:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvert er Alþingi komið?
10.4.2019 | 10:16
Sá misskilningur virðist vera í gangi að með því að bera samþykkt tilskipunar ESB um orkupakka 3 upp sem þingsályktun, þá megi komast framhjá aðkomu forsetans að málinu. Að þá verði að sækja á forseta að vísa lögum tengdum þessum pakka til þjóðarinnar. Sjálfur hélt ég svo vera, þegar ég skrifaði síðasta pistil, enda horfði ég þá einungis til 26. gr. stjórnarskrárinnar.
Þegar betur er að gáð fjalla tvær aðrar greinar stjórnarskrárinnar um aðkomu forseta að ákvörðunum Alþingis, greinar 16 og 19.
16. gr.
Forseti lýðveldisins og ráðherrar skipa ríkisráð, og hefur forseti þar forsæti.
Lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir skal bera upp fyrir forseta í ríkisráði.
19. gr.
Undirskrift forseta lýðveldisins undir löggjafarmál eða stjórnarerindi veitir þeim gildi, er ráðherra ritar undir þau með honum.
Þarna er skýrt tekið fram að samþykki forseta þarf fyrir lögum sem sett eru á Alþingi en einnig mikilvægum stjórnarráðsathöfnum og stjórnarerindum. Varla er hægt að hugsa sér mikilvægari stjórnarráðstöfun en framsal orkuauðlinda okkar. Fyrirvarar breyta þar engu, afsalið er jafn gilt.
Ef það er svo að ráðamenn þjóðarinnar eru farnir að velja málum leiðir gegnum Alþingi sem þeir telji að dugi til að komast hjá eina varnagla þjóðarinnar, er illa farið. Ef stjórnarherrarnir ætla sér að fá samþykki fyrir þingsályktun um orkupakka 3, án samþykkis forseta, eru þeir ekki einungis að brjóta stjórnarskrá með því að fórna sameign þjóðarinnar, heldur er framkvæmdin sjálf brot á stjórnarskrá!
Hvert er þá Alþingi okkar, sjálft löggjafavaldið, komið?!
Beiti synjunarvaldi gegn orkupakka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Til hvers að skera sauðinn, ef ekki á að éta hann?
9.4.2019 | 10:09
Það er að verða nokkuð ljóst að Alþingi mun samþykkja þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um að hér skuli 3. orkupakki ESB taka gildi. Hafi þeir þingmenn sem leggja blessun sína á þessa aðför ráðherrans að lýðræði okkar skömm fyrir.
Málflutningur þeirra sem vilja samþykkja orkupakka 3 eru fyrst og fremst byggð á einu atriði, persónum þeirra sem á móti eru. Framanaf voru þetta einu rök landsölufólksins, fullyrt að engin hætta væri af samningnum, að vald yrði ekki að neinu leyti flutt úr landi. Þegar ljóst var að þessu svokölluðu rök stóðust ekki, þegar ljóst var að um afsal valds var að ræða og ráðamenn gátu ekki lengur dulið það fyrir þjóðinni, voru settir fram fyrirvarar. Þar með viðurkenndu stjórnvöld málflutning þeirra sem á móti voru. En fyrirvarar við tilskipanir frá ESB hafa aldrei haldið og munu aldrei halda. Einungis tilskipunin sjálf, með kostum og göllum virkar. Þetta hefur margoft verið reynt. Enginn hefur getað bent á fyrirvar sem hafi haldið, þ.e. fyrirvarar sem gerður er við þegar samþykkta tilskipun frá ESB. Ef breyta þarf einhverju þarf að breyta sjálfri tilskipuninni.
Ljóshundur verður lagður til meginlandsins, um það þarf ekkert að efast. Hugmyndir ráðamanna um að einhver fyrirvari við tilskipuninni muni þar einhverju breyta eru barnalegar. Til hvers að skera sauðinn ef ekki á að éta hann, til hvers að samþykkja orkupakka 3 ef ekki á að hagnast á honum? Sá hagnaður mun þó einungis falla á annan veginn; til þeirra sem að strengnum sjálfum standa, til þeirra sem framleiða orkuna fyrir strenginn og til þeirra sem taka við orkunni frá strengnum. Við, hinn almenni Íslendingur munum einungis sjá tap og það af stærðargráðu sem engum gæti dottið til hugar. Rekstrargrundvelli flestra fyrirtækja verður fórnað. Og ekki skal nokkur láta sér detta til hugar að einn strengur verði látinn duga. Tveir eru lágmark, þó ekki sé nema vegna afhendingaröryggis. Þegar síðan gróðasjónarmiðum er bætt við mun fjöldi strengja miðast við getu okkar lands til að framleiða orku. Þar mun engu verða eirt og ekkert skilið undan. Baráttu Sigríðar í Brattholti mun því að engu verða gerð, að baráttan um ásælni erlendra afla yfir auðlindum okkar, sem hófst með baráttu um Gullfoss, sé að fullu töpuð!
Teikn eru skýr, búið er að skoða rekstrargrunn sæstrengs, búið er að hanna framkvæmdina og það sem til þarf og ESB hefur sett þennan streng í forgang hjá sér. Erlendir auðjöfrar sniglast um landið eins og gráir kettir í leit að hentugum virkjanakostum og landsvæðum fyrir vindmilluskóga. Ekki eru þeir að spá í að framleiða rafmagn fyrir okkur mölbúana, þeir horfa yfir hafið.
Það er reyndar magnað að nokkur skuli láta sér detta til hugar að ætla að framleiða rafmagn með vindmillum, sem ætlað er til notkunar í 1000 km fjarlægð. Jafnvel þó hægt væri að flytja þá orku eftir landi alla leið, dytti engum slíkt í hug, hvað þá ef þarf að fara yfir úfið útaf. Vindur blæs jú um allan heim og styrkur vindmillna liggur í að hægt er að framleiða rafmagn nálægt notanda, að hægt er að minnka til muna það tap á orku sem flutningur þess leiðir af sér. Kannski væri þarna verk fyrir þá fréttamenn sem vilja hengja "rannsóknar" við nafnbót sína, til skrauts. Að rannsaka hvers vegna erlendir aðilar séu svo áfram um að framleiða hér orku með vindmillum ætlaða til flutninga langar leiðir. Getur verið að andstaðan gegn vindmillum sé orðin svo víðtæk, þar sem stærstu skógar að þeim eru, að það þyki nauðsynlegt að koma óskapnaðnum, sem lengst frá notanda?
Og talandi um orkutap, þá er lítið rætt um þá miklu orku sem þarf að framleiða hér á landi til þess eins að henda í hafið í formi orkutaps gegnum strenginn. Sú umframframleiðsla sem forstjóri Landsvirkjunar er svo tíðrætt um en fáir finna, mun verða léttvæg í þeim samanburði. Ef slík umframorka er til, þá á auðvitað að nýta hana hér á landi, t.d. til garðyrkju eða bræðsluverksmiðja.
Orkutilskipun 3 fer gegn stjórnarskrá, um það þarf ekki að deila. Fyrirvara stjórnvalda munu þar engu breyta. Í ofanálag hefur heyrst að ástæða ráðherra að flytja málið sem þingsályktun sé til þess ætluð að komast framhjá valdi forseta. Þarna er verið að leika hættulegan leik. Höfnun tilskipunarinnar af Alþingi gefur ESB heimild til að fella niður aðrar fyrri samþykktir Alþingis um sama efnisflokk, í þessu tilviki að orkumál verði ekki lengur hluti af EES samningnum. Um þetta þarf þó að semja milli EES og ESB. Samþykki hins vegar Alþingi tilskipunina, en forseti vísar lögum henni tengdri til þjóðarinnar, mun koma upp önnur og verri staða. Þá verður sjálfur EES samningurinn undir, ekki einungis sá hluti er snýr að orkumálum.
Þegar horft er á rök með og móti þessari tilskipun kemur nokkuð glögglega í ljós hversu víðáttu vitlaust það er að samþykkja tilskipun um orkupakka 3. Þeir sem eru á móti samþykktinni hafa einkum nýtt sjálfa tilskipunina sem gagn í sinni rökfærslu og fengið til þess verks færustu menn á sviði Evrópuréttar. Hinir sem samþykkir eru tilskipuninni hafa hins vegar fallið í þá gröf að hlaupa í manninn, í stað boltans. Það er ljótur leikur. Sumir þeirra sem mest hafa mælt með og skrifað um samþykkt tilskipunarinnar hafa beinna hagsmuna að gæta, fyrir sig eða sína fjölskyldu. Hjá öðrum eru ekki jafn skýr tengls, en þau hljóta þó að vera til staðar. Annað er ekki í boði, því einungis heimska mun þá skýra þeirra framferði. Og svo eru það auðvitað ESB sinnarnir. Hjá þeim gilda ekki rök, einungis nóg að pappírinn komi frá Brussel. Því fólki verður aldrei snúið.
Þá er rétt að benda á þá einföldu staðreynd, sem ætti að vera öllum ljós, að jafnvel þó svokallaðir fyrirvarar ríkisstjórnarinnar héldu, þá dugir það bara alls ekki. Þessari ríkisstjórn sem nú situr er vart treystandi til að standa í lappirnar þegar ættingjar sækja að. Síðan kemur ný ríkisstjórn og enginn veit hvernig hún verður skipuð. Miðað við hvernig kjörnir fulltrúar hafa gert leik að því að hundsa niðurstöður kosninga og setja saman stjórnir þvert á niðurstöðu kosninga, má búast við öllu, jafnvel því að ESB sinnar nái völdum. Þá eru fyrirvarar lítils virði!
Ég ætla rétt að vona að kosningin um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra verði með nafnakalli. Listinn um landsölufólkið mun þá verða varðveittur og reglulega opinberaður!!
Tókust á um fjarveru Sigmundar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 10:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Á Evu klæðum
17.2.2019 | 10:54
Mail online flutti heimsbyggðinni nokkuð sérstæða frétt í morgun. Þar segir að breska verslunarkeðjan Boohoo ætli að hætta sölu á fötum sem innihalda ull af einhverju tagi, bannið tekur gildi hjá þeim í haust. Ástæðan er að dýraverndunarsamtökin PETA telji rúning áa vera dýraníð!
Þá vaknar spurning; hvernig skal framleiða föt? Í flestum fötum er ull af einhverju tagi þó hún hafi vissulega vikið nokkuð fyrir plastefnum. Varla viljum við þó framleiða fötin úr plast, þessu baneitraða efni sem allstaðar er verið að banna!
Þá eru einungis nýju föt keisarans eftir, öðru nafni Evuklæðin. Mannskepnan verður bara að vera nakin!
PETA samtökin fara þarna offari, svo vægt sé til orða tekið. Það er ekki dýraníð að rýja ærnar, hins vegar er það sannarlega dýraníð að gera það ekki og getur það leitt skepnuna til dauða. Það hefur eitthvað skolast til í haus þeirra hjá PETA sem fullyrða svona bull.
Og ekki er hitt skárra, að virt verslunarkeðja skuli taka undir þessa vitleysu. Það verður gaman að koma í verslanir þeirra á hausti komandi, einungis tóm herðatrén á fataslánum.
Það er vandlifað í henni veröld. Barnaskapur og fáviska virðast vera að ná völdum á öllum sviðum.
Hvað næst?!!
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 11:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Skal engan undra
22.12.2018 | 13:30
Það ætti enginn að vera undrandi yfir því þó mengunarský myndist yfir Reykjavík á lygnum dögum. Þetta er auðvitað mannanna verk, ekki þó þeirra sem voga sér að aka um á einkabílnum, heldur hinna, sem hafa staðið gegn allri eðlilegri framþróun á gatnakerfi borgarinnar í samræmi við þarfir.
Umferðarmannvirki, viðhald þeirra og viðbætur, eru eitthvað sem vinstrimenn skilja ekki, ekki frekar en meðhöndlun peninga, eins og fréttir síðustu daga bera skýrt merki. Því hafa þessi mál verið til vansa um nokkuð langt skeið í borginni og mengun því orðin meiri en ella hefði þurft.
Það er auðvitað alveg sjálfsagt að efla almenningssamgöngur, en það má þó ekki bitna á eðlilegu viðhaldi og endurnýjun gatnakerfisins. Tilraun til eflingar almenningssamgangna hefur nú staðið yfir í um einn áratug, með miklum fjármunum úr ríkissjóð. Samhliða því hefur viðhald gatna verið í algjöru lágmarki og í stað eflingar gatnakerfisins hefur verið markvisst skert af því, götur þrengdar, tvístefnugötum breytt í einstefnur og götum heilu hverfanna verið lokað.
Þrátt fyrir þetta, þrátt fyrir að ráðist hafi verið gegn einkabílnum á báða vegu, með auknum fjárútlánum til almenningssamgangna samhliða því að gera notkun hans fólki enn erfiðari, hefur þetta átak engu skilað, enn er sama hlutfall borgarbúa sem ferðast með almenningssamgöngum og við upphaf átaksins. Því vilja borgaryfirvöld ganga enn lengra, fá martgfallt meira úr sjóðum landsmanna og sjálfsagt skerða gatnakerfið enn frekar. Það mun ekki skila sér í hlutfallslegri aukningu þeirra sem ferðast með almenningssamgöngum en alveg örugglega mun mengun margfaldast!
Greiðfærara gatnakerfi, regluleg þrif á því og svo almenn snyrtimennska af hálfu yfirvalda í umhverfi þess, er leiðin til að minnka mengun. Rafbílar eru vissulega framtíðin, en það er nokkuð langt í þá framtíð og á meðan þarf að gera það sem hægt er. Hlutfall þeirra sem ferðast með almenningssamgöngum er ekki lausnin. Jafnvel þó tækist, með einhverjum göldrum, að fjölga þeim um 100%, sem er jú eitthvað sem þeir allra dreymnustu þora að hugsa, væri það hlutfall enn innan við 10% þeirra sem um borgina ferðast.
Sjálfur bý ég ekki í Reykjavík, en eins og aðrir landsmenn neyðist ég stundum til að heimsækja þessa höfuðborg okkar allra. Ég hef því ekkert raunverulegt val á milli almennings- eða einkasamgangna, fer á mínum bíl til borgarinnar og þær leið sem ég þarf að fara innan hennar. Fyrir nokkrum dögum þurfti ég að fara slíka háskaferð og er það svo sem ekki frásögufærandi, utan þess að vegna þeirra þrengsla sem yfirvöld borgarinnar hafa búið til, tók mig næstum hálfa klukkustund að komast leið sem að jafnaði ætti að vera hægt að aka á örfáum mínútum. Þar var umferðin með þeim hætti að hægt var að komast eina bíllengd í einu og síðan beðið í nokkurn tíma. Ég ek á bíl sem að jafnaði eyðir um eða innan við 5L/100. Eftir að hafa setið í þessari umferðarteppu, sem n.b. var ekki niðri í miðbæ, heldur mun austar í borginni, skoðaði ég eyðslumælinn í bílnum. Hann stóð þá í 11L/100. Hef aldrei áður séð bílinn hjá mér eyða svo miklu eldsneyti. Eyðsla og mengun haldast nokkuð í hendur og þarna var bíllinn minn, sem fyrir tveim árum uppfyllti mengunarreglur borgarinnar fyrir fríu bílastæði, farinn að menga eins og amerískur pick up!! Að því er mér skilst, af þeim sem eru heimavanari en ég innan borgarmarkanna, var þessi umferðarteppa alls ekki neitt einsdæmi, jafnvel frekar í minnikantinum á mælikvarða Reykjavíkur.
Þetta skýrir kannski hvers vegna í smáborg norður á hjara veraldar, þar sem sjaldnast er logn, skuli vera meiri mengun en í stórborgum Bandaríkjanna, þar sem allir íbúar Íslands kæmust fyrir í einni lítilli götu.
Segir þokuna í gær mengunarþoku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kveikur
21.11.2018 | 10:05
Ég horfði á þáttinn Kveik á ruv í gærkvöldi. Seinnihluti þáttarins fjallaði um endurheimt votlendis og eins og þáttastjórnanda er einstaklega vel lagið, þá tókst henni að að koma fram með staðreyndarvillur sem gerðu umfjöllunina alla frekar ótrúverða. Eitt stóð þó uppi eftir þennan þátt, en það var sú staðreynd, sem reyndar hefur oft áður verið ritað um á þessari bloggsíðu, að endurheimt votlendis er ekki tekið gilt í orkubókhaldi þjóða, samkvæmt Parísarsamkomulaginu og ástæðan er einföld, ekki eru til marktækar rannsóknir á þessu sviði.
Það er reyndar alveg merkilegt hvaða æði gripið hefur landsmenn. Endurheimt votlendis er það sem allt snýst um. Stofnaður hefur verið svokallaður votlendissjóður og ferðast fulltrúar hans milli fyrirtækja að snapa pening í sjóðinn og auðvitað er ætlast til að ríkissjóður leggi drjúgan pening í púkkið. Allt mun þetta lenda á veskjum landsmanna, engin hætta á að fyrirtækin taki þá peninga úr arði sínum. Og ef bændur vilja vera hipp og kúl, þá kalla þeir til sjónvarpið til að taka myndir af sér við að moka í skurði, grafa jafnvel nýja til að geta mokað í þá líka.
Eins og áður segir þá tókst þáttastjórnanda að koma fram með staðreyndarvillur. Fyrir það fyrsta sagði hún að fyrstu jarðræktarlög hefðu komið fram 1923 og að í beinu framhaldi hafi runnið einskonar skurða ævintýri á landsmenn. Það er reyndar rétt hjá henni, fyrstu jarðræktarlögin tóku gildi 1923, en fyrsta skurðgrafan kom hins vegar ekki til landsins fyrr en 1942. Það liðu því 19 ár þar sem menn þurftu að grafa skurði með höndum. Það tók síðan nokkurn tíma að fjölga skurðgröfum í landinu og má segja að það hafi ekki verið fyrr en undir lok sjötta áratugar sem fjöldi þeirra varð viðunnandi. Þetta voru svokallaðir draglarar, þ.e. víraskurðgröfur. Afkastageta þeirra var lítil og í raun ekki grafið mikið meira en það sem nauðsynlega þurfti, til að mæta þróun í landbúnaði. Undir lok sjöunda áratugar komu svo vökvagröfur til landsins og má segja að þá hafi loks hafist skurðaæði, enda afkastageta þeirri margfalt meiri en gömlu víravélanna. Áratug síðar var síðan minnkað verulega styrkgreiðslur vegna framræslu og dró þá verulega úr framkvæmdum á því sviði. Í dag er nánast ekkert land framræst nema það sé tekið til ræktunnar. Þetta graftaræði sem Þóra sagði að staðið hefði yfir í nærri 80 ár á síðustu öld, stóð í reynd einungis yfir í einn áratug!
Þá var henni tíðrætt um að 70% losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi komi frá framræstu landi, reyndar jók hún stundum við og bætti svona eins og tveim prósentum við, taldi þetta alveg óumdeilt. Þessi fullyrðing er í besta falli barnaleg, fyrst og fremst vegna þeirrar staðreyndar að litlar sem engar rannsóknir eru til um þetta. Það var því gleðilegt að sjá að slíkar rannsóknir eru nú loks hafnar og að jafnvel sé hugsanlegt að mæla einnig metangas frá jarðvegi. Reyndar kom nokkuð á óvart að sjá aðfarirnar við mælinguna, en vel getur verið að tæknin sé orðin svo fullkomin að nóg sé að henda pottloki á jörðina og hafa snjallsíma í hendi. Það er þá bara hið besta mál og ætti að vera hægt að safna miklu magni upplýsinga á stuttum tíma fyrir lítinn pening. Svo er bara spurning hvort erlendir vísindamenn tak slíkar mælingar trúanlegar og hvort Parísarhópurinn er tilbúinn að taka þetta inn í kolefnisbókhald þjóða.
Það er alveg ljóst, enda kom það skýrt fram í þessum þætti, að allar fullyrðingar um magn á kolefnislosun úr framræstu landi byggja á líkum og líkönum. Þar er fyrst og fremst horft til þess að þegar land er þurrkað byrji rotnun í jarðvegi og að sú rotnun skili kolefni í andrúmsloftið. Ekkert hefur þó verið rætt um hvenær þeirri rotnun lýkur og þar með uppgufun kolefnis Það er ljóður á að þeir vísindamenn sem tjáðu sig eru fastir í þessu hugarfari, svo væntanlega munu rannsóknir þeirra byggjast fyrst og fremst á því að sanna þær fullyrðingar.
En það er fleira sem spilar inn í. Þar er auðvitað stæðst að blautar mýrar framleiða mikið magn metangass, sem talið er tuttugu sinnum verri loftegund en kolefni. Þetta þarf auðvitað að rannsaka. Þá þekkja bændur vel að gras rýrnar fljótt á túnum ef skurðum er ekki haldið við, að mun rýrari gróður er á blautu landi en þurru. Þar sem grænblöðungar eru eitt helst tæki náttúrunnar til að breyta kolefni í súrefni, hlýtur þetta skipt miklu máli.
Færum okkur aftur að skurðum. Skurðir þurfa viðhald, eigi þeir að halda landi þurru. Ef ekkert viðhald er, þá fyllast þeir sjálfkrafa, fer nokkuð eftir landi hversu fljótt. Þó er vitað að skurðir sem grafnir eru í blautu landi fyllast fyrr en skurðir í þurru landi. Þar sem flestir skurðir eru meir en fjörutíu ára gamlir, er ljóst að þeir sem ekki eru vegna túngerðar eru flestir orðnir nánast fullir af jarðvegi, hafi land ekki verið þeim þurrara þegar þeir voru grafnir. Grunnvatnsstaða þess lands er því orðið nokkuð há og vandséð að miklu breyti þó ýtt væri einhverjum jarðvegi í þá til viðbótar. Hins vegar geta skurðir staðið nokkuð vel í landi sem er nokkuð þurrt fyrir. Varla getur verið mikill ávinningur af því að fylla þá. Það eru þó einmitt slíkur skurðir sem veljast oftast til fyllingar, enda tækjakostur sem þarf við verkið oftar en ekki þungur og því erfitt að fara með hann á blautt land.
Það er gott að loks skuli vera farið að rannsaka uppstreymi kolefnis úr jarðvegi, þó vissulega betra væri ef rannsakendur væru ekki búnir að mynda sér skoðun fyrirfram. Það rýrir trúverðugleikann. Og það þarf að líta á málið heildstætt, hversu langan tíma rotnun stendur yfir, eftir að jörð er grafin, hvað mikið af metan sleppur úr blautu landi og hver geta gróðurþekja til umbreytingar á kolefni til súrefnis er. Þegar þetta allt liggur fyrir, er loks hægt að spá í hvort rétt sé að breyta þurrkuðu landi í mýrar og hvort vert sé að leggja slíka ofuráherslu á endurheimt votlendis sem nú er orðin.
Það sem þó skiptir mestu er að þegar þessar rannsóknir liggja allar fyrir, er hægt að segja til um hversu mikið af gróðurhúsalofttegundum verða til, hvernig þær skiptast og hve mikill hluti þeirra er manngerður. Það virðist nefnilega vera svo að allt skuli gert til að minnka manngerðar gróðurhúsalofttegundir, jafnvel þó slíkar aðgerðir stór auki náttúrulegar loftegundir, jafnvel margfalt hættulegri.
Það voru þó fleiri atriði í þessum þætti sem vöktu spurningar, en það var blessaður kolefniskvótinn. Fram kom að Icelandair væri að greiða einn milljarð í slíkan kvóta og að sú upphæð muni margfaldast á næstu árum. Auðvitað munu farþegar borga þá upphæð að mestu, hluti mun þó koma frá þeim sem eru með verðtryggð lán á sínu húsnæði. Þetta þótti viðmælenda bara hið eðlilegasta mál og ekki þótti þáttastjórnanda ástæða til að spyrja stóru spurningarinnar, hvert það fé færi. Ef einhver borgar eitthvað er óumdeilt að einhver annar tekur við því fé. Hvert fara þeir fjármunir?
Undir lok þáttarins hélt ég að ég hefði sofnað og að kominn væri annar þáttur um eitthvað allt annað efni, þegar einn viðmælandinn kom, með þá speki að auðvitað yrðum við að fara að framleiða allt eldsneyti á skipaflotann sjálf. Framleiða lífdísil!
Þetta kom eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Maður var búinn að horfa um langan tíma á umfjöllun um endurheimt votlendis þegar allt í einu var farið að tala um stórfelda ræktun. Hvernig í andskotanum ætla menn að rækta forblautar mýrar. Að ekki sé nú minnst á að jafnvel þó hver mýrarblettur landsins væri þurrkaður upp og tekinn undir ræktun lífdísils, myndi það ekki duga nema á hluta fiskiskipaflotans.
Þá er alveg með ólíkindum að alþjóðasamfélagið skuli ekki fyrir löngu verið búið að banna að land sé tekið úr matvælaframleiðslu til framleiðslu á eldsneyti, þegar ljóst er að fjölgun mannkyns mun verða gífurleg næstu ár og áratugi, með tilheyrandi þörf fyrir matvæli!!
Boð og bönn skila sjaldnast árangri
1.11.2018 | 16:51
Boð og bönn hafa sjaldnast skilað árangri, hitt má vel skoða, þ.e. úrvinnslugjald. Reyndar er nú þegar greitt úrvinnslugjald á margar plastvörur, t.d. rúlluplast. Einhverra hluta vegna skilar það gjald sér ekki til þeirra sem ættu að njóta og sá hvati til betri hirðu plastsins því ekki til staðar.
Innkaupapokar hafa um langt skeið verið seldir í verslunum, svo tillaga starfshópsins þar um fer nokkuð yfir markið. Reyndar er ekki að sjá minni notkun vegna þess, enda spurning hvað ætti að koma í staðinn. Nefnt hefur verið bréfpoka, sérstakir maíspokar og svo auðvitað margnotapokar.
Ég var alinn upp við að eyðing skóga væri að leggja jörðina í eyði, væri mannsins stærsta böl. Því má afskrifa bréfpokana strax.
Maíspokar eru gerðir úr maís, eins og gefur að skilja. Með hratt fjölgandi mannkyni og frekari þörf á matvælum til að fóðra það, væri auðvitað út úr kortinu að taka enn frekara landbúnaðarsvæði úr matvælaframleiðslu. Nú þegar eru allt of stór slík svæði farin úr matvælaframleiðslu og notuð til að framleiða svokallað lífeldsneyti, svo fáránlegt sem það nú er.
Fjölnotapokar eru vissulega í boði, en það er með þá eins og hitt, að framleiðsla þeirra skerðir á einhvern hátt annað og nauðsynlegra. Í raun er eina efnið sem nýta má silki, en það er jú framleitt úr vefum köngulóa og ekki nýtt til annars. Aðrar vefnaðarvörur eru ýmist framleiddar úr ull, ýmiskonar gróðurvörum eða plasti, sem á jú að banna. Þar að auki er nánast útilokað að muna eftir þeim pokum, þegar farið er í búð.
Flestar aðrar vöru sem framleiddar eru úr plasti eru sama merki brenndar. Eitthvað annað þarf að koma í staðinn og þetta "annað" skerðir í flestum tilfellum eitthvað enn þýðingameira.
Plast er vissulega skaðvaldur, þegar ekki er rétt með það farið. Þó finnst varla vistvænni vara.
Plast er framleitt úr úrgangi olíuhreinsistöðva, úrgangi sem annars þarf að eyða á einhvern hátt. Þá er plastið einhver besta framleiðsluvara til endurvinnslu, sem enn þekkist.
Það er gleðilegt að sjá að þessi "samráðsvettvangur" gleymir ekki þeim þætti og vonandi að hann fái eitthvern hljómgrunn ráðamanna. Þar er virkilega hægt að gera betur og kostnaðurinn þarf ekki að vera mikill. Hvatarnir til hirðu alls plasts geta verið margskonar. Áður hefur verið nefnt úrvinnslugjald og það virkar ágætlega þegar þeir njóta sem plastið nota. Aðstöðu til að losna við flokkað plast þarf að sjálfsögðu að byggja upp, en hún er nær engin í dag. Gera þeim sem vilja nýsköpun á endurvinnslu plasts hægara fyrir og að sjálfsögðu að leita upplýsinga erlendis frá um hvernig megi endurnýta plast, enda margar þjóðir langt komnar á því sviði. Mikilvægast er þó að breyta hugarfari fólks til plasts, að notað plast séu verðmæti en ekki rusl.
En plast er ekki bara plast. Til eru fjölmargar gerðir af plasti og flækir það nokkuð endurvinnslu þess. Sumt plast er auðvelt að endurvinna, meðan annað er erfiðara. Ekki þarf lengi að leita á veraldarvefnum til að sjá grósku í endurvinnslu plasts erlendis. Þar eru Indverjar sennilega lengst komnir. Þar má sjá að flokkað plast eftir tegundum er endurunnið til ýmissa nota, meðan óflokkað plast er tætt niður og blandað saman við malbik. Lagðir hafa verið vegir með slíku plastblönduðu malbiki í nokkur ár á Indlandi og niðurstaðan hreint út sagt frábær. Ending malbiksins eykst margfalt, eitthvað sem okkur vantar svo sárlega hér á landi.
Bretar eru einnig nokkuð vel á veg komnir í endurvinnslu á plasti. Þeir hafa farið þá leið að leita til þeirra sem lengra eru komnir og eru nú t.d. byrjaðir að prufa blöndun á plasti við malbik, í samstarfi við Indverja. Hér á landi hefur heyrst að einhverjir fræðingar séu að fara í þróunarvinnu á þessu sviði. Þekkja þeir ekki síma?!
Hvað sem öllu líður þá eru boð og bönn sjaldnast til árangurs. Með núverandi ráðherra umhverfismála má þó búast við að mest verði lögð áhersla á þann þátt, þó nefndin bendi einnig á aðrar betri leiðir.
Skylduð í samræmda flokkun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 16:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þegar auðmenn taka upp budduna
18.7.2018 | 22:34
Enn er verið að tefja að alvöru vegtenging fáist fyrir sunnanverða Vestfirði. Fyrir kosningar í vor lá ljóst fyrir að vegur um Teigskó yrði fyrir valinu, einungis eftir að fá samþykkt opinberra yfirvalda. Eftir kosningar kom annað hljóð í skrokkinn. Þá var allt í einu nauðsynlegt að skoða fleiri leiðir. Bræður tveir, sem taldir eru til auðmanna þessa lands, tóku upp á því að opna buddur sínar fyrir nýju sveitarstjórnina.
En eins og allir vita, opna auðmenn ekki buddur sínar án þess að fá eitthvað í staðinn. Og það varð raunin. Ráðinn var norsk verkfræðistofa til að koma með nýja og "ferska" sýn. Auðvitað var sú sýn eins og til var ætlast, vegur skyldi lagður annarstaðar en um Teigskóg. Þeir norsku lögðu til að brúað skildi milli Reykjaness og Skálaness, 800 metra langa brú. Það tók norsku verkfræðistofuna ekki nema nokkra daga að komast að þessari niðurstöðu. Enda var henni ekki ætlað að finna ódýrustu eða bestu leiðina, heldur einhverja aðra en um Teigskóg. Hreppsnefndinni hafði þarna tekist að koma málinu í algert uppnám, fyrir tilstilli tveggja bræðra, sem sáu sér einhvern hag í að tefja málið.
Forsendur norsku verkfræðistofunnar eru í algjörum molum. Fyrir það fyrsta gerir hún ráð fyrir að vegurinn að Reykhólum verði nýttur áfram, einungis gert ráð fyrir nýrri tengingu í báða enda hans. Þeir sem þennan veg hafa ekið vita mætavel að það er alger firra, byggja þarf þann veg upp frá grunni, eigi hann að taka við allri þeirri umferð sem til sunnanverðra Vestjarða fer og síðan þeirri umferð sem bætist við eftir að Dýrafjarðargöng hafa verið kláruð og vetrarvegur yfir Dynjandis- og Botnsheið verður lagður. Vegstæðið liggur þarna um skógi vaxið svæði og hætt við að umhverfisspjöll verði mikil við lagningu nýs vegar þarna, auk þess aukakostnaðar sem af hlýst.
Þá liggja ekki fyrir neinar alvöru rannsóknir á hvernig botnlög eru í utanverðum Þorskafirði og því ekki hver kostnaður er við brúarstólpa þar, eða hvort yfir höfuð er hægt að brúa þarna. Kostnaðaráætlun þeirra norsku er því óskhyggja ein. Sem rök fyrir máli sínu nefnir þessi norska verkfræðistofa brúargerð í Noregi. Hvergi veit ég til að brúað hafi verið þar, ef hægt hefur verið að leggja veg um láglendi án slíks ofurmannvirkis og alls ekki ef vegalengdir aukast við brúargerð. Enda Norðmenn sparir á aurinn og fara vel með hann.
Teigskógur er eins mikið rangnefni og hugsast getur, á því kjarri sem vex neðarlega í suðurhlíðum Hallsteinsnesfjalls og nægir að ganga þar uppréttur til að sjá til allra átta. Mun fallegri og stærri skóga má finna þarna nærri og má t.d. nefna skóginn fyrir ofan Bjarkarlund og auðvitað skóginn neðan Barmahlíðar, þar sem núverandi vegur til Reykhóla liggur. Fleiri slíka skóga má nefna á sunnanverðum Vestfjörðum og austur um Barðaströnd.
Verndargildi Teigsskógar er ekkert, enda búið að planta í hann erlendum trjám, eins og t.d. Alaskaösp.
Margir hafa fundið hjá sér hvöt til að skrifa um þetta blessaða kjarr, því til varnar. Efast ég um að margir þeirra hafi farið á staðinn til að líta "djásnið" augum, enda ekki auðvelt að komast þangað. Læst hlið og ekki nema fyrir útvalda að komast þangað. Þarf að fara á svig við lög ef ætlunin er fyrir hinn almenna Íslendinga að komast á svæðið.
Eftir að upplýst var að tveir bræður væru að fjármagna ósættið um löngu þarfa veglagningu um sunnanverða Vestfirði, með því að bera fé á sveitarstjórn Reykhólahrepps, dettur manni óneitanlega í hug að kannski hafi hafi sú hvöt, til skrifta, eitthvað að gera með buddur bræðranna og jafnvel kærumál hinna ýmsu svokallaðra hagsmunaaðila séu af sömu rót sprottnar. Reyndar eru flest þau hagsmunafélög á suð-vestur horni landsins.
Það er alveg dæmalaust að sveitarstjórn Reykhólahrepps hafi látið tvo bræður hafa sig að fíflum og það fyrir örfár krónur. Þarna tókst henni að flækja málið enn frekar og búa til enn meira ósætti, bæði innan eigin sveitarfélags en ekki síður þeirra sem búa vestan þess. Það er í alvöru spurning hvort sveitarstjórn hafi með þessu framferði, að láta auðmenn kaupa sig, ekki gerst brotleg við stjórnsýslulög. Og hverjar eru hvatir þessara bræðra, eða hagsmunir, að þeir telji nauðsynlegt að bera fé á sveitarstjórn?!
Til að það valdi ekki misskilningi, þá býr höfundur ekki í Reykhólahreppi eða vestan hans, en ofbýður hvernig komið er fram við það fólk sem þar býr!!
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 22:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)