Skal engan undra

Það ætti enginn að vera undrandi yfir því þó mengunarský myndist yfir Reykjavík á lygnum dögum. Þetta er auðvitað mannanna verk, ekki þó þeirra sem voga sér að aka um á einkabílnum, heldur hinna, sem hafa staðið gegn allri eðlilegri framþróun á gatnakerfi borgarinnar í samræmi við þarfir.

Umferðarmannvirki, viðhald þeirra og viðbætur, eru eitthvað sem vinstrimenn skilja ekki, ekki frekar en meðhöndlun peninga, eins og fréttir síðustu daga bera skýrt merki. Því hafa þessi mál verið til vansa um nokkuð langt skeið í borginni og mengun því orðin meiri en ella hefði þurft.

Það er auðvitað alveg sjálfsagt að efla almenningssamgöngur, en það má þó ekki bitna á eðlilegu viðhaldi og endurnýjun gatnakerfisins. Tilraun til eflingar almenningssamgangna hefur nú staðið yfir í um einn áratug, með miklum fjármunum úr ríkissjóð. Samhliða því hefur viðhald gatna verið í algjöru lágmarki og í stað eflingar gatnakerfisins hefur verið markvisst skert af því, götur þrengdar, tvístefnugötum breytt í einstefnur og götum heilu hverfanna verið lokað.

Þrátt fyrir þetta, þrátt fyrir að ráðist hafi verið gegn einkabílnum á báða vegu, með auknum fjárútlánum til almenningssamgangna samhliða því að gera notkun hans fólki enn erfiðari, hefur þetta átak engu skilað, enn er sama hlutfall borgarbúa sem ferðast með almenningssamgöngum og við upphaf átaksins. Því vilja borgaryfirvöld ganga enn lengra, fá martgfallt meira úr sjóðum landsmanna og sjálfsagt skerða gatnakerfið enn frekar. Það mun ekki skila sér í hlutfallslegri aukningu þeirra sem ferðast með almenningssamgöngum en alveg örugglega mun mengun margfaldast!

Greiðfærara gatnakerfi, regluleg þrif á því og svo almenn snyrtimennska af hálfu yfirvalda í umhverfi þess, er leiðin til að minnka mengun. Rafbílar eru vissulega framtíðin, en það er nokkuð langt í þá framtíð og á meðan þarf að gera það sem hægt er. Hlutfall þeirra sem ferðast með almenningssamgöngum er ekki lausnin. Jafnvel þó tækist, með einhverjum göldrum, að fjölga þeim um 100%, sem er jú eitthvað sem þeir allra dreymnustu þora að hugsa, væri það hlutfall enn innan við 10% þeirra sem um borgina ferðast.

Sjálfur bý ég ekki í Reykjavík, en eins og aðrir landsmenn neyðist ég stundum til að heimsækja þessa höfuðborg okkar allra. Ég hef því ekkert raunverulegt val á milli almennings- eða einkasamgangna, fer á mínum bíl til borgarinnar og þær leið sem ég þarf að fara innan hennar. Fyrir nokkrum dögum þurfti ég að fara slíka háskaferð og er það svo sem ekki frásögufærandi, utan þess að vegna þeirra þrengsla sem yfirvöld borgarinnar hafa búið til, tók mig næstum hálfa klukkustund að komast leið sem að jafnaði ætti að vera hægt að aka á örfáum mínútum. Þar var umferðin með þeim hætti að hægt var að komast eina bíllengd í einu og síðan beðið í nokkurn tíma. Ég ek á bíl sem að jafnaði eyðir um eða innan við 5L/100. Eftir að hafa setið í þessari umferðarteppu, sem n.b. var ekki niðri í miðbæ, heldur mun austar í borginni, skoðaði ég eyðslumælinn í bílnum. Hann stóð þá í 11L/100. Hef aldrei áður séð bílinn hjá mér eyða svo miklu eldsneyti. Eyðsla og mengun haldast nokkuð í hendur og þarna var bíllinn minn, sem fyrir tveim árum uppfyllti mengunarreglur borgarinnar fyrir fríu bílastæði, farinn að menga eins og amerískur pick up!! Að því er mér skilst, af þeim sem eru heimavanari en ég innan borgarmarkanna, var þessi umferðarteppa alls ekki neitt einsdæmi, jafnvel frekar í minnikantinum á mælikvarða Reykjavíkur.

Þetta skýrir kannski hvers vegna í smáborg norður á hjara veraldar, þar sem sjaldnast er logn, skuli vera meiri mengun en í stórborgum Bandaríkjanna, þar sem allir íbúar Íslands kæmust fyrir í einni lítilli götu.


mbl.is Segir þokuna í gær mengunarþoku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Rykmengunin kemur að langmestu leyti frá sandinum sem dreift er á vegina á veturna, þetta er "hraunsandur" sem bara molnar og molnar og verður af fíngerðu dufti. Þetta vita allir sem vilja vita.

Eyjólfur Jónsson, 22.12.2018 kl. 20:31

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Mikið rétt Eyjólfur, sandurinn verður að svifryki, en eingöngu vegna óþrifnaðar borgarstjórnar. Væri þokkalega staðið að hreinsun gatna myndi þessi vandi minka.

Gosaska er einnig mikil á ferð í andrúmsloft okkar Íslendinga, vegna tíðra gosa. Hún feykist fram og til baka og sest í lautir og gróður. Þetta er svo sem ekki vandamál fyrir okkur, erum alin upp við þetta frá því byggð hófst hér á landi. Þetta er þó farið að hafa áhrif í dag, ekki á okkur sem manneskjur, heldur umræðuna. Sú mæliaðferð sem notuð er til að mæla mengun gerir ekki greinarmun á gosryki og mengun díselbíla.

Þrifnaður gatna og umhverfi þeirra myndi einnig minnka þetta ryk, en sóðaskapur borgaryfirvalda er með þeim ólíkindum að hugsun til þess er nánast engin. Þar eru allir uppteknir af gæluverkefnum og hvernig hægt er að fita vini og  ættingja gegnum þau!

Gunnar Heiðarsson, 23.12.2018 kl. 07:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband