Örlítill grenjndi minnihluti

 Ég tilheyri þeim þúsundum landsmanna sem kallaðir hafa verið "örlítill grenjandi minnihluti".

Við landsmenn höfum verið þeirra gæfu aðnjótandi að fyrsti forseti Alþingis hefur lítið nýtt sér ræðustól stofnunarinnar, mestan part þess kjörtímabils er nú er senn að ljúka. Undantekningu gerði hann þó á þessari nýju en gleðilegu venju sinni, fyrir um viku síðan, er hann taldi sér nauðsynlegt að lítillækka hluta þjóðarinnar, með þeim orðum að um "örlítinn grenjandi minnihluta" væri að ræða. Sem forseti Alþingis og handhafi forsetavalds, voru þessi ummæli kuldaleg, hvort sem um stórann eða lítinn hluta þjóðarinnar væri að ræða. Þarna setti forseti Alþingis stórann og ljótan blett á þá stofnun sem honum er trúað til að stjórna.

Ekkert hafði forseti þó fyrir sér í þessari fullyrðingu annað en gamla skoðanakönnun er gerð var fyrir Landvernd. Gerð á þeim tíma er enginn vissi í raun um hvað málið fjallaði. Haldið var uppi þeirri fullyrðingu að um einhverskonar vernd landsins væri að ræða, án frekari útskýringa. Og auðvitað vilja allir Íslendingar að landið okkar sé verndað. Núverandi hugmyndir um hálendisþjóðgarð, er ná mun um einn þriðja landsins, á þó ekkert skylt við landvernd, enda ekki séð hvernig verndun hálendisins getur orðið betri undir einhverri fjárvana stofnun í Reykjavík. Í dag er hálendið vel varið. Engar framkvæmdir er hægt að gera þar nema með leyfi margra stofnana og sveitarfélaga. Utanvegaakstur er bannaður sem og öll náttúruspjöll. Þó vanmönnuð lögregla eigi erfitt með að framfylgja þessum bönnum, er þó ekki neitt í frumvarpi ráðherra sem gerir ráð fyrir bótum á því.

 Sporin hræða.

Núverandi þjóðgarðar eru sveltir fé til sinna mála og sá stærsti þeirra, Vatnajökulsþjóðgarður er nær yfir um 14% landsins, er svo fjársveltur að uppsafnaðar skuldir hans nema hundruðum milljóna króna, þó verulega skorti á að uppbygging þar sé viðunandi og í sumum tilfellum í molum.

Miklar deilur hafa verið um aðgengi að sumum perlum þess þjóðgarðar og í nýju frumvarpi umhverfisráðherra er því svo fyrir komið að slíkar deilur muni aukast markfalt, ef stofnaður verður þjóðgarður um það sem eftir stendur af hálendinu. Allt vald til ákvarðanatöku um ferðir um hina og þessa vegi og slóða hins nýja þjóðgarðs verður sett til einhverra manna sem ekkert umboð hafa frá þjóðinni og þeir jafnvel geta fært það umboð til landvarða á hverjum stað. Fyrir séð er því algert öngþveiti á þessu sviði og jafnvel má búast við fjölda dómsmála gegn ríkin, vegna ákvarðana Péturs eða Páls í nafni hins nýja þjóðgarðar.

 Aðkoma þjóðarinnar.

Forseti Alþingis hélt því fram að um örlítinn grenjandi minnihluta væri að ræða, sem væri á móti því að taka einn þriðja hluta landsins undan eðlilegri stjórnsýslu og fela fámennum hópi fólks vald til stjórnunar þess, fólki sem ekkert umboð hefði frá kjósendum og jafnvel Alþingi sjálft mun ekki geta ráðið yfir. Sama málflutning hafa aðrir aðstandendur frumvarpsins haft uppi, þó enginn hafi verið jafn orðljótur og forseti Alþingis, a.m.k. ekki í ræðustól Alþingis. Ef þeir þingmenn sem þannig tala trúa eigin orðum, því þá ekki að setja málið í dóm þjóðarinnar? Það ætti að reynast þeim auðvelt. Eða eru þessir þingmenn vitandi um það að í slíkri kosningu yrði málið sennilega fellt?

 Hrossakaup?

Það kemur vissulega upp í huga manns hvort um einhver hrossakaup stjórnarflokkanna sé að ræða. VG fer nú hamförum í sínum pólitísku gælumálum og hendir þeim fram á færibandi, fyrir þing og þjóð. Hinir tveir stjórnarflokkarnir sitja hjá sem hýenur og bíða þess er að þeim kemur. Vissulega hafa sumir stjórnarþingmenn sett fram fyrirvara gegn stofnun hálendisþjóðgarðs og síðast nú í gær sem formaður Framsóknar ítrekaði sína fyrirvara. Enginn stjórnarþingmaður hefur þó sett sig gegn þessu frumvarpi, einungis um einhverja fyrirvara að ræða, sem vigta lítið í heildarmyndinni.  Það er því spurning, hvað fá Framsókn og Sjálfstæðisflokkur fyrir að hleypa VG liðum lausum þessa dagana? Þessi spurning er stór en brennur sennilega á vörum margra. Stendur eitthvað stórt til? Er verið að kaupa af VG sölu ríkiseigna? Bankarnir? Keflavíkurflugvöllur? Eða jafnvel gullegg þjóðarinnar, Landsvirkjun?

Allir landsmenn vilja að landið okkar og náttúra þess fái sem mest vernd, að ekki sé anað út í einhverja framkvæmd sem gerir landið fátækara og verra. Í dag höfum við komið málum þannig fyrir að þessi markmið eru höfð í hávegum. Rammaáætlun tryggir hvar er virkjað og hvar ekki. Landgræðsla og landbætur eru í höndum bænda og Landgræðslu Ríkisins, auk aðkomu sveitarfélaga. Þetta hefur reynst vel og landið okkar orðið grænna fyrir vikið. Engar framkvæmdir, svo sem vegir eða annað, eru heimilar nema í samráði sveitarfélaga og stjórnvalda og allar stærri slíkar aðgerðir þurfa ð fara í umhverfismat. Málin eru því nokkuð góð hjá okkur í vernd landsins, þó vissulega megi bæti í á einstaka stað. Það er ekkert í hugmyndum um þennan nýja þjóðgarð sem gerir betur. Hins vegar má leiða líkum að því að sumt muni fara á verri veg, svo sem samstaða Landgræðslunnar og bænda, svo dæmi sé tekið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Stjórnarfrumvarp, sem er að sjálfsögðu stutt af ríkisstjórninni, eins og til að mynda Borgarlínan, hefur einfaldlega verið lagt fram á Alþingi um þjóðgarð á miðhálendinu og fyrsta umræða hefur farið þar fram um frumvarpið. cool

Og þingmenn sem eru andvígir frumvarpinu geta að sjálfsögðu greitt atkvæði gegn því að frumvarpið verði samþykkt.

18.3.2014:

"Skoðanakönnun Capacent Gallup hefur sýnt fram á  víðtækan stuðning við stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands. cool

Um 56% aðspurðra voru því hlynnt, einungis 17,8% andvíg og 26,2% tóku ekki afstöðu.

Hugmyndin átti vísan stuðning meðal kjósenda allra stjórnmálaflokka, meðal allra aldurshópa og um allt land.cool

9.12.2020 (síðastliðinn miðvikudag):

"Tæp 63 prósent landsmanna sögðust styðja stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu í könnun árið 2018 og einungis tæp 10 prósent voru andvíg." cool

Vaxandi stuðningur við þjóðgarð á hálendinu undanfarinn áratug

Þorsteinn Briem, 15.12.2020 kl. 18:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband