Færsluflokkur: Umhverfismál

Það er dimmt yfir Reykjavík

Það þarf ekki hámenntaða menn til að átta sig á því að ekki skapast rykmengun af umferð þegar götur eru ýmist undirlagðar saltpækli eða klakabrynjaðar, eins og gatnakerfi borgarinnar er nú um stundir. Því kom borgarstjóri eins og skrattinn úr sauðaleggnum, þegar hann tjáði alþjóð að nagladekk væri sökudólgur þeirrar mengunar er leggst yfir borgina þegar vindurinn tekur sér smá frí. Þessi mengun er hrein útblástursmengun bíla með sprengimótor.

Það vekur hins vegar upp nokkuð stóra spurningu. Hvers vegna er þessi ógurlega mengun í borginni, þegar rafbílum fjölgar sem aldrei fyrr og mengun frá eldsneytisbílum minnkar  með hverju árinu sökum tækninýjunga? Getur verið að sú ákvörðun borgarstjórnar að hægja á umferð, hafi þar eitthvað að segja? 

Það er augljóst að bíll sem ekur á 30 km hraða er lengur milli staða en sá er ekur á 50 km hraða. Hvort bíll er á 30 eða 50 breytir litlu um mengun per tíma. Vélin gengur á svipuðum hraða, einungis gírkassinn breytist. Er í lægri gír þegar hægt er ekið. Því er ljóst að með því að hægja á umferð, eykst mengun.

Þó má einnig velta fyrir sér hversu mikil aukning á mengun svokölluð þétting byggðar hefur. Niðurbrot eldra húsnæðis, flutningur þess burt af svæðinu, mokstur fyrir nýjum grunni og akstur burt með það efni, flutningur á möl til að fylla aftur upp þá holu og jöfnun og þjöppun þess, kallar á óhemju mikla umferð stórra flutningabíla og fjölda vinnuvéla. Þá tekur við uppsteyping hins nýja stórhýsis með akstri fjölda steypubíla. Allt er þetta gert í grónum og byggðum hverfum, með tilheyrandi töfum á öllum stigum. Allt þetta veldur gífurlegri mengun, margfalt meiri en ef byggt er í nýjum hverfum. 

Hvort þessa miklu mengun megi rekja til ákvarðana borgarstjórnar, skal ósagt látið. Hitt er ljóst að rafbílum hefur fjölgað og nýrri eldsneytisbílar eru jafnt og þétt að útrýma eldri og mengunarmeiri bílum. 

Svo getum við, þegar vora fer og götur þorna, rifist um hvor er meiri sökudólgur varðandi rykmengun, nagladekkin eða einstakur og heimsfrægur sóðaskapur borgarstjórnar.


mbl.is Ekki vegryk heldur útblástur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

500 MW orkuver

Á laugardaginn næsta rennur út frestur til að gera athugasemd við vindorkuver í Klausturseli á Fljótsdalsheiði.

Sendi eftirfarandi athugasemd til Skipulagsstofnunar:

Til
Skipulagsstofnunar vegna matsáætlunar um vindorkuver í Klausturseli, Múlaþingi
.

 

Almennt

Varðandi matsáætlunin sjálfa er það að segja að hún er illa unnin, upplýsingar litlar eða lélegar og vægast sagt loðnar. Það er því vart annað hægt að segja en hún sé í heild sinni óhæf eins og hún stendur.

Þó má finna einstakar upplýsingar í áætluninni. Þar er talað um 500MW framleiðslugetu og að vindtúrbínur hennar geti orðið allt að 90. Hæð að hámarki 200 metrar með spaða í toppi.

 

Vindtúrbínur. 

Miðað við 500MW framleiðslugetu og 90 vindtúrbínur þarf framleiðslugeta hverrar túrbínu að vera a.m.k 5,6MW. Ef einhverjar eru minni þurfa aðrar að vera stærri. Í áætluninni er gert ráð fyrir að stærðir hverrar túrbínu verði 5 til 7MW.  Þegar farið er inn á heimasíður vindtúrbínuframleiðenda kemur hins vegar í ljós að 5MW vindtúrbína getur lægst orðið um 200 metrar á hæð, miðað við spaða í hæstu stöðu, en allt að 241 metri. 7MW vindtúrbínur eru heldur hærri, eða kringum 260 metrar, miðað við spaða í hæstu stöðu.

Þarna er mikill munur á og ljóst að verið er að draga eins mikið úr stærðum og hægt er.  A.m.k. stemmir þessi  útreikningur engan veginn.  Reyndar er opnað á það í áætluninni að túrbínurnar geti orðið enn hærri, án þess þó að nefna hversu háar.

Ef mat á sýnileika þessa orkuvers er reiknað út frá 200 metra háum vindtúrbínum, eða lægri, er ljóst að sá útreikningur er rangur, þó geigvænlegur sé, sér í lagi þegar haldið er opnu að þær geti orðið nánast óendanlega háar.

 

Landnotkun.

Gert er ráð fyrir í matsáætluninni að svæðið undir þetta orkuver verði 4.110 ha. Þarna er líklega um töluverðan vanreikning að ræða, þar sem áhrif á vind og  tilurð vindstrengja sem þær valda, kallar á töluverða fjarlægð hver við aðra. Gera má ráð fyrir að landnotkun geti orðið allt að 18.000 ha. Innan þess getur auðvitað önnur landnotkun verið, svo sem vegna safnhúsa og spennuvirkja. Einungis vegstæði að svæðinu bætist þar við. Þarna er um verulega skekkju að ræða sem gerir þessa matsáætlun ónothæfa.

 

Dýralíf

Í þessari matsáætlun er lítið gert úr áhrifum á  dýralíf á svæðinu. Ekki þarf annað en að skoða kort af því til að sjá að þetta svæði er bæði nokkuð gróðursælt en einnig mikið um smátjarnir á því. Það segir manni að mikið fuglalíf hlýtur að vera á svæðinu, auk þess sem jórturdýr sækja á það. Þar má til dæmis nefna hreindýr. Á síðasta ári féll í Noregi lokunardómur á vindorkuveri, vegna truflunar á beitarskilyrðum hreindýra.

 

Efnisþörf

Matsáætlunin gerir ráð fyrir að allt efnismagn á svæðinu verði á bilinu 230.000 m3 til 540.000 m3, geti þó orðið meiri. Ónákvæmnin þarna er hrópandi.  Steypumagn í akkeri túrbínanna er áætlað um 54.000 m3. Samkvæmt heimasíðu vindtúrbínuframleiðenda þarf steypt akkeri undir vindtúrbínu með framleiðslugetu upp á 6MW að ná að lágmarki 30 metra út fyrir túrbínuna og aldrei minni en 4 metrar á þykkt. Þó verður alltaf að fara niður á fast, þannig að þetta er lágmarkið, að mati framleiðenda. Þetta gerir að akkeri hverrar túrbínu þarf að vera að lágmarki 11.000 m3. Ef það er síðan margfaldað með 90 kemur út 990.000 m3. Töluvert stærri tala en sögð er í áætluninni og nærri helmingi hærri en öll  efnisnotkun á svæðinu, sé tekið mið að hærri tölunni. Auðvitað geta menn svindlað á þessum kröfum framleiðenda og sparað sér aur, en hætt er við að þá kæmi upp svipuð staða og sumstaðar í Noregi, þar sem vindtúrbínurnar standa ekki af sér vetrarveðrin og falla í valinn. Veit reyndar ekki hvort þær virkjanir séu í eigu Zephyr.

 

Annað

Þarna er um að ræða orkuver af stærstu gerð, helmingi stærra en nokkur önnur hugmynd um beislun vinds hér á landi hljóðar upp á, ennþá.  Einungis Fljótsdalsvirkjun verður stærri að uppsettu afli.

Í matsáætluninni er gjarnan talað um vindorkugarða og vindmillur. Rétt eins og annað í þessari áætlun er þetta bæði villandi og rangt. Þarna er hvorki um garð né millu að ræða, heldur orkuver af stærstu gerð knúið áfram af risastórum vindtúrbínum.

Garður hefur ýmsa meiningu í íslensku máli, getur verið afgirt svæði til ræktunar eða yndisauka, getur einnig verið hlaðinn garður úr torfi og grjóti, til að halda búsmala, en þaðan kemur orðið girðing. Garður getur aldrei orðið samheiti yfir einhver risa orkuver, ekki frekar en að miðlunarlón vatnsorkuvera kallist tjörn.

Milla er eitthvað sem malar, t.d. korn, eins og orðanna hljóðan segir. Fyrr á öldum var vindur beislaður til að knýja slíkar millur en einnig vatnsorka. Aldrei er þó talað um vatnsmillur þegar rætt er um túrbínur vatnsorkuvera.

Það er því beinlínis rangt að tala um vindorkugarð, vindmillugarð eða vindmillur og ekki má heldur gleyma rangyrðinu í þessu sambandi þegar talað er um vindmillulund.

Þessar nafngiftir á þessi orkuver eru þó ekki nein tilviljun. Þetta er með ráðnum hug  gert, til að fegra óskapnaðinn.

Tölum um hlutina með réttum nöfnum, vindtúrbínur og vindorkuver.

 

Að lokum.

Þessi matsáætlun fyrir Vindorkuver í Klausturseli er loðin, villandi og að stórum hluta til beinlínis röng. Hana ber því að senda til föðurhúsanna og krefjast þess að betur sé að verki staðið, að allar staðreyndir verði leiðréttar og niðurstöður færðar til samræmis við þær.

Þarna er verið að ráðast freklega gegn náttúru landsins okkar og því lágmark að vel sé að málinu staðið. Að láta frá sér slíka skýrslu sem hér er kynnt er ekki bara móðgun við þjóðina, heldur ekki síður móðgun við landið okkar. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að einskis er svifist til að koma fram vilja erlenda fjármagnsafla.

Náttúran á alltaf að njóta vafans.

 

 

 


Margt skrítið í kýrhausnum

Það er margt skrítið í kýrhausnum. Kýr ropa og reka við og hafa alla tíð gert.  Því teljast þessar blessaðar skepnur nú til helstu ógnar við mannkynið, jafnvel þó kýr hafi alla tíð ropað og rekið við og lítil breyting þar á síðustu þrjá áratugi.

Í Hollandi hefur verið tekin sú ákvörðun að fækka kýrhausum um helming, til bjargar mannkyni. Samhliða þessari ákvörðun, ákváðu Hollendingar að ræsa gömul og úrsérgengin kolaorkuver. Frekar skrítið.

Í Danmerkurhreppi eru bændur farnir að ókyrrast. Heyrst hefur að hreppsnefndin þar sé að íhuga álíka dóm gegn blessaðri kúnni, að afhöfða þurfi slatta að þeim bústofni, væntanlega líka til að bjarga mannkyni jarðar.

Talandi um Danmerkurhrepp, þá hafa Danir verið einstaklega duglegir við að virkja vindinn, enda fátt annað virkjanlegt þar í landi. Svo merkilega vill til að þegar vel blæs á Jótlandsheiðum, blæs yfirleitt einnig ágætlega í norðurhluta Þýskalands. En þar um slóðir og fyrir ströndum þess, eru einnig mikil vindorkuver. Því getur komið upp sú staða að orkuframleiðsla á þessum slóðum getur orðið meiri en gott þykir, þ.e. gott þykir hjá framleiðendum orkunnar. Ofgnótt orku leiðir jú til lækkaðs markaðsverð hennar, eitthvað sem framleiðendur orkunnar eru ekki par sáttir við. Því hafa þýskir orkuframleiðendur tekið það upp hjá sér að greiða þeim dönsku fyrir að stoppa sínar vindtúrbínur, til að halda orkuverðinu sem hæstu. Þetta er gert með samþykki ACER, verjanda orkustefnu ESB.

Og hvernig bregst svo danskurinn við? Jú, hann ætlar að margfalda vindorkuframleiðslu sína. Væntanlega til að fá enn meira borgað fyrir að láta þær ekki snúast. Getur jafnvel sleppt því að hafa þær með spöðum!

Þetta er auðvitað galið. Jafnvel Orwell hefði ekki getað spunnið upp söguþráð sem slær þessum staðreyndum við.


Tásumyndir frá Spáni

Nú kemur oddviti Fljótsdalshéraðs í fjölmiðla og aftekur að um einhverskonar mútur hafi verið að ræða, er honum ásamt nokkrum landeigendum þar eystra var boðin ferð suður í sólina á Spáni, af ótilgreindu dönsku fyrirtæki. Fyrirtæki sem sækist eftir að byggja vindorkuver af áður óþekktri stærð á landi. Hvort oddvitinn sem einnig er einn landeigenda sem hag munu hafa af því að selja náttúru landsins okkar, greiddi fyrir þessa ferð sjálfur eða ekki skiptir svo sem ekki höfuð máli. Það sem máli skiptir er að þetta óþekkta danska fyrirtæki skipulagði ferðina og skoðanaferðir í henni. Þá skiptir auðvitað miklu máli að æðsta vald sveitarinnar, oddvitinn, skuli einnig vera meðal þeirra landeigenda sem að málinu koma. Sveitarstjórn fer með skipulagsvald og oddvitinn er höfuð sveitastjórnar. Varla er hægt að nefna skýrara dæmi um hagsmunaárekstur.

Oddvitinn og landeigandinn taldi slíka ferð nauðsynlega, svo hægt væri að gera sér grein fyrir því um hvað málið snýst. Ekki veit ég hvað ferð til Spánar gat upplýst oddvitann, en samkvæmt þeim myndum sem byrst hafa úr þessari ferð, fengu ferðalangarnir úr Fljótsdalnum að sjá litlar úreltar vindtúrbínur, staðsettar í eyðimörk. Varla hefur sú sýn upplýst ferðalanga mikið um það sem til stendur að byggja á Fljótsdalsheiðinni.

Samkvæmt fyrstu fréttum af þessu máli, settar fram í Bændablaðinu, var ekki vitað um framkvæmdaraðila annað en hann væri danskur. Þar var einnig talað um að byggja ætti 58 stk af vindtúrbínum sem hefðu uppsett afl allt að 350 MW. Það gerir að hver túrbína þarf að geta framleitt 6 MW. Þarna erum við að tala um stærðir sem vart þekkjast annars staðar. Samkvæmt heimasíðum vindtúrbínu framleiðenda er 6 MW vindtúrbína að lágmarki rúmlega 200 metrar á hæð. Fer þó aðeins eftir framleiðendum, sumir nefna enn hærri tölur.

Þegar síðan farið er inn á heimasíðu Skipulagsstofnunar, má finna þar skipulagsáætlun er framkvæmdaraðili hefur látið gera fyrir sig og skilað inn til stofnunarinnar. Þar er nafn fyrirtækisins ekki lengur leyndarmál, heldur um að ræða norska fyrirtækið Zephyr. Forsvarsmaður þess hér á landi er enginn annar en Ketill Sigurjónsson, en hann hefur farið í einskonar víking um landið og falboðið mönnum lönd þeirra. Undir vindorkuver. Hvergi hefur hann þó verið jafn stórtækur og þarna eystra. En það er fleira sem kemur fram í þessari áætlun Zephyr. Nú er ekki lengur talað um 350 MW framleiðslugetu, heldur 500 MW með allt að 90 vindtúrbínum. Nú fara leikar að æsast og stærðir komnar langt út fyrir raunveruleikaskyn almennings. Áttum okkur á því að þetta norska fyrirtæki er mjög stórtækt í heimalandinu, með fjölda vindorkuvera. Þó er samanlögð aflgeta allra þeirra orkuvera einungis um 800 MW. Einungis 300 MW minni en aflgeta orkuversins á fljótsdal á að vera. Pælið örlítið í því!

Samkvæmt korti er fylgir þessari áætlun Zephyr, er gert ráð fyrir að þetta orkuver verði á Fljótsdalsheiðinni, nokkurn veginn beint upp af innri enda Lagarins. Þetta svæði er nokkuð gróðursælt með fjölda tjarna. Fuglalíf er mikið á svæðinu og hreindýr ganga þar um. Talandi um hreindýr, þá er nýfallinn dómur í Noregi þar sem vindorkuver var stöðvað, vegna skerðingar á beitarsvæði hreindýra. Þetta er engin spænsk eyðimörk þarna, heldur náttúra íslands í sinni fegurstu mynd. Þá vekur nokkra athygli hversu lítið svæði er afmarkað á þessu korti í áætluninni. Ekki verður séð að hægt verði að koma fyrir allt að 90 vindtúrbínum innan þess.

Þá er þetta svæði nærri flugleiðinni að Egilstöðum, þar sem byggja á upp betri aðstöðu fyrir hann sem einn af varaflugvöllum landsins. Stjórnvöld geta varið þeim peningum í annað, verði að byggingu þessa risa vindorkuvers.

Ekki veit ég hvort ferðalangarnir austfirsku, tóku af sér tásumyndir í Spánarferð sinni. Hitt er ljóst að þeir hefðu sennilega orðið jafn upplýstir af slíkum myndatökum og þeir urðu af myndatökum af litlu úreltu vindorkuverunum í eyðimörkinni þar í landi. Allar þær stærðir sem nefndar eru í sambandi við þetta risa orkuver á Fljótsdalsheiðinni eru slíkar að engin ferð erlendis getur komið mönnum í skilning um hvað sé í gangi.

Hafi þeir landeigendur sem ætla að selja land sitt til þessa norska fyrirtækis, fyrirtækis sem er þekktast fyrir málssóknir í heimalandinu og óvirðingu fyrir náttúrunni, ævarandi skömm fyrir!

 


mbl.is Risavindorkugarður undirbúinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barnagælur og hafís

Nú, þegar veturinn virðist ætla að sýna sig, eftir einmuna veðurblíðu þetta haustið, er kannski rétt að minnast alvöru vetrarhörku.

Árið 1866 rak mikinn hafís að landinu og lagði firði og flóa. Manngengt var á ís frá Reykjavík upp á Kjalarnes.

Árið 1881 var mikill frostavetur og hafís mikill við landið. Flesta flóa og firði lagði. Hafísinn rak fyrst að norðurlandi en síðan niður með austfjörðum og allt til Eyrarbakka. Manngengt á ís frá Reykjavík upp á Akranes.

Árið 1887 rekur allmikinn hafís að norðurlandi og síðan niður með austfjörðum. Flóa og firði leggur  á þessu svæði.

Árið 1888 er mikið kuldaár, með hafís við norður og austurland. Höfnin í Vestmannaeyjum lokast af lagnaðarís.

1902 rekur hafís að norður og austurlandi. Lagnaðarís náði allt að 4 mílur út frá Reyðarfirði.

Árið 1918, kallað frostaveturinn mikli. Hafís rak að norður og austurlandi og mikill lagnaðarís um allt land. Firðir og flóar víðast lagðir með öllu. Breiðafjörður allur undir ís og manngengt frá Reykjavík upp á Akranes.

Eftir þetta tekur að hlýa nokkuð hratt, allt fram undir miðja öldina, en þá tók að kólna aftur, uns það kuldaskeið náði hámarki á árunum 1965 til 1970. Eftir það tóka aftur að hlýna.

Þó hafíslaust hafi verið að mestu sum árin á seinni hluta  19. aldar og fyrstu tveim áratugum þeirrar tuttugustu, voru sumur köld. Örfár undantekningar eru auðvitað til á því, en heilt yfir var veðurfar mjög kalt á þessum tíma. Þar sem veðurmælingar ná ekki mikið aftar, er einmitt þetta kuldatímabil notað sem grunnur að allri umræðu um hlýnun jarðar. Þó er vitað að slíkar sveiflur í veðurfari sem urðu á síðustu öld, hafa margoft komið fram áður. Jafnvel þó einungis sé skoðað tímabil mannsins á Íslandi, má sjá jafn miklar og jafnvel hraðari sveiflur en við lifum nú. Það má einnig sjá að slíkar sveiflur geta orðið mjög hraðar, hvort heldur er til kólnunar eða hlýnunar.

Það er ekkert sem kalla má kjör hitastig jarðar. Hitastigið er sveiflukennt og við því lítið að gera nema reyna að lifa við það. Hitastigið á seinnihluta nítjándu aldar var mun kaldara en það er í dag, um það er ekki neinum blöðum að fletta. Í annálum má lesa um nokkur hlýindi á fyrripart 19. aldar, þó eiginlegar staðreyndir séu kannski ekki til. Vitað er að samkvæmt mælingum var mjög heitt hér á landi um miðja síðustu öld og aftur nokkuð kalt undir lok áttunda aratugar þeirrar aldar. Nú er hlýtt en þó ekki hlýrra en svo að áður hefur hlýnað svo hér ´+a landi, frá því það byggðist. Þessi hlýindi eru hins vegar mikil þegar mið er tekið af hafísárunum.

Eitt er þó alveg víst að kuldinn er verri en hitinn, þegar horft er til búskilyrða. Á hafísárunum var nánast óbyggilegt hér á landi og hefði ekki þurft miklu meiri kulda til að byggð hefði lagst alveg af. Fjórðungur þjóðarinnar flutti brott af landinu á seinnihluta 19. alda. Í dag væri það sem að tæplega 100.000 manns myndi flýja land vegna veðurfars. Aftur flúði fjöldi fólks land undir lok áttunda áratugs síðustu aldar. Menn kenna þar um efnahagsástæðum, en hvers vegna versnuðu þær?

Það er ljótt að hræða börn. Þetta hefur mannkyni þó tekist einkanlega vel gegnum aldirnar. Hér á landi voru jólasveinar hrekkjóttir og grýla át börn. Þessu var haldið að börnum um langa hríð, auk auðvitað þeirra risa sem í fjöllunum bjuggu. Eftir miðja síðustu öld tók ný ógn við, vissulega sannarleg ógn, kjarnorkusprengjan. Það var miskunnarlaust notað á börnin og þeim haldið í ógn óttans. Þó lá fljótt fyrir að engin þyrfti að óttast þá vá af þeirri einföldu ástæðu að ef því vopni yrði beitt, myndi ekkert mannlíf á jörðinni lifa það af. Sjálfur er ég á þeim aldri að mér var innprentað í æsku að fara vel með pappír, að nýta hann sem best. Kennarar sögðu okkur börnunum að skógar heimsins væru að eyðast og ekkert súrefni yrði til á jörðinni. Ég bý enn að þessu og skrifa öll bréfsnifsi upp til agna, þó farinn sé að nálgast ellilaunin meira en vilji er til.

Í dag eru börn hrætt af þeirri "ógn" að jörðin muni brenna upp, innan skamms tíma. Það getur vart verið uppörvandi að alast upp við slíka svartsýni. Enda lyfjanotkun barna orðin slík að í algert óefni stefnir. Það sem þó er kannski ógnvænlegast er að heil kynslóð fólks sem alið er upp við þennan ótta er komið á þann aldur að það er farið að taka að sér ýmis völd. Og jafnvel þó hafi þegar lifað það að spádómar um ragnarök standist ekki og það oftar en einu sinni, trúir það enn.

Eitt liggur augljóst fyrir að jörðin mun ekki farast á næstu árum, áratugum eða öldum, alla vega ekki vegna hlýnunar. Dýra og plönturíkið mun heldur ekki farast. Hugsanlega gæti orðið veruleg skerðing á stofni mannsins, þ.e. ef honum auðnast ekki að reyna að aðlaga sig að breyttum aðstæðum hverju sinni. Stærstu ógnir fyrir jörðina, fyrir utan auðvitað allsherjar kjarnorkustríð, eru risaeldgos, stórir loftsteinar og ísöld. Þessar ógnir gætu afmáð líf mannsins, án þess hann gæti rönd við reist. Það tæki í flestum tilfellum snökt af og því ekki ástæða til ótta.  Flest annað líf á jörðinni myndi hugsanlega lifa slíkt af.

Hættum að hræða börnin og tölum um allt það fagra sem lífið býður uppá. Kannski verður heimurinn þá betri.

 


mbl.is Kuldi og hálka læðast yfir landið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru austfirðingar gengnir af göflunum?

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins er mikil grein um vindorkuver í Fljótsdal. Auðvitað er þetta kallað vindmillugarður, þó fyrirbrigðið eigi ekki neitt skylt við vindmillur og því síður garð. Þetta eru risavaxnar vindtúrbínur og um er að ræða orkuver af stærri gerðinni.

Samkvæmt greininni er ekki um neinn ágreining að ræða um þessa vegferð, í héraðinu og því fyllilega hægt að spyrja hvort Héraðsbúar séu gjörsamlega gengnir af göflunum. Reyndar trúi ég ekki að slík samstaða sé um verkið sem segir í þessari grein, þó vissulega einhverjir landeigendur séu auðkeyptir á sitt land, að ekki sé nú talað um svokallaða "vettvangsferð" sem þeim var gefin, til Spánar.

Þessi svokallaða vettvangsferð þeirra virðist hafa verið vel valin að vindbarónunum. Samkvæmt mynd sem fylgir greininni hefur fólkinu verið sýndar vindtúrbínur af smærri gerðinni, úreltar túrbínur. Að auki virðist sem þær séu reistar í eyðimörk, ekki á frjósömu landi eins og tíðkast hér á landi, ekki síst á frjósömum heiðum Fljótsdalsins. Að sjá af þessum myndum er um að ræða vindtúrbínur með aflgetu á milli 1 og 2 MW, meðan áætlað er að reisa vindtúrbínur með aflgetu yfir 6MW í þessu orkuveri þar eystra. 2MW vindtúrbína losar 100 metra hæð, meðan 6MW vindtúrbína getur farið yfir 300 metra hæð. Þarna er himinn og haf á milli. Reyndar verður að segjast eins og er að sennilega er erfitt að finna vindorkuver erlendis, af þeirri stærðargráðu sem ætlað er að byggja á Fljótsdalsheiðinni, hvort heldur er stærð vindtúrbína eða fjölda þeirra. Leifi fyrir slíkum risamannvirkjum fást ekki þar yrta. Menn ættu aðeins að velta fyrir sér áhuga erlendra fjármálamanna á Íslandi í þessu skyni.

Eins og áður segir er áætlað að reisa þarna vindtúrbínur með aflgetu upp á 6MW og þær eiga að vera alls 58 stykki! Það er ekki neitt smá landflæmi sem þarf fyrir slíkt orkuver. Aflgeta orkuversins á að vera 350 MW, eða ca. hálf Kárahnjúkavirkjun, eða vel rúmlega tvær Sigölduvirkjanir, svo dæmi séu tekin. Þarna eru svo risavaxnar stærðir í gangi að það nær ekki nokkurri átt. Í ofanálag eru áætlanir þeirra sem að þessu orkuveri standa, að nýting þess verði 45%. Það er einhver besta nýting sem sést hefur í vindorkuveri og þó hafa enn engar rannsóknir farið fram um vindafar á svæðinu. Vel er þó þekkt sú veðurblíða sem oft gengur þarna yfir.

Samhliða þessu og það sem þessir aðilar leggja megin áherslu á er bygging rafeldsneytisverksmiðju niður á fjörðum. Þar er áætlað að vinna rafeldsneyti og úr aukaafurð þess mætti byggja áburðarverksmiðju. Sá böggull fylgir þó skammrifi að þessi verksmiðjuáform verða ekki að veruleika nema þetta risastóra vindorkuver verði reyst. Halda þessir menn að fólk, svona almennt, sé fávíst? Þó þeim takist, með fagurgala og Spánarferðum að plata einhverja landeigendur þar eystra, þíðir lítið að bera svona þvætting á borð þjóðarinnar. Að halda því fram að erlendir fjármálamenn vilji ekki fjárfesta hér í stóriðju nema að um ótrygga orku sé að ræða er fásinna. Að það sé sett fram sem skilyrði af þeirra hálfu. Hvað ætla þeir að gera þegar margrómað góðviðrið  brestur á þarna? Ætla þeir bara að stoppa alla framleiðsluna og bíða þar til vindur blæs?! Þvílíku og öðru eins bulli hefur fáum tekist að halda fram.

Auðvitað er þessi svokallaða rafeldsneytisverksmiðja einungis rúsínan í málflutningi þessara manna, til þess eins ætluð að liðka fyrir samþykki á risastóru vindorkuveri. Það vita allir sem vilja vita, að þeir aðilar sem vilja byggja vindorkuver á hverjum hól hér á landi, eru ekki að því til að nýta þá orku innanlands. Það eitt að verð orkunnar hér er mjög lágt, meðan orkuverð á meginlandinu er í hæstu hæðum, segir manni hvert þeir stefna. Þeir ætla sér að fá sæstreng, annað er ekki í boði. Einungis þannig geta þessir fjármálamenn ávaxtað fé sitt. Orkupakki 3 opnaði á þann möguleika.

Þessi bull málflutningur er svo gjörsamlega út í hött að engin skáldsaga slær honum við. Þeim er vorkunn sem trúa þessu, en því miður virðist flest vera falt fyrir örfáa skildinga og ekki verra að fá ferð til Spánar í kaupbæti! Smá aurar og ferðalag virðist geta látið ágætis fólk tapa glórunni.

 

Bændablaðið

 


Að gefa út gúmmítjékka

Meðal íslenskra stjórnmálamanna, sér í lagi þeirra sem veljast til ráðherrastóla, þykir enginn maður með mönnum nema hann gefi út óútfylltan tékka (gúmmítjékka), á erlendri grundu. Stundum er ríkissjóð ætlað að greiða slíka tékka, en einnig þekkist að ráðamenn þjóðarinnar lofi peningum sem þeir hafa engin yfirráð yfir, eins og þeim peningum er landsmenn geyma í lífeyrissjóðum sínum. Sjaldnast liggur fyrir heimild fyrir slíkri tékkaútskrift, hvort heldur Alþingi á þar í hlut eða aðrir sjóðir ótengdir þeirri stofnun. Og nú hefur einn ráðherra gefið út slíkan tékka, án þess að hafa hugmynd um hver upphæð hans muni vera, hvað þá að einhver heimild liggi fyrir þeirri útgáfu.

Þessi sjóður, sem enginn veit hversu stór verður, enginn þjóð veit hvað hún þarf að leggja mikið til hans og að flestu leiti fátt um vitað, hefur Ísland verið skuldbundið til að þjóna, án aðkomu Alþingis.

Það eina sem liggur nokkuð ljóst fyrir er hvaða þjóðir muni geta sótt styrki í þennan sjóð. Það eru svokölluð "verr" sett ríki og hin betur sett eiga að greiða. Flest þessara "verr" settu ríkja hafa þó efni á að halda úti stórum herjum, eiga kjarnorkuvopn og senda rakettur út fyrir gufuhvolfið, sum stefna jafnvel á ferðir til tunglsins.

Þjóð sem heldur stóran her, á kjarnorkuvopn og jafnvel stundar það að skjóta rakettum út fyrir gufuhvolfd jarðar, þarf vart aðstoð frá öðrum, þegar eitthvað bjátar á. Hún virðist eiga næga peninga.

Og er þjóð sem ekki sóar peningum í herafla, kjarnorkuvopn eða rakettuleik, en hefur þó ekki efni á að hjálpa heimilislausum, fötluðum og öldruðum, svo vel sé, aflögufær til að hjálpa erlendum herveldum?

 

COP27 markar þó vissulega breytingu á áherslum, vegna hlýnunar jarðar. Jafnvel þó lítil sé hefur þessi hlýnun áhrif. Áherslan á að reyna að stýra hlýnuninni fer minnkandi, enda útilokað að breyta þar neinu. Áherslan á að takast á við þær breytingar virðist vera að ná meira vægi, þó enn sé horft til slökkvistarfa í stað forvarna. Þær þjóðir sem eru berskjaldaðastar fyrir þessum breytingum eiga flestar til nægjanlegt fjármagn sjálfar, þó vissulega séu örfáar þjóðir sem eru hjálpar þurfi. Meginreglan er þó að nægt fjármagn er til hjá þessum þjóðum.

Það er vonandi að ráðamenn heimsins haldi áfram á þessari braut, hætti að berja hausnum við stein og fari að gera eittvað sem máli skiptir. Við vitum ekki hversu mikið mun enn hlýna, né hversu lengi sú hlýnun stendur. Síðustu ár bera þó ekki merki þess að þetta ástand muni standa lengi. Hvort hröð og skelfileg kólnun komi í kjölfarið er ekki heldur vitað. Fari svo er fátt til hjálpar. Það eina sem vitað er, er að örlítið hefur hlýnar frá kaldasta tímabili þessa hlýskeiðs. Enn er þó langt í að hámarkshita þessa hlýskeiðs sé náð.

Vandi jarðar er ekki sveiflur í hitastig. Sveiflur í hitastigi er hins vegar vandi mannkynsins, enda sú skeppna jarðar sem erfiðast á með að aðlaga sig breyttum aðstæðum. Þá gerir sú gífurlega fjölgun mannkyns það að verkum að það er enn berskjaldaðra.


mbl.is Gerir ráð fyrir þátttöku í lofts­lags­ham­fara­sjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru vindorkuver náttúruvæn?

Hér kemur enn einn pistill minn um vindorkuver. Skaðsemi slíkra orkuvera verður aldrei of oft kveðin, en í þessum pistli er hellst rætt um þá efnisnotkun sem fer í vindtúrbínur.

Hér á landi eru flestar hugmyndir um stærð vindtúrbína með framleiðslugetu upp á um 5 Mw. Ástæðan fyrir þeirri stærð er fyrst og fremst að þetta voru með stærstu þekktu vindtúrbínum þegar skýrslur um hugmyndir þeirra er að vindorkuverum standa, voru sendar til opinberra stofnana, hér á landi. Í dag er farið að framleiða mun stærri vindtúrbínur, allt að 13 Mw og þar sem þekkt er í þessum bransa að hagkvæmni vindorkuvera felist í stærð vindtúrbína, er líklegt að hér muni rísa stærri túrbínur en talað er um, ef og þegar leifi fást.

En höldum okkur 5 Mw vindtúrbínur. Heildar hæð slíkra túrbína er allt að 200 metrar, fer nokkuð eftir framleiðendum. Spaðalengdin á þessum vindtúrbínum er nærri því að vera um 80 metrar. Spaðar eru úr trefjaplasti, sem og húsið efst á turninum. Sjálfur turninn er úr stáli utan neðsta hluta hans sem er úr steyptum einingum. Undir vindtúrbínunni er síðan sökkull úr járnbentri steypu.

Hver spaði er nærri því að vera um 20 tonn að þyngd og þeir eru þrír á hverri vindtúrbínu. Spaðarnir eru gerðir úr trefjaplasti, en helsta hráefni trefjaplasts er olía. Trefjaplast er einstaklega erfitt til endurvinnslu og því eru þeir að langstærstum hluta grafnir í jörðu, þegar þeir hafa lokið ætlunarverki sínu. Þá er trefjaplast viðkvæmt fyrir utanaðkomandi áhrifum og því eyðast spaðarnir nokkuð hratt upp. Því þarf a.m.k. tvö sett af spöðum á líftíma hverrar vindtúrbínu. Það gerir um 120 tonn af trefjaplasti sem grafið er í jörðu, fyrir utan það magna sem þegar hefur mengað náttúruna sem örplast.  Náttúruvænt?

Í stjórnhúsi vindtúrbínu, efst á turni þeirra, er gírkassi, rafall og stjórnbúnaður. Á þennan gírkassa og annan stjórnbúnað túrbínunnar fer um 2000 lítrar af olíu og glussa, sem þarf að endurnýja á níu mánaða fresti. Náttúruvænt?

Í hverja svona vindtúrbínu fer yfir 300 tonn af stáli. Í 300 tonn af stáli fara um 600 tonn af ýmsum jarðefnum, að mestu hrájárn. Þetta er brætt upp við um 2000 gráðu hita. Til að ná slíkum hita er aðalhráefnið kol. Náttúruvænt?

Undirstaða þessara vindtúrbína er járnbent steypa. Í hverja undirstöðu fer um 4.000 m3 af steypu og til styrktar henni eru um 1.000 tonn af steypujárni. Þetta gerir um 11.000 tonn af járnbentri steypu, neðanjarðar. Náttúruvænt?

Þarna er einungis stiklað á stærstu þáttunum, auk þess fer fjöldi annarra hráefna í hverja vindtúrbínu. Af sumum þeirra er nægt magn til á jörðinni en önnur eru ákaflega fágæt. Þar er SF6 sennilega þeirra hættulegast, sagt vera 28.000 sinnum skaðlegra en co2 og tekur þúsundir ára að eyðast, sleppi það út. Náttúruvænt?

Nokkuð mismunandi er hversu margar vindtúrbínur eru ætlaðar til hvers vindorkuvers, hér á landi Flestar eru þó með ætlanir um að þær verði fleiri en tíu, jafnvel fleiri en þrjátíu. En til að einfalda reikninginn örlítið, þá skulum við miða við tíu vindtúrbínur í hvert vindorkuver. Það gerir að flytja þurfi hátt í 110.000 tonn á hvern vindorkuversstað. Bara í sökklana fyrir slíkt vindorkuver þurfa nærri 600 steypubílar að mæta á svæðið! Sumir hlutir verða ekki fluttir nema í heilu lagi. Þar mun mest bera á spöðunum, enda lengd þeirra mikil. Þyngd hvers spaða er hins vegar ekki svo mikil, rétt um 20 tonn. Hins vegar koma í fyrstu atrennu 30 stykki á staðin og önnur 30 stykki þegar líða fer á rekstrartíma vindorkuversins. Minni hlutir eins og spennar eru hins vegar mjög þungir. Þá þarf stóra krana, sennilega stærri en til eru hér á landi nú, til að setja herlegheitin saman. Því þurfa allir vegir um svæðið að vera einstaklega öflugir. Þar duga engir "línuvegir".  Náttúruvænt?

Það er svo sem ekki að undra að innviðaráðherra hafi fundið einhverja aura til uppbyggingar á veginum yfir Laxárdalsheiði, þar sem flokksfélagi hans og ráðherra hefur fært frönskum aðila stórt land undir vindorkuver með allt að 30 vindtúrbínum! Þangað þarf jú að koma allt að 1.800 steypubílum, 90 spöðum í fyrstu atrennu, 9.000 tonnum af stálrörum, væntanlega flutt á um 400 flutningabílum. Allar tölur þrisvar sinnum hærri en að ofan er talið.

Náttúruvænt? Eða kannski bara sérhagsmunapot?


Enn gala vindhanar

Ég hef áður ritað nokkuð um aðkomu fyrrverandi rektors á Bifröst að vindorkumálum og þá fylgispekt sem hann hefur tekið við erlenda fjármálamenn á því sviði. Nú lætur lektor við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri heyra í sér og ekki að sjá annað á hans orðum en að hann sé einnig orðinn fylgismaður þessara erlendu afla. Þegar tveir háttmetnir menn innan menntakerfisins tjá sig á þennan veg, vaknar vissulega upp sú spurning hvar menntakerfið klikkaði. Hvar eða hvenær auður væri eingöngu mældur í spesíum. 

Í frétt á ruv er rætt við lektor Háskólans á Akureyri. Hugmyndi hans eru vægast sagt óhuggulegar fyrir lands og þjóð. Hann vill taka 10% af landinu undir vindorkuver, svo hægt verði að senda megnið af þeirri orku um sæstrengi til Evrópu. Telur að með því megi "hjálpa" Evrópu í við orkuskiptin. Þessar hugmyndir eru svo fjarstæðukenndar að engu tali tekur.

Jöklar Íslands þekja um 10% af landinu, með allri sinni tign og fegurð. Fæstir vilja hafa vindmillur nærri byggð og ef taka á önnur 10% af landinu undir stór og ljót vindorkuver, er ljóst að ansi lítið verður eftir af ósnortinni náttúru hálendis Íslands. Á þessu landsvæði telur lektorinn að hægt verði að framleiða allt að 150 teravattstundir af orku, eða sjö komma fimm sinnum meiri orku en nú er framleidd hér á landi. Til að framleiða 150 teravattstundir af orku með vindorkuverum þarf gott betur en 10% af Íslandi, en látum þá skekkju lektorsins liggja milli hluta.

En hvað segja 150 teravattstundir í orkuþörf Evrópu. Það er eins og dropi í hafið, dugar rétt til að halda við aukinni orkuþörf álfunnar og alls ekki til orkuskipta þar. Sem dæmi hefur ESB litið hýru auga til vesturstrandar Afríku, til vindorkuvera. Þar er gert ráð fyrir að framleiða allt að 1000 teravattstundum af orku og er það talið sem smá hjálp við orkuskipti Evrópu, alls ekki lausn þeirra.

Vissulega er rétt að við núverandi orkuverð í Evrópu mætti fá ágætis tekjur fyrir 150 teravattstundir af rafmagni. Þær tekjur færu þó að mestu í vasa erlendra auðjöfra, lítið til okkar landsmanna. Hins vegar eru tvær hliðar á hverju máli og tapið sem við yrðum fyrir í staðinn margfalt meira en ágóðinn.

Fyrir það fyrsta mun ferðaiðnaður hrynja, ekki lengur hægt að bjóða upp á ósnortna náttúru Íslands. Litlar líkur á að erlendir ferðamenn hafi mikinn áhuga á að koma hingað til að skoða stórmengað land af vindorkuverum og örplasti.

Í öðru lagi mun með tengingu landsins við Evrópu, virkjast að fullu orkupakki 3, og væntanlega op 4 einnig. Það mun leiða til þess að orkuverð á raforku hér á landi mun fylgja markaðsverði á hinum enda strengsins. Það mun leiða til þess að öll fyrirtæki landsins munu ekki geta átt í samkeppni við erlend fyrirtæki og leggja upp laupana, með tilheyrandi atvinnuleysi.

Það liggur fyrir að allur kostnaður við tengingu vindorkuvera við landsnetið og lagning þess að fyrirhuguðum sæstrengjum, mun falla á almenna landsmenn, samkvæmt op 3.

Þessi sýn er ljót en raunsæ, reyndar svo fjarstæðukennd að furðu þykir að hugmyndin komi úr ranni lektors við háskóla. Hann virðist einblína á eina stærð en horfa að öllu leiti framhjá öllum öðrum. Ekki beint vísindaleg nálgun.

Hitt er svo spurning, hvenær vísindasamfélagið gerir athugasemd við vindorkuverin, í þeirri mynd sem nú er. Það liggur fyrir að mengun frá þessum orkuverum er gífurleg, jafnvel meiri en frá gasorkuverum. Það liggur fyrir að nú þegar eru stór landsvæði tekin undir urðun ónýtra spaða vindorkuvera, en af þeim fellur til gífurlegt magn nú þegar. Það liggur fyrir að örplastmengun frá spöðum vindorkuvera er mikil, mjög mikil. Nýlega var sagt frá rannsókn á hvölum og tiltekið ótrúlegt magn af örplast sem þeir innbyrða. Það liggur fyrir að í Þýskalandi er farið að mælast stór aukið magn af SF6 gasi í andrúmslofti og sú mengun rakin til fjölgunar vindorkuvera. Það liggur auðvitað fyrir að sjónmengun vindorkuvera er gífurleg og flökt frá spöðum talið skaðlegt. Það liggur fyrir að hljóðmengun frá vindorkuverum er mikil, rétt eins og á rokktónleikum að sögn framleiðenda þessara túrbína. Það liggur hinsvegar ekki fyrir hver áhrif vindorkuver hafa á vindstrauma. Ekki enn verið opinberaðar rannsóknir á því sviði. Því er ekki spurning hvort heldur hvenær vísindasamfélagið setur sig gegn vindorkuverum í þeirri mynd sem nú er. Þar mun ráða fjármagnið sem það fær greitt.

Það eru til aðferðir til virkjunar vindsins án vindtúrbína með spöðum. Aðferðir sem þurrka út flesta galla hefðbundinna vindtúrbína, þó sérstaklega örplastmengunina. Þessar aðferðir byggja helst á því að vindur verði virkjaður sem næst notkunarstað orkunnar. Þá eru menn að komast yfir þann þröskuld sem hefur staðið gegn byggingu þóríum orkuvera, en af þóríum er nægt magn til á jörðinni.

Vísindasamfélagið út um allan heim, nema kannski á Íslandi, vinnur hörðum höndum að lausn orkuvanda jarðar. Hugsanlega mun á næstu árum koma eitthvað alveg nýtt fram til þeirrar lausnar, eitthvað sem fáum eða engum dettur til hugar í dag. Víst er að hefðbundin og gamaldags vindorkuver eru ekki þar.


Verð raforku

Það er með ólíkindum að erlendir fjármálamenn skuli vilja nota sitt fjármagn til uppbygginu vindorkuvera á Íslandi. Í samantekt Hagstofunnar kemur fram að af norðurlöndum er raforkuverð langlægst á Íslandi.

Raforkuverð í Noregi, meðalverð, er 40% hærra en hér á landi. Enn meiri munur ef tekið er viðmið af suður og vestur hluta Noregs, eða þeim hluta er tengist meginlandi Evrópu.

Raforkuverð í Finnlandi er 60% hærra en hér á landi.

Raforkuverð í Svíþjóð er 100% hærra en hér.

Og raforkuverð í Danmörku 440% hærra en hjá okkur.

Hvers vegna leita þessir erlendu fjármálamenn ekki með sitt fé í byggingu vindorkuvera þar sem verðin eru hæst? Það er engin hætta á þeir séu að stunda einhverja þegnstarfsemi fyrir okkur Íslendinga, menn græða lítið á því. Það er ekki nema ein skýring, þeir vita að hingað mun verða lagður sæstrengur, frá meginlandi Evrópu. Þeir vita að þá mun orkuverð hér hækka verulega, þrefaldast eða fjórfaldast. Þeir vita líka að að þegar starfsmenn ACER hér á landi hafa komið á markaði með orkuna, munu þær reglur gilda að jaðarverð mun ráða orkuverðinu, þ.e. sá orkukostur sem dýrastur er mun verða leiðandi í raforkuverði.

Þá ættu menn að skoða hvernig hlutfallsleg vindorkuframleiðsla er í hverju af þessum löndum og bera saman við orkuverðin í þeim. Þar eru Danir með langmestan hluta af sinni orkuframleiðslu í vindorku, Svíar koma þar næst og síðan Finnar. Jafnvel þó sprenging hafi orðið í vindorkuframleiðslu í Noregi er hlutfall hennar enn lítið af heildarorkuframleiðslu þeirra.

Því er ljóst að markaðskerfi ESB á orku, sem ACER stjórnar, mun eitt og sér hækka orkuverð hér á landi með tilkomu vindorkuvera, því fleiri þeim mun meiri hækkun. Það dugir þó ekki þessum erlendu fjármálamönnum, þeir verða að rjúfa einangrun landsins frá orkumarkaði Evrópu, með sæstreng. Einungis þannig er einhver glóra í því að reisa hér vindorkuver, með risastórum vindtúrbínum.


mbl.is Rafmagnið langódýrast á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband