Færsluflokkur: Umhverfismál

Grænni borg

Dagur B Eggertsson boðar grænni borg. Nokkuð undarlegur boðskapur af þeim sem leitar uppi hvern grænan blett í borginni, til að færa vinum sínum byggingarrétt á. Kallar þessa vinavæðingu sína þéttingu byggðar.

Einn er þó sá blettur innan borgarmarkanna sem virðist friðhelgur, en það er umhverfi lóðarinnar á horni Óðinsgötu og Spítalastígs. Þar væri auðveldlega hægt að koma fyrir þokkalegu hóteli eða jafnvel einhverri dýrindis íbúðablokk fyrir þá best settu og það án þess að þurfa að fella eitt einasta hús. En það er víst búið að tryggja að þarna verði ekki byggt, einn íbúinn á svæðinu búinn að festa sér lóðaréttinn umhverfis hús sitt, til að tryggja sér "speis" og gott bílastæði!

En aftur að grænu borginni hans Dags. Auðvitað má gera borgina fallega græna með því að mála alla steinkumbaldanna sem verið er að troða niður á milli og yfir eldri fallegri hús miðborgarinnar, græna. Það yrði ekki amalegt að aka niður Geirsgötuna með fjallhá hús, fagurgræn að lit, á báða bóga og síðan til baka eftir Tryggvagötunni með jafnvel enn hærri fagurgræna steypukassa á alla vegu. Miðborgin fengi sannarlega sérstak ásýnd og víst að ferðamenn myndu flykkjast í hópum til landsins, til að berja þetta undur augum!!


mbl.is Vill breytt stjórnkerfi og aðalskipulag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeirra ær og kýr

Það er borgarstjórnarmeirihlutans ær og kýr að láta aðra þrífa eftir sig skítinn, að kenna öðrum um það sem miður fer. Sóðaskapur þessa borgarstjórnarmeirihluta er þvílíkur að engu tali tekur.

Ekki er hugsað um að þrífa götur svo sómi sé af og þegar í óefni er komið er bíleigendum kennt um. Auðvitað verður til einhver sóðaskapur vegna bílnotkunar, svona eins og af flestum mannanna verkum. Það er hins vegar hvernig sveitarstjórn stendur að þrifum þess sóðaskaps sem skilur á milli sóðanna og hinna sem snyrtilegri eru.

Þegar skólpkerfi borgarinnar bilar er ekki einungis reynt að þegja slíka bilun í hel, meðan skólpið fyllir fjörur borgarinnar, heldur er reynt að koma sökinni yfir á aðra, að venju. Ekki er sóðaskapurinn þar þrifinn upp, frekar en götur sópaðar. Þegar svo borgarbúi kvartar ætlast stjórn borgarinnar til að íbúar þrífi upp skítinn! Aldeilis hreint ótrúlegt!!

Þar sem megnið af því rusli sem er í fjörum borgarlandsins er notaður klósettpappír, mætti Eiríkur Hjálmarsson gjarnan svar því hvort hann ætlist til að klósettpappírinn sé settur í ruslatunnurnar, eftir notkun!

Svo ætla borgarbúar að kjósa þessa endemis sóða yfir sig í fjögur ár til viðbótar!!

 


mbl.is Vesturbæingum boðið í skólphreinsun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jakkalakkar

Jakkalakkar með leðurgljáandi stresstöskur eru nú vaknaðir til lífsins, enda stórir hlutir að gerast.

Það er auðvitað með ólíkindum að hér á landi skuli vera slitið milli framleiðslu og sölu orkunnar, að búinn sé til milliliður sem gerir ekkert annað en að hækka verð orkunnar til landsmanna. Enn ótrúlegra er að hver sem er geti gengið á þennan markað, stofnað fyrirtæki til sölu orku og grætt á því peninga. En þetta var okkur fært með einni tilskipun frá ESB, sem kjarklausir aumingjar Alþingis samþykktu. Og allt er þetta gert í nafni frelsis, frelsis til að græða!

Þessi tilskipun getur átt rétt á sér á stórum raforkumarkaði, þar sem samkeppni ríkir, en hér á landi, dreifbýlu landi 340.000 íbúa, er þetta næsta hjákátlegt.

En nú eru bjartir tímar framundan, hjá jakkalökkunum. Á næstu dögum mun Alþingi, enn jafn illa mannað og áður, ef ekki verr, samþykkja enn eina tilskipunina frá Brussel, tilskipun sem mun opna jakalökkunum nýja leið til að græða. Tilskipun sem mun stækka raforkumarkaðinn hér á landi úr 340.000 notendum upp í 500.000.000 notendur. Þá er gott að eiga sölufyrirtæki með rafmagn frá Íslandi!

Það dettur engum heilvita manni að stofna sölufyrirtæki um rafmagn á Íslandi, þessum litla markaði sem nánast útilokað er að komast inná og algerlega útilokað að geti boðið orkuna á lægra verði. Þessir menn eru ekki að stofna einhver góðgerðasamtök, einungis að hugsa að eigin hag, eins og viðskiptamenn ætið gera. Þeir veðja á aumingjaskap og kjarkleysi íslenskra stjórnmálamanna, enda sterkar líkur á vinningi þar.

Á nýliðnum landsfundum tveggja stjórnarflokka var samþykkt að Ísland gæfi ekki eftir yfirráð yfir orkuauðlindum okkar til ESB. Í því felst að samþykkja ekki þriðja hluta orkumálabálks ESB. Það var ekki liðin nóttin frá landsfundi Sjálfstæðisflokks, þegar menn í æðri stöðum innan flokksins fóru að túlka þessa samþykkt á allt annan hátt en hún raunverulega var og síðan hafa menn innan dyra Valhallar leitað logandi ljósi að undankomuleið frá þessari samþykkt.

Formaður flokksins lét hafa eftir sér, við fréttastofu ruv, að tilskipunin hefði engin áhrif hér á landi, ekki fyrr en að og ef við legðum sæstreng til meginlandsins. Þvílík fyrra!!

Staðreyndin er einföld. Ef alþingi samþykkir tilskipun um þriðja orkumálabálk ESB, tekur hún strax gildi. Þar eru engar undanþágur. Þessari tilskipun fylgir að ný stofnun ESB, ACER, með staðsetningu í Slóveníu, mun yfirtaka alla stjórnun raforkumála í löndum ESB. Einnig mun ACER taka yfir alla stjórnun orkumála í löndum EES ef öll lönd þess samþykkja tilskipunina. Þessi yfirtaka verður strax og tilskipunin hefur verið samþykkt. Noregur er þegar búinn að samþykkja hana og víst að Lictenstein mun einnig gera slíkt hið sama. Við stöndum því ein eftir.

ACER mun því, strax að lokinni samþykkt tilskipunarinnar, taka yfir orkumál okkar Íslendinga og eftir það mun Alþingi ekkert hafa að segja, né við landsmenn. Ofarlega á forgangslista ACER er lagning sæstrengs milli Íslands og Bretlands. Gera má ráð fyrir að innan árs frá samþykkt tilskipunarinnar muni framkvæmdir við strenginn vera hafnar. Ef upp kemur deila um kostnaðarskiptingu lagningar þessa strengs, mun ACER úrskurða um hversu mörg hundruð milljörðum okkur ber að greiða. Alþingi og við landsmenn munum ekkert geta við því gert!

Þetta þýðir að orkuverð hér á landi mun hækka svo að tala má um hamfarir. Fyrirtæki sem byggja á notkun raforku munu leggjast af, með tilheyrandi atvinnuleysi. Önnur gætu hugsanlega skipt yfir í olíu.

Sú orka sem ætlað er að flytja gegnum strenginn er næsta lítil á evrópskan mælikvarða, þó stór sé á íslenskan, enda þar verið að tala um orku sem svarar meira en þeirri orku sem Kárahnjúkavirkjun framleiðir. Og víst er að vilji ACER er til að flytja enn meiri orku úr landi, að leggja annan streng, þann þriðja og jafnvel fjórða! Til að fæða þá alla þarf auðvitað að virkja og þá munu umhverfissjónarmið lítils metin. Enda mun það verða á valdi ACER að ákveða hvar virkjað er, ekki Alþingis. Jafnvel helgi Gullfoss gæti orðið rofin!!

Það er því von að jakkalakkarnir rumski, enda óendanlega miklir fjármunir í boði, bara ef maður er nógu fljótur að grípa þá. Leðurglansandi stresstöskurnar munu bólgna, aftur og aftur, endalaust!!


mbl.is Hrista upp í samkeppni á orkumarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins frétt um ACER

Loksins sér maður frétt um ACER, afurð þriðja hluta orkusáttmála ESB.

Að vísu er þessi frétt bæði stutt og snubbótt, auk þess að fjalla um stöðu þess í Noregi. Þar í landi eru flestir á móti þessari tilskipun, enda fólk upplýst um efni hennar. Fjölmiðlar og stjórnmálamenn hafa verið duglegir að fjalla opinberlega um þessa tilskipun og áhrif hennar á norskt þjóðlíf. Af þeim sökum álykta flest samtök þar í landi gegn tilskipuninni, auk þess sem allir stjórnmálaflokkar utan einn, hafa tekið afstöðu gegn henni.

Hér á landi þegja menn þunnu hljóði. Stjórnmálamenn forðast í lengstu lög að nefna þetta og fréttamiðlar nenna ekki að taka málið upp, nú eða þekkja það ekki.

Þetta er fyrsta fréttin sem ég sé um tilskipun ESB um þriðja hluta orkusáttmála ESB. Verið getur að einhver fjölmiðill hafi á einhverjum tímapunkti flutt frétt af þessu máli og það farið framhjá mér.

Þó er þessi frétt mbl frekar snubbótt og einungis í einni setningu sagt frá að þessi tilskipun muni verða nauðgað upp á okkur Íslendinga. Ekkert er farið í hvað þessi tilskipun þíðir, ekkert sagt frá því valdi sem ACER stofnunin, sem staðsett verður í Slóveníu, mun fá.

Þessar upplýsingar liggja þó fyrir, grunnurinn að þeim kemur fram í Lissabon sáttmálanum, sem tók gildi innan ESB þann 1. des 2010 og síðan ítarlegri útfærsla í tilskipuninni sjálfri. Þess skal getið að íslenska sendinefndin, sem fór utan á sínum tíma að semja um þessa tilskipun, var með skýr fyrirmæli um að ganga svo frá að Ísland yrði utan þriðja hluta orkusáttmála ESB. Á hana var ekki hlustað og því liggur fyrir Alþingi að samþykkja þessa tilskipun, nú á þessu þingi. Á allra næstu dögum!!

Mogginn var fyrstur til að fjalla um þetta mál, að vísu út frá norskum fréttum og undir dálki erlendra frétta. Ég skora á fréttamenn þess miðils og reyndar allra fréttamiðla hér á landi, að fræða þjóðina enn frekar um þetta mál. Upplýsingarnar liggja fyrir, þarf einungis að lesa þær og segja skilmerkilega frá innihaldinu. Segja frá þeim völdum sem ACER mun fá, segja frá hvernig orkuverð verði ákveðið hér á landi, segja frá hver muni taka ákvarðanir um hvar og hvenær skuli virkjað hér á landi, segja frá hver ákveður hvert sú orka verði leidd, segja frá hver muni taka ákvörðun um sæstreng og greiðslu fyrir byggingu og rekstur hans. Allt mun þetta verða ákveðið í Slóveníu án aðkomu okkar Íslendinga. Umhverfisvernd mun þar mega sín lítils. Við munum einungis verða að gera það sem okkur er sagt!!

Þá skora ég á stjórnmálaelítuna að opna opinbera umræðu um þetta mál. Það er ekki seinna vænna þar sem Alþingi þarf að taka ákvörðun um þessa tilskipun á allra næstu dögum.

Það er ljóst að þessi tilskipun er stærri en svo að hana megi samþykkja. Verið getur að Ísland muni fá á sig dóm EFTA dómstólinn fyrir að gera það ekki, en á því verður þá bara að taka. Ef niðurstaða verður sú að við þurfum að segja upp EES samningnum, til að komast hjá slíkum dóm, verður svo að vera.

Þeir einir geta mælt með þessari tilskipun sem á einhvern hátt geta hagnast á henni, auk auðvitað þeir sem stunda þau trúarbrögð að tilbiðja ESB. 

Einn er sá bloggari hér á moggablogginu sem hefur ritað margar greinar um þriðja hluta orkusáttmála ESB og afurð hans ACER, bæði á bloggsíðu sinni sem og í einstaka fjölmiðla, reyndar kannski of lítið á þeim vettvangi en það stendur vonandi til bóta. Hann hefur kynnt sér málið rækilega og ritar um það út frá þekkingu, en það er Bjarni Jónsson, rafmagnsverkfræðingur. Hvet alla til að lesa skrif hans. 


mbl.is Mótmæla orkumálatilskipun ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í fréttum er þetta helst:

Fullnæging læknar þig,   fimm fæðutegundir sem gera þig fallegri,   stellingin lýsir sambandinu,   karamellur sem bráðna í munni,   lifðu á skyndibita og 300 áfengum drykkjum á viku,   geggjaðar beyglur með kanil og hlynsýrópi,   kartöflur við baugum .......

Þetta er ekki neitt grín, heldur helstu fréttir dagsins á pressan.is. Stærstu fréttir þessa miðils, síðustu daga, eru þó alveg örugglega; glímir hundurinn þinn við kvíða og píkuhárkollur eru heitasta trendið í dag! Þetta eru auðvitað þvílíkar stórfréttir sem bráðnauðsynlegt er að hvert mannsbarn á Íslandi fá að vita! Merkilegt að Píratar eða Samfylking skuli ekki vera búnir að taka þessi mál upp á Alþingi!!

Aðrir fréttamiðlar eru lítt skárri. Þar ríður smámennskan húsum sem aldrei fyrr. Flesta daga dregur fréttastofa ruv aðra fréttamiðla á eftir sér í galdrabrennuleit. Nú um helgina var smá hlé gert á brennufréttir, meðan allir þessir fréttamiðlar voru uppfullir af landsfundi þriggja þingmanna stjórnmálaflokks og jafnvel mogganum þótti stórfrétt að formaður þess flokks skildi ná kosningu um áframhaldandi formennsku. Hann var að vísu einn í framboði en fékk þó öll greidd atkvæði! Ekki kom fram hversu margir greiddu atkvæði, hvort það voru 2, 4 eða kannski eitthvað fleiri.

Svo rammt kvað að fréttaflutningi frá landsfundi þessa örflokks, að um tíma hélt maður að fjölmiðlar myndu ekki hafa pláss fyrir skrautsýningu ruv, í boði kjósenda, að kvöldi laugardags. Sú von brást reyndar.

ACER

Enginn, ekki einn einasti fjölmiðill fjallar þó um eitthvað stærsta mál sem fyrir þjóðinni liggur, þessa dagana, ACER. Þarna er verið að tala um fullgildingu tilskipunar ESB um þriðja hluta raforkusáttmála sambandsins. Það liggur fyrir Alþingi að taka afstöðu til þeirrar tilskipunar, nú á vordögum. Engin umræða hefur farið fram um óskapnaðinn, enginn fréttamiðill fjallar um hann og stjórnmálamenn eru þögulir sem gröfin, þ.e. ef þeir hafa þá einhverja hugmynd um hvað málið snýst!

Kotmennskan og undirlægjuháttur íslenskra fréttamanna er þvílíkur að þeim er fyrirmunað að fjalla um alvöru málefni. Eru fastir í smámennskunni og því að rembast við að koma höggi á einstaklinga, bæði hér heima sem og erlendis, auk þess að fræða fólk um helstu tískufyrirbæri eins og píkuhárkollur. Á meðan er þögnin um stóru málin ærandi! Og ekki eru þingmenn skárri. Þar er kjarkleysið algjört, láta teyma sig á asnaeyrum af kotpennum fjölmiðla!!

Þann 1. mars kom hingað til lands Norskur stjórnmálamaður, Katherine Kleveland, formaður "Nei til EU" þar í landi. Hún hélt erindi á fundi Heimsýnar, þá um kvöldið. Enginn fjölmiðill hefur enn fjallað um það erindi hennar, en m.a. kom hún þar inn á ACER og hvernig umræðan um það mál, ásamt EES samningnum almennt, er háttað í okkar forna fósturlandi. Þar eystra er vitund almennings almennt nokkuð góð um ACER og afleiðingar þess samnings fyrir Norðmenn, enda bæði fjölmiðlar og stjórnmálamenn þar nokkuð stærri en kollegar þeirra hér á landi. Því hefur umræðan um þetta mál verið opin og upplýsandi, meðal Norðmanna. Auðvitað er þröngur hópur kratískra afla þar í landi sem öfunda íslenska stjórnmálamenn fyrir hversu vel þeim tekst að halda þekkingu um þetta mál frá Íslendingum.

Á haustdögum var gerð könnun meðal Norðmanna um afstöðu til ACER og sögðust 70% þeirra sem afstöðu tóku, vera andvígir aðild Noregs að samþykkt þriðja hluta raforkusáttmála ESB, ACER. Þetta sýnir að þekking Norðmanna á málinu er nokkur, meðan einungis örfáar sálir hér á landi vita um hvað málið snýst.

Í stuttu máli snýst þriðju hluti raforkusáttmála ESB um að stofnað verði svokölluð Orkustofnun ESB, ACER. Þessi stofnun mun hafa aðsetur í Slóveníu og mun fá öll völd um orkumál innan ESB og þeirra ríkja EFTA innan EES sem samþykkja tilskipunina. Reyndar er ekki annað í boði af hálfu ESB en að samþykkja og gæti því farið svo að segja þurfi upp EES samningnum, beint eða eftir dóm EFTA dómstólsins, til að losna frá þessari tilskipun.

Eins og áður segir, þá mun ACER fá full yfirráð yfir allri orku innan þeirra ríkja sem að stofnuninni standa, hvað skuli virkjað, hvert sú orka skuli fara, hvernig tengingar skuli verða milli landa (sæstrengur), hvernig kostnaði við dreifikerfið muni skiptast og síðast en ekki síst, hvert orkuverð skuli vera í hverju landi fyrir sig. Reyndar er þegar til leiðbeinandi reglur ESB um það síðastnefnda er segja til um hámarks verðmun frá hæsta orkuverði innan sambandsins. Hvert ríki mun hins vegar áfram eiga orkuverin sín, en engu ráða hvernig þau verða rekin. Náttúruvernd mun eiga sín lítils og ef ACER dettur í hug að láta okkur Íslendinga virkja Gullfoss, mun Alþingi eða þjóðin ekkert hafa um það að segja.

Það er ljóst að orkuverð hér á landi mun hækka verulega. Mun sú hækkun liggja á bilinu frá tíföldun upp í sextíuföldun!!  Mun fara eftir því hversu miklum kostnaði við sæstreng og rekstur hans verði lagt á þjóðina, auk kostnaðar við tengingar hér innanlands við þann streng. Hugsanlega gætu orkufyrirtækin hagnast eitthvað á þessari breytingu. Þann hagnað má þó ekki nýta til niðurgreiðslu orkuverðs hér heima, við því er strangt bann. Þann hagnað skal nota til frekari uppbyggingar orkuvera og tenginga við aðra markaði. Mun þá verða stutt í streng nr2, 3, 4 .....

Það er ljóst að hér er um eitthvað allra stærsta mál sem þjóðin hefur staðið frammi fyrir, sennilega frá stofnun lýðveldisins. Þeir einir sem mælt geta því bót eru þeir sem á einhvern hátt geta hagnast persónulega á ósköpunum, auk auðvitað þeirra sem teljast til sértrúarsafnaðar ESB aðildar. Fyrir þá er ekkert of gott fyrir ESB!

Fari illa mun landið okkar verða óbyggjanlegt innan fárra áratuga. Það væri hugguleg gjöf frá okkur sem nú njótum kosta okkar fagra og gjöfula lands, til afkomenda okkar, á sjálfu eitthundrað ára afmæli fullveldisins!!

 

 


mbl.is Forgangsmál að bæta velferð almennings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öllu snúið á haus hjá BF

Á fundi BF er því haldið fram að þörfin fyrir öflugri byggðalínu og samtengingu allra landshluta við hana sé stóriðjunni að kenna. Þvílík endemis þvæla!

Staðreyndin er sú að vegna stóriðjunnar er landið nú allt rafvætt. Við sem þjóð hefðum aldrei getað farið út í þær framkvæmdir sem þurftu til þess, hvorki virkjanaframkvæmdir né uppbyggingu flutningskerfisins, nema með samningum við stóriðjuna á sínum tíma. Það var forsenda þess að við gátum tekið lán til framkvæmdanna og það var stóriðjan sem greiddi þau lán niður. Þetta vita auðvitað allir íslendingar sem voru komnir af bleyju um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar. Hins vegar má kannski segja að þeim börnum sem hafa vaxið úr grasi síðan til afsökunar, að sagan er ekki kennd í skólum landsins.

Rafvæðing landsins hófst af krafti strax í byrjun áttunda áratugar og lagningu byggðalínu lokið undir lok þess áratugar, eða fyrir rúmum þrem og hálfum áratug. Í framhaldinu var síðan hafist handa við tengingu allra byggðarkjarna og sveitarbæi við sjálfa orkukerfið.

Með nýrri tækni og ekki síst vegna aukinnar kröfu um rafvæðingu alls þess sem hægt er að rafvæða, en er keyrt á innfluttu eldsneyti, eykst orkunotkun landsmanna. Því er byggðalínan orðin yfirlestuð og getur ekki svarað köllum markaðarins. Er orðin barn síns tíma. Þetta og sú staðreynd að aldur línunnar er farinn að halla vel á fjórða áratuginn veldur því að byggja þarf nýja og öflugri byggðalínu. Það kemur stóriðjunni ekkert við, en hins vegar skiptir þetta sköpum um framþróun byggðar í landinu og að hægt sé að útrýma olíukynntum bræðslustöðvum.

Þá er fullyrt á þessum fundi að rafmagnstruflanir á kerfinu séu stóriðjunni að kenna og því nauðsynlegt að samtengja landið. Fyrir það fyrsta þá verður raforkukerfið alltaf lokað, hvort sem það er hringtengt eða ekki. Alltaf sama orka sem liggur í því. Því mun samtenging landshluta litlu breyta varðandi orkuhögg frá stóriðjunni. Í öðru lagi er þegar búið að vinna gegn þessum sveiflum sem stóriðjan hafði á kerfið, með uppsetningu vara í spennuvirkjum sem fóðra hana. Við minnstu sveiflu rofnar samband stóriðjuvera við kerfið og högginu þannig haldið utan kerfis. Þessari vinnu lauk fyrir nærri áratug og því sveiflur frá stóriðjunni ekki lengur vandi flutningskerfisins.

Hins vegar eru vissulega truflanir á orkukerfi okkar, einkum á Vestfjörðum og Austfjöðrum, jaðarsvæðum byggðalínunnar. Þær truflanir skapast einkum af veðurfari og þeirri staðreynd að flutningskerfið er orðið gamalt og úr sér gengið. Þetta þarf að sjálfsögðu að laga og það ekki seinna en strax.

Það er því engum blöðum um það að fletta að uppbygging raforkukerfisins er bráð nauðsynleg. Jafn nauðsynlegt er að mynda eins margar hringtengingar þess og hægt er, þannig að ef eitthvað bilar á einum stað sé hægt að halda uppi fullri þjónustu við landsmenn. Ef byggja á upp hér þjóðfélag án innflutnings á eldsneyti, er þetta frum forsenda. Um þetta deilir enginn, hins vegar deila menn um hvaða leiðir skuli farið að því markmiði að tryggja raforku um allt land, bæði landfræðilega og fjármagnslega.

Það er í sjálfu sér sjónarmið að segja að stóriðjan eigi að koma að því verki, en þá eiga menn bara að halda sig við það sjónarmið. Ekki skreyta það einhverjum tættum fjöðrum! Ekki halda uppi málflutningi sem ekki stenst skoðun smábarns!

 


mbl.is Stóriðjan beri kostnaðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að sparka í liggjandi mann

Í tilefni þeirrar umræðu sem verið hefur um vanda bænda, ritar Margrét Jónsdóttir pistil í Fréttablaðið, þann 31. ágúst, síðastliðinn. Ekki kemur hún með neinar hugmyndir um lausn vandans, vill einfaldlega að bændur taki hann á sig og rúmlega það. Hún vill að beingreiðslum til bænda verði hætt að fulli. Ástæða þessa er að hennar trú er að sauðféð sé að éta upp landið okkar. Auðvitað má Margrét hafa sína trú og auðvitað má hún tjá sig um hana. En að koma með slík skrif núna, þegar bændur standa í ströngu við að leita sér leiða til að lifa af næsta ár, samhliða smalamennskum og réttum og því lítill tími til að svara trúboði Margrétar, er einna helst hægt að líkja við spörkum í liggjandi mann.

Allir vita að trúarbrögð ræna fólk of réttu ráði og ekki dettur mér til hugar að ég geti snúið Margréti og þeim sem henni eru samsinna, til rétts vegar. Nokkur atriði vil ég þó nefna, sem afsanna þessa trú.

 

Veðurfar

Við landnám var hlýrra hér á landi en nú og hafði verið svo um einhverjar aldir á undan. Upp úr 1200 fór að kólna og hélt svo áfram allt fram á tuttugustu öldina. Kaldast var frá sextándu öld og fram undir 1920. Það tímabil gjarnan nefnt litla ísöld. Frá lokum litlu ísaldar til dagsins í dag, hefur hlýnað. Það er ekki liðin ein öld síðan kuldinn hér á landi var svo mikill að hægt var að ganga milli Akraness og Reykjavíkur á ís!

Klárt mál er að meiri gróður var á landinu við landnám, enda við lok hlýtímabils á jörðinni, þó vísindamenn efist um að skógur hafi þakið landið milli fjalls og fjöru. Loftslag hefur mikil áhrif á gróður og því ekki undarlegt að honum hafi hrakað verulega á þeim öldum sem litla ísöld stóð yfir. Nú hefur gróður aukist aftur, samhliða hlýnandi loftslagi. Sem dæmi hefur sjálfsprottinn gróðurþekja, sem telst vera mikil þekja, aukist um 30% frá árinu 2002, á Skeiðarársandi.

Veðurfar er stór áhrifavaldur gróðurfars.

 

Eldgos

Frá landnámi hafa orðið 174 skráð eldgos á Íslandi. Sum stór önnur minni. Mörg þessara gosa hafa valdið miklum skaða á búpeningi og jafnvel fólki. Þar hafa Katla og Hekla verið duglegastar.

Tvö eldgos bera þó af í Íslandssögunni. Það fyrra varð árið 1362, í Hnappafellsjökli og lagði heila sveit í eyði, Litla Hérað. Þessi sveit var blómleg fyrir gos, fjölmenn og fjölbreyttur búskapur. Bar þó hæst mikil kornrækt í þessari blómlegu sveit, enda grasgefin milli fjalls og fjöru. Stór hluti búpenings drapst og fjöldi fólks fórst, í þessu eldgosi.

Þegar þeir sem eftir lifðu sneru til baka, til að byggja bú sín aftur, blasti við þeim auðn, öræfi. Sveitin hefur síðan borið nafnið Öræfasveit og eldfjallið sem eyðileggingunni olli, nafnið Öræfajökull.

Árin 1783-84 geisuðu Skaftáreldar. Þá sögu ættu allir Íslendingar að þekkja. Er þeim lauk, hafði 70% af búpening í landinu fallið og um 20% þjóðarinnar látist. Stór sá á gróðurfari um mest allt land og næst eldunum var hann ekki til

Eldgos er annar áhrifavaldur gróðurfars og saman með kólnandi veðurfari átti gróður hér á landi erfitt uppgangs.

 

Mannfjöldi, bústofn

Byggð var nokkuð fljót að komast á um allt land, efir landnám. Talið að fjöldi landsmanna hafi fljótlega náð einhverjum þúsundum. Lengi framanaf er talið að fjöldinn hafi legið á milli 10 og 20 þúsund manns, sveiflast eftir árferði og hvernig eldar loguðu.

Landnámsmenn fluttu með sér til landsins ær, nautgripi, hross, geitur, svín og hænsni. Nautgripir voru uppistaðan í kjötframleiðslunni, ásamt svínum, en ær voru lítið nýttar til þess, fyrst um sinn. Sauðfjárstofninn var lítill. Þegar tók að kólna varð svínabúskapur nánast útilokaður. Nautgripabúskapur varð erfiðari, en auðveldara var að halda sauðfé. Því jókst hlutur þess í kjötframleiðslu og nautgripir fyrst og fremst nýttir til framleiðslu mjólkur og mjólkurafurða. Talið er að frá Sturlungaöld fram að 19. öld, hafi sauðfé í landinu verið nálægt 50.000 fjár, sveiflast í hlutfalli við fólksfjölda.

Þegar líða tók á 19. öldina fjölgaði fólki og samhliða því búpeningi, þó ekki í sama hlutfalli. Undir lok 19. aldar og fyrstu tvo áratugi þeirrar tuttugustu, voru miklir kuldar, eldgos og fjárfellir. Þetta er talin vera helsta ástæða vesturfaranna. Þá var mannfjöldi í landinu kominn upp í 70.000 og talið að a.m.k. 15 til 20.000 manns hafi flutt búferlum vestur um haf.

Frá 1920 til dagsins í dag, hefur landsmönnum fjölgað mjög hratt, Samhliða því fjölgaði sauðfé í landinu, þó hægar og undir lok áttunda áratugarins náði fjöldi sauðfjár hámarki, um 800.000 fjár. Síðan hefur fé fækkað um rúmlega 40%.

Þegar skoðað er hvernig fjöldi fjár á Íslandi skiptist milli landshluta, kemur í ljós að flest fé er á vestan verðu norðurlandi, en fæst á eystri hluta norðurlands. Kannski finnst einhverjum þetta undarlegt, þar sem gróðurfar finnst vart betra í nokkrum landshluta en vestanverðu norðurlandi og að landfok er vart hægt hægt að finna meira á landinu en einmitt eystri hluta norðurlands. Rétt er að benda á að vestari hluti norðurlands hefur sloppið best gegnum þau 174 eldgos sem orðið hafa frá landnámi og því nær eingöngu þurft að berjast við kuldann á litlu ísöld, meðan eystri hluti norðurlands hefur þurft að glíma við báða þessa vágesti, gegnum aldirnar.

Mikið átak hefur verið unnið í landgræðslu. Þar eiga bændur stærstan heiðurinn, enda verið erfitt að sækja fé í ríkissjóðs til slíkra verka, gegnum tíðina. Það sem ríkið hefur lagt fram er fyrst og fremst stjórnun og utanumhald landgræðslu. Verkin og hráefni hafa bændur að mestu lagt fram og oftast í sjálfboðavinnu og fyrir eigin reikning

Það er ljóst að sauðfé á minnstan þátt í gróðureyðingu, enda fátt fé í landinu allt fram undir síðustu öld. Náttúruöflin spila þar stærstan sess. Auðvitað má einnig segja að koma mannskepnunnar til landsins spili þar eitthvað inní, sér í lagi fyrstu ár byggðar. Sjálfsagt hafa landnámsmenn sótt sér sprek í eldinn og unnið eitthvað timbur. 

Þó er erfitt að fullyrða að gróðurþekja landsins væri meiri, þó landið hefði aldrei byggst.


Það étur enginn sömu kökusneiðina tvisvar

 Aflátsbréfin svokölluðu, þ.e. sala á upprunaábyrgð framleiðslu orku, voru fundin upp af kontóristum ESB, suður í Brussel. Væntanlega strangtrúuðum kaþólikkum. Um aldir hafa slík aflátsbréf verið vinsæl hjá kaþólsku kirkjunni, þar sem syndarar hafa getað greitt sig frá syndum sínum.

Hvað um það, þessi viðskipti eiga sér stað og íslensk orkufyrirtæki hafa verið dugleg við að stunda þau. Héðan eru seldar upprunaábyrgðir fyrir framleiðslu á hreinni orku til kolaorkuvera á meginlandi Evrópu. Þau fyrirtæki skreyta sig síðan með þeim fjöðrum og selja sitt kolarafmagn sem hreina orku. Íslensku orkufyrirtækin taka á sig skítinn fyrir þau.

Vissulega geta íslensku orkufyrirtækin haldið því fram með sanni að þau framleiði einungis hreina orku, en þegar kemur að sölu til neytenda, er þessi orka langt frá því að vera hrein. Hreinleikinn var seldur úr landi, það étur enginn sömu kökusneiðina tvisvar.

Svona til upplýsinga þá seldu íslensku orkufyrirtækin aflátsbréf fyrir um 11% af sinni framleiðslu árið 2011, við neytendur fengum orku sem var framleidd 5% með kjarnorku og 6% með jarðefnaeldsneyti.

Árið 2015 var hluti aflátsbréfanna orðinn 79% af framleiðslu íslensku orkufyrirtækjanna, 20% fóru til kjarnorku og 59% til jarðefnaeldsneytis. Einungis 21% þeirrar orku sem íslenskir orkuframleiðendur framleiða telst vera endurnýjanleg orka!!

Smá viðbót:

Vegna þessara viðskipta sitjum við Íslendingar uppi með 154 kíló af geislavirkum úrgangi og höfum dælt 289.641 tonni af kóldioxídi út í andrúmsloftið. Þetta skrifast alfarið á Ísland.

Hreinleikinn var seldur úr landi!! 


mbl.is Rafmagnið 100% endurnýjanleg orka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinn falski nagladekkjasöngur

Enn á ný kyrja stjórnendur Reykjavíkurborgar sama sönginn og enn er hann jafn falskur. Það er ekki bara ógjörningur að banna nagladekk innan borgarmarkanna, heldur halda rök þeirra sem það vilja alls ekki.

Fyrir það fyrsta eiga nagladekk undir fólksbílum og venjulegum jeppum lítinn þátt í eyðingu malbiks á götum borgarinnar. Þeir orsakavaldar eru fyrst og fremst lélegt hráefni sem notað er í malbikið, gengdarlaus saltaustur á það og svo auðvitað veðurfarið hér á land, þar sem umhleypingar yfir vetrartímann eru tíðir.

Svifmengun er vissulega mikil af götum borgarinnar, á stundum, en orsök hennar er ekki eyðingin sem á sér stað á malbikinu, heldur þeirri einföldu staðreynd að borgin tímir ekki að sópa göturnar. Sóðaskapurinn í Reykjavík er að verða heimsþekktur!

Og hvernig hafa svo þessir sjálfhverfu menn, sem allt þykjast vita og hafa með stjórn borgarinnar að gera, að fara að því að framkvæma bann við nagladekkjum innan borgarmarkanna? Ætla þeir að setja upp varðhlið við alla innganga að borginni og banna þeim sem eru með slíkan nauðsynlegan öryggisbúnað undir bílum sínum inngöngu í höfuðborg landsins?!

Það slær ekkert undan í fávitaskap þessarar manna sem stjórna höfuðborg Íslands. Jafn skjótt og rykið sest af einni fáviskunni dúkkar sú næsta upp. Enginn endir virðist vera á þessum fíflalátum!!


mbl.is Sífellt fleiri nota nagladekk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hef aldrei skilið þessa pólitík

Hin síðari ár hefur mikið verið rætt um "endurheimt votlendis" sem töfralausn gegn losun gróðurhúsalofttegunda. Þó liggja litlar sem engar rannsóknir sem staðfesta þennan þátt. Þær rannsóknir sem til eru, vísa til mjög takmarkaðs sviðs þessa máls, þ.e. að við þurrkun á blautu landi byrji jarðvegur að rotna með tilheyrandi losun gróðurhúsalofttegunda.

Ekkert er spáð í hvað kemur í staðinn, svo sem minni losun á metangasi, sem er mjög mikil í blautum mýrum. Það er ekkert rannsakað hvað gróðurbreytingar gera til bindingar á gróðurhúsaloftegundum, en á þurru landi er gróður margfalt ríkari en á blautu landi.

Þá hefur ekkert verið rannsakað hvað þessi rotnun jarðvegs tekur langan tíma og hvenær jarðvegur hættir að losa gróðurhústegundir í andrúmsloftið. Framræsla hér á landi hófst ekki að ráði fyrr en á sjötta áratug síðustu aldar og var að mestu lokið undir lok þess áttunda. Eftir það hefur framræsla verið mjög lítil. Einungis verið framræst land til ræktunnar, með mjög markvissum og ábyrgum hætti. Það er því liðnir þrír og hálfur áratugur frá því framræslu lauk að mestu, hér á landi.

Því gæti allt eins farið svo að með svokallaðri "endurheimt votlendis" muni gróðurhúsaloftegundir aukast verulega. Að jarðvegur hafi jafnað sig eftir að land var ræst fram og lítil eða engin mengun komi frá því núna og í staðinn verði landið bleytt upp með tilheyrandi myndun metangass og minnkun grænblöðunga í umhverfinu.

Er ekki rétt að byrja á rannsóknum, mæla hver raunveruleg loftmengun er af þurrkuðu landi, hvort hún stöðvist á einhverjum árafjölda. Rannsaka hversu mikið mótvægi minnkun metangass er við þá mengun og að síðustu hvaða áhrif gróðurbreytingar hafa á þessa þætti.

Meiningin hlýtur að vera að stuðla að minni mengun, ekki meiri. Til að svo megi verða er lágmark að fólk viti hvað það er að tala um. Upphrópanir og sleggjudómar duga lítt til bjargar.


mbl.is Vantar vísindin við endurheimt mýra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband