Að bjarga náttúrunni með því að fórna henni

Nú er svo komið að stjórnvöld eru að fara að fórna enn frekar auðlindum okkar. Til stendur að hleypa inn í landið erlendum auðjöfrum, til að virkja vindinn. Auðvitað var vitað að svo myndi fara, sumir ráðherrar hafa af því beinan hag en aðrir eru svo auðtrúa að þeir halda að þeir séu að bjarga jörðinni frá steikingu. Það má segja að þeir ráðherrar sem hafa persónulegan hag af þeim áformum lýsi einungis innræti þeirra, að sú hugsun að hver sé sjálfum sér næstur sé þeirra mottó. En það er önnur saga, saga sem ekki er við hæfi að aumur bloggari sé að skrifa um. Þar gætu svokallaðir rannsóknarblaðamenn komist í feitt, ef þeir nenna. En kannski hugsa þeir frekar um ríkisstyrkinn, að hann sé þeim mikilvægari en sannleikurinn.

Hitt er öllu verra þegar æðstu menn þjóðarinnar telja sig vera að bæta heiminn með því að gera hann verri. Að þeir telji að stórmengandi vindorkuver, í okkar tæru náttúru, muni skipta þar sköpum. Við erum komin á hættulega braut þegar svo er komið og víst að þá á sjálfstæðið ekki langa lífdaga eftir. En þar er auðvitað engum um að kenna nema okkur kjósendum. Við höfum valið, stjórnmálamenn eru í vinnu hjá okkur en ekki öfugt. Það var vel vitað hvert stefndi fyrir síðustu kosningar, atkvæðin um innleiðingu op3 gat sagt okkur hverja við ættum ekki að kjósa. Þó fór það svo að flest atkvæðin fóru til þeirra sem að þeim gjörningi stóð. Sá á kvölina sem á völina.

Ég hef ritað mörg blogg um vindorkuver og vindtúrbínur og ætla ekki að gera það nú. Hins vegar ætla ég aðeins að rita um veðurfar. Það er nefnilega svo að þegar kólnar á jarðkringlunni þá kólnar í veðri og ef hlýnar þá hlýnar einnig í veðri. Þetta er eitt af því sem flestir geta verið sammála um. Og vissulega hefur hlýnað nokkuð frá lokum litlu ísaldar, þó enn sé nokkuð í að hitastig jarðar ná því sem hæst hefur orðið, frá lokum síðustu ísaldar, fyrir um 11 - 12 þúsund árum síðan. Reynda erum við enn á ísaldartímabili í jarðsögulegu tilliti, en það er önnur saga.

Ætíð þegar hlýnar á jörðinni hafa framfarir og framþróun orðið. Þegar aftur kólnar verður síðan afturkippur, stundum verulegur eins og á sjöttu og sjöundu öld og svo aftur 13. til 18. öld. Einhvern veginn hefur manninum tekist að komast gegnum þessar sveiflur á veðurfarinu, lifði jafnvel af síðustu ísöld, þó tæpt hafi verið. Sagan segir okkur það að erfiðustu tímabil mannsins, á þeim stutta tíma sem hann hefur gist jörðina, eru kuldatímabilin. Kuldinn er okkur mun verri en hlýindi. Undir lok litlu ísaldar og eftirhreytum hennar, var vart orðið lífvænt hér á landi. Þó er vitað að akuryrkja var stunduð hér í stórum stíl fyrst eftir landnám, á mun stærra svæði landsins en nú telst hagkvæmt að yrkja jörðina til korns.

Það er ekki hitinn sem drepur fólk heldur kuldinn. Um miðjan áttunda áratug síðustu aldar voru kuldar nokkuð miklir. Svo miklir að vísindamenn töldu að jörðin stefndi í ísöld. Þá voru allir fréttamiðlar fullir af fréttum af fólki sem lést vegna kulda, Nú eru einungis færðar fréttir af þeim örfáu sálum er látast að hita á hverju ári. Jafnvel gert meira úr þeim fréttum en tilefni er til. Ekki eru fluttar fréttir að andlátum vegna kulda, þó vitað sé að þau eru mun fleiri.

Í sumar er leið var frekar lítið um hitabylgjur á jörðinni. Þó voru fréttastofur nokkuð duglegar við að tala um tilvonandi hitabylgjur, en síðan lítið meira. Þó var eitthvað í fréttum um mikla hitabylgju í Peking, en hún stóð víst ekki nema í tvo daga. Sumarið núna á suðurhvelinu hefur sjaldan verið kaldara. Nú er hins vegar búið að vera mikill kuldi í Peking og reyndar um gjörvalla austur Asíu. Lítið hefur heyrst frá því í fréttum ekki frekar en miklum kuldum um norðanverð Bandaríkin og Kanada. Eina sem heyrst hefur er að þessir kuldar stafi af hlýnun jarðar. Er hlýnunin þá vegna kulda?

Forsætisráðherra okkar ætlar þó að kippa þessu í liðinn. Nú skulu þessar sveiflur í veðurfar stöðvaðar, hvað sem hver segir. Ekki er þó vitað hver kjörhiti jarðar er og því ekki hægt að segja til um hvert markmiðið eigi að vera né hvernig því skuli náð. Það virðist vera sama hversu margar ferðir erlendis hún flýgur, í nafni kolefnisleysis, henni hefur ekki tekist að finna svarið. Samkvæmt hennar orðum erum við þó farin að steikja jörðina, sem er auðvitað slæmt.

En þetta er ekkert grín. Það hefur hlýnað, um það þarf ekki að rífast. Hvort sú hlýnun heldur áfram eða hvort kólnar aftur er auðvitað ekki vitað. Við skulum vona að ekki kólni aftur. Það er enn fullt af fólki sem man hvernig vetur voru hér á sjöunda, áttund og fram á níunda ártug síðustu aldar og fæstir vilja fá slíkt veðurfar aftur. Þó var það kuldaskeið einungis hálfdrættingur á við þá kulda sem voru þegar fyrstu alvöru mælingar hófust, seinnihluta nítjándu aldar og fyrsta áratug þeirrar tuttugustu. Þegar hafís var hér landlægur á hverjum vetri og sum sumur. Þegar hafís umlukti allt landið og hægt var að ganga milli Akraness og Reykjavíkur á ís. Þannig veðurfar er notað sem viðmið um hvort hlýnað hefur á jörðinni og það verður bara að segjast eins og er að til allrar guðs blessunar gerðist það. Verra hefði verið ef farið hefði á hinn veginn.

FB_IMG_1693328424957En forsætisráðherra vill frekar kulda en hlýindi. Og hún telur sig vera megnuga til að ráða því. Í því skyni ætlar hún að fórna íslenskri náttúru. Hún skilur ekki plottið. Henni til fróðleiks þá er útilokað að bjarga náttúrunni með því að fórna henni. Slík hugsun er ekki bara galin, heldur svo fjarstæðukennd að hvert hugsandi mannsbarn ætti að sjá það. Vindorkuver er slík fórn á náttúrunni að engu tali tekur. Þegar lögð eru að jöfnu kolaorkuver við vindorkuver hefur kolaorkuverið vinning að öllu leyti nema einu, co2. Og rörsýn stjórnmálamanna telur enga aðra mengun skipta máli, jafnvel þó vitað sé að co2 er eitt af lífskilyrðum jarðar. Á mesta gróðurtímabili jarðar var magn co2 í andrúmslofti margfalt á við það sem nú er, enda er garðyrkja vart talin möguleg hér á landi nema með því að dæla því loftefni inn í gróðurhús.

Í öllu falli þá verður náttúrunni ekki bjargað með því að fórna henni.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband